Listahátíðin Skammdegi haldin í fimmta sinn

Árlega listahátíðin Skammdegi verður nú haldin af Listhús SES í Fjallabyggð í fimmta sinn og stendur hún í fjóra daga.
Hátíðin hefst fimmtudaginn 14. febrúar, og lýkur á sunnudeginum 17. febrúar með lokaathöfn.
Sýningar verða víða í Ólafsfirði, og verður hægt að skoða dagskrána á heimasíðunni http://skammdegifestival.com/
og viðburðasíðu á Facebook undir titlinum “Skammdegi Festival 2019”.
Á listhátíðinni verður boðið upp á sýningar, gjörninga og viðburði með 16 listamönnum frá 8 löndum, sem hafa dvalið í Ólafsfirði síðustu tvo mánuði, og upplifað myrkasta tímabil vetursins, “Skammdegi”

Listamenn eru:
Andrey Kozakov – Úkranía
Angela Dai – Kína
Annie Edney – Ástralía
Clara de Cápua – Brasilía
Dagrún Matthíasdóttir – Ísland
Danielle Galietti – Bandaríkin
Dannie Liebergot – Bandaríkin
Guðrún Mobus Bernharðs – Ísland
Hollis Schiavo – Suður Kórea
Ingi Þ. Reyndal – Ísland
Lára Stefánsdóttir – Ísland
Matthew Runciman – Kanada
Santiago Ortiz-Piazuelo – Kólumbía
Sheryl Anaya – Bandaríkin
Sigurður Mar Halldórsson – Ísland
Teresa Cheung – Kína

Image may contain: text

BF vann Völsung 3-0 á Siglufirði

Völsungur heimsótti Blakfélag Fjallabyggðar í gær en liðin léku í 1. deild karla í blaki í íþróttahúsinu á Siglufirði. Fyrir leikinn var Völsungur í neðsta sæti og voru enn án sigurs en BF var í efri hluta deildarinnar. Völsungur kom með fámennt lið til Siglufjarðar og var enginn varamaður á bekknum hjá þeim. BF var með góðan hóp í þessum leik, en 10 leikmenn voru klárir.

Fyrsta hrina var ansi löng og stóð í 36 mínútur. Leikurinn var nokkuð jafnt þar til líða fór á hrinuna, en þá tókst BF að ná um öruggu forskoti. Jafnt var á tölunum 3-3, 6-6 og 11-11. Eftir þennan kafla tókst BF að ná upp 3ja-4ja stiga forskoti og hafði yfirhöndina. BF komst í 16-12 og 20-16 og tók þá Völsungur leikhlé til að reyna komast aftur inn í leikinn. Í stöðunni 20-17 skoraði BF fjögur stig í röð og lagði grunninn að sigrinum í hrinunni. BF vann hrinuna 25-18 og var komið í 1-0 í leiknum.

Í annari hrinu þá byrjaði BF betur og komst í 5-1 og 10-4 en þá tók Völsungur leikhlé.  BF komst í 12-6, 15-9 og 19-11. Erfiðlega gekk að sækja síðustu stigin hjá BF en Völsungur kom til baka og skoraði sex stig í röð og minnkuðu muninn í 22-20 og þá tóku heimamenn leikhlé.  BF átti svo síðustu þrjú stigin og vann hrinuna að lokum 25-20 og var staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu var meira jafnræði mest alla hrinuna og tókst BF ekki að ná upp forskoti fyrr en leið á hrinuna. Jafnt var á tölunum 3-3, 5-5 og 8-8. Í stöðunni 11-11 tókst BF að sigla aðeins framúr og komust í 14-11 og loks 18-15.  Áfram sótti BF stigin og komst í 22-17 með góðum kafla og tóku þá gestirnir leikhlé. Smá spenna kom upp í lokin en Völsungur minnkaði muninn í 24-22 en lengra náðu þeir ekki og heimamenn unnu sanngjarnan sigur 25-22 og 3-0.

BF komst í annað sæti deildarinnar með þessum sigri en liðin fyrir neðan hafa leikið færri leiki.

