Sýningartímar Stellu í Orlofi

Leikhópur Nemendafélags Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra setur upp sýninguna Stellu í orlofi eftir Guðrúnu Halldórsdóttur og sýnir í Bóknámshúsi FNV. Frumsýning verður mánudaginn 12. nóvember en stefnt er að því að sýna átta sinnum. Myndir af æfingu má sjá hér.

Sýningartímar verða sem hér segir:

 • Frumsýning mánudaginn 12. nóvember kl. 20:00
 • 2. sýning miðvikudaginn 14. nóvember kl. 20:00
 • 3. sýning fimmtudaginn 15. nóvember kl. 20:00
 • 4. sýning föstudaginn 16. nóvember kl. 20:00
 • 5. sýning laugardaginn 17. nóvember kl. 17:00
 • 6. sýning sunnudaginn 18. nóvember kl. 14:00
 • 7. sýning sunnudaginn 18. nóvember kl. 20:00
 • 8. sýning þriðjudaginn 20. nóvember kl. 20:00

Pöntunarsími er 455 8070, opinn á milli kl. 16 til 18 alla sýningardaga.

Formleg opnun framhaldsdeildar á Hvammstanga

Í haust var stofnuð dreifnámsdeild frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Hvammstanga.  Verkefnið er samstarfsverkefni milli Húnaþings vestra og FNV.  Í dreifnáminu geta nemendur úr Húnaþingi vestra stundað nám á framhaldsskólastigi undir stjórn kennara FNV,  með aðstoð nútíma upplýsingatækni. Markmiðið er að nemendur geti stundað almennt bóknám fyrstu 2 árin í sinni heimabyggð.

Umsjónarmaður deildarinnar á Hvammstanga er Rakel Runólfsdóttir og heldur hún utan um starfsemina þar. Öll kennsla fer fram gegnum fjarfundabúnað frá Sauðárkróki.  Nemendafjöldi í dreifnáminu er 17, þar af 12 sem útskrifuðust úr 10. bekk s.l. vor.

Dreifnámið byggir á að veita nemendum almennan bóklegan grunn fyrstu tvö árin.  En almennt má segja að dreifmennt sé góður kostur til að brúa bil milli landshluta og gera einstaklingum kleift að stunda nám hvar sem þeir eru staðsettir.

Nemendur í dreifnámi fara í tvær námslotur á Sauðárkróki á hverri önn,  viku í senn.  Loturnar eru mikilvægur hluti af náminu, þá gefst nemendum tækifæri til þess að hitta kennara, fá verklega kennslu og stunda félagslíf.

Heimild:  fnv.is

Nýr golfhermir í Skagafjörð?

Ágætu félagar í GSS
Að undanförnu hafa nokkrir félagar í GSS rætt sín á milli um kaup á golfhermi í nýja inniaðstöðu klúbbsins. Sá hermir sem helst kemur til greina er af gerðinni Double Eagle DE3000 sem er einn sá besti sem völ er á. Í herminum er hægt að spila marga heimsþekkta golfvelli og er grafík eins og best verður á kosið. Einnig er afar mikilvægt að nútíma golfhermar gefa mjög raunhæfa mynd af sveiflu og raunverulegri getu. Þetta er því ekki bara tölvuleikur, heldur tæki til að bæta sig í golfi. Auk þess að spila golfvelli er hægt að vera á æfingarsvæðinu og fá nákvæmar upplýsingar um högg, lengdir, sveifluhraða o.s.frv. á sama hátt og mæling fer fram hjá söluaðilum á golfkylfum.

Ákveðið hefur verið að kanna áhuga félagsmanna og stofna áhugamannafélag um kaup á slíkum hermi. Ljóst er að einungis verður hægt að festa kaup á slíku tæki með samstilltu átaki margra. Ákveðið hefur verið að fara þá leið að fara þess á leit við félagsmenn að þeir kaupi fyrirfram tíma í herminn með afslætti og þannig verði hægt að safna nægu fjármagni til að hefjast handa. Jafnframt er mikilvægt að hefjast þegar handa, þannig að hermirinn geti verið kominn í gagnið fyrir áramót.

