Leikfélag Sauðárkróks æfir Fíasól

Æfingar eru hafnar hjá Leikfélagi Sauðárkróks á barnaleikritinu Fíasól eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur og í leikgerð hennar og Vigdísar Jakobsdóttur.

Um leikstjórn sjá heimafólkið Guðný H. Axelsdóttir og Páll Friðriksson.

Fíasól var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2010 og fjallar um 8 ára stelpuna Fíasól og vin hennar Ingólf Gauk sem taka upp á ýmsu á meðan mamma er lasin og pabbi er í vinnunni.

Stórt tap gegn Þrótti

Þróttur Reykjavík bauð Tindastól velkomna á Valbjarnarvöllinn á laugardaginn s.l. Þróttur gat með sigri náð 3ja sæti deildarinnar og ætluð þeir sér klárlega að gera atlögu að  því sæti.

Aðeins tveir varamenn voru á bekknum hjá Tindastóli, þeir Kristmar Geir Björnsson og Árni Einar Adolfsson sáu um að hita bekkinn. Arnar Magnús stóð í rammanum og fyrir framan hann voru Loftur, Eddi, Böddi og Fannar Örn. Miðjunni voru Árni Arnarson, Atli bróðir hans, Colin frændi hans. Frammi voru Benni, Arnar Sigurðsson á vinstri kantinum og S.Beattie sem var frammi.

Í fáum orðum þá var þessi leikur algjör hörmung frá A-Ö, andleysi var yfir strákunumí Tindastóli og greinilegt að tímabilið var búið í þeirra huga því var Tindastóll aldrei líklegir til að gera neitt í þessum leik.

Oddur Björnsson skoraði strax á 11.mín eftir að skot hans fór í varnarmann Tindastóls. Annað markið var algjör gjöf, þegar Maggó hittir boltann illa, með þeim afleiðingum að boltinn fer beint til Guðfinns Ómarssonar sem lyftir boltanum yfir Maggó.  Oddur gerir svo þriðja mark Þróttara á 51. mínútu. Helgi Pétur skorar mark úr víti á 61. mínútu, staðan orðin 4-0. Andri Gíslason gerir fimmta markið á 81. mínútu og lokamarkið gerði Hermann Björnsson á 88. mínútu.

Stærsta deildartap Tindastóls er 7-0 gegn ÍBÍ árið 1984, en þetta tap fer líklega líka í sögubækurnar.

Heilt yfir frábært tímabil og liðið kom flestum sparkspekingum á óvart með leik sínum í sumar. 8.sætið er staðreynd hjá Tindastólsliðinu og 27.stig í hús. Tindastóll hefur aldrei áður náð 27.stigum í 1.deild en það þarf þó að koma fram að spilað er fjórum leikjum meira í þessari deild en gert var síðast þegar liðið var í 1.deild.

Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.

Sunddeild Tindastóls

Sunddeild Tindastóls æfir í sundlaug Sauðárkróks. Það eru þrír þjálfarar og leiðbeinandi. Ragna Hjartardóttir, Sunneva Jónsdóttir og Valur Freyr Ástuson.

 • Mánudaga  þrekæfing ekki komin tími á það (6.-10.bekkur )
 • Þriðjudaga   kl: 15-16 eldri hópur og tveir þjálfarar.
  ( 6.-10.bekkur)
 • Miðvikudaga kl: 15-16 allir  hópar, þjálfari Sunneva , Ragna
  ( 1.-10.bekkur)
 • Föstudaga      kl:15-16 allir hópar og þrír þjálfarar .
  (1.-10.bekkur)

Nýjir krakkar/unglingar og eldri sundiðkendur velkomin.

Skráning fer fram á staðnum og líka í gegnum Vetratím þegar það opnar.
(Börn , sem skráð eru í Árvist, fá fylgd til og frá sundlaug á vistunartíma en þarf að tilkynna til Árvistar að barnið æfi sund í vetur til hennar Sigrúnar.)
Kveðja!
Stjórn sunddeildar.

