Skíðasvæðið í Tindastóli opið í dag

Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið til klukkan 16 í dag. Núna er snjókoma og hægviðri þessa stundina og færið er alveg ágætt.  Það er um að gera að nota nú páskafríið vel og drífa sig á skíði.

 • kl. 10:00 til 16:00 Opið á skíðasvæðinu.
 • Troðin göngubraut bara fyrir alla.
 • Mætum í eftirtektarverðum fötum 
 • kl. 12.00   Paint ball skotið í mark, verð 1000 kr hver 100 skot
 • kl. 13.00   Þrautabraut fyrir 8 ára og yngri allir fá páskaegg að loknum tveimur ferðum.
 • kl. 13.00   Hæfnisbraut á brettum, páskaegg í verðlaun,  mikið hlegið.  
 • Kl. 14:00   Snjóþotu- og sleðarall – Músík í fjallinu.

Tónleikar á Mælifelli og Kaffi Krók í kvöld

Á Mælifelli í kvöld á Sauðárkróki verða hinir þrautreyndu tónlistarsnillingar Gylfi Ægisson, Rúnar og Megas sem halda tónleika frá kl. 22 í kvöld.

Á morgun Páskadag munu Sigga, Grétar og Pétur úr Stjórninni halda Tónleika á Mælifelli en húsið opnar skömmu eftir miðnætti.

Í kvöld á Kaffi Krók er Trúbbastemning og tilboð á barnum. Opið er til kl. 3 í nótt.

Torfhleðslu- og grindarnámskeið

Fyrirhugað er að halda torfhleðslu- og grindarnámskeið á Tyrfingsstöðum á Kjálka, á vegum Fornverkaskólans, dagana 7. til 10. júní 2012 í samstarfi við heimamenn og Byggðasafn Skagfirðinga.

Kennarar á námskeiðinu verða Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf. og Bragi Skúlason húsasmíðameistari. Verkefni námskeiðsins verður m.a. að hlaða torfveggi baðstofunnar og smíða einfalda húsgrind, úr timbri.

Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu Fornverkaskólans og hægt er að skrá sig á námskeiðið hjá Bryndísi í síma 453 5097 eða á netfangið bryndisz@skagafjordur.is .

Öflugur 10.flokkur drengja í körfubolta hjá Tindastóli

Strákarnir í 10. flokki Tindastóls í körfubolta kepptu á sínu síðasta móti á Sauðárkróki um s.l. helgi. Þeir unnu alla sína andstæðinga örugglega og þar með B-riðilinn.

Að sögn Kára Maríssonar þjálfara kom honum mest á óvart hversu yfirburðirnir voru miklir en segir það merki um að menn eru í stöðugri framför. Sannarlega jákvæður og góður endir hjá strákunum.

Úrslit leikjanna:

 • Tindastóll- Hamar/Þór   70-39
 • Tindastóll-Fjölnir b          82-48
 • Tindastóll-Breiðablik     70-44
 • Tindastóll-Fjölnir             80-40

Stigaskor leikmanna: Viðar 57, Pétur 55, Hannes 37, Finnbogi 30, Bjarni 22, Haukur 20, Kristinn 18, Friðrik Hrafn 14, Sigurður Óli 9, Elvar 9, Sighvatur 7, Óli Björn 6,Ingi 6, Ágúst 2.

 

Kári mun nú setja saman 6 lið úr öllum flokkum sínum; 9. 10. og 11. og spila mót út apríl og klára aprílmánuð með einstaklingskeppnum í þrautabraut, þriggja stiga skotum og stinger.

Heimild: Tindastoll.is

Skíðasvæðið í Tindastóli opið í dag

Skíðasvæðið í Tindastóli verður opið frá kl 10 til 16 í dag. Enn er nægur snjór hér til að renna sér á svo það er um að gera drífa sig í fjallið og skemmta sér. Veður klukkan 8:45 hægviðri hiti+ 3c og skýjað.

