Veðurstofan spáir slæmu veðri á norðurlandi næstu daga

Veðurstofan vill vekja athygli á slæmu veðri sem spáð er næstu daga. Eftir miðjan dag á morgun verður komið norðan vonskuveður um landið norðanvert með vindhraða á bilinu 13 til 20 metrar á sekúndu. Með þessu verður snjókoma og él og getur færð og skyggni spillst á skömmum tíma.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Veðurstofunni.

Eins ættu menn sem hafa húsdýr úti við að huga að því að koma skepnum í skjól. Búast við mjög hvössum vindhviðum undir Vatnajökli frá því síðdegis á morgun og fram eftir vikunni. Ekki er búist við að veður fari að batna fyrr en líður á næstu helgi og eins er að sjá að veður geti orðið enn verra á fimmtudag og föstudag.

Heimld: ruv.is

Fréttatilkynning frá Kjördæmaráði Vinstri grænna

Kjördæmisráð Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi hefur samþykkt að efna til forvals fyrir alþingiskosningarnar 2013. Kosið verður póstkosningu í 6 efstu sætin þann 10. desember n.k. Framboðsfrestur rennur út 19. nóvember og skal tilkynna framboð til kjörstjórnar á netfangið forvalna2012@gmail.com.

 

Kjörstjórn hvetur sem flesta félagsmenn til að gefa kost á sér í forvalið.

Texti: Aðsent.

Óvissustigi almannavarna lýst yfir vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi

Að höfðu samráði við vísindamenn, lögreglustjórana á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, almannavarnir í héraði, viðbragðsaðilar og vísindamenn hafa allir verið að vinna mikla vinnu síðan hrinan hófst á laugardaginn.  Verkefni sem eru lýsandi fyrir vinnu þessara aðila á óvissustig.  Því var talið rétt að óvissustigi yrði lýst yfir til samræmis við vinnu og viðbrögð þessara aðila.  Óvissustig á við þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í dag og var niðurstaða fundarins að á þessu svæði er þekkt að verða stórir jarðskjálftar, um 2 til 3 á öld.  Það er einnig þekkt að stórir skjálftar fylgi jarðskjálftahrinum þó það sé ekki víst.  Hrinan sem nú er í gangi er sú öflugasta sem mælst hefur á 20 ára tímabili.  Þá er einnig rétt að hafa í huga að stór jarðskjálfti á Húsavíkur-Flateyjarmisgenginu gæti hleypt af stað öðrum stórum skjálfta annað hvort á sama misgenginu eða á Grímseyjarbeltinu sem liggur til norðvesturs frá Kópaskeri.

Fyrir þá landsmenn sem búa á eða við þekkt jarðskjálftasvæði er þetta gott tækifæri til þess að velta fyrir sér hvaða ráðstafanir er hægt að gera til að draga úr tjóni og minnka líkur á slysum vegna jarðskjálfta.

Á heimasíðu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra (www.almannavarnir.is) má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og/eða slysum í jarðskjálfta, bæði á heimilum og vinnustöðum.

Varnir fyrir jarðskjálfta má finna hér http://almannavarnir.is/default.asp?cat_id=102

Viðbrögð við jarðskjálfta má finna hér http://almannavarnir.is/displayer.asp?cat_id=103

Eldur kom upp í hesthúsi í Skagafirði

Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í hesthúsi á bænum Hellulandi í Skagafirði í nótt. Slökkviliðið hafði lokið aðgerðum á staðnum þegar eldurinn blossaði upp aftur og olli enn meira tjóni.

Slökkviliðinu á Sauðárkróki barst tilkynning um eldinn rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Húsið er nýlegt og hefur verið í byggingu síðastliðin þrjú ár. Engir hestar voru í húsinu en þarna hafa hestar verið meira og minna í allt haust.

