Háskólinn á Hólum (HH) og University of Massachusetts í Boston (UMass Boston) hafa hlotið styrk að upphæð $297.000 eða um 40 milljónir ISK frá Rannsóknarsjóði Bandaríkjanna (National Science Foundation) til að rannsaka elstu byggð og byggðaþróun í Hjaltadal. Guðný Zoëga (Ferðamáladeild HH) og John Steinberg (Fiske Center for Archaeological Research, UMass Boston) stýra verkefninu, sem er sjálfstætt framhald fyrri rannsókna þeirra á landnámi, kirkjusögu og búsetuþróun í Hegranesi og á Langholti í Skagafirði. Þetta er í þriðja sinn sem þau hljóta styrk frá sjóðnum til sameiginlegra rannsókna.
Styrkurinn er til þriggja ára og munu bæði íslenskir og bandarískir sérfræðingar og nemar koma að rannsókninni, sem er mikilvæg fyrir sögu byggðaþróunar í Hjaltadal og til viðbótar og samanburðar við fyrirliggjandi þekkingu á búsetumunstri á fyrstu öldum byggðar í Skagafirði. Um er að ræða mikilvægan grunn til frekari rannsókna og heildstæðrar kynningar auk miðlunar upplýsinga á Hólastað og getur skapað mikilvægan grundvöll fyrir frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu í Skagafirði og víðar.
Ísland býður upp á einstaka möguleika í að rannsaka hvernig óbyggt land var numið og hvernig byggð þróaðist, bæði félagslega og efnahagslega. Rannsóknir á Langholti og í Hegranesi sýndu mismunandi form landnáms, annarsvegar stórar einingar í fyrstu sem síðar var skipt upp og hins vegar smærri einingar sem lögðust af fremur snemma. Hegranesrannsóknir benda til að heimiliskirkjur og kirkjugarðar hafði verið á nánast hverjum bæ á 11. öld, sem flestir hurfu úr notkun um sama leyti og biskupssetur var stofnað á Hólum. Í Hjaltadal eru einstakir möguleikar til að kanna hvernig uppbygging valdamiðstöðvar, eins og á Hólum, hafði áhrif á nærumhverfið, bæði varðandi stærð jarða og nýtingu lands.
Hólarannsóknin sem fram fór á Hólastað og í Kolkuósi fyrr á þessari öld sýndu m.a. margháttuð tengsl við útlönd og ríkulegan innflutning. Hjaltadalsrannsóknin snýr hinsvegar að svæðisbundnum þáttum, s.s. hvenær Hólar byggðust, hver stærð jarðarinnar var í upphafi og hvort greina megi breytingar á stærð og búsetu á Hólum og nágrannajörðunum eftir því sem staðurinn styrktist sem valdamiðstöð. Rannsóknin mun fara fram í formi víðtækrar borkjarnatöku, sem gerir það kleift að skilgreina aldur og stærð jarða og grafnir verða könnunarskurðir í öskuhauga, mögulega kirkjugarða og aðra útvalda staði til að skilgreina gerð, efnahag og aldur byggðar.
Hluti rannsóknarinnar er sagnfræðileg úttekt á elstu heimildum um efnahag og landnýtingu Hólastaðar og munu sérfræðingar Ferðamáladeildar, þær Sigríður Sigurðardóttir og Anna Guðrún Þórhallsdóttir, sjá um þann þátt.