Stærðfræðikeppni FNV, MTR og 9. bekkjar 2018

Föstudaginn 13. apríl fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í 21 ár. Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, MTR, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Keppnin fór fram í Bóknámshúsi FNV á Sauðárkróki.  Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í mars og tóku nemendur frá Norðurlandi vestra, Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 14 nemendur í úrslitakeppnina. Af þeim var einn frá Árskóla, tveir frá Varmahlíðarskóla, einn frá Grunnskólanum austan Vatna, einn frá Húnavallaskóla, tveir frá Höfðaskóla, tveir frá Blönduskóla, fjórir frá Grunnskóla Húnaþings vestra og einn frá Dalvíkurskóla.

Úrslit voru eftirfarandi:

 • 1. sæti: Freyja Lubina Friðriksdóttir, Grunnskóla Húnaþings vestra
 • 2. sæti: Ólafur Halldórsson, Höfðaskóla
 • 3. sæti: Saulius Saliamonas Kaubrys, Húnavallaskóla.

Verðlaunin voru vegleg að vanda eins og sjá má á eftirfarandi upptalningu.

1. Verðlaun 
Casio FX 9750G II reiknivél frá Heimilistækjum
Canon G9X MarkII myndavél frá Origo
Kr. 15.000 frá styrktaraðilum.
Síðasta setning Fermats
Matar- og ostakarfa frá Kaupfélagi Skagfirðinga
Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum

2. Verðlaun
Casio FX 9750G II reiknivél frá Heimilistækjum ehf
Kr. 12.000 frá styrktaraðilum.
Síðasta setning Fermats
Matar- og ostakarfa frá Kaupfélagi Skagfirðinga
Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum

3. Verðlaun
Casio FX 9750G II reiknivél frá Heimilistækjum ehf
Kr. 10.000 frá styrktaraðilum.
Síðasta setning Fermats
Matar- og ostakarfa frá Kaupfélagi Skagfirðinga
Verðlaunagripur frá KLM verðlaunagripum

4-14. sæti: 
Casio fx-350ES PLUS reiknivél frá styrktaraðilum
Síðasta setning Fermats og kr. 7.000 frá styrktaraðilum

Auk ofangreindra styrktaraðila styrktu eftirtaldir keppnina með fjárframlögum:
Arionbanki
Blönduósbær
Dalvíkurbyggð
Fisk Seafood
Fjallabyggð
Húnaþing vestra
Kaupfélag Skagfirðinga
Landsbankinn Skr.
Rammi á Siglufirði
Sjóvá-Almennar
Steinull hf
Sveitarfélagið Skagafjörður
Sveitarfélagið Skagaströnd
Tengill ehf
Verkfræðistofan Stoð
VÍS.

Frá vinstri: Saulinus Salimonas Kaubrys, Húnavallaskóla, Ólafur Halldórsson, Höfðaskóla, Freyja Lubina Friðriksdóttir, Grunnskóla Húnaþings vestra.

Íbúakosningar í Fjallabyggð í dag

Íbúakosningar um Fræðslustefnu Fjallabyggðar eru í dag, laugardaginn 14. apríl. Alls eru 1596 á kjörskrá, á Siglufirði eru 955 á kjörskrá og í Ólafsfirði 641.  Áætlaður kostnaður vegna Fjallabyggðar vegna kosninganna eru um 2.000.000 króna.  Íbúakosningin verður staðarkosning í tveimur kjördeildum, Ráðhúsi Fjallabyggðar 2. hæð og Menntaskólanum á Tröllaskaga.  Hægt er að kjósa á milli kl. 10:00-20:00. Utanatkvæðagreiðslu lauk í gær.  Atkvæði verða talin að loknum kjörfundi. Þegar kjörstjórn hefur lokið talningu verður niðurstaða íbúakosningar birt á heimasíðu Fjallabyggðar.

Spurt verður:
Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Valkostir:

 • Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.
 • Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný.

Verði ákveðið að fella úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar verður horfið aftur til fyrri fræðslustefnu og fyrra kennslufyrirkomulags. Með því eru forsendur fyrir samþættu skóla- og frístundastarfi á yngsta skólastigi brostnar og Frístund mun leggjast af. Að sama skapi verður samstarfi grunnskólans við Tónlistarskólann á Tröllaskaga, Menntaskólann á Tröllaskaga og íþróttafélög í Fjallabyggð í þeirri mynd sem verið hefur á núverandi skólaári sjálfhætt.

Vetrarleikar í Ólafsfirði um helgina

Árlegir Vetrarleikar Ungmenna- og Íþróttasambands Fjallabyggðar verða haldnir um helgina, 14. og 15. apríl í Ólafsfirði.  Sem fyrr munu íþrótta- og ungmennafélögin í Fjallabyggð bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu og viðburði þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Vetrarleikar voru haldnir á Siglufirði um síðustu helgi, en nú er komið að Ólafsfirði.

Laugardagur 14. apríl:

Kl. 11.00 – 12.00     Þrautabrautir Umf Glóa, fyrir börn fædd 2007 – 2014
Kl. 12.00 – 13.00     Sýningarmót KFÓ í réttstöðulyftu Í ræktinni
Kl. 13.00 – 14.00     Þjálfarar KFÓ veita leiðsögn í kraftlyftingum
Kl. 10.00 – 14.00     Frítt í sund í Ólafsfirði í boði Fjallabyggðar.

Sunnudagur 15. apríl:

Kl. 10.00 – 11.30     Gnýfari tekur á móti gestum, teymt undir hjá þeim sem þurfa
Kaffi verður á könnunni í Tuggunni
Kl. 14.00 – 16.00     KF sér um fótbolta fyrir alla fjölskylduna. Eigum saman góða stund í íþróttahúsinu með boltann á tánum
Kl. 16.00 – 18.00     Blak fyrir alla í umsjón Blakfélags Fjallabyggðar.