Í stuttu máli er hugmyndin sú að áhugamannafélagið kaupi golfherminn, safni fjármagni í upphafi að upphæð 1 milljón króna, en síðan verði seldir tímar í herminn. Hver klukkustund í herminum kosti 2500 krónur fyrir félagsmenn, en allt að 5 manns geti spilað í einu. Utan félagsmenn munu greiða hærra gjald, 3-3500 krónur. Einn 18. holu hringur tekur um 2-3 klukkustundir, en kostnaður dreifist að sjálfsögðu eftir því hversu margir spila í einu. Þess má geta að á höfuðborgarsvæðinu kostar klukkutíminn 3000-3500 krónur og er þar um að ræða eldri gerðir herma. Heildarkostnaður vegna hermisins og uppsetningar hans er um 5 milljónir króna.

Alla fréttina má lesa hér.

Heimild: gss.is

Ekki til fjármagn til að ljúka breytingu Þverárfjallsvegar

Þjóðvegur í þéttbýli – Strandvegur

Vegagerðin er sammála Byggðarráði Skagafjarðar að ljúka þurfi breytingu á legu Þverárfjallsvegar/Strandvegar um Sauðárkrók á móts við norðurenda Aðalgötu.

Ekki hefur enn verið unnt að tryggja fjárveitingu til þeirrar framkvæmdar og er vísað til heildarendurskoðunar samgönguáætlunar 2015-2026, sem fer fram innan tveggja ára, vegna þess.

Fjölliðamót í körfubolta á Sauðárkróki

Önnur umferð fjölliðamótanna að hefjast

Nú er önnur umferð fjölliðamótanna að hefjast um næstu helgi og eru það fjórir flokkar sem hefja umferðina. 8. flokkur stúlkna í Tindastóli keppir á Sauðárkróki, stúlknaflokkur í Grafarvogi, 8. flokkur drengja á Akureyri og 11. flokkur drengja í Kópavogi. Þá spilar unglingaflokkur karla við Breiðablik á laugardaginn.

Stelpurnar í 8. flokki spila í B-riðli hér heima gegn Kormáki, Snæfelli, Hamar/Þór Þorlákshöfn og Njarðvík. Leikjaprógrammið þeirra er svona:

 

10-11-2012 11:00 gegn Kormákur 8. fl. st. Sauðárkrókur
10-11-2012 14:00 gegn Snæfell 8. fl. st. Sauðárkrókur
11-11-2012 10:00 gegn Hamar/Þór Þ. 8. fl. st. Sauðárkrókur
11-11-2012 13:00 gegn Njarðvík 8. fl. st. Sauðárkrókur

Umferðarkönnun á Tröllaskaga

Fimmtudaginn 8. nóvember og laugardaginn 10. nóvember nk. verður gerð umferðarkönnun á þremur stöðum á Mið-Norðurlandi; (1) á Ólafsfjarðarvegi norðan Dalvíkur, (2) í Héðinsfirði og (3) við Ketilás í Fljótum. Könnunin stendur yfir frá kl. 08:00 – 23:00 báða dagana.

Könnunin er unnin af starfsmönnum Háskólans á Akureyri í samráði við Vegagerðina og hefur þann tilgang að að afla upplýsinga um flæði umferðar um norðanverðan Tröllaskaga og áfangastaði og erindi vegfarenda.

Búast má við lítilsháttar töfum á umferð vegna þessa en allir bílstjórar sem leið eiga um könnunarstaðina verða beðir að svara örfáum spurningum. Reiknað er með að það taki innan við mínútu að svara könnuninni og er vonast til þess að vegfarendur sýni starfsfólki þolinmæði og skilning.

Nemendur MA í heimsókn á Hólum

Það hefur verið óvenju mannmargt á Hólum í Hjaltadal, í upphafi vikunnar. Nemendur í Menntaskólanum á Akureyri voru í vettvangsferðum, ásamt sögukennurum sínum. Þetta er orðinn fastur liður í sögunáminu, í 2. bekk.

Gestirnir skoðuðu sig um á staðnum, og voru fræddir um sögu hans og núverandi starfsemi og stöðu. Það kom í hlut rektors að fara með þeim í Hóladómkirkju.

Myndir má sjá hér.

 

Heimild: www.holar.is

Fræðslufundur um jarðskjálfta og viðbrögð við þeim

Fræðslu og kynningarfundur verður haldinn á Sauðárkróki þriðjudaginn 13.11.2012 klukkan 17:30 í Bóknámshúsi Fjölbrautarskóla Norðurlands Vestra.

