Átak í hreinsun bílhræja í Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð og Landhreinsun ehf. bjóða upp á að fjarlægja bílhræ fyrir íbúa sveitarfélagsins þeim að kostnaðarlausu í allt sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Dalvíkurbyggðar. Landhreinsun tekur einnig allt brotajárn, rafmagnskapla, rafgeima, dekk og felgur.

 

Það sem þú þarft að gera er þetta:

  1. Hafa bifreiðina þar sem vörubíll kemst að henni.
  2. Hringja á skrifstofu sveitarfélagsins eða senda e-mail á netfangið steinthor@dalvikurbyggd.is
  3. Kvitta rafrænt eða á blað fyrir förgun þegar bifreiðin er fjarlægð til að tryggja að 20.000 krónur séu lagðar inn á reikning bifreiðareigandans.

 

Viðbygging við íþróttamiðstöð á Siglufirði – aðsend grein

Á fjárhagsáætlun 2020 er reiknað með 125 mkr. í framkvæmdir til að bæta aðgengi að íþróttamiðstöðinni á Siglufirði. Þörf framkvæmd og nauðsynleg. Í byrjun september 2019 voru
kynntar tillögur að þessum framkvæmdum fyrir fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar. Gert er ráð fyrir viðbyggingu sunnan við núverandi sundlaugarbyggingu (sunnan við núverandi búningsklefa ) þar yrði ný móttaka og þar undir nýir búningaklefar. Gert að sjálfsögðu ráð fyrir lyftu og stigum enda þarf að fara niður um 4,3 metra til að komast á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. Samkvæmt tillögunni er einnig gert ráð fyrir miklum framkvæmdum austan við sundlaugargaflinn. Þar á að koma fyrir heitum og köldum pottum, setlaug og sjóbaðsaðstöðu.

Ég hef velt þessum framkvæmdum töluvert fyrir mér. Því miður hefur skipulags- og umhverfisnefnd ekki enn fengið kynningu á þessum framkvæmdum en það hlýtur að styttast í að lokateikningar verði klárar.
Kannski hafa ýmsir aðrir kostir verið skoðaðir en engar upplýsingar hef ég um það. En skoðum þessa tillögur aðeins betur. Aðalástæða þess að farið er í þessar framkvæmdir er til að bæta aðgengi. Hér er lagt til að byggja tveggja hæða byggingu til þess að færa fólk af götuhæð niður á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. En væri vert að skoða þann möguleika að færa alla aðkomu að
íþróttamiðstöðunni niður fyrir núverandi byggingar?
Ég sé fyrir mér byggingu upp við austurgafl sundlaugarinnar. Í þeirri byggingu yrðu nýjir búningsklefar, móttaka og vöktun starfsmanna. Ofaná þessa byggingu væri svo hægt að hafa
glæsilegt setu- og sólbaðssvæði með frábært útsýni í allar áttir. Sunnan við þessa byggingu yrðu svo nýjir pottar. Með þessu móti hefðu starfsmenn góða yfirsýn yfir sundlaug og potta og örstutt í
tækjasal og íþróttasalinn.

Öll aðkoma að íþróttamiðstöðinni yrði sunnan frá sem myndi létta mjög mikið á bílastæða vandamálum við Hvanneyrarbraut. Einnig yrði hægt að komast niður með sundlauginni að norðan,
gangandi. Reikna má með að breikka þurfi landfyllingu austan við íþróttahúsið og sundlaug. Með þessu móti er öll aðkoma á sömu hæðinni og því mjög gott aðgengi.
Ég hef heyrt að það gæti verið vandamál með ræsið sem liggur í gegnum Hvanneyrarbrautina að líklegt væri að nýja viðbyggingin sunnan sundlaugar lendi beint ofan á henni. Ef það er raunin gæti
þessi framkvæmd sem stendur til að fara í orðið mjög dýr og í ljósi þess því ekki að skoða aðra kosti?

Kannski var það gert, ég veit það ekki enda sáralítil umræða farið fram um þessa framkvæmd.

Helgi Jóhannsson
Fulltrúi minnihluta H-listann í skipulags- og umhverfisnefnd.

Texti og myndir: Aðsent efni.

Útivistartími barna og unglinga

Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum frá 1. maí. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00.  Unglingar 13 til 16 ára mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár. Foreldrum/forráðamönnum er að sjálfsögðu heimilt að stytta þennan tíma og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma.

Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í símanum eða tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið.

Mynd frá Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrsta maí ávarp forseta ASÍ

Kæru félagar og landsmenn allir.
Um heim allan hefur flestu sem við höfum tekið sem gefnu verið ýtt til hliðar til að verja líf okkar og heilsu. Vinna, nám, félagslíf og samskipti hafa tekið stakkaskiptum og breytingarnar kunna að einhverju marki að vara til frambúðar. Framtíðin sem við höfum undirbúið okkur undir, með aukinni áherslu á tækni og grænar lausnir er allt í einu mætt nokkrum árum fyrr en áætlað var og við stöndum frammi fyrir spurningunni: hvernig ætlum við að hafa framtíðina? Allt er breytt. Möguleikum hefur snarfækkað og snarfjölgað.