Dagskráin í dag í Tindastóli:

 • Kl. 10:00 – 16:00 Opið á skíðasvæðinu í Tindastóli – Músík í fjallinu.
 • Troðin göngubraut fyrir styttra og lengra komna.
 • kl.12:00 til 14:00 Paint ball skotið í mark, athugið verð: 1000kr hver 100 skot
 • kl. 13:00 til 15:00 þrautabraut á brettum

 

Dagskráin á Páskadag í Tindastóli:

 

Páskadagur 8. apríl

 • kl. 10:00 til 16:00 Opið á skíðasvæðinu.
 • Troðin göngubraut bara fyrir alla.
 • Mætum í eftirtektarverðum fötum 
 • kl. 12.00     Paint ball skotið í mark, verð 1000 kr hver 100 skot
 • kl. 13.00     Þrautabraut fyrir 8 ára og yngri allir fá páskaegg að loknum tveim ferðum.
 • kl. 13.00     Hæfnisbraut á brettum páskaegg í verðlaun,  mikið hlegið.  
 • Kl. 14:00     Snjóþotu- og sleðarall – Músík í fjallinu.

Meistarakeppni Norðurlands

Bjarni Jónasson fagnaði sigri á lokakvöldi Meistaradeildar Norðurlands sem fram fór í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki í vikunni en keppt var í slaktaumatölti og skeiði.

Keppnin var æsispennandi og á endanum voru það fimm sekúndubrot sem réðu úrslitum. Mesta baráttan stóð á milli Bjarna Jónassonar sem hafði fyrir lokakvöldið 22 stig og Sölva Sigurðarsonar sem var með einu stigi minna. Sölvi endaði svo einu sæti ofar en Bjarni í fyrri keppnisgrein kvöldsins, slaktaumatölti, og þeir voru jafnir fyrir lokagreinina sem var skeið.

Mette Mannseth á Þúsöld frá Hólum rann skeið sprettinn á fimm sekúndum sléttum. Hestur Sölva, Steinn frá Bakkakoti, lá ekki í fyrri ferð en Bjarni og Hrappur frá Sauðárkróki náðu frábærum tíma 5,09 og settu pressu á Sölva fyrir seinni umferðina. Mette bætti tímann í 4,96 en Sölvi jafnaði tíma Bjarna og Hrapps og spennan í loftinu var mikil. Seinni sprettur Bjarna og Hrapps var magnaður og tíminn 5,04 sem tryggði honum sigur í heildarstigakeppni Meistaradeildar Norðurlands þetta árið.

Atvinnumál kvenna úthlutar styrkjum

Kanína ehf, fyrirtæki Birgit Kositzke á Hvammstanga, fékk 1,5 milljón króna styrk úr úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna sem fram fór í vikunni en alls hlutu 36 verkefni styrk að upphæð alls 26 milljónum króna. Þá hlaut Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Sauðárkróki 850 þúsund króna styrk fyrir verkefnið “Járnviðja – færanlegur skjólveggur”. Einnig hlaut Hildur Þóra Magnúsdóttir frá Skagafirði 400 þús. kr. styrk fyrir verkefnið “Culture tasting”.

Alls fóru 22 styrkir fóru til kvenna á höfuðborgarsvæðinu en 14 til kvenna á landsbyggðinni og eru styrkirnir veittir til markaðssetningar, vöruþróunar, launakostnaðar og ennfremur til gerðar viðskiptaáætlana.

Hæstu styrkina hlutu Icelandic Cinema online, 2.000.000 vegna vöruþróunar verkefnisins Icelandic film locations og Tungumál og menning, 1.600.000 vegna verkefnisins Lifandi tungumálakennsla. Þriðja hæsta styrkinn hlaut Birgit Kositzke á Hvammstanga vegna uppbyggingar kanínuræktar.

Styrkir voru til fjölbreyttra verkefna og má þar nefna styrk til þarabaða á Reykhólum, vegna baðvörulínu, bílabingós, framleiðslu á duftkerum, til framleiðslu jurtakryddsalts úr íslensku salti, handtuftaðra motta, markaðssetningu prjónaferða, snúningslaka, færanlegs skjólveggur, heilsukodda og ostagerðar.

