Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að taka tilboði Stefnu ehf. í uppfærslu á vefsvæði Bókasafns Fjallabyggðar sem er komið til ára sinna. Samkvæmt vinnuskjali markaðs- og menningarfulltrúa þá var mælt með að uppfæra heimasíðuna og vefumsjónarkerfi, sem er bakendinn á heimasíðunni, en sú útgáfa er orðin 9 ára gömul.  Tilboð Stefnu ehf. hljóðaði upp á 184.000 kr. fyrir uppfærslu og gagnaflutning.  Þá er gert ráð fyrir uppfærslu á vefsvæði Héraðsskjalasafns Fjallabyggðar og Listaverkasafns Fjallabyggðar á árinu 2020.

Á núverandi heimasíðu bókasafnsins kemur fram að hlutfall útlána á barnaskírteini hafa verið í stöðugri aukningu síðustu fimm árin. Árið 2013 var hlutfallið tæp 7% af útlánum en árið 2018 var það komið uppí 12.3%. Þetta segir þó ekki alla söguna þar sem mjög algengt er að foreldarar taki bækur fyrir börnin á sín skírteini.