Fleiri myndir frá Trilludögum

Trilludagar á Siglufirði voru haldnir um síðastliðna helgi og var það í þriðja sinn sem hátíðin hefur verið haldin, það er Fjallabyggð sem skipuleggur hátíðina.

Mikill tími fer í að skipuleggja svona hátíð svo allt fari vel fram, en hátíðin hefur lukkast vel í þau skipti sem hún hefur verið haldin, þótt góða veðrið hafi ekki alltaf verið á svæðinu. Mörg fyrirtæki leggja hönd á plóginn, en það eru Rauðka, Kjörbúðin, Aðalbakarí og Síldarminjasafnið, auk annara félaga.  Mjög vinsælt hefur verið síðustu árin að fara á sjóstöng og grilla aflann á hátíðarsvæðinu og eins hefur mætingin á hátíðargrillið verið góð.  Þetta er mjög gott dæmi um fjölskylduvæna hátíð. Hérna koma nokkrar síðbúnar myndir af síðustu Trilludögum.

 

 

Líf á smíðavöllunum í Fjallabyggð

Smíðavellir voru starfræktir í Fjallabyggð í júlí fyrir börn fædd árin 2006-2009.  Smíðavellirnir voru opnir þrisvar í viku í tvo tíma á dag. Starfsmaður Vinnuskóla Fjallabyggðar hafði umsjón með börnunum. Börnin fengu nagla og timbur til að smíða kofa, en þurftu sjálf að koma með hamar og sög. Myndir með fréttinni eru af smíðavöllunum á Siglufirði.

Fjölmenni á Einni með öllu á Akureyri

Föstudagurinn á Einni með öllu og Íslensku sumarleikunum fór vel fram og margmenni hefur lagt leið sína til Akureyrar um verslunarmannahelgina.  Kirkjutröppuhlaupið fór fram með góðum undirtektum, sól gladdi mannskapinn fram á kvöld. Hátíðardagskrá í miðbænum vakti mikla lukku þar sem Dúndúrfréttir, Marína og Mikael, Hamrabandið, Gréta Salóme, Kristín Tómasar og Anton skemmtu fólki.

Laugardagurinn er ávalt stór á hátíðinni og þar má nefna viðburði eins og Mömmur og möffins, Barnadagskrá Greifans, Þríþraut og Hátíðardagskrá kvöldsins þar sem Brinir og Flóni stíga á stokk ásamt fleirum.

Allar upplýsingar um dagskrá helgarinnar má finna á www.einmedollu.is. Tjaldsvæði á og við Akureyri eru þétt setin en þó er ennþá pláss fyrir þá sem vilja leggja leið sína norður.

Aðsend fréttatilkynning. Ljósmyndir tók Hilmar Friðjónsson.

Forsætisráðherrahjónin heimsækja Íslendingaslóðir

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og eiginmaður hennar, Gunnar Sigvaldason eru í heimsókn á Íslendingaslóðum í Kanada og Bandaríkjunum fram til 7. ágúst nk.  Ráðherrahjónin verða heiðursgestir á Íslendingahátíðum sem haldnar verða í Gimli í Manitoba og Mountain í Norður-Dakóta og munu taka þátt í hátíðarhöldum í tengslum við þær. Ráðherrahjónin verða viðstödd ýmsa menningarviðburði og munu heimsækja staði sem tengjast vesturförunum.

Forsætisráðherra mun einnig eiga fund með Brian Pallister, forsætisráðherra Manitoba, Rochelle Squires, ráðherra Manitoba fyrir sjálfbæra þróun og stöðu kvenna, og Janice C. Filmon, fylkisstjóra Manitoba.

Meðalhitinn á Akureyri í júlí var 11,4 gráður

Júlí mánuður var hlýr og bjartur austanlands en fremur svalur og sérlega sólarlítill sunnan- og vestanlands. Úrkoma var yfir meðallagi um mest allt land og mánuðurinn var víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið. Snögg hitabylgja gekk yfir landið þann 29. júlí þegar hiti fór allvíða yfir 20 stig. Veðurstofa Íslands greinir frá þessu á vef sínum. Á Akureyri var meðalhitinn 11,4 stig, úrkoma mældist úrkoman 72,8 mm.  Á Akureyri mældust 122,5 sólskinsstundir, 36 færri en í meðalári.

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 10,6 stig sem er jafnt meðaltali áranna 1961 til 1990, en -1,5 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 11,4 stig, 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en jafnt meðaltali síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 10,0 stig og 11,1 stig á Höfn í Hornafirði. Á Dalatanga var meðalhitinn 10,2 stig sem er hlýjasti júlímánuður frá upphafi mælinga á þeim stað.

Úrkoma var yfir meðallagi um nær allt land og var mánuðurinn víða sá úrkomusamasti um áratugaskeið.

