Víkingar tóku Tindastól í kennslustund

Víkingur Reykjavík og Tindastóll léku í kvöld í 1. deild karla. Það er skemmst frá því að segja að heima menn  á Víkingsvelli unnu stórsigur, 5-0. Hjörtur Hjartason var sprækur og skoraði strax á fyrstu mínútu og hann átti einnig síðasta markið á 67. mínútu. 322 áhorfendur voru á vellinum. Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.

Mörkin skoruðu:

Hjörtur Júlíus Hjartarson Mark 1
Sigurður Egill Lárusson Mark 28
Kjartan Dige Baldursson Mark 57
Aaron Robert Spear Mark 62
Hjörtur Júlíus Hjartarson Mark 67

Laus staða í Íþróttamiðstöðinni í Varmahlíð

Íþróttamiðstöðin í Varmahlíð auglýsir eftir starfskrafti, karlkyns, í 65% starf. Viðkomandi þarf að vera eldri en 18 ára. Hann þarf að vera með eða standast björgunarsundpróf. Laun eru samkvæmt kjarasamningum Starfsmannafélags Skagafjarðar. Upplýsingar um starfið gefur Monika Borgarsdóttir í síma 453-8824 eða monika@skagafjordur.is . Umsóknarfrestur er til 3. september n.k.

Heimild: www.Skagafjordur.is

 

Sprengt í Vaðlaheiði

Mörgum íbúum við Eyjafjörð brá í brún um áttaleytið í gærkvöldi þegar hár hvellur kvað við. Verktakafyrirtækið G. Hjálmarsson sprengdi þá bergklöpp í Vaðlaheiði sem nota á í undirstöður fyrir bráðabirgðabrú í tengslum við gerð Vaðlaheiðarganga. Lögregla lokaði veginum á meðan.

Hjálmar Guðmundsson, verkstjóri, segir að úr sprengingunni hafi komið um 3.500 rúmmetrar af efni. Hann segir að fyrirtækið ætli að sprengja upp tvo kletta í viðbót, en þær sprengingar verði smærri í sniðum og hljóðlátari.

Heimild: www.ruv.is

Hvammstangavöllur vígður með sigri

Hvammstangavöllur í Kirkjuhvammi á Hvammstanga var vígður í gær, 18. ágúst en Kormákur/Hvöt lék gegn Hetti frá Egilsstöðum í 4. flokki karla. Heimamenn unnu leikinn 6-3 og var því sigur á opnunarleik vallarins.

Kormákur/Hvöt eru efstir í sínum riðli á Íslandsmótinu í fótbolta með 31 stig og Völsungur er í öðru sæti með 26 stig.

 

 

 

Ljósmyndasýning á Kántrýdögum

Á Kántrýdögum opnar Árni Geir Ingvarsson ljósmyndasýninguna “Mannlíf á Skagaströnd“. Eins og nafnið bendir til verða þar sýndar myndir úr hinu daglega lífi á Skagaströnd en Árni Geir hefur verið með vakandi auga linsunnar á atburðum og augnablikum mannlífsins. Hann er reyndar ekki einn um myndirnar því Herdís Jakobsdóttir kona hans og dóttirin Ásdís Birta eiga einnig hlut í sýningunni.

Ljósmyndasýingin verður í íþróttahúsinu og sýningartími á Kántrýdögum:

 • Föstudaginn 17. ágúst kl. 18:00 – 20:00
 • Laugardaginn 18. ágúst kl. 13:00 – 18:00
 • Sunnudaginn 19. ágúst kl. 13:00 – 17:00

Þórdísarganga á Skagaströnd

Laugardaginn 18. ágúst klukkan 10:00 verður lagt af stað í Þórdísargöngu á Spákonufell. Mæting er við golfskálann  að Háagerði .

Fararstjóri  verður  göngugarpurinn Halldór Ólafsson og mun hann segja sögur af Þórdísi spákonu og öðru skemmtilegu.