Sjá má lista yfir styrkhafa ársins 2012 með því að smella hér.

Sumarstörf í Húnaþingi vestra

Flokkstjórar í Vinnuskóla
Í starfinu felst skipulagning og stýring á vinnuhópum unglinga á aldrinum 13 til 16 ára við ýmis garðyrkjustörf o.fl. einnig leiðsögn, hópefli og hvatning til góðra verka. Hæfniskröfur: Æskilegur aldur 20 ár eða eldri, menntun og reynsla í störfum tengdum ungu fólki.
Mikilvægt er að umsækjendur séu stundvísir, samviskusamir og góðar fyrirmyndir unglingana. Hafi góða þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum. Áhugi af garðyrkjustörfum nauðsynlegur.

Flokkstjóri við slátt
Flokkstjóri ber ábyrgð á sláttuhóp og stýrir á verkstað, gerir vinnuskýrslur fyrir hópinn og hefur umsjón með vélum og búnaði sláttuhóps. Hæfniskröfur: umsækjendur skulu vera 20 ára eða eldri og bílprófs er  krafist. Flokkstjóri skal vera stundvís, jákvæður, lipur og eiga auðvelt með að vinna með öðru fólki. starfsreynsla af garðyrkjustörfum nauðsynleg.

Daglegur vinnutími er virka daga frá kl. 8:00-17:00.

Grassláttur og almenn garðyrkjustörf.
Umsækjendur sjái um grasslátt á opnum svæðum sveitarfélagsins og sinni almennum garðyrkjustörfum einnig. Umsækjendur skulu vera 17 ára eða eldri.
Krafist er stundvísi, ástundar og dugnaðar.

Daglegur vinnutími er virka daga frá kl. 08:15-16:15.

Frekari upplýsingar veitir Ína Björk Ársælsdóttir Umhverfisstjóri í síma: 455-2400.

Almenn verkamannastörf í Áhaldahúsi
Meðal starfa eru  ýmis viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins, s.s veitur og fl. Reynsla og hæfniskröfur: Umsækjendur skulu vera fæddir 1994 eða fyrr og nauðsynlegt er að þeir hafi bílpróf og dráttarvélapróf, reynsla af sambærilegu starfi er kostur, Samviskusemi og stundvísi.

Daglegur vinnutími er virka daga frá kl. 08:00-17:00.

Frekari upplýsingar veitir Guðmundur Erlendsson verkstjóri í síma: 894-2909.

Skriflegri umsókn skal skilað á skrifstofu Húnaþings vestra fyrir 15. apríl næstkomandi. Íumsókninni þarf að koma fram; Almennar upplýsingar, menntun, fyrri störf og annað sem umsækjandi telur viðeigandi. Frekari upplýsingar og upplýsingar um launakjör eru veittar á skrifstofu Húnaþings vestra í síma 455-2400

Golfklúbbur Sauðárkróks: Æfingasvæðið opið !

Nú geta Skagfirskir kylfingar farið að munda kylfurnar því æfingasvæðið hjá Golfklúbbi Sauðárkróks er opið og vor í lofti. Um páskanna verður boltavélin í gangi. Þeim sem vantar token í vélina er bent á að hafa samband við Pétur Friðjónsson eða Mugg vallarstjóra og þeir munu bjarga málum.

Heimasíða Golfklúbbs Sauðárkróks er hér.

Opið um páskana á Skíðasvæði Tindastóls

Það verður líf og fjör á skíðasvæði Tindastóls um páskahelgina og fjölbreytt dagskrá í boði. Þar verður meðal annars farið í paint ball, þrautabrautir á brettum og snjóþotu- og  sleðarall. Grillað verður að hætti Skagfirðinga og músík í fjallinu.

Dagskráin um páskahelgina:

Miðvikudagur 4. apríl

 • Kl. 12:00 -19:00 Skíðasvæðið í Tindastól opið.
 •                   Troðin göngubraut.

Skírdagur 5. apríl

 • Kl. 10:00 -16:00 Skíðasvæðið í Tindastóli opið.
 • Kl. 14:00              Troðin göngubraut,  Skíðagöngutrimm.