Segir nei við auknum rútuakstri með skólabörn

Ég segi NEI við auknum rútuakstri með skólabörn – Kjósandi góður, ef þú kýst eftir þinni sannfæringu þá kýstu rétt.

Mig langar að deila reynslu minni af því að vera með börn í grunnskóla bæði fyrir og eftir daga skólaaksturs.  Sonur minn stundaði nám á Sigló í sínu nærumhverfi og þurfti aldrei að fara í rútu á milli staða. Hann naut í botn nálægðarinnar við skólann og tómstunda sem voru margvíslegar en nóg var í boði. Eftir grunnskóla stundaði hann nám við Menntaskólann á Akureyri og best ég veit átti hann ekki í félagslegum erfiðleikum þar nema síður sé.

Hitt barnið mitt fer samkennslu í þriðja bekk sem gekk mjög vel og aldrei heyrði ég á það minnst að samkennslan væri einhver þrándur í götu. Enda er nám í grunnskólanum hér einstaklingsmiðað fyrir alla nemendur og er því auðvelt að samkenna árgöngum. Í sama árgangi eru alls ekki allir að vinna í sama námsefni á sama tíma. Margir skólar nýta sér samkennslu sem tækifæri þó þess þurfi ekki  sérstaklega vegna fámennra árganga. Síðan koma rútuferðirnar hjá yngra barninu og þá byrjar martröðin, barnið var bílveikt nánast hvern einasta dag.  Bílveiki hjá mínu barni er ekki einsdæmi.  Að þurfa að senda barnið sitt í rútu vitandi af bullandi kvíða hjá því fyrir rútuferðinni, vitandi að það tekur barnið nokkra klukkutíma að jafna sig eftir hverja rútuferð, sjá það svo koma heim grátt og guggið af vanlíðan er eitthvað sem mig langar ekki að neitt barn gangi í gegnum.

Ég segi því NEI við auknum rútuakstri með skólabörn – Barnið mitt ferðaðist milli bæjarkjarna bílveikt í þrjú ár. Er það boðlegt?

Kosturinn við að búa  úti á landi er að maður hefur það sem maður þarf innan seilingar. Það eru forréttindi að geta gengið í skólann og til vinnu. Þannig þarf ekki að nota dýrmætan tíma í að ferðast á milli staða í bíl eða strætó. Það er mín skoðun að börnin eigi að vera í sínu nærumhverfi sem lengst, tengjast því og öðlast öryggi áður en það er farið að sendast með þau á milli staða. Því tel ég það skynsamlegt að yngstu bekkjunum sé kennt í sitthvorum bæjarkjarnanum.

Ég vil taka það skýrt fram að ég á ekki persónulegra hagsmuna að gæta þar sem mitt barn er að ljúka grunnskólagöngu sinni hér og er stefnan sett á Akureyri. Hinsvegar get ég auðveldlega sett mig í spor þeirra sem þurfa að bjóða sínum börnum upp á rútuakstur í fimm skólaár. Og þó sumir hafi lýst yfir þeirri skoðun sinni að þetta hafi ekkert með Siglufjörð eða Ólafsfjörð að gera þá er staðreyndin sú að það eru yngstu börnin frá Ólafsfirði sem lenda verst út úr þessum auknu rútuferðum. Börnin Siglufjarðarmegin geta stundað skóla hér á Sigló til 11 ára aldurs.

Hvernig sem kosningarnar á morgun fara þá vona ég að bæjaryfirvöld láti skynsemina ráða um að sameinast um málamiðlun til að leysa þetta mál þannig að sátt náist í samfélaginu og við getum öll farið að hlakka til sumarsins,  komandi sveitarstjórnarkosninga auk skólabyrjunar næsta haust.

Bestu kveðjur,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir

 

Kvenfélagið Æskan fær lóðarreit í Ólafsfirði fyrir minningarstein

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að úthluta lóðarreit á horni Aðalgötu og Strandgötu til Kvenfélagsins Æskunnar í Ólafsfirði. Lóðin stendur gegn Pálshúsi og Kaffi Klöru í Ólafsfirði.  Fyrirhugað er að setja upp minningarstein með áritaðri koparplötu í tilefni 100 ára afmælis kvenfélagsins á síðasta ári. Einnig er hugmynd að fegra umhverfið um minningarsteininn enn frekar með fallegum blómakerum og jafnvel bekk.

Vegna íbúakosningar um nýja Fræðslustefnu Fjallabyggðar

Kæri íbúi Fjallabyggðar, núna komandi laugardag 14. apríl verður íbúakosning um nýja Fræðslustefnu Fjallbyggðar.

Einn íbúi í Ólafsfirði sem jafnframt er á lista annars af þeim lista sem komnir eru fram til sveitastjórnarkosninga 2018 spurði mig af hverju ekkert hefði komið frá mér varðandi fræðslustefnuna núna aðdraganda þessarar íbúakosningar, hann sagði mér að hann hefði heyrt fólk tala um að það furðaði sig á því hvers vegna ekkert heyrðist frá mér, en ég verð að fá að segja það að þetta er eini aðilinn sem ég man eftir að hafi nefnt þetta við mig.

Svarið mitt er að það er vegna þess að ég tel það ekki vera mitt hlutverk að segja fólki hvað það á að merkja X við í kjörklefanum á laugardaginn.

Í stefnuskrá Framsóknarfélags Fjallabyggðar 2014 segir  „Að skoðað verði með hagsmuni barna í huga hvort samkennsla árganga sé skynsamleg.“

Í grein sem birtist í Bæjarblaðinu sem Framsóknarfélag Fjallabyggðar gaf út í aðdraganda kosninganna 2014 segir.