   Dagskrá fundarins

 

 • Kynning á fundarefni og fyrirkomulagi
 • Jarðskjálftar á Norðurlandi, hvað veldur?
 • Áætlanir, viðbragð, kynningarefni
 • Hvað getur fólk gert?
 • Hvernig bregstu við tjóni
 • Næstu skref
 • Sérfræðingar frá Veðurstofu, Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fleirum flytja erindi og svara spurningum úr sal.
 • Íbúar Skagafjarðar eru hvattir til að mæta og fræðast um jarðskjálfta og viðbrögð við þeim

Almannavarnanefnd Skagafjarðar.

Fyrirtæki í Eyjafirði vilja hasla sér völl á Grænlandi

Fyrirtæki í Eyjafirði hafa í sameiningu hrundið af stað átaki til tveggja ára, með það að markmiði að hasla sér völl á Grænlandi. Þar eru fyrirsjáanleg í náinni framtíð mikil umsvif sem Eyfirðingar vilja taka þátt í.

Á kynningarfundi á Akureyri kom fram að fyrirsjáanleg eru þrjátíu stór verkefni á sviði olíu- og námavinnslu og uppbyggingu innviða á Grænlandi. Fyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu hafa nú tekið höndum saman og hyggjast á næstu tveimur árum markaðssetja þjónustu sína á meðal stórfyrirtækja sem þarna verða að störfum.

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir ljóst að það vanti mikið af innviðum, tækniþekkingu og fagþekkingu á ýmsum sviðum á Grænlandi. „Við erum nærtækasti kostur hvað varðar flutninga, heilbrigðisþjónustu og fleira, enda kannski með áratuga reynslu hér á þessu svæði við að þjónusta Grænland.“

Þorvaldur viðurkennir að seint sé af stað farið, auk þess sem fámennt íslenskt samfélag sé örsmátt í alþjóðlegri samkeppni. Því sé mikil vinna framundan næstu 24 mánuði ef Eyfirðingar ætli sér að vera með í þessari uppbyggingu. En mikil samstaða sé um verkefnið og það hjálpi til.

„Þegar mörg ólík fyrirtæki úr mismunandi greinum geta komið saman, tekið höndum saman, lagst sameiginlega á árarnar í stað þess að vera hver á minni báti að róa í sína átt.“

Frétt frá Rúv.is

Skagfirðingafélagið í Reykjavík 75 ára

Skagfirðingafélagið í Reykjavík fagnar 75 ára afmæli sínu í dag laugardaginn 3. nóvember í Þróttaraheimilinu í Laugardal í Reykjavík. Af því tilefni býður félagið öllum brottfluttum Skagfirðingum til kaffisamsætis milli klukkan 14:00 og 16:00 en þar verða einnig skagfirskir skemmtikraftar sem hjálpa til við að gera stemninguna léttari. Um kvöldið verður svo dansað fram á nótt.

Meðal þeirra sem koma fram eru söngvararnir Ásgeir Eiríksson og Svana Berglind Karlsdóttir ásamt píanóleikaranum Jónasi Þóri en öll eiga þau ættir sínar að rekja í fjörðinn fagra. Það gera þeir einnig Kristján Runólfsson hagyrðingur sem yrkir um allt sem sést hefur á jarðarkringlunni og Björn Jóhann Björnsson sem skráð hefur skemmtilegar sögur af Skagfirðingum en annað bindið af þeim er að koma út á næstunni og mun hann efalaust segja sannar og lognar sögur af sveitungum sínum í afmælinu.

Klukkan 22:30 verður Þróttaraheimilið opnað á ný en þá verður boðið upp á tónlist samda og flutta af Skagfirðingum….m.a. lög eftir Geirmund Valtýsson, Hörð G. Ólafsson, Von, Kristján Gísla, Dætur Satans, Ellert Jóhanns, Herramenn, Álftagerðisbræður, Erlu Gígju, Ásdísi Guðmunds, Hreindísi Ylvu, Snorra Everts og lög sem keppt hafa í Sæluvikulögunum svo eitthvað sé nefnt. Hljómsveitin Gildran mun svo setja punktinn yfir I-ið og halda uppi fjöri upp úr miðnætti.