Föstudagurinn langi 6. apríl

 • Kl. 10:00 – 16:00 Opið á skíðasvæðinu fyrir gesti og skíðagangandi.
 •                                Troðin göngubraut fyrir skíðagangandi fólk.
 • kl. 12:00-14:00 Paint ball skotið í mark, ath. 1000 kr. 100 skot
 • Kl. 12:00                 Grillað að hætti Skagfirðinga.
 • Kl. 13:00 – 15:00  Músík í fjallinu.

Laugardagur 7. apríl

 • Kl. 10:00 – 16:00 Opið á skíðasvæðinu í Tindastóli – Músík í fjallinu.
 •                             Troðin göngubraut.
 • kl.12:00 -14:00 Paint ball skotið í mark, ath 1000kr. fyrir 100 skot.
 • kl. 13:00 -15:00 Þrautabraut á brettum.

Páskadagur 8. apríl

 • kl. 10:00 -16:00 Opið á skíðasvæðinu.
 •                      Troðin göngubraut bara fyrir alla.
 •                    Mætum í eftirtektarverðum fötum
 • kl. 12.00     Paint ball skotið í mark, ath. 1000 kr. fyrir 100 skot.
 • kl. 13.00     Þrautabraut fyrir 8 ára og yngri allir fá páskaegg að loknum tveim   ferðum.
 • kl. 13.00     Hæfnisbraut á brettum páskaegg í verðlaun, mikið hlegið.
 • Kl. 14:00     Snjóþotu- og sleðarall – Músík í fjallinu.

Annar í páskum 9. apríl

 • Kl. 10:00 – 16:00 Opið á skíðasvæðinu. Troðin göngubraut fyrir alla bæði langa og mjóa.

Tindastóll fær til sín erlendan leikmann í meistaraflokkinn í knattspyrnu

Tindastóll hefur fengið liðsstyrk fyrir fyrstu deildina í sumar en markvörðurinn Sebastian Furness mun leika með liðinu í sumar. Hann er væntanlegur til landsins í maí.

Furness er fæddur árið 1986 en hann var á mála hjá Middlesbrough frá tíu ára aldri og þar til hann varð 17 ára.

Eftir það fór hann til Hartlepool og í kjölfarið lék Seb með liðum í ensku neðri deildunum. Undanfarin ár hefur Sebastian spilað í bandaríska háskólaboltanum í Texas auk þess að vera markmannsþjálfari þar.

Theo Furness bróðir Sebastian lék með Tindastóli á síðasta ári og bróðir þeirra Dominic mun einnig leika með liðinu í sumar. Auk bræðranna þriggja mun enski sóknarmaðurinn Ben J. Everson leika með Tindastóli í sumar.

Gísli Eyland Sveinsson varði mark Tindastóls þegar liðið komst upp úr annarri deildinni í fyrra en hann lagði hanskana á hilluna í vetur.

Arnar Magnús Róbertsson hefur varið mark Stólanna í Lengjubikarnum en Sebastian mun nú berjast við hann um markvarðarstöðuna.

Heimild: fótbolti.net

Kaffi- og menningarhúsið Bjarmanes á Skagaströnd til leigu

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir eftir umsóknum um að leigja og reka Kaffi-og menningarhúsið Bjarmanes á Skagaströnd. Húsið er laust til afnota í lok maí og í því er allur búnaður til reksturs kaffihúss.

Bjarmanes er fallegt steinhús, byggt 1913 en var allt endurbyggt 2004,og hefur þann einstaka anda sem einkennir mörg gömul hús. Það stendur miðsvæðis með góðu útsýni yfir höfnina og Húnaflóann.

Óskað er eftir að umsækjendur leggi fram með umsókn sinni hugmyndir um rekstrarform og menningarlegt hlutverk kaffihússins.

Umsóknum skal skilað á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar fyrir 15. apríl 2012. Umsóknum má einnig skila rafrænt á netfangið skagastrond@skagastrond.is

Fyrir hönd sveitarstjórnar,

2. apríl 2012.