„Ef slíkar hugmyndir koma til tals á komandi kjörtímabili, þá er alveg ljóst að slíkt verður ekki gert án samráðs við foreldra og kennara.
Þetta er akkúrat það íbúalýðræði sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað, að ákvarðanir skulu teknar í samráði og samvinnu við íbúa.“

Ég hef barist og unnið í þessum málum samkvæmt minni sannfæringu byggða á því hvernig ég vil sjá fræðslustefnuna, skólaumhverfið og fjölskyldumhverfið byggt á. Einnig hef ég haft það sterklega að leiðarljósi að íbúalýðræði sé virt og unnið samkvæmt því og hlustað á raddir í samfélaginu.

Ég sé mörg góð tækifæri í nýju fræðslustefnunni, en einnig finnst mér vanta í hana ákveðin atriði og hefði viljað sjá hana fara aftur niður í nefnd til frekari vinnslu, ég hefði þá allavega að lágmarki fengið þá umsögn frá nefndinni að ég væri að feta einhverja leið sem ekki samræmdist fræðslustefnu sveitarfélags. Ég hefði viljað sjá fræðslustefnuna unna og afgreidda í góðri sátt við samfélagið okkar.

Ég hvet alla íbúa Fjallabyggðar til að mæta og greiða atkvæði varðandi þetta stóra og mikilvæga mál í samfélaginu okkar, kjósa samkvæmt eigin sannfæringu á því hvernig ykkur finnst þetta mál koma best út fyrir sveitarfélagið Fjallabyggð og íbúa þess, bæði unga sem aldna, þetta mál varðar okkur öll. Þessi kosning ætti að vera skýr skilaboð og stefnumótandi í vinnu fyrir þá aðila sem sýna áhuga á að fá umboð til að stýra bæjarfélaginu okkar í framtíðinni.

Með óskir um góða helgi og að við brosum hvert framan í annað og í sýnum hvert öðru vegsemd og virðingu.

Jón Valgeir Baldursson
Oddviti Framsóknarfélags Fjallabyggðar
Bæjarfulltrúi í minnihluta Fjallabyggðar

Nýr framboðslisti í Fjallabyggð í undirbúningi

Hópur fólks í Fjallabyggð er þessa dagana að undirbúa nýtt framboð til sveitastjórnarkosninga 2018. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

“Við erum að vinna framboðslistann þessa dagana. Þetta verður mjög breiður listi fólks úr flestum áttum.
Það hafa margir komið að máli við mig varðandi það hvenær við komum til með að setja fram lista. Ég var búinn að svara mörgum því að við myndum leggja hann fram til kynningar núna sunnudaginn 15. apríl. Að öllum líkindum munum við ekki ná því á sunnudaginn en við stefnum að því að birta listann sem allra fyrst.”

Jón Valgeir Baldursson.

 

Viðgerðir á skíðastökkpallinum í Ólafsfirði

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að styrkja Rótarýklúbb Ólafsfjarðar sem óskaði eftir fjárstuðningi vegna viðgerða á skíðastökkpallinum í Ólafsfirði.  Efniskostnaður var áætlaður um 172 þúsund krónur og kostnaður vegna vinnu áætlaður um nokkra tugi þúsunda króna. Fjallabyggð styrkir verkefnið um 200.000 kr.

Viðhald og umhirða skíðastökkpallsins er eitt af samfélagsverkefnum sem Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur sinnt síðustu áratugi. Í fyrrasumar var farið í að mála pallinn og á árinu 2016 var lagfærð skrautlýsing á pallinum. Á síðasta ári voru 50 ár frá því byggingin var reist.

 

Aðsend grein vegna Fræðslustefnu Fjallabyggðar

Val nemenda eykur áhuga þeirra.

Hlutverk skólans er að veita almenna menntun til þess að undirbúa einstaklinga undir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Menntun er ætlað að stuðla að alhliða þroska einstaklinga og gefa þeim tækifæri til þess að tileinka sér þá þekkingu, leikni og hæfni sem nauðsynleg telst til að vera virkur þjóðfélagsþegn og þar með að takast á við áskoranir daglegs lífs.

Þar sem nám er afar einstaklingsbundið og hefur mismundandi áhrif á hvern og einn eru nokkrir þættir sem vert er að hafa í huga sem bæði reynsla og rannsóknir hafa leitt í ljós. Þættir sem hafa áhrif á náms- og félagslega upplifun og árangur nemenda.

Menntarannsóknir hafa sýnt að virkni nemenda eykst með því að bjóða upp á val í einhverri mynd. Val getur verið misjafnlega útfært, t.d. það að velja á milli viðfangsefna, velja hvoru viðfangefninu þú lýkur á undan, val um með hverjum þú vinnur, eða hvort þú vinnur einn, val á námsaðstæðum, viltu sitja við borð, standa við borð, sitja í sófa, liggja á teppi og þannig mætti lengi telja. Með vali eflum við líka áhugahvöt nemenda og það á ekki eingöngu við um námið heldur einnig félaglega þætti og tómstundastarf.

Í krafti fjöldans hefur verið boðið upp á frístund í vetur, ef ekki væri fyrir fjöldan þá væri valið takmarkaðara. Það sama á við valfögin sem boðið er upp á í samstarfi við menntaskólann, fjöldi nemenda gefur færi á fjölbreyttari valtækifærum.

Ég tel okkur vera ómetanlega lánsöm að hafa skóla á framhaldsskólastigi í sveitarfélaginu okkar, það er svo sannarlega eitthvað sem er ekki sjálfgefið. Ég tel að okkur beri skylda til að nýta þetta tækifæri, það felast t.d. í því að gefa nemendum sem skara fram úr tækifæri til þess að stunda nám við hæfi, ekki til að flýta sér í gegnum námið eins og sumir virðast misskilja.