Heimild: www.feykir.is

Laust starf frístundaráðgjafa á Sauðárkróki

Hús Frítímans á Sauðárkróki óskar eftir að ráða frístundaráðgjafa í 100 % starfshlutfall.  Um er að ræða tímabundna ráðningu frá 6. nóvember 2012 til 31. mars 2013.

 • Uppeldismenntun eða sambærileg menntun er æskileg.
 • Starfið hentar bæði körlum og konum.
 • Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga.
 • Umsóknafrestur er til 6. nóvember 2012

Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins, eða í gegnum Íbúagáttina.

Upplýsingar um starfið gefur Sigríður A. Jóhannsdóttir, mannauðsstjóri, sigriduraj@skagafjordur.is, s: 455 6000.

Nám í fisktækni í Fjallabyggð

 Langar þig að ljúka námi í þínu fagi?

Hefur þú starfað í fiskvinnslu, verið til sjós eða sinnt öðrum störfum tengdum sjávarútvegi?

Sú þekking og færni sem þú hefur öðlast t.d. í starfi, námi, frístundum eða félagsstörfum getur stytt skólagöngu þína.

Við bjóðum uppá nám við þitt hæfi!

 

 • Komdu og kynntu þér málið í Bergi á Dalvík, miðvikudaginn 31. október klukkan 17:00.
 • Í fundarsal Einingar-Iðju, Eyrargötu 24b á Siglufirði fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 17:00.
 • Í fundarsal Einingar-Iðju, Skipagötu 14 á Akureyri mánudaginn 5. nóvember klukkan 17:00.

 

Allir velkomnir, Menntaskólinn á Tröllaskaga.

 

Heimild: www.fjallabyggd.is

Jarðskjálfti upp á 3,5 í morgun

 

Jarðskjálfti um 3,5 að stærð varð um 24 kílómetra norð-norðaustur af Siglufirði klukkan 7:16 í morgun. Upptökin eru á svipuðum slóðum og skjálfta að stærðinni 5,6 fyrir rúmri viku.

Nokkuð hefur dregið úr jarðskjálftahrinunni undan Tröllaskaga frá því mest skalf en þó mælast öðru hverju skjálftar um og yfir þremur að stærð. Að sögn jarðeðlisfræðings á Veðurstofunni má búast við áframhaldandi virkni á svæðinu.

Heimild: www.ruv.is

Veðurstofan spáir slæmu veðri á norðurlandi næstu daga

Veðurstofan vill vekja athygli á slæmu veðri sem spáð er næstu daga. Eftir miðjan dag á morgun verður komið norðan vonskuveður um landið norðanvert með vindhraða á bilinu 13 til 20 metrar á sekúndu. Með þessu verður snjókoma og él og getur færð og skyggni spillst á skömmum tíma.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Veðurstofunni.

Eins ættu menn sem hafa húsdýr úti við að huga að því að koma skepnum í skjól. Búast við mjög hvössum vindhviðum undir Vatnajökli frá því síðdegis á morgun og fram eftir vikunni. Ekki er búist við að veður fari að batna fyrr en líður á næstu helgi og eins er að sjá að veður geti orðið enn verra á fimmtudag og föstudag.

Heimld: ruv.is

Fréttatilkynning frá Kjördæmaráði Vinstri grænna

Kjördæmisráð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi hefur samþykkt að efna til forvals fyrir alþingiskosningarnar 2013. Kosið verður póstkosningu í 6 efstu sætin þann 10. desember n.k. Framboðsfrestur rennur út 19. nóvember og skal tilkynna framboð til kjörstjórnar á netfangið forvalna2012@gmail.com.

 

Kjörstjórn hvetur sem flesta félagsmenn til að gefa kost á sér í forvalið.

Texti: Aðsent.

Óvissustigi almannavarna lýst yfir vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi

Að höfðu samráði við vísindamenn, lögreglustjórana á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, almannavarnir í héraði, viðbragðsaðilar og vísindamenn hafa allir verið að vinna mikla vinnu síðan hrinan hófst á laugardaginn.  Verkefni sem eru lýsandi fyrir vinnu þessara aðila á óvissustig.  Því var talið rétt að óvissustigi yrði lýst yfir til samræmis við vinnu og viðbrögð þessara aðila.  Óvissustig á við þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í dag og var niðurstaða fundarins að á þessu svæði er þekkt að verða stórir jarðskjálftar, um 2 til 3 á öld.  Það er einnig þekkt að stórir skjálftar fylgi jarðskjálftahrinum þó það sé ekki víst.  Hrinan sem nú er í gangi er sú öflugasta sem mælst hefur á 20 ára tímabili.  Þá er einnig rétt að hafa í huga að stór jarðskjálfti á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu gæti hleypt af stað öðrum stórum skjálfta annað hvort á sama misgenginu eða á Grímseyjarbeltinu sem liggur til norðvesturs frá Kópaskeri.

