Drangey verður í b-riðli í 3.deild karla

Mótanefnd KSÍ hefur gefið út riðlaskiptingu í 3. deild karla fyrir keppnistímabilið 2012.  Lið Drangeyjar frá Sauðárkróki verður í B-riðlinum og fyrsti leikurinn verður heimaleikur gegn KFG á Sauðárkróksvelli þann 20. maí klukkan 14.

Í 3. deild karla eru fjórir riðlar, skipaðir átta félögum þar sem leikin er tvöföld umferð. Eftir riðlakeppnina tekur við hefðbundin átta liða úrslitakeppni. Fjögur félög leika í 3. deildinni í ár sem ekki léku á síðasta keppnistímabili.

Á ársþingi KSÍ um helgina var samþykkt að fjölga deildum frá og með næsta ári. Tvö efstu lið 3. deildar í sumar munu því líka í 2. deild 2013 en önnur lið eiga möguleika á að vinna sér inn sæti í nýrri 3. deild.

Nokkur ný félög taka þátt í 3. deildinni í ár en Stjarnan, Þróttur og Tindastóll hafa sett á laggirnar nokkurskonar varalið.

Riðillinn lítur svona út:

B-riðill:
Afríka
ÍH
KB
KFG
Magni
SR (varalið Þróttar R.)
Ýmir
Drangey (varalið Tindastóls)

Dregið hefur verið í fyrstu umferðir bikarkeppnis KSÍ

Dregið hefur verið í fyrstu umferðir bikarkeppnis KSÍ. Tvö lið frá Sauðárkróki taka þátt, en það eru Tindastóll og Drangey (varalið Tindastóls).

Tindastóll hefur leik gegn sigurvegara úr leik Dalvík/Reynir gegn Völsungi og fer leikurinn og fer sá leikur fram 16. maí kl .20 og á Tindatóll útileik.

Drangey leikur gegn KF á Ólafsfjarðarvelli í 1. umferðinni og verður leikurinn 6. maí. kl. 17. Sigurvegarinn úr þeim leik fær síðan heimaleik gegn Þór frá Akureyri þann 16. maí. kl. 20.

Vísnavefur Héraðsskjalasafns Skagfirðinga opinn aftur

Hinn frábæri upplýsingabrunnur um Vísnasafn Skagfirðinga hefur nú verið opnaður á nýjum stað.  Fjölmargar góðar vísur er þar að finna sem gaman er að kíkja á.  Nýja slóðin er:  http://www.bragi.arnastofnun.is/skag/

 

Hérna er ein góð í tilefni Öskudags sem senn líður að:

Allir hlæja á öskudaginn.
Ó, mér finnst svo gaman þá.
Hlaupa lítil börn um bæinn
og bera poka til og frá.

Höf: Ókunnugur.

Vetrarleikar á Skíðasvæði Tindastóls 24-26 febrúar

Vetrarleikar verða helgina 24-26. febrúar á Skíðasvæðinu Tindastóli. 

Þátttökugjald 1500 kr. á mann fyrir 4 ára og eldri og er lyftugjald ekki innifalið.

 Dagskráin er sem hér segir:

 

Föstudagskvöld 24.02

 Skíðasvæðið opið

Laugardagur 25. febrúar

kl. 10:00 Skíðasvæðið í Tindastól opnar

kl. 11:00 Fyrirkomulag leikanna kynnt

kl: 11:30 Ævintýrabrautin opnar

kl: 13:30 Hádegishlé

kl. 14:00 Ævintýraleikar halda áfram.

kl. 15:30 Ævintýrferð út í óvissuna.

kl. 19:30 Kvöldvaka og skemmtun í Reiðhöllinni Svaðastaðir,

útdráttarverðlaun og fleira skemmtilegt.

 

Sunnudagur 26.02

kl. 10:00 Skíðasvæðið opnar
kl. 11:30 Skíðaleikar
Samhliðasvig
Grín og glens
Foreldrar og börn keppa hvort við annað.
Brettaþraut.