 

Hætt við lokahóf Fjarðargöngunnar

Lokahóf Fjarðargöngunnar í Ólafsfirði hefur verið slegið af vegna dræmrar þátttöku.  Búið er að leggja 10 km hring og liggur hann að hluta til um götur Ólafsfjarðar.  Veðurspáin mætti vera betri, en gangan mun fara fram á laugardaginn. Ef veður verður mjög slæmt verður hringurinn styttur. Þetta kemur fram á upplýsingasíðu göngunnar.

Dagskrá:

Föstudagur:
kl. 20:00 – 21:00 Skíðaskálinn Tindaöxl: Afhending númera.
Laugardagur:
kl. 08:00 – 10:30 Íþróttahús Ólafsfjarðar opnar:
Þar verða afhent númer, veittar upplýsingar, smurningsaðstaða í íþróttasalnum og aðgangur að salerni.
kl. 10:00 Íþróttahús Ólafsfjarðar: Fundur um brautina, skiptingar o.fl.
kl. 11:00 Start.
kl. 16:00 Tjarnarborg: Kaffisamsæti og verðlaunaafhending fyrir keppendur og starfsfólk.
Sundlaugin á Ólafsfirði verður opin til kl 16:00

Fjarðargangan í miðbæ Ólafsfjarðar

Fjarðargangan á vegum Skíðafélags Ólafsfjarðar verður haldin í Ólafsfirði laugardaginn 9. febrúar næstkomandi.  Göngubrautin verður lögð í bænum og vegna þess verður truflun á umferð í efri byggð bæjarins og eru íbúar, Hornbrekkuvegar, Túngötu og Hlíðarvegar beðnir um að sýna þessu skilning og nýta sér Brimnesveg og gatnamót Brekkugötu í staðinn. Hornbrekkuvegur og Þverbrekkuvegur verða lokaðir á meðan á keppni stendur.

Vegna snjóflóðahættu í Skeggjabrekkudal var brautin færð niður í bæ. Ræsing verður við íþróttahúsið í Ólafsfirði. Talið er að þetta sé í fyrsta sinn sem Íslandsgangan eða almenningsganga fer fram innanbæjar.

150 manns taka þátt í ár og er uppselt á gönguna.

Truflunin stendur yfir frá kl. 09:00-17:00 laugardaginn 9. febrúar, meðan keppnin fer fram. Einnig geta einhverjar tafir og truflanir orðið föstudaginn 8. febrúar meðan mokað verður í göturnar og brautin lögð.

Lokahóf Fjarðargöngunnar fer svo fram í menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði um kvöldið.

No photo description available.

 

Áskorun til stjórnvalda um að hefja vinnu við undirbúning nýrra Tröllaskagaganga

Bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykktu á fundum sínum fyrr í þessari viku áskorun til stjórnvalda um að tryggja í nýrri samgönguáætlun fjármögnun grunnrannsókna og samanburðar á bestu kostum á legu mögulegra jarðganga undir Tröllaskaga, auk rannsókna á samfélags- og efnahagslegum áhrifum sem leiða af nýjum Tröllaskagagöngum.

Tröllaskagagöng munu ótvírætt hafa mikinn ávinning í för með sér í formi styttri vegalengda á milli allra stærstu þéttbýlisstaða á Norðurlandi, aukins öryggis vegfarenda þar sem til yrði ný leið sem sneiðir fram hjá hæstu fjallvegum, stækkunar vinnusóknarsvæða, styrkingar almennrar þjónustu og eflingar ferðaþjónustu, auk bættrar samkeppnisstöðu landshlutans. Slík jarðgöng myndu breyta svo miklu á svo stóru svæði að örðugt er að sjá áhrifin fyrir án ítarlegrar og faglegrar athugunar.

Bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar leggja þunga áherslu á að nauðsynlegur undirbúningur og frumrannsóknir vegna nýrra Tröllaskagaganga hljóti fjármögnun innan nýrrar samgönguáætlunar.