Sveitarstjóri

Laxasetur Íslands á Blönduósi

Á fyrsta degi veiðitímabilsins þann 1. apríl, opnaði Laxasetur Íslands ehf. heimasíðu félagsins. Á síðunni www.laxasetur.is munu koma fram upplýsingar um starfsemi félagsins en nú er verið að setja upp lifandi sýningu laxfiska að Efstubraut 1 á Blönduósi sem verður opnuð í júní n.k.

Á sýningunni verða lifandi laxfiskar í búrum og þá verður einnig kvikmynd um laxfiska og annað efni tengt lifnaðarháttum og sögu laxfiska og veiði á Íslandi í máli og myndum. Stefnt er að því að sýningin verði áhugaverð fyrir veiðimenn og fjölskyldufólk.

Laxasetrið mun koma að ýmsum rannsóknum í samstarfi við Veiðimálastofnun, Háskólann á Hólum, Landssamband veiðifélaga og Þekkingasetur á Blönsuósi. Framkvæmdastjóri og tengiliður er Valgarður Hilmarsson laxasetur@laxasetur.is.

Heimild: Húni.is

Hljómsveit úr Skagafirði í 3. sæti í Músíktilraunum 2012

Skagfirska hljómsveitin Funk that Shit! lenti í þriðja sæti í Músíktilraunum 2012 á úrslitakvöldi keppninnar í Austurbæ í gærkvöldi. Gítarleikar sveitarinnar, Reynir Snær Magnússon, hlaut nafnbótina Gítarleikari Músíktilrauna 2012 og Guðmundur Ingi Halldórsson, félagi hans úr Funk that Shit!, var valinn besti bassaleikarinn.

Á heimasíðu Rúv.is kemur fram að hljómsveitin RetRobot hafi fagnað sigri í keppninni og í öðru sæti varð hljómsveitin Þoka. Hljómborðsleikari Músíktilrauna er Heimir Klemensson úr Þoku, trommari ársins var valinn Sólrún Mjöll Kjartansdóttir úr White Signal og rafheili ársins er Daði Freyr Pétursson úr RetRobot. Söngvaraverðlaunin hlaut Agnes Björgvinsdóttir úr hljómsveitinni Þoku. Hljómsveit fólksins var hljómsveitin White Signal en hún var valin í símakosningu.

Nemendafélag Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra óánægt með Söngkeppnina

Nemendafélag Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki hefur sagt sig úr Sambandi íslenskra framhaldsskólanema vegna óánægju við undirbúning söngkeppni framhaldsskólanna.

Keppnin hefur undanfarin ár verið haldin á Akureyri en nú flyst hún til Reykjavíkur á ný. Fyrirkomulag keppninnar er jafnframt með öðru sniði en áður. Framleiðslufyrirtækið Sagafilm hefur tekið að sér framkvæmd keppninnar og aðeins 12 atriði munu keppa til úrslita í aðalkeppninni sem sýnd verður í beinni útsendingu á RÚV.

Í bréfi nemendafélagsins til stjórnar SÍF segir að keppnin eigi að vera skemmtun fyrir nemendur í framhaldsskólum landsins og skuli byggð þannig upp, að fækka atriðum gangi gegn hagsmunum nemenda. Þá segir í bréfinu að ákvarðanataka í kringum söngkeppnina hafi farið fram í lokuðum bakherbergjum. Ef breyta eigi viðburði sem þessum á svo róttækan hátt verði að gæta þess að allir hagmunaaðilar fái áheyrn.

Heimild: Rúv.is

Varmahlíðarskóli gerði góða hluti í Skólahreysti

Varmahlíðarskóli varð hlutskarpastur í sínum riðli í Skólahreysti sem fram fór á Akureyri á fimmtudag og er þar með kominn í úrslitakeppnina sem fram fer þann 26. apríl í Laugardalshöll. Skagfirsku skólarnir í Varmahlíð, austan Vatna og á Sauðárkróki röðuðu sér í þrjú efstu sætin en Húnavallaskóli kom þar næstur.