Hér á landi hefur nálgunin verið skynsamleg. Við höfum leitað til fólks sem besta þekkingu hefur á faröldrum og almannaöryggi og við sjáum fram á að geta andað aðeins léttar, þó fyrirvararnir séu enn margir og verði áfram. Alltaf búum við vel að því að eiga öflugt heilbrigðisstarfsfólk og sameiginlega innviði, en aldrei hefur það verið jafn ljóst og nú. Við erum komin í þá stöðu á undan flestum ríkjum að geta einhent okkur í uppbyggingu og næstu skref.
Það er einkennandi að þau samfélög sem hafa náð að vernda fólk best gegn veirunni eru þau lönd þar sem samfélagshugsun er ríkjandi í stað þeirrar hugsunar að hver sé sjálfum sér næstur. Lönd sem hafa byggt upp heilbrigðiskerfi og aðra velferð sameiginlega og fyrir alla. Það er dýrmætt að eiga slíka sameign og aldrei sem nú, hana þurfum við að vernda og efla.

Við stöndum frammi fyrir efnahagskreppu og þá reynir á samfélagshugsunina. Við erum ekki öll á sama báti, óhugnanlega margir hafa misst vinnu og enn fleiri orðið fyrir skertum tekjum. En þó við séum ekki á sama báti getum við sannmælst um að tryggja framfærslu fólks, grunn hins siðmenntaða samfélags, að fólk hafi til hnífs og skeiðar, þak yfir höfuðið og geti notið lífsins gæða. Við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum um framtíðina.

Samstaða gegn græðgi og arðráni
Í mínum huga er það hvorki gerlegt né æskilegt að leita í sama farið. Leiðarstef okkar við uppbyggingu samfélagsins og atvinnulífsins á að vera að allir hafi framfærslu; vinnandi fólk, fólk í atvinnuleit, öryrkjar, aldraðir og námsmenn. Ef við tryggjum ekki framfærslu fólks verður kreppan dýpri og erfiðari bæði fyrir einstaklinga og okkur sem samfélag. Framfærslutrygging er því lykilatriði í vörn og viðspyrnu.

Í öllum kreppum leita fjármagnseigendur tækifæra til að auka auð sinn og komast yfir fyrirtæki, stofnanir og jafnvel heimili á brunaútsölu. Eina aflið gegn slíkri græðgi er samstaða fólks og barátta fjöldahreyfinga. Við munum berjast gegn því að endurreisnin verði byggð á að sameignir okkar verði seldar eða að slegið verði af kröfum um laun og aðbúnað vinnandi fólks. Það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna að verja þau réttindi sem við höfum samið um. Við viljum ekki ástand þar sem atvinnulaust fólk er svo örvæntingafullt að það undirbýður hvert annað í þeirri von að fá einhvern pening í vasann. Eða að slakað sé á öryggi vinnandi fólks í skjóli ástandsins. Þetta er raunveruleg hætta hér á landi og um heim allan.

Ísland er fyrirmynd annarra í viðbrögðum við faraldrinum og við skulum líka vera fyrirmynd í því hvernig við byggjum okkur upp að nýju. Við viljum byggja upp réttlátt þjóðfélag. Við skulum einsetja okkur að eftir eitt ár, fyrsta maí árið 2021, verði búið að útrýma atvinnuleysi með góðum og öruggum störfum. Hér verðum við í fullum gangi að skapa ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki í matvælaframleiðslu, heilbrigðisþjónustu, menntun, tækni og nýsköpun. Við höfum styrkt okkar innviði og sameiginlegar grunnstoðir. Við getum horft stolt til baka þar sem lífskjörin voru varin, komið var í veg fyrir að reikningnum væri velt yfir á heimilin og jöfnuður hafður að leiðarljósi. Við búum við lýðræðislegt og opið samfélag. Um þetta sameinumst við í dag, á baráttudegi verkalýðsins.

Kæru félagar, það eru víða erfiðleikar en við munum komast í gegnum þá og verðum vonandi sterkari og jafnari og samfélagið réttlátara á eftir. Gleðilegan 1. maí!

Texti: ein.is.

Mynd: ein.is

Hækka orlofsprósentu hjá vinnuskóla Fjallabyggðar – fjölbreytt störf í boði í sumar

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að hækka orlofsprósentu unglinga í vinnuskóla Fjallabyggðar í 13,04% í samræmi við kjarasamning Einingar Iðju. Fram til þessa hefur orlofsprósentan  verið 10,17%.

Á hverju sumri eru fjölbreytt sumarstörf í boði hjá Fjallabyggð, og er núna hægt að sækja um störfin til 8. maí næstkomandi. Nánari upplýsingar eru á vef Fjallabyggðar.

 

Menntaskólinn á Tröllaskaga opnar á mánudaginn – áfram kennt í fjarkennslu

Menntaskólinn á Tröllaskaga verður opnaður aftur mánudaginn 4. maí.  Nemendur og kennarar eru velkomnir í skólann en staðkennsla fer ekki fram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Reglur um 2 metra fjarlægð, hámark 50 í einu rými, handþvott og sprittun gilda áfram. Ef kennarar velja að mæta í skólann verður kennsla þeirra í fjarkennslustofunni eins og verið hefur.

Verið er að kanna möguleika á skólaakstri.

Ef einhverjar spurningar vakna vinsamlega hafðu samband við skólameistara á netfanginu lara@mtr.is.

Jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta – aðsend grein

Undirritaðir Kristján L. Möller og Ólafur H. Kárason fyrir hönd ýmissa rekstrar og þjónustuaðila á Siglufirði, Ólafsfirði og í Fljótum hafa sent inn meðfylgjandi umsögn til Umhverfis og samgöngunefndar Alþingis við tillögu til samgönguáætlunar áranna 2020-2024, og tillögu til samgönguáætlunar áranna 2020-2034.