Úrkoma í Reykjavík mældist 62,3 mm sem er 20% umfram meðallag áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 72,8 mm. Það er meira en tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar. Aðeins þrisvar sinnum áður hefur mælst eins mikil úrkoma á Akureyri í júlímánuði, síðast árið 2014. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 74,9 mm sem er um 75% umfram meðallag og það mesta í júlí frá 1977. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 109,7 mm.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 16, sex fleiri en í meðalári. Alveg þurrir dagar voru aðeins 5 í Reykjavík, þeir voru jafnfáir árið 1982 en aðeins þrír árið 1955. Á Akureyri mældist úrkoman 1,0 mm eða meiri 17 daga mánaðarins, 10 fleiri en í meðalári og hafa aldrei verið fleiri frá upphafi mælinga.

Ný júlíúrkomumet voru sett á Grímsstöðum (116 mm), Litlu Ávík (159 mm) og Hænuvík (106 mm).

Sólarlítið var í Reykavík í júlí. Sólskinsstundirnar mældust 89,9, sem er 81 stund undir meðallagi áranna 1961 til 1990. Ekki hefur verið eins sólarlítið í júlímánuði í Reykjavík síðan árið 1989. Á Akureyri mældust 122,5 sólskinsstundir, 36 færri en í meðalári.

Heimild og texti: Vedur.is

Úrslit í Norðurlandsmótaröðinni í golfi í Ólafsfirði

Norðurlandsmótaröðin í golfi fór fram á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði þriðjudaginn 31. júlí síðastliðinn. Alls tóku 68 þátttakendur þátt og gekk mótið vel.  Þessi mótaröð er hugsuð sem fyrstu skref og stuðningur við keppnisþátttöku væntanlegra framtíðarkylfinga. Hér á að vera gaman og aðaláherslan lögð á að læra leikinn og mismunandi leikform hans. Þjálfarar og foreldrar eru hvattir til þess að taka virkan þátt í að gera þessi mót sem skemmtilegust fyrir þátttakendur. Fyrsta mótið í sumar var haldið á Sauðárkróki 17. júní og mót númer tvö var haldið á Dalvík 15. júlí, og loks í Ólafsfirði 31. júlí. Lokamótið verður haldið á Akureyri 2. september. Myndir með fréttinni koma frá Golfklúbbi Fjallabyggðar.

Eftirfarandi golfklúbbar eru aðilar að mótaröðinni:

Golfklúbbur Akureyrar
Golfklúbbur Dalvíkur
Golfklúbbur Fjallabyggðar
Golfklúbbur Sauðárkróks

Úrslit:

Piltar 18-21 ára
1. Arnór Snær guðmundsson GHD 73 högg
2. Þorgeir Örn Sigurbjörnsson GFB 79 högg

Drengir 15-17 ára
1. Lárus Ingi Antonsson GA 70 högg
2. Hákon Ingi Rafnsson GSS 81 högg
3. Gunnar Aðalgeir Arason GA 83 högg

Stúlkur 15-17 ára
1. Marianna Ulriksen GA 81 högg
2. Hildur Heba Einarsdóttir GSS 86 högg
3. Sara Sigurbjörnsdóttir GFB 94 högg

Drengir 14 ára og yngri
1. Einar Ingi Óskarsson GFB 84 högg
2. Bogi Sigurbjörnsson GSS 97 högg (vann bráðabana)
3. Atli Hrannar Einarsson GA 97 högg

Stúlkur 14 ára og yngri
1. Anna Karen Hjartardóttir GSS 87 högg
2. Guðrún María Aðalsteinsdóttir GA 107 högg
3. Kara Líf Antonsdóttir GA 116 högg

Drengir 12 ára og yngri
1. Snævar Bjarki Davíðsson GHD 44 högg (vann bráðabana)
2. Skúli Gunnar Ágústsson GA 44 högg
3. Veigar Heiðarsson GHD 46 högg
4. Árni Stefán Friðriksson GHD 46 högg

Stúlkur 12 ára og yngri
1. Birna Rut Snorradóttir GA 53 högg
2. Auður Bergrún Snorradóttir GA 53 högg
3. Rebekka Helena b. Róbertsdóttir GSS 56 högg

Byrjendaflokkur eftir stafrófsröð:
Arna Margrét r. Jónsdóttir GFB 69 högg
Ásdís Ýr Kristinsdóttir GFB, 83 högg
Askur Bragi Heiðarsson GA, 72 högg
Berglind Eva Ágústsdóttir GA, 66 högg
Bergrós Níelsdóttir GA, 71 högg
Bríet Brá Gunnlaugsdóttir GFB, 71 högg
Dagbjört Sísí Einarsdóttir GSS, 60 högg
Elena Soffía Ómarsdóttir GA, 60 högg
Elis Beck Kristófersson GFB, 90 högg
Fjóla María Gunnlaugsdóttir GFB, 90 högg
Hákon Bragi Heiðarsson GHD, 52 högg
Hallur Atli Helgason -, 60 högg
Haukur Rúnarsson GFB, 64 högg
Helena Reykjalín Jónsdóttir GFB, 54 högg
Hinrik Aron Magnússon GA, 54 högg
Ívar Torfi Rögnvaldsson GA, 64 högg
Jón Arnór Magnússon GA, 55 högg
Karen Helga Rúnarsdóttir GFB, 67 högg
Kjartan Orri Johnsson GFB, 52 högg
Kolfinna Ósk Andradóttir GFB, 57 högg
Linda Rós Jónsdóttir GA, 78 högg
Mikael Máni Jensson GA, 65 högg
Ólöf Elísabet Friðriksdóttir GFB, 70 högg
Ragnhildur Vala Johnsdóttir GFB, 74 högg
Sigurlaug Sturludóttir GFB, 73 högg
Silja Rún Þorvaldsdóttir GFB, 61 högg
Svava Rós Kristófersdóttir GFB, 66 högg
Sveinbjörg Lilja Ingólfsdóttir GA, 52 högg
Unnar Marinó Friðriksson GHD, 45 högg
Viktor Skuggi Heiðarsson GA, 53 högg

