Grunnskólanemendur í Fjallabyggð söfnuðu tæplega 700 þúsund krónum fyrir Sigurbogann

Í gær var Sigurboganum, styrktarsjóði Sigurbjörns Boga Halldórssonar, afhentur styrkur frá nemendum í 6.-10. bekkjar Grunnskóla Fjallayggðar að upphæð 697 þúsund krónum.

Upphæðin safnaðist með áheitahlaupi nemenda og voru það Sigurbjörn Bogi og Bryndís móðir hans sem veittu styrknum móttöku við Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Nemendur hlupu í Ólympíuhlaupi ÍSÍ í lok september og var þátttaka góð, 79 tóku þátt og voru 655 km sem hlaupið var samanlagt.

Ljósmynd: Grunnskóli Fjallabyggðar.

Samstarf milli Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar

Fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að hefja samstarf milli íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar.

Forstöðumaður íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Dalvíkurbyggðar óskuðu eftir því við nefndina að komið yrði á formlegu samstarfi milli sveitarfélaganna í samnýtingu sund- og líkamsræktarkorta. Þeir sem eiga gild tímabilskort hjá annarri íþróttamiðstöðinni geta því fengið aðgang að líkamsrækt eða sundi í allt að tvö skipti á viku á hvorum stað.

Að auki verði tímabundinn aðgangur fyrir korthafa þegar annar aðilinn er með lokað vegna viðhalds eða þrifa.

Heimild: fjallabyggd.is

Mynd: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon

Auglýst eftir umsóknum listamanna í Fjallabyggð

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur auglýst eftir umsóknum frá listamönnum búsettum í Fjallabyggð eða rökstuddum ábendingum um hver hljóta skuli nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2020.  Aðeins þeir listamenn sem búsettir hafa verið í Fjallabyggð að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina. Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi. Auk nafnbótarinnar er bæjarlistamanni veittur menningarstyrkur og verður útnefning að vanda tilkynnt í janúar 2020.

Umsækjendur og þeir sem senda inn ábendingar eru beðnir um að haga umsóknum í samræmi við reglur um Bæjarlistamann sem finna má á heimasíðu bæjarins www.fjallabyggd.is Umsóknir og tilnefningar þurfa að vera rökstuddar. Listamenn láti ítarlegar upplýsingar um náms- og starfsferil sinn fylgja sem og hugmyndir um á hvern hátt nýta eigi styrkinn við listsköpun.

Umsóknum og/eða ábendingum skal skilað fyrir 24. október næstkomandi í gegnum heimasíðu bæjarins „Rafræn Fjallabyggð – Umsóknir – menningarmál“,  með tölvupósti á netfangið lindalea@fjallabyggd.is eða bréfleiðis á Bæjarskrifstofur Fjallabyggðar, Gránugötu 24, 580 Siglufjörður merkt  „Bæjarlistamaður 2020“.

Texti: Fjallabyggd.is.

 

Einar Mikael töframaður í Tjarnarborg

Einar Mikael töframaður verður með sýningu í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði, föstudaginn 11. október kl. 17:00.

Einar Mikael töframaður hefur notið ómældra vinsælda meðal yngstu kynslóðarinnar. Töfrar og sjónhverfingar er ný sýning sem er troðfull af ótrúlegum töfrabrögðum og mögnuðum sjónhverfingum. Einar leyfir áhorfendum að taka virkan þátt í sýningunni og velur hann oftar en ekki unga áhorfendur úr sal til að aðstoða hann í töfrabrögðunum nú er um að gera að nýta tækifærið og sjá Einar Mikael með öll sín bestu atriði.

Strax eftir sýningarnar er gestum boðið uppá myndatöku með Einari.
Miðaverð er 2.000 kr. Miðarnir eru seldir við hurð síðan er hægt að panta miða með því að senda póst á einarmidar@gmail.com taka fram nafn og fjölda miða.
Mynd frá Einar Mikael töframaður.

Kvennalið BF mætti HK í Fagralundi

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti HK-B í Fagralundi í dag og hófst leikurinn strax á eftir karlaleiknum sem var fyrr um daginn. Í liði HK er Elsa Sæný  Valgeirsdóttir, fyrrum þjálfari karla- og kvennaliðs HK og einnig fyrrum aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í blaki. Hún er mikill leiðtogi á vellinum og öflug blakkona.  Þjálfari HK er fyrrum landsliðsmaðurinn Emil Gunnarsson en mikið uppbyggingarstarf hefur verið hjá HK undanfarin áratug. BF var að spila sinn annan leik um helgina á meðan HK spilaði síðast í september og komu þær því nokkuð óþreyttar til leiks á meðan BF konur fengu aðeins sólahring í hvíld.

Fyrsta hrina gekk fljótt fyrir sig og var aðeins 16. mínútur.  BF gekk ágætlega á upphafsmínútum leiksins og var jafnt á fyrstu tölum, 3-3 og 5-5. Eftir það tók HK völdin og skoruðu 5 stig í röð og breyttu stöðunni í 10-5. BF minnkaði muninn í 10-8 og 13-11. HK var svo mun sterkara liðið og gerði fá mistök og skoruðu tólf stig á móti þremur og unnu fyrstu hrinuna með yfirburðum 25-14.

Önnur hrina var mun jafnari og æsispennandi í lokin. Liðin skiptust á að leiða og tókst hvorugu liðinu að stinga af. Staðan var 10-10, 13-13 og 14-17 fyrir BF og tók nú þjálfari HK leikhlé. HK minnkaði muninn í 17-18 og komust yfir 21-19. Mikill spenna var nú í þessari hrinu síðustu mínúturnar. HK komst í 24-20 en BF konur skoruðu fimm stig í röð og komust yfir 24-25 og voru hársbreidd frá sigri í hrinunni. HK tók rándýrt leikhlé og skoruðu í framhaldinu þrjú stig og unnu 27-25 í upphækkun. Svekkjandi niðurstaða fyrir BF eftir mikla baráttu og góðan leik. Staðan orðin 2-0 fyrir HK.

Þriðja hrina var eign BF og byrjuðu þær af miklum krafti og átti HK engin svör. BF komst í 1-8 en HK minnkaði muninn í 5-9 áður en BF jók aftur forystuna í 5-13. HK skoraði næsta stig en svo kom frábær kafli hjá BF sem skoraði 7 stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í þessari hrinu, staðan orðin 6-20. HK tók leikhlé í þessari törn hjá en það bar engan árangur, BF hélt áfram og komst í 9-21 og 14-23 og tók nú þjálfari BF leikhlé. BF kláraði hrinuna 16-25 og voru aftur komnar inn í leikinn og staðan 2-1.

HK stelpurnar voru svo sterkara liðið í fjórðu hrinu og byrjuðu þær hrinuna mjög vel og tóku forystu og komust í 8-3 og 13-8. BF minnkaði muninn í 15-12 og eigði smá von að komast inn í leikinn en HK komst í 20-13 og 23-15 og gerðu út um leikinn. HK vann svo 25-16 og leikinn þar með 3-1.

BF stelpurnar voru óheppnar að vinna ekki tvær hrinur í þessum leik, en svona er þetta stundum.