Vernharð Guðnason, slökkviliðsstjóri á Sauðárkróki, sagði í viðtali við Rúv.is að töluverður eldur hafi verið í húsinu þegar liðið kom á vettvang, „en bóndinn gerði sitt til að hemja eldinn þangað til við komum. Það gekk ágætlega að ráða niðurlögum eldsins þá og við töldum okkur vera búna að slökkva, en því miður tók eldurinn sig upp aftur síðar um nóttina og við urðum að fara aftur. Þá varð tjónið öllu stærra. Í þessu tilfelli var það metið sem svo að þetta væri allt kulnað, en því miður þá hefur trúlega leynst glóð inni í vegg eða eitthvað svoleiðis sem tók sig upp aftur með þessum afleiðingum.“

Húsið er mikið skemmt.Burðarvirki þess brunnið og mikið af reiðtygjum og alls kyns áhöldum ónýtt. Andrés Geir Magnússon, eigandi hússins, segir tjónið nema milljónum, en hann sé ótryggður fyrir tjóni sem þessu. Eldsupptök hafa ekki verið staðfest. Ekkert rafmagn er á húsinu. „En við vitum líka að það var hálmur í bing og sag. Spurning hvort hafi hitnað í því, en það eru getgátur enn sem komið er,“ segir Vernharð Guðnason slökkviliðsstjóri.

Heimild: rúv.is

Laust starf í afleysingum á leikskóla

Leikskólinn Ársalir leitar eftir  starfsmönnum í afleysingar frá 1. nóvember 2012 til 12. júlí 2013.  Um er að ræða annars vegar 100% starfshlutfall og hins vegar 50% starfshlutfall.  Störfin henta bæði körlum jafnt sem konum.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Skagafjarðar.

Umsóknarfrestur er til 29. október 2012.  Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins eða í gegnum Íbúagáttina.

Upplýsingar um starfið gefur Anna Jóna Guðmundsdóttir, leikskólastjóri í síma 455-6090/899-1593,

Laust starf á Sauðárkróki

Íþróttahúsið á Sauðárkróki auglýsir eftir karlkyns starfsmanni í afleysingar í 100% starf.  Um er að ræða afleysingu frá 1. nóvember 2012 til 31. mars 2013.  Viðkomandi þarf að vera eldri en 18 ára.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Skagafjarðar.

Umsóknarfrestur er til 29. október 2012.  Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins eða í gegnum Íbúagáttina.

Upplýsingar um starfið gefur Ótthar Edvardsson í síma 455-6091, otthar@skagafjordur.is

Uppskeruhátíð Hrossaræktarsamtaka V-Hún og Hestamannafélagsins Þyts 2012

Hátíð í heimabyggð

Verður haldin laugardagskvöldið 27. október í Félagsheimilinu á Hvammstanga.

Matur, gleði og gaman.

Þessi frábæra skemmtun hefst stundvíslega kl 20:00  en húsið opnar kl 19:30.

Þórhallur Magnús Sverrisson sér um matinn og á boðstólnum verður:

Forréttur

 • Sjávarréttarsúpa með bláskel og humar.
 • Graskerssúpa.

Aðalréttur

 • Grillhlaðborð að hætti kokksins.

Veislustjórn verður í höndum Ingvars Helga Guðmundssonar.

Forsala miða og pantanir fara fram í Söluskálanum á Hvammstanga, sími 4512465 og þarf að vera lokið að kvöldi miðvikudagsins 24.október.  Greiða þarf fyrir miðana með reiðufé.

Miðaverð á uppskeruhátíðina er kr 6500 matur, skemmtun og ball, en ef þú vilt hins vegar bara skella þér á dansleik í syngjandi sveiflu með Klaufum, sem hefst kl 00:00, þá kostar það litlar 3000 kr.

Enginn posi á staðnum!

Eftirfarandi bú eru tilnefnd ræktunarbú ársins 2012 af Hrossaræktarsamtökum V-Hún.

 Efri Fitjar – Grafarkot – Lækjamót

Athugið að það eru allir velkomnir á þessa frábæru skemmtun .

 

 

Ferðasýningin Hittumst á Radisson Hótel Sögu

Ferðasýningin “Hittumst” verður haldin föstudaginn 2. nóvember frá kl 14:00-18:00 að Radisson Hótel Sögu við Hagatorg. Hittumst er ætluð þeim sem tengjast ferðaþjónustu með einum öðrum hætti þar sem aðilar hittast og kynna vöru sína innbyrðis.

Í til kynningu frá Ferðamálasamtökum höfuðborgarsvæðisns segir m.a.: “Stjórn FSH hvetur alla félagsmenn til að leggja sitt að mörkun til að efla tengingu milli ferðaþjónustuaðila á höfuðborgarsvæðinu. Þessvegna viljum við leggja áherslu á að Hittumst er fyrir alla í fyrirtækinu og er frábært tækifæri fyrir starfsmenn hinna ýmsu fyrirtækja að hittast.”