 

Stöðvaður á Ólafsfjarðarvegi á 126 km hraða

Nú er ein mesta ferðahelgi ársins hafin og þá gildir að hafa tímann fyrir sér, fylgja umferðarreglum og sýna þolinmæði í umferðinni. Ekki hefur hann alveg verið búinn að tileinka sér þetta leiðarljós, ungi ferðamaðurinn sem ók hringveginn í Hörgárdal nú eftir hádegið. Hann mætti lögreglubíl og var mældur með radar og reyndist vera á 133 kílómetra hraða. Lögreglan snéri við og hóf eftirför á eftir manninum með blá ljós. Ekki virtist hann veita því athygli en ók inn á Ólafsfjarðarveg, þar sem hann ók fram úr nokkrum bílum. Lögreglumönnunum í eftirförinni sóttist seint að draga manninn uppi vegna mikillar umferðar í báðar áttir og þess að hann virtist ekkert slá af. Þá bar svo við að önnur lögreglubifreið var einmitt við eftirlit á Ólafsfjarðarvegi á sama tíma og kom ferðamaðurinn hraðskreiði nú inn í radargeisla þeirrar bifreiðar á 126 kílómetra hraða. Loks tókst að stöðva för hans áður en slys hlaust af. Aðspurður um aksturslagið sagði ökumaðurinn að hann væri nýkominn til Íslands og hefði ekki að fullu verið búinn að kynna sér þær reglur sem gilda hér um leyfðan hámarkshraða. Hann er trúlega einhvers vísari eftir að hafa fengið leiðsögn lögreglu og greitt 172.500.- kr. í sekt á staðnum.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu.

Fimm Andarnefjur eru mættar á Fiskidaginn mikla á Dalvík

Það er afar sjaldgæft að Andarnefjur séu inní í höfninni á Dalvík og fróðir menn telja þetta jafnvel að þetta sé í fyrsta skipti. Þær voru tignarlegar að sjá í morgunblíðunni og ferðamenn tóku andköf og áttu ekki til orð. Þær sáust fyrst fyrir utan hafnarmynnið í gær fimmtudag en í dag hafa þær komið inn í höfnina nokkrum sinnum. Það er von okkar að þær dvelji hjá okkur í vikunni og steli síðan senunni á Fiskidaginn mikla eftir eina viku.

Andarnefja eða Hyperoodon ampullatus er allstór tannhvalur, álíka stór og hrefna en mjög ólík henni. Hún er með mjótt trýni og hátt og kúpt enni. Trýnið minnir á andarnef og af því fær hún nafn sitt. Höfuðið er nokkuð aðgreint frá bolnum. Augun eru rétt aftan við munnvikin.

Tarfarnir eru um átta til níu metrar á lengd og um 3600 kg að þyngd. Kýrnar eru um sjö metrar á lengd og vega um þrjú tonn.

Gistinóttum fjölgaði á Norðurlandi í júní

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 5% í júní á Norðurlandi, miðað við júní 2017. Alls voru 38.154 gistinætur á Norðurlandi í júní 2018.  Þetta kemur fram í gögnum frá Hagstofu Íslands.
Um 54% allra gistinátta á Íslandi í júní voru á höfuðborgarsvæðinu eða 221.300.

Um 90% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn eða 369.100. Bandaríkjamenn voru með flestar gistinætur (131.200), síðan Þjóðverjar (43.900) og Bretar (31.300), en gistinætur Íslendinga voru 41.600.

Verslunarmannahelgin á Kaffi Rauðku og tilboð á Sigló hótel

Það verður kvölddagskrá um verslunarmannahelgina hjá Kaffi Rauðku á Siglufirði frá fimmtudegi til sunnudags. Tilboð verður á gistingu á Sigló hótel, en nánar má lesa um það neðar í fréttinni.

Dagskrá:

  • Fimmtudagur: Lög unga fólksins 1960-1970
  • Föstudagur: Hjálmar
  • Laugardagur: Landabandið
  • Sunnudagur: DJ Birgitta

Kristbjörg Edda framkvæmdarstjóri Sigló hótel segir í samtali við vefinn að þau geri líka ráð fyrir að það verði mikið sótt á golfvöllinn Sigló golf um helgina en þar verður líka mót um helgina.

