Fyrsta þrenna Tindastóls í 1. deild í 21 ár

Theo Furness skoraði þrennu fyrir Tindastól gegn BÍ um s.l. helgi. Óhætt er að segja að það sé ekki algengt hjá Tindastólsmönnum að skora þrennur. Nokkrir leikmenn hafa skorað þrennur í þriðju og annari deild með Tindastól en Theo er fyrsti Tindastólsmaðurinn til að skora þrennu í 1. deildinni síðan Guðbrandur skoraði þrjú árið 1991.

Guðbrandur skoraði þá þrennu gegn Grindvíkingum í 4-3 sigri á Sauðárkróksvelli þann 19. júlí 1991.

En sá leikmaður sem skorað hefur flest mörk í leik fyrir Tindastól í 1.deild var Eyjólfur Sverrisson sem skoraði fjögur mörk gegn ÍBV árið 1989. Tindastóll vann þann leik 7-2. Eyjólfur endaði það tímabil sem markakóngur 1.deildar með 14.mörk.

Mývatnsmaraþon 2012

Mývatns Maraþon verður haldið 2. júní 2012 og er að venju hlaupið í kringum vatnið. Hlaupið í ár verður með sama fyrirkomulagi og síðustu þrjú ár þ.e. er ræst og endað við Jarðböðin.

Staðsetning og tími
Keppni í öllum vegalengdum fer fram á sama degi, laugardeginum 2. júní. Tímasetningar eru eftirfarandi:

 • 12:00 Maraþon hefst (mæting kl. 10)
 • 13:00 ½ maraþon hefst (mæting kl. 11)
 • 14:00 10 km hlaup hefst (mæting kl. 12)
 • 14:00 3 km hlaup hefst (mæting kl. 13)
 • 18:00 Verðlaunaafhending hefst

Mæting allar hlaupa við Jarðböðin 2 tímum fyrir hlaup, nema 3 km hlaup, 1 klst fyrir hlaup.

Brautin
Flatur hringur kringum Mývatn, sem er þekkt fyrir náttúrulega fegurð, yfirborð vegarins er malbikað.
Flokkaskipting

Maraþon

 • Konur og karlar 18-39 ára
 • Konur og karlar 40-49 ára
 • Konur og karlar 50-59 ára
 • Konur og karlar 60 ára og eldri

Hálfmaraþon

 • Konur og karlar 16-39 ára
 • Konur og karlar 40-49 ára
 • Konur og karlar 50-59 ára
 • Konur og karlar 60 ára og eldri

10 km

 • Konur og karlar 12-17 ára
 • Konur og karlar 18-39 ára
 • Konur og karlar 40-49 ára
 • Konur og karlar 50-59 ára
 • Konur og karlar 60 ára og eldri

3 km

 • Konur og karlar 15 ára og yngri
 • Konur og karlar 16 ára og eldri

Skráning og skráningargjöld

 • Maraþon 5.900 kr
 • Hálfmaraþon 4.900 kr
 • 10 km 3.900 kr
 • 3 km 2.000 kr fyrir 16 ára og eldri
 • 3 km 1.000 kr fyrir 15 ára og yngri

Forskráningu lýkur föstudagskvöldið 1. júní kl. 18:00.

Forskráning er á hlaup.is.

Sveitakeppni
Sveitakeppni í öllum vegalengdum nema 3 km. Sveitakeppnin er opinn flokkur og er hámark 5 í hverjum flokki en 3 bestu tímarnir gilda.

Verðlaun og annað
Allir sem ljúka keppni fá verðlaunapening, stuttermabol merktan hlaupinu, grillveislu og ókeypis í jarðböðin við Mývatn. Einnig verða veitt sérstök útdráttarverðlaun.

Upplýsingar
Upplýsingar í síma 464 4390. Tengiliður: Karl Ingólfsson, e-mail: info@visitmyvatn.is

Golfskóli Golfklúbbs Sauðárkróks

Golfskóli Golfklúbbs Sauðárkróks hefst þriðjudaginn 5.júní n.k. og verður starfræktur mánudaga til fimmtudaga  í sumar frá kl.10 – 15 og föstudaga kl.10 – 12. Golfskólinn fyrir 7 – 11 ára  (yngsti árgangur 2005 ) verður milli kl. 10 og 12.  12 ára og eldri  verða síðan á milli kl. 10 og 15.

