Skagfirðingar keppa í frjálsum um helgina

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum, fyrir 11-14 ára, fer fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík helgina 25.-26. febrúar.  Mótið er vel sótt, 360 keppendur eru skráðir frá 19 félögum og samböndum.  Flestir keppendur koma frá ÍR eða 61, FH sendir 44, HSK/Selfoss 35, UMSE 29 og frá UMSS eru 23 keppendur á mótinu.

Keppni á MÍ 11-14 hefst á laugardag kl. 10 og stendur fram undir kl 17.  Á sunnudag hefst keppnin einnig kl. 10, en lýkur um kl. 15.

Tindastóll sigraði Valsara á Hlíðarenda

Tindastóll gerði góða ferð til Reykjavíkur í kvöld og sigraði Valsara á Hlíðarenda. Lokatölur urðu 61-74, en leikhlutarnir fóru þannig : (14-14) (12-15) (17-25) (18-20).

Tindastóll gerði útslagið í 3ja leikhluta og jók forskotið enn frekar en leikurinn var sagður afar illa leikinn og leiðinlegur. Tölfræði leiksins má finna hér.

Sjá nánari lýsingu frá Tindastóli.

Nýr leikmaður til meistaraflokks Tindastóls

Fannar Freyr Gíslason Sigurðssonar hefur spilað með ÍA undanfarin ár, en snýr nú aftur til Tindastóls á lánssamningi.

Fannar er fæddur árið 1991 og byrjaði að spila með meistaraflokki Tindastóls árið 2006, en það ár spilaði hann einn bikarleik.
Fannar spilaði síðan 12 leiki og skoraði 4 mörk árið 2008
2009 spilaði hann 14 leiki og skoraði 1 mark fyrir liðið.
Árið 2010 skipti hann síðan yfir í ÍA og spilaði einn leik það ár, á síðasta tímabili spilaði hann 12 leiki og skoraði 2 mörk fyrir Skagamenn, en var síðan lánaður í HK og spilaði þar 10 leiki og skoraði í þeim 2 mörk.

Nánar umferil hans má skoða á vef KSÍ hér.

Söfnun á rúlluplasti í Húnavatnshreppi

Þriðjudaginn 28. febrúar nk fer fram söfnun á rúlluplasti í Húnavatnshreppi.

Þeir aðilar sem ætla að koma rúlluplasti á söfnunaraðila verða að gæta þess að plastið sé tilbúið til flutnings og hæft til endurvinnslu. Plastið verður að vera þokkalega hreint og í því mega ekki vera aðskotahlutir s.s. net eða heyafgangar.

Þeir sem vilja nýta sér þessa þjónustu vinsamlega tilkynni það til skrifstofu Húnavatnshrepps í síma 452-4660 / 452-4661 eða á netföngin hunavatnshreppur@emax.is eða jens@emax.is fyrir þriðjudaginn 28. febrúar.

Óskað eftir umsjónaraðila fyrir ferðaþjónustu

Áfangi, gistiheimili við Kjalveg

Húnavatnshreppur óskar eftir að ráða umsjónaraðila með ferðaþjónustu í Áfangaskála sumarið 2012. Um er að ræða tímabilið frá 20. júní  til 20. ágúst.

  • Svefnpláss er fyrir 32 í 8 herbergjum. Matsalur fyrir 40 manns, setustofa og heitur pottur.
  • Góð aðstaða er fyrir hesta, hesthús og tvö afgirt hólf.
  • Frekari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Húnavatnshrepps og í síma 452 4661.

Umsóknum skal skilað á skrifstofu Húnavatnshrepps á Húnavöllum, eða á netfangið jens@emax.is

Umsóknarfrestur er til 14. mars 2012.

Bjarki Már verður ekki með Tindastóli næsta sumar

Bjarki Már Árnason hefur skipt yfir í lið KF, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Bjarki hefur verið lykilmaður hjá Tindastóli undanfarin ár en hann var í liði ársins í annarri deildinni síðastliðið sumar sem og árið 2009. Einnig þjálfaði hann kvennalið Tindastóls árin 2010-2011. Hann er fæddur árið 1978 og hefur leikið 167 leiki fyrir meistaraflokk og skorað 21 mark. Hann hefur meðal annars leikið í Noregi og fyrir Keflavík.