 

 

BF heimsótti HK-B í Fagralund

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti HK-B í Fagralundi í dag í Benecta-deildinni í blaki. HK lék tvo leiki í miðri viku og vann Þrótt Vogum 0-3 en tapaði fyrir Hamar 1-3 í Fagralundi. BF lék í gær við úrvalslið Aftureldingar og tapaði 0-3 og komu þeir því ekki eins ferskir til leiks eins og HK sem hafði verið í 3 daga fríi. HK liðið er skipað nokkrum strákum sem eru í hóp hjá aðalliði HK í Mizuno deildinni og einnig strákum úr 2. flokki HK, einnig er í liðinu fyrrverandi landsliðsmaðurinn Emil Gunnarsson, og munar um minna. Allt mjög efnilegir og góðir leikmenn. BF var með sama hóp og leiknum í gær, með aðeins einn mann á bekknum. Nýi þjálfarinn hefur gert breytingar á skipulagi liðsins og er nú Tóti að leika sem Liberó. Þjálfarinn er lagt upp með að spila hraðan bolta og reynir uppspilarinn að spila eftir því, en það kemur of oft fyrir að boltinn er hreinlega of lágur og ekki næst að smassa boltann almennilega yfir netið, eða sóknarmaðurinn er hreinlega of seinn fyrir svona fasta skotbolta. Fastir skotboltar í uppspili hentar vel á miðju en eru erfiðari í spili út á kant og má engin mistök gera svo að það takist.

HK menn voru mættir með sína 11 menn og voru klárir í slaginn í fyrstu hrinu. BF byrjaði hrinuna með ágætum og komust í 0-3, 1-4 og 5-8. HK menn komust svo í gang og skoruðu sex stig í röð og breyttu stöðunni í 11-8. BF gekk illa að vinna upp muninn og tóku leikhlé í stöðunni 16-12. HK voru langt komnir með að vinna hrinuna í stöðunni 21-14 en BF skoraði þá þrjú stig í röð og minnkuðu muninn í 21-17 og tók nú HK leikhlé. Heimamenn voru sterkari á lokakaflanum og kláruðu hrinuna hratt og örugglega 25-20.

HK menn höfðu einnig talsverða yfirburði í annarri hrinu og komust í 10-4 og tók nú BF leikhlé. Talsvert var um mistök leikmanna BF í þessari hrinu og fóru of margar uppgjafir beint í netið eða misskilningur var á milli leikmanna og datt boltinn í gólfið án þess að einhver gerði tilraun til að taka boltann.  Ef til vill þreyta í einhverjum leikmönnum eftir leik gærdagsins, en það vantað aðeins meiri ákafa á köflum. HK hélt áfram að raða inn stigum og komust í 17-6 og 20-7. Alls ekki góð hrina hjá BF en þeir komu þó aðeins til baka og áttu ágætis sóknir og í stöðunni 22-9 skoraði BF fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 22-12 og síðar í 24-15. HK var hinsvegar aldrei að fara tapa þessari hrinu og unnu örugglega 25-15.

Þriðja hrinan var sú jafnasta í leiknum og var jafnræði með liðunum í upphafi hrinunnar, jafnt var í stöðunni 4-4 og 11-11, en liðin skiptust á að leiða með 2-3 stigum og voru að skora 2-3 stig í röð á þessum kafla. HK tókst að komast í 17-13 en BF léku ágætan bolta og minnkuðu muninn 19-17. Aftur var jafnt í 20-20 og gerðu nú HK þrjú stig í röð og komust í 23-20 og tók þjálfari BF nú leikhlé. HK kláraði hrinuna og unnu 25-21 og leikinn sannfærandi 3-0.

BF liðið átti ekkert mjög sannfærandi leik á köflum en Ólafur Björnsson var þó mesta ógnin þegar uppspilið var með besta móti. Of mörg mistöku voru gerð í þessum leik sem er dýrkeypt gegn góðu liði eins og HK.  HK liðið gat leyft sér að skipta óþreyttum mönnum inná eftir þörfum, sem er eitthvað sem BF liðinu vantar að geta gert.

Þriðji tapleikur BF í röð í deildinni, en liðið á enn heilmikið inni og þjálfarinn er enn að kynnast liðinu og styrkleikum þess.

 

17 fyrirtæki á Siglufirði gáfu Kærleiksbókina til sunnudagaskólans

Sautján fyrirtæki á Siglufirði hafa gefið fræðsluefni til sunnudagaskólans í Siglufjarðarkirkju, sem er einnig nefndur Kirkjuskólinn. Bókin heitir Kærleiksbókin mín og er gefin í 100 eintökum. Það er bók sem Skálholtsútgáfan, útgáfufélag þjóðkirkjunnar, gaf út í ár og í henni er að finna endursagnir á sögum um Jesú frá Nasaret. Sögurnar eru á léttu og fallegu máli, börnin fá svo límmiða til að fullgera sumar myndanna í bókinni.

Fyrirtækin sautján eru: Aðalbakarinn ehf., Byggingafélagið Berg ehf., Efnalaugin Lind ehf., Hótel Siglunes ehf., L-7 ehf., Minný ehf., Premium ehf., Primex ehf., Raffó ehf., Rammi hf., Siglósport, Siglufjarðar Apótek ehf., SR-Byggingavörur ehf., TAG ehf., Tónaflóð heimasíðugerð slf., Veitingastaðurinn Torgið ehf. og Videoval ehf.

Frá þessu er greint á kirkjan.is og einnig siglfirdingur.is.

39 án atvinnu í Fjallabyggð

Alls voru 39 án atvinnu í lok ágúst 2019 í Fjallabyggð og mældist atvinnuleysi 3,6%. Alls voru 21 karlar 18 konur án atvinnu í lok ágústmánaðar í Fjallabyggð.

Í Dalvíkurbyggð mældist atvinnuleysi 2,1% og voru 22 án atvinnu í lok ágústmánaðar, þar af voru 11 karlar og 11 konur.

Í Skagafirði voru 13 án atvinnu og mældist atvinnuleysi aðeins 0,6% í sveitarfélaginu.

Á Akureyri mældist atvinnuleysi 3% og voru 312 án atvinnu í lok ágústmánaðar.

Tölulegar upplýsingar í fréttinni koma úr gögnum Vinnumálastofnunnar.

Kvennalið BF mætti Ými

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Ými í Fagralundi í Kópavogi í dag. Ýmir vann Álftanes í síðasta leik en BF vann KA-B 3-0 en tapaði fyrir Álftanesi í fyrsta mótsleik á Íslandsmótinu.

Leikurinn átti eftir að vera jafn og skemmtilegur. BF stelpurnar voru komnar til Reykjavíkur með 10 liðsmenn og höfðu því fjóra varamenn til skiptanna.

Fyrsta hrinan fór jafnt af stað en Ýmir komst í 2-0 og BF skoraði þá fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 2-4. Ýmir skoraði þá fjögur stig í röð og komust í 6-4. Jafnt var á næstu tölum og í stöðunni 9-9 tók þjálfari BF leikhlé. Hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu og skiptust á að leiða með 1-2 stigum. Í stöðunni 18-18 kom góður kafli hjá Ými og lögðu þær grunninn af sigrinum í hrinunni með sjö stigum á móti einu frá BF og unnu 25-19.

Í annarri hrinu byrjaði BF ágætlega og komst í 3-5 en þá koma svakalegur kafli hjá Ými sem skoraði 10 stig á móti einu frá BF og komust þær í 13-6 og tók BF leikhlé í þessum kafla. Ýmis liðið var að spila vel í hrinunni og héldu góðu forskoti á BF. Í stöðunni 18-10 kom aftur góður kafli hjá BF sem minnkuðu muninn í 19-16. Ýmir var sterkari á lokamínútum hrinunnar og unnu 25-18.