Leikskólakennari óskast á Sauðárkrók

Leikskólinn Ársalir á Sauðárkróki óskar efti að ráða leikskólakennara í 93,75% starfshlutfall.

 • Um er að ræða tímabundna ráðningu frá 15. október 2012 til 12. júlí 2013.
 • Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ.
 • Umsóknarfrestur er til 28. september 2012

Sækja skal um á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar,  www.skagafjordur.is

Nánari upplýsingar gefa, Anna Jóna Guðmundsdóttir leikskólastjóri í símum 455 6090 eða 899 1593 og Sigríður A Jóhannsdóttir mannauðsstjóri í síma 455-6600.

Þróttur – Tindastóll

Ef Tindastóll vinnur leikinn á laugardaginn gegn Þrótti í 1. deild karla í knattspyrnu þá bæta þeir stiga met sitt í 1. deild. Besti árangur í sögu Tindastóls er 6.sæti 1.deildar. Þeim árangri náði liðið árið 1988 þegar liðið fékk 23.stig, 1989 fékk liðið 20.stig og 2000 fékk liðið 20.stig einnig. Þetta er allt í 10 liða deild. Þannig að besti árangur Tindastóls stigalega séð er 23.stig (6.sæti).

Í dag er spiluð 12.liða deild og er Tindastóll nú þegar komnir með 27.stig. Ef liðið sigrar Þrótt á laugardaginn þá nær liðið í 30.stig.  Óháð því hvort liðið nái 6.sæti í deildinni, sem er besti árangur í sögu Tindastóls þá með sigri bætir liðið stiga árangur félagsins.

 Leikurinn gegn Þrótti byrjar stundvíslega kl:14:00 laugardaginn 22.september og verður spilaður á Valbjarnarvelli í Laugardal.

Allir stuðningsmenn eru hvattir til að mæta og styðja við sitt lið.

Kvikmyndin Hross tekin upp á Sauðárkróki

Leikarar í kvikmyndum þurfa oft að leggja mikið á sig fyrir listina. Þannig fóru hross í samnefndri bíómynd í sjósund á Sauðárkróki.

Tökur á kvikmyndinni Hrossi hafa staðið yfir undanfarnar vikur, meðal annars á Kaldadal og Arnarvatnsheiði, í Hvítársíðu og nú síðast á Sauðárkróki.

Benedikt Erlingsson leikstjóri segir að þetta sé nokkurskonar innansveitarkrónika, dramatískar frásagnir af fólki sem lifir og hrærist í hestamennsku. „Þar sem hestar eru örlagavaldar í lífi fólks eins og er í raunveruleikanum. Hestar eru fjölskylduvinir og persónur og meðlimir í fjölskyldum á bæði beinan og óbeinan hátt,“ segir Benedikt í viðtali við Rúv.is.

Ein senan í myndinni var tekin í höfninni á Sauðárkróki og hér sundríða menn út að rússneskum togara, að því er virðist. Mörgum sem á horfðu leist ekki á blikuna, en Benedikt segir áhyggjur óþarfar því vel hafi verið fylgst með líðan hrossanna. „Það virðist vera meiri áreynsla fyrir hross að hlaupa 200 metra sprett á stökki en að synda í þrjár mínútur í sjó,“ segir hann.

Benedikt segir að fyrir kvikmyndagerðarmenn með lítið fé milli handanna sé ótrúlegt að finna fyrir þeirri hjálpsemi sem hann og hans fólk hafi notið um allt land. Þar hafi fólk lánað allt frá bóndabæjum upp í heilu togarana án þess að taka krónu fyrir.

Frétt frá www.ruv.is

Laus staða sérfræðings á Selasetri og að Hólum

Vilt þú móta ferðamálafræði til framtíðar?

 

Í stöðu sérfræðings við Selasetur Íslands og Háskólann á Hólum er tækifæri til þess.  Við ferðamáladeild Háskólans á Hólum er lögð stund á rannsóknir og boðið háskólanám í ferðamálafræði og viðburðastjórnun.

