Karlmaður barði nemenda í Hólaskóla

Kona á þrítugsaldri, nemandi í Hólaskóla, var flutt á sjúkrahús í Reykjavík aðfararnótt sunnudags eftir alvarlega líkamsárás á nemendagörðum skólans. Karlmaður sem var gestkomandi í skólanum réðist á konuna eftir gleðskap og barði hana ítrekað í andlitið.

Hlaut hún mikla áverka, skurði í andlit og þá brotnuðu í henni margar tennur.

Að sögn varðstjóra lögreglunnar á Sauðárkróki er líðan konunnar eftir atvikum. Árásarmaðurinn var handtekinn um nóttina og yfirheyrður á sunnudag. Málið telst upplýst.

heimild: Rúv.is

Skýrsla vegna byggingar Árskóla

Fundargerð Sveitarstjórnar vegna byggingar Árskóla:

Sigurjón Þórðarson tók  til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.

Skýrsla Centra um fjárhagslega áhrif viðbyggingar við Árskóla á fjárhag sveitarfélagsins, byggir fyrst og fremst á óraunhæfum áætlunum og framreiknuðum hagræðingaraðgerðum í rekstri Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem ekki bólar enn á. Á óvart kemur sömuleiðis að Centra skuli leggja það til að farið verið á svig við 64. grein nýsamþykktra sveitarstjórnarlaga, sem kveður á um 150% skuldaþak.

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og ítrekar fyrri bókun byggðarráðs.

”Ljóst er út frá þeim gögnum sem fyrir liggja að sveitarfélagið ræður vel við framkvæmdina. Með henni fer sveitarfélagið ekki upp fyrir það skuldaþak sem sett hefur verið og munar nokkru þar um. Niðurstöður skýrslunnar eru eftirfarandi og tala þær sínu máli: “Ástand núverandi skólahúsnæðis að Freyjugötu veldur því að nauðsynlegt er að verja verulegum fjármunum til viðhalds eða byggja viðbyggingu við Árskóla. Miðað við þær forsendur um kostnað og fjármögnun sem framkvæmdin byggir á, auk þess rekstrarhagræðis sem af henni hlýst, er viðbygging við Árskóla mun hagfelldari fyrir sveitarfélagið og mun hafa jákvæð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins.”

 

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri tók til máls og lagði fram eftirfarandi:

Sveitarstjóri óskar bókað, í  64.grein sveitarstjórnarlaga stendur m.a.:

64. gr. Viðmiðanir um afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga.
Ráðherra skilgreinir í reglugerð nánar þau viðmið sem lögð eru til grundvallar skv. 2. mgr., þar á meðal um útgjöld, tekjur, eignir, skuldir og skuldbindingar og aðlögun sveitarfélaga að þeim. Þar skal jafnframt heimilt að undanþiggja nánar tilgreindar skuldir eða skuldbindingar einstakra sveitarfélaga þannig að þær hafi engin eða aðeins hlutfallsleg áhrif skv. 2. tölul. 2. mgr.

Texti frá Skagafjordur.is

 

Evrópa unga fólksins

Evrópa unga fólksins styrkir verkefni ungs fólks á aldrinum 13 – 30 ára og þeirra sem starfa með ungu fólki.

  •  Langar þig að fara í hópferð til Evrópu með vinum þínum að hitta annað ungt fólk í Evrópu?
  •  Ertu með góða hugmynd og langar í milljón í styrk til að framkvæma hana?
  •  Langar þig að fara til Spánar í heilt ár fyrir 10.000kr?

Mættu í Hús frítímans þann 13. mars til að kynnast tækifærum í Evrópu fyrir þig.

  Nánar um EUF á www.euf.is

Keflavík valtaði yfir Tindastól í Lengjubikarnum

Keflavík og Tindastóll mættust í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag í Reykjaneshöllinni. Það er skemmst frá því að segja að lið heimamanna gjörsigraði Tindastól með 7 mörkum gegn engu. Staðan var 4-0 í hálfleik og Keflavík bætti við marki á 60. mínútu en það var svo í blálokin að tvo mörk komu frá heimamönnum og lokatölur því 7-0.

Keflavík gerði sex skiptingar en Tindastóll fjórar. Leikskýrsluna frá KSÍ má finna hér.

Næsti leikur Tindastóls:

sun. 18. mar. 12 16:00 Stjarnan – Tindastóll
Byrjunarliðin:  Keflavík – Tindastóll
1 Ómar Jóhannsson  (M) 3 Pálmi Þór Valgeirsson
4 Haraldur Freyr Guðmundsson  (F) 4 Magnús Örn Þórsson
7 Jóhann Birnir Guðmundsson 6 Björn Anton Guðmundsson
8 Grétar Atli Grétarsson 7 Aðalsteinn Arnarson
9 Guðmundur Steinarsson 8 Atli Arnarson
11 Magnús Sverrir Þorsteinsson 9 Árni Einar Adolfsson  (F)
15 Bojan Stefán Ljubicic 10 Fannar Freyr Gíslason
17 Arnór Ingvi Traustason 11 Fannar Örn Kolbeinsson
22 Magnús Þór Magnússon 12 Arnar Magnús Róbertsson  (M)
25 Frans Elvarsson 17 Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson
28 Viktor Smári Hafsteinsson 20 Árni Arnarson

Matís á Sauðárkróki rannsakar fiskprótein gegn sykursýki

Fiskprótín gegn sykursýki

Í starfstöð Matís á Sauðárkróki er nú verið að kanna virkni blóðsykurslækkandi lífefna úr sjávarfangi en markmið rannsóknarinnar er að komast að því hvort hægt sé að nota fiskprótín í baráttunni gegn sykursýki.