Rauðka vonast til að sjá sem flesta gesti koma á viðburðina og einnig verður frábært tilboð á Hótel Sigló þ.e. 30% afsláttur af gistingu með morgunmat, gildir dagana 1. – 6. ágúst.

Image may contain: text

Páll Óskar í fyrsta skiptið í Hofi

Páll Óskar heldur dansleik í Hofi á Akureyri, sunnudaginn 5. ágúst. Er þetta í fyrsta sinn sem hann heldur tónleika í húsinu.  Hvergi verður slegið af í glamúr og glæsileika til að gera þetta fyrsta Pallaball í Hofi að stórkostlegri upplifun. Miðaverð er frá 3500 kr. og er 22 ára aldurstakmark. Tónleikarnir hefjast á miðnætti.

Palli keyrir ballið pásulaust alla nóttina og þeytir bestu partítónlist veraldar auk þess sem hann syngur öll sín bestu lög, þar á meðal Stanslaust Stuð, Einn dans, La Dolce Vita, Allt fyrir ástina, International, Betra Líf, Ég er eins og ég er, Þú komst við hjartað í mér og Gordjöss.

Ballgestir geta kosið að vera á dúndrandi dansgólfinu, en einnig verður boðið upp á mun rólegra rými með borðum og stólum fyrir þá sem þurfa að fara á trúnó.

Rýmið sem notað verður fyrir ballið leyfir aðeins ákveðinn fjölda fólks, svo það borgar sig að versla miðana í forsölu.
Miði á Pallaball er gulltrygging fyrir góðri skemmtun, enda besti skemmtikraftur Íslands.

Mætið í glamúr-dressinu og reddið pössun.

www.palloskar.is

Nýr frisbígolfvöllur á Sauðárkróki

Nýr og glæsilegur frisbígolfvöllur er kominn í Sauðárgilið á Sauðárkróki, nánar tiltekið í og við Litla skóg. Þetta kemur fram á skagafjordur.is.

Folf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf. Í stað golfkylfa og golfbolta nota leikmenn frisbídiska þar sem markmiðið er að klára hverja braut á sem fæstum köstum. Á vellinum er að finna teiga, brautir og flatir þar sem markmiðið er að koma diskunum í þar til gerðar körfur sem gegna hlutverki hola.

Folf er skemmtileg íþrótt og tilvalin fyrir alla fjölskylduna.

Golfskálinn á Siglufirði á eftir áætlun

Enn er unnið af kappi að koma upp nýjum golfskála fyrir Sigló golf á Siglufirði, en það er nafnið á nýja vellinum. Í upphafi var áætlað að skálinn yrði tilbúinn um miðjan júlí, en ljóst er að nokkur seinkun er á verkinu. Gert er ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun núna í ágústmánuði, en tíminn verður að leiða það í ljós hvort það standist. Veður hefur hefur sett strik í reikninginn samkvæmt Sigló Hótel þegar spurt var um ástæðu seinkunar.

Byggingafélagið Berg hefur unnið af krafti við að koma upp húsinu í sumar. Myndir með fréttinni koma frá Byggingafélaginu Berg.

 

Myndir: Byggingafélagið Berg.

10700 heimsóttu Síldarminjasafnið í júlí sem er met

Alls heimsóttu um 10.700 manns Síldarminjasafnið á Siglufirði í júlímánuði en fyrir 10 árum voru gestir 7600 á ársgrundvelli. Þetta er met í fjölda heimsókna í einum mánuði hjá safninu, en fjöldi skemmtiferðaskipa, Norræn Strandmenningarhátíð og Þjóðlagahátíð hjálpuðu til með þennan fjölda gesta. Alls voru 19 skemmtiferðaskipakomur í júlí á Siglufirði, og er Síldarminjasafnið einn hápunktur heimsóknarinnar til Siglufjarðar.

Heildarfjöldi gesta fyrstu sjö mánuði ársins er 18.500, þar af um 80% erlendir gestir. Síldarsaltanir hafa verið í alls 49 skipti á planinu við Róaldsbrakka og 200 hópar hafa fengið leiðsögn um safnið það sem af er ári.

Síldarminjasafnið greinir frá þessu á vef sínum.

22 sóttu um starf sveitarstjóra Eyjarfjarðarsveitar

Alls bárust 22 umsóknir um stöðu sveitarstjóra Eyjafjarðarsveitar, en umsóknarfrestur um starfið var til 29. júlí.   Lista yfir umsækjendur má sjá hér að neðan.