Við hvert skref sem tekið hefur verið síðustu ár til þess gera skólann okkar heildstæðari hef ég fagnað. Ég fagna vegna þess að hvert skref hefur verið til gæfu fyrir heildarsýn skólans. Það er mikil framþróun í skólamálum hér á landi sem og úti í heimi. Við megum ekki dragast aftur úr. Það er skylda okkar að bjóða nemendum Grunnskóla Fjallabyggðar upp á bestu mögulegu tækifærin til náms sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða.

Mitt álit er að núverandi fræðslustefna Fjallabyggðar sé rétta skrefið í átt til framtíðar. Með stefnunni er boðið upp á jöfn tækifæri til náms fyrir alla nemendur innan árganga, samvinnu á milli allra menntastofnanna sveitarfélagsins og eflingu samvinnu kennara og nýtingu sérfærðiþekkingar þeirra. Horfum til framtíðar samfélagi okkar til heilla.

Höfundur: Ólöf Kristín Ásgeirsdóttir, grunnskólakennari í Grunnskóla Fjallabyggðar.

KF mætir Nökkva í Mjólkurbikarnum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Nökkvi frá Akureyri mætast í 1. umferð Mjólkurbikarsins, laugardaginn 14. apríl kl . 14:00. Leikurinn fer fram á KA-vellinum og telst heimaleikur Nökkva. Nökkvi er utandeildarlið en hefur tekið þátt í bikarkeppninni síðustu ár. Liðið komst óvænt í 2. umferð keppninnar í fyrra með sigri á Geisla, en mætti svo Magna og tapaði þar stórt. KF mætti hins vegar Tindastóli í fyrstu umferð í fyrra og tapaði 3-6 í miklum markaleik. KF er sigurstranglegra liðið í þessum leik og ætlar sér að fara áfram í 2. umferð, en bikarleikir eru yfirleitt jafnir og spennandi óháð í hvaða deild lið spila.

Gunnar Birgisson gefur kost á sér áfram

Gunnar Ingi Birgisson starfandi bæjarstjóri Fjallabyggðar hefur gefið kost á starfskröftum sínum áfram eftir þetta kjörtímabil. Tillaga sjálfstæðismanna í Fjallabyggð er að hann verði endurráðinn sem bæjarstjóri ef flokkurinn fær til þess brautargengi.  Gunnar var ráðinn bæjarstjóri Fjallabyggðar í janúar 2015. Gunnar verður 71 árs 30. september 2018.

Ég ætla að kjósa með nýju fræðslustefnunni – þú ættir að gera það líka

Nú hefur verið ákveðið að mæta ákalli þess hóps sem sendi inn undirskriftalista um að fá að kjósa um fræðslumálin í Fjallabyggð og verður gengið til þeirra kosninga 14. apríl næstkomandi. Íbúar í Fjallabyggð hafa því tækifæri til þess að kjósa um nýju fræðslustefnuna, núgildandi stefnu, sem unnið hefur verið eftir í nær eitt skóaár.

Ég er sjálf á móti þessum kosningum. Mér er það til efs að hægt sé að kjósa svo sátt verði því sitt sýnist hverjum um þetta mál. Það er jafnvel svolítið erfitt að átta sig á hvað það er sem fólk sameinast um að sé neikvætt nema þá helst keyrslan á milli með yngsta fólkið. Sumum finnst of geyst farið í breytingum, þetta þurfi að gerast hægt og rólega og í sátt við alla.

Við stofnun Grunnskóla Fjallabyggðar komu saman námshópar og starfsmenn úr sitthvorum bæjarkjarnanum og kannski margt um ólíkir. Við höfum verið svolítið að vanda okkur í sameiningunni, reynt að halda í ýmsar venjur og hefðir úr hvorum skólakjarnanum, verið hreyfanleg milli vinnustöðva og að sjálfsögðu lagt okkur öll fram um að gera sem best.

Í átta ár höfum við verið að stíga lítil skref hverju sinni. Við höfum kennt samkennslu á yngsta stigi þessi ár og nemendur ekki sameinast fyrr en í 5.bekk. Það hefur ekki endilega verið auðvelt fyrir nemendur að koma saman í 5.bekk, staðsetja sig í jafningjahópnum og byggja upp bekkjarbrag. Einnig voru yngstu nemendur að kynnast nýjum samnemendum á hverju hausti þannig að haustönnin fór gjarnan í það að vinna nemendahópa saman.

Samstarf kennara í yngri deildum varð aldrei eins og best var á kosið. Þeir hittust á fundum um ýmis mál er varðaði skólastarfið og skipulag þess en samstarf um kennslufyrirkomulag varð aldrei þannig að það sama færi fram beggja vegna, það vantaði nálægðina.

Ég hef beðið þess með óþreyju að klára sameininguna. Ég vildi stíga skrefið til fulls strax allt niður í yngsta stig því hver breyting fyrir sig kallar á átök og óánægju að einhverju leyti þar sem bæði blandast saman tilfinningar og hræðsla gagnvart hinu ókunna og því kannski allt eins gott að klára það.

Í ytra matinu sem skólinn fór í 2015 fengum við niðurstöður sem kölluðu á breytingar til að lagfæra, bæta skólastarf og ýmsa innviði sem sneru að námsaðstæðum og tækifærum nemenda til að ná sem bestum árangri. Núverandi fræðslustefna var unnin með það mat að leiðarljósi og allt lagt í að bæta og skapa aðstæður til að jafna námstækifæri nemenda.