Opið verður fyrir almenning frá kl. 16:00-18:00.

Um kvöldið verður svo haldin uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem boðið verður upp á veitingar og skemmtun fram eftir kvöldi.

Kostnaðurinn er 10.000 kr. fyrir fyrirtæki sem eru skráð í ferðamálasamtökin en annars 15.000kr. Innifalið í þessu verði eru borð,stólar,dúkar og tveir miðar á kvöldskemmtunina. Ef fyrirtæki vill kaupa fleiri miða þá endilega látið vita.

Á uppskeruhátíðinni ætlum við að velja Fyndnasta atvikið og Flottustu auglýsinguna fyrir árið 2012 og eru félagsmenn beðnir um að taka þátt í því vali.

Netfang til skráningar : ferdamalasamtökin@gmail.com

Skráningu lýkur 25. október

VÍS styður við bakið á bændum á Norðurlandi

Vátryggingafélag Íslands leggur eina og hálfa milljón króna til fjársöfnunar fyrir bændur á Norðurlandi  sem urðu fyrir barðinu á veðuráhlaupinu nyrðra snemma í september, þar sem talið er að 10 þúsund fjár hafi farist.

Söfnun til að styðja við bakið á bændum var hleypt af stokkunum á Sauðárkróki nýverið, í tengslum við bændadaga Kaupfélags Skagfirðinga. Sérstök verkefnisstjórn hefur umsjón með söfnuninni og leitaði VÍS til hennar um að taka á móti fjárstyrki félagsins til bænda. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður nefndarinnar tók við styrknum frá VÍS fyrir hönd söfnunarinnar.

Nánar um söfnunina hér.

Laust starf í eldhúsi Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki

Laus er til umsóknar 70% staða starfsmanns í eldhúsi HS. Unnin er önnur hver helgi. Laun samkvæmt kjarasamningi Öldunnar stéttarfélags. Staðan er laus frá 1. nóvember .

Allar nánari upplýsingar veita Sigríður eða Ragnheiður í sima 455 4015. Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og fyrri störf sendist til Herdísar Klausen framkvæmdastjóra hjúkrunar. Hægt er að sækja um rafrænt á heimsíðu HS: www.hskrokur.is. Umsónknarfrestur er til 25. október

Besti leikmaður Tindastóls í knattspyrnu til Vals

Besti leikmaður Tindastóls í sumar, Edvard Börkur Óttharsson hefur gengið frá þriggja ára samningi við sitt uppeldisfélag Val í Reykjavík.

Edvard kom til Tindastóls sumarið 2011 en þá spilaði hann aðallega fyrir 2.flokk Tindastóls en hann spilaði þó 5.leiki fyrir meistaraflokk félagsins. Í sumar spilaði hann lykilhlutverk í liði Tindastóls, spilaði 20 leiki í fyrstu deildinni.

 

 

Hreinsað til í Hólaskógi í Hjaltadal

Þegar óveðrið geisaði norðanlands í september leiddi samspil snjóþunga og hvassviðris til þess að greinar í Hólaskógi í Hjaltadal klofnuðu og tré féllu. Gönguleiðin upp í Gvendarskál lokaðist nær alveg vegna þess, þar sem hún liggur nærri skógarjaðrinum. Því tóku tveir sjálfboðaliðar sig til og söguðu greinar og ruddu brautina. Nú er göngustígurinn í gegnum skóginn aftur orðinn vel fær.

Það skal þó tekið fram að þeir sem fara á hestbaki um Hólaskóg eru beðnir um að ríða ekki á göngustígunum, því að þeir eru engan veginn hannaðir til þess að bera þunga hests og þrepin góðu eyðileggjast – eins og því miður hefur orðinn rauninn í nokkur skipti. Bak við hvert þrep liggur mikil vinna, bæði nemenda ferðamáladeildar og sjálfboðaliða. Því er mælst til þess að reiðmenn haldi sig við veginn sem liggur í gegnum skóginn.

Að sjálfsögðu er öllum velkomið að ganga um Hólaskóg og njóta útivistar í fögru umhverfinu þar.

Fleiri ljósmyndir má sjá í þessu videoi hér.