Anna Bryndís Sigurðardóttir Akureyri
Arnar Kristinsson                Akureyri
Bjarki Ármann Oddsson       Fjarðarbyggð
Björg Erlendsdóttir              Grindavík
Finnur Yngvi Kristinsson       Fjallabyggð
Friðjón Már Guðjónsson       Hafnarfirði
Guðbjartur Ellert Jónsson     Húsavík
Guðbrandur Stefánsson       Reykjanesbæ
Gunnar Axel Axelsson         Hafnarfirði
Hjörleifur Hallgríms Herbertsson Akureyri
Hlynur M. Jónsson              Akureyri
Ingunn Ósk Svavarsdóttir   Akureyri
Jóhannes Valgeirsson         Akureyri
Magnús Már Þorvaldsson    Vopnafirði
Ragnar Jónsson                 Reykjavík
Sigurður Jónsson               Selfossi
Skúli Gautason                  Hólmavík
Snæbjörn Sigurðarson       Húsavík
Sveinbjörn F. Arnaldsson    Kópavogi
Sævar Freyr Sigurðsson     Akureyri
Valdimar Leó Friðriksson    Mosfellsbæ
Þór Hauksson Reykdal       Eyjafjarðarsveit

Ástralskur trúbador með tónleika í Siglufjarðarkirkju

Laugardagskvöldið 4. ágúst klukkan 20:00 í Siglufjarðarkirkju mun hinn víðförli ástralski trúbador Ben Salter flytja söngdagskrá með eigin lögum og textum. Tónleikarnir eru hluti af alþjóðlegu tónleikaferðalagi Salters víða um lönd, þ.á.m. Japan, Bretland, Frakkland, Danmörk og Ísland – en tónleikaferðalagið ber yfirskriftina „2018 International Madness Tour“. Salter hefur getið sér gott orð í heimalandi sínu fyrir kraftmikla og perónulegu tónlistarnálgun, hefur honum oft verið lýst sem einum af vönduðustu lagasmiðum Ástralíu.
Tónleikarnir eru haldnir í samstarfi við Þjóðlagasetrið, miðaverð er 1.000.- og eru allir velkomnir.

Ásthildur ráðin bæjarstjóri Akureyrarbæjar

Ákveðið hefur verið að ganga til samninga við Ásthildi Sturludóttur um að taka að sér starf bæjarstjóra á Akureyri. Hún tekur við af Eiríki Birni Björgvinssyni var bæjarstjóri síðustu átta ár.  Alls sóttu 18 um starf bæjarstjóra en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Eftir úrvinnslu umsókna og viðtöl ákvað meirihluti bæjarstjórnar að ganga til samninga við Ásthildi.  Gert er ráð fyrir að Ásthildur komi til starfa um miðjan september.

Ásthildur starfaði sem bæjarstjóri í Vesturbyggð frá árinu 2010. Hún er uppalin í Stykkishólmi og er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu (Master of Public Administration) í opinberri stjórnsýslu frá PACE University í New York. Ásthildur starfaði áður sem verkefnisstjóri á rektorsskrifstofu og markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Hún var einnig verkefnisstjóri við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og atvinnuráðgjafi hjá SSV-þróun og ráðgjöf.

Ãsthildur Sturludóttir.
Texti og mynd: akureyri.is

Lifandi tónlist um Verslunarmannahelgina á Torginu á Siglufirði

Það verður nóg um að vera á veitingastaðnum Torginu á Siglufirði yfir Verslunarmannahelgina, þar sem sambland verður af góðum mat og lifandi tónlist alla helgina.

 

Föstudagskvöldið

  1. ágúst verður í dúettinn 1 plús einn, en það eru þeir félagar Guðmann Sveinsson og Einar Valur Sigurjónsson sem halda uppi stuðinu frá kl 23:30.

 

Laugardagskvöldið

  1. ágúst mætir tríóið FER á Torgið kl 23:00 og spilar fram eftir nóttu. Í hljómsveitinni FER eru Siglfirðingarnir Fannar Þór Sveinsson Eva Karlotta og Ragna Dís Einarsdætur

 

Sunnudagur:

Torgið opnar klukkan 12:00 og býður upp á fjölbreyttan matseðil fyrir fjölskylduna.

 

Matseðill og nánari upplýsingar um viðburði er hægt að nálgast á facebook síðu Torgsins hér.

https://www.facebook.com/Torgi%C3%B0-restaurant-116966741722084/

Texti og myndir: Aðsend fréttatilkynning

Verslunarmannahelgin á Akureyri 2018

Verslunarmannahelgin á Akureyri 2018.  Ein með Öllu & íslensku sumarleikarnir dagana 2.-6. ágúst 2018.

Dagskrá:

 

Fimmtudagshamingja á Glerártorgi.

Blaðrarar mæta á svæðið,Hoppukastalarar og Leikjaland,Leikhópurinn Lotta, Jóhann Guðrún, Gringló,Sirkus Íslands og margt fleira.

Hátíðartónleikar Föstudagskvöld og Laugardagskvöld á Ráðhustorgi
Fram koma meðal annars: Sigyn Blöndal (kynnir)

– Gringló – Dúndurfréttir – KÁ-AKÁ – Marina og Mikael – Hamrabandið – Birkir Blær – Bibi and the bluebirds – Stefán Elí – Omotrack – Gréta Salome – Birnir og Flóni DJ Snorri Ástráðs – Egill Spegill – Club Dub – Kristín Tómas –
Og fl.