Þeir allra yngstu geta einnig skráð sig í námskeið á vegum Sumar Tím hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Þar verður hægt að kynnast íþróttinni á vikunámskeiðum frá klukkan 08:00 – 10:00 frá mánudegi til fimmtudags.

Nú hefur Golfklúbburinn fengið að gjöf veglegan búnað sem notaður verður fyrir yngstu kylfingana, þar sem markmiðið er að læra golf í gegn um margvíslega leiki. FISK Seafood færði klúbbnum búnaðinn að gjöf og er það frábær stuðningur við barna- og unglingastarfið.

Þjálfari í golfskólanum alla daga í sumar verður Thomas Olsen golfkennari frá Danmörku. Honum til aðstoðar verða reynslumiklir unglingar úr klúbbnum.

Gjald er kr. 15.000 fyrir 7-11 ára og  kr. 20.000 fyrir 12-16 ára. Þetta gjald er fyrir allt sumarið og inni í því er aðgangur að vellinum fyrir sumarið.

Skráning í golfskólann er hjá Hirti Geirmundssyni – hjortur@fjolnet.is eða í síma 8217041. Hann veitir einnig  frekari upplýsingar.

Nýr þjálfari til körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Oddur Benediktsson, 23 ára Hvergerðingur, hefur verið ráðinn yngriflokkaþjálfari Tindastóls á næsta tímabili. Oddur er ungur og upprennandi þjálfari sem mun verða í miklu starfi hjá körfuknattleiksdeildinni.

Oddur mun verða aðalþjálfari 8. 9. og 10. flokks drengja Tindastóls, sem allir taka þátt í Íslandsmótinu. Honum til aðstoðar verður Karl Jónsson.  Auk þessa mun Oddur þjálfa míkróboltann og einhverja minniboltaflokka hjá Tindastóli.

Með ráðningu Odds verður hægt að nýta betur æfingatíma fyrr á daginn en áður hefur verið og mun það létta á æfingatímum seinni partinn.

Oddur hefur síðustu árin þjálfað á Suðurlandi, hjá Laugdælum, Hrunamönnum og Hamri og hefur smám saman verið að afla sér reynslu og þekkingar og verið duglegur við að sækja námskeið og aðra möguleika á menntun.

Oddur mun hefja störf þann 1. september n.k.

Tindastóll sigraði BÍ

Tindastóll lék við lið BÍ/Bolungarvíkur þann 26. maí í 1. deild karla í knattspyrnu og var leikurinn á Ísafirði.  Tindastólsmenn voru tilbúnir í verkefnið og voru þeir mun betra liðið og sigruðu 2-5.

Aðstæður voru skelfilegar á Ísafirði rok og rigning og völlurinn afar erfiður.  Tindastóll lék á móti sterkum vindi í fyrri hálfleik en tóku öll völd á vellinum strax í upphafi.  Max Touloute skoraði fyrsta mark Tindastóls á 27. mín og síðan skoraði Theo á 33. mín. og staðan orðin 0-2 og var þannig í hálfleik.

Áfram hélt baráttan í seinni hálfleik og Theo skoraði gott mark fyrir Tindastól en dómari leiksins skráði það sem sjálfsmark.

Theo var síðan aftur á ferðinni fyrir Tindastól og  skoraði fjórða markið á 68. mín og þar  með sitt þriðja mark í leiknum.

Atli Arnarson skoraði síðasta mark leiksins og innsiglaði góðan sigur Tindastóls.

Tvö rauð spjöld litu dagsins ljós, eitt hjá heimamönnum og síðan Theodore Furness hjá Tindastóli.

Frábær sigur hjá Tindastóli og fyrstu stigin í höfn.  Leikmenn börðust vel og spiluðu skynsamlega við þessar erfiðu aðstæður.

Flott myndband af mörkum leiksins frá vestur.is má finna hér.

65 útskrifaðir frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra var slitið við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í 33. sinn  laugardaginn 26. maí að viðstöddu fjölmenni.  Alls brautskráðust 65 nemendur. Skólameistari, Ingileif Oddsdóttir, setti athöfnina og fjallaði m.a. um stöðu skólans og viðleitni hans til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna menntun.

Að setningunni lokinni flutti Margrét Petra Ragnarsdóttir lagið Hiding in my Heart við undirleik Jakobs Loga Gunnarssonar.