Meginmarkmið Selaseturs Íslands er að efla náttúrutengda ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland.

Starfsaðstaða í Selasetri Íslands á Hvammstanga og í háskólaþorpinu á Hólum er góð, fjölskylduvæn samfélög og falleg náttúra. Sjá nánar á www.selasetur.is og www.holar.is.

Í starfinu felst
• kennsla og rannsóknir
• þátttaka í uppbyggingu náttúru- og menningartengdrar ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra
• þátttaka í stefnumótun og fjármögnun verkefna Selaseturs Íslands og Háskólans á Hólum í nánu samstarfi við starfsmenn stofnananna

Við leitum að einstaklingi með
• doktorspróf á sviði ferðamálafræða eða tengdra fræðasviða
• góða þekkingu á sviði náttúrutengdrar ferðaþjónustu og/eða byggðaþróunar
• reynslu af stjórnun, rannsóknum, kennslu og þróunarstarfi
• leiðtogahæfileika, ábyrgð, frumkvæði og hæfni í mannlegum samskiptum

Laun eru samkvæmt samningum ríkisins við viðkomandi stéttarfélag.

Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. janúar 2013 og er krafist búsetu á Hvammstanga. Umsóknir, ásamt afritum af prófskírteinum, ferilskrá og nöfnum tveggja meðmælenda, berist fyrir 15. október 2012 til Sigurbjargar B. Ólafsdóttur mannauðsstjóra, Háskólanum á Hólum, 551 Sauðárkróki, eða á netfangið sigurbjorg@holar.is.

Nánari upplýsingar veitir Guðrún Helgadóttir deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum, sími 4556300, eða Vignir Skúlason framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, sími 451 2345.

 

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Heimild: www.holar.is

FNV fær umhverfisviðurkenningu

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra fékk umhverfisviðurkenningu Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2012 í flokki stofnana, sem afhent voru í Húsi frítímans fimmtudaginn 13. september. Í sumar hefur verið gert mikið átak í umhverfi skólans einkum í kringum Hátæknimenntasetur skólans í samvinnu Fasteigna ríkisins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Umhverfisviðurkenningar eru nú veittar í áttunda sinn, sem samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Soroptimistaklúbbs Skagafjarðar. Öll framkvæmd verkefnisins er í höndum kvenna í klúbbnum sem eru 32 talsins.

Um sumarið eru farnar tvær ferðir um allan Skagafjörð, bæði dreifbýli og þéttbýli og tillögum er skilað til fjáröflunarnefndar klúbbsins. Hún fer síðan í lokaskoðun um allt sveitarfélagið og fer yfir tilnefningar hópanna.

Lokaákvörðun  er tekin  í samráði við Helgu Gunnlaugsdóttur, garðyrkjustjóra Skagafjarðar.

Viðurkenningar eru veittar árlega í allt að 7 flokkum.

Umhverfisviðurkenningar Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2012 fengu:

 •     Brúnastaðir fyrir snyrtilegasta sveitabýlið með hefðbundinn búskap. Þar búa Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Ríkharðsson.
 •     Kvistholt fyrir snyrtilegasta  sveitabýlið  með óhefðbundinn búskap. Þar búa Ebba Kristjánsdóttir og Björn Svavarsson.
 •    Austurgata 14  fyrir snyrtilegustu lóðina í þéttbýli. Þar búa Herdís Jakobsdóttir og Páll Magnússon
 •     Kaffi Krókur fyrir snyrtilegasta umhverfi fyrirtækis. Fyrirtækið er rekið af Kristínu Magnúsdóttur og Sigurpáli Aðalsteinssyni
 •     Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra fyrir snyrtilegasta umhverfi stofnunar.
 •    Samgönguminjasafn Skagafjarðar sem einstakt framtak.  Eigendur Gunnar Þórðarson og Sólveig Jónasdóttir.
 •     Laugarvegur í Varmahlíð var valin snyrtilegasta gatan í Sveitarfélaginu Skagafirði.