 

Nánari upplýsingar í síma 899 9073 (Viggó Jónsson) og á www.tindastoll.is/skidi

Lið frá Skagafirði skráð til leiks í 3.deild karla í knattspyrnu

Búið er að skrá lið frá Sauðárkróki til þátttöku í 3.deildina í knattspyrnu karla. 

Nafnið verður Siglingaklúbbur Drangeyjar eða Drangey í stuttu máli. Stjórna Siglingaklúbbsins tók vel í að þetta nafn yrði notað.

Þetta er vel til fundið þar sem Tindstóll og Drangey eru okkar helstu auðkenni Skagfirðinga.

Þyrluskíðaferðir á Tröllaskaga

Bergmenn, fagmenn í fjallaleiðsögn bjóða upp á þyrluskíðaferðir frá Dalvík sem er ný og ótrúlega spennandi viðbót við þá fjölbreyttu flóru ferða sem boðið er uppá.
Síðastliðin 10 ár hafa Bergmenn sérhæft sig í fjallaskíðaferðum á Tröllaskaga og nú í dag er svo komið að Tröllaskaginn er orðin heimsþekktur viðkomustaður fjallaskíðafólks víðsvegar að úr heiminum. Bergmenn bjóða nú í ár í fyrsta sinn á Íslandi skipulagðar þyrluskíðaferðir á Tröllaskaganum þar sem tækifærin til skíðunnar eru ótæmandi með þúsundum brekkna með fallhæð allt að 1500m sem er eins gott og það gerist á heimsvísu.
Skíðasvæðið sem opnast með aðstoð þyrlunnar er gríðarlega umfangsmikið eða tæpir 4000 ferkílómetrar beggja vegna Eyjafjarðar þar sem allar tegundir skíðabrekkna er að finna, allt frá bröttustu giljum til víðáttumikilla hvilftarjökla sem þýðir að allt skíðafólk finnur eitthvað við sitt hæfi. Það að skíða af hæstu tindum Tröllaskagans alveg niður í svartar sandfjörur í miðnætursól er einstök upplifun sem enginn má missa af að prófa þótt ekki sé nema einu sinni á lífsleiðinni.

Byrjað er að skíða á Tröllaskaganum um miðjan mars og vertíðin endist fram í júní í venjulegu ári með almennt frábæru vorskíðafæri og einstaka góðum púður degi. Vegna þess að Tröllaskaginn er strandfjallgarður eru snjóalög þar þykk og að sama skapi stöðug hvað varðar snjóflóðahættu þegar líða tekur á vorið. Þetta þýðir að hægt er að skíða brattari brekkur en gengur og gerist í þyrluskíðamennsku annarsstaðar í heiminum. Veðurfar á Tröllaskaga í apríl og maí er tiltölulega stöðugt á íslenskan mælikvarða með löngum stillum og sólríkum dögum. Þótt að það geti gert slæm veður að þá vara þau yfirleitt ekki lengi og með löngum dögum vorsins er hægt að skíða nánast 24 tíma á sólarhring.

Grindavík vann Tindastól

Bárður Eyþórsson þjálfari Tindastóls var ekki óhress með sína menn þrátt fyrir ósigur  gegn Grindvíkingum á heimavelli, 96:105, í úrvalsdeildinni í körfubolta í gærkvöld.

„Þetta var bara erfiður leikur. Við vorum lengst af ekki nægilega góðir í vörninni, en þeir eru bara einfaldlega góðir. Hinsvegar gáfumst við aldrei upp og það er góður karakter í liðinu að koma til baka og vinna sig aftur inn í leikinn eftir að hafa verið svona mikið undir, og ég er ekkert svo ósáttur,” sagði Bárður.

Heimild: mbl.is

Kynningarvika Tónlistarskóla Skagafjarðar

Vikan 13.-17. febrúar verður kynningarvika Tónlistarskóla Skagafjarðar. Hugmyndin er sú að kynna starfsemi skólans út á við og gefa fólki tækifæri á að hlusta á nemendur  þar sem þeir koma fram og spila  í fyrirtækjum, stofnunum, leikskólum og á tónfundum í tónlistarskólunum víðs vegar um Skagafjörðinn.