Fyrir þá landsmenn sem búa á eða við þekkt jarðskjálftasvæði er þetta gott tækifæri til þess að velta fyrir sér hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að draga úr tjóni og minnka líkur á slysum vegna jarðskjálfta.

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum.

Varnir fyrir jarðskjálfta má finna hér http://almannavarnir.is/default.asp?cat_id=102

Viðbrögð við jarðskjálfta má finna hér http://almannavarnir.is/displayer.asp?cat_id=103

Eldur kom upp í hesthúsi í Skagafirði

Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í hesthúsi á bænum Hellulandi í Skagafirði í nótt. Slökkviliðið hafði lokið aðgerðum á staðnum þegar eldurinn blossaði upp aftur og olli enn meira tjóni.

Slökkviliðinu á Sauðárkróki barst tilkynning um eldinn rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Húsið er nýlegt og hefur verið í byggingu síðastliðin þrjú ár. Engir hestar voru í húsinu en þarna hafa hestar verið meira og minna í allt haust.

Vernharð Guðnason, slökkviliðsstjóri á Sauðárkróki, sagði í viðtali við Rúv.is að töluverður eldur hafi verið í húsinu þegar liðið kom á vettvang, „en bóndinn gerði sitt til að hemja eldinn þangað til við komum. Það gekk ágætlega að ráða niðurlögum eldsins þá og við töldum okkur vera búna að slökkva, en því miður tók eldurinn sig upp aftur síðar um nóttina og við urðum að fara aftur. Þá varð tjónið öllu stærra. Í þessu tilfelli var það metið sem svo að þetta væri allt kulnað, en því miður þá hefur trúlega leynst glóð inni í vegg eða eitthvað svoleiðis sem tók sig upp aftur með þessum afleiðingum.“

Húsið er mikið skemmt.Burðarvirki þess brunnið og mikið af reiðtygjum og alls kyns áhöldum ónýtt. Andrés Geir Magnússon, eigandi hússins, segir tjónið nema milljónum, en hann sé ótryggður fyrir tjóni sem þessu. Eldsupptök hafa ekki verið staðfest. Ekkert rafmagn er á húsinu. „En við vitum líka að það var hálmur í bing og sag. Spurning hvort hafi hitnað í því, en það eru getgátur enn sem komið er,“ segir Vernharð Guðnason slökkviliðsstjóri.

Heimild: rúv.is

Laust starf í afleysingum á leikskóla

Leikskólinn Ársalir leitar eftir  starfsmönnum í afleysingar frá 1. nóvember 2012 til 12. júlí 2013.  Um er að ræða annars vegar 100% starfshlutfall og hins vegar 50% starfshlutfall.  Störfin henta bæði körlum jafnt sem konum.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Skagafjarðar.

Umsóknarfrestur er til 29. október 2012.  Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins eða í gegnum Íbúagáttina.

Upplýsingar um starfið gefur Anna Jóna Guðmundsdóttir, leikskólastjóri í síma 455-6090/899-1593,

Laust starf á Sauðárkróki

Íþróttahúsið á Sauðárkróki auglýsir eftir karlkyns starfsmanni í afleysingar í 100% starf.  Um er að ræða afleysingu frá 1. nóvember 2012 til 31. mars 2013.  Viðkomandi þarf að vera eldri en 18 ára.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Skagafjarðar.

Umsóknarfrestur er til 29. október 2012.  Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins eða í gegnum Íbúagáttina.

Upplýsingar um starfið gefur Ótthar Edvardsson í síma 455-6091, otthar@skagafjordur.is

Uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtaka V-Hún og Hestamannafélagsins Þyts 2012

Hátíð í heimabyggð

Verður haldin laugardagskvöldið 27. október í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Matur, gleði og gaman.

