Betur fór en á horfðist þegar hænsnakofi við Grunnskóla Húnaþings vestra á Laugarbakka brann í vikunni. Kofinn stóð við íþróttavöllinn á Laugarbakka og hefur hann gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina, m.a. sem hesthús, áhaldahús og hænsnakofi.
Það var á fimmta tímanum á fimmtudagsmorgun sem slökkviliðinu barst tilkynning um brunann. Sigurvin Dúi Bjarkason og Sveinn Guðmannsson voru fyrstir á vettvang og hringdu í neyðarlínuna, en Indriði Benediktsson á Syðri-Reykjum hafði einnig orðið eldsins var. Indriði sótti töng til að hægt væri að klippa gat á hænsnanetið og hleypa hænunum út en þær höfðu safnast saman í eitt hornið innan hænsnagirðingarinnar.