Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.
Knattspyrnufélag Fjallabyggðar(KF) og Knattspyrnufélag Vesturbæjar(KV) mættust í dag á KR-vellinum í Reykjavík. Bæði liðin höfðu byrjað mótið vel og var því ljóst að um hörku leik yrði að ræða og baráttan um toppsætið.
KF sigraði Sindra í síðustu umferð í Sjómannadagsleiknum sem fór fram 1. júní og KV sigraði Augnablik í sömu umferð. Þjálfari KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik en Stefán Bjarki og Valur Reykjalín voru ekki í byrjunarliðinu í þetta skiptið, en Óliver og Hákon Leó voru komnir inn.
Veður var frábært í dag á KR vellinum, en ekkert mark var þó skorað í fyrri hálfleik. Heimamenn þurftu þó að gera tvær skiptingar í fyrri hálfleik vegna meiðsla. Staðan var 0-0 í hálfleik. Á 60. mínútu fengu heimamenn aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig KF. Garðar Ingi Leifsson fyrirliði KV tók spyrnuna og skoraði örugglega stöngin inn og lyfti boltanum glæsilega yfir varnarvegginn. Halldór markvörður KF var ekki nálægt því að ná þessum bolta.
KF skipti svo Halldóri Loga inn á fyrir Ljubomir á 71. mínútu til að fá ferskar lappir í sóknina. Á 77. mínútu kom svo Valur Reykalín inná fyrir Vitor og svo kom tvöföld skipting á 81. mínútu þegar Jakob og Grétar Áki fóru útaf fyrir Þorstein Má og Patrek. Allt var nú lagt í að jafna leikinn með þessum fórum skiptingum. Fimmta skipting KF kom svo á 83. mínútu þegar Sævar kominn á fyrir Andra Snæ. Þegar skammt var eftir fékk KF vítaspyrnu og úr henni skoraði Alexander Már og jafnaði leikinn á 85. mínútu. Heimamenn gáfust ekki upp og skoruðu sigurmark leiksins aðeins tveimur mínútum síðar og komust í 2-1 þegar Einar Már Þórisson skoraði beint úr aukaspyrnu og innsiglaði mikilvægan sigur KV í þessum leik.
KF er í 3. sæti deildarinnar eftir sex umferðir og KV skellti sér í toppsætið með þessum sigri. KF leikur næst gegn Hetti/Huginn á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 15. júní.