Dagskráin:

Sauðárkrókur:

Mánudag 13. febrúar Elli -og hjúkrunardeild kl.15 -Tónfundur kl.18 í Tónó

 

Þriðjudaginn 14.febrúar Leikskólinn Ársalir kl.15:15 -Tónfundur kl.18 í Tónó

 

Miðvikudaginn 15.febrúar -Tónfundur kl.18 í Tónó

 

Fimmtudaginn 16.febrúar Leikskólinn Ársalir kl.15.15 -Tónfundur kl.18 í Tónó

 

Föstudaginn 17.febrúar Elli -og hjúkrunardeild kl.14:30 (strengjadeild) -Skagfirðingabúð kl.15-16

 

Varmahlíð:

Tónfundur alla daga kl.10:05 í Varmahlíðaskóla

Fimmtudaginn 16. febrúar Leiksk. Birkilundur kl.10:30 – KS Varmahlíð kl.14

 

Hólar:

Fimmtudaginn 16. febrúar Leikskólinn Brúsabær kl.10  Tónfundur í Grunnskólanum kl.16

 

Hofsós:

Fimmtudaginn 16. febrúar Tónfundur í Höfðaborg kl.17

Ný stjórn Knattspyrnudeildar Tindastóls

Aðalfundur Knattspyrnudeildar Tindastóls var haldinn þann 8. febrúar í vallarhúsinu.

Pétur Björnsson og Erna Baldursdóttir hafa sagt skilið við stjórnina eftir tveggja ára setu og í þeirra stað komu þau Rína Einarsdóttir og Þórður Karl Gunnarsson.

Aðrir stjórnarmenn eru Skúli Vilhjálmur Jónsson, Björn Ingi Óskarsson og Ómar Bragi Stefánsson sem var jafnframt kosinn formaður.

Hótelrými eykst á Akureyri

Hótelrými á Akureyri mun tvöfaldast gangi öll uppbyggingaráform eftir. Ferðamálafræðingur varar við of hraðri uppbyggingu.

Eins og greint hefur verið frá eru áform uppi um að breyta Sjallanum á Akureyri í 90 herbergja hótel. Eins er gert ráð fyrir 100 herbergja hóteli á Drottningarbrautarreitnum svokallaða og þá verða 37 ný herbergi tekin í notkun hjá Icelandair hótelinu í sumar. Í göngugötunni verður opnað gistiheimili fyrir 100 manns í sumar og þá hefur verið sótt um gistileyfi fyrir minnst 15 íbúðir í bænum sem bíða umsagnar eftirlitsaðila.

 

 

Strokupilta leitað í Skagafirði

Björgunarsveitir í Húnavatnssýslum og Skagafirði leita nú tveggja unglingspilta sem struku af meðferðarheimili í Skagafirði í dag.

Björgunarsveitir voru kallaðar út til leitar á áttunda tímanum í kvöld. Skömmu síðar gaf einn drengur sig fram en tveggja er enn leitað.  Talið er að þeir hafi farið í Svartárdal, inn af Húnaveri.

Um 50 björgunarsveitamenn taka þátt í leitinni og aka þeir slóða og leita í útihúsum við sveitabæi í dalnum. Veður á svæðinu er ágætt en hiti er kominn niður undir frostmark. Talið er að drengirnir séu afar illa búnir.

Fjórir Íslandsmeistaratitlar til Skagfirðinga

Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum, fyrir 15-22 ára, fór fram í Reykjavík helgina 4.-5. febrúar. Keppendur UMSS unnu 4 Íslandsmeistaratitla á mótinu og auk þess 4 silfur og 3 brons.

 Verðlaunahafar UMSS:

Daníel Þórarinsson (18-19) sigraði í 200m, varð í 2. sæti í 60m og 800m.

Jóhann Björn Sigurbjörnsson (16-17) sigraði í 60m hlaupi, varð  2. í 200m og 3. í hástökki.

Ísak Óli Traustason (16-17) sigraði í hástökki, varð 3. Í 60m grindahlaupi.