„Við höfum verið að skoða hvort það sé hægt að einangra prótín úr fiski og nota það til þess að lækka blóðsykur því að of hár blóðsykur er stækkandi vandamál í heiminum,“ segir Hólmfríður Sigurðardóttir, starfsmaður Matís. Hún segir að rannsóknir hafi sýnt að hjá þjóðum þar sem fiskneysla er mikil sé tíðni sykursýki 2 lægri en annars staðar. Starfsmenn Matís vilja því meina að hægt sé að nota fiskprótín til að hamla of háum blóðsykri – og um leið bæta nýtingu og verðmæti sjávarfangs.

Talið er að árið 2025 verði 300 milljónir manna með sykursýki. „Þannig að það yrði mjög jákvætt ef við gætum notað þurrkað fiskprótin og hvað þá ef það væri hægt að nota afskurð úr fiskvinnslunum og einangra prótín og þurrka það og selja sem fæðubótarefni með andsykursýkisvirkni,“ segir Hólmfríður, Slíkt yrði ekki aðeins bylting fyrir þá sem þjást af sykursýki, heldur einnig fyrir íslenskan fiskiðnað.

Heimild: Rúv.is

Bílvelta á Þverárfjalli og á Holtavörðuheiði í gær

Bíll valt á Þverárfjalli í gærkvöld og á svipuðum tíma eða um kl. 21.30 valt bíll á Holtavörðuheiði. Bæði óhöppin tengjast slæmri færð á svæðinu en enginn slasaðist. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Blönduósi valt bíll á Holtavörðuheiði um kl. 21.30. Þrennt var í bílnum og slasaðist enginn en bíllinn sem var á norðurleið, er nokkuð skemmdur og þurfti að draga hann af staðnum með dráttarbíl. Mikil hálka var á heiðinni. Lögreglan á Sauðárkróki segir að par sem var í bílnum er valt á Þverárfjalli hafi verið flutt á sjúkrahúsið á Sauðárkróki til skoðunar og síðan sent heim. Þau hafi sloppið við meiðsl. Vond færð var efst á Þverárfjalli og lenti bíll parsins í skafli á miðjum vegi, ökumaður missti stjórn á honum með þeim afleiðingum að hann valt og endaði á toppnum.

EFLING FERÐAÞJÓNUSTU Á NORÐUR- OG AUSTURLANDI

 EFLING FERÐAÞJÓNUSTU Á NORÐUR- OG AUSTURLANDI

 Sólarhringstilboð milli Akureyrar og Kaupmannahafnar – aðrir áfangastaðir í Evrópu til skoðunar í haust og vetur

 Iceland Express mun fljúga vikulega milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í júlí og fram í ágúst. Fyrsta flugið verður frá Akureyri síðdegis mánuaginn 2. júlí. Ef vel gengur með þessa þjónustu í samvinnu við ferðaþjónustuaðila, sveitarfélög á Norðurlandi og fleiri er Iceland Express með í skoðun að fljúga frá Akureyri til annarra áfangastaða í Evrópu í haust og vetur. Er þá helst horft til Lundúna.

Samningur hefur verið gerður milli Iceland Express annars vegar og Flugklasa Norðurlands Air 66N og ISAVIA hins vegar um að styrkja millilandaflug frá Akureyri. En að Flugklasa standa aðilar í ferðaþjónustu, sveitarfélög og fyrirtæki á Norðurlandi. Sameiginlega og hver um sig munu þessir aðilar kynna Norðurland sem ferðamannasvæði og þá þjónustu sem fyrirtæki þar hafa upp á að bjóða sem og þjónustu Iceland Express.

Af þessu tilefni býður Iceland Express upp á sólarhrings tilboð sem hefst kl. 12 á hádegi föstudaginn 9. mars og lýkur á hádegi á laugardag. Tiltekinn sætafjöldi býðst á 39.800 samanlagt með sköttum og gjöldum fram og til baka milli Akureyrar og Kaupmannahafnar

*. Flogið verður frá Kaupmannahöfn til Akureyrar á mánudögum kl. 13:10 og lent á Akureyri kl. 16:20 og þaðan flogið aftur til Kaupmannahafnar kl. 17:20 þar sem lent er kl. 20:20 að staðartíma.

*Takmarkað sætaframboð, valdar dagsetningar og valin flug í tilboðinu.

 

Þegar flugtímabilinu milli Akureyrar og Kaupmannahafnar lýkur verður boðið upp á beint flug milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar í þrjár vikur. Fyrsta flugið frá Egilsstöðum verður mánudaginn 13. ágúst og eru brottfarartímar þeir sömu og í fluginu milli Kaupmannahafnar og Akureyrar.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Heimir Már Pétursson upplýsingafulltrúi S: 862 2868 heimirp@icelandexpress.is

Kaupfélag Skagfirðinga fjármagnar skólabyggingu

Sveitarstjórn Skagafjarðar hefur samþykkt að ráðast í framkvæmdir við viðbyggingu Árskóla á Sauðárkróki. Kaupfélag Skagfirðinga hefur boðist til að lána fyrir framkvæmdum fyrsta áfanga, án vaxta og afborgana, á byggingartímanum.