Í þriðju hrinu var að duga eða drepast fyrir BF og komu þær mjög ákveðnar til leiks og leiddu í upphafi hrinunnar og komust í 3-8 og 6-11. Í stöðunni 7-12 tók Ýmir leikhlé en það skilaði engu og BF konur héldu áfram að skora og auka forystuna og komust í 7-17. Allt gekk vel í þessari hrinu og lítið um mistök hjá BF, og komust þær í 12-21 og unnu hrinuna 18-25 og var nú staðan 2-1.

BF byrjaði ágætlega í fjórðu hrinu og leiddu 2-6 eftir að hafa skorað sex stig í röð. Ýmir skoraði þá þrjú sig og minnkaði muninn í 5-6 og svo var jafnt á tölunum í 7-7 og 9-9. Ýmir átti í framhaldinu góðan kafla og voru með forystu og komust í 16-12 og 19-16. BF stelpurnar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu 20-20 og tók nú Ýmir leikhlé enda mikil spenna komin í leikinn. Aftur var jafnt 21-21 og tók nú þjálfari BF leikhlé. BF komst í 22-23 og voru hársbreidd frá því að klára hrinuna, en það var Ýmir sem vann hrinuna 25-23 og leikinn 3-1.

Blakfélag Fjallabyggðar lék við Aftureldingu

Blakfélag Fjallabyggðar og Afturelding B mættust í Benecta-deildinni í blaki í dag í Íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ. Afturelding vann fyrsta leikinn á Íslandsmótinu gegn Þrótti Vogum nokkuð örugglega 3-0 á meðan BF tapaði gegn Hamar 0-3. Lið BF var frekar þunnskipað í þessum leik og aðeins einn varamaður, sem skipti reglulega við Þórarinn sem hefur verið að glíma við meiðsli í baki undanfarnar vikur. Þess ber að geta að Afturelding notaði marga leikmenn úr Mizunodeildinni í þessum leik, þar sem Afturelding er með sitt aðal lið og firnasterkt.

BF byrjaði þó fyrstu hrinu glimrandi vel og komust í 0-3 en heimamenn voru fljótir að svara fyrir sig og jafna í 3-3. Jafnt var í 7-7 en þá tóku heimamenn forystu í leiknum og komst í 12-8 og tók nú BF leikhlé. Afturelding var áfram sterkari aðilinn og áttu gestirnir erfitt með að verjast öflugri sókn þeirra og uppgjöfum sem rötuðu oft beint í gólfið. Heimamenn komust í 16-10 og 20-12. Eftirleikurinn var auðveldur og unnu heimamenn fyrstu hrinuna 25-14. Talsvert var um mistök og ekki nægilega góða staðsetningu á leikmönnum BF sem gerði öflugum sóknarmönnum í Aftureldingu auðvelt fyrir að smassa beint í gólfið.

Í annarri hrinu var einnig jafnt á tölum fyrstu mínúturnar og náðu heimamenn ekki afgerandi forystu.  Jafnt var á tölum í 3-3, 7-7 og 9-9 en þá tóku heimamenn forystuna og komust í 12-9 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Afturelding var áfram sterkara liðið og komust í 15-11 og 16-14. Sóknin hjá heimamönnum var öflug í þessum leik og erfitt að var fyrir BF að verjast þeim. Afturelding komst í 20-15 og 24-18 og unnu loks hrinuna 25-20 og voru komnir í 2-0.

Þriðja hrinan byrjaði svipuð og fyrstu tvær og var jafnræði með liðunum en Afturelding seig fljótt fram úr og komust í 8-5 og 12-6 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Í stöðunni 16-10 tóku heimamenn öll völdin og voru mun betra liðið á vellinum og gerðu færri mistök. Afturelding komst í 19-10 áður en BF náði að svara fyrir sig og minnka muninn í 20-13. Heimamenn kláruðu hrinuna frekar auðveldlega og unnu 25-16 og leikinn örugglega 3-0.

BF vantar meiri breidd á bekkinn þegar leikmenn eiga ekki sinn besta dag og þurfa hvíld. Þrátt fyrir meiðsli hjá Þórarni þá átti hann ansi margar reddingar í lágvörn og bjargaði mörgum stigum. Of mikið var gert af mistökum í leiknum hjá BF sem er ekki í boði gegn svona góðu liði eins og Aftureldingu.

BF leikur næst við HK-B á morgun kl. 12:00 í Fagralundi í Kópavogi.

Viðtal við Val Reykjalín leikmann KF

Valur Reykjalín Þrastarson er einn af uppöldu leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar og þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hann leikið 58 leiki í deild og bikar með meistaraflokki og skorað 6 mörk fyrir KF. Fyrstu tveir deildarleikirnir hans fyrir KF komu árið 2015 þegar hann var aðeins 16 ára.  Á 17. ári lék hann svo 15 leiki í deild og bikar með KF og skoraði sitt fyrsta mark með meistaraflokki. Árið 2017 átti Valur gott tímabil og lék 19 leiki og skoraði 3 mörk. Eftir það tímabil skipti hann yfir í Val Reykjavík og byrjaði strax að leika með 2. flokki liðsins og fékk tækifæri í fjórum leikjum með meistaraflokki á Reykjavíkurmótinu og Lengjubikarnum. Í framhaldinu lenti Valur í meiðslum og var frá fótbolta í langan tíma þar til hann samdi aftur við KF í lok apríl 2019. Valur byrjaði svo mótið af krafti og skoraði strax í 2. umferð Íslandsmótsins og kom við sögu í öllum deildarleikjum sumars og lék alls 22 leiki og skoraði 2 mörk í deildinni. Valur var í viðtali hjá okkur í vikunni og svaraði nokkrum spurningum.

VIÐTAL

Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara? Uppleggið var einfaldlega að hlaupa yfir liðin en svo fannst mér það aðeins breytast eftir 3-4 umferðir þá fórum við að reyna halda boltanum meira og reyna stjórna leikjunum.

Hvernig tilfinning var það að koma aftur í KF í vor og taka þátt í velgengninni í sumar? Það er alltaf gaman að koma aftur heim, strákarnir tóku vel á móti mér og sumarið og úrslitin voru frábær.

Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?   Skallagrímur heima var geggjaður leikur sem endaði 8-1.

Þú gekkst til liðs við Val Reykjavík í byrjun árs 2018 og lentir í meiðslum. Hvernig var sá tími fyrir þig og var þjálfun og aðstaða á allt öðru stigi ?  Sá tími var erfiður þetta tók aðeins lengri tíma en ég vildi en frábært fólk í kringum mig til að hjálpa mér í gegnum þetta, varðandi þjálfun og aðstöðu þá fylgir þetta oftast bara í hvaða deild liðið er í en Valur er með frábæra aðstöðu og fólk í kringum félagið

Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2014 ? Liðið þarf bara að byrja að halda sér í deildinni og svo eftir það er hægt að skoða eitthvað meira, hef samt fulla trú að liðið  muni halda sér léttilega í deildinni.

Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverjum mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn? Gervigras mun skipta sköpum fyrir félag eins og KF, við búum á Íslandi og erum fyrir norðan í þokkabót er grasið lengi að verða gott en ef það væri gervigras þá væri hægt að æfa á Ólafsfirði eitthvað yfir veturinn og vera með góðan völl strax þegar keppinstímabilið byrjar.

Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið? Alli var nátturulega mjög mikilvægur, það leita öll lið af framherja sem skorar mörk og Alli skorar nú oftast nokkur þegar hann spilar heilt tímabil með liði. Held að það hafi ekki verið mikil utan af komandi pressa en hann setur einhverja pressu á sig sjálfur til að skora mörk.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Brynhildur Reykjalín Vilhjálmsdóttir.