Þessu næst flutti Ásbjörn Karlsson, áfangastjóri, vetrarannál þar sem stiklað var á stóru í viðfangsefnum skólans á síðasta skólaári. Þar kom m.a. fram að nemendur á haustönn voru 405, en 532 á vorönn. Alls hefur 601 nemandi sótt nám til skólans á þessu skólaári.Starfsmenn skólans í vetur gegndu 47 stöðugildum, þar af voru kennarar í 35 stöðum.

Að loknum vetrarannál flutti Sveinn Rúnar Gunnarsson lagið Sway.

Brautskráning og afhending viðurkenninga var í höndum skólameistara og fagstjóra skólans. Alls brautskráðust 65 nemendur frá skólanum, þar af 32 stúdentar, 1 nemandi af starfsbraut,  7 húsasmiðir, 10 iðnmeistarar, 2 húsgagnasmiðir, 2 rafvirkjar, 4 vélsmiðir, 4 vélstjórar og einn nemandi af viðskiptabraut.

Að lokinni brautskráningu flutti Margrét Petra lagið One and Only við undirleik Jakobs Loga Gunnarssonar.

Pálmi Geir Jónsson flutti ávarp nýstúdenta. Garðar Víðir Gunnarsson flutti  ávarp 10 ára stúdenta, Heiðdís Lilja Magnúsdóttir flutti ávarp 20 ára stúdenta, Kristín Aðalheiður Símonardóttir flutti ávarp 25 ára stúdenta og Knútur Aadnegaard flutti ávarp 30 ára brautskráningarnema.

Að loknum ávörpum flutti Sveinn Rúnar Gunnarsson lagið Álfheiður Björk.

Í kveðjuorðum skólameistari þakkaði hann samstarfsfólki sínu, skólanefnd og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu samstarfið á skóaárinu.  Þá  flutti hún nemendum heilræði fyrir lífið og óskaði þeim velfarnaðar.

Eftirtaldir nemendur fengu viðurkenningar:

 • Laufey Inga Stefánsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku á stúdentsprófi.
 • Ragnar Haukur Sverrisson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum félagsfræðabrautar á stúdentsprófi. Hann hlaut einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi
 • Hrannar Freyr Gíslason hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur meistaranámi  húsasmíða
 • Rúnar Þór Njálsson hlaut viðurkenningu frá sendiráði Kanada fyrir framúrskarandi námsárangur í ensku og frönsku á stúdentsprófi málabrautar]
 • Hann hlaut einnig viðurkenningu frá þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi málabrautar.
 • Anna Rún Þorsteinsdóttir  hlaut eftirfarandi viðurkenningar:
 • Fyrir framúrskarandi  alhliða námsárangur á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar
  Hún hlaut viðurkenningu frá Háskólanum í Reykjavík fyrir framúrskarandi námsárangur í raungreinum á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar.
  Hún hlaut einnig viðurkenningu frá Hugvísindasviði Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í erlendum tungumálum á stúdentsprófi.
  Hún fékk viðurkenningu frá Efnafræðifélagi Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði á stúdentsprófi náttúrufræðibrautar.
  Hún fékk einnig viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku á stúdentsprófi.
  Ennfremur fékk hún viðurkenningu frá Þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í þýsku á stúdentsprófi.
 • Fríða Rún Jónsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum náttúrufræðibrautar á stúdentsprófi
 • Herdís Guðlaug R. Steinsdóttir hlaut viðurkenningu  frá danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur í dönsku á stúdentsprófi.
 • Guðjón Ólafur Einarsson hlaut viðurkenningu fyrir  góða ástundun, vinnusemi og framfarir á starfsbraut skólans.
 • Karl Ragnar Freysteinsson hlaut viðurkenningu frá HAAS hátæknisetrinu  í Brussel fyrir framúrskarandi námsárangur í CNC – tölvutækum iðnaðarvélum.
 • Jónatan Björnsson hlaut viðurkenningu frá VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna  fyrir framúrskarandi námsárangur í vélstjórnargreinum
 • Birgir Þór Ingvarsson hlaut viðurkenningu  frá danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi námsárangur dönsku á stúdentsprófi.
 • Björn Anton Guðmundsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi  námsárangur í sérgreinum viðskipta- og hagfræðibrautar á stúdentsprófi
 • Pálmi Geir Jónsson hlaut viðurkenningu frá Lionsklúbbi Sauðárkróks úr Minningarsjóði Tómasar Hallgrímssonar fyrir framúrskarandi námsárangur í sérgreinum viðskipta- og hagfræðibrautar á stúdentsprófi. Hann hlaut einnig viðurkenningu og þakkir fyrir öflugt starf  á vettvangi félagsmála nemenda.

