Á næsta ári verður verkefnið um Héðinsfjarðartrefillinn 10 ára. Þetta var stórt verkefni sem tókst mjög vel af því að svo margir hjálpuðust að. Með sömu hugsun að baki langar Fríðu á Súkkulaðikaffihúsinu á Siglufirði, að skapa verk sem sýnir bókstaflega undirstöður bæjarfélagsins Fjallabyggð og gera verk þar sem hún tekur myndir af öllum bæjarbúum frá hnjám og niður.

Stefnir hún að því að verkið verði tilbúið  fyrir 2. október 2020, því þá eru 10 ár síðan trefillinn var lagður í gegnum Héðinsfjarðargöng.  Fríða býður því öllum íbúum Fjallabyggðar að koma við á kaffihúsi Fríðu á Siglufirði og taka þátt í verkefninu og þiggja einn mola og uppáhellt kaffi.

Opið er fimmtudaga til sunnudags frá kl. 13 til 18 og vonast Fríða til að sem flestir taki þátt í verkefninu.