 

 

Færri ferðamenn nota Upplýsingarmiðstöðvar í Fjallabyggð

Mun færri ferðamenn hafa nýtt sér Upplýsingarmiðstöðvar í Fjallabyggð fyrstu 8 mánuði ársins miðað við sama tíma síðustu tvö ár. Á Siglufirði hafa aðeins 2288 ferðamenn heimsótt upplýsingamiðstöðina frá janúar til ágúst en voru á sama tíma 3452 árið 2018 og árið 2017 voru heimsóknir ferðamanna 3351 á sama tíma. Upplýsingamiðstöðin á Siglufirði er mjög vel staðsett í Ráðhúsi Fjallabyggðar, skammt frá tjaldsvæðinu.

Í Ólafsfirði eru þessar tölur mun lægri einhverja hluta vegna, en heimsóknir ferðamanna á Upplýsingamiðstöðina í Ólafsfirði fyrstu 8 mánuði ársins voru aðeins 136, en voru 284 árið 2018 og 363 árið 2017.

Ekki er ástæða til að ætla að þessar tölur endurspegli í raun fækkun ferðamanna í Fjallabyggð á milli ára.

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon
Mynd: Héðinsfjörður.is /Magnús Rúnar Magnússon

Viðtal við Aksentije Milisic hjá KF

Aksentije Milisic hefur leikið með Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar síðustu þrjú árin og einnig árið 2014 sem lánsmaður. Hann er sonur þjálfara KF, Slobodan Milisic sem hefur þjálfað liðið frá árinu 2017, eða síðustu þrjú tímabil. Aksentije hefur leikið 67 leiki fyrir KF í meistaraflokki í deild og bikar og skorað 12 mörk. Hann hefur alls leikið 112 leiki í meistaraflokki með KF, Dalvík/Reyni, Magna og KA þar sem hann lék upp alla yngri flokkana.

Aksentije var í viðtali hjá okkur í vikunni og svaraði hann spurningum um meiðslin í upphafi móts og hvernig það er að hafa föður sem þjálfara.

Aksentije var einnig í viðtali hjá okkur eftir Íslandsmótið 2018 sem lesa má hér á vefnum.

VIÐTAL

1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?  Uppleggið fyrir mót var að komast upp í 2. deildina. Í hitti fyrra vorum við lengi vel í toppbaráttunni og í fyrra vorum við aðeins örfáum sekúndum frá því að komast upp. Svo að markmiðið fyrir þetta sumar var augljóst, að klára dæmið og komast upp. Uppleggið var svipað og hefur verið síðustu ár, að spila sóknarbolta og keyra á andstæðingana frá fyrstu mínútu.

2. Þú náðir aðeins 13 leikum í deild og bikar í ár, hvaða meiðsli varstu að glíma við og hversu lengi varstu frá?  Ég var búinn að vera heill heilsu í allan vetur og hafði æft á fullu. Síðan um miðjan apríl meiðist ég í hnénu í bikarleiknum gegn Magna og það kemur rifa í sin í hnénu sem hélt mér frá vellinum meira og minna í rúma 2 mánuði.  Eftir meiðslin var ég þó mjög sáttur með að ná að taka þátt í öllum seinni hluta mótsins og hjálpa strákunum að gefa í og klára dæmið.

3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?  Eftirminnilegasti leikurinn í heild fannst mér vera útisigurinn á Hetti á Egilsstöðum 3-4. Þetta var erfiður og mikilvægur leikur fyrir okkur þar sem við komumst í 1-3 yfir en þeir jafna. Síðan settum við 3-4 markið á þá og lágum í vörn síðustu mínúturnar og náðum að halda út og landa þessum 3 stórum stigum.
Eftirminnilegasta atvikið er þó klárlega sigurmarkið okkar á Höfn í Hornafirði þegar við skoruðum með síðustu spyrnu leiksins á 97 mínútu og fagnaðarlætin eftir leik í takt við það.

4. Þú hefur spilað fjögur tímabil með KF, hefur orðið einhver breyting eða þróun á félaginu á þessum tíma ?  Fyrir utan þjálfara og leikmannamál þá hafa ekki orðið miklar breytingar á klúbbnum síðustu ár. Það er þó að koma aukin fagmennska í liðið og það mun bara aukast á komandi árum. Nú þegar liðið er komið í sterkari deild þá verða allir að spýta í lófanna.

5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2014 ?  Ef hópurinn helst nokkuð svipaður og hann var í sumar og þá sérstaklega ef liðinu tekst að halda lykilmönnum eins og Alexander Má, Ljubomir Delic og Jordan Damachoua og mögulega bæta við 2-3 leikmönnum þá held ég að liðið geti klárlega endað í efri hluta deildarinnar. En það er kannski erfitt að segja til um væntingar akkúrat núna þegar það er ekki enn komið á hreint hvernig liðið verður samansett.

6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?  Það mun skipta miklu máli og þá sérstaklega fyrir yngri flokka félagsins. Þá eru komnar aðstæður til þess að æfa allan ársins hring og þannig er hægt að búa til góða leikmenn.
Hins vegar, þá er ég mikill gras maður og það er fátt betra en að spila á góðu, alvöru grasi eins og Ólafsfjarðarvöllur er yfir sumarið. Draumurinn væri bara að setja gervigras á æfingasvæðið.

7. Er erfitt að hafa föður sinn sem þjálfara, hvaða kosti og galla getur það haft? Mér finnst það ekki erfitt. Gallarnir eru þeir að það kemur sjálfkrafa pressa á leikmenn sem eru synir þjálfara síns og þeir þurfa að sýna og gera miklu meira en aðrir annars gæti fólk byrjað að tuða. Stundum hefur mér ég fundist ekki eiga sérstakan leik en svo horfi ég á upptöku af honum seinna og þá sé ég betur að ég átti bara fínan leik borið saman við aðra. En það verður alltaf þessi umræða með leikmenn sem eru synir þjálfara síns og hvort þeir eigi að vera í liðinu í ákveðnum leikjum eða ekki en það hefur aldrei truflað mig og mun ekki gera. Ég veit nákvæmlega hvenær ég spila vel og hvenær illa og hvar gæðin mín liggja.
Kostirnir við þetta eru þeir að hann þekkir mig betur en allir. Hann veit nákvæmlega í hvaða stöðu ég spila best, hverjir séu kostirnir og gallarnir og þess vegna er hann sá þjálfari sem hefur náð miklu meir út úr mér á vellinum heldur en aðrir þjálfarar.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

 

Hækka girðingu og setja skilti við körfuboltavöllinn á Siglufirði

Eins og við greindum frá hér á vefnum í síðustu viku þá hafa íbúar við nýjan körfuboltavöll á grunnskólalóðinni á Siglufirði orðið fyrir ónæði vegna vallarins þar sem nærliggjandi hús liggja við hlið vallarsins. Unglingar eru í körfubolta fram eftir miðnætt og körfuboltar hafa verið að fara í rúður í nærliggjandi fjölbýli.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að hækka girðingu við völlinn og setja skilti með umgengnisreglum við völlinn.

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon – Körfuboltavöllur í vinnslu í sumar.

Knattspyrnumaðurinn Andri Snær Sævarsson í viðtali

Andri Snær Sævarsson var hjá okkur í viðtali í vikunni. Hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil sem lánsmaður hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar en er á samning hjá KA, sem rennur út í lok október 2019 samkvæmt vef KSÍ. Andri Snær hefur leikið 36 leiki í deild og bikar fyrir KF frá árinu 2018, og hefur náð að skora 3 mörk. Hann er fæddur árið 1998 og hefur staðið sig mjög vel hjá KF og oftar en ekki verið valinn í byrjunarliðið. Hann hefur leikið í treyju númer 6 á tímabilinu og fengið stærra hlutverk, en í fyrra var hann í treyju númer 25 og var í baráttu um byrjunarliðssæti.
Andri Snær er uppalinn hjá KA og lék upp yngri flokkana hjá félaginu.  Andri endaði tímabilið á bikar þegar hann fékk Nikulásarbikarinn á lokahófi KF en bikarinn er veittur árlega hjá KF fyrir bestu framfarir.