Skólinn starfar nú á tveimur stöðum í bænum og er ætlunin að byggja við og bæta skólahúsið við Skagfirðingabraut og færa allt skólastarfið þangað. Sameining skólans á einum stað skapar mikla hagræðingu og er til bóta fyrir nemendur og starfsfólk.

Tindastóll átti ekki möguleika gegn KR

KR vann Tindastól örugglega, 84:66, í kvöld en KR var yfir í hálfleik, 39:31, eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik. Síðan skildu fljótlega leiðir og sigur KR var aldrei í hættu í seinni hálfleik. Joshua Brown skoraði 21 stig fyrir KR, Dejan Sencanski 19 og Robert Ferguson 18. Maurice Miller skoraði 23 stig fyrir Tindastól og Curtis Allen 14.

KR – Tindastóll       2:4, 6:4, 12:11, 16:11, 21:15, 23:19, 28:23, 39:31, 41:32, 52:35, 57:38, 63:42, 69:53, 73:53, 75:59, 80:62, 84:66.

Staðan eftir leiki kvöldsins:

34 Grindavík
24 KR
24 Stjarnan
24 Þór Þ.
24 Keflavík
18 Snæfell
18 Tindastóll
18 Njarðvík
14 ÍR
14 Fjölnir
8 Haukar
0 Valur

Sundlaug Sauðárkróks opin lengur

Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti í gær á fundi sínum að hafa Sundlaug Sauðárkróks opna mánudaga – fimmtudaga frá kl. 06.50-20.45 og lengja þar með afgreiðslutímann frá því sem fyrr hafði verið ákveðið. Föstudaga verður opið til kl. 20.00  og um helgar frá kl. 10-16.  Gestir eru beðnir um að fara upp úr laug 15 mínútum fyrir lokun.

Einnig var samþykkt að taka upp að nýju gjald fyrir aðgang að Gufuklefanum.  Héðan í frá verða gestir eldri en 18 ára sem vilja fara í gufu rukkaðir um 500 krónur aukalega. Þá verður einnig boðið uppá að leigja gufuklefann fyrir einkatíma, klukkutíma í senn og nemur klukkutímaleigan 4.000.- krónum.

Breytingin tekur gildi frá og með mánudeginum 12. mars.

Sögustund af stofnun félagsins Drangey

Sögustund af stofnun félagsins

Íþróttafélagið Drangey

Á fögrum haustdegi, 10. október 1946, kom saman á Sauðárkróki hópur drengja á aldrinum 9-13 ára til að stofna íþróttafélag. Fundurinn var haldinn að lokinni æfingu á íþróttavellinum úti á Eyri, uppi í brekkunni undir berum himni. Skagafjörður skartaði sínu fegursta, útverðirnir, Drangey, Málmey og Þórðarhöfði, blöstu við sjónum okkar að ógleymdum Tindastól og Reykjaströnd. Þetta var heillandi dagur, og áhuginn skein úr hverju andliti.  Forgöngumenn að stofnun félagsins voru þeir Kári Jónsson, Gísli Blöndal og Hörður Pálsson. Tvær tillögur komu um heiti félagsins. Hörður Pálsson kom með þá tillögu að nafnið yrði  Drangey en Gísli Blöndal stakk upp á því að félagið yrði kennt við bæinn og skirt íþróttafélag Sauðárkróks. Ræddum við drengirnir málin um stund og ákváðum að nefna íþróttafélagið Drangey. Síðan var stjórn kosin. Hana skipuðu Hörður Pálsson formaður, Kári Jónsson ritari og Ásgrímur Helgason gjaldkeri. Fundurinn ákvað einnig að haldið yrði innanfélagsmót næsta sunnudag og er það eitt merki hins einhuga vilja fundarmanna. Síðar voru félaginu sett lög, en markmið þess var að æfa og keppa í frjálsum íþróttum.

Að lokum var ársgjaldið ákveðið og var niðurstaðan 5 krónur. Lágu þá eigi fleiri mál fyrir fundinum enda tekið mjög að skyggja. Fundi slitið kl. 6 , e.h.

Ekki áttum við peninga til að kaupa fyrir ahöld til íþróttaiðkana, en einhvern veginn tókst að öngla saman fyrir drengjakúlu. Ég man að við fengum Vagn Kristjánsson til að kaupa hana fyrir okkur, en hann var með bíl í forum milli Reykjavíkur og Sauðárkróks. Oft var kúlunni kastað á lóðinni fyrir framan húsið hjá Gísla Blöndal. Var komin stór dæld í blettinn þar sem hún lenti oftast. Ég man, að Lárus, faðir Gísla, stóð oft á tröppunum og fylgdist með tilþrifunum. Hafði hann auðsjáanlega lúmskt gaman að.

En ekki nægði okkur að eiga aðeins kúluna. Okkur vantaði fleiri íþróttaáhöld. Því var ákveðið að halda dansleik í Bifröst til fjáröflunar. Við fengum Björn Gíslason harmonikkuleikara til að spila fyrir dansinum. Talsvert kom af fólki á ballið og man ég, að sumum dansgestunum varð fremur starsýnt á okkur þessa peyja , sem stóðum við dyrnar og rukkuðum aðgangseyrinn. Fyrir ágoðann var keypt kringla, spjót, málband og skeiðklukka. Voru þetta miklir dýrgripir í okkar augum, og hver stund var notuð til æfinga.