Umsögnin endar á þessum orðum:

Undirrituðum er kunnugt um að á næstunni mun Vegagerðin skila af sér skýrslu varðandi fyrstu úttekt á þessum jarðgöngum og hvetja því til áframhaldandi vinnu við greiningu á byggðalegum, samfélagslegum og umferðaröryggislegum þáttum þessa verkefnis.

Við undirbúning næstu jarðgangaáætlunar er óhjákvæmilegt annað en að líta til mikilvægis framangreindra jarðganga og raða þeim framarlega í framkvæmdaröð jarðganga á Íslandi.

Með umsögn þessari vilja undirritaðir óska eftir því og hvetja háttvirta umhverfis- og samgöngunefnd sem og Alþingi til þess að setja jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta á stefnumarkandi og endurskoðaða samgönguáætlun áranna 2020-2034 og fjárveitingu til að hefja allar nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir sem allra fyrst á aðgerðaáætlun 2020-2024.

Það eru ánægjuleg tíðindi og mikilvægt að Vegagerðin hefur nú nýlega skilað af sér umræddri skýrslu um jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta og er því þessi umsögn sem 70 aðilar skrifa undir mikilvægt innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað til að þoka áfram gerð umræddra jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta.

Hér er slóð á umrædda umsögn okkar.

https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-1730.pdf

Umsögnin var send inn til umhverfis- og samgöngunefndar 25. mars sl.

Með jarðgangakveðju

Kristján L. Möller.

Ólafur H. Kárason.

 

Texti: Aðsend grein.

Sæplast gefur töskur og ritföng til grunnskólabarna í Dalvíkurbyggð

Sæplast í Dalvíkurbyggð mun gefa nemendum sem hefja skólagöngu í haust í 1. bekk Dalvíkurskóla og Árskógarskóla, skólatösku ásamt reiknivél og pennaveski með ritföngum að gjöf.

Með þessu framlagi vill Sæplast Iceland ehf. leggja sitt af mörkum til samfélagsins og einnig stuðla að því að nemendur allir mæti jafnir til leiks í haust hvað skólabúnað varðar. Síðustu ár hafa verðandi nemendur 1. bekkjar fengið skólatösku að gjöf frá Sæplast en þeir tóku við keflinu af fyrirtækinu Dalpay sem hóf þetta verkefni árið 2010.

Frábært verkefni í Dalvíkurbyggð.

Mynd: Ingunn Hafdís Júlíusdóttir
Mynd frá afhendingu á töskum frá síðasta skólaári.

Nýr erlendur sóknarmaður til KF

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur samið við bandarískan sóknarmann sem er ætlað að fylla í skarðið sem Alexander Már skyldi eftir, en hann samdi við Fram eftir eina leiktíð hjá KF, þar sem hann gjörsamlega blómstraði og skoraði 28 mörk á síðasta tímabili.

Sachem Wilson er kominn til Fjallabyggðar, hann heitir fullu nafni Theodore Develan Wilson, og er frá Ohio í Bandaríkjunum og er 25 ára, fæddur í október 1994. Hann er 185 cm á hæð og 86 kg og getur spilað á miðju og sem framherji. Hann er örfættur en einnig góður á hægri fæti. Hann spilaði síðast með Carrick Rangers í Norður Írlandi í efstu deild, en hann kom á frjálsri sölu þangað sl. haust. Árin á undan spilaði hann með NK Krka, ND Adria Miren og ND Gorica í Slóveníu. Þar á undan, eða til ársins 2016 spilaði hann í bandarísku háskóladeildinni.

Það er mikilvægt fyrir hann að byrja mótið vel og hann fær eflaust stórt hlutverk í sumar hjá KF, gangi honum vel að aðlagast liðinu og deildinni. Sachem er 26. erlendi leikmaðurinn sem kemur til að spila með KF á síðustu 10 árum.

Gert er ráð fyrir að fyrstu leikir KF verði í deildarbikarnum í byrjun júní og eftir miðjan júní muni deildin hefjast. Tímibilið mun án efa vera erfitt fyrir KF þar sem talsverðar breytingar hafa orðið á leikmanna hópnum, og mun skipta sköpum að sækja stig á heimavelli í sumar og þar skiptir stuðningur stuðningsmanna öllu máli.

 

Mynd: KFbolti.is

Siglufjarðarskarðsgöng úr botni Hólsdals

HéðinsfjarðargöngVegagerðin hefur unnið síðustu árin að forathugun á nýjum jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta. Greinargerð frá Vegagerðinni liggur núna fyrir og er lagt til að ný göng liggi úr botni Hólsdals Siglufjarðarmegin að rótum Skælings á móts við Lambanes í Fljótum, lengd gangna er áætluð 5,2 km með vegskálum. Skýrsluna má lesa hér.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur fagnað greinargerðinni vegna forathugunar á jarðgöngum frá Siglufirði yfir í Fljót og leggur ríka áherslu á að áfram verði haldið rannsóknum og í framhaldinu hönnun þessa mikilvæga samgöngumannvirkis. Bæjarstjóri Fjallabyggðar mun koma sjónarmiðum bæjarráðs á framfæri við Vegagerðina og þingmenn kjördæmisins og vinna áfram að málinu.

Álagningu vanrækslugjalda vegna skoðunar ökutækja frestað að nýju

HúsferðabílarÁlagningu vanrækslugjalds 1. apríl og 1. maí vegna skoðunar ökutækja verður frestað til 1. júní vegna COVID-19 faraldursins. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur staðfest ákvörðunina með reglugerð sem birt verður í Stjórnartíðindum í dag.

