Guðmundur Ármann Sigurjónsson, hefur sett upp sýningu á málverkum og grafík í Menningarhúsi Dalvíkinga, Bergi.
Formleg opnun verður laugardaginn 16. maí kl. 14:00. Léttar veitingar.
Sýninguna nefnir Guðmundur Árskíma myndirnar, 21 olíumálverk og sex einþrykk, eru unnin 2019 og 2020.
Kveikjan að þessum verkum er náttúran, fjöllin, himininn og byggðin sem kúrir undir fjöllunum á Tröllaskaga. Fyrstu skrefin voru unnin í seríu mynda sem voru unnar árin 2018-19 með grafískri aðferð sem nefnist  einþrykk.
Sýningin verður opin á opnunartíma Bergs til 31. maí. Virka daga opið kl. 10 – 17, laugardaga 13 – 17, lokað á sunnudögum.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson

Lauk prentmyndasmíðanámi 1962. Hóf myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962 og útskrifaðist af málunardeild 1966. Nám við Valand, Listaháskólann í Gautaborg 1966 og  lauk þar námi við grafíkdeild skólans 1972. Kennararéttindarnám við Háskólann á Akureyri 2002. Frá sama skóla meistaranám í menntunarfræðum M.Ed. 2013.
Fyrsta einkasýning á Mokkakaffi í Reykjavík 1962, sýndi þar blekteikningar og kolteikningar. Einkasýningar eru 40. Sýndi sumarið 2008 í Listasafninu á Akureyri. Þátttaka í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Tekið þátt í og skipulagt norræn myndlistarverkefni tekið þátt í alþjóðlegum grafík- og vatnslitasýningum. Verk í eigu Listasafna á Íslandi, safna á Norðurlöndunum og alþjóðlegu vatnslitasafni í Fabriano á Ítalíu. Starfslaun úr launasjóði myndlistar 1986. Bæjarlistamaður Akureyrar 1994. Þátttaka og verk á alþjóðlegu vatnslitasýningunni Fabriano Acquarello 2018 og 2019. Er meðlimur í Íslenskri grafík, Félagi íslenskra myndlistakennara, Gilfélaginu, Íslenska Vatnslitafélaginu, Norræna vatnslitabandalaginu og Myndlistafélaginu á Akureyri. Starfaði sem kennari við  listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2000-2014.