Heimild: FNV.is

Samstarf Arion banka og Hvatar

Knattspyrnudeild Hvatar og Arion banki hafa gert með sér samstarfssamning til eins árs um að Smábæjaleikarnir árið 2012 beri nafn bankans og verði Smábæjaleikar Arion banka. Um leið gerist bankinn einn af aðalstyrktaraðilum mótsins en undanfarin ár hafa SAH afurðir og Kjarnafæði styrkt mótið með myndarlegum hætti.

Þá eru samningsaðilar sammála um að setjast niður að mótinu loknu með áframhaldandi samstarf í huga, enda líta aðilar svo á að þessi samningur sé einungis til reynslu og vonandi byrjunin á góðu samstarfi knattspyrnudeildar Hvatar og Arion banka. Sönghópurinn Blár Ópal mun sjá um að skemmta á Smábæjaleikum Arion banka árið 2012.

Þetta kemur fram á arionbanki.is.

 

Hvítasunnumót Loðfelds í golfi

Golfklúbbur Sauðárkróks kynnir:

Punktakeppni hámarksleikforgjöf karla 24 og kvenna 28.  Ræst verður út á öllum teigum klukkan 10:00 – mæting eigi síðar en 9:30. Aðalstyrktaraðili mótsins er Loðfeldur.  Verðlaun fyrir þrjú efstu sætin.

 

Þátttökugjald er 2000.- fyrir félagsmenn í GSS, GÓS og GSK. Gestir greiða vallargjald kr. 3700.-

 

Mótsstjóri Sigríður Elín Þórðardóttir.

Nánari upplýsingar og skráning á golf.is

 

Mótanefnd GSS

Sláttuhópur Vinnuskóla Skagafjarðar

Í sumar, líkt og undanfarin ár,  verður starfræktur sláttuhópur á vegum Vinnuskóla Skagafjarðar.

Hlutverk hans er fyrst og fremst að slá og raka gras í görðum eldri borgara og öryrkja og hefur sá hópur forgang. Þjónustan er einnig í boði fyrir almenning.

Pantanir hefjast föstudaginn 1.júní. Sláttur hefst  mánudaginn 4. júní og lýkur 17.ágúst eða þegar vinnuskólanum lýkur.

 

Verð:

 • Garður < 500m2 fullt verð kr. 5.500.- / 3.300.- f. eldri borgara og öryrkja
 • Garður > 500m2 fullt verð kr. 8.800.-/ 5.500.- f. eldri borgara og öryrkja.

Vélsmíðakennari óskast við Varmahlíðaskóla

Við Varmahlíðarskóla er eftirtalin kennarastaða laus til umsóknar:

Starf vélsmíðakennara fyrir næsta skólaár. Um er að ræða 40% starf. Gerð er krafa um menntun í vélsmíði sem og kennslureynslu.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi KÍ og Launanefndar sveitarfélaga. Nánari upplýsingar um starfið gefur Ágúst Ólason skólastjóri í síma 455-6020. Umsóknir sendist á netfangið agust@varmahlidarskoli.is ásamt ferilskrá og mynd. Umóknarfrestur er til 6. júní.

Slökkviliðsmenn Grýtubakkahrepps í fjarnámi

Eftir áramót hófu 12 slökkviliðsmenn í slökkviliði Grýtubakkahrepps fjarnám í slökkvistarfi í Háskóla Íslands á vegum Brunamálaskólans. Fjarnámið fór fram í tölvuveri Grenivíkurskóla.

Allur hópurinn var saman í náminu svo og í prófinu að undanskyldum einum sem tók prófið út á sjó. Guðni Sigþórsson slökkviliðsstjóri telur þetta mjög gagnlegt að geta boðið upp á slíkt nám í fjarkennslu. Í framhaldi verður  verklegt próf í haust og útskrifast hópurinn sem fullgildir slökkviliðsmenn á haust dögum.

Hænsnakofi brann á Laugarbakka

Betur fór en á horfðist þegar hænsnakofi við Grunnskóla Húnaþings vestra á Laugarbakka brann í vikunni. Kofinn stóð við íþróttavöllinn á Laugarbakka og hefur hann gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina, m.a. sem hesthús, áhaldahús og hænsnakofi.