Ljósmynd tók Kjartan Bollason, texti frá www.holar.is

Ljósmynd: Kjartan Bollason.

Borholur við Reyki í Hjaltadal

Starfsmenn Skagafjarðarveitna ehf. hafa undanfarnar vikur unnið við endurnýjun tenginga á borholum við Reyki. Fyrr í sumar steypti Friðrik Jónsson undirstöður fyrir ný holuhús og í september kláruðu starfsmenn Skagafjarðarveitna ásamt starfsmanni frá KS vélaverkstæði að endurnýja tengingarnar. Sett var upp ný gasskilja til að skilja jarðgasið úr vatninu og auka þrýsting frá borholusvæðinu sem eykur afköstin ú ca. 25 l/sek í ca. 35 – 40 l/sek.

Heimild og myndir hér.

Ástarsaga úr fjöllunum í Miðgarði

Möguleikhúsið sýnir barnaleiksýninguna Ástarsaga úr fjöllunum í Menningarhúsinu Miðgarði þriðjudaginn 30. október kl: 17:00.
Leikritið byggir á hinni sívinsælu sögu Guðrúnar Helgadóttur Ástarsaga úr fjöllunum sem fjallar um tröllskessuna Flumbru og tröllastrákana hennar átta. Sagan veitir innsýn í heillandi heim íslenskra þjóðsagna og ævintýra. Fyndin og spennandi saga í skemmtilegri uppsetningu Möguleikhússins.

Fjársöfnun til stuðnings bændum á Norðurlandi

Í liðinni viku var formlega hleypt af stað á Sauðárkróki  söfnun til að styðja við bakið á bændum á þeim svæðum sem urðu fyrir áföllum í óveðrinu, sem gekk yfir Norðurland snemma í september. Þar kom fram að Kaupfélag Skagfirðinga gæfi 5 milljónir króna í söfnunina. Þá gefur Landsbankinn einnig 5 milljónir króna, eina milljón fyrir hvert útibú bankans á Norðurlandi.  Afhendingin framlaganna fór fram í tengslum við Bændadaga KS sem hófust í gær og standa yfir í allan dag.

Sérstök verkefnisstjórn hefur verið skipuð til að hafa umsjón með söfnuninni og móta reglur um hana. Verkefnisstjórnina skipa þau; Guðni Ágústsson fv. landbúnaðarráðherra formaður, Dagbjört Bjarnadóttir oddviti Skútustaðahrepps, Jón Aðalsteinn Baldvinsson fv. vígslubiskup á Hólum, Friðrik Friðriksson fv. sparisjóðsstjóri á Dalvík og Þórarinn Ingi Pétursson formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

Þeir sem vilja styðja við bakið á málefninu geta lagt framlög inn á reikning nr. 0161-15-380370, kt. 630885-1409, í Landsbankanum á Sauðárkróki.

Heimild: www.bbl.is

Fjölskylduskemmtun í Félagsheimilinu á Blönduósi

Fjölskylduskemmtun verður haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi 10. nóvember n.k. frá kl. 15:00-17:30. Meðal þeirra sem koma fram má nefna Ingó veðurguð, Gísla Einarsson úr Landanum auk tónlistarfólks úr Húnavatnssýslu.

 

Treyjuuppboð verður á staðnum m.a. árituð treyja Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Tottenham, árituð treyja frá Aroni Pálmasyni handboltamanni í Kiel og Íslandsmeistaratreyja FH í knattspyrnu með áritun allra leikmanna liðsins svo fátt eitt sé nefnt. Þá verður boðið uppá kökuhlaðborð þannig að enginn þarf að fara svangur heim.
Skemmtunin er haldin til að sýna samstöðu í verki með Guðjóni Óla og fjölskyldu hans en hann veiktist alvarlega fyrr á þessu ári aðeins nokkura vikna gamall. Allur ágóði af þessari skemmtun rennur því óskertur til fjölskyldu hans.

Miðaverð er aðeins kr 2.000 fyrir fullorðna (16 ára og eldri) og frítt fyrir börn en að sjálfsögðu er fólki frjálst að borga það sem hver og einn vill.
Þá hefur verið opnaður bankareikningur í tilefni fjölskylduskemmtunarinnar og geta þeir sem ekki komast en vilja sýna stuðning lagt inná eftirfarandi reikning:
0307-13-2012 kt. 110280-4249.