Krakka dagskrá í miðbænum Laugardag.
Sigyn Blöndal (Stundin okkar)– Gutti, Selma og ævintýrabókin – ZumbaKids – Sirkus Íslands – KÁ-AKÁ – Dagur Guðna


Sunnudagsmarkaður í miðbænum

Markaðsstemmning á Ráðhústorgi allan sunnudaginn trúbador á flötinni.

Sparitónleikar á Leikhúsflötinni

Sunnudagskvöldið verður stórglæsilegt skreytt frábærum tónlistaratriðum
Flugeldasýningu, smábátum og almennri hamingju.

Fram koma

Páll Óskar –  Hera Björk  – KA-AKÁ  – Dagur Sigurðsson – Volta  – Úlfur Úlfur – Emmsjé Gauti & fl.

 

Íslensku Sumarleikarnir

Kirkjutröppuhlaup – Þríþrautakeppni Þríþrautafélags Norðurlands og UMF Samherja – Strandhandboltamót KA – Bogfimi og margt fleira sem hægt er að taka þátt í

 

Skógardagur í Kjarnaskógi á sunnudag

Bogfimi – Ratleikur  – Tálg fyrir ungu kynslóðina – Eldpopp – Eldkaffi

Aðrir glæsilegir viðburðir

Aqua Zumba, 2 tívoli! Breska og íslenska Tívolíið – Sirkus Íslands -Vatnaboltar – Hæfileikakeppni unga fólksins – Hópkeyrsla Tíunnar – Mömmur og Muffins, Óskalagatónleikar í AK kirkju,og svo ótalmargt í viðbót og að sjálfsögðu skreyta bæjarbúar híbýli sín með Rauðu.

Ekki missa af neinu um verslunarmannahelgina á Akureyri, sjáðu alla dagskrána á einmedollu.is

 

#versloAK

Myndir: einmedollu.is
Myndir: einmedollu.is
Myndir: einmedollu.is
Myndir: einmedollu.is

 

28 kylfingar á Opna Kristbjargarmótinu

Opna Kristbjargarmótið var haldið um síðastliðna helgi hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Alls mættu 28 keppendur til leiks á þetta árlega mót klúbbsins.
Leikið var punktakeppni með forgjöf. Veitt voru verðlaun fyrir lengsta teighögg og næst holu. Að loknu móti var boðið upp á kaffihlaðborð í golfskálanum.  Golfklúbbur Fjallabyggðar fyrst greindi frá þessu á facebooksíðu sinni.

Úrslit 
Í karlaflokki
1.sæti Jóhann J. Jóhannsson GFB 29 punktar
2.sæti Ármann Viðar Sigurðsson GFB 29 punktar
3.sæti Björn Kjartansson GFB 27 punktar

Í kvennaflokki
1.sæti Sara Sigurbjörnsdóttir GFB 38 punktar
2.sæti Brynja Sigurðardóttir GFB 34 punktar
3.sæti Marsibil Sigurðardóttir GHD 33 punktar

Einnig voru veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg á 6/15 braut og næst holu á 8/17 í karla og konu flokki.
Voru það Ármann Viðar og Brynja Sigurðardóttir sem voru högglengst.
Næst holu í karlaflokki var Sigurður Freyr frá GÁS 4,41 m.
Í kvennaflokki var Auður Elísabet frá GR 3,7 m.

Image may contain: 3 people, people standing
Myndir: Golfklúbbur Fjallabyggðar, GFB

Image may contain: 3 people, people smiling, people standing

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu á Akureyri

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina. Frá 2.-5 ágúst verður boðið upp á þéttskipaða dagskrá. Sparitónleikar verða á Leikhúsflötinni á sunnudagskvöld og þar koma fram Páll Óskar, Hera Björk, Emmsjé Gauti, Volta, Úlfur Úlfur, KA-AKÁ, Dagur Sigurðsson o.fl. Sparitónleikunum lýkur með flugeldasýningu.

Sérstök krakkadagskrá verður í miðbænum á laugardag, hátíðartónleikar með ýmsum flytjendum á Ráðhústorgi á föstudags- og laugardagskvöld, markaðsstemning á Ráðhústorgi allan sunnudaginn, Kirkjutröppuhlaupið verður á sínum stað sem og Óskalagatónleikar í Akureyrarkirkju. Þetta er aðeins brot af því sem verður á boðstólum.

Öll dagskráin er birt á heimasíðunni www.einmedollu.is.

Texti: Akureyri.is

Um 1500 gestir á Trilludögum

Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í þriðja sinn um nýliðna helgi. Talið er að um 1500 manns hafi lagt leið sína niður á höfn þar sem helsta dagskrá hátíðarinnar fór fram.  Þóttu þeir takast einstaklega vel og var góð stemning á bryggjunni allan daginn.  Fjallabyggð greinir frá þessu á vef sínum.