Þessi 33 ára gamli varnarjaxl hefur ákveðið að breyta til og æfði meðal annars með Magna Grenivík og lék fyrir þá á Norðurlandsmótinu nú fyrir skömmu.

Tindastóll hefur misst fjóra reynda leikmenn frá síðustu leiktíð. Dejan Miljokovic er genginn í raðir Fjarðabyggðar, ekki verður samið aftur við Milan Markovic og Gísli Eyland hefur lagt hanskana á hilluna.

KF hafnaði í sjötta sæti 2. deildarinnar í fyrra en Tindastóll vann deildina og spilar í 1. deild í sumar.

Sjá einnig frétt frá Tindastóli hér.

Myndband frá leik ÍA og Tindastóls

Tindastóll mætti uppá Skipasaga og mætti Skagamönnum. Leikurinn endaði 4-1. Fannar Örn Kolbeinsson skoraði fyrir Tindastól, en Andri Adolphsson, Mark Doninger skoruðu sitt markið hvor og Egger Kári Karlsson skorði tvö mörk fyrir ÍA. Næsti leikur Tindastóls er gegn Víkingi n.k. laugardag kl. 17 í Egilshöll.

Leiklýsing frá Tindastól

Tindastóll spilaði sinn fyrsta leik í A-riðli lengjubikarsins á þessu ári. Mótherjarnir voru Íslandsmeistaraefni Skagamanna uppá Akranesi.

Leikurinn var flautaður á kl:12:00 á laugardaginn. Leikurinn var spilaður inn í Akraneshöllinni í nýstingskulda. Mikið frost var inni í höllinni og þeir sem stóðu fyrir utan völl áttu í mestu erfiðleikum með að halda á sér hita.

Tindastólsmenn vissu ekki hvað á sig stóð veðrið fyrsta korterið, en Skagamenn byrjuðu af gríðarlegum krafti og skoruðu mark strax eftir 2.mín. Markið kemur eftir hornspyrnu þar sem boltinn er ílla misreiknaður og leikmaður ÍA setur boltann yfir línuna af stuttu færi.
Áfram halda þungar sóknir Skagamanna og okkar menn höfðu mjög lítinn tíma á boltanum. Annað markið kemur eftir að hornspyrna er hreinsuð í burtu en Skagamenn ná, bolta nr.2 og senda háan bolta fyrir þar sem Skagamaður hoppar hæst og skallar boltann í markið.

Tindastólsmenn fóru síðan fljótlega að vinna sig inn í leikinn og fóru að halda boltanum betur. Árni Einar átti tvö góð langskot að marki Skagamanna og uppúr einu slíku fengum við horn þar sem Fannar Örn Kolbeinsson skoraði flott skallamark. Staðan orðin 2-1 og við vel inní leiknum.

Sóknir Skagamanna voru hættulegar í leiknum þó þeir hafi ekki átt mörk skot á markið. En þeir bæta síðan þriðja markinu við rétt fyrir hálfleik. Þar er enn ein fyrirgjöfin og Mark Doninger leikmaður ÍA stekkur hæst og skallar hann í markið.

Í seinni hálfleik höldum við boltanum vel innan liðsins og þær sóknir sem við fáum, útfærum við mjög vel en oft á tíðum vorum við að komast upp að endalínu en það vantaði fleiri menn inní boxið.
Skagamenn skora síðan fjórða mark sitt eftir að varnarmenn okkar voru ílla leiknir og Andri Adolphsson skorar í autt markið.

Lokatölur í leiknum voru 4-1 og leikmenn Tindastóls fundu fyrir því að vera að spila gegn liði sem er komið upp í Pepsí deildina. Hinsvegar var þetta fínn leikur að mörgu leiti hjá Tindastólsmönnum. Byrjunin var það sem fór með leikinn. Tvö mörk á fyrstu sjö mínutunum slógu okkar menn svoldið útaf laginu. Hinsvegar sýndum við mikinn karkakter að koma til baka og minnka muninn. Flott spila oft á tíðum var í leik okkar manna og gaman að sjá að liðið vill spila fótbolta.