Halldór Örn Kristjánsson (20-22) sigraði í hástökki.

Þorgerður Bettína Friðriksdóttir (16-17) varð í 2. sæti í 200m.

Guðjón Ingimundarson (20-22) varð í 3. sæti í 60m grindahlaupi.

Skagfirsku piltarnir í flokki 16-17 ára urðu í 3. sæti í stigakeppninni, en hópurinn allur hafnaði í 6. sæti af 19 liðum í samanlagðri stigakeppni mótsins.

Tindastóll lék æfingaleik við HK

Á heimasíðu Tindastóls kemur fram að meistaraflokkurinn í knattspyrnu hafi spilað æfingaleik í Kórnum á laugardaginn s.l. við HK en leikurinn tapaðist 2-1.

Donni þjálfari hafði úr mörgum strákum að velja fyrir þennan leik.

Byrjunarliðið var þannig skipað. Christoffer Eklund, Bjarni Smári, Bjarki Már, Böddi, Pálmi, Árni Einar, Alli, Jói Reynistað, Óskar Smári, Guðni og Milos.

Fyrri hálfleikur var mjög fínn hjá strákunum. Tindastólsliðið var með tvo stráka á reynslu í þessum leik og var það einmitt annar þeirra sem skoraði fínt mark eftir glæsilegt einstaklingsframtak hjá starfsmanni Ölgerðarinnar, honum Óskari Smára. Donni gerði margar breytingar í hálfleik en þær virkuðu ekki eins vel, því liðið átti frekar dapran seinni hálfleik og endaði á því að tapa leiknum 2-1.

Næsti leikur liðsins er 18.Febrúar gegn ÍA í lengjubikarnum. Leikurinn er kl:12:00 uppá Akranesi. Þannig að það er tilvalið fyrir Skagfirðinga að renna við á Skaganum og horfa á fótboltann, áður en haldið er í höllina og horft á Bikarúrslitaleik Tindastóls og Keflavíkur í körfunni.

Nemdur úr 10. bekk heimsækja Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra

Dagana 13. og 15. febrúar n.k. gefst 10. bekkingum kostur á að heimsækja Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og fá að fylgja eldri nemanda í 4 kennslustundir. Þetta er gert til að kynna þeim enn frekar lífið sem framhaldsskólanemi. FNV mun síðan bjóða til almennrar kynningar fyrir nemendur 10. bekkjar og foreldra þeirra um námsframboð og sérstöðu skólans þann 1. mars. n.k. Sú kynning fer fram í Árskóla á Sauðárkróki og hefst kl. 17:30.

Heilsugæslulæknir óskast á Sauðárkrók

Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki auglýsir laust til umsóknar starf heilsugæslulæknis við stofnunina.

 • Staðan er laus nú þegar eða eftir nánara samkomulagi.  Um er að ræða 100% stöðu auk vakta á heilsugæslu.
 • Ráðning til skemmri tíma kemur einnig til greina.
 • Starfskjör fara eftir kjarasamningi fjármálaráðherra og Læknafélags Íslands.

Leitað er að læknum með víðtæka almenna reynslu.  Sérfræðimenntun í heimilislækningum er æskileg.  Áhersla er lögð á hæfileika á sviði samskipta, samvinnu og sjálfstæðra vinnubragða.

Nánari upplýsingar veitir Örn Ragnarsson, yfirlæknir heilsugæslu, netfang orn@hskrokur.is sími 455-4000, gsm 847-5681 eða Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri, sími 455-4000, gsm 895-6840.

Umsókn með upplýsingum um menntun og starfsreynslu sendist Hafsteini Sæmundssyni, forstjóra, fyrir 1. mars 2012, netfang hafsteinn@hskrokur.is. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Í Skagafirði búa um 4.300 manns og býður héraðið upp á fjölbreytta möguleika til búsetu.  Atvinnulíf er fjölbreytt og mannlíf gott.  Nálægð við fallega náttúru, góðir skólar á öllum skólastigum, góð íþróttaaðstaða og útivistarsvæði, ódýr hitaveita, fjölbreytt þjónusta og kröftugt menningarlíf gerir búsetu í Skagafirði eftirsóknarverða.