 

Eitt atvik er mér afar minnisstætt . Við vorum að æfa úti á Eyri. Óskar bróðir minn var að kasta spjóti, og geigaði kastið hjá honum. Spjótið flaug upp í brekku, þar sem nokkrir drengir voru að leika sér. Skipti það engum togum , að spjótið lenti í handarkrika eins drengsins, Ella Egils, og gekk á hol. Varð að fara með hann á spítala til að gera að sárum hans. Þar munaði ekki miklu að verr færi. Hefði spjótið stungist örlitlu innar hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Þetta atvik hafði mikil áhrif á okkur drengina.

 

Íþróttafélagið Drangey starfaði í um það bil þrjú ár. Það hafði veruleg áhrif , því að mikill íþróttaáhugi kviknaði af starfi þess. Sá áhugi hélst hjá mörgum fram á fullorðinsár.

En það voru ekki einungis drengir úr Ytrikróknum , sem æfðu íþróttir. Strákarnir í Suðurbænum vildu sýna , að þeir væru ekki síður liðtækir í íþróttum en við. Stofnuðu þeir Knattspyrnufélag Sauðárkróks (K.S.)

Fundir voru haldnir nokkuð reglulega, og þá var farið eftir almennum fundarsköpum. Og við gáfum út blað, Íþróttablaðið Drangey, sem lesið var upp úr á fundinum. Þar var nær einungis fjallað um íþróttir. Þetta starf var mjög þroskandi  fyrir okkur og hefur komið að góðu haldi seinna á lífsleiðinni. Vorið 1949 gengum við flestir félagarnir í ungmennafélagið Tindastól.

Þegar Íþróttafélagið Drangey var leyst upp og við gengum félagarnir í Tindastól, bættust ungmennafélaginu ekki aðeins íþróttamenn, heldur félagsvanir drengir, sem höfðu stýrt fomlegu félagi í þrjú ár. Leið ekki á löngu þar til ýmsir þeirra voru kjörnir til trúnaðarstarfa fyrir Tindastól.

Það sem ef til vill er merkilegasta við Íþróttafélagið Drangey er hið mikla starf, sem félagarnir lögðu á sig, t.d. við að merkja og hreinsa íþróttavöllinn, skipuleggja mót, halda uppi reglubundnu félagsstarfi o.s. frv. Og aldrei nutum við aðstoðar fullorðinna í þessum efnum. Við gerðum allt sjálfir, sem gera þurfti. Þegar ég hugsa um þetta núna. Finnst mér þessi félagsstarfsemi í sjálfu sér afrek, því að aldur okkar var ekki ýkja hár. Við vorum sem fyrir segir 9-13 ára. En þetta er glöggt dæmi um það, hvað unglingar geta í rauninni gert merkilega hluti , ef þeir fá sjálfir að njóta sín.

Heimild: Hörður Pálsson

Ungmennafélagið Tindastóll – 1907-1982
Texti: Tindastóll.is

Reiðnámskeið Háskólans á Hólum

Reiðkennarabraut Háskólans á Hólum heldur reiðnámskeið fyrir hinn almenna hestamann (16 ára og eldri), dagana 22. – 25. mars.

Lögð verður áhersla á ásetu og stjórnun, samspil knapa og hests og að bæta jafnvægi á gangtegundum. Nemandi verður að mæta með taminn hest og búnað.

Hægt er að fá stíu og fóður fyrir hestinn meðan á námskeiðinu stendur og er verð þá 1000 kr. sólarhringurinn á hest.

Annars er kennsla nemendum að kostnaðarlausu.

Hægt verður að kaupa hádegismat á staðnum um helgina.

Dagskrá:

22. mars, fimmtudagur: kl 17:00 – 21:00
23. mars, föstudagur: kl 17:00 – 21:00
24. mars, laugardagur: kl 9:00 – 17:00
25. mars, sunnudagur: kl 9:00 – 16:00

Skráning fyrir 18. mars, hér

Nánari upplýsingar veita:
Anna Rebecka – 856-5882
Bergþóra – 895-7906

Kalli Berndsen á Sauðárkróki

Stílistinn Karl Berndsen hefur sést á Sauðárkróki undanfarna daga þar sem hann hefur aðstoðað hina sögufrægu Bakkabræður við að finna sér ráðskonu. Bakkabræður eru alltaf sömu sauðirnir og því hefur konuleitin ekki gengið neitt sérlega vel. Soffía frænka úr Kardimommubæ og djammdrottningin Hildur Líf hafa einnig reynt að aðstoða bræðurna, enda ómögulegt að þeir séu konulausir mikið lengur. Áhugasamir geta séð hvernig kvennmannsleit þeirra Bakkabræðra gengur fyrir sig í leiksýningu sjöundu bekkinga í Ársskóla á Sauðárkróki, en í sýningunni vakna allar þessar persónur til lífsins og fleiri til í félagsheimilinu Bifröst.

Sjá upptöku af frétt á Rúv hér.

Flass FM 93,7 næst nú í Skagafirði

Útvarpsstöðin Flass 104,5 hefur hafið útsendingar í Skagafirði á tíðninni FM 93.7. Útsendingarsvæði stöðvarinnar er nú á Höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og nú í Skagafirði en ráðgert er að stækka útsendingarsvæðið enn frekar.