Það var á fimmta tímanum á fimmtudagsmorgun sem slökkviliðinu barst tilkynning um brunann. Sigurvin Dúi Bjarkason og Sveinn Guðmannsson voru fyrstir á vettvang og hringdu í neyðarlínuna, en Indriði Benediktsson á Syðri-Reykjum hafði einnig orðið eldsins var. Indriði sótti töng til að hægt væri að klippa gat á hænsnanetið og hleypa hænunum út en þær höfðu safnast saman í eitt hornið innan hænsnagirðingarinnar.

 

Sendiherra Rússlands heimsækir Hátæknimenntasetur FNV

Föstudaginn 4. maí heimsóttu sendiherrahjón Rússlands þau Andrey V. Tsyganov og  Larisa M. Tsyganova Hátæknimenntasetur Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra ásamt föruneyti.  Með í för voru auk túlks frá sendiráðinu, Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjaraðar,  Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og eiginkona hans og Bjarni Jónsson, varaformaður byggðaráðs.

Heimsóknin var hluti af heimsókn ráðherrahjónanna til Skagafjarðar.  Sendiherrann kynnti sér starfsemi FNV og kennsluaðstöðu í Hátæknimenntasetri þar sem hann heimsótti allar verknámsdeildir skólans og Fab Lab stofuna. Sendiherrahjónin sýndu starfseminni mikinn áhuga og fengu góða leiðsögn skólameistara og kennurum skólans.

Óskað er eftir umsjónarmanni dreifnáms á Hvammstanga

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki óskar eftir að ráða umsjónarmann dreifnáms á Hvammstanga.

Umsóknarfrestur er til 14. júní 2012.

Ekki þarf að sækja um á sérstöku umsóknareyðublaði en umsókn þarf að fylgja afrit af prófskírteini auk yfirlits um fyrri störf. Umsókn skal senda til skólameistara (ingileif@fnv.is).

Helstu verkefni og ábyrgð
Í starfinu felst m.a. dagleg umsjón með nemendum og líðan þeirra í námsveri á Hvammstanga, eftirlit með skólasókn, aðstoð við nemendur í kennslustundum, samskipti við kennara FNV,  seta í kennslustundum í námsveri og í námslotum á Sauðárkróki, agastjórnun og dagleg umsjón með námsveri og tækjabúnaði námsvers.

Hæfnikröfur
Við leitum að  fjölhæfum umsækjanda sem á gott með að umgangast ungt fólk og er tilbúinn til að taka þátt í mótun á fyrirkomulagi dreifnáms í Húnaþingi vestra. Æskilegt er að umsækjandi hafi háskólapróf á uppeldissviði..

Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og viðkomandi stéttarfélags.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 14.06.2012

Nánari upplýsingar veita
Ingileif Oddsdóttir – ingileif@fnv.is – 455-8000
Þorkell V. Þorsteinsson – keli@fnv.is – 455-8000

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
v. Sæmundarhlíð
550 Sauðárkróki

Atvinna í Húnaþingi vestra

Grunnskóli Húnaþings vestra:

Grunnskólakennara í 100% starf frá 1. ágúst(afleysing til eins árs). Kennslugreinar danska og náttúrufræði.

Tvo stuðningsfulltrúa á miðstigi og skólaliða frá 15. ágúst. Möguleiki á samþættingu starfa þannig að úr verði tvö heil stöðugildi (tímabundið til eins árs með möguleika á framtíðarráðningu).

Umsækjendur þurfa að hafa eftirfarandi þætti til að bera:

 • Grunnskólakennaramenntun er æskileg.
 • Áhuga á þverfaglegri teymisvinnu með nemandann að leiðarljósi.
 • Frumkvæði og sjálfstæði
 • Góða samstarfs-og skipulagshæfileika

Framundan er spennandi þróunarvinna þar sem mikil áhersla er á þverfaglegri  teymisvinnu með nemandann  að leiðarljósi.

Upplýsingar um skólastarfið má finna á www.skolatorg.is/kerfi/hunathingvestra/skoli/Frekari upplýsingar veitir Sigurður Þór Ágústsson skólastjóri í símum 4552911 og 8625466

Sumarstörf á Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir sumarstörf námsmanna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Störfin eru við ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins m.a. við skógrækt, umhverfismál og umsjón með golfvelli.  

Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur vegna sumarstarfa námsmanna er til föstudagsins 1. júní 2012.

Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700. 