 Að lokinni göngu verður boðið uppá kaffihlaðborð í golfskálanum sem er innifalið í þátttökugjaldi sem er kr. 2.500.-

 • Frítt fyrir yngri en 16 ára.
 • Upplýsingar í síma 861 5089.
 • Menningarfélagið Spákonuarfur.

Heimild: www.skagastrond.is

Sumar á Skagaströnd sýnd á Kántrýdögum

Laugardaginn 18. ágúst kl 17.00, á Kántrýdögum, verður frumsýnd heimildarmyndin

„Sumar á Skagaströnd“

í félagsheimilinu Fellsborg.

Frumsýning myndarinnar er öllum opin og íbúum á Skagaströnd og gestum Kántrýdaga boðið að koma og njóta sýningarinnar.

Myndin var unnin á árunum 2008-2011. Í henni er skoðað hvernig atvinnumálum á staðnum er háttað í víðu samhengi og horft til hátækni og menningar. Í myndinni er fjallað um kántrýtónlist,  NES listamiðstöð, Spákonuhof, BioPol og fylgst með fjölbreyttu lista- og mannlífi á Kántrýdögum.

Gerð myndarinnar var styrkt af Menningarráði Norðurlands vestra og unnin í samstarfi við Sveitarfélagið Skagaströnd.

Höfundur myndarinnar er Halldór Árni Sveinsson.

Heimild: www.skagastrond.is

UMSS sigraði heildarstigakeppnina í Þristinum

Þristurinn fór fram á Sauðárkróksvelli síðastliðinn miðvikudag. Þar kepptu UMSS, USVH og USAH sín á milli. Góðar aðstæður voru á Sauðárkrók til frjálsíþróttaiðkunnar þó að sólin hafi ekki látið sjá sig. Alls tóku um 70 keppendur þátt í mótinu, þar af voru um 30 í liði UMSS.

Úrslitin voru þau að UMSS vann heildarstigakeppnina en USAH var í öðru sæti og USVH í því þriðja.

Stigakeppni aldursflokkana var þannig að UMSS vann í flokki pilta 11 ára og yngri, stúlkna 12-13 ára og stúlkur 14-15 ára. USAH vann síðan stigakeppni stúlkna 9 ára og yngri , pilta 12-13 ára og pilta 14-15 ára.

Heimild: www.umss.is

Varðskipið Þór til sýnis á Sauðárkróki

Varðskipið Þór frá Landhelgisgæslu Íslands, verður í heimsókn í  Sauðárkrókshöfn  laugardaginn 18. ágúst. Gefst þá almenningi kostur á að fara um borð og skoða skipið á milli klukkan 13 og 17.

Smíði varðskipið Þór hófst í október árið 2007 í  Asmar skipasmíðastöð sjóhersins í Chile. Verkið gekk mjög vel og var kostnaður innan heildaráætlunar.  Vegna jarðskjálftans í Chile sem varð í febrúar 2010 og flóðbylgjunnar sem reið yfir í kjölfarið varð seinkun á smíðaferlinu þar sem miklar skemmdir urðu á skipasmíðastöðinni en með einbeittum vilja og samstilltu átaki allra var skipið afhent þann 23. september 2011. Varðskipið Þór sigldi af stað til Íslands frá Chile 28. september og kom til fyrstu hafnar á Íslandi, Vestmannaeyja  26. október kl. 14:00. Skipið siglir inn í Reykjavíkurhöfn 27. október kl. 14:00.

Varðskipið Þór er tákn um nýja tíma. Varðskipin Ægir og Týr hafa þjónað Íslendingum dyggilega í 40 ár en með komu Þórs er stigið nýtt skref í  öryggismálum sjómanna og vöktun íslenska hafsvæðisins, hvort sem er á sviði auðlindagæslu, fiskveiðieftirlits, löggæslu, leitar eða björgunar.  Varðskipið er sérstaklega hannað með þarfir Íslendinga og framtíðaráskoranir á Norður Atlantshafi í huga. Skipið verður öflugur hlekkur í keðju björgunaraðila á Norður Atlantshafi og stóreykur möguleika Landhelgisgæslunnar á hafinu.