„Starfsfólk Flass óskar Skagfirðingum nær og fjær til hamingju með nýja og ferska tóna“ segir í fréttatilkynningu en þar kemur einnig fram að Flass hefur verið leiðandi í nýrri og ferskri tónlist fyrir ungt fólk á Íslandi í rúm 6 ár. Á stöðinni starfa þekktir útvarpsmenn og má þar nefna Þröst 3000, Yngva Eysteins og Sigga Gunnars.

Hestamótið Mývatn Open 2012

Hið vinsæla hestamót Mývatn Open eða Hestar á ís verður haldið helgina 9. og 10. mars. Hestamannafélgið Þjálfi býður í reiðtúr út á frosið Mývatn á föstudeginum og er öllum hjartanlega velkomið að taka þátt í því að kostnaðarlausu.

Sel-Hótel Mývatn býður knöpum upp á samlokur og heitt kakó út í eyju.
Síðan hefst mótshaldið á laugardeginum sem endar með hestamannahófi á Sel – Hótel Mývatni um kvöldið.

Hesthúsapláss hefur ekki verið vandamál hingað til og mun Marinó (s. 8960593) aðstoða ykkur við að hýsa hestana.

Laugardagur 10. mars

Kl. 10:30          Tölt B   Ekkert aldurstakmark
Kl. 13:00          Tölt A
Stóðhestakeppni
Skeið
Verðlaunaafhending yfir kaffihlaðborði í Selinu
Kl. 19:30          Húsið opnar fyrir stemmingu kvöldsins,
Videosýning frá afrekum dagsins á breiðtjaldi
Kl. 20:30          Hestamannahóf hefst  – öllum opið.
Kl. 23:30          Kráarstemning og lifandi tónlist fram á nótt

Stóðhestakeppni- þar sem að alhliða og klárhestar etja kappi saman. Riðnar verða þrjár ferðir fram og til baka(samtals 6.ferðir) Fyrsta ferð hægt tölt og milliferðartölt til baka. Önnur ferð brokk og yfirferð til baka og má þá knapi velja milli skeiðs og tölts. Þriðja ferðin er svo frjáls báðar leiðir , þar sem knapinn má sýna allt það besta sem hesturinn hefur uppá að bjóða.

Skráningar hefjast Sunnudagskvöldið 4. mars og standa til miðvikudagskvölds 7.mars á netfanginu birnaholmgeirs@hotmail.com

Upplýsingar um nafn, föður, móður, lit, aldur, eiganda og knapa þurfa að koma fram (frekari uppl.um mótið og ráslisti verður á heimasíðu Þjálfa sem er www.123.is/thjalfi).

Skráningargjald er kr. 3.500,- og er borgað á staðnum í síðasta lagi klukkutíma áður en keppni hefst.
Vegleg verðlaun í boði (nánari uppl. verða á www.123.is/thjalfi)
Sel-Hótel Mývatn býður upp á gistitilboð
kr. 6.450,- á mann í tveggja manna herbergi og aukanótt  3.900,- á mann með morgunmat.  Kr. 9.900,- í eins manns herbergi.  Morgunmatur innifalinn.

Þriggja rétta glæsilegur kvöldverður og hestamannahóf á laugardagskvöldinu verð kr. 7.500,- á mann.

Bókanir í s. 464 4164 eða myvatn@myvatn.is
Hestamannafélagið Þjálfi og Sel-Hótel Mývatn.

 

Ólafur Ragnar gefur kost á sér áfram

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ætlar að bjóða sig aftur fram til forseta. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var frá skrifstofu forseta fyrir stundu. Ólafur segist með þessu bregðast við þeim áskorunum og óskum almennings um það að hann bjóði sig fram að nýju. Þetta er fimmta kjörtímabil Ólafs en hann hefur nú verið forseti síðan 1996, eða í sextán ár.

Í yfirlýsingunni segir Ólafur Ragnar:

Að undanförnu hefur birst í áskorunum, könnunum, viðræðum og erindum ríkur vilji til þess að ég breyti þeirri ákvörðun sem ég tilkynnti í nýársávarpinu.
Í rökstuðningi er vísað til vaxandi óvissu varðandi stjórnskipan landsins og stöðu forseta í stjórnarskrá, umróts á vettvangi þjóðmála og flokkakerfis sem og átaka um fullveldi Íslands. Þá er einnig áréttað mikilvægi þess að standa vörð um málstað þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.

Í ljósi alls þessa og í kjölfar samráðs okkar hjóna og fjölskyldunnar hef ég ákveðið að verða við þessum óskum og gefa kost á því að gegna áfram embætti forseta Íslands sé það vilji kjósenda í landinu.
Það er þó einlæg ósk mín að þjóðin muni sýna því skilning þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst ákveði ég að hverfa til annarra verkefna áður en kjörtímabilið er á enda og forsetakjör fari þá fram fyrr en ella.

Bessastöðum 4. mars 2012
Ólafur Ragnar Grímsson

Byggðastofnun auglýsir laust starf

Byggðastofnun óskar eftir að ráða verkefnisstjóra til að starfa með stýrineti ráðuneyta að gerð og útfærslu sóknaráætlana landshluta.