 


Tindastóll tapaði gegn Víkingi Ólafsvík

Víkingur frá Ólafsvík komu í heimsókn á Sauðárkróksvöll þann 19. maí Sauðárkróki í fyrsta heimaleik Tindastóls þetta árið í 1. deild karla í knattspyrnu. Tindastólsliðið ekki tapað leik á Sauðárkróki síðan árið 2010.

Í Tindastólsliðinu léku í fyrsta skipti allir Furness bræðurnir þrír, skynsamlega dreifðir um allan völl en Dominic og Sebastian Furness mættu til landsins í vikunni til að hjálpa bróðir sínum Theo í sumar.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt, Tindastólsliðið þó aðeins sterkara með vindinum en Víkingarnir að venju þéttir fyrir og nokkuð ljóst frá byrjun að það þurfti eitthvað sérstakt til ef Tindastólstrákarnir ætluðu að skora mar.

Fyrsta alvöru sókn Ólafsvíkinga kom á 21. mínútu þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson framherji og fyrirliði slapp inn fyrir vörn Tindastóls en elsti Furness bróðirinn Sebastian varði vel. Næsta færi féll í skaut heimamann nokkrum mínútum síðar þegar Atli Arnarsson stakk boltanum inn á Ben Everson sem kom boltanum fram hjá Einari Hjörleifssyni markmanni sem gerði vel í að brjóta ekki á Everson því Everson náði ekki að halda boltanum inn á vellinu og færið dó út.

Á 28. mínútu kom eina mark leiksins. Guðmundur Hafsteinsson skaut sér á milli hafsents og vinstri bakvarðar Tindastól, komst einn á móti Sebastian í markinu og kláraði færið vel með skoti í fjærhornið.

Við markið breyttist leikurinn. Tindastólsliðið fór á hælanna Víkingar gengu á lagið. Færin fóru að detta inn og Sebastian í markinu stóð í stórræðum. Valsarinn Arnar Sveinn og Hornfirðingurinn Björn Pálsson fengu ágæt færi án þess að skora og Tindastólsmenn önduðu léttar þegar að flautað var til hálfleiks.

Tindastólsmenn fengu ekki nema eitt skot allan seinni hálfleikinn. Víkingar fengu nokkur smá færi til að klára leikinn, það allra besta þegar Arnar Geirsson slapp einn í gegn í lok leiksins en Sebastian varði vel og hélt voninni lifandi.  0-1 sanngjörn úrslit leiksins og fyrsta tap Tindastóls á Sauðárkróki í tæp tvö ár staðreynd.

Maður leiksins augljóslega Sebastian Furness markvörður Tindastóls sem átti góðan dag á milli stanganna og lét heyra meira í sér en allir aðrir leikmenn Tindastóls til samans í leiknum. Hann gæti reynst dýrmætur fyrir Tindastól í sumar.

Hjá Víkingsliðinu var það liðsheildin sem stóð fyrir sínu og Guðmundur Hafsteinsson er ansi öflugur, heldur boltanum vel og lét varnarmenn hafa duglega fyrir því.

Ari Trausti var á Sauðárkróki

Ari Trausti hefur lokið undirskriftarsöfnun vegna meðmæla með framboði sínu til embættis forseta Íslands. Það var gert í ferð til Mið-Norðurlands dagana 11. og 12. maí. Með síðustu undirskriftanna voru þær sem fengust á stuttum en skemmtilegum fundi að kvöldi föstudagsins 11. maí í Grímsey. Flogið var til eyjarinnar á lítilli og nýuppgerðri tveggja hreyfla Piper Apache-vél og skundað í félagsheimilið þar sem heitt kaffi beið á könnu og hressir Grímseyingar tóku á móti gestunum.

“Ég hef hlotið góðar móttökur í öllum landsfjórðungum og heimsótt yfir 80 fyrirtæki og stofnanir. Þetta er skemmtileg iðja og margt sem lærist. Ég    þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn”, segir Ari Trausti.

Skil á undirskriftalistum fer fram í öllum kjördæmum landsins á tímabilinu 15. til 22. maí. en framboðsfrestur rennur út 25. maí.

Heimild: www.aritrausti.is

Leikskólakennara vantar á Hofsós

Leikskólakennara vantar í100% stöðu í leikskólann Tröllaborg á Hofsósi frá 13. ágúst 2012. Umsóknarfrestur er til 1. júní.

Fáist ekki leikskólakennari kemur til greina að ráða fólk með aðra uppeldismenntun eða reynslu.