Það verða því Varmahlíðarskóli, Hvolsskóli, Lindaskóli, Heiðarskóli, Foldaskóli, Hagaskóli, Grunnskóli vestur Húnvetninga, Grunnskólinn á Ísafirði, Egilsstaðaskóli og Giljaskóli sem etja kappi í úrslitum í Skólahreysti 2012-03-30

Úrslitin voru eftirfarandi:

Skóli Gildi Stig
Varmahlíðarskóli 40 40,00
Grunnskólinn austan Vatna 38 38,00
Árskóli 37 37,00
Húnavallaskóli 31 31,00
Hafralækjarskóli 29 29,00
Grunnskóli Fjallabyggðar 28 28,00
Grenivíkurskóli 25 25,00
Blönduskóli 24 24,00
Dalvíkurskóli 18 18,00

Svartur á leik sýnd í Króksbíói

Íslenska stórmyndin Svartur á leik hefur fengið góðar viðtökur hjá landsmönnum og vegna fjölda áskorana mun myndin fara í sýningu um allt land á næstu dögum, þar á meðal verður hún til sýningar á Sauðárkróki.

Myndin verður til sýningar í Króksbíói mánudaginn 2. apríl og fimmtudaginn 5. apríl kl. 20. Miðapantanir fara fram í síma 4535216 og miðaverð er 1500 kr. Þess má geta að myndin er bönnuð innan 16 ára.

Tindastóll átti ekkert í lið KA

KA 5 – 0 Tindastóll:
1-0 Ævar Ingi Jóhannesson (’10)
2-0 Elmar Dan Sigþórsson (’44)
3-0 Jóhann Helgason (’53)
4-0 Gunnar Örvar Stefánsson (’83)
5-0 Brian Gilmour (’89)

Í gærkvöldi tók KA á móti Tindastól í Lengjubikar karla í knattspyrnu. Það er skemmst frá því að segja að KA vann yfirburðasigur á lánlausum Tindastólsmönnum. KA skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og þrjú í þeim seinni. Áhorfendur voru aðeins 45 í Boganum á Akureyri. Fannar Freyr hjá Tindastóli fékk rautt spjald á 87 mínútu og léku því Tindastólsmenn einum færri síðustu mínúturnar.

Nánari lýsing:

Leikið var í Boganum á Akureyri og það voru heimamenn í KA sem komust yfir á 10. mínútu. Ævar Ingi Jóhannesson skoraði þá laglegt skallamark eftir sendingu frá Hallgrími Mar Steingrímssyni sem hafði leikið vörn Tindastóls grátt.

Á þeirri 44. mínútu bætti Elmar Dan Sigórsson fyrirliði KA manna öðru marki við eftir gott samspil við Jóhann Helgason.

Jóhann Helgason skoraði svo þriðja markið sjálfur í byrjun seinni hálfleiks með flottu skoti vinstra megin fyrir utan teig sem fór í stöngina og inn.

Gunnar Örvar Stefánsson kom KA svo í 4-0 þegar um 7 mínútur voru eftir. Hann fékk þá flotta fyrirgjöf frá varamanninum Kristjáni Frey Óðinssyni og potaði boltanum yfir línuna.

Fimmta markið skoraði svo Skotinn Brian Gilmour sem smellti boltanum í samskeytin úr aukaspyrnu á lokamínútunni.

KA fór ekki upp úr sjötta sæti riðilsins með þessum sigri en er nú komið með sjö stig úr sex leikjum. Tindastóll í sjöunda og næst neðsta sætinu með eitt stig.

Leikskýrslu KSÍ má finna hér.