Fleiri krefjandi verkefni fyrir okkar stráka eru á næstu vikum en liðið hefur engu að kvíða því Tindastólsliðið er mjög vel spilandi og vísir til alls.

Heimild: Tindastóll.is

Tindastóll næstum því bikarmeistarar

Skemmtileg grein frá vef Tindastóls.

Tindastóll tapaði með tveimur stigum í bikarúrslitaleiknum á móti Keflavík eins og væntanlega allir vita enda var ekki Skagfirðingur í heiminum sem var ekki á leiknum eða fylgdist með honum með einhverjum hætti. Þrátt fyrir tapið þá stóðu strákarnir sig með sóma og vöktu athygli langt út fyrir landssteinana fyrir eljusemi og baráttu.

Í stuttu máli spilaðist leikurinn þannig að Keflavík átti þrusugóðan fyrsta leikhluta, enduðu nánast hverju einustu sókn með stigi og náðu góðri 10 stiga forystu eftir að hafa náð að setja 29 stig í leiklutanum. Tindastólsmenn eltu allan leikinn og náðu stundum að minnka forskotið niður fyrir 10 stigin en þá fylgdi alltaf þristur eða þristar frá Keflvíkingum þannig að forskotið hélst í 10 stiginum nánast allan leikinn.

Í lokin reyndu Stólarnir allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og náðu muninum mest niður í 3 stig þegar 14 sekúndur voru eftir en það var of lítið eftir að klukkunni og Keflvíkingar enduðu sem sigurvegarar þrátt fyrir ævintýralega lokakörfu frá Þresti í lokin. Líklega ekkert alltof ósanngjarnt þar sem Keflvíkingar spiluðu ansi vel en mikið ofboðslega vorum við nálægt.

Ef sniðskotið hans Mo hefði dottið ofan í í næst síðustu sókninni, tvo eða þrjú þriggja stiga skot sem duttu ekki niður á síðustu mínútunum, Keflvíkingar hefðu ekki fengið stig á töfluna fyrir að klúðra troðslu eða hreinlega bara öll vítin sem Keflvíkingar settu niður. Keflvíkingar klúðruðu bara tveimur vítum allan leikinn sem segir kannski mikið um hversu vel þeir voru stemmdir í þessum leik.

En frábær skemmtun, mikil forréttindi að fá að taka þátt í bikarúrslitaleik og einhverstaðar heyrði ég að íþróttafréttamennirnir sem voru að lýsa leiknum hefðu aldrei orðið vitni að annari eins stemningu á bikarúrslitaleik enda var höllin troðfull og stuðningsmenn Tindastóls áttu stúkuna. Þarf ekkert að deila um það.

En allt í allt, allir leikmenn og stuðningsmenn eiga að ganga stoltir af þessum leik og vonandi mætum við aftur þarna að ári og klárum þetta dæmi.

Heimild: Tindastóll.is

Meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði lagt niður?

Til greina kemur að leggja meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði niður og flytja starfsemina til höfuðborgarinnar. Barnaverndarstofa er nú með málefni heimilisins til skoðunar.

Háholt er eitt þriggja meðferðarheimila úti á landsbyggðinni á vegum Barnaverndarstofu en þar eru vistaðir unglingar á aldrinum 15-18 ára. Á undanförnu ári hafa starfsmenn heimilisins orðið fyrir alvarlegum árásum af hendi unglinganna og brotthlaup verið tíð með tilheyrandi leitarkostnaði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki er fólk á nærliggjandi bæjum orðið órólegt vegna hinna tíðu stroka og hrætt um sig og eigur sínar.

Barnaverndarstofa hefur nú málefni Háholts til skoðunar en samningur við núverandi rekstraraðila rennur út í sumar. Stofnunin hefur lagt til við Velferðarráðuneytið að opnuð verði ný stofnun í Reykjavík fyrir elstu og erfiðustu unglingana og myndi hún þá hugsanlega leysa Háholt af hólmi.