Verkefnisstjórinn er ráðinn til Byggðastofnunar en verður staðsettur í Arnarhvoli í Reykjavík og hefur jafnframt vinnuaðstöðu hjá Byggðastofnun á Sauðárkróki. Starfið krefst umtalverðra ferðalaga um landið. Verkefnisstjórinn verður tengiliður milli ráðuneyta, landshlutasamtaka sveitarfélaga, Sambands Íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar. Um er að ræða fullt starf til eins árs.

Sóknaráætlanir landshluta eru eitt verkefni innan Ísland 2020 sem er stefnumörkun og framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag. Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs 2011 en í þeim áfanga var opnað fyrir ákveðinn samskiptaás milli Stjórnarráðsins og átta landshlutasamtaka sveitarfélaga sem áframhaldandi vinna mun að byggja á.

Sóknaráætlunum landshluta er ætlað skerpa og skýra samskiptaferlið milli ríkis og sveitarfélaga. Með slíkum samskiptaási ættu sveitarfélög landsins í gegnum landshlutasamtökin að hafa aukin áhrif á úthlutun almannafjár og þannig haft áhrif á forgangsröðun opinberra verkefna í eigin landshlutum hvort sem þau snúa að fjárfestingum eða rekstri.

Menntunar og hæfniskröfur: Gerð er krafa um háskólapróf sem nýtist í starfi. Reynsla af störfum innan stjórnsýslu er æskileg. Gerð er krafa um reynslu af verkefnastjórnun, stefnumótun og áætlanagerð. Þekking á byggðamálum og reynsla af samskiptum við sveitarfélög er mjög æskileg.

Starfið krefst: Greiningarhæfileika og eiginleika til að hafa góða yfirsýn. Sjálfstæðis í vinnubrögðum, skipulagshæfni og markvissra vinnubragða. Frumkvæði, áhuga og metnaðar í starfi ásamt hæfni til að starfa sjálfstætt sem og með hópi. Jákvæðs viðmóts og lipurðar í mannlegum samskiptum. Hæfni í framsetningu upplýsinga og góðrar tölvukunnáttu. Færni í að tjá sig í ræðu og riti.

Laun samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.

Starfið hentar jafnt konum sem körlum.

Starfsmaður þarf að geta hafið störf 1. apríl 2012.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar í síma 455 5400.

Umsóknir skulu sendar til Byggðastofnunar, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki, eða á netfangið byggdastofnun@byggdastofnun.is fyrir 17. mars.

Aðstaða fyrir blaðamenn á Sauðárkróksvelli

Félags- og tómstundarnefnd Skagafjarðar þakkar þann dugnað og sjálfboðaliðsstarf íþróttahreyfingarinnar, sem hér felst í því að byggja og kosta aðstöðu fyrir blaðamenn á Sauðárkróksvelli.

Áður hefur frjálsíþróttadeild Tindastóls byggt tímatökuskýli á vellinum og knattspyrnudeild Tindastóls áhorfendastúku í sjálfboðamennsku. Viðhald þeirra mannvirkja hefur ekki verið íþyngjandi fyrir sveitarsjóð. Starf sjálfboðaliða innan vébanda ungmenna-og íþróttahreyfingarinnar í Skagafirði verður seint fullþakkað.

Söngkeppni Samfés sýnd á tjaldi í Húsi frítímans

Söngkeppni Samfés fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 3. mars kl. 13, en flytja krakkar úr félagsmiðstöðvum vítt og breytt af landinu 30 atriði sem valin hafa verið í undankeppnum um land allt.  Á síðasta ári hlaut atriði Félagsmiðstöðvarinnar Friðar í Skagafirði sérstaka viðurkenningu sem faglegasta atriði, en þá söng Sigvaldi Gunnarsson og lét á gítar ásamt fríðum flokki bakraddasöngkvenna.  Nú munu tvær af þessum bakraddasöngkonum halda uppi heiðri Friðar í keppninni, en það eru þær Bergrún Sóla sem syngur, Sunna Líf sem leikur á píanó og með þeim verður Daníel Logi sem leikur á gítar.  Þau munu flytja lagið Ó elskan mín sem er úr smiðju Guns N Roses, en með íslenskum texta Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar.

Hús frítímans á Sauðárkróki opnar af þessu tilefni kl. 13 á laugardaginn þar sem söngkeppnin verður sýnd á stóru tjaldi og eru sem flestir hvattir til að mæta og fylgjast með sínu fólki.

Beint flug frá Akureyri í sumar

Iceland Express býður í sumar upp á fast áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Félagið hafði áður tilkynnt að ekki yrði af fluginu en hefur nú skipt um skoðun vegna þrýstings frá heimamönnum.

Síðastliðin sex sumur hefur Iceland Express boðið upp á fast áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar en í lok síðasta árs tilkynnti félagið að því yrði hætt. Nú hefur flugfélagið hinsvegar ákveðið að hætta við fyrri ákvörðun sína og fljúga vikulega til Kaupmannahafnar frá Akureyri allan júlí og fram í miðjan ágúst. Heimir Már Pétursson, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að mikill þrýstingur hafi verið frá heimamönnum að halda fluginu enda vinsælt að geta flogið beint frá Akureyri til Kaupmannahafnar. „Þannig að við einfaldlega létum undan þeim mikla þrýstingi sem við urðum fyrir,” segir Heimir.