Heimild: www.fnv.is

Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra tilnefndur til Nýsköpunarverðlauna

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkti þann 13. september að tilnefna Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra til Nýsköpunarverðlauna fyrir innleiðingu á námi í plastiðn. Um er að ræða yfirfærsluverkefni sem styrkt er af Menntaáætlun Evrópusambansins sem miðar að því að þróa nám í plastiðnum. Verkefnið er samvinnuverkefni FNV, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og skóla í Finnlandi og Danmörku.

Siglingastofnun hefur einnig komið að þessu verkefni auk fyrirtækja í plastiðnaði. Í  lok september hefst nám í plastbátasmíði sem veitir viðurkenningu af hálfu Siglingastofnunar til þeirra sem hafa a.m.k. 12 mánaða starfsreynslu hjá viðurkenndu bátasmíðafyrirtæki.

Heimild: www.Fnv.is

Tindastóll – Þór

Tindastóll mætir Þór á laugardaginn kl. 14. á Sauðárkróksvelli.

Síðasti leikur Tindastóls gegn Þór fór ekki nægilega vel, en við töpuðum nokkuð sannfærandi 4-0. En nú er tækifærið fyrir strákana að sýna betri leik og hvetjum við Skagfirðinga til að fjölmenna á Sauðárkróksvöll á laugardaginn og hvetja strákana áfram. Síðasti heimaleikur þessa glæsilega sumars.

Núna er staðan sú að Tindastóll eru öryggir í 1.deild að ári. Komnir með 27.stig á meðan Þórsarar eru við þröskuldin að verða deildarmeistarar. Komnir með 44.stig eða 6.stigum á undan Víking Ólafsvík.

 

Greifamótið á Akureyri um helgina

Meistaraflokkur Tindastóls tekur þátt í hinu árlega Greifamóti á Akureyri um helgina. Mótherjar þeirra  eru 1. deildarlið ÍA, Hattar auk gestgjafanna í Þór.

Mótið hefst á föstudag kl. 18 með leik Þórs og Tindastóls og á laugardag spila Stólarnir við ÍA kl. 11 og Hött kl. 16.

Leikið verður í Síðuskóla og eru stuðningsmenn Tindastóls hvattir til að skella sér norður og kíkja á leikina en frítt er inn á alla leiki mótsins.

Laust starf á leikskólanum Tröllaborg í Skagafirði

Laust starf á  leikskólanum Tröllaborg á Hofsósi.

Leikskólinn Tröllaborg á Hofsósi óskar eftir að ráða  starfsmann í 50% starfshlutfall. Um er að ræða tímabundna ráðningu til 1. maí 2013.

 • Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskar sveitarfélaga og Öldunnar stéttarfélags / Starfsmannafélags Skagafjarðar.
 • Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins,  www.skagafjordur.is
 • Umsóknarfrestur er til 20 sept og þarf viðkomandi að geta hafið  störf strax.

Nánari upplýsingar gefur Anna Árnína Stefánsdóttir leikskólastjóri í síma 862-5606 eða Sigríður A Jóhannsdóttir s. 455-6000.

 

 

Laust starf á  leikskólanum Tröllaborg á Hólum.

Leikskólinn Tröllaborg á Hólum  óskar eftir að ráða  starfsmann í 50% starfshlutfall. Um er að ræða tímabundna ráðningu til 1. júlí 2013.

 • Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskar sveitarfélaga og Öldunnar stéttarfélags / Starfsmannafélags Skagafjarðar.
 • Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins,  www.skagafjordur.is
 • Umsóknarfrestur er til 20 sept og þarf viðkomandi að geta hafið  störf strax.

Nánari upplýsingar gefur Anna Árnína Stefánsdóttir leikskólastjóri í síma 862-5606 eða Sigríður A Jóhannsdóttir s. 455-6000.