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs, segir að þótt margt mæli með því að hafa meðferðarheimili út á landi, þá sé líka margt sem mæli á móti því. Aðallega vegna þeirra hugmynda sem fólk hafi í dag um meðferð, því hún þurfi í auknum mæli að miða út frá félagahópi, fjölskyldu, skóla og atvinnuúrræðum.

Þótt reynt hafi verið að bæta öryggi á Háholti segir Halldór að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að unglingar strjúki af heimilinu enda hafi starfsfólkið ekki valdheimildir til þess að koma í veg fyrir brotthlaup. Þetta sé í rauninni opin eða hálfopin meðferð, sem þýði það að menn geti í rauninni farið með ýmsum ráðum.

Heimild: Rúv.is

Atvinna á Sauðárkróki

Fjölnet ehf. er eitt elsta Internetþjónustufyrirtæki landsins með sögu sem nær allt til ársins 1999. Í dag er fyrirtækið í hópi fimm stærstu hýsingar- og internetfyrirtækja á landinu með stóran og fjölbreyttan hóp fyrirtækja í viðskiptum.

Fjölnet ehf. er í eigu Tengils ehf.  www.tengillehf.is sem hefur starfað í yfir 20 ár. Hjá Tengli starfa yfir 40 starfsmenn og er fyrirtækið með starfsemi á þremur stöðum á landinu. 

Nánari upplýsingar um fyrirtækið má finna á heimasíðu þess www.fjolnet.is

Fjölnet ehf. á Sauðárkróki óskar eftir að ráða Microsoft sérfræðing til starfa.
Í starfinu fellst rekstur miðlægra tölvukerfa, bæði innri- og hýsingarumhverfa, ásamt samskiptum og samvinnu við viðskiptavini.

Menntunar- og hæfniskröfur

• Mjög góð þekking á Microsoft stýrikerfum er nauðsynleg og MicroSoft vottun t.d. MCSE eða MCITP er æskileg
• Reynsla af rekstri og uppsetningu tölvukerfa
• Afbragðs þjónustulund, sjálfstraust til að vinna verkefni frá upphafi til enda ásamt hæfileikum til að starfa með öðrum
• Þekking á MS Exchange, Windows 2008 R2, Terminal Server, MS Lync, MS SharePoint 2010, Powershell, MS SQL, og IIS er kostur.

 

Nánari upplýsingar veitir Torfi Markússon (torfi@intellecta.is)  í síma 511 1225.

Umsókn með ferilskrá óskast fyllt út á www.intellecta.is.    

Farið verður með allar umsóknir og fyrirspurnir sem trúnaðarmál og þeim svarað.

Vann Söngkeppni Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra

Söngkeppni Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra var haldin með glæsibrag á föstudagskvöldið s.l. og var keppni geysihörð. Það voru þær María Ósk Steingrímsdóttir og Margrét Petra Ragnarsdóttir sem báru sigur úr bítum með lagið Dance with Somebody sem Whitney Houston gerði vinsælt fyrir nokkrum árum. Þær María og Margrét munu keppa fyrir hönd skólans í Söngkeppni Framhaldsskólanna í apríl.

Sigvaldi Gunnarsson hlaut annað sætið með lagið Gaggó Vest,  Jónatan Björnsson hreppti þriðja sætið en hann söng lagið Lips of an Angel og í fjórða sæti varð Ólöf Rún Melstað með lagið Stronger.

Íþróttahátíð Árskóla 2012

Á morgun, þriðjudaginn 21. febrúar ætlar Árskóli á Sauðárkróki að halda árlega íþróttahátíð. Allir nemendur skólans mæta í Árskóla við Skagfirðingabraut kl. 8:10, án námsbóka en mega hafa með sér íþróttaskó. Nemendur fara fyrst með sínum umsjónarkennara í bekkjarstofu.

Nemendur í 1. – 3. bekk eiga að ganga inn um kjallarainngang við Skagfirðingabraut (félagsmiðstöð).