Ákveðið var að framlengja fyrri ákvörðun um frestun álagningar vegna aðstæðna í samfélaginu í tengslum við útbreiðslu Covid-19 kórónaveirunnar. Samkomubann hefur verið í gildi og ekki verður létt af fyrstu takmörkunum fyrr en 4. maí. Þá hafa margar skoðunarstöðvar verið með skerta afgreiðslu eða lokaðar vegna ástandsins.

Álagningin 1. apríl og 1. maí hefðu tekið til eigenda þeirra bifreiða sem hafa 1 og 2 í endastaf og hefðu því átt að láta skoða ökutæki sín í janúar og febrúar. Álagningin tekur einnig til þeirra sem fóru með ökutæki í skoðun sömu mánuði og áttu að fara í endurskoðun skv. ákvörðun skoðunarmanns ekki síðar en í lok febrúar (1) eða lok mars (2). Álagningu þessara gjalda verður því frestað til 1. júní.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar 10 ára

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar (KF) var stofnað við samruna Knattspyrnufélags Siglufjarðar (KS) og Leifturs frá Ólafsfirði. Samruni liðanna átti sér stað árið 2010 með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Stofnendur félagsins eru Róbert Jóhann Haraldsson, Hlynur Guðmundsson, Gunnlaugur Sigursveinsson, Magnús Þorgeirsson og Dagný Finnsdóttir. Á heimasíðu KF má sjá góða samantekt í tilefni þessa áfanga.

Í júní hefst 10. tímabil KF og á þessum tíma hefur KF spilað fimm sinnum í 2. deild, einu sinni í 1. deild og þrisvar í 3. deild og verður það því 6 tímabil KF í 2. deild árið 2020. Á þessum tíma hefur KF spilað 190 deildarleiki og unnið 79 leiki, gert jafntefli 38 sinnum og tapað 73 leikjum.

Umfjallanir: 

Vefmiðillinn Héðinsfjörður.is hefur fylgt KF frá árinu 2011 og skrifað reglulega fréttir og umfjallanir frá Íslandsmótinu með aðstoð styrktaraðila. Í ár verður 10. tímabilið sem vefurinn fylgir eftir KF með fréttum og umfjöllunum frá leikjum liðsins.

Markahæstir:

Markahæsti leikmaður KF frá stofnun 2010 er Alexander Már Þorláksson en hann hefur skorað 46 mörk fyrir KF í 43 leikjum sem er magnað afrek. Alexander Már hefur spilað tvö tímabil fyrir KF, í fyrra skiptið árið 2015 í 2. deild þar sem hann skoraði 18 mörk. Seinna tímabil hans hjá KF var árið 2019 þar sem hann skoraði 28 mörk.
Næstur í röðinni er Siglfirðingurinn Þórður Birgisson. Þórður hefur skorað 35 mörk fyrir KF í 57 leikjum. Þórður hóf sinn feril með KS árið 2001 og eftir það hefur hann spilað með ÍA, HK, KS/Leiftri, Þór og svo KF. Þórður spilaði fyrir KF tímabilin 2011, 2012, 2013 og 2016 þar sem hann var spilandi þjálfari síðasta árið sitt.
Þriðji markahæsti leikmaður í sögu KF er annar Siglfirðingur, Gabríel Reynisson.  Gabríel skoraði 21 mark í 69 leikjum fyrir KF.

100 leikja klúbburinn:

Þrír leikmenn hafa náð að leika 100 leiki fyrir KF, en það eru: Halldór Ingvar Guðmundsson með 158 og spilar enn, Halldór Logi Hilmarsson með 131 og spilar enn og Grétar Áki Bergsson með 109 leiki og spilar enn með liðinu.

Þjálfarar:

Þjálfarar meistaraflokks KF hafa verið 7 á þessum 10 árum. Hér fyrir neðan kemur listi þjálfara meistaraflokks KF.

Lárus Orri Sigurðsson – 66 leikir (2011-2013)
Dragan Stojanovic – 24 leikir (2014)
Jón Aðalsteinn Kristjánsson – 21 leikir (2015) (1 leikur 2016 og 1 leikur 2019)
Jón Stefán Jónsson – 16 leikir (2016)
Þórður Birgisson og Halldór Ingvar Guðmundsson – 5 leikir (2016)
Slobodan Milisic – 59 leikir (2017-  )*

Erlendir leikmenn:

Með KF frá árinu 2010 hafa spilað 25 erlendir leikmenn.

Heimild texta: KFbolti.is.Skíðuðu niður Arnfinnsfjall í Ólafsfirði

Arnfinnsfjall, eða Finninn eins og Ólafsfirðingar kalla fjallið er vinsælt til göngu á sumrin og einnig af skíðafólki yfir vetrartímann. Skipulagðar ferðir af ferðafélögunum hafa verið í gegnum tíðina á fjallið og er upphækkunin um 690 metrar, og krefjandi ganga.

Íslenskir skíðaunnendur fóru í vikunni upp á Arnfinnsfjall í Ólafsfirði og skíðuðu niður í frábæru veðri eins og myndir sýna. Útivistarmöguleikar í Fjallabyggð eru fjölmargir, þrátt fyrir að skíðasvæðin hafi verið lokuð vegna samkomubanns.

Myndir: S.S/F.J.

Mynd frá Fríða Jónasdóttir.