Heimild: www.lhg.is

 

Gæran 2012

Tónlistarhátíðin Gæran 2012 fram dagana 24. – 25. ágúst á Sauðárkróki. Er þetta í þriðja sinn sem hún er haldin og munu um 20 hljómsveitir koma fram að venju ásamt sólóistakvöldi sem fram fer 23. ágúst. Hátíðin fer fram í einu sútunarverksmiðju landsins, en hún sérhæfir sig meðal annars í framleiðslu á fiskileðri.

 

Nánari upplýsingar á www.gaeran.is

Solveig Lára vígð inn í dag á Hólum

Solveig Lára Guðmundsdóttir verður í dag vígð til embættis vígslubiskups á Hólum. Hún er önnur konan sem tekur biskupsvígslu á Íslandi. Agnes Sigurðardóttir, biskup vígir Solveigu Láru.

Vígsluvottar eru Aðalsteinn Baldvinsson biskup á Hólum, Kristján Valur Ingólfsson biskup í Skálholt sex erlendir  biskupa,  Gylfi Jónsson fv. héraðsprests, eiginmaður Solveigar Láru  og Unnur Halldórsdóttir, djákni.
Athöfnin hefst með göngu presta stiftisins, biskupa og vígsluþega til kirkju. Solveig Lára var sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal í 12 ár en áður þjónaði hún sem sóknarprestur á Seltjarnarnesi í 14 ár. Hún var fyrsta konan sem kjörin var sóknarprestur í almennri prestskosningu á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild: Rúv.is

25-30 þúsund á Fiskideginum mikla í gær

Talsverður erill var hjá lögreglunni á Dalvík í nótt og í morgun vegna ölvunar á tjaldstæðum í bænum, en Fiskidagurinn mikil var haldinn þar hátíðlegur í gær. 25 til 30 þúsund manns voru á Dalvík í gær.

Fjögur fíkniefnamál komu upp í bænum í nótt; þrjú smávægileg, en í því fjórða gerði lögregla upptækar tuttugu e töflur og nokkur grömm af kókaíni. Mjög hlýtt var á Dalvík í nótt; nokkrir fengu sér sundsprett í sjónum við höfnina, og aðrir reyndu að komast í sundlaugina í bænum, en voru jafnharðan reknir upp úr. Gestir eru nú byrjaðir að halda heim á leið, en síðan í morgun hafa lögreglumenn boðið ökumönnum að koma og blása í áfengismæla, til að sjá hvort þeir séu tilbúnir að halda af stað. Að sögn lögreglu hafa tugir nýtt sér þessa þjónustu.

Heimild: Rúv.is

Flott golfmót á Sauðárkróki í sumar

Síðustu helgar hefur hvert golfmótið eftir annað verið haldið að Hlíðarenda á Sauðárkróki. Ágæt þátttaka hefur verið í hverju móti og veður leikið við keppendur.

Opna Hlíðarkaupsmótið var haldið 28. júlí og voru keppendur 47. Veitt voru verðlaun fyrir fimm efstu sætin í punktakeppni. Sigurvegari varð Jóhann Örn Bjarkason GSS, en í kjölfar hans komu þeir Ásmundur Baldvinsson GSS, Jakob Helgi Richter GA, Arnar Geir Hjartarson GSS, Brynjar Örn Guðmundsson GSS og Kristján Halldórsson GSS.

Á opna Vodafonemótinu sem fram fór 4. ágúst var keppt í höggleik í karla og kvennaflokki, auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir flesta punkta. Sigurvegarar í karlaflokki voru þeir Einar Haukur Óskarsson GK og Bjarni Sigþór Sigursson GS, en þeir léku á 75 höggum. Elvar Ingi Hjartarsson GSS varð síðan í þriðja sæti, höggi á eftir þeim. Í kvennaflokki sigraði Dagbjört Rós Hermundardóttir á 83 höggum. Sigríður Elín Þórðardóttir og Árný Árnadóttir voru síðan jafnar í 2-3 sæti á 85 höggum. Punktakeppnina sigraði Dagbjört Rós á 43 punktum. Elvar Ingi fékk 42 punkta en í þriðja sæti varð Magnús Gunnar Magnússon með 36 punkta.