Laus staða í eldhúsi við Grunnskólann austan Vatna

Um er að ræða tímabundna ráðningu til 1. júní 2013 í 50% starfshlutfall sem aðstoðarmatráður í mötuneyti Grunnskólans að Hólum. Vinnutími er mánudaga til fimmtudaga frá 9:30 til 14:00. Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við Ölduna stéttarfélag. Sækja skal um á heimasíðu sveitarfélagsins,  www.skagafjordur.is

Umsóknarfrestur er til 20. september en viðkomandi þarf að geta hafið störf frá og með 24. september.

Upplýsingar gefa Jóhann Bjarnason skólastjóri Grunnskólans austan Vatna í síma 453 6600 eða Sigríður A Jóhannsdóttir mannauðsstjóri s. 455-6000.

Met fjöldi safnagesta í Glaumbæ í Skagafirði

Gestir safnsvæðisins í Glaumbæ hafa aldrei verið fleiri en á þessu sumri. Þann 10. september, sem var síðasti sumaropnunardagurinn, höfðu 31339 gestir gengið um gamla bæinn. Safngestir eru því orðnir yfir 33300 á þessu sumri af því komu 2032 gestir á sýningar í Minjahúsinu.

Framvegis verða sýningar safnsins opnar eftir samkomulagi. Töluvert er um hópapantanir fram í október og margir enn á ferðinni á eigin vegum.

Söguleg safnahelgi 13. – 14. október 2012 á Norðurlandi vestra

Hver á ekki leið um Norðurland vestra brunandi eftir hringveginum? En hvað ef staldrað er við og vikið er út af honum? Nú á haustdögum gefst tilefni til þess.

Nærri 30 söfn og setur á Norðurlandi vestra opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi – frá Borðeyri í vestri til Hofsóss í austri – og bjóða gestum upp á sérstaka dagskrá, sýningu eða viðburð allt eftir eðli staðarins.

Samstarfið hófst síðastliðið haust með átján þátttakendum. Framtakinu var svo vel tekið að ákveðið var að endurtaka leikinn en stíga skrefið til fulls. Í ár er því Söguleg safnahelgi haldin um allt Norðurland vestra. Listi þátttakenda, hér fyrir neðan, ber með hversu ótrúlega fjölbreytta flóru er að finna hér á Norðurlandi vestra, þannig ætti hver og einn að finna eitthvað við sitt hæfi.

Sambærilegir viðburðir hafa að sjálfsögðu verið haldnir áður og annars staðar en það má tvímælalaust halda því fram að aldrei áður hafi tekist svo víðtækt samstarf eins og hér er stefnt að.
Boðið er til fagnaðar á Norðurlandi vestra helgina 13. -14. október. Opið verður 12:00 – 18:00 laugardag og sunnudag frá Borðeyri í vestri til Hofsóss í austri. Sá sem heimsækir að minnsta kosti 4 söfn lendir í lukkupotti og getur unnið glæsilegan vinning.
Viðburðurinn er styrktur af Menningarráði og Vaxtarsamningi Norðulands vestra.
Frekari upplýsingar og dagskrá er að finna á heimasíðunni www.huggulegthaust.is

• Riis hús Borðeyri.
• Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna Reykjum.
• Húsfreyjurnar Vatnsnesi / Sviðamessa.
• Selasetrið Hvammstanga.
• Verslunarminjasafnið Bardúsa Hvammstanga.
• Grettistak Laugarbakka / Spes sveitamarkaður.
• Langafit handverkshús Laugarbakka.
• Landnám Ingimundar gamla Vatnsdal.
• Þingeyrakirkja.
• Eyvindarstofa Blönduósi.
• Háskólasetur Blönduósi.
• Hafíssetrið Blönduósi.
• Laxasetur Íslands Blönduósi.