Opinn fundur Framsóknar í Ólafsfirði

Framsókn í Norðausturkjördæmi býður til opins fundar á Ólafsfirði, föstudaginn 8. febrúar kl. 20:30, á Veitingastaðnum Höllinni.

Gestir fundarins verða:
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórarráðherra,
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra,
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður og þingmaður NA kjördæmis og Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður NA kjördæmis.

Skrifstofur til leigu á Dalvík og í Fjallabyggð

Eining-Iðja er með til leigu skrifstofur í húsnæði félagsins á Dalvík og í Fjallabyggð. Um er að ræða 9,8 m2 skrifstofu á Dalvík og 11,3 m2 í Fjallabyggð, báðar eru á jarðhæð með góðu aðgengi.

Skrifstofurnar leigjast með húsgögnum og eru lausar strax!

Nánari upplýsingar veitir Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins, í síma 460-3600 eða bjorn@ein.is.

KF leikur í Lengjubikarnum

KF hefur leik í Lengjubikarnum 24. febrúar gegn Skallagrími í Boganum á Akureyri. KF er í B-deild í riðli 1 og eru býsna sterk lið þarna á meðal. Leikir gegn Kára, Reyni Sandgerði, Tindastóli og Víði mun allt verða hörku leikir. Leikstaðir verða í Reykjaneshöllinni, Akraneshöllinni, Sauðárkróksvelli og Boganum Akureyri. KF leikur einn leik í febrúar en aðrir leikir fara fram í mars mánuði. Nánar verður fjallað um leiki KF þegar úrslit liggja fyrir.

LIÐ L +/- S
01 Kári
0 0 0
02 KF
0 0 0
03 Reynir S.
0 0 0
04 Skallagrímur
0 0 0
05 Tindastóll
0 0 0
06 Víðir
0 0 0

Félagsmiðstöðin Neon í Fjallabyggð í 2. sæti í Stíl

Félagsmiðstöðin Neon í Fjallabyggð keppti um nýliðna helgi í hönnunarkeppninni Stíl á vegum Samfés sem fram fór í íþróttahúsinu í Digranesi Kópavogi.  Stíll er árleg hönnunarkeppni á milli félagsmiðstöðva á Íslandi þar sem keppt er í hárgreiðslu, förðun og fatahönnun út frá ákveðnu þema.  Í fyrra vann félagsmiðstöðin Neon þessa keppni og í ár lenti liðið 2. sæti, sem er frábær árangur.

Fyrir hönd Neons kepptu þær Halldóra Helga Sindradóttir, Marlis Jóna Þórunn Karlsdóttir og Ronja Helgadóttir sem einnig var módel liðsins. Þeim til halds og trausts í undirbúningi og keppni var Brynhildur Reykjalín Vilhjálmsdóttir kennari.

Þemað í ár var 90­‘s.

Markmið Stíls eru að:

Hvetja unglinga til listsköpunar og um leið gefa þeim aukin tækifæri til frumlegrar hugsunar og sköpunarhæfileika. Vekja jákvæða athygli á því hvað unglingar eru að gera á sviði sköpunar og gefa þeim kost á að koma sínum hugmyndum á framfæri utan félagsmiðstöðvanna. Einnig að unga fólkið komist í kynni við fleiri sem hafa áhuga á sama sviði.

 

Elstu börn Leikhóla prófa svigskíði hjá Skíðafélagi Ólafsfjarðar

Skíðafélag Ólafsfjarðar bauð í dag tveimur elstu árgöngum Leikskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði, að koma á skíðasvæðið og prófa svigskíði undir handleiðslu Sunnu Eir Haraldsdóttur. Starfsmenn leikskólans fylgja nemendum og er þetta gert á leikskólatíma.
Þetta er gert til að kynna börnin fyrir skíðum og kenna þeim grunninn. Skíðafélagið er svo með byrjendanámskeið fyrir alla byrjendur sem byrjar miðvikudaginn 6. febrúar og er í þrjá daga eða þangað til að allir eru orðnir skíðandi.
Skíðafélag Ólafsfjarðar hefur áður staðið fyrir slíkri kennslu fyrir yngsta stigi Grunnskóla Fjallabyggðar þar sem þjálfari félagsins og sjálfboðaliðar kenndu byrjendum grunninn á svigskíðum og þeir sem vildu gátu lika fengið að prófa gönguskíði.