Tindastóll í bikarúrslit eftir sigur á KR

Keflvíkingar tryggðu sér sæti  í bikarúrslitum eftir 90:77 sigur á KFÍ í Keflavík en bikar- og Íslandsmeistarar KR eru úr leik eftir 89:86 tap fyrir Tindastóli á Sauðárkróki.

Tindastólsmenn voru með forystu fram yfir hlé en gáfu þá eftir og þrautreyndir KR-ingar tóku leikinn í sínar hendur í fjórða leikhluta.  Það var hinsvegar ekki nóg því Tindastóll átti síðasta orðið.

Tratnik gerði 19 stig fyrir Tindastól og Allen 18 auk þess að taka 7 fráköst og  Brown var með 32 stig fyrir KR og Ferguson 30 en tók 14 fráköst.

Tindastóll – KR 89:86 !

Viltu skapa tækifæri í kvikmyndatengdri ferðaþjónustu?

Þriðjudaginn 7. febrúar boðar Íslandsstofa til fundar um möguleg tækifæri ferðaþjónustuaðila í kvikmyndatengdri ferðaþjónustu. Fundurinn fer fram á Hilton Reykjavík Nordica kl. 10-12.

 

Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning á stórum verkefnum í kvikmyndagerð hér á landi. Í sumum tilfellum er um að ræða stórmyndir sem vakið hafa athygli kvikmyndaáhugafólks víða um heim. Áhugavert er að skoða hvaða tækifæri þetta skapar fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki til aukins vöruframboðs.

 

Dagskrá:

 

• Joakim Lind, markaðssérfræðingur og einn eiganda almannatengslafyrirtækisins Cloudberry communication í Svíþjóð:

 

 • – Skammtíma- og langtímaáhrif framleiðslu og markaðssetningar kvikmynda
 • – Stieg Larsson þríleikurinn og áhrif á ímynd Svíþjóðar
 • – Áhrif kvikmyndanna um Wallander

 

Harvey Edington, kvikmyndasérfræðingur hjá National Trust í Bretlandi:

 

 • – Hvernig kvikmyndagerð getur stuðlað að auknum heimsóknum á vissa tökustaði og aukið sögulegt gildi þeirra í leiðinni

 

National Trust hefur til umráða 200 sögufrægar byggingar og 970 km af strandlengju, auk rúmlega 2000 km2 landsvæðis, þar sem að meðaltali þrjú kvikmyndateymi eru að störfum á hverjum degi. Dæmi um kvikmyndir eru t.d. Pride and Prejudice, Harry Potter, The Dark Knight og Tomorrow Never Dies.

 

Þór Kjartansson, kvikmyndaframleiðandi hjá Truenorth:

 

 

 

 • – Möguleg tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila í gegnum kvikmyndagerð á Íslandi
 • – Yfirlit yfir tökustaði á Íslandi

 

Fundarstjóri: Einar H. Tómasson – Film in Iceland
Skráning fer fram á islandsstofa@islandsstofa.is eða í síma 511 4000.

 

Nánari upplýsingar veita Björn H. Reynisson, bjorn@islandsstofa.is og Einar H. Tómasson, einar@filminiceland.com


Barnabókasetur stofnað á Akureyri

Barnabókasetur verður stofnað við Háskólann á Akureyri í dag. Þar verða stundaðar rannsóknir á barnabókmenntum og lestri. Því er meðal annars ætlað að vinna að framgangi lestrarmenningar meðal barna og ungmenna á Íslandi.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt minnkandi áhuga íslenskra barna og unglinga á bóklestri og því þykir lengi hafa verið ljós þörfin fyrir setur sem einblínir á bóklestur og lestrarmenningu þessa aldurshóps. Á degi íslenskrar tungu í fyrra var undirrituð viljayfirlýsing um stofnun Barnabókaseturs við Háskólann á Akureyri og í dag verður setrið stofnað.