Það var spennandi að hefja skólaárið síðastliðið haust. Það voru miklar breytingar fyrir alla, nemendur, foreldra og starfsfólk. Þetta krafðist mikils utanumhalds og skipulags og tók smá tíma að slípa til fram eftir haustinu. Mestar urðu þó breytingarnar á yngsta stigi þar sem bekkjareiningar voru stórar og nemendur þar að kynnast. Litlu krílin að koma með rútu var það sem allir höfðu mestar áhyggjur af en það eins og annað vandist hjá þeim. Þau koma hress inn úr rútunni og hefja skóladaginn sem er svo fjölbreyttur og erilsamur að enginn má vera að því að hugsa í hindrunum. Frístundin bættist inn og því fleiri nemendur í skólahúsinu allan daginn og þar að leiðandi stanslaust líf og fjör. Með því að hafa nú alla kennara og starfsfólk á yngsta stigi á sömu starfstöð breyttist mikið og allar aðstæður til að samræma vinnubrögð, nýta fagþekkingu og kraft mannauðsins mun betri.

Óánægjuraddir hef ég heyrt varðandi miðstigið, það hafi orðið út undan í allri umræðunni. Hugsanlega mætti flytja 5. bekk til en það er ekkert í lögum, né reglugerðum sem segir að miðstig eigi að flokka sem 5.-7. bekk. Samstarf á milli bekkja getur verið á alla vegu og er það alltaf á höndum þeirra sem starfa með hverjum bekk fyrir sig að móta það samstarfi við aðrar bekkjardeildir. Í vetur hafa  4. og 5. bekkur átt afbragðs gott samstarf og 5. bekkur fengið að njóta sín sem elsti árgangur í því húsi.

Tækifærin eru spennandi í samstarfi við Menntaskólann á Tröllaskaga og eiga bara eftir að aukast. Miklar og örar breytingar eru í allri menntun. Kennsluhættir eru að breytast og kalla á fjölbreyttari útfærslu. Nemendur eiga að hafa meira að segja um nám sitt og fá meira val. Tæknin er að ryðja sér til rúms og kennslubúnaður ekki lengur bara bækur heldur ýmiskonar annar búnaður sem kallar á að kennarar og skólastofnanir uppfæri sig og þrói svo þeir fái fylgt þeim eftir og verði samkeppnisfær.

Ég upplifi marga góða hluti í skólastarfinu eftir þennan vetur og nú finnst mér sem tækifærin séu öll okkur í hag og því beri að halda áfram og byggja ofan á. Horfum til framtíðar og fyllumst metnaði skólasamfélaginu okkar til handa.

Nýtum rétt okkar til að kjósa núna 14. apríl. Ég get ekki hugsað mér að snúa til baka frá þessu nýja kerfi þannig að ég ætla að segja já.

Höfundur:

Erla Gunnlaugsdóttir sérkennari við Grunnskóla Fjallabyggðar.

Texti: Aðsend grein.

Úrslit í Firmakeppni Skíðafélags Dalvíkur

Firmakeppni var haldin á annan í páskum eins og undanfarin ár af Skíðafélagi Dalvíkur. Veður og aðstæður voru góðar og mikil stemning í fjallinu.  Fyrirkomulagið er þannig að keppendum er raðað upp með forgjafar-fyrirkomuagi þannig að yngstu keppendur hefja keppni í 8 porti og svo koll af kolli upp í port 1, en sú nýung var í ár að keppendum 45 ára og eldri voru trappaðir niður í forgjafar-formúlunni þannig að 76 ára og eldri hefja leik í porti 8.

Í fjögra liða úrsiltum kepptu Markús Máni Pétursson fyrir Marúlf og Andrea Björk Birkisdóttir fyrir Sjúkraþjálfun Sveins Torfasonar.  Markús sigraði og hafnaði í 3 sæti.

Um 1.-2. sæti kepptu Barri Björgvisson fyrir EB og Guðni Berg Einarsson fyrir Vélvirkja. Úrslit réðust á síðustu metrunum, þar sem Guðni hafði betur og sigraði því keppnina í ár, og þannig varði titilinn frá því í fyrra.

Hér fyrir neðan má svo sjá lista yfir þau fyrirtæki sem tóku þátt í ár.

Sjúkraþjálfun Sveins Torfasonar
Ingimar Sjúkraþjálfari
Samherji, Dalvík
ASSI ehf
Þau bæði ehf
Bergmenn – mountain guides
Arctic heli skiing
BHS ehf
Bruggsmiðjan Kaldi
Daltré ehf
EB ehf.
Ektafiskur
Flæðipípulagnir ehf
Hafnarsjóður / Dalvíkurbyggð
Hárverkstæðið
Híbýlamálun
Húsasmiðjan
Katla ehf
Marúlfur
Miðlarinn
Sæplast Iceland
Salka – Fiskmiðlun
Snorrason Holding – Dalpay
Landsbankinn, Dalvík
Sportvík ehf
Sundlaug Dalvíkur
Steypustöð Dalvíkur
Tomman
Tréverk
Vélvirki
Þernan fatahreinsun
Blágrýti
iTub
Ingvi Óskarsson ehf
Húsabakki gistihús

Nýr salur MTR nýttur til sýningarhalds listamanna

Nýr salur Menntaskólans á Tröllaskaga hentar vel til sýningarhalds og hefur nú nýju verkefni skólans verið hrundið af stað, en það kallast Listamaður mánaðarins.  Verkefnið er ætlað að efla tengsl skólans og samfélagsins. Verkefnið felst í því að í hverjum mánuði sem skólahald fer fram verður einum listamanni af svæðinu boðið að sýna verk sín á afmörkuðu svæði í sal skólans. Þá mun listafólkið segja nemendum á listabraut frá verkunum, vinnuaðferðum sínum og listsköpun.

Fyrsti „listamaður mánaðarins“ var Guðrún Þórisdóttir, eða Garún eins og hún kallar sig. Hafa verk hennar verið til sýnis í skólanum síðastliðin mánuð. Hún er búsett í Ólafsfirði og hefur unnið þar að list sinni. Hún var kjörin bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2012, hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum.