Átak um betri merkingar matvæla

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Bændasamtök Íslands, Neytendasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök iðnaðarins hafa undirritað samkomulag um að gera gangskör í því að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif þeirra.

Skipaður verður samráðshópur með fulltrúum neytenda, bænda og verslunar og er hlutverk hans að ráðast í átaksverkefni um merkingar og hvernig betur megi upplýsa neytendur og fyrirtæki um réttindi og skyldur á skýran og einfaldan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

Verkefnið er tímabundið í eitt ár og að þeim tíma liðnum verður árangurinn metinn og ákvörðun tekin um framhaldið.

Heimild og mynd: stjornarrad.is

Ný útgáfa af íslenskum vegabréfum

Framleiðsla nýrra vegabréfa hófst hjá Þjóðskrá Íslands 1. febrúar sl.  Eldri vegabréf halda gildi sínu þar til þau renna út og því þurfa handhafar vegabréfa ekki að sækja um ný nema eldri vegabréf séu runnin út.  Ný útgáfa vegabréfa hefur verið í undirbúningi síðan 2015. Stofnkostnaður er um 200 milljónir króna og var fjármagnaður af Landamærasjóði ESB, dómsmálaráðuneytinu og Þjóðskrá Íslands.

Helstu breytingar felast í auknu öryggi í framleiðslukerfi og vegabréfabókum en útlit breytist einnig. Helstu útlitsbreytingarnar felast í landslagsmyndum á hverri opnu, úr öllum landshlutum, ásamt staðsetningu þeirra á korti. Heiðlóan er jafnframt áberandi, en kápan heldur bláa litnum sem hefur einkennt íslensk vegabréf.

Með nýrri útgáfu af íslenska vegabréfinu er verið að auka öryggi í útgáfu vegabréfa á Íslandi í samræmi við auknar kröfur og alþjóðlega staðla. Undirbúningur fyrir útboð hófst fyrir um tveimur árum en um var að ræða þrenns konar útboð, þ.e. á framleiðslukerfi, vegabréfabókum og traustvottorðakerfi.

Að öðru leyti helst öll þjónusta við útgáfu vegabréfa óbreytt. Sótt er um vegabréf hjá embætti sýslumanna og verð á vegabréfum helst óbreytt. Afgreiðslutími vegabréfa er 2 virkir dagar. Nánari upplýsingar um útgáfu vegabréfa má finna á vegabref.is.

„Við erum afar spennt fyrir því að taka í notkun nýtt framleiðslukerfi vegabréfa. Einnig er útlit nýrra vegabréfa með aðeins breyttu sniði sem mikil vinna hefur verið lögð í og við erum afar ánægð með. Þessar breytingar marka tímamót sérstaklega að því leyti að þarna er verið að taka skref í átt að auknu öryggi bæði hvað varðar framleiðsluferlið og vegabréfabækurnar. Þetta er flókið og mikilvægt verkefni sem við erum afar stolt af,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands um þessar breytingar á framleiðslu vegabréfa.

„Þjóðskrá Íslands hefur staðið vel að breytingum á útgáfu vegabréfa á Íslandi síðastliðin fjögur ár. Breytingarnar auka öryggi íslenskra vegabréfa en mikilvægt er að við séum ávallt vakandi fyrir nýjum leiðum til að tryggja öryggi á þessum vettvangi í takti við alþjóðlegar kröfur og staðla. Það hefur verið ánægjulegt að sjá verkinu vinda fram hratt og örugglega en það klárast nú innan þeirra áætlana sem lagt var upp með. Þá er einnig gott að sjá þann mikla árangur sem náðst hefur við að stytta afgreiðslutíma vegabréfa, sem er nú aðeins 2 dagar,“ segir Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. 