Tímabilið sem flogið verður á milli Kaupmannahafnar og Akureyrar er styttra en undanfarin sumur en á móti kemur að flugfélagið mun enda sumarið á því að fljúga nokkrum sinnum beint til Kaupmannahafnar frá Egilsstöðum. Heimir segir að eftir að fluginu ljúki frá Akureyri muni félagið fljúga frá miðjum ágúst, kannski eitthvað inn í september, nokkrar beinar flugferðir frá Egilsstöðum til Kaupmannahafnar.

Rúv.is greinir frá.

Tindastóll vann Hauka í körfunni

Í Iceland Express-deild karla í kvöld vann Tindastóll lið Hauka úr Hafnarfirði í háspennuslag á Sauðárkróki.

Hér að neðan má sjá úrslit og stigaskor úr leik kvöldsins.

Tindastóll-Haukar 68-64 (22-21, 16-16, 14-15, 16-12)

Tindastóll: Helgi Rafn Viggósson 19/12 fráköst, Maurice Miller 13/8 fráköst/7 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 11, Igor Tratnik 8/10 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 8, Hreinn Gunnar Birgisson 5/5 fráköst, Curtis Allen 4/7 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 0, Friðrik Hreinsson 0, Páll Bárðason 0, Pálmi Geir Jónsson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0.

Haukar: Christopher Smith 20/11 fráköst/5 varin skot, Helgi Björn Einarsson 11, Haukur Óskarsson 9, Alik Joseph-Pauline 9/8 fráköst, Örn Sigurðarson 8/4 fráköst, Emil Barja 3/5 fráköst, Steinar Aronsson 2, Davíð Páll Hermannsson 2, Alex Óli Ívarsson 0, Andri Freysson 0.

Konukvöld til styrktar Körfuknattleiksdeild Tindastóls

Konukvöld verður haldið á Mælifelli föstudagskvöldið 16. mars kl. 20:30. Kvöldið er til styrktar körfuknattleiksdeild Tindastóls.

Í ár mun Siggi Hlö halda uppi stuðinu og verður t.d. með bingó þar sem vinningarnir verða í anda þess sem þeir voru í fyrra eins og t.d. skartgripir, m.a. frá Sign, snyrtidót, út að borða, klipping og litun, vörur frá Bláa lóninu og fleira.

Strákarnir í körfunni verða á svæðinu til að sinna gestum og verða þeir látnir sprella eitthvað fyrir gestina. Þetta verður frábært kvöld með allskyns uppákomum og eru allar konur hvattar til að mæta og taka þátt í gleðinni.

Konukvöldið verður haldið á Mælifelli eins og í fyrra. Húsið opnar kl. 20.30 og aðgangseyrir 2.500 krónur. Innifalið í aðgangseyri er bingóspjald, fordrykkur og ball.

Þeir sem vilja mæta bara á ballið þá kostar 1.500 krónur inn.

Skagfirðingar stóðu sig vel á meistaramóti Íslands í Frjálsum

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum, fyrir 11-14 ára, fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík um sl. helgi. Mótið var vel sótt, um 360 keppendur voru frá 19 félögum og samböndum. Flestir keppendur komu frá ÍR eða 61, FH sendi 44, HSK/Selfoss 36, Breiðablik 31, UMSE 28 og frá UMSS og Fjölni voru 23 keppendur.

 Skagfirðingarnir stóðu sig mjög vel á mótinu, urðu í 5. sæti af 19 liðum í samanlagðri stigakeppni og unnu 1 gull, 3 silfur og 5 bronsverðlaun. Keppendur UMSS sem unnu til verðlauna voru: Fríða Isabel Friðriksdóttir (14) varð Íslandsmeistari í hástökki (1,58m). Hún varð einnig í 2. sæti í 60m grindahlaupi og langstökki, og 3. sæti í 60m hlaupi. Berglind Gunnarsdóttir (11) varð í 2. sæti í kúluvarpi. Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir (14) varð í 3. sæti í hástökki. Gunnar Freyr Þórarinsson (13) varð í 3. sæti í kúluvarpi. Sæþór Már Hinriksson (12) varð í 3. sæti í langstökki. Stúlknasveit UMSS (14) varð í 3 sæti í 4x200m boðhlaupi. Í sveitinni voru Þórdís Inga Pálsdóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir og Fríða Isabel Friðriksdóttir.

Úrslit í samanlagðri stigakeppni mótsins: 1. FH 432 stig, 2. ÍR 422, 3. HSK/Selfoss 336,8 stig, 4. Breiðablik 278,5 stig, 5. UMSS 192,5 stig, 6. Fjölnir 169,5 stig.

Uppeldistmiðstöð opnar á Akureyri

Uppeldismiðstöð sem veita mun alhliða ráðgjöf um barnauppeldi verður fljótlega opnuð á Akureyri. Þar geta foreldrar fengið lausn á vandamálum er tengjast uppeldi barna sinna í gegnum símalínu – og jafnvel fengið aðstoð heim í stofu.

Fjölskyldulínan er nýtt fyrirtæki á Akureyri sem veita mun foreldrum aðstoð í uppeldishlutverkinu. Að sögn Soffíu Gísladóttur, uppeldis- og menntunarfræðings, mun fyrirtækið veita aðstoð í stóru sem smáu, til að mynda með námskeiðahaldi og með rekstri símalínu og gagnvirkrar heimasíðu.