Heimild: www.huni.is

Árlegt styrktarsjóðsball Húnvetninga

Hið árlega styrktarsjóðsball, Styrktarsjóðs Húnvetninga, verður haldið laugardaginn 27. október í Félagsheimilinu á Blönduósi. Hljómsveitin Von ásamt Matta Matt sér um að allir skemmti sér vel.

 • Miðaverð er kr. 3.000 og er aldurstakmark 16 ár.
 • Happdrættismiðar til styrktar sjóðnum verða boðnir til sölu á næstunni.
 • Styrktarsjóður Húnvetninga var stofnaður 16. mars 1974 með samstilltu átaki nokkurra félaga á Blönduósi og nágrenni.

Markmið sjóðsins er að veita héraðsbúum hjálp þegar óvænta erfiðleika ber að höndum, þó fyrst og fremst :

 • a) Hjálp í erfiðum sjúkdómstilfellum, þar sem ekki er veitt næg aðstoð af hálfu opinberra aðila.
 • b) Fjárframlög til kaupa á lækningatækjum eða öðrum þeim tækjum eða aðstöðu, sem skapar bætta sjúkrahjálp og heilsugæslu í héraði. Heimilar þó framkvæmdastjórn sjóðsins styrkveitingar til annars en fram er talið, ef hún er öll sammála um.

Fjár til sjóðsins skal afla:

 • a) Með árlegri skemmtisamkomu er aðildarfélaögin standa að og gefa alla vinnu við.
 • b) Frjálsum framlögum einstaklinga og félaga.
 • c) Á annan þann hátt sem framkvæmdastjórn sjóðsins samþykkir hverju sinni. Þó ekki með árlegum félagsgjöldum.

Núverandi aðilar sjóðsins eru: Björgunarfélagið Blanda, Leikfélag Blönduóss, Lionsklúbbur Blönduóss, Kvenfélagið Vaka, Stéttarfélagið Samstaða, Samkórinn Björk, Ungmennafélagið Hvöt og Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps.

Heimild: www.huni.is

Tindastóll – Fjölnir

Tindastóll tekur á móti Fjölni í Lengjubikarnum í dag, sunnudaginn 14. okt, kl. 19.15. Fjölnismenn hafa farið mikinn í upphafi Íslandsmótsins á meðan Tindastóll hafa verið að hiksta aðeins.

Fjölnir sigraði KR í fyrstu umferð Domino’s deildarinnar og lögðu síðan Ísfirðinga í annarri umferðinni. Þeir spila léttan og hraðan bolta og hafa innanborðs skemmtilega leikmenn.

Tindastóll hefur ekki náð að stilla saman strengi sína almennilega í upphafi Íslandsmótsins, en þessi leikur kemur á frábærum tíma fyrir liðið, því það styttist í að allt smelli saman.

Stuðningur áhorfenda skiptir líka miklu máli og strákarnir þurfa góða hvatningu úr stúkunni til að eiga topp leik.

Allir á völlinn í kvöld !

Minni minkaveiði í Skagafirði

Landbúnaðarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur farið yfir veiðitölur, refa- og minkaveiði 2012. Alls hafa veiðst 339 refir á árinu og 133 minkar. Minkaveiðin hefur farið minnkandi undarfarin ár en refaveiðin er heldur að aukast. Landbúnaðarnefndarmenn segja að refur sé að fjölga sér og ný greni eru að finnast nær byggð en áður hefur verið.

Mjög nauðsynlegt er að fá aukið fjármagn til refa- og minkaveiða í Skagafirði. Áskorun verður beint til ríkisins að auka aftur fjármagn til málaflokksins en undanfarin ár hefur verið stöðugt minna fjármagn frá ríkinu í þessa veiði og alls ekkert til refaveiða.

Króksmótið í minnibolta

Króksamótið, minniboltamót Tindastóls, verður haldið laugardaginn 3. nóvember. Um dagsmót er að ræða þar sem áherslan er lögð á skemmtun og fjör, en lítil sem engin á úrslit leikja.

Þetta er í þriðja skiptið sem mótið er haldið og hafa þátttakendur hingað til komið frá Akureyri, Skagaströnd og Hvammstanga. Um 120-130 krakkar hafa tekið þátt í mótinu s.l. ár.