 • Umsóknum skal skila á netfangið: brusabaer@skagafjordur.is
 • Laun samkvæmt kjarasamningum F.L. og launanefndar sveitafélaga.
 • Nánari upplýsingar veitir Anna Stefánsdóttir leikskólastjóri í síma 862-5606.

Tindastóll gegn Víkingi Ólafsvík á laugardaginn

Tindastóll tekur á móti Víkingi frá Ólafsvík laugardaginn 19. maí á Sauðárkróksvelli kl. 16. Um er að ræða 2. umferð í 1. deild karla í knattspyrnu en Tindastóll er enn án stiga eftir tap gegn Haukum í síðsta leik. Víkingur Ó. er með 1 stig eftir jafntefli í fyrsta leik gegn Fjölni.

Allir á völlinn og styðja sína menn !

Atvinna hjá Kjötafurðastöð KS

Kjötafurðastöð KS óskar eftir starfsmönnum fyrir komandi sláturtíð (sep-okt) í eftirfarnandi stöður.

 • Matráða – sjá um mötuneyti fyrir 150 manns. Um er að ræða 3 máltíðir á dag morgunkaffi, hádegismat og miðdegiskaffi.
 • Starfsmenn í rétt – viðkomandi þarf að hafa reynslu af tölvunotkun og kunna að umgangast sauðfé.
 • Úrbeinara – vant fólk í úrbeiningu.
 • Lyftaramenn – vana lyftaramenn.
 • Almennt starfsfólk – um er að ræða ýmis störf frá slátrun til pökkunar.

Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband tímanlega við Eddu í síma 455 4588, með emaili á edda.thordardottir@ks.is eða á skrifstofu Kjötafurðastöðvarinnar. Stefnt er á að ráðningum ljúki 10. ágú.  Hafa ber í huga að Kjötafurðastöðin er lokuð frá 16. júl. – 3. ágú., nk.

Byggingaframkvæmdir við Íþróttahús og Árskóla á Sauðárkróki í sumar

Frístundastjóri Skagafjarðar hefur kynnt áform um öryggisráðstafanir vegna starfsemi Sumar T.Í.M. í íþróttahúsinu á Sauðárkróki í sumar, og eru tilkomin vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda við íþróttahús og Árskóla.

Fela þau m.a. í sér strangari reglur um aðkomu bíla að íþróttahúsinu á Sauðárkróki og að foreldrum verði kynntar þær reglur. Einnig að fundað verði með verktökum þannig að allir leggist á eitt um að tryggja öryggi barna í og við þessar byggingar í sumar.

Markaðsátak og lengri opnun á sundlauginni á Hofsósi

Frístundastjóri Skagafjarðar hefur kynnt bréf frá nokkrum gestum sundlaugarinnar á Hofsósi sem óska eftir að afgreiðslutími laugarinnar verði lengdur enn frekar en fjárhagáætlun gerir ráð fyrir.

Frístundastjóri Skagafjarðar hefur lagt til að sundlaugin verði opin í sumar, frá 1. maí – 31.ágúst,  alla daga frá klukkan 9 – 21 og látið reyna á að rýmri opnun.

Meiri markaðssetning og kynning á lauginni muni skila henni enn meiri tekjum sem réttlæti lengri afgreiðslutíma.  Félags-og tómstundanefnd Skagafjarðar hefur samþykkt tillöguna. Ákveðið hefur verið að fara yfir árangur þessa markaðsátaks og áhrif á fjárhagsáætlun að loknu sumri.

Skagafjörður leggur til 8 milljónir í uppbyggingu skíðasvæðis

Félags-og tómstundanefnd Skagafjarðar hefur samþykkt samning um rekstur skíðasvæðis í Tindastóli milli Sveitarfélagsins og skíðadeildar UMF. Tindastóls.

Þar skuldbindur sveitarfélagið sig til að greiða skíðadeild 8.000.000.- króna til uppbyggingar á skíðasvæðinu í ár, auk 2.000.000.-króna í rekstrarstyrk. Þá leggur sveitarfélagið til starfsmann í 8 mánuði á árinu og að greiða viðhald á troðara allt að 1,5 milljón króna. Skíðadeild  skuldbindur sig til að annast rekstur skíðasvæðisins til ársloka 2012.