Innsent efni / www.huggulegthaust.is

Ný íslensk mynd sýnd í Króksbíói

Splunkuný íslensk spennumynd, FROST, verður sýnd í Króksbíó mánudaginn 10. september kl. 20:00. FROST fjallar um ungt par, Öglu, sem er jöklafræðingur, og Gunnar, kvikmyndagerðarmann, sem koma að mannlausum rannsóknarbúðum á hálendi Íslands. Leiðangursmenn virðast hafa horfið á dularfullan hátt og Agla og Gunnar standa frammi fyrir óþekktu og banvænu afli. Með aðalhlutverkin fara Valur Freyr Einarsson, Helgi Björnsson, Björn Thors, Hilmar Jónsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Hallur Ingólfsson.

Íbúafundur í Safnahúsi Skagfirðinga

Sveitarfélagið Skagafjörður stendur fyrir íbúafundi í Safnahúsinu á Sauðárkróki mánudaginn 10. september kl. 20:00. Á fundinum mun Haraldur Líndal fara yfir rekstrarúttekt sem hann vann fyrir sveitarfélagið.

Fleiri íbúafundir verða þriðjudaginn 12. september á eftirtöldum stöðum. Á Ketilási kl. 15:00, grunnskólanum á Hólum kl. 18:00 og loks í Miðgarði í Varmahlíð kl. 20:30. Á fundunum mun Haraldur Líndal fara yfir rekstrarúttekt sem hann vann fyrir sveitarfélagið.

Löndun í Skagafirði

Síðasta vika var frekar lífleg hjá Skagafjarðarhöfn. Á mánudeginum kom Klakkur inn með 119 tonn, af því voru 91 tonn þorskur og tæp 15 tonn ufsi.  Þá var einnig landað úr Grímsnesinu 12,5 tonnum af rækju. Á þriðjudeginum hófst löndun úr Örvari en hann var með 88 tonn af frosinni rækju, 150 tonn af grálúðu og 25 tonn lausfrystann þorsk.

Á þriðjudeginum lönduðu rækjuskipin Friðrik Sigurðsson ÁR-17 um 10 tonnum af rækju og Þinganes SF-25 um 10 tonnum af rækju og 7 tonnum af þorski.

Á fimmtudag var svo væntanlegt flutningaskipið Firda með um 300 tonn af frosinni rækju úr norðurhöfum.

Atvinna: Sviðstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, Sauðárkróki

Sveitarfélagið Skagafjörður óskar eftir að ráða lausnamiðaðan og metnaðarfullan einstakling í starf sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Um er að ræða nýtt svið hjá sveitarfélaginu.

Helstu verkefni:

 • · Forysta í mótun og uppbyggingu nýs sviðs
 • · Yfirumsjón með veitu- og framkvæmdamálum sveitarfélagsins
 • · Ábyrgð á fjármálum, fjárhags- og starfsáætlunum
 • · Umsjón með útboðum og verksamningum
 • · Verkefnastjórn sérverkefna
 • · Stefnumótun í samstarfi við yfirstjórn sveitarfélagsins
 • Menntunar- og hæfniskröfur:
 • · Verk- eða tæknifræðimenntun sem nýtist í starfi
 • · Þekking og reynsla af stjórnun og rekstri
 • · Forystu- og skipulagshæfileikar
 • · Hæfni í mannlegum samskiptum
 • · Frumkvæði og metnaður til að ná árangri í starfi
 • · Tungumálakunnátta
 • · Góð tölvukunnátta

Laun og starfskjör fara eftir samningum Launanefndar sveitarfélaga við viðkomandi stéttarfélag.

Umsóknarfrestur er til 20. september nk.

Umsóknum er hægt að skila á skrifstofu sveitarfélagsins, Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17 – 21, 550 Sauðárkróki, á netfangið sveitarstjori@skagafjordur.is eða fylla út almenna atvinnuumsókn sem er á heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is .