Engin stig eru talin í leikjunum og áherslan meira á leikgleði og skemmtun.

Þátttökugjaldið er aðeins kr. 1.500 og allir fá gefins T-boli í boði FISK Seafood. Þá fá allir létta máltíð í lok mótsins.

Krakkar í 1. – 6. bekk eru hvött til þess að prófa að koma á æfingar í sínum flokkum og má sjá æfingatöfluna HÉR. Um að gera að prófa að æfa og taka þátt í þessu bráðskemmtilega móti.

Uppskeruhátíð Skagfirðinga í frjálsíþróttum

Frjálsíþróttadeild UMFT og frjálsíþróttaráð UMSS halda uppskeruhátíð sína laugardaginn 20. október.  Þar verða veitt verðlaun fyrir gott starf og árangur á árinu 2012 og félagar skemmta sér saman.

Matseðill:

 • Pastaréttir
 • Kjúklingaréttir
 • Sykurgljáður Hamborgarhryggur
 • Tilheyrandi meðlæti
 • Ís og ávextir
 • Gosdrykkir

Verð:

 • 2900 kr.
 • 1200 kr fyrir 11 ára og yngri.

 

Samkoman verður haldin í Mötuneyti Heimavistar FNV og hefst hún kl. 18.

Tilkynnið þátttöku í síma 455-8060, eða á netföngin eldhus@fnv.is og frjalsar@tindastoll.is

Söguleg safnahelgi

   Boðið er til fagnaðar á Norðurlandi vestra helgina 13.-14. október.  

Frá Borðeyri í vestri til Hofsóss í austri.

Opið:12:00–18:00 laugardag og sunnudag.

Nærri 30 Söfn og setur opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi og bjóða upp á sérstaka dagsskrá, sýningu eða viðburð allt eftir eðli staðarins. Á síðunni söfn og setur finnur þú hvað er í boði um helgina á hverjum stað í stafrófsröð.

Sá sem heimsækir að minnsta kosti 4 söfn lendir í lukkupotti og getur  unnið glæsilegan vinning.

Boðið verður upp á fríar rútuferðir innan svæða. Brottfarir kl 13:00 á eftirfarandi stöðum:

 • Bardúsa,
 • Hvammstanga;
 •  Kvennaskólinn á Blönduósi;
 • Spákonuhof á Skagaströnd;
 • Gestastofa sútarans á Sauðárkróki.

Hér getur þú nálgast plakatið  og hér finnur þú lista þátttakenda frá vestri til austurs.Útsvarlið Skagafjarðar tilbúið

Búið er að manna lið Skagafjarðar í spurningaþættinum Útsvari sem sýndur er í beinni útsendingu í Sjónvarpinu á föstudagskvöldum í vetur.

Liðið skipa þau Guðný Zoëga fornleifafræðingur hjá Byggðasafni Skagfirðinga, Guðrún Rögnvaldardóttir framkvæmdastjóri Staðlaráðs og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís.

Fyrsta keppni Skagafjarðar er 16. nóvember nk. á móti liði Fjarðabyggðar.

Huggulegt haust á Norðurlandi

Byggðasafnið tekur þátt í huggulegu hausti um næstu helgi.

Minjahússýningar verða opnar laugardaginn 13.okt. og sunnudaginn 14. okt. frá 12 til 18 báða dagana. Klukkan eitt (kl.13) mun Sara R. Valdimarsdóttir fjalla um skáldkonuna Guðrúnu frá Lundi.

Skagafjarðarsafnarútan fer frá Gestastofu sútarans kl 13 og kemur í Minjahúsið. Rútan fer þaðan kl. 13:30.

Sauðfé finnst á lífi á Norðurlandi

Enn finnst sauðfé á lífi á Norðurlandi eftir að að hafa verið grafið í fönn í átján daga. Í gær björguðu bændur og björgunarsveitarmenn ríflega hundrað ám á svæðinu.

Rúmlega hundrað björgunarsveitarmenn hvaðanæva að á landinu hafa aðstoðað bændur um helgina við að grafa fé úr fönn. Leitin hefur einkum og sér í lagi verið í Húnavatnssýslum, Skagafirði, Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum. Undrum sætir að enn skuli finnast sauðfé á lífi en í dag eru tæpar þrjár vikur síðan illviðrið gekk yfir sem varð til þess að fé á beit grófst undir fönninni.

