Yngri flokkar Tindastóls náðu góðum árangri í síðustu umferð fjölliðamótanna um s.l. helgi. 11. flokkur drengja og 8. flokkur stúlkna unnu B-riðilsmót og 8. flokkur drengja vann tvo og tapaði einum leik í D-riðli.
Breytingar urðu í öllum fjölliðamótum þessara flokka þar sem eitt lið í hverjum flokki mætti ekki til leiks. Er það því miður algengt að félög sendi ekki lið til keppni í síðustu umferðinni, nema að einhverju sérstöku sé að keppa eins og er í A-riðli. Er þetta bagalegt fyrir þau lið sem eru í þessu af alvöru, leikjum fækkar í síðustu umferðinni og leikmenn fá minna út úr mótinu en æskilegt er. Að vísu ber að geta þess að Þórsarar sendu ekki lið til keppni í 8. flokki stúlkna, vegna slæmrar veðurspár, en hugur mun vera hjá þeim til þess að spila sína leiki engu að síður á næstunni.
Valsmenn mættu ekki til leiks í 11. flokki drengja hér á Sauðárkróki. Okkar strákar spiluðu því aðeins þrjá leiki. Töpuðu fyrir Keflavík 44-46, en unnu Hauka 77-65 og Breiðablik 60-45. Þrátt fyrir að tapa þessum eina leik, unnu þeir mótið strákarnir og er þetta í fyrsta skiptið sem þessi aldurshópur sigrar B-riðilsmót sem er afar gleðilegt.
Heimild: Tindastóll.is