Háskólinn á Hólum hefur hlotið styrk frá Erasmus+ til að vinna að rannsóknaverkefninu „Blue region Initiatives for developing growth, employability and skills in the farming of finfish“ sem útleggja má sem Frumkvæði á „bláum svæðum“ til aukins þroska, ráðningarhæfni og fjölhæfi einstaklinga í fiskeldi.
Styrkurinn hljóðar upp á 4 m. Evra og þar af koma tæplega 350 þús. Evra (Um 56 milljónir króna) til Háskólans á
Hólum.
Verkefnið er samstarfsverkefni skóla og fyrirtækja í Noregi, Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi og er meginmarkmið þess að bæta kennslu í fiskeldi með áherslu á starfsnám í fiskeldisstöðvum.
Kennsluaðferðir og kennsluefni verður þróað fyrir greinina og áhersla verður lögð á stafrænt kennsluefni. Þróa á kennslu sem blandar saman stafrænni miðlun, hefðbundinni miðlun og vinnu í
verknámsstöð.
Stofna á samstarfsnet fagaðila frá löndunum fjórum og skapa þar með tækifæri fyrir fulltrúa greinarinnar til að læra hver að öðrum og samnýta námsefni og lærdómsviðmið við gerð námsefnis. Aukið samræmi í menntun einstaklinga í fiskeldi í samstarfslöndunum fjórum á að auðvelda fólki atvinnuþátttöku þvert á landamæri. Sérstaklega verður unnið að því að tengja kennslu í fiskeldi á lægri stigum við fagháskólanám í fiskeldi. Jafnframt verður séstök áhersla lögð á stuðning við frumkvöðlastarf og nýsköpun í fiskeldi.