Umsókn skal fylgja ítarleg starfsferilskrá. Nánari upplýsingar veitir Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri, sími 455-6000, netfang sveitarstjori@skagafjordur.is

Bjórhátíð á Hólum í Hjaltadal

Bjórhátíðin á Hólum verður haldin annað árið í röð að Hólum í Hjaltadal. Hátíðin fer fram laugardaginn 8. september og stendur yfir frá 15:00 til 19:00. Helstu bjórframleiðendur landsins mæta á svæðið og kynna fjölbreytt úrval gæðabjóra. Kosið verður um besta bjórinn og keppt í kútaralli. Bjórhátíðin er haldin að undirlagi Bjórseturs Íslands sem staðsett er á Hólum og er rekið af hópi áhugamanna um bætta bjórmenningu landsmanna.

Vinadagurinn í Skagafirði

Vinadagurinn var haldinn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag, 6. september.

Öll grunnskólabörn í Skagafirði ásamt skólahópum leikskólanna mættu til að skemmta sér saman eins og sannir vinir gera með söng, leik og dansi. Voru þar m.a. flutt atriði frá öllum grunnskólunum í Skagafirði, auk þess sem hljómsveitin Úlfur úlfur hélt uppi stuðinu að loknum atriðum nemenda og kynningu á hugmyndafræði vinaverkefnisins. Óhætt er að segja að dagurinn hafi verið vel heppnaður og skemmtu um 650 börn sér konunglega saman enda maður manns gaman eins og vel er þekkt.

Vinadagurinn var haldinn í tengslum við vinaverkefnið í Skagafirði og er í raun tillaga og útfærsla nemendanna sjálfra á því hvernig hægt er að efla vináttu og samveru þeirra í milli.

Vinaverkefnið er samstarfsverkefni leik-, grunn-, og framhaldsskóla í Skagafirði, frístundadeildar Sveitarfélagsins Skagafjarðar, íþróttahreyfingarinnar og foreldrasamtaka í Skagafirði. Hefur verkefnið hlotið mikla athygli og fékk m.a. Foreldraverðlaun Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, á síðasta ári. Höfuðmarkmið verkefnisins er að ekkert barn í Skagafirði upplifi vinalausa æsku.

Nánari upplýsingar um vinaverkefnið er að finna á vefsíðunni www.vinaverkefnid.is.

Kynbótahryssur til sölu

Háskólinn á Hólum auglýsir eftirfarandi kynbótahryssur til sölu:

 • 1. Þrift IS2004258301, fengin við Arði IS2001137637
 • 2. Þraut IS2006258300, fengin við Hrafnari IS2007187017
 • 3. Þróun IS2000258301, í hólfi hjá Trymbli IS2005135936
 • 4. Rán IS2004258306, fengin við Auði IS2002136409

 

Skrifleg tilboð þurfa að berast skrifstofu skólans í síðasta lagi 26. september nk.

Merkt: Háskólinn á Hólum, Guðmundur Eyþórsson – tilboð í hross.

Áskilinn er réttur til að hafna öllum tilboðum.

Frekari upplýsingar hjá sveinn@holar.is.

Fræðsluþjónusta Skagafjarðar hlaut háan styrk

Í febrúar s.l. sóttu fræðsluþjónusta Skagafjarðar í samvinnu við fræðsluþjónustu sveitarfélagsins Óðinsvéa í Danmörku um styrk til einnar af menntaáætlunum Evrópusambandsins, Comenius Regio, sem er áætlun um samstarf svæða í Evrópu.

Verkefni þetta hlaut jákvæðar undirtektir og hefur Fræðsluþjónusta Skagfirðinga hlotið rúmlega 6.5 milljón króna styrk til verkefnisins sem sótt var um. Verkefnið lýtur að því að rannsaka aðferðir stjórnenda og fagfólks í skólakerfinu við að skipuleggja áhugavert og hvetjandi lærdómsumhverfi fyrir börn á aldrinum 5-8 ára.

Fyrirkomulag fæðismála í Ársölum og Árskóla

Fræðslunefnd Skagafjarðar hefur samþykkt að ganga til samninga við Skagfirskan mat ehf um framleiðslu hádegisverðar fyrir Árskóla á eldra stig og Ársali eldra stig en Videosport ehf um framleiðslu hádegisverðar fyrir Árskóla yngra stig og Ársali yngra stig. Fyrirkomulag þetta gildir til 31. maí 2013 hvað grunnskólann varðar en til 12. júlí 2013 vegna leikskólans. Jafnframt er samþykkt að ákvörðun um framtíðarfyrirkomulag liggi fyrir í lok apríl 2013.