Að setrinu standa, auk Háskólans, Amtsbókasafnið og Minjasafnið á Akureyri, en samtök rithöfunda, samtök um barnamenningu, starfsfólks bókasafna og fleiri eiga aðild að því

Gönguferð FÍ á Tröllaskaga í sumar

Gönguferð og ævintýradvöl í Svarfaðardal  

Ævintýradvöl í stórbrotinni náttúru Svarfaðardals. Allt í einum pakka, fjölbreyttar gönguleiðir um ægifagran fjallasal, jarðfræði, fuglaskoðun, jurtagreining, örnafnastúdía og þjóðfræði í bland við alþýðukveðskap og innansveitarkróniku.

Þátttakendur mæta að Húsabakka í Svarfaðardal sunnudaginn 8. júlí kl. 20. Gist verður á Húsabakka allan tímann. Þar eru rúm en fólk þarf að hafa með sér sængurföt eða svefnpoka. Allar ferðir eru dagsferðir, miserfiðar, en aðeins verður gengið með léttan dagpoka og aldrei þarf að vaða ár. Stundum verður gengið í bröttum skriðum hlíða og á fjallseggjum, ennfremur gengnar fannir og smájöklar. Í ferðinni verða dagleiðir m.a.: ,,Vikið” í kringum Karlsárfjall, að Steinboga inn að Gljúfurárjökli, yfir Heiðinmannaá, kringum fjallið Skjöld, niður í Skallárdal, gengið á Hvarfshnúk með einstakt útsýni yfir Eyjafjörð og til Grímseyjar. Á lokadeginum verður gengið um láglendi Svarfaðardals.

 • Verð: 60.000 / 63.000 kr.
 • Innifalið: Fullt fæði, gisting og fararstjórn.
 • Fararstjóri er Kristján Eldjárn Hjartarson að Tjörn í Svarfaðardal.
 • Dagsetning: 9.7.2012 – 13.7.2012
 • Brottfararstaður: Að Húsabakka í Svarfaðardal sunnudaginn 8. júlí kl. 20
 • Viðburður: Í TRÖLLAHÖNDUM Á TRÖLLASKAGA

Sundlaug endurhæfingardeildar HS verður ekki lokað

Vegna niðurskurðar fjárveitinga til Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki (HS) var meðal annars áformað að loka sundlaug endurhæfingarhúss og draga verulega úr endurhæfingu.  Þessi breyting var fyrirhuguð frá og með hausti 2012.  Nú hefur velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, óskað eftir því að þau áform verði dregin til baka og tryggt fjármagn til þess að svo megi verða.  Framkvæmdastjórn HS fagnar þessum málalyktum enda hefði verið mjög þungbært að þurfa að grípa til þessara aðgerða.

Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri

Sauðárkrókur verður með atriði á úrslitakeppni Samfés

Undankeppnin Samfés fyrir Norðurland var haldin í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð sl. föstudag og voru þar um 620 unglingar sem skemmtu sér mjög vel. Það voru 13 atriði frá Norðurlandi sem tóku þátt, en nokkrir skólar urðu frá að hverfa vegna veðurs, en m.a. snéru rútur við sem komu frá Ólafsfirði og Siglufirði. Fimm laganna komast áfram í aðalkeppnina sem haldin verður  í Laugardalshöllinni í Reykjavík þann 3. mars.

Þau atriði sem komust áfram voru frá Sauðárkróki, Hrafnagili, Skagaströnd, Akureyri og Húsavík. Meðfylgjandi myndband er af atriði frá Sauðárkróki en þar eru Bergrún Sól Áskelsdóttir sem syngur, Sunna Líf Óskarsdóttir á píanó og Daníel Logi Þorsteinsson á gítar.

Úrslitaleikurinn í Norðurlandsmótinu um næstu helgi

Þór og KA leika til úrslita á Norðurlandsmótinu í knattspyrnu um helgina en bæði lið stóðu uppi sem sigurvegarar í sínum riðli. Þór vann Dalvík/Reyni 4-1 í A-riðli í lokaumferð mótsins sem fram fór í Boganum um helgina. Sigurður Kristjánsson, Ibra Jagne, Orri Freyr Hjaltalín og Jónas Sigurbergsson skoruðu mörk Þórs en Hilmar Daníelsson mark Dalvíkur/Reynis.