Heimild: www.gss.is

Hólahátíðinni líkur í dag

Hólahátíðin hófst á föstudag. Óvanalega mikið verður um dýrðir þetta árið. Frú Agnes M. Sigurðardóttir vígir séra Solveigu Láru Guðmundsdóttur til embættis vígslubiskups í Hólastifti. Vígslan verður í lok hátíðarinnar, kl 14 á sunnudaginn. Aðrir liðir í dag verða sem hér segir.

 

 • kl. 9:00 Morgunsöngur í dómkirkjunni.
 • Kl. 11:00 Samkoma í Auðunar-stofu.  Ragnheiður Traustadóttir Opnun sýningar um Guðbrand Þorláksson biskup.
 • Kl. 14:00 Hátíðarmessa í Hóladómkirkju.
 • Biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir vígir séra Solveigu Láru Guðmundsdóttur til biskups í Hólastifti.Kórar Hóladómkirkju og Möðruvallaklausturprestakalls syngja.  Organistar og kórstjórar Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Jóhann Bjarnason.
 • Kirkjukaffi að lokinni messu.

 

Þristurinn 2012 á Sauðárkróksvelli

Þristurinn verður haldinn á Sauðárkróksvelli miðvikudaginn 15 ágúst kl: 16:00. Mótið er frjálsíþróttakeppni unglinga úr UMSS, USAH og USVH, fyrir 15 ára og yngri . Keppnisgreinar fyrir 11 ára og yngri eru 60m, langstökk, hástökk 800m, kúluvarp og boðhlaup en hjá 12-13 ára er það hástökk, spjótkast, 80m, langstökk, kúluvarp, 800m og boðhlaup og 14-15 ára er það hástökk, spjótkast, 100m, langstökk, kúluvarp, 800m og boðhlaup.

Þeir sem geta aðstoðað við mótið eru beðnir um að láta vita á umss@simnet.is eða í síma 4535460

Körfuboltabúðir Tindastóls

Körfuboltabúðir 31. ágúst – 2. september

Skráningarfrestur til 27. ágúst

Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Tindastóls stendur fyrir körfuboltabúðum dagana 31. ágúst til 2. september n.k. Búðirnar eru ætlaðar iðkendum körfuknattleiksdeildar frá aldrinum 6 ára og upp úr.

Tilgangur búðanna er að hrista hópinn saman fyrir tímabilið og hefja það með stæl.

Kostnaður við þátttökuna er kr. 3.500 fyrir 11 ára og eldri og 1.500 fyrir 10 ára og yngri.

Bárður Eyþórsson er yfirþjálfari búðanna og honum til aðstoðar verða þjálfarar körfuknattleiksdeildar.

Skráning á www.tindastoll.is

 

Um 800 krakkar á Króksmótinu

Í gær hófst Króskmót FISK á Sauðárkróksvelli. Þar eru rúmlega 800 krakkar sem keppa á mótinu. Mótinu líkur í dag kl. 15:30 ef planið heldur.  Öll úrslit má finna hér.

 

Úrslitaleikir hjá 5. flokki í dag, sunnudag.

Hjá 5.flokki raðast úrslitariðlarnir eftirfarandi:

A úrslit

 • Völlur 1 – 10.00 – Völsungur 2 – Leiknir
 • Völlur 1 – 11.30 – Völsungur 2 – Hvöt
 • Völlur 2 – 13.00 – Leiknir – Hvöt

B úrslit

 • Völlur 1 – 10.30 – Kormákur/Fram – Tindastóll 1
 • Völlur 2 – 12.00 – Kormákur/Fram – Tindastóll 2
 • Völlur 1 – 13.30 – Tindastóll 1 – Tindastóll 2

C úrslit

 • Völlur 2 – 10.00 – Tindastóll 3 – Völsungur
 • Völlur 1 – 11.00 – Tindastóll 3 – Smárinn
 • Völlur 2 – 12.30 – Völsungur – Smárinn

Akureyringar þurfa að spara kalda vatnið sitt

Miðlunartankur Norðurorku fyrir kalt vatn er kominn undir öryggismörk. Akureyringar eru því beðnir um að fara sparlega með kalda vatnið og vökva til dæmis ekki garða sína.