Átta eldhressir trillukarlar sá um siglingarnar en gestum hátíðarinnar var boðið að sigla út á fjörðinn þar sem rennt var fyrir fisk. Þegar í land kom var fólki boðið að grilla aflann og stóðu vaskir Kiwanismenn vaktina við flökun og á grillinu. Heitt grænmeti var borið fram með fisknum í boði Kjörbúðarinnar á Siglufirði. Gafst þetta mjög vel og var þátttaka framar öllum vonum en um 500 manns fóru í siglingu og um 800 manns borðuðu nýveiddan fisk. Milli klukkan 16:00 og 18:00 var svo öllum boðið til grillveislu þar sem grillaðar voru pylsur í boði Kjörbúðarinnar.

Myndir koma af vef Fjallabyggðar og eru teknar af Vilmundi Ægi Eðvarðssyni.

Mynd: Vilmundur Ægir Eðvarðsson

Mynd: Vilmundur Ægir Eðvarðsson

Óvenju mikið um nýjar eignir á sölu á Siglufirði

Í síðustu viku komu 7 nýjar eignir á söluskrá á Siglufirði sé miðað við fasteignavef mbl.is. Það er óvenjulega mikil hreyfing á fasteignamarkaði á Siglufirði, en algeng tala um nýjar eignir í sölu í hverjum mánuði er líklega um 3-4 eignir. Það virðist engu að síður ganga mis vel að selja eignir, en stærri eignir og atvinnuhúsnæði virðast seljast hægar. Enn eru tvær íbúðir til sölu í Gagganum samkvæmt heimasíðu Gaggans, og fasteignavef mbl.is. Í síðustu viku komu fjögur einbýlishús á söluskrá, auk skrifstofuhúsnæðis við Aðalgötu 32, sem eru mjög spennandi staðsetning, auk eigna í fjölbýlishúsum.

Þeir sem eru að leita sér að atvinnuhúsnæði á Siglufirði og sjá tækifæri geta valið úr nokkrum eignum.

Alls eru núna 28 eignir á söluskrá á Siglufirði, þar af 7 atvinnuhúsnæði.

 

Einbýli á Hávegi – endalóð.
Einbýli á tveimur hæðum við Lindargötu.
Lítíð einbýli við Þormóðsgötu
Skrifstofu- og íbúðarhúsnæði við Aðalgötu á 2. hæð.

 

Dalvík sigraði Ægi

Dalvík/Reynir gerði góða ferð í Þorlákshöfn um helgina þegar liðið mætti Ægismönnum í 12. umferð 3. deildar karla í knattspyrnu.  Fyrsta og eina mark leiksins kom strax á 12. mínútu og var það Jóhann Sigurjónsson sem gerði það, hans 5 mark í 12 deildarleikjum í sumar. Staðan var því 0-1 í hálfleik fyrir Dalvík/Reyni, en á 57. mínútu síðari hálfleiks fær varnarmaður Ægis gult spjald, og tveimur mínútum síðar aftur gult og þar með rautt spjald. Ægismenn léku því manni færri síðasta hálftímann. Gunnar Már Magnússon lék síðustu 10 mínúturnar fyrir Dalvík, sem nýtti 4 skiptingar í síðari hálfleik. Lokatölur 0-1 fyrir Dalvík/Reyni, níundi sigur liðsins í deildinni í sumar.

Dalvík/Reynir hefur nú 5 stiga forskot á KH þegar sex leikir eru eftir af Íslandsmótinu. Næsti leikur Dalvíkur/Reynis er gegn KV á Dalvíkurvelli, 9. ágúst kl. 19:00.

Ríkisstjórnin styrkir skákfélagið Hrókinn

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita skákfélaginu Hróknum þriggja milljóna kr. styrk af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar í tilefni af 20 ára afmæli félagsins árið 2018 og verkefnum sem tengjast þeim tímamótum.

Skákfélagið Hrókurinn var stofnað 12. september 1998 og hefur starfsemi félagsins miðað að því að hvetja til skákiðkunar. Félagið hefur heimsótt nær öll sveitarfélög á landinu á starfstíma sínum og efnt til fjölda skákviðburða á mennta- og heilbrigðisstofnunum, dvalarheimilum aldraðra, í fangelsum og á fleiri stöðum. Meðal annars hafa fulltrúar Hróksins heimsótt Barnaspítala Hringsins vikulega undanfarin 15 ár. Þá hefur félagið haldið úti öflugu starfi í þágu fólks með geðraskanir. Sérstök áhersla hefur verið lögð á það í starfi Hróksins að öll íslensk börn fái að kynnast heimi skáklistarinnar og hefur Hrókurinn m.a. unnið að verkefnum með Rauða krossinum, Fatimusjóði, UNICEF, SOS-barnaþorpum, Hjálparstarfi kirkjunnar og Barnaheillum. Þá hefur félagið frá árinu 2003 unnið að útbreiðslu skáklistarinnar á Grænlandi og að auknum samskiptum þjóðanna á sem flestum sviðum samfélagsins. Í því samstarfi hefur skákfélagið komið að margvíslegum samfélagslegum verkefnum á Grænlandi.