Soffía segir að foreldrar geti leitað til Fjölskyldulínunnar af minnsta tilefni en miðstöðin er hugsuð sem bakland fyrir foreldra í uppeldinu. Áætlað er að Fjölskyldulínan verði opnuð á sumardaginn fyrsta en fyrirtækið var eitt af fjölmörgum verkefnum sem kynnt voru á nýliðinni atvinnu-og nýsköpunarhelgi á Akureyri.

Heimild: Rúv.is

180 slóvenskir ferðamenn á Norðurlandi í sumar

Hinn 26. júní nk. lendir Airbus 320 þota á Akureyrarflugvelli með allt að 180 ferðamenn frá Slóveníu á vegum Ferðaskrifstofunnar Nonna. Fólkið mun leggja leið sína um Norðurland og önnur landsvæði næstu 7 dagana áður en það snýr aftur til síns heima 3. júlí. Samstarfsaðilar í Slóveníu eru Adria Airways og ferðaskrifstofur sem hafa selt ferðir til Íslands í mörg ár. Það hefur kostað mikla fyrirhöfn að telja hina erlendu samstrafsaðila á að fljúga til Akureyrar því Reykjavík og Keflavíkurflugvöllur eru flestum efst í huga.

Ferðaskrifstofan Nonni var stofnuð árið 1989 með það að markmiði að taka á móti erlendum ferðamönnum á Akureyri og greiða leið þeirra um Norðurland sérstaklega. Þetta hefur tekist bærilega og er skrifstofan sem betur fer ekki lengur ein, heldur eru fjölmargir aðilar hér á svæðinu sem allir leggjast á eitt. Í fyrra var ferðaskrifstofan einnig með beint flug frá Slóveníu og eru þessi flug liður í þeirri viðleitni að fá sem flesta ferðamenn beint til Akureyrar. Fyrir ári síðan voru 20 ár liðin síðan Íslendingar viðurkenndu fyrstir þjóða sjálfstæði Slóveníu og gróðursettu þá hver og einn hinna erlendu gesta eitt tré í sérstakanlundí Kjarnaskógi við Akureyri. Nú er ætlunin að endurtaka þetta og stækka lundinn.

Viðunandi nýting á flugvélunum byggist á því að Íslendingar nýti flugið einnig. Ferðaskrifstofan hefur því sett saman áhugaverð ferðatilboð fyrir Íslendinga sem býðst að fljúga beint til og frá Slóveníu sömu daga. Hefur eftirspurn verið mjög góð og nær hún til allra landshluta. Einn af kostum Akureyrarflugvallar er hversu stuttan tíma það tekur að innrita sig og fara í gegnum vopnaleit. Lítil fríhöfn er á vellinum og allur aðbúnaður með ágætum.

Vetrarleikarnir í Tindastóli

Á laugardaginn s.l.  hófust Vetrarleikar í Tindastól þar sem ýmislegt var í boði fyrir skíðaiðkendur. Margir mættu með skíði, bretti, þotur og fleira til að skemmta sér og sínum og tókst ágætlega. Vegna bilunar í skíðalyftu og óhagstæðs veðurs á sunnudeginum var dagskrá þann daginn frestað til sunnudagsins 4. mars.

Myndband frá Feykir.is og Youtube.com

Knattspyrnuakademía Norðurlands með knattspyrnuskóla á Akureyri

Knattspyrnuakademía Norðurlands stendur fyrir knattspyrnuskóla í Boganum á Akureyri í lok þessa mánaðar og í mars og apríl. Um er að ræða tveggja vikna námskeið fyrir hressa fótboltakrakka sem hafa metnað og áhuga á að ná langt í íþróttinni. Á hverju námskeiði fyrir sig verður lögð áhersla á að styrkja alla helstu grunnþætti knattspyrnunar. Hver þjálfari mun stýra hópi með 10 börnum.

Æfingartímar:
Mánudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.
Þriðudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.
Miðvikudagur: 18:30-20:00, bókleg fræðsla,
Fimmtudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.
Föstudagur: 06:15-07:15, morgunmatur.

Námskeið eitt er dagana 27.02.2012. til 09.03.2012. fyrir stráka og stelpur í 4. flokki.
Námskeið tvö er daganna 19.03.2102 til 29.03.2012 fyrir stráka og stelpur í 5. flokki.
Námskeið þrjú er daganna 16.04.2012 til 27.04.2012 fyrir stráka og stelpur í 3. flokki.

Einungis eru 30 sæti í boði á hverju námskeiði fyrir sig
Verð á námskeiði er 7.500 kr. og er morgunmatur innifalin.

Þjálfarar á námskeiðinu eru eftirfarandi:
•    Þórólfur Sveinsson, 12 ára reynsla af þjálfun barna og unglinga – UEFA B
•    Sandor Matus, Markvörður meistarflokks KA og þjálfari yngri flokka – UEFA B
•    Magnús Eggertsson, Íþróttafræðingur með mikla reynslu af yngriflokkaþjálfun.
•    Ásamt gestaþjálfurum og gestafyrirlesurum.

Upplýsingar og skráning á námskeiðin fer fram á academia.nordurlands@gmail.com

Nánari upplýsingar veita:
Ólafur Örn Torfason, 867 7034
Eiður Arnar Pálmason, 896 6782
Þórólfur Sveinsson, 891 9081

Bæjar- og menningarvefur