Þessi frábæra skemmtun hefst stundvíslega kl 20:00  en húsið opnar kl 19:30.

Þórhallur Magnús Sverrisson sér um matinn og á boðstólnum verður:

Forréttur

 • Sjávarréttarsúpa með bláskel og humar.
 • Graskerssúpa.

Aðalréttur

 • Grillhlaðborð að hætti kokksins.

Veislustjórn verður í höndum Ingvars Helga Guðmundssonar.

Forsala miða og pantanir fara fram í Söluskálanum á Hvammstanga, sími 4512465 og þarf að vera lokið að kvöldi miðvikudagsins 24.október.  Greiða þarf fyrir miðana með reiðufé.

Miðaverð á uppskeruhátíðina er kr 6500 matur, skemmtun og ball, en ef þú vilt hins vegar bara skella þér á dansleik í syngjandi sveiflu með Klaufum, sem hefst kl 00:00, þá kostar það litlar 3000 kr.

Enginn posi á staðnum!

Eftirfarandi bú eru tilnefnd ræktunarbú ársins 2012 af Hrossaræktarsamtökum V-Hún.

 Efri Fitjar – Grafarkot – Lækjamót

Athugið að það eru allir velkomnir á þessa frábæru skemmtun .

 

 

Ferðasýningin Hittumst á Radisson Hótel Sögu

Ferðasýningin “Hittumst” verður haldin föstudaginn 2. nóvember frá kl 14:00-18:00 að Radisson Hótel Sögu við Hagatorg. Hittumst er ætluð þeim sem tengjast ferðaþjónustu með einum öðrum hætti þar sem aðilar hittast og kynna vöru sína innbyrðis.

Í til kynningu frá Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisns segir m.a.: “Stjórn FSH hvetur alla félagsmenn til að leggja sitt að mörkun til að efla tengingu milli ferðaþjónustuaðila á höfuðborgarsvæðinu. Þessvegna viljum við leggja áherslu á að Hittumst er fyrir alla í fyrirtækinu og er frábært tækifæri fyrir starfsmenn hinna ýmsu fyrirtækja að hittast.”

Opið verður fyrir almenning frá kl. 16:00-18:00.

Um kvöldið verður svo haldin uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið verður upp á veitingar og skemmtun fram eftir kvöldi.

Kostnaðurinn er 10.000 kr. fyrir fyrirtæki sem eru skráð í ferðamálasamtökin en annars 15.000kr. Innifalið í þessu verði eru borð,stólar,dúkar og tveir miðar á kvöldskemmtunina. Ef fyrirtæki vill kaupa fleiri miða þá endilega látið vita.

Á uppskeruhátíðinni ætlum við að velja Fyndnasta atvikið og Flottustu auglýsinguna fyrir árið 2012 og eru félagsmenn beðnir um að taka þátt í því vali.

Netfang til skráningar : ferdamalasamtökin@gmail.com

Skráningu lýkur 25. október

VÍS styður við bakið á bændum á Norðurlandi

Vátryggingafélag Íslands leggur eina og hálfa milljón króna til fjársöfnunar fyrir bændur á Norðurlandi  sem urðu fyrir barðinu á veðuráhlaupinu nyrðra snemma í september, þar sem talið er að 10 þúsund fjár hafi farist.

Söfnun til að styðja við bakið á bændum var hleypt af stokkunum á Sauðárkróki nýverið, í tengslum við bændadaga Kaupfélags Skagfirðinga. Sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með söfnuninni og leitaði VÍS til hennar um að taka á móti fjárstyrki félagsins til bænda. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður nefndarinnar tók við styrknum frá VÍS fyrir hönd söfnunarinnar.

Nánar um söfnunina hér.

Laust starf í eldhúsi Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki

Laus er til umsóknar 70% staða starfsmanns í eldhúsi HS. Unnin er önnur hver helgi. Laun samkvæmt kjarasamningi Öldunnar stéttarfélags. Staðan er laus frá 1. nóvember .

Allar nánari upplýsingar veita Sigríður eða Ragnheiður í sima 455 4015. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist til Herdísar Klausen framkvæmdastjóra hjúkrunar. Hægt er að sækja um rafrænt á heimsíðu HS: www.hskrokur.is. Umsónknarfrestur er til 25. október

Bæjar- og menningarvefur