  • Dagskráin hefst kl. 8:25 í íþróttahúsinu og lýkur u.þ.b. kl. 12:00. 
  • Léttur „heilsubiti“ í boði skólans er kl. 10:10.
  • Umsjónarkennarar sjá um að koma Árvistarbörnum á milli húsa eftir íþróttahátíðina.
  • Foreldrar og aðrir velunnarar velkomnir!

Auðveldast er fyrir áhorfendur að ganga inn í íþróttahús að vestanverðu.

Hestamenn athugið: Skeiðnámskeið með Sigurbirni Bárðarsyni

Námskeiðið verður haldið dagana 12., 13. og 15. apríl 2012. Kennsla hefst fimmtudaginn 12. apríl með bóklegum tíma kl. 18:00 – 21:00 í Reiðhöllinni í salnum uppi. Skipt er í hópa, 4 saman í hóp. Verkleg kennsla fram klukkutíma í senn.

Á föstudeginum 13. apríl 2012 byrjar fyrsti hópur kl. 18:00 og sunnudaginn 15. apríl 2012.

Verð á námskeið er 15.000 kr.
Skráning á námskeiðið er á ss@fakur.is
Opnað hefur verið fyrir skráningu.

Keflavík bikarmeistari!

Það var Keflavík sem leiddi leikinn nánast allan tímann, en lokatölur urðu 97-95 og Keflavík því bikarmeistari árið 2012 og fyrsti bikarsigur þeirra í 8 ár.

Stigaskor

Keflavík: Charles Michael Parker 32/13 fráköst, Jarryd Cole 19/8 fráköst/4 varin skot, Magnús Þór Gunnarsson 17/8 stoðsendingar, Kristoffer Douse 10/5 fráköst, Valur Orri Valsson 9, Halldór Örn Halldórsson 6, Almar Stefán Guðbrandsson 4, Hafliði Már Brynjarsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Arnar Freyr Jónsson 0, Andri Daníelsson 0.

Tindastóll: Maurice Miller 22/4 fráköst/8 stoðsendingar, Curtis Allen 18/5 fráköst, Svavar Atli Birgisson 14/9 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 10, Friðrik Hreinsson 10, Þröstur Leó Jóhannsson 9, Helgi Rafn Viggósson 8, Igor Tratnik 4/6 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson 0, Loftur Páll Eiríksson 0, Rúnar Sveinsson 0, Pálmi Geir Jónsson 0. :

 

Keflavík – Tindastóll – bein textalýsing

KKÍ bíður upp á beina textalýsingu á netinu frá bikarúrslitaleiknum,  hægt er að fylgjast með stigaskori og öðrum upplýsingum.

Staðan var 29-18 fyrir Keflavík eftir fyrsta leikhluta en staðan var jöfn 11-11 en þá fór Keflavík að skríða framúr.

Staðan er 52-41 í leikhlé og Keflavík leiðir leikinn ennþá. Hvort liðið hefur skorað 23 stig í öðrum leikhluta, en forysta Keflavíkur úr fyrsta leikhluta stendur enn. Parker hefur gert 17 stig fyrir Keflavík og Miller 11 stig fyrir Tindastól í fyrri hálfleik.

Staðan eftir þriðja leikhluta er 76-66 fyrir Keflavík.

Sjá tengilinn hér.

Tindastóll tapaði fyrir ÍA í lengjubikarnum

ÍA vann öruggan 4-1 sigur á Tindastól í dag í Lengjubikarnum í knattspyrnu karla. ÍA komst í 2-0 með mörkum frá Eggerti Kára í upphafi leiks en Fannar Örn minnkaði muninn í 2-1 á 24 mínútu en lengra komust Tindastólsmenn ekki í þessum leik. Lið ÍA bætti svo við einu marki skömmu fyrir leikhlé og öðru marki um miðjan síðari hálfleik. Lokatölur urðu 4-1 fyrir Skagamenn.