VIÐTAL

1. Hvernig hefur þér líkað að spila með KF síðastliðin tvö tímabil sem lánsmaður? Mér hefur líkað gríðarlega vel að spila með KF síðustu tvö tímabil og er ég hrikalega ánægður að hafa tekið þá ákvörðun fyrir síðasta tímabil að fara á lán til KF. Heimastrákarnir í liðinu hafa tekið gríðarlega vel á móti mér og hinum utanbæjarstrákunum og við erum allir mjög góðir félagar. Einnig hefur knattspyrnustjórn KF reynst mér vel og eiga þau öll hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem þau leggja í þetta, sem og aðrir sjálfboðaliðar sem vinna fyrir klúbbinn. Þessi tvö ár hafa verið ótrúlega skemmtileg og vil ég þakka öllum fjallabyggðingum fyrir stuðninginn í sumar 💙
 
2. Varstu með eitthvað persónulegt markmið fyrir tímabilið?  Mitt persónulega markmið fyrir tímabilið var einfaldlega að fá á mig færri mörk að meðaltali í leik í deildinni en í fyrra. Í fyrra fengum við á okkur 21 mark í 18 leikjum (1,17 mörk í leik) en í ár 26 mörk í 22 leikjum (1,18 mörk í leik) svo markmiðinu var ekki alveg náð en það munaði ekki miklu. Einnig var ég með það markmið fyrir tímabilið að ná að troða inn mínu fyrsta marki fyrir KF, sem gekk.
 
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik? Báðir leikirnir gegn Sindra voru mjög eftirminnilegir en í báðum leikjunum skoruðum við sigurmarkið seint í uppbótartíma.
 
4. Hvaða atvinnu/nám stundar þú með knattspyrnuferlinum ?  Er í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík.
 
5. Þú ert á samningi hjá KA sem er að renna út, er komið á hreint hvar þú spilar á næsta tímabili? Nei það er ekkert komið á hreint, en eins og ég segi þá líkar mér mjög vel að spila á Ólafsfirði og vonandi verð ég þar áfram næsta sumar.
 
6. Þú náðir 17 leikjum og þremur mörkum í deildinni í sumar auk sex gulra spjalda. Ertu leikmaður sem spilar fast? Já það virðist vera miðað við spjaldasöfnunina. Birkir sem var með mér í miðverði í sumar er sá harðasti sem hefur spilað á Ólafsfirði síðan Mark Duffield en hann fékk aðeins 3 gul spjöld á meðan ég fékk 6. Ég hlýt því að vera svona grófur hahaha.
 
7. Varstu með fasta búsetu í Fjallabyggð meðan þú lékst sem lánsmaður, eða keyrðir þú frá Akureyri fyrir hverja æfingu?  Nei, ég bjó á Akureyri í sumar og keyrði því alltaf til Ólafsfjarðar á æfingar.
 
Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is
Screen Shot 2019-09-23 at 22.24.32.png
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is

Viðtal við Hákon Leó leikmann KF

Hákon Leó Hilmarsson kom í viðtal til okkar á dögunum og svaraði nokkrum spurningum. Hákon er uppalinn hjá KF og lék upp yngri flokkana og byrjaði ungur að koma við sögu í Lengjubikar og Kjarnafæðismótinu með meistaraflokki KF, en þetta var vorið 2014. Hann fékk fá tækifæri með liðinu um sumarið og undir lok sumars 2014 gekk hann til liðs við nágrannana á Dalvík og lék tvo leiki með meistaraflokki Dalvíkur/Reynis en skipti aftur yfir í KF um haustið.  Árið 2015 var svipað, hann fékk tækifæri með liðinu í Lengjubikarnum um vorið og lék svo með 2. flokki KF um sumarið en náði þó einum leik með meistaraflokki um haustið. Á næsta tímabili lét hann meira að sér kveða og lék 14 leiki fyrir KF og var kominn með sæti í byrjunarliðinu. Eftir sumarið 2016 hefur hann leikið flesta leiki með liðinu og hefur núna spilað 75 leiki í deild og bikar og skorað 2 mörk.

Hákon þykir harður í horn að taka á vellinum og hefur hann náð sér í 40 gul spjöld frá árinu 2013 og eitt rautt spjald. Inni í þessari tölu eru leikir í deild og bikar, Lengjubikar, Kjarnafæðismóti og nokkrum leikjum í 2. flokki. Milli æfinga og leikja vinnur Hákon hjá Aðalbakarí á Siglufirði sem bakari.  Hákon var einnig í viðtali hjá okkur í fyrra, og má lesa það hér á vefnum.

VIÐTAL

1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?
Uppleggið var aðallega að vera vel skipulagðir og byrja alla leiki að krafti og ná inn marki sem fyrst. Ef við lítum á síðasta tímabil þá vorum við ansi oft að fá á okkur mark í byrjun leiks. En nú vorum við miklu betur skipulagðri og náðum að pressa liðin vel.

2. Hópurinn hefur verið sterkur í sumar margir nýir leikmenn komu í vor, hvernig hefur baráttan verið um fast sæti í liðinu?

Rétt er það, hópurinn í sumar var rosalega sterkur og allar stöður vel mannaðar. Það nánast skipti ekki máli þótt einn leikamður missti úr leik, það kom alltaf maður í manns stað og það er lykillinn að góðu gengi í sumar. Við höfum margir verið að spila saman undanfarin þrjú ár og nú er þessi óslípaði demantur orðinn að fallegum demant.

3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Það eru margir leikir sem koma upp í hausinn á mér. Það voru margir sigrar svo ótrúlega sætir t.d. báðir leikirnir gegn Sindra þar sem við náðum sigurmarki á lokasekúndum leiksins. Sigurinn gegn Kórdrengjum og Hött/Huginn á útivelli. En ef ég ætti að velja einn þá er það Reynir Sandgerði heima þegar við tryggjum okkur upp um deild, það er tilfinning sem er æðisleg.
Atvik í leik hjá mér persónulega er ekkert skemmtilegt en sjálfsmarkið mitt gegn Vængjum var líklega eitt af mörkum sumarsins, ég get hlegið af því núna en vikan eftir markið var ansi erfið. En það er bara eins og það er.

4. Hvernig gengur að stilla saman atvinnu(Aðalbakarí) og knattspyrnuferlinum varðandi æfingar og leiki ?

Það gengur eins og í sögu. Margir segja að þetta sé galinn vinnutími að byrja 04:00 á nóttunni en þetta kemst í vana eins og allt annað. Ég klára vinnu yfirleitt í hádeginu og legg mig eftir það og svo æfing. 

5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?

Bara hóflegar, við verðum nýliðar í deildinni og margir munu líta á okkur sem fallbyssufóður. Við munum bara halda áfram að spila okkar leik og fyrsta markmið er að sjálfsögðu að festa okkur í sessi í deildinni og vinna út frá því.

6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?