Ríkisstjórnin styrkir Kvennafrí 2018 um 5 milljónir

Þann 24. október 1975 lögðu þúsundir kvenna um land allt niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna undir yfirskriftinni kvennafrí og síðan hafa konur fjórum sinnum til viðbótar gengið út af vinnustað sínum til að mótmæla misrétti og misjöfnum kjörum kynjanna á íslenskum vinnumarkaði.

Fulltrúar 34 samtaka kvenna og fimm heildarsamtaka launafólks munu sameiginlega efna til viðburðarins Kvennafrí 2018 þann 24. október nk., undir formerkjum #metoo / #églíka til að styðja við þær konur sem hafa stigið fram og sagt sögur sínar. Með því vilja konur láta heyra í sér á nýjan leik og kalla eftir aðgerðum stjórnvalda, atvinnurekenda, stéttarfélaga, félagasamtaka og stofnana og breytingum innan samfélagsins í heild.

Undirbúningsnefnd sem skipuð hefur verið um viðburðinn leitaði til ríkisstjórnarinnar með beiðni um styrk vegna undirbúnings og framkvæmd samstöðufunda og  hefur ríkisstjórnin samþykkt að veita fimm milljónir kr. af ráðstöfunarfé sínu til verkefnisins.

Heimild: stjornarrad.is

Strandhandboltamót á Akureyri um verslunarmannahelgina

Handknattleiksdeild KA í samvinnu við Icelandic Summer Games brydda upp á mjög skemmtilegri nýjung þetta sumarið en það er strandhandboltamót. Mótið verður spilað á strandblaksvöllunum í Kjarnaskógi á Akureyri, sunnudaginn 5. ágúst og verður leikið í blönduðum flokki, það er að segja strákar og stelpur munu spila saman.

Strandhandbolti hefur notið gríðarlegra vinsælda fyrir sunnan undanfarin ár og er frábært að loksins sé hægt að prófa sig í þessari framandi grein.

Hvert lið mun leika að minnsta kosti 4 leiki en fjórir leikmenn eru inná í hverju liði og leikur markmaður með í sókninni.

Krakkaflokkur (2003-2009 módel) mun keppa frá klukkan 13:00 til 15:30. Þátttökugjaldið er 2.000 krónur á hvern þátttakanda og er pizzaveisla að mótinu loknu.

Fullorðinsflokkur (2002 módel og eldri) mun keppa frá klukkan 15:30 til 19:00. Þátttökugjaldið er 18.000 krónur á lið og er hámark 5 í hverju liði. Innifalið í gjaldinu eru grillaðir hamborgarar og ískaldir drykkir.

Skráning fer fram hjá siguroli@ka.is og er um að gera að skrá sig sem allra fyrst en fjöldatakmörkun er á mótinu.

Strandhandboltamót um versló!

Tvö tilboð bárust í malbikun hjólreiðastígs milli Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar

Tvö tilboð bárust í malbikun hjólreiðastíga- og göngustígs milli Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar að Hrafnagilshverfi, en Eyjafjarðarsveit auglýsti eftir tilboðum í verkið nú í sumar.  Verkið felur í sér malbikun á 2,5 m. breiðum hjólreiða- og göngustíg. Lengd stígsins er um 7.200 m. Bæði tilboðin voru undir kostnaðaráætlun.

Tilboðsgjafar voru Hlaðbær Colas hf. með kr. 66.234.000 og Malbikun Akureyrar hf. með kr. 59.155.000.   Kostnaðaráætlun í verkið var kr. 73.255.000.

Verklok skulu vera eigi síðar en 21. september 2018.

Dramatískur sigur á Sauðárkróksvelli

Tindastóll og Afturelding mættust í dag á Sauðárkróki í 2. deild karla í knattspyrnu. Leikurinn var í 13. umferð Íslandsmótsins, en Afturelding var í 2. sæti deildarinnar og Tindastóll næstneðsta sæti. Búist var við erfiðum leik fyrir Stólana en Afturelding hafði aðeins tapað einum leik í deildinni fyrir þennan leik. Það voru gestirnir sem tóku forystu í leiknum á 20. mínútu, en markið var sjálfsmark Sigurðar Friðrikssonar leikmanns Tindastóls. Arnar Ólafsson kemur Stólunum í 1-1 rétt fyrir hálfleik. Á upphafsmínútum síðari hálfleiks og þá skorar Afturelding líka sjálfsmark sem var skráð á Fannar Kolbeinsson. Staðan 2-1 og nóg eftir. Á 89. mínútu skora gestirnir aftur, og staðan 2-2 þegar nokkrar mínútur voru eftir en þá kemur mjög dramatískur kafli í leiknum, þar sem tveir leikmenn Tindastóls og þjálfari Aftureldingar eru reknir af velli með rautt spjald.  Á 93. mínútu þá skora Tindastólsmenn sigurmark leiksins og náðu strákarnir sér í þrjú dýrmæt stig í botnbaráttunni. Lokatölur 3-2 fyrir Stólana sem eru komnir með 10 stig og aðeins einu stigi frá næstu liðum fyrir ofan.

Bæjar- og menningarvefur