Listamaður apríl mánaðar verður Arnfinna Björnsdóttir frá Siglufirði, sem var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2017. Mun sýning með verkum hennar opna miðvikudaginn 11. apríl og vera uppi fram undir vorsýningu skólans er fer fram þann 12. maí.

Ljósmynd: Bjarni Grétar Magnússon/ Héðinsfjörður.is

Hjúkrunarframkvæmdastjóri óskast Dalbæ í Dalvíkurbyggð

Staða hjúkrunarframkvæmdastjóra hjúkrunar- og dvalarheimilisins Dalbæjar á Dalvík er laus til umsóknar. Leitað er að einstaklingi til að takast á við krefjandi og skemmtilegt starf. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.  Dalbær er hjúkrunar- og dvalarheimili á Dalvík og tók til starfa árið 1979. Á Dalbæ eru 38 íbúar þar af 27 í hjúkrunarrýmum og 11 í dvalarrýmum. Fjöldi starfsmanna er 65 í um 37 stöðugildum. Umsóknarfrestur er til 22. apríl. Nánari upplýsingar á vef Dalvíkurbyggðar.

Mynd:d alvik.is

Norðurland í brennidepli

Samtök iðnaðarins bjóða til opins fundar laugardaginn 14. apríl næstkomandi kl. 10.30-12.00 í Hofi á Akureyri. Fundurinn er haldinn í tengslum við Dag byggingariðnaðarins á Norðurlandi.  Á fundinum verður meðal annars fjallað um helstu áskoranir og tækifæri sem iðnaðurinn stendur frammi fyrir í tengslum við menntun, nýsköpun, innviði og starfsumhverfi, kynnt verður ný greining SI á íbúðamarkaðnum auk þess sem greint verður frá því sem er framundan í fjárfestingum á Norðurlandi.  Hægt er að skrá sig á vef SI.is.

Dagskrá:
•Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI
•Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI
•Ingibjörg Ólöf Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri
•Friðrik Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar á mannvirkjasviði SI
•Umræður og fyrirspurnir

Kosið um fræðslustefnu Fjallabyggðar eftir tvær vikur

Íbúakosning um fræðslustefnu Fjallabyggðar fer fram laugardaginn 14. apríl 2018.  Íbúakosningin verður staðarkosning í tveimur kjördeildum, Ráðhúsi Fjallabyggðar og Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hér fyrir neðan má sjá samanburð á Fræðslustefnu og kennslufyrirkomulagi frá 2017 og Fræðslustefnu frá 2009 og kennslufyrirkomulagi frá 2012. Ef nýja fyrirkomulaginu verður hafnað þá verður það líklega stærsta mál nýs meirihluta í Fjallabyggð eftir kosningar.

Spurt verður:
Vilt þú að stefnan haldi gildi sínu?

Valkostir:

 • Já, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 haldi gildi sínu.
 • Nei, ég vil að fræðslustefnan sem var samþykkt í bæjarstjórn Fjallabyggðar 18.05.2017 verði felld úr gildi og fyrri fræðslustefna frá 17.03. 2009 taki gildi á ný.

Betri Fjallabyggð nýtt þverpólitískt og óháð framboð í Fjallabyggð

Framboðslistinn „Betri Fjallabyggð“ býður fram í sveitastjórnarkosningum í Fjallabyggð 2018. „Betri Fjallabyggð“ er þverpólitískt og óháð framboð.  Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir skipar fyrsta sæti listans og Nanna Árnadóttir skipar annað sætið.

Framboðslistinn er eftirfarandi:

 1. Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir
 2. Nanna Árnadóttir
 3. Konráð Karl Baldvinsson
 4. Hrafnhildur Ýr Denke
 5. Hólmar Hákon Óðinsson
 6. Sóley Anna Pálsdóttir
 7. Sævar Eyjólfsson
 8. Rodrigo Junqueira Thomas
 9. Guðrún Linda Rafnsdóttir
 10. Ólína Ýr Jóakimsdóttir
 11. Ægir Bergsson
 12. Ida Marguerite Semey
 13. Friðfinnur Hauksson
 14. Steinunn María Sveinsdóttir

Vetrarleikar í Fjallabyggð

Hinir árlegu Vetrarleikar Ungmenna og Íþróttasambands Fjallabyggðar(ÚÍF) verða haldnir laugardaginn 7. apríl  og sunnudaginn 8. apríl.  Sem fyrr munu íþrótta- og ungmennafélögin í Fjallabyggð bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu og viðburði þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Meðal annars verður í boði, ganga, badminton, sund, skíði, blak og hestamennska.

Laugardagur 7. apríl:

 • Kl. 13:00              Létt ganga með Umf. Glóa.
  Mæting við Ráðhús. Endað með veitingum og ljúfum tónum á Ljóðasetri.
 • Kl. 15:00-16:30   Badminton fyrir alla á vegum TBS í íþróttahúsinu á Siglufirði.
 • Kl. 14:00-18:00   Frítt í sund á Siglufirði

Sunnudagur 8. apríl:

 • Kl. 10:30            Símnúmeramót hjá Skíðafélagi Siglufjarðar í Skarðinu.
 • Kl. 12:00-14:00  Blak fyrir alla í umsjón Blakfélags Fjallabyggðar.
 • Kl. 14:00-17:00  Hestamannafélagið Glæsir. Boðið upp á að fara á bak og teymt undir.

 

Vetrarleikar í Fjallabyggð

Hinir árlegu Vetrarleikar Ungmenna og Íþróttasambands Fjallabyggðar(ÚÍF) verða haldnir laugardaginn 7. apríl  og sunnudaginn 8. apríl.  Sem fyrr munu íþrótta- og ungmennafélögin í Fjallabyggð bjóða upp á fjölbreytta hreyfingu og viðburði þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Meðal annars verður í boði, ganga, badminton, sund, skíði, blak og hestamennska.