Stjórnendur Norðurorku höfðu ákveðið í morgun að senda út dreifibréf á alla notendur í Svalbarðstrandarhreppi og biðja þá um að spara vatn því að lindir í Vaðlaheiði og Víkurskarði séu ekki jafn gjöfular og hefðbundið er. „Svo gerðist það undir kvöldmat að það komu aðvörunarmerki frá vatnstönkum sem þjóna Akureyri og taka vatn frá Glerárdal, Hlíðarfjalli og Völlum í Hörgárdal um að við værum komin niður fyrir öryggismörk í vatnsbirgðum. Við þurfum því að grípa til ráðstafana og biðja fólk um að spara vatn í öryggisskyni,” segir Baldur Dýrfjörð, forstöðumaður þróunar hjá Norðurorku. Helgi Jóhannesson, forstjóri segir að gríðarleg þurrkatíð hafi verið að undanförnu og vatnslindirnar hafi því auðvitað aðeins gefið eftir.

Öryggismörkin á vatnsbirgðunum eru skilgreind tiltölulega hátt en engu að síður sett til að ákveðið ferli fari í gang enda feli þetta í sér að vatnsskömmtun geti verið yfirvofandi. „Þetta er í fyrsta skipti í líklega 50 ár sem stöndum frammi fyrir því að það geti komið til þess að þurfa að skammta vatn eða herða að notendum og biðja þá að fara sparlega með vatn. Við erum jafnvel að biðja bensínstöðvar um að skrúfa fyrir vatn á plönum og biðja stórnotendur að fara sparlega með,” útskýrir Birgir.

 

„Þrjú skemmtiferðaskip voru á Akureyri í dag og þau tóku mjög mikið vatn. Eitt af þessum skipum var stærsta skip sumarsins. Við erum að vona að tankarnir jafni sig í nótt þannig að það flæði nógu mikið inn til að fara yfir öryggismörk. Í öryggisskyni þykir okkur ráðlegt að beina því til bæjarbúa að fara sparlega með vatn, vökva ekki og láta vatn ekki renna að óþörfu,” segir Baldur.

Heimild:  Rúv.is

Hvasst á Norðurlandi í dag

Ábendingar frá veðurfræðingi

Hvasst verður í dag þann 9. ágúst af SV um norðvestanvert landið og eins vestan til á Norðurlandi. Við þessar aðstæður gætu hviður staðbundið orðið 25-30 m/s. s.s. í Skagafirði og einkum þá í Fljótum við Stafá og Gautland. Eins í Önundarfirði neðantil á Gemlufallsheiði.

Á fjallvegum norðan og norðvestan til er vindur nokkuð jafn allt að 15-20 m/s og á norðanverðu hálendinu sums staðar talsvert sand- eða moldrok.Tekur heldur að lægja með kvöldinu.

Heimild: www.vegag.is

20 verðlaun til Skagfirðinga á Unglingalandsmóti UMFÍ

Stærsta hátíð íslenskrar æsku, Unglingalandsmót UMFÍ, var haldin á Selfossi um verslunarmannahelgina.  Enn á ný var þátttökumet slegið, og ljóst er að þessi vímulausa hátíð er orðin stærsta útihátíð á mestu ferðahelgi Íslendinga.  Skarphéðinsmenn eiga þakkir skildar fyrir frábæra framkvæmd mótsins.

 

Íþróttir eru í brennidepli á hátíðinni, og sem fyrr stóðu skagfirskir keppendur sig vel í frjálsíþróttakeppni mótsins og voru til fyrirmyndar, eins og félagar þeirra sem kepptu í öðrum íþróttagreinum.   Alls unnu Skagfirðingarnir 20 verðlaun í frjálsíþróttakeppninni, 4 gullverðlaun, 8 silfur og 8 brons, auk þess sem nokkrir unnu til verðlauna í blönduðum boðhlaupssveitum.  Þess má geta að yfir 50 keppendur voru í mörgum greinanna.