Gervigras mun breyta öllu fyrir félagið, bæði fyrir meistaraflokk og yngri flokkana. Við erum eins og þú segir með mjög takmarkaða æfingaaðstöðu og þurfum í meistaraflokki t.d. að keyra til Akureyrar 6 mánuði á ári til þess að æfa við boðlegar aðstæður. Fótboltaiðkun mun bætast Fjallabyggð með gervigrasi er ég alveg klár á, vegna þess að þá geta bæði meistaraflokkur og yngri flokkar KF æft í okkar heimabæ við almennilegar aðstæður og verður áhuginn og viljinn að bæta sig miklu meiri.  Fótbolti er vinsælasta íþróttin og með þessum aðstæðum í dag mun fótboltinn deyja hægt og rólega í Fjallabyggð sem væri algjör synd fyrir staði eins og Siglufjörð og Ólafsfjörð sem hafa átt sögufræg lið í gegnum tíðina.

7. Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið?

Alexander hefur reynst okkur mjög vel eins og tölur segja til um. 28 mörk í 22. leikjum segir sig eiginlega bara sjálft. Okkur hefur vantað alvöru sóknarmann þarna frammi undanfarin ár og hann hefur kannski verið týnda púsluspilið.  Pressan á hann var ekkert svakaleg held ég. Það vita allir hvað hann getur í fótbolta og vissu allir hverju mátti búast við og skilaði hann því bara.

8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö bein rauð spjöld (Vitor fékk tvö gul og þar með rautt í einum leik). Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar?

Engin heppni myndi ég segja, frekar óheppni. Við fengum reyndar 3 rauð spjöld í sumar og voru þetta allt rosalega mikil vafa atriði og frekar illa vegið að okkur. Við spilum fast og látum finna fyrir okkur með skynsemi og því engin heppni með fá  ekki fleiri rauð spjöld heldur bara vel spilað hjá okkur.

Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Mynd frá Hákon Hilmarsson.
Hákon Leó Hilmarsson, bakari hjá Aðalbakarí.

 

Arctic Drone Yoga á Fosshótel Húsavík

Upplifunin verður engu lík þegar viðburðurinn Arctic Drone Yoga verður haldinn dagana 19.-20. október næstkomandi á Fosshótel Húsavík.  Í heilan sólarhring verður spiluð svokölluð drun-tónlist, eða „drone“ eins og það kallast á ensku. Skapaður verður einstakur hljóðheimur sem gestir stíga inn í og umlykur þá á meðan þeir dvelja í rýminu. Ótruflaðir tónarnir, skapaðir af röddum eða hljóðfærum, ná út fyrir tíma, tónlistarflokka og jafnvel tónlistina sjálfa. Upplifunin verður þannig sameiginleg bæði fyrir gestina og tónlistamennina sem skapa hljóðheiminn.

Einnig verður boðið upp á jóga í sex klukkustundur, en gestir geta bæði stundað jóga á meðan þeir hlusta og upplifa tónlistina eða einfaldlega komið sér þægilega fyrir og leyft tónunum að flæða um líkamann.

Drun tónlist á sér langa sögu og hefur verið notuð í þjóðlagatónlist í þúsundir ára. Á Arctic Drone Yoga koma fjölmargir tónlistarmenn fram og sumir þeirra heimsþekktir eins og Melissa Auf der Maur bassaleikari Smashing Pumpkins, Atli Örvarsson, Ólöf Arnalds, Barði Jóhannsson í Bang Gang, Sin Fang, JFDR, IamHelgi og fleiri. Jógatíminn verður í umsjón Yoga Shala.

Viðburðurinn hefst klukkan 10:00 þann 19. Október og lýkur kl. 10:00 daginn eftir. Ekki verða seldir miðar á viðburðinn, en hótelgestir komast inn og sömuleiðis þeir sem kaupa sér aðgang að hádegishlaðborðinu á Fosshótel Húsavík.

Nánari upplýsingar á islandshotel.is/droneyoga – www.droneyoga.is

eða hjá Barða Jóhannssyni, bardi@islandshotel.is

Aðsend fréttatilkynning.

 

Viðtal við Grétar Áka fyrirliða KF

Grétar Áki Bergsson er einn af uppöldum leikmönnum KF og hefur verið undanfarin ár fyrirliði liðsins. Hann hefur leikið 7 tímabil í meistaraflokki KF og hefur spilað 109 leiki í meistaraflokki og skorað 13 mörk. Árið 2013 var hann að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki þegar Lárus Orri Sigurðsson var þjálfari og liðið spilað þá í 1. deildinni sem heitir í dag Inkassó-deildin. Liðið féll úr deildinni þetta ár og vantaði aðeins einn sigur til að halda sér uppi. Lárus hætti með liðið og Dragan Stojanovic þjálfaði liðið í 2. deild árið 2014 og endaði KF í 7. sæti. Grétar Áki festi sig meira í sessi í byrjunarliðinu og spilaði 13 leiki í deild og bikar. Árið 2015 var KF enn í 2. deild og með nýjan þjálfara, Jón Aðalstein Kristjánsson og lék Grétar Áki 14 leiki í deild og bikar fyrir liðið. Hér var ekki aftur snúið, Grétar Áki var orðinn fastamaður í byrjunarliðinu eftir þessi tvö tímabil með meistaraflokki og var síðar gerður að fyrirliða liðsins. Grétar Áki átti gott tímabil í ár og lék 21 leik í deild og bikar og skoraði 3 mörk.  Grétar Áki var einnig í viðtali hjá okkur árið 2017 sem má lesa hér.

VIÐTAL

1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?

Við vildum spila skemmtilegan bolta og hlaupa yfir andstæðinga okkar eins og við höfum verið að gera síðustu ár. Við vorum grátlega nálægt að fara upp í fyrra þannig við vissum hvað þurfti til að fara upp.

2. Hvað var þitt markmið fyrir Íslandsmótið sem leikmaður og fyrirliði?

Markmiðið mitt var einfaldlega það að leggja mig allan fram í hverjum einasta leik til að hjálpa liðinu að vinna og komast upp.  

3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Mér finnst leikurinn úti gegn Sindra mjög eftirminnilegur þar sem við gátum ekki neitt og lentum undir en náðum síðan að kreista fram sigur á 97’ mínútu með marki frá Ljuba. Svo var auðvitað skemmtilegt atvik gegn Vængjum á útivelli þegar Andri Snær þurfti að fara í markið. (Innskot: Halldór markmaður var rekinn af velli og enginn varamarkmaður á leikskýrslu)

4. Þú hefur spilað sjö tímabil með KF, hefur orðið einhver breyting eða þróun á félaginu á þessum tíma ?

Auðvitað koma alltaf upp einhverjar breytingar. Þjálfaraskipti, breytingar á leikmannahóp og svoleiðis. En mér finnst núna að þetta sé að þróast í góða átt, það er að koma meiri fagmennska inn í þetta hjá okkur og það mun bara hjálpa.

5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?

Ég er bara gríðarlega spenntur fyrir næsta tímabili. Ef við höldum svipuðum hóp og í ár og fáum inn einhverjar styrkingar þá getum við gert fína hluti.

6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?

Þetta getur gert helling fyrir KF, bæði fyrir yngri flokkana og meistaraflokk. Þarna kemur völlur sem allir geta nýtt yfir veturinn til þess að æfa sig og verða betri í fótbolta.

7. Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið?

Alli minn var ótrúlegur í sumar með 28 mörk í 21 leik hahahaha þetta er Cristiano Ronaldo tölfræði. Ég myndi ekki segja að það hafi verið einhver pressa á honum, hann vissi alveg að hann myndi skora.

8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö bein rauð spjöld. Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar?