1-0 Eggert Kári Karlsson (‘2)
2-0 Eggert Kári Karlsson (‘7)
2-1 Fannar Örn Kolbeinsson (’24)
3-1 Mark Doninger (’41)
4-1 Andri Adolphsson (’65)

Íslandsmótið innanhúss – 3.flokkur kvenna

Lið Tindastóls í 3. flokki kvenna lék í dag leiki í Íslandsmótinu innanhúss í knattspyrnu.

Léku stelpurnar við lið Fylkis og unnu sigur 2-0. Í síðari leiknum léku þær við lið ÍBV en sá leikur tapaðist 0-4.

Í úrslitum mættu þær liði Breiðabliks og urðu lokatölur 4-0 fyrir Breiðablik.

Félag L U J T Mörk Net Stig
1 ÍBV 2 2 0 0 11  –    0 11 6
2 Tindastóll/Neisti 2 1 0 1   2  –    4 -2 3
3 Fylkir 2 0 0 2   0  –    9 -9 0

Bikarúrslitin eru í dag kl. 16

Tindastólsmönnum bíður gríðarlega erfitt verkefni í dag þegar þeir mæta í Laugardalshöllina og spila fyrsta bikarúrslitaleikinn í sögu félagsins.  Keflavík er að fara í sinn 10. úrslitaleik en liðið lék síðast til úrslita árið 2006. 

Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Einar Þór Skarphéðinsson sjá um dómgæsluna í leiknum en þeir félagar hafa dæmt samtals 3618 leiki. Rögnvaldur er með 1370, Sigmundur 1226 og Einar 1022.

Leikurinn er kl. 16.00 hjá körlunum í dag í Laugardalshöllinni.

Upphitunarpistill frá Tindastólsmönnum er að finna á heimasíðu þeirra hérna, þar sem þeir fara yfir hvaða möguleikar eru á móti liði Keflavíkur.

Fjórir leikmenn semja við Tindastól

Fjórir leikmenn hafa samið við meistaraflokk Tindastóls í knattspyrnu.  Edvard Börkur Óttharsson sem spilaði með liði Tindastóls á síðustu leiktíð, en var þá á láni frá Val. Edvard spilaði fimm leiki fyrir meistaraflokk Tindastóls á síðu leiktíð og lék með 2. flokki.
Nú er hann formlega orðinn leikmaður Tindastóls.

Hilmar Þór Kárason frá Blönduósi spilaði 13 leiki og skoraði eitt mark með sameiginlegu liði Tindastóls/Hvatar á síðustu leiktíð.  Hvöt er ekki með lið þetta árið og hefur hann því skipt yfir í Tindastól.

Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson frá Blönduósi spilaði 20 leiki með meistaraflokki Tindastóls á síðustu leiktíð og var liðsmaður Hvatar, en hefur nú skipt yfir í Tindastól.

Magnús Örn Þórsson kemur frá Valsmönnum. Magnús spilaði 19 leiki og skoraði 3 mörk fyrir Njarðvík á síðustu leiktíð.

Sauðárkrókur.is fær fjölda heimsókna

Vefurinn hefur fengið glæsilegar viðtökur og voru 300 gestir í gær og skoðuðu þeir 1300 síður. Gestirnir voru frá 9 löndum, en nú er hægt að skoða vefinn á 15 tungumálum með einum hnapp á forsíðunni. Einnig er hægt að ýta á “like” takkan fyrir Facebook tengingu, en þar birtast allar fréttir sem settar eru inn á síðuna á Facebook vegginum hjá viðkomandi.

Þá opnaði ég nýja síðu í gær á vefinum, en hún heitir “myndir”, þar eru að finna nokkrar glæsilegar myndir úr Skagafirði sem Ragnar Magnússon tók.

Sendi Feykismönnum bestu þakkir fyrir kynninguna í gær og Húnahorninu fyrir góða kynningu á miðvikudaginn.

Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akureyri

Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri fer fram dagana 24. – 26. febrúar. Viðburðurinn fer fram í aðalsal Háskólans á Akureyri, Sólborg Norðurslóð 2.