 

Skagfirðingar sem unnu til verðlauna voru:

 

 • Daníel Þórarinsson (18), sigraði í 100m og 800m hlaupum.
 • Fríða Ísabel Friðriksdóttir (14), sigraði í þrístökki og varð í 2. sæti í 100m, 80m grindahlaupi og langstökki.
 • Ragnar Ágústsson (11), sigraði í spjótkasti.
 • Jóhann Björn Sigurbjörnsson (16-17), varð í 2. sæti í 100m og langstökki og 3. sæti í 110m grindahlaupi.
 • Ari Óskar Víkingsson (11), varð í 2. sæti í 60m hlaupi.
 • Sæþór Már Hinriksson (12), varð í 2. sæti í 60m grindahlaupi.
 • Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir (16-17), varð í 2. sæti í hástökki.
 • Ragna Vigdís Vésteinsdóttir (15), varð í 3. sæti í 80m grindahlaupi og langstökki.
 • Gunnar Freyr Þórarinsson (13), varð í 3. sæti í kúluvarpi.
 • Haukur Ingvi Marinósson (14), varð í 3. sæti í kringlukasti.
 • Hákon Ingi Stefánsson (15), varð í 3. sæti í kringlukasti.
 • Agnar Ingimundarson (16-17), varð í 3. sæti í hástökki.
 • Þorgerður Bettína Friðriksdóttir (16-17), varð í 3. sæti í 100m hlaupi.

Heimild: www.tindastoll.is

Nýr deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum

Guðrún Helgadóttir prófessor hefur tekið við starfi deildarstjóra ferðamáladeildar til tveggja ára frá og með 1. ágúst 2012. Guðrún hefur starfað við deildina frá 1996, fyrst sem stundakennari en sem prófessor frá árinu 2007.

 

Guðrún hefur sinnt kennslu og rannsóknum á sviði menningar og ferðamála, en aðaláherslur hennar í rannsóknum eru annars vegar á hesta og ferðamennsku og á minjagripi og menningararf hins vegar.

 

 

Sögudagur á Sturlungaslóð í Skagafirði

Hinn árlegi sögudagur á Sturlungaslóð í Skagafirði verður laugardaginn 11. ágúst. Í ár verður Björn Vigfússon, sögukennari í MA, með fyrirlestur um Guðmund góða biskup í Hóladómkirkju og Laufey Guðmundsdóttir syngur. Dagskráin er í samvinnu við Hólahátíð sem er sama dag. Afþreying er fyrir börnin á sama tíma.

Búið er að setja upp söguskilti við Víðines í Hjaltadal sem verður kynnt til sögunnar af Sigríði Sigurðardóttur safnstjóra í Glaumbæ eftir dagskránna í kirkjunni.

Við vígslu Fosslaugar hjá Reykjafossi á Sturlungadeginum 2011.

Um kvöldið verður Ásbirningablót haldið í gestamóttöku tilvonandi Kakalaskála sem Sigurður Hansen er að smíða í Kringlumýri. Þar koma fram Björg Baldursdóttir, Kristín Halla Bergsdóttir, Agnar Gunnarsson, Jói í Stapa, Siggi á Ökrum og Sigurður Hansen ásamt fleiru góðu fólki. Hótel Varmahlíð sér um veitingarnar og eru miðapantanir í síma 453 8170 fyrir kl. 18 föstudaginn 10. ágúst, verð 3.800 kr.

Heimild: Innsent efni /  Fréttatilkynning

 

 

Minnisvarði um Hrafna Flóka vígður í Fljótum

Laugardaginn 11. ágúst n.k. mun Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, vígja nýjan minnisvarða um Hrafna Flóka  sem nam land á milli Reykjarhóls og Flókadalsár í Fljótum. Minnisvarðinn stendur á mótum Siglufjarðarvegar og Flókadalsvegar vestari.