 

Ljósmyndasamkeppnin Fugl fyrir milljón

LJÓSMYNDASAMKEPPNI:

Áhugasamir ljósmyndarar geta skráð sig til þátttöku í ljósmyndasamkeppni um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaganum, Hrísey, Grímsey, Drangey eða Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012. Auk ýmissa veglegra verðlauna, verður besta myndin verðlaunuð með 1.000.000 króna í reiðufé. Hægt er að skrá sig hjá Brimnes hóteli og Rauðku í Fjallabyggð (Senda má tölvupósta á hotel@brimnes.is og/eða raudka@raudka.is)

TILGANGUR:

Að kynna Tröllaskagann og nærliggjandi eyjar, Hrísey, Grímsey, Málmey og Drangey fyrir náttúruunnendum og stuðla að aukinni fuglaskoðun og fuglaljósmyndun á svæðinu.

 

SKILMÁLAR:

Ljósmynd af lifandi fugli, tekin annaðhvort á Tröllaskaganum, í Hrísey, Grímsey, Drangey eða Málmey á tímabilinu 14. maí 2012 til 31. ágúst 2012.

Sjá nánar á www.fuglfyrirmilljon.com

Tindastóll tapaði gegn Haukum

Það voru Haukar sem fengu öll þrjú stigin í dag í leik Hauka og Tindastóls í 1. deild karla í knattspyrnu.

Það var fyrirliðinn Hilmar Trausti Arnarsson kom Haukum yfir gegn Tindastóli með marki beint úr hornspyrnu á 38. mínútu.

Markvörður Tindastóls, Arnar Magnús Róbertsson, fékk að líta rauða spjaldið á 80. mínútu fyrir að sýna dómaranum Þorvaldi Árnasyni löngutöng. Tindastólsmenn voru búnir með skiptingarnar sínar og því fór útileikmaðurinn Fannar Örn Kolbeinsson í markið.

Haukar komust svo í 2:0 í uppbótartíma gegn Tindastóli. Hilmar Trausti kom með boltann inn í vítateig eftir hornspyrnu og gaf á Magnús Pál Gunnarsson sem skoraði framhjá útileikmanninum Fannari Erni Kolbeinssyni sem fór í mark Tindastóls síðustu mínútur leiksins vegna rauða spjaldsins sem Arnar Magnús fékk.

Tveggja marka sigur Hauka staðreynd en Stólarnir bitu heldur betur frá sér í leiknum og komu skemmtilega á óvart með spilamennsku sinni og það er ljóst að þeir eru mun sterkari en búsist var fyrir fram við. Haukarnir áttu í erfiðleikum með að brjóta niður varnarmúr Tindastóls en mark Hilmars Trausta beint úr hornspyrnu gaf þeim aukið sjálfstraust og var forystu Hauka aldrei ógnað.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/fullStory.php?id=126188#ixzz1uftwTK7P

Samfélagsstyrkir Landsbankans 2012

Landsbankinn veitir 20 milljónum króna í samfélagsstyrki í ár – og verður þeim úthlutað í tvennu lagi. Samfélagsstyrkjunum er ætlað að styðja við verkefni á ýmsum sviðum, þar á meðal á sviði mannúðarmála, menningar og lista, menntunar, rannsókna og vísinda, forvarnar- og æskulýðsstarf og sértækrar útgáfustarfsemi.

Sérstök dómnefnd skipuð þremur fagaðilum og tveimur sérfræðingum bankans fer yfir umsóknirnar og er umsóknarferlið gagnsætt og faglegt. Umsóknarfrestur í fyrri úthlutun er 4. júní en í seinni úthlutun 12. október.

Á hvoru úthlutunartímabili verða veittir eftirtaldir styrkir:

 • 5 styrkir að upphæð 1.000.000 kr. hver.
 • 5 styrkir að upphæð 500.000 kr. hver
 • 10 styrkir að upphæð 250.000 kr. hver.

Verkefni sem koma einkum til greina eru:

 • starf mannúðarsamtaka og líknarfélaga
 • menning og listir
 • menntamál, rannsóknir og vísindi
 • forvarnar- og æskulýðsstarf
 • sértæk útgáfuverkefni

Verkefni sem alla jafna ekki koma til greina eru:

 • nýsköpunar- og sprotaverkefni – sérstakir nýsköpunarstyrkir veittir
 • umhverfismál – sérstakir umhverfisstyrkir veittir
 • afreksmenn í íþróttum – sérstakir afreksstyrkir veittir
 • starfsemi íþróttafélaga
 • almenn bókaútgáfa, gerð almenns námsefnis og útgáfa geisladiska
 • utanlandsferðir listamanna og listhópa

Bæjar- og menningarvefur