Liðin voru þannig skipuð:

KA Tindastóll
Byrjunarlið
4 Haukur Hinriksson 2 Loftur Páll Eiríksson
5 Þórður Arnar Þórðarson 3 Pálmi Þór Valgeirsson
6 Srdjan Tufegdzic 4 Magnús Örn Þórsson
8 Brian Gilmour 5 Edvard Börkur Óttharsson
11 Jóhann Helgason 6 Björn Anton Guðmundsson
15 Elmar Dan Sigþórsson  (F) 7 Aðalsteinn Arnarson  (F)
18 Ómar Friðriksson 8 Atli Arnarson
22 Hallgrímur Mar Steingrímsson 10 Fannar Freyr Gíslason
24 Ævar Ingi Jóhannesson 11 Fannar Örn Kolbeinsson
28 Jakob Hafsteinsson 12 Arnar Magnús Róbertsson  (M)
30 Fannar Hafsteinsson  (M) 20 Árni Arnarson

KR lagði Tindastól í fyrsta leik

Úrslitakeppnin í Iceland Express deild karla í körfubolta hófst á fimmtudagskvöld og héldu Tindastólsmenn suður til að mæta KR. Fjölmennum og fríður flokkur stuðningsmanna Tindastóls mættu á leikinn til að hvetja sína menn. KR-ingar höfðu frumkvæðið lengstum í leiknum og lönduðu nokkuð öruggum sigri þó Stólarnir hafi gert góða atlögu að þeim undir lok þriðja leikhluta. Lokatölur 84-68.

Nú er annar leikur liðanna á sunnudag í Síkinu á Sauðárkróki og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að fjölmenna og hvetja liðið til sigurs. KR-ingar hafa heimsótt Síkið tvisvar áður í vetur og hafa þeir ekki riðið feitum hesti frá þeim viðureignum. Áfram Tindastóll!

Stig Tindastóls: Allen 16, Miller 13, Þröstur Leó 12, Svabbi 11, Helgi Rafn 9, Tratnik 5 og Hreinsi 2.

Stóðhestaveisla á Sauðárkróki

Hin árlega „Stóðhestaveisla“ fer fram í reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki á laugardagskvöldið kemur, 31. mars og hefst kl. 20 þar sem á fjórða tug stóðhesta mun koma fram ásamt mörgum knáum knöpum.

Samkvæmt fréttatilkynningu hófst forsala miða í gær, miðvikudag, en forsalan fer fram hjá N1 í Staðarskála, á Blönduósi, á Sauðárkróki og við Hörgárbraut á Akureyri. Miðaverð er 3.000 kr. í forsölu, en 3.500 kr. við innganginn. Innifalið í miðaverðinu er 370 blaðsíðna stóðhestabók þar sem kynntir eru 310 stóðhestar víðs vegar af landinu.

Gustur frá Hóli verður heiðurshestur sýningarinnar fyrir norðan og mun gleðja gesti með nærveru sinni.

Það verður því nóg um að vera fyrir hestaáhugamenn í Skagafirði á laugardagskvöldið.

Heimild: Mbl.is

Ferðamálastofa veitir styrki

Alls bárust 75 umsóknir um styrki til smærri verkefna til úrbóta í umhverfismálum á ferðamannastöðum, sem Ferðamálastofa auglýsti á dögunum. Heildarupphæð styrkóska um 49 milljónir króna en til úthlutunar eru 8 milljónir króna. Áhersla er á verkefni er tengjast uppbyggingu og vöruþróun göngu- og hjólaleiða, bættu aðgengi og öryggi ferðamanna og söguferðamennsku. Hámarksupphæð hvers styrks verður 800 þúsund krónur og er hann ætlaður fyrir efniskostnaði og/eða hönnun. Ekki er veittur styrkur fyrir eldsneyti, fæðiskostnaði eða vinnuframlagi við framkvæmdir. Reiknað er með að tilkynna um úthlutun í byrjun apríl.

Vélsleðamaður féll niður um ís á Svínavatni

Vélsleðamaður féll niður um ís á Svínavatni, skammt frá Húnavöllum, á fjórða tímanum í gær. Ísinn á vatninu reyndist ótraustur og um fimmtíu metra frá landi brotnaði hann.

Tveir urðu vitni að óhappinu og gátu dregið manninn upp úr með kaðalspotta. Vélsleðinn sökk hins vegar til botns. Björgunarsveitir voru kallaðar út þar sem óttast var að maðurinn kólnaði hratt niður í vatninu en þær voru afturkallaðar þegar í ljós kom að maðurinn náðist fljótt upp úr vatninu.