Laugardagur 7. apríl:

 • Kl. 13:00              Létt ganga með Umf. Glóa.
  Mæting við Ráðhús. Endað með veitingum og ljúfum tónum á Ljóðasetri.
 • Kl. 15:00-16:30   Badminton fyrir alla á vegum TBS í íþróttahúsinu á Siglufirði.
 • Kl. 14:00-18:00   Frítt í sund á Siglufirði

Sunnudagur 8. apríl:

 • Kl. 10:30            Símnúmeramót hjá Skíðafélagi Siglufjarðar í Skarðinu.
 • Kl. 12:00-14:00  Blak fyrir alla í umsjón Blakfélags Fjallabyggðar.
 • Kl. 14:00-17:00  Hestamannafélagið Glæsir. Boðið upp á að fara á bak og teymt undir.

 

Markaðsstofa Ólafsfjarðar boðar til fundar

Markaðsstofa Ólafsfjarðar boðar á ný til fundar og nú á Hótel Brimnesi í Ólafsfirði, laugardaginn 7. apríl kl. 10:00-12:00. Stofnaður hefur verið hópur á Facebook – Markaðsstofa Ólafsfjarðar og eru þar nú 72 einstaklingar sem ætla vinna saman í því að koma Ólafsfirði betur á kortið. Stuttar tilkynningar verða í upphafi fundar.

Dagskrá:

 • 1. Fara yfir skjalið – “hvað er í boði í Ólafsfirði”
 • 2. Ferðafélagið Trölli
 • 3. Kynna þrívíddarkortið fyrir Ólafsfjörð
 • 4. Vinnufundur – hugarflæði
  •  hlutverk ferðafélagsins
  •  stefna ferðaþjónustu til framtíðar
  •  næstu skref í nánasta framtíð
  •  búa til vinnuhópa

Fyrirlestur fyrir foreldra í Fjallabyggð

Hjalti Jónsson frá Sálfræðistofu Norðurlands heldur fyrirlestur fyrir foreldra, forráðamenn og aðra áhugasama í Grunnskóla Fjallabyggðar við Tjarnarstíg í Ólafsfirði, þriðjudaginn 10. apríl kl. 17.30.
Fyrirlesturinn fjallar um kvíða, depurð og fylgikvilla hjá börnum og unglingum. Tækifæri fyrir foreldra og forráðamenn til að þekkja einkenni og öðlast þekkingu til að hjálpa börnunum sínum að takast á við kvíða, depurð og lágt sjálfsmat. Fræðslan byggir á hugmyndafræði hugrænnar atferlismeðferðar.
Hvetjum alla til að mæta á fræðsluna þrátt fyrir skamman fyrirvara.
Stjórn foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar.
Texti: Aðend fréttatilkynning.

Jafnaðarmenn í Fjallabyggð verða hluti af þverpólitísku og óháðu framboði

Jafnaðarmenn í Fjallabyggð hafa sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum hlutu Jafnaðarmenn í Fjallabyggð 25,7% atkvæða og hafa verið í meirihluta í bæjarstjórn á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka. Ákvörðun hefur verið tekin um að Jafnaðarmenn verði hluti af þverpólitísku og óháðu framboði í sveitarstjórnarkosningum í vor og verður framboðið kynnt á morgun.

KF sektað um 100.000 krónur

KSÍ hefur staðfest að Baldvin Freyr Ásmundsson hafi leikið ólöglegur með KF gegn Fjarðarbyggð/Huginn í Lengjubikar karla þann 25. mars síðastliðinn. Leikmaðurinn var í leikbanni vegna þriggja gulra spjalda.  KSÍ hefur því sektað KF um kr. 100.000 vegna þessa atviks og úrslitum leiksins er breytt í 0 – 3 Fjarðarbyggð/Huginn í vil. Þetta þýðir að KF leikur ekki til úrslita í Lengjubikar og endar í 3. sæti í riðlinum. Baldvin  Freyr lék 71 mínútu í umræddum leik og KF vann leikinn upphaflega 2-1. Völsungur tekur sæti KF og leikur gegn Gróttu 8. apríl næstkomandi.

Varmahlíðarskóli vann Norðurlandsriðilinn í Skólahreysti

Skólarnir á Norðurlandi utan Akureyrar kepptu í 8. riðli í Skólahreysti í dag. Keppnin fór fram á Akureyri og keppt var í upphífingum, armbeygjum, dýfum, hreystigreip og hraðabraut.  Varmahlíðarskóli vann nokkuð örugglega, annað árið í röð með 57,50 stig.  Grunnskólinn Austan Vatna var í öðru sæti með 47 stig og Grunnskóli Fjallabyggðar í 3. sæti með 35,50 stig. Grunnskóli Fjallabyggðar var í 7. sæti á síðasta ári í sömu keppni með 35 stig, en í ár voru það 35,5 stig og 3. sæti.

Grunnskóli Fjallabyggðar var í 3. sæti í upphífingum, neðsta sæti í armbeygjum, 5 .sæti í dýfum næst neðsta sæti í hreystigreip og 2. sæti í hraðbraut.  Hægt er að sjá öll úrslit á skólahreysti.is.