 

Heimild: www.ruv.is

 

Lokahóf knattspyrnudeildar Tindastóls

Lokahóf knattspyrnudeilar Tindatóls var haldið í Miðgarði laugardaginn 22. september.

Drangey ( varalið Tindastóls ) m.fl.karla:

 • Besti leikmaðurinn:     Bjarki Már Árnason
 • Efnilegasti leikmaðurinn:     Konráð Freyr Sigurðsson
 • Mestu framfarirnar:     Ingvi Ingvarsson
 • Besta ástundunin:     Óskar Smári Haraldsson
 • Markakóngur:     Hilmar Kárason    

 

Tindastóll m.fl.kvenna:

 • Besti leikmaðurinn:     Kristín Halla Eiríksdóttir
 • Efnilegasti leikmaðurinn:     Hugrún Pálsdóttir
 • Mestu framfarirnar:     Kristín Halla Eiríksdóttir
 • Besta ástundunin:     Brynhildur Ólafsdóttir
 • Markakóngur:     Rakel Hinriksdóttir

 

Tindastóll m.fl.karla:

 • Besti leikmaðurinn:     Edvard Börkur Óttharsson
 • Efnilegasti leikmaðurinn:     Loftur Páll Eiríksson
 • Mestu framfarirnar:     Benjamín Guðlaugarson
 • Besta ástundunin:     Björn Anton Guðmundsson   
 • Markakóngur:     Ben Everson

Leikfélag Sauðárkróks æfir Fíasól

Æfingar eru hafnar hjá Leikfélagi Sauðárkróks á barnaleikritinu Fíasól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og í leikgerð hennar og Vigdísar Jakobsdóttur.

Um leikstjórn sjá heimafólkið Guðný H. Axelsdóttir og Páll Friðriksson.

Fíasól var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2010 og fjallar um 8 ára stelpuna Fíasól og vin hennar Ingólf Gauk sem taka upp á ýmsu á meðan mamma er lasin og pabbi er í vinnunni.

Stórt tap gegn Þrótti

Þróttur Reykjavík bauð Tindastól velkomna á Valbjarnarvöllinn á laugardaginn s.l. Þróttur gat með sigri náð 3ja sæti deildarinnar og ætluð þeir sér klárlega að gera atlögu að  því sæti.

Aðeins tveir varamenn voru á bekknum hjá Tindastóli, þeir Kristmar Geir Björnsson og Árni Einar Adolfsson sáu um að hita bekkinn. Arnar Magnús stóð í rammanum og fyrir framan hann voru Loftur, Eddi, Böddi og Fannar Örn. Miðjunni voru Árni Arnarson, Atli bróðir hans, Colin frændi hans. Frammi voru Benni, Arnar Sigurðsson á vinstri kantinum og S.Beattie sem var frammi.

Í fáum orðum þá var þessi leikur algjör hörmung frá A-Ö, andleysi var yfir strákunumí Tindastóli og greinilegt að tímabilið var búið í þeirra huga því var Tindastóll aldrei líklegir til að gera neitt í þessum leik.

Oddur Björnsson skoraði strax á 11.mín eftir að skot hans fór í varnarmann Tindastóls. Annað markið var algjör gjöf, þegar Maggó hittir boltann illa, með þeim afleiðingum að boltinn fer beint til Guðfinns Ómarssonar sem lyftir boltanum yfir Maggó.  Oddur gerir svo þriðja mark Þróttara á 51. mínútu. Helgi Pétur skorar mark úr víti á 61. mínútu, staðan orðin 4-0. Andri Gíslason gerir fimmta markið á 81. mínútu og lokamarkið gerði Hermann Björnsson á 88. mínútu.

Stærsta deildartap Tindastóls er 7-0 gegn ÍBÍ árið 1984, en þetta tap fer líklega líka í sögubækurnar.

Heilt yfir frábært tímabil og liðið kom flestum sparkspekingum á óvart með leik sínum í sumar. 8.sætið er staðreynd hjá Tindastólsliðinu og 27.stig í hús. Tindastóll hefur aldrei áður náð 27.stigum í 1.deild en það þarf þó að koma fram að spilað er fjórum leikjum meira í þessari deild en gert var síðast þegar liðið var í 1.deild.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.

Bæjar- og menningarvefur