Gáfu súrefnisvélar til Hornbrekku

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur afhent sjúkradeild Hornbrekku að gjöf súrefnisdælur, eða súrefnisvélar. Eru þetta tæki sem létta undir þegar sjúklingar þurfa að fá auka súrefni.
Þannig tæki eru til á Hornbrekku en eru komin til ára sinna og upp gæti komið sú staða að fleiri vélar þyrftu að vera til staðar. Súrefnisvélar eru tæki sem eru uppseld úti hinum stóra heimi, en félaginu tókst að panta tvær vélar, og var aðeins tveggja vikna bið að fá þær afhentar.

Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar varð 65 ára gamall í síðustu viku og að því tilefni er gjöfin í minningu látinna félaga, sporgöngumannanna.

Það er Rótarýdagsnefnd klúbbsins sem hefur frumkvæði að veitingu samfélagsstyrkja eða gjafa og gerir tillögur um það til klúbbfunda. Að jafnaði eru slíkir styrkir veittir einu sinni á ári, á Rótarýdaginn og hefur klúbburinn komið að fjölmörgum samfélagsverkefnum í gegnum árin.

Mynd frá Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar.

Mynd frá Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar.

Mynd frá Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar.

Mynd frá Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar.

Bæjarlistamaður Akureyrar 2020

Vorkoma Akureyrarstofu var haldin í gær í netheimum. Veittar voru ýmsar viðurkenningar og tilkynnt að bæjarlistamaður Akureyrar árið 2020 er Ásdís Arnardóttir sellóleikari. Vegna samkomubanns var Vorkoman send út á Facebooksíðu Akureyrarbæjar og hægt er að skoða upptökuna á heimasíðunni Akureyri.is.

Bæjarlistamaðurinn Ásdís Arnardóttir er fædd árið 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá MR 1987 og stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólana í Reykjavík og á Seltjarnarnesi en hélt síðan utan til náms, fyrst til Barcelona en síðan til Boston, þaðan sem hún lauk mastersgráðu árið 1995. Undanfarin fjórtán ár hefur hún búið og starfað á Norðurlandi. Hún kennir á selló, kontrabassa, stjórnar strengjasveitum og hefur umsjón með kammertónlist í Tónlistarskólanum á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Hún hefur verið leiðandi sellóleikari í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þennan tíma. Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölmörgum viðburðum, eins og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju, Barokksmiðju Hólastiftis, Sumartónleikum á Hólum og verkefninu Norðlenskar konur í tónlist svo eitthvað sé nefnt. Á starfslaunatímabilinu hyggst Ásdís meðal annars minnast þess að 250 ár eru liðin frá fæðingu tónskáldsins Ludwigs van Beethoven, þá ætlar hún einnig að spila fyrir yngri jafnt sem eldri íbúa bæjarins.

Heiðursviðurkenningu hlaut Gestur Einar Jónasson fyrir störf sín að menningarmálum ýmis konar. Hann var í hópi fyrstu leikara sem voru ráðnir á fastan samning hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1973. Á tíma sínum hjá LA lék Gestur um eða yfir 100 hlutverk á sviði á Akureyri og á leikferðum víða um land, auk þess að leikstýra hjá L.A. og hjá áhugafélögum. Gestur hefur einnig gert það gott í bíómyndum og af þeim má nefna Útlagann, Kristnihald undir jökli og Stellu í orlofi. Hann var safnstjóri Flugsafns Íslands frá árinu 2008 til síðustu áramóta og vann þar að uppbyggingu safnsins sem varðveitir mikilvæga atvinnu- og menningarsögu.

Snorri Guðvarðsson málarameistari hlaut viðurkenningu Húsverndarsjóðs Akureyrar fyrir ævistarf hans á sviði húsverndar á Íslandi. Sérsvið Snorra er innanhússmálun á friðlýstum og friðuðum kirkjum og húsum um land allt og er óhætt að segja að hann sé einn fremsti sérfræðingur og fagmaður landsins á þessu sviði. Hann byggir málningarvinnu sína oftar en ekki á rannsóknarvinnu sem er fólgin í í því að greina eldri málningarlög og litasamsetningar og færa litaval og málningaráferð til upprunalegs horfs. Starfsferill Snorra spannar tæp 50 ár og á þeim tíma hefur hann unnið við málun og viðgerðir á um 50 kirkjum víðsvegar um landið. Hann hefur unnið í flestöllum gömlu kirkjum í Eyjafirði og síðustu ár hefur hann unnið í áföngum við málun á Lögmannshlíðarkirkju og Minjasafnskirkjunni. Snorri hefur unnið við mörg hús í húsasafni Þjóðminjasafnsins í gegnum árin auk annarra friðlýstra húsa víðvegar um landið.

Byggingalistaverðlaun hlaut Anna Margrét Hauksdóttir arkitekt FAÍ, AVH ehf. og Bergfesta byggingarfélag fyrir útfærslu fjölbýlishúsa við Halldóruhaga 8, 10, 12 og 14. Húsagerðin er tveggja hæða fjórbýlishús með útitröppum. Húsunum er skipt upp í tvíbýliseiningar, tveim og tveim saman með opnum stigum á milli. Útistigar njóta skjóls undir þaki og á bak við rimlaverk og eru því ekki meginatriði í útliti húsanna eða götumyndinni.

Image preview
Myndir og texti: Aðsent efni.