Rauðu spjöldin voru reyndar þrjú (Innskot: Vitor fékk tvö gul spjöld í einum leik og þar með rautt en gögn KSÍ telja það sem gul spjöld) í sumar en tvö af þeim fannst mér mjög ósanngjörn þannig ég myndi frekar segja að við vorum óheppnir hvað það varðar. En við hugsuðum bara um að spila okkar leik í sumar og það snýst alls ekki um að fá spjöld.

 

Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.

Viðtal við Alexander Má Þorláksson hjá KF

Við fengum markakónginn Alexander Má Þorláksson hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í viðtal og spurðum hann nokkurra spurninga. Alexander er uppalin á Akranesi og lék með yngri flokkum ÍA en hefur svo spilað með nokkrum liðum í meistaraflokki eins og Fram, Hetti, Kára og KF, auk nokkra leikja með meistaraflokki ÍA.  Alexander á tvíburabróður sem heitir Indriði Áki en hann lék með Kára á Akranesi í sumar.

Alexander kom fyrst til KF árið 2015 þegar liðið lék í 2. deildinni og skoraði hann þá 18 mörk í tuttugu og einum leik fyrir liðið, en kom þá á lánssamningi frá Fram. Hann kom svo aftur í KF í apríl 2019, skömmu fyrir Íslandsmótið og gerði nú félagskipti úr ÍA. Alexander náði að leika 22 leiki í sumar fyrir KF í deild og bikar og skoraði 28 mörk í deildinni og var markahæsti leikmaður 3. deildar. Hann hefur alls leikið 43 leiki með KF og skorað 46 mörk. Frábær árangur það hjá honum sem verður erfitt að toppa. Alexander var einn af lykilmönnum KF í sumar.

VIÐTALIÐ

1. Hvað varð til þess að þú samdir aftur við KF í vor?   Ég þekki marga stráka í liðinu og hef haldið sambandi við þá alveg síðan að ég spilaði síðast fyrir KF í 2.deild. Ég var úti í Danmörku með Helgu kærustunni minni í vetur og við ákváðum eiginlega bara í sameiningu að vera á Siglufirði þetta sumar en hún er einmitt þaðan. Ég á ættir að rekja til Ólafsfjarðar þannig að þetta var auðveld ákvörðun.
 
2. Varstu með eitthvað persónulegt markmið varðandi fjölda marka sem þú vildir ná í sumar og áttir þú von á því að ná svona mörgum mörkum fyrir KF ?  Ég kom seint í undirbúninginn og mætti eiginlega bara beint í bikarleik við Magna þannig að eina sem ég hugsaði um var að koma mér í stand fyrir tímabilið. Ég setti mér ekki fyrir nákvæma tölu en fannst ég auðveldlega geta skorað meira en þegar ég var hér síðast þar sem ég tel mig hafa þroskast og bætt minn leik síðan þá. Ég bjóst kannski ekki við 28 mörkum en við pressuðum hátt og unnum boltann oft ofarlega á vellinum sem útskýrir af hverju við skoruðum svona mikið þetta sumar.
 
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?  Það var virkilega sterkt að klára Kórdrengi á útivelli en þeir eru með frábært lið. Það voru svo nokkur eftirminnileg atriði í seinni leiknum gegn Vænjum Júpíters þegar að Dóri (markmaður) fær rautt á furðulegan hátt og Andri Snær þurfti að skella sér í markið.
 
4. Hvaða atvinnu eða nám stundar þú með knattspyrnuferlinum ? Ég er í kennslufræði í HÍ og í sumar var ég flokkstjóri, vallarstarfsmaður, þjálfari og tók vaktir hjá Sundlauginni í Fjallabyggð.
 
5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?  Ég vona svo innilega að allir ungu strákarnir verði áfram því að þeir stóðu sig frábærlega í sumar og eru kjarninn í þessu liði. Ef liðið á að ná góðum árangri á næsta tímabili þarf að bæta í og sækja nokkra reynda og öfluga leikmenn til viðbótar.
 
6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?  Ég held að það væri frábært að fá gervigras þótt ég sé ekki sammála því að setja það á aðalvöllinn. Það er nauðsynlegt fyrir iðkendur að þurfa ekki að fara til Akureyrar til þess að æfa á veturna.
 
7. Þú hefur leikið fyrir mörg félög, er mikill munur á að leika fyrir landsbyggðarlið en lið í Reykjavík ? (Aðstaða, þjálfun, umgjörð, stuðningsmenn). Munurinn liggur aðallega á milli deilda, því betri deild því betri aðstaða og umgjörð, hefur kannski ekkert að gera með Reykjavík eða landsbyggðina.
 
8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö rauð spjöld. Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar? Þegar að það gengur vel þá vill er minni pirringur og allir vilja spila næsta leik þannig að það gæti hafa haft smá áhrif. Það hjálpaði líka að Hákon Leó var prúður í sumar en hann hefur átt það til að taka eina af gamla skólanum hér og þar. 
Ljósmynd: Guðný Ágústsdóttir
Ljósmynd: Guðný Ágústsdóttir

Kvennalið BF vann KA-B

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti KA-B í Benecta-deildinni í Íþróttahúsinu á Siglufirði í dag. BF lenti í vandræðum í síðasta leik og tapaði 1-3, en voru mun ákveðnari í þessum leik frá upphafi.

BF náði strax góðri forystu í fyrstu hrinunni og komst í 6-2 en KA stelpur komu til baka og jöfnuðu 7-7 með góðum uppgjöfum. BF hrökk aftur í gang og komst í 14-9 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF komst í 19-11 og KA stelpurnar gerðu nokkrar skiptingar en það hafði ekki mikil áhrif. BF kláraði hrinuna örugglega 25-14 og skoruðu 6 stig á móti 1 í lokin.

BF byrjaði svo aðra hrinu með látum og komust í 4-0 með góðu spili. KA stelpurnar komust hægt og rólega inn í leikinn og jöfnuðu leikinn 8-8. BF komst í 12-10 og tóku svo leikhlé. Stelpurnar komu mjög ákveðnar á völllinn eftir pásuna og skoruðu 7 stig í röð og tóku nú gestirnir leikhlé. BF stelpurnar gáfu ekkert eftir og hleyptu KA stelpunum ekkert inn í leikinn og unnu örugglega 25-12 og voru komnar í 2-0.

Þriðja hrinan var aðeins kaflaskipt en BF byrjuðu vel og komust í 6-1 og tók þjálfari KA leikhlé til að koma skilaboðum til liðsins. Spilið hjá BF gekk áfram vel og komust þær í 12-5 og 20-6 og töldu nú margir formsatriði að klára leikinn. BF gerði hérna tvöfalda skiptingu og leyfðu fleiri stelpum að taka þátt. Í stöðunni 21-7 kom mjög góður kafli hjá KA þar sem þær gerðu 5 stig í röð og minnkuðu muninn í 21-12. BF gerði aftur tvær skiptingar og komust í 23-13 og 24-14, en mjög erfiðlega gekk að fá lokastigið í hús. KA stelpur skoruðu nú sex stig í röð og minnkuðu munin í 24-18. BF stelpur kláruðu svo hrinuna 25-18 og leikinn 3-0.

Frábær sigur í kvöld hjá stelpunum, en mótstaðan var ekki mikil. Spilið var að ganga vel og færri mistök áttu sér stað en í fyrsta leik mótsins.

79 nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar hlupu í Ólympíuhlaupinu

Nemendur 6.-10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar hlupu í vikunni í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Alls voru það 79 nemendur sem tóku þátt og hlupu þeir samtals 655 km. Veðrið lék við hlauparana, hlýtt var í veðri, logn og smá rigning, eða fullkomið hlaupaveður.  Á næstu dögum munu svo krakkarnir innheimta áheitin sem þeir söfnuðu með hlaupinu.

Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar.

47 þúsund gestir í sundlaugunum í Skagafirði í sumar

Sundlaugarnar í Skagafirði voru vel sóttar í sumar og var aukning frá því sumarið 2018. Gestir sundlauganna í sumar voru ríflega 47 þúsund og er það um 6% aukning frá síðasta ári. Fjöldi gesta sem sóttu sundlaugina í Varmahlíð tvöfaldaðist milli ára en mesta aukning þar er meðal barna sem rekja má til hinnar nýju og glæsilegu rennibrautar.

Frá þessu var fyrst greint á vef Skagafjarðar.is

Ónæði af nýja körfuboltavellinum á Siglufirði

Í sumar var lagður glæsilegur körfuboltavöllur á grunnskólalóðina á Siglufirði. Nærliggjandi íbúar hafa nú orðið varir við meira ónæði frá lóðinni en áður, en eitt fjölbýlishús stendur mjög nærri körfuboltavellinum. Ónefndur íbúi í nærliggjandi húsum hefur kvartað undan ónæði frá körfuboltavellinum seint á kvöldin.  Ekki var mikið um úti körfuboltavelli á Siglufirði þar til í sumar og er því íþróttin eflaust vinsæl hjá unglingum um þessar mundir. Bæjarráð Fjallabyggðar tók málið fyrir á fundi í vikunni.

Íbúi í nærliggjandi húsi segir að körfuboltarnir fari í gluggana hjá sér og að körfubolti sé stundum spilaður þarna vel yfir miðnætti til tilheyrandi hávaða.

Þrátt fyrir að mjúkt undirlag sé á vellinum þá skapast alltaf ákveðinn hávaði út frá körfuboltaíþróttinni.

 

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon – Körfuboltavöllur í vinnslu í sumar.

Hugmyndir um almennings- eða trjágarð í miðbæ Ólafsfjarðar

Garðyrkjufélag Íslands hefur haft samband við Fjallabyggð vegna hugmyndar um almennings- eða trjágarð í miðbæ Ólafsfjarðar. Hugmyndin væri að garðurinn yrði á milli Tjarnarstígs, Aðalgötu og lóðar Grunnskóla Fjallabyggðar og yrði samtengdur grænu svæði austan Ægisgötu þar sem nú er Aldingarður æskunnar.

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Nemandi í MTR vill slá Íslandsmet í ljósmyndun fugla

Mikael Sigurðsson er nemandi á fyrsta ári Menntaskólans á Tröllaskaga og hefur hann mikinn áhuga á fuglaskoðun og fuglaljósmyndun. Mikael er á tónlistarbraut MTR en hefur einnig áhuga á náttúrufræðibraut. Frá þessu var fyrst greint á vef MTR.is.

Hann stefnir að því að slá Íslandsmet með því að verða yngstur til að sjá og mynda 200 fuglategundir. Hann er aðeins fimmtán ára og er kominn í 171 tegund fugla. Fuglarnir verða að vera lifandi þegar mynd næst af þeim. Síðan þarf að senda myndina til Flækingsfuglanefndar og hún þarf að staðfesta tilvikið. Mikael náði nýlega að mynda ormskríkju, lítinn amerískan spörfugl, við Reykjanesvita. Fleiri náðu mynd af fuglinum, er þessi tegund hefur aðeins einu sinn áður sést hér á landi.

Mikael spilar á bassa og gítar og er í hljómsveitinni Ronja og ræningjarnir sem hefur komið fram opinberlega í Fjallabyggð við góðar undirtektir.

Hægt er að sjá myndir eftir Mikael á myndasíðu hans á Facebook.

Ráðin sérfræðingur varðveislu og miðlunar hjá Síldarminjasafninu

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur ráðið Ingu Waage í starf sérfræðings varðveislu og miðlunar úr hópi átta umsækjenda.  Inga Þórunn er með BA gráðu í ensku frá Háskóla Íslands, MA gráðu í bókmenntum, menningu og miðlun frá Humboldt-Universität í Berlín og hefur lagt stund á doktorsnám í enskum bókmenntum frá árinu 2016 og er jafnframt með diplómu í ljósmyndun frá ICPP í Melbourne í Ástralíu. Hún er fædd árið 1984 og hefur verið búsett í Þýskalandi en er fædd í Reykjavík. Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.

Inga Þórunn hefur störf um miðjan október á safninu.

 

Viðburðir Ljóðahátíðar í vikunni

Ljóðahátíðin Haustglæður heldur áfram af fullum krafti í þessari viku. Viðburðir verða á Skálarhlíð, Gránu, Ljóðasetrinu og í Grunnskóla Fjallabyggðar.

Dagskrá:

Fimmtudagur 26. sept. kl. 14.30 Skálarhlíð –
Þórarinn Hannesson flytur eigin lög við ljóð Siglfirðinga.

Laugardagur 28. sept. kl. 20.00 GránaMeð fjöll á herðum sér. Frumsýning ljóðaleiks með ljóðum Stefáns Harðar Grímssonar í tónum og tali. Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir flytja.
– Hóf fyrir frumsýningargesti á Ljóðasetri að lokinni frumsýningu.

Sunnudagur 29. sept. kl. 16.00 Ljóðasetur Íslands –
Lesið og sungið úr nýju ljóðasafni Stefáns frá Hvítadal.
– Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir sjá um dagskrána.

Mánudagur 30. sept. Gísli Súrsson – Leiksýning frá Kómedíuleikhúsinu í Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.

Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar í boði Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra og Fjallabyggðar.

Það eru Umf Glói og Ljóðasetur Íslands sem standa að hátíðinni.

Dalvík tapaði fyrir Víði í lokaumferðinni

Dalvík/Reynir heimsótti Víði í Garði í lokaumferðinni í 2. deild karla sem leikin var í gær. Erfiðlega hefur gengið að sækja stig í síðustu leikjum og voru leikmenn staðráðnir í að enda tímabilið á jákvæðum nótum.

Víðir byrjaði leikinn vel og skoraði Helgi Þór Jónsson strax á 7. mínútu leiksins. D/R tókst ekki að skora í fyrri hálfleik og var staðan því 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks fékk Víðir dæmda vítaspyrnu og úr henni skoraði Helgi Þór Jónsson, hans annað mark leiknum og staðan 2-0 eftir 50. mínútur.

Á 60. mínútu gerði þjálfari D/R þrefalda skiptingu og sendi hann Viktor Daða, Rúnar Helga og Kristinn Þór inná fyrir þá Steinar Loga, Pálma Heiðmann og Kelvin sem var á gulu spjaldi. Aðeins nokkrum mínútum eftir þessar skiptingar fengu D/R dæma vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Laguna, hans 9. mark í 19 leikjum í deild og bikar í sumar. Staðan orðin 2-1 þegar tæpur hálftími var eftir.

Dalvík gerði fleiri skiptingar og setti Núma Kára inná fyrir Alexander Inga á 69. mínútu og Gunnlaug Bjarnar inná fyrir Jón Björgvin á 80. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og þurfti D/R að sætta sig við tap í lokaleik umferðarinnar. Liðið endaði í 8. sæti í deildinni, en hefði með sigri í þessum leik endaði í 5. sæti.

Borja Laguna var markahæsti leikmaður D/R í sumar með 6 mörk, Jóhann Örn með 5 og Sveinn Margeir með 4. Dalvík fékk aðeins 2 stig úr síðustu 5 leikjum liðsins í deildinni.

Bæjar- og menningarvefur