Það er hópur áhugamanna um uppbyggingu í Fljótum sem stendur að gerð minnisvarðans um þennan fræga landnámsmann sem gaf landinu nafnið Ísland. Helstu styrktaraðilar eru Alþingi Íslendinga, Menningarsjóður Norðurlands vestra, Menningar- og styrktarsjóður Norvikur og Kaupfélag Skagfirðinga. Auk þessara aðila hafa margir einstaklingar og fyrirtæki styrkt verkefnið með vinnuframlagi  og annarri greiðasemi.

Hönnuður minnisvarðans er Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson Athöfnin hefst kl. 14:30 og eru allir velkomnir.

Tómur kirkjugarður fannst í Skagafirði við uppgröft

Rúv.is greinir frá að tómur kirkjugarður hafi fundist við fornleifauppgröft á Stóru Seylu í Skagafirði. Svo virðist sem grafirnar hafi verið teknar upp og beinin flutt yfir í annan yngri kirkjugarð.

Fornleifafræðingar vinna nú að því að grafa upp kirkjugarð frá elleftu öld sem fannst við jarðsjármælingar á Seylu í Skagafirði árið 2009. Að sögn Guðnýjar Zoëga, deildarstjóra fornleifadeildar Byggðasafns Skagafjarðar, kom fundurinn mjög á óvart því einungis var vitað um annan fornan kirkjugarð á Seylu, þann sem getið er um í Sturlungu.
Athygli vekur að í eldri garðinum hafa aðeins fundist tvær beinagrindur en aðrar grafir eru tómar eða nánast tómar. „Við teljum að beinin hafi verið færð úr þessum kirkjugarði fyrir 1100 og í yngri kirkjugarð, sem er getið í Sturlungu og sést enn á yfirborði, en bæjarstæði Seylu sem síðast stóð við yngri kirkjugarðinn hefur verið flutt á sama tíma og kirkjan og beinagrindurnar,“ segir Guðný við fréttastofu.
Hún segir jafnframt að þetta sé í fyrsta sinn sem ummerki um slíkan beinaflutning sjáist í Skagafirði.„En þetta er í 12. aldar lagabókinni Grágás, eða 12. aldar kristnirétti, þar er talað um að það eigi að fjarlægja bein úr gröfum ef að kirkja og kirkjugarður eru niðurlögð. Í raun þá er þessi garður aflagður löngu áður en lögin eru allavegna sett á blað. Þannig að þetta er ansi merkileg heimild um þennan sið,“ segir Guðný að lokum.

Heimild: Rúv.is

Uppsagnir í fiskvinnslu á Blönduósi

Rúv.is greinir frá því að öllu starfsfólki hjá fiskvinnslunni Sæmá á Blönduósi hafi verið sagt upp eða 12 manns. Uppsögnin tekur gildi 1. nóvember.

Fyrirtækið Sæmár er dótturfélag Norðurstrandar á Dalvík og er eina fiskvinnslan á Blönduósi. Að sögn Guðmundar Stefáns Jónssonar, framkvæmdastjóra Sæmás og Norðurstrandar, er ástæða uppsagnanna óvissa í rekstrarumhverfi. Fyrirtækið sé kvótalaust og hafi keypt allan fisk á markaði og eins sé óvissa um byggðakvóta. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að loka Sæmá, en að sögn Guðmundar eru uppsagnirnar varúðarráðstöfun á meðan verið er að meta stöðuna.

Heimild: Rúv.is

Móttökuaðili óskast vegna drykkjarumbúða á Blönduósi

Endurvinnslan hf. auglýsir eftir áhugasömum aðila til að taka við móttöku drykkjarumbúða á Blönduósi. Tilvalið til að ná sér í aukapening eða nýta mannskap á dauðum tímum. Áhugasamir geta kynnt sér fyrirkomulag á Ísandi í gegnum vefsíðuna endurvinnslan.is

Endilega hafið samband í síma 5888522. Valdi eða Helgi.

Heimild: Blönduós.is

Bæjar- og menningarvefur