Image preview

Færri landanir og minni afli

Hafnarstjórn Fjallabyggðar birti aflatölur fyrstu þriggja mánaða ársins á fjarfundi sem haldinn var í vikunni.  Á Siglufirði var aflinn 3.503 tonn í 119 löndunum, en var 5.893 tonn í 271 löndunum á sama tíma árið 2019. Munaði því talsvert á fjölda landana og afla á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við sama tíma árið 2019.

Í Ólafsfirði var aflinn fyrstu þrjá mánuði ársins 125 tonn í 109 löndunum, en var 177 tonn í 162 löndunum á sama tímabili árið 2019.

 

Stóri plokkdagurinn

Stóri plokkdagurinn verður haldinn á Degi umhverfisins laugardaginn 25. apríl.

Fyrirtæki og bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt í hreinsun og fegrun umhverfisins af tilefni degi umhverfisins, 25. apríl.

Nú er akkúrat tíminn þar sem rusl er áberandi, snjórinn er á undanhaldi og gróðurinn að taka við sér, það gerir ruslatínslu auðveldari.  Samkomubann er alveg upplagt til að taka á því í plokkinu. Frábær útivera og hreyfing um leið og við finnum fyrir tilgangi, sjáum árangur, eflum núvitund og gerum umhverfinu og samfélaginu okkar gott.

Eru íbúar eindregið hvattir til að taka þátt og fara út og plokka upp rusl í sínu næsta nágrenni. Fjallabyggð mun taka þátt og leggur til poka sem aðgengilegir verða áhugasömum Plokkurum fyrir utan Kaffi Klöru í  Ólafsfirði og fyrir utan Þjónustumiðstöðina á Siglufirði.

Hægt er að skilja eftir poka við gámasvæðin og mun sveitarfélagið sjá um að fjarlægja þá.

Plokkum í samkomubanni:
– Frábær hreyfing fyrir alla aldurshópa
– Einstaklingsmiðað
– Hver á sínum hraða
– Hver ræður sínum tíma
– Frábært fyrir umhverfið
– Fegrar nærsamfélagið
– Öðrum góð fyrirmynd

Plokk á Íslandi er hópur einstaklinga sem bera virðingu fyrir umhverfinu og hafa það sem áhugamál að fara um illa hirt svæði og þrífa þar upp plast, pappa og annað rusl sem fallið hefur til frá íbúum, framkvæmdum eða þungaflutningum innan marka sveitarfélaga, á girðingum og í skurðum á víðavangi og síðast en ekki síst við strendur landsins. Hópurinn á sérsvæði á Facebook og telja meðlimir hans rúmlega 6.000 manns. Þar deila meðlimir sigrum og áskorunum í umhverfismálum og þar hvetja meðlimir hvor aðra til dáða og birta myndir af rusli sem tekið hefur verið úr náttúrunni og fært á viðeigandi stofnanir.

Hátíðarhöldum sjómannadagsins í Fjallabyggð aflýst

Tilkynning frá Sjómannafélagi Ólafsfjarðar og Sjómannadagsráði.

Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Sjómannadagsráð hafa ákveðið að aflýsa öllum hátíðarhöldum vegna sjómannadagsinns í Fjallabyggð 2020, þetta er að sjálfsögðu gert vegna Covid-19 faraldursins, en við munum koma sterkir til baka með frábæra sjómannadagshátíð árið 2021.

Við viljum þakka öllum þeim sem voru tilbúnir að styrkja sjómannadagshátíðina 2020, og vonumst til að þeir verði með okkur á næsta ári.

Sjómannadagurinn verður áfram hátíðisdagur sjómanna, þó hann verði með breyttu sniði í ár, við munum áfram sýna þessum degi og því sem hann stendur fyrir alla þá virðingu sem sjómannadagurinn verðskuldar, og við skulum öll nota þennan dag til að sýna samstöðu, vináttu, þakklæti og virðingu, þá verður okkar litla samfélag enn betra.

SJÓMANNADAGURINN 7. JÚNÍ 2020.

Kaupum blóm og merki dagsins, drögum fána að hún, verum með fjölskyldum okkar og grillum HEIMA.

Sjómannafélag Ólafsfjarðar.

Sjómannadagsráð.

Mynd frá Sjómannafélag Ólafsfjarðar.

Treystum á ferðaþjónustuna

Ferðaþjónustan á Norðurlandi hefur byggst upp á löngum tíma. Að uppbyggingunni hafa komið þrautseigir frumkvöðlar, hugsjónamenn sem hafa séð tækifæri til þess að byggja upp sitt samfélag, skapa tekjur og búa til ný störf. Á undanförnum árum hefur áherslan verið mikil á að gera ferðaþjónustu að heilsársatvinnugrein með aukinni markaðssetningu á vetrinum og stöðugri vöruþróun. Fyrirtækjum hefur fjölgað um allt land og fjárfestingar aukist en innviðauppbygging ekki haldið í takt við eftirspurn ferðamanna eftir heimsóknum á svæðið.

Staðan er því sú að enn starfar ferðaþjónustan á stærstum hluta landsins við þann veruleika að árstíðarsveiflan er gríðarleg. Á Norðurlandi kemur um 80% ferðamanna á tímabilinu frá maí til september. Hina sjö mánuði ársins er lítið að gera því ferðamenn eiga erfitt með að komast til mismunandi landshluta. Tekjurnar sem verða til þessa fimm mánuði háannatímans verða því að duga til þess að reka fyrirtækin allt árið.

Nú þegar er orðið ljóst að háannatíminn í ár tapast að stærstum hluta vegna áhrifa Covid-19 faraldursins. Rekstrartekjur fyrirtækja í heilt ár eru því litlar sem engar og ljóst að áhrifin á fyrirtækin, eigendur og starfsfólk verða gríðarleg.