Samantekt um vegabréf og nýtt framleiðslukerfi vegabréfa:

 • Nýtt framleiðslukerfi vegabréf verður gangsett 1. febrúar
 • Stofnkostnaður nýs framleiðslukerfis er um 200 milljónir króna.
 • Undirbúningur útboðs hófst í ársbyrjun 2017. Framleiðslukerfi, vegabréfabækur og traust vottorðakerfi voru öll boðin út á EES svæðinu.
 • Nýtt framleiðslukerfi vegabréfa er samstarfsverkefni Þjóðskrár Íslands, Landamærasjóðs ESB, Dómsmálaráðuneytisins og þeirra erlendu birgja sem koma að verkefninu.
 • Afgreiðslutími vegabréfa er 2 virkir dagar.
 • Ný vegabréf halda sama bláa lit og eldri vegabréf en nýjar landslagsmyndir og aðrar útlitsbreytingar má finna inni í nýju vegabréfabókunum.
 • Þjóðskrá Íslands framleiðir bæði vegabréf og dvalarleyfisskírteini í framleiðslukerfinu.
 • Alls þjónustar Þjóðskrá Íslands 50 umsóknarstöðvar fyrir vegabréf og dvalarleyfiskort á 45 stöðum. Þar af er 21 umsóknarstöð á erlendri grundu.

Heimild og mynd: stjornarrad.is.

Fagráð um stærðfræðikennslu

Unnið er að stofnun fagráðs um fyrirkomulag stærðfræðikennslu. Slíku fagráði verður meðal annars ætlað að skoða hvernig betur má stuðla að samfellu í stærðfræðikennslu milli skólastiga en ljóst er að sumir nemendur búa yfir of lítilli hæfni í stærðfræði þegar komið er á framhaldsskólastig. Fagráðið mun taka mið af niðurstöðum úttektar sem gerð var á stærðfræðikennslu í framhaldsskólum í tíð Illuga Gunnarssonar sem mennta- og menningarmálaráðherra en þar kemur fram að mikilvægt sé að auka eftirlit með kennslu og árangri í stærðfræðinámi, meta gæði námsgagna og námsefnisþörf og auka faglegt samstarf bæði framhaldsskóla innbyrðis og samráð milli skólastiga. – Mennta- og menningarmálaráðuneytið greinir frá þessu.

Einnig er stefnt að því að Menntamálastofnun verði falið að skima og prófa nemendur í stærðfræði á hliðstæðan hátt og nú er gert með læsi í lesfimiprófum.

„Við vitum að það eru sóknarfæri í því að efla stærðfræðikennslu á öllum skólastigum og auka samráð og samstarf milli þeirra. Við þurfum að nálgast þetta mál heildstætt og skoða til dæmis framboð á námsefni og námsgögnum og huga að menntun stærðfræðikennara. Það er nú þegar fjölþætt vinna í gangi innan ráðuneytisins sem þessu tengist en fagráðið verður mikilvægur ráðgefandi aðili. Það er komin góð reynsla á átaksverkefni eins og Þjóðarsáttmála um læsi og ég sé fyrir mér að við getum nýtt það besta úr þeirri nálgun til þess að auka árangur íslenskra nemenda í stærðfræði,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Heimild: stjornarrad.is

Lokaleikur KF á Kjarnafæðismótinu

KF lék lokaleik sinn á Kjarnafæðismótinu í gær er þeir mættu Þór-2, sem er 2. flokkur Þórs. Búist var við öruggum sigri KF í þessum leik. Fjórir í byrjunarliði KF eru leikmenn á reynslu og komu þrír frá KA og einn frá Dalvík. Á bekknum var svo einnig einn leikmaður á reynslu frá Geisla sem spilaði síðustu 18. mínúturnar.

KF byrjaði leikinn vel kom komust yfir strax á 3. mínútu leiksins með marki frá fyrirliðanum, Grétari Áka. Þrátt fyrir ágætis færi í fyrri hálfleik var staðan  1-0 þegar dómarinn flautaði til leikhlés.