Að helginni standa Innovit og Landsbankinn í samstarfi við Akureyrarbæ. Eins styðja fjölmörg fyrirtæki af svæðinu rausnarlega við viðburðinn. Verðlaun og viðurkenningar verða veitt í nokkrum flokkum en alls nema heildarverðlaun viðburðarins 1.500.000 milljón króna.

Þátttaka er ókeypis og skráning á ANH.is

Dagskráin:

Föstudagur:

17:30 Hús opnar
18:00 Viðburðurinn settur – Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit
18:30 Kvöldmatur/Tengslanet (Speed networking)
19:00 Hugmyndir þátttakenda kynntar
20:00 Teymi helgarinnar mynduð
21:00 Markmið sett fyrir helgina, verkaskipting innan teyma
22:00 Hús lokar


Laugardagur:

09:00 Hús opnar, vinna helgarinnar hefst
12:00 Hádegismatur – Örfyrirlestur
13:00 Mentorar para sig með teymum
16:00 Reynslusaga frá íslensku sprotafyrirtæki
19:00 Kvöldmatur
22:00 Hús lokar
Sunnudagur: 

09:00 Hús opnar
12:00 Hádegismatur
15:00 Kynningar hefjast fyrir dómnefnd
17:00 Viðurkenningar veittar – næstu skref fyrir frumkvöðla
18:00 Hús lokar

Séra Sigurður Ægisson lýsir stuðningi við Sigurð Árna

Stuðningur við Sigurð Árna Þórðarson

Eftir Sigurð Ægisson

Þegar herra Karl Sigurbjörnsson biskup lýsti því yfir 12. nóvember síðastliðinn að hann myndi láta af embætti um sumarið 2012, renndi ég í huganum yfir þá kandídata sem mér fannst til greina koma sem eftirmenn hans á stóli. Og þetta endurtók sig næstu daga. Niðurstaðan varð ávallt hin sama. Eitt nafn stóð upp úr, eða öllu heldur gnæfði yfir.

Íslenska þjóðkirkjan hefur undanfarið verið í miklu róti, að ekki sé fastar að orði kveðið, sterkir vindar um hana nætt, og þarfnast nauðsynlega einhvers sem getur komið henni burt úr þeim ólgusjó, hratt og örugglega, rétt kúrsinn og siglt fleyinu áfram, mót komandi tímum.

Ég tel dr. Sigurð Árna Þórðarson, prest í Neskirkju í Reykjavík, vera rétta manninn í verkið. Það byggi ég á yfir 30 ára kynnum mínum af honum. Aldrei hefur neinn skugga borið þar á. Það hefur verið gott að leita til hans, jafnt í gleði sem raun. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur, alltaf hreinn og beinn. Og er umhyggjusamur og hollráður.

Hann fylgist vel með umræðu líðandi stundar, er næmur, vökull og réttsýnn. Og guðfræði hans og lífsskoðun er öfgalaus, víðfeðm, björt og hlý. Eins og hann sjálfur.

Sigurður Árni hefur allt það til að bera sem prýða má þann hirði sem verið er að leita að.

Hann tók áskorun minni og fjölmargra annarra og gefur kost á sér. Það er sannarlega fagnaðarefni.

Dr. Sigurður Árni Þórðarson heldur kjörmannafund í safnaðarheimili Akureyrarkirkju næstkomandi sunnudag, 19. febrúar, kl. 13.00.

Sigurður Ægisson
sóknarprestur í Siglufjarðarprestakalli

Heimild: www.siglfirdingur.is

Geirmundur Valtýsson dæmir í söngvakeppni FNV

Föstudaginn 17. febrúar verður haldin söngkeppni Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra(FNV) þar sem keppt verður um þátttökurétt í Söngkeppni framhaldsskólanna 2012. Dagskrá hefst klukkan 20 á Sal bóknámshúss.
Dómarar eru Geirmundur Valtýsson, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson og Helga Rós Indriðadóttir en allur tónlistarflutningur er í umsjón nemenda skólans.
Aðgangseyrir: 800 kr. fyrir meðlimi NFNV og yngri en 1500 kr. fyrir aðra.

Bæjar- og menningarvefur