Nýr útivistartími hefur tekið gildi

Þann 1. september sl. breyttist útivistartími barna og unglinga. Börn yngri en 12 ára mega ekki vera úti eftir kl. 20 og unglingar yngri en 16 ára mega ekki vera úti eftir kl.22.

Reglum um útivistartímann er ætlað að standa vörð um hag barna og unglinga og styðja við foreldra í uppeldishlutverki sínu. Mikilvægt er að börn og unglingar fái næga hvíld til að sinna skóla og öðrum þeim fjölmörgu verkefnum sem þau fást við í daglegu lífi sínu. Því er jafnframt mikilvægt fyrir foreldra og aðra uppalendur að huga að „rafrænum útivistartíma“ barna og unglinga, þ.e. tölvu- og farsímanotkun þeirra á kvöldin.

SAMAN-hópurinn hvetur foreldra til að standa saman um útivistartímann og ræða saman og við börn sín og unglinga um þessi mál.

Frístundaleiðbeinendur óskast á Sauðárkróki

Lausar stöður Frístundaleiðbeinenda í hlutastarfi á Sauðárkróki í Húsi Frítímans, 20-40%. Um er að ræða að mestu kvöldvaktir, 1-2 í viku. Umsækjendur þurfa að vera eldri en 20 ára, hafa mikinn áhuga á að starfa með börnum, unglingum og ungu fólki og geta hafið störf sem allra fyrst. Reynsla og menntun á uppeldissviði er kostur.

 

Umsóknarfrestur er til 15. september

 

Hægt er að sækja um hér.

 

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Jóhannsdóttir forst.kona Húss frítímans í síma 660 4637.

Tindastóll sigraði Hött

Tindastóll gerði góða ferð austur á Egilsstaði í dag en liðið heimsótti Hött í 1. deild karla í knattspyrnu. Með sigrinum gulltryggði liðið sæti sitt í 1. deild á næstu leiktíð.

Um helmingur liðsins lagði af stað með rútu um kl. 10 í morgun frá Sauðárkróki og síðan hinn helmingurinn frá Reykjavík með flugi um miðjan dag í dag.

Höttur komust yfir í upphafi seinni hálfleiks með marki frá Davíð Einarssyni en skömmu síðar jafnaði Colin Helmrich leikinn eftir að hann fékk boltann eftir aukaspyrnu frá Atla Arnarsyni.

Atli var síðan aftur á ferðinni með glæsilegt mark og kom Tindastóli yfir 1-2.  Benni skoraði síðan annað glæsimark og kom liðinu í 1-3 en Hattarmenn náðu að klóra í bakkann í uppbótartíma.

2-3 sigur eru aldeilis frábær úrslit og 1.deildin tryggð á næstu leiktíð.

Liðið á tvo leiki eftir; laugardaginn 15.september verður heimaleikur á móti Þór og síðan útileikur laugardaginn 22. september við Þrótt Reykjavík á Valbjarnarvelli.

Heimild: www.tindastoll.is

Videó frá áheitagöngu Sævars Birgissonar frá Sauðárkróki til Ólafsfjarðar

Sævar Birgisson gekk nýlega áheitagöngu frá Sauðárkróki til Ólafsfjarðar. Sævar hefur sett stefnuna á að ná lágmörkum fyrir Ólympiuleikana í Rússlandi 2014 og er heildarlengd keppnisgreinanna þar sú sama og frá Sauðárkróki til Ólafsfjarðar, þ.e. 112 km. Sævar lagði af stað frá sundlauginni á Sauðárkróki um kl.9 og kom til Ólafsfjarðar um kl. 17. Sævar var á hjólaskíðum, ýmist hefðbundið eða skaut.

Bæjar- og menningarvefur