Að sjálfsögðu er erfitt að koma að fullu leyti í veg fyrir neikvæð áhrif kreppu eins og nú stendur yfir og því ljóst að við munum sjá breytta mynd ferðaþjónustunnar þegar upp er staðið. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þær aðgerðir sem gripið er til nú hafa mikil áhrif á það hver sú mynd verður. Það er nauðsynlegt að lágmarka skaðann og tryggja að við stöndum ekki uppi með landssvæði þar sem öll þjónusta hefur lagst af. Standa þarf vörð um fyrirtækin sem hafa byggt upp öflugan rekstur á undanförnum árum svo að ekki tapist öll viðskiptatengsl sem hafa verið byggð upp. Þegar opnast á ný fyrir ferðalög á milli landa stöndum við frammi fyrir harðari samkeppni en nokkru sinni fyrr þar sem þjóðir keppast við að laða til sín ferðamenn og flugsæti. Þar mun þekking og reynsla skera úr um hverjir ná árangri.

Aðgerðir til stuðnings ferðaþjónustufyrirtækjum þurfa að miða að því að koma fyrirtækjum í var fram að næstu háönn, tryggja rekstrarhæfi þeirra þannig að hægt verði að halda starfsfólki og vinna að vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. Þannig verða öflugir ferðaþjónustuaðilar um allt land tilbúnir til að byggja á ný upp markaðinn svo íslensk ferðaþjónusta komist hratt og örugglega upp úr lægðinni. Með því að byggja á þeirri mikilvægu auðlind sem býr í fólkinu á bakvið ferðaþjónustuna verður Ísland mun samkeppnishæfara þegar ferðalög verða leyfð aftur og við eigum miklu meiri möguleika á að ná góðum árangri í baráttunni um að fá ferðamenn til Íslands.

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Texti: aðsend grein.

Átak í merkingu gönguleiða á Norðurlandi

Markaðsstofa Norðurlands hefur kynnt hugmynd um átak í merkingu gönguleiða á Norðurlandi fyrir sveitarfélögunum. Átakið hefur tvíþættan tilgang – annars vegar að styrkja innviði ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og hins vegar til að vekja athygli á þeim fjölda gönguleiða sem eru í boði á Norðurlandi. Markaðsstofan hefur nú þegar frétt af áformum nokkurra sveitarfélaga um að gera eitthvað í þessa veru.

Bauð lægst í endurgerð leikskólalóðar í Ólafsfirði

Tvö tilboð bárust í endurgerð leikskólalóðar á Leikhólum í Ólafsfirði. Kostnaðaráætlun var 38.965.803 kr,  Sölvi Sölvason bauð 43.984.200 kr í verkið og Smári ehf. bauð 47.744.467 kr.

Bæjarráð Fjallabyggð samþykkti að taka tilboði lægstbjóðenda í verkið, sem var Sölvi Sölvason.

Í leikskólanum Leikhólum eru yfir 40 börn á aldrinum 1-5 ára og deildirnar eru þrjár, Álfhóll, Hulduhóll og Tröllahóll.

 

157 án atvinnu í Fjallabyggð og 238 í Dalvíkurbyggð

Samkvæmt nýjustu tölum frá Vinnumálastofnun þá voru 157 án atvinnu í Fjallabyggð í lok mars mánaðar og jókst um 100 manns á milli mánaða. Atvinnuleysi mælist nú 7% í Fjallabyggð.

Þá eru 238 án atvinnu í Dalvíkurbyggð í lok marsmánaðar, og mælist atvinnuleysi þar núna 5,3%.

Á Akureyri eru 1794 án atvinnu og mælist atvinnuleysi 5,21%.

Í Skagafirði eru 175 án atvinnu og mælist atvinnuleysi 3,7%.

Almennt atvinnuleysi fór strax vaxandi framan af marsmánuði á öllu landinu samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun, einkum þó þegar líða tók á mánuðinn þegar lög um minnkað starfshlutfall tóku gildi sem heimiluðu að starfshlutfall launafólks yrði fært niður í allt að 25% starf á móti greiðslum atvinnuleysisbóta sem námu þá allt að 75% hlutfalli á móti launum.

 

Sigló hótel lokar tímabundið

Sigló hótel hefur tilkynnt á facebook-síðu sinni að hótelinu hafi verið lokað tímabundið.  Tilkynningin er þar á ensku, en fram kemur að starfsmenn hlakki til að opna aftur fljótlega.  Einnig kemur fram að starfsmenn hafi notað tímann í að gera allt hreint.

Ekki náðist í forráðamenn hótelsins vegna þessarar fréttar. Í símsvara hótelsins er bent á að hótelið sé lokað tímabundið en hægt sé að senda póst á siglohotel@siglohotel.is fyrir allar fyrirspurnir.

 

 

Verkefni á Norðurlandi vestra fengu styrki frá Rannís

RANNÍS hefur tilkynnt um niðurstöðu fyrri úthlutunar úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir árið 2020. Að þessu sinni hafði sjóðurinn um 105 milljónir króna til úthlutunar og hlutu alls 73 verkefni styrk. Í styrktum verkefnum eru 125 nemendur skráðir til leiks í alls 350 mannmánuði. Alls fengu fimm verkefni sem tengjast starfsemi á Norðurlandi vestra brautargengi.