Honum varð ekki meint af volkinu og þurfti ekki á frekari aðhlynningu að halda, eftir að hann komst í þurr föt.

Björgunarsveitarmenn vinna þó að því að ná sleðanum upp úr vatninu en lögreglan á Blönduósi telur að það sé hátt í tveggja metra djúpt þar sem sleðinn fór niður.

Heimild: Rúv.is

Tindastóll vann Njarðvík í körfunni

Tindastólsmenn mörðu baráttuglaða Njarðvíkinga í Síkinu á fimmtudagskvöld en gestirnir þurftu að sigra heimamenn með yfir átta stiga mun til að stela af þeim sjöunda sætinu í Iceland Express deildinni. Njarðvíkingar gerðu ágæta atlögu en þegar upp var staðið höfðu heimamenn betur, Miller tók leikinn í sínar hendur á lokakaflanum og staldraði oft við á vítalínunni. Lokatölur 81-79.

Tindastóll mætir svo KR í úrslitakeppninni.

Varðskipið Ægir á Sauðárkróki í gær

Ægir, varðskip Landhelgisgæslunnar, lagði að bryggju á Sauðárkróki rétt fyrir kl. 16 í gær og var við höfn til kl. 20 í gærkvöldi. Þá halda þeir út á fjörðinn þar sem stefnt er á að halda björgunaræfingu á sjó, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Ægir kom síðast á Sauðárkrók þegar skipið átti að flytja ísbjörninn, sem hingað kom á land árið 2009, til Grænlands en ekkert varð þó úr því.

Sjá nánar um fréttina og myndir á Feykir.is

Sumarstörf í Skagafirði

Starfsmaður við persónulega þjónustu ótg.

Málefni fatlaðra- Sumarstörf í Skagafirði

Fyrirtæki/stofnun: Sveitarfélagið Skagafjörður

Óskað er eftir starfsfólki af báðum kynjum, 20 ára og eldri í sumarafleysingar 2012.

Reynsla af starfi með fötluðu fólki æskileg. Starfstími er frá júníbyrjun til loka ágúst. Eftirfarandi starfsstöðvar óska eftir sumarafleysingum:

Frekari liðveisla:

Um það bil 50% starfshlutfall, vaktavinna og dagvinna.

Upplýsingar gefur Steinunn í síma 899 2003 eða á steinunnr@skagafjordur.is

Iðja- Hæfing:

Starfshlufall samkomulag, dagvinna.

Upplýsingar gefur Jónína í síma 453 6853 eða á idja@skagafjordur.is

Sambýlið Fellstúni:

Starfshlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Edda í síma 453 6692 eða á fellstun@skagafjordur.is

Skammtímavistun:

Starfhlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Dóra Heiða í síma 692 7511 eða á doraheida@skagafjordur.is

Þjónustuíbúðir Kleifatúni:

Starfshlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Steinunn í síma 899 2003 eða á steinunnr@skagafjordur.is

Umsóknarfrestur er til 1. apríl. Launakjör miðast við kjarasamninga Öldunar stéttarfélags, starfsmannafélags Skagafjarðar við Sveitarfélagið Skagafjörð.

Umsækjendur eru hvattir til að nýta umsóknareyðublað í íbúagátt sveitarfélagsins, rafræn umsóknareyðublöð eru einnig á vef sveitarfélagsins – www.skagafjordur.is

Starfsmaður óskast á minnkabú

Landbúnaðarverkamaður, ósérhæfður

Minnkabú – Skagafjörður.

Fyrirtæki/stofnun: Vinnumálastofnun Norðurl vestra

Starfsmaður óskast í fullt starf á minnkabú í Skagafirði. Um framtíðarstarf er að ræða. Vinnutími er frá 8:00-17:00 virka daga. Áhugasamir beðnir að hafa samband við Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra í síma 455-4200 eða á netfangið: nordurland.vestra@vmst.is

Bæjar- og menningarvefur