Skóli Gildi Stig
Varmahlíðarskóli 57.5 57,50
Grunnskólinn austan Vatna 47 47,00
Grunnskóli Fjallabyggðar 35.5 35,50
Borgarhólsskóli 35 35,00
Dalvíkurskóli 33.5 33,50
Húnavallaskóli 32 32,00
Naustaskóli 30 30,00
Grunnskólinn á Þórshöfn 28 28,00
Hrafnagilsskóli 19.5 19,50
Þelamerkurskóli 12 12,00

Tilkynning frá stjórn foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar

Stjórn foreldrafélags Grunnskóla Fjallabyggðar hefur birt eftirfarandi tilkynningu:

Stjórn foreldrafélags grunnskólans vill í ljósi dræmrar mætingar foreldra/forráðamanna grunnskólabarna í Fjallabyggð á fræðslufundi á vegum félagsins hvetja foreldra/forráðamenn til að senda inn tillögur að fræðsluefni sem áhugi er fyrir eða þörf er á, á skólastjórnendur eða meðlim stjórnarinnar á boggahardar@simnet.is

Einnig hefur verið ákveðið að hvert heimili skuli tilkynna hver mætir með/fyrir hönd nemanda á komandi fræðslufundi. Þetta mun vera gert í von um að fræðsla í nærumhverfi nýtist sem best og komi frá fyrstu hendi.

Foreldrafélagið stendur straum af kostnaði þessara fræðslufunda og minnir á greiðslu árgjalds og mikilvægi þess að á því séu staðin skil.

Að lokum finnst stjórninni vert að árétta að viðburðir innan bekkja eru skipulagðir og ætlaðir sem stund sem nemendur eiga með foreldrum/forráðamönnum sínum. Því er mikilvægt að foreldrar/forráðamenn sæki þá viðburði, myndi tengsl við foreldrahópinn og skemmti sér með börnum sínum. Ekki er ætlast til að systkini mæti með á slíka viðburði!

Heimild: grunnskoli.fjallabyggd.is

Norræn Strandmenningarhátíð á Siglufirði

Norræn strandmenningarhátíð verður á Siglufirði dagana 4.- 8. júlí 2018. Vitafélagið – Íslensk strandmenning hefur birt drög að dagskrá þessa daga. Setningarathöfn verður miðvikudaginn 4. júlí kl. 17:00. Aðra daga verður meðal annars Norrænar kvikmyndir sýndar í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði. Ljósmyndasýning verður í Sauðanesvita, Bókasafnið verður Norðurslóðasetur, á hátíðarsvæðinu munu Grænlenskir listamenn sýna trommudans og þjóðdansa. Málþing verður í Síldarminjasafninu.  Eldsmiðir verða við vinnu sína. Vinnustofur fyrir börn og einstaklingar sýna gamalt og nýtt handverk í tjöldum.

Drög að dagskrá:

Fimmtudagur 5. júlí kl. 10:00 -17:00
Torsdag 5. juli kl. 10:00-17:00

Sýningatjöld, vinnustofur og aðrir sýningastaððir
Sauðanesviti- Ljósmyndasýning
Ytrahúsið-Örlygur Kristfinnsson
Bókasafnið – Norðurslóðasetrið
Í tjöldum: 20 einstaklingar sýna gamalt og nýtt handverk t.d. vinna með roð, ull, dún og fl.
Siglfirskir listamenn við vinnu sína
Netagerð í höndum heimamanna
Bátar opnir og til sýnis. Í sumum þeirra eru sýningar í boði
Eldsmiðir við vinnu sína
Vinnustofa fyrir börn
Á hátíðarsvæðinu munu Grænlenskir listamenn sýna trommudans, þjóðdansa

Málþing í Síldarminjasafninu um viðhald og viðgerðir á bátum
Fyrirlesarar:Hanna Hagmark Cooper, Anders Bolmsted, Almogebåtarna Svíþjóð, Hafliði Aðalsteinsson, Jón Ragnar Daðason
Námsekið í bátasmíði í Slippnum

Norrænar kvikmyndir í Tjarnarborg

 

Föstudagur 6. júlí Fredag 6.juli

Sýningatjöld, vinnustofur og aðrir sýningarstaðir kl. 10:00-17:00
Sauðanesviti- Ljósmyndasýning
Ytrahúsið-Örlygur Kristfinnsson
Bókasafnið – Norðurslóðasetrið
Í tjöldum: 20 einstaklingar sýna gamalt og nýtt handverk sem einkennir sjávarsíðuna. T.d. vinna með ull, roð, dún og fl.
Netagerð í höndum heimamanna
Bátar opnir og til sýnis. Í sumum eru sýningar í boði
Eldsmiðir við vinnu sína
Vinnustofa fyrir börn
Á hátíðarsvæðinu munu Grænlenskir listamenn sýna trommudans, þjóðdansa, syngja og sýna grænlenska list
Málþing í Síldarminjasafninu um UNESCO, súðbyrtabáta og hefðir í norrænni strandmenningu Fyrirlesarar:Tore Friis-Olsen, Kysten, Noregi, Jon Borger Godal, Noregi, Hansi í Líðini, Josko Bozanic, Króatíu
Námskeið í bátasmíði heldur áfram

Norrænar kvikmyndir í Tjarnarborg

Laugardagur 7. Júlí Lördag 7. Juli

Sýningatjöld, vinnustofur og aðrir sýningastaðir kl. 10:00-17:00
Sauðanesviti-Ljósmyndasýning
Ytrahúsið- Örlygur kristfinnsson
Bókasafnið –Norðurslóðasetrið
Í tjöldum: 20 einstaklingar sýna gamalt og nýtt handverk sem ein kennir sjávarsíðuna.
T.d. vinnu með ull, roð, dún og fl.
Netagerð í höndum heimamanna
Bátar opnir og til sýnis
Í sumum eru sýningar í boði
Eldsmiðir við vinnu sína
Vinnustofa fyrir börn
Á hátíðarsvæðinu munu Grænlenskir listamenn sýna trommudans, þjóðdansa,syngja og sýna grænlenska list

Norrænar kvikmyndir í Tjarnarborg

Bryggjuball

Sunnudagur 8. júlí Söndag 8. juli

Kl. 11:00 Guðþjónusta í Siglufjarðakirkju

Bæjar- og menningarvefur