Í B-riðli hafði KA betur gegn KF, 5-3. Þeir Elmar Dan Sigþórsson, Guðmundur Steingrímsson, Jóhann Helgason, Hallgrímur Steingrímsson og Bjarki Baldvinsson skoruðu mörk KA í leiknum, en Þórður Birgisson skoraði öll þrjú mörk KF. Í A-riðli mættust einnig KA2 og Völsungur þar sem síðarnefnda liðið sigraði 2-0 með mörkum frá þeim Halldóri Heiðarssyni og Arnþóri Hermannssyni.

Úrslitaleikur Þórs og KA fer fram í Boganum á sunnudaginn kemur kl. 17:00 en Magni og Dalvík/Reynir mætast í leiknum um þriðja sætið kl. 19:00.

Sterna keyrir áfram til Sauðárkróks

Í morgun voru undirritaðir aksturssamningar á milli Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, Norðurlandi Vestra, Eyþings og Fjórðungssambands Vestfirðinga og Bíla og fólks ehf./Sterna, um áframhaldandi akstur á leiðunum Reykjavík – Snæfellsnes, Reykjavík – Borgarnes – Búðardalur, Reykjavík – Sauðárkrókur – Siglufjörður og milli Reykjavíkur og Akureyrar. Einnig liggur fyrir aksturssamningur við Vegagerðina um akstur frá Búðardal til Hólmavíkur í beinu framhaldi af akstrinum frá Reykjavík í Búðardal. Samningurinn er gerður á grundvelli framlengingarákvæðis aksturssamnings fyrirtækisins við Vegagerðina frá 2008 og er ferðatíðnin sú sama og verið hefur á seinasta ári. Farnar verða 8 ferðir á viku á milli Akureyrar og Reykjavíkur, 6 ferðir á viku milli Snæfellsness og Reykjavíkur, 3 ferðir á viku Reykjavík – Búðardalur – Hólmavík og 3 ferðir á viku (Reykjavík) Sauðárkrókur – Siglufjörður. Frá Sauðárkrók til Varmahlíðar verður ekið í veg fyrir ferðirnar sem eknar eru á milli Akureyrar og Reykjavíkur eins og verið hefur, en þó ekki yfir seinni ferðirnar á virkum dögum yfir sumartímann.

Slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu segir upp vegna niðurskurðar

Slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu hefur sagt upp störfum vegna óánægju með fyrirhugaðan niðurskurð sem hann telur ógna öryggi samfélagsins. Hann gagnrýnir sveitarstjórnir Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps fyrir að sniðganga reglur um öryggi og viðbrögðum í brunavörnum.

Brunavarnir Austur-Húnavatnssýslu sinna hefðbundnum slökkvistörfum á svæðinu auk þess að hafa umsjón með klippibúnaði, en þjóðvegur eitt liggur í gegnum sýsluna. Hilmari Frímannssyni, sem ráðinn var sem slökkviliðsstjóri í haust, líst illa á áform um að skera niður bakvaktir hjá slökkviðliðinu. Það þýðir að enginn verður á bakvakt um kvöld og nætur á virkum dögum og aðeins einn maður um helgar.

Heimild: Mbl.is

Opið hús í Skátaheimilinu á morgun

Dagur kvenfélagskonunnar er þann 1. febrúar. Af því tilefni ætlar Kvenfélag Sauðárkróks að hafa opið hús í Borgartúni 2 (Skátaheimilinu) frá kl. 17. Þangað geta komið konur og karlar og fengið tilsögn í að setja í rennilása, stytta pils og buxur, fatabreytingar, prjóna sokkahæla og ýmislegt þess háttar.

Einnig getur fólk komið með sitt handverk til að vinna, sýna sig og sjá aðra. Saumavélar og það sem til þarf verður á staðnum.

Bæjar- og menningarvefur