Styrkir á Norðurlandi vestra:

  •  Sáttanefndir og störf þeirra í Þingeyjarsýslu 1798- 1936 – Rannsóknarsetur HÍ á Norðurlandi vestra– 1800 þúsund –  6 mannmánuðir – 2 nemar
  •  Endurnýting ofurtölva til jöfnunar á orkusveiflum – Etix Everywhere Borealis rekstraraðili Gagnaversins á Blönduósi – 900 þúsund – 3 mannmánuðir – 1 nemi
  •  Sjálfvirk dýptarstýring umhverfismæla í hafi og skráningar í gagnagrunn – Náttúrustofa Norðurlands vestra og Biopol ehf.- 1800 þúsund – 6 mannmánuðir – 2 nemar
  •  Notkun staðbundinna sjálfvirkra myndavéla til vöktunar á landsel í mikilvægum látrum – Hafrannsóknarstofnun, Hvammstanga – 900 þúsund – 3 mannmánuðir – 1 nemi
  •  Hugmyndavinna og framtíðarsýn fyrir húsakynni Kvennaskólans og Textílmiðstöðvar Íslands á Blönduósi – 1500 þúsund – 5 mannmánuðir – 5 nemar

Alla styrkina má sjá á skýrslu frá Rannís.

Enginn í einangrun á Norðurlandi vestra

Aðeins eru þrír í sókttkví á Norðurlandi vestra, einn á Blönduós og tveir í Skagafirði. Þá er enginn í einangrun á Norðurlandi vestra samkvæmt nýjustu tölum. Alls hafa 469 lokið sóttkví á Norðurlandi vestra.

Á Norðurlandi eystra eru ennþá 6 í einangrun og 35 í sóttkví, flestir á Akureyri. Sjö eru í sóttkví í Fjallabyggð og einn í einangrun.  Tveir eru í sóttkví á Dalvík og einn í einangrun.

 

Framlengdu samning um rekstur tjaldsvæðanna í Fjallabyggð

Starfsmenn Kaffi Klöru munu sjá áfram um rekstur tjaldsvæðanna í Fjallabyggð í sumar, líkt og síðasta sumar. Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að framlengja samninginn milli Kaffi Klöru og Fjallabyggðar um rekstur tjaldsvæðanna í sumar. Mikil ánægja hefur verið með rekstur tjaldsvæðanna í Fjallabyggð og hefur starfsfólkið staðið sig frábærlega í að miðla upplýsingum til ferðamanna og birt reglulega myndir á facebooksíðu tjaldsvæðis Fjallabyggðar.

 

Innra tjaldsvæði Fjallabyggðar, mynd, Héðinsfjörður.is
Tjaldsvæði Fjallabyggðar, Ólafsfirði. Mynd: Héðinsfjörður.is.

 

Golfklúbbur Siglufjarðar fær æfingasvæði á Hóli

Golfklúbbur Siglufjarðar óskaði í byrjun marsmánaðar eftir afnotum af neðra fótboltasvæðinu á Hóli á Siglufirði undir starf fyrir börn- og unglinga, sama svæði og félagið hafði afnot af sumarið 2019, ásamt slætti á svæðinu tvisvar sinnum yfir sumarið eða styrk fyrir kostnaði við slátt á svæðinu.

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur nú samþykkt þessa  beiðni og fær GKS afnot af neðra fótboltasvæðinu við Hól ásamt styrk 150.000 kr. til þess að slá svæðið.

Ekki hefur verið auglýst hvenær æfingar hefjast í sumar á svæðinu.

 

Aðeins sex í sóttkví í Fjallabyggð

Aðeins eru sex manns í sóttkví í Fjallabyggð og einn í einangrun. Á Siglufirði eru fjórir í sóttkví og tveir í Ólafsfirði, þá er einn í einangrun á Siglufirði. Á Dalvík eru aðeins 3 í sóttkví og einn í einangrun. Á öllu Norðurlandi eru aðeins 56 í sóttkví en alls hafa 81 smit  verið staðfest á því svæði frá því kórónufaraldurinn byrjaði. Á öllu landinu hafa 1754 smit verið staðfest.

 

Lögreglan á Norðurlandi vestra leitaði að ísbirni

Vegna umræðna síðustu daga vill lögreglan á Norðurlandi vestra koma eftirfarandi á framfæri.

Seint á laugardagskvöld  þann 11. apríl fékk lögreglan á Norðurlandi vestra, ábendingu um torkennileg spor í nágrenni sveitabæjar norðarlega á Skaga. Strax kviknuðu grunsemdir um, að um hugsanleg ísbjarnarspor gæti verið að ræða. Lögreglan fór á vettvang á sunnudagsmorgun og voru ummerkin mjög ógreinileg og erfitt að meta eftir hvað umrædd för væru. Ákveðið var að grennslast fyrir og leitaði lögreglan allan sunnudaginn 12.apríl síðastliðinn, umhverfis sporin og næsta nágrenni sem og á Skagaheiði án þess að verða vör við nokkur önnur spor eða nokkur önnur þau ummerki sem gætu stutt grunsemdir um að hvítabjörn væri á sveimi. Ljóst er að sporin eru nokkurra daga gömul og mögulega frá því á þriðjudeginum 7. apríl.

Því var sú ákvörðun tekin að ekki væri grundvöllur til frekari aðgerða að hálfu lögreglu.

Ef einhverjir búa yfir frekari upplýsingum varðandi þetta mál er þeim bent á að hafa samband við lögregluna í síma 112.

Bæjar- og menningarvefur