Í síðari hálfleik gerðu Þórsarar strax fjórar breytingar, en alls voru þeir með 7 varamenn sem fengu allir að spreyta sig í síðari hálfleik. KF var með fjóra varamenn sem komu allir inná þegar leið á síðari hálfleik.

Það er skemmst frá því að segja að fleiri urðu mörkin ekki og vann KF góðan 1-0 sigur á Þór. Áhorfendur á leiknum voru um 50.

KF hefur nú klárað sína 5 leiki, unnið 2, gert 1 jafntefli og tapað tveimur. Liðið skoraði 8 mörk og fékk á sig 12.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða strákar fá lánssamning eða leika með liðinu í sumar, en þónokkrir nýir strákar léku með liðinu á þessu móti.

Lækka umferðarhraða við 75 brýr

Hraði verður tekinn niður í 50 km/klst á alls 75 einbreiðum brúm á þjóðvegum landsins, þar af á öllum einbreiðu brúnum á Hringvegi. Miðað er við þjóðvegi þar sem umferð er meiri en 300 bílar að jafnaði hvern dag ársins. Þetta er gert í umferðaröryggisskyni. Hraðalækkunin tekur gildi þegar búið verður að setja viðeigandi hraðaskilti upp við brýrnar, sem verður unnið jöfnum höndum á næstu mánuðum. – Vegagerðin greinir frá þessu á vef sínum.

Ákvörðun um þessa hraðalækkun og fleiri öryggisaðgerðir við brýr á þjóðvegum landsins var tekin af yfirstjórn Vegagerðarinnar fyrr í þessum mánuði.

Listi yfir 75 brýr þar sem hraði verður lækkaður:

 Veg-
 númer

Brúarheiti

Lengd

Byggingarár 
 Breidd
akbrautar 

ÁDU*
1 Súla 420 1973 3,97 1233
1 Brunná 24 1970 4 1352
1 Þverárvötn 36 1972 4 1418
1 Hverfisfljót 60 1968 4 1418
1 Breiðbalakvísl 166 1972 4,02 1549
1 Jökulsá á Sólheimasandi 159 1967 3,97 2380
1 Skjálfandafljót 58 1972 4,03 1188
1 Jökulsá á Fjöllum 102 1947 3,7 652
1 Sléttuá 46 1953 3 805
1 Tunguá 16 1955 3,1 349
1 Dalsá 34 1955 3,1 349
1 Stöðvará 27 1962 3,2 401
1 Krossá á Berufjarðarströnd 12 1983 4 354
1 Berufjarðará 42 1957 3,2 460
1 Búlandsá 18 1956 3,05 580
1 Hamarsá 120 1968 4,01 538
1 Geithellnaá 118 1974 4 535
1 Hofsá í Álftafirði 118 1955 3 525
1 Selá í Álftafirði 40 1985 4 525
1 Hvaldalsá 20 1977 4 524
1 Reyðará 14 1962 3,21 534
1 Karlsá 30 1955 3,8 534
1 Jökulsá í Lóni 247 1952 3,2 627
1 Laxá í Lóni 44 1949 3,2 627
1 Gjádalsá 22 1961 3,8 627
1 Hoffellsá 60 1960 3,2 1208
1 Holtakíll á Mýrum 50 1970 4 959
1 Hornafjarðarfljót 254 1961 3,2 959
1 Kolgríma í Suðursveit 77 1977 4 886
1 Steinavötn 104 2017 3,6 893
1 Fellsá í Suðursveit 46 1968 3,6 916
1 Jökulsá á Breiðamerkursandi 108 1967 4,17 916
1 Kvíá í Öræfum 38 1974 4 1260
1 Kotá í Öræfum 48 1965 3,4 1328
1 Virkisá 37 1958 3,2 1299
1 Svínafellsá 34 1965 3,4 1490
1 Skaftafellsá 51 1954 3,6 1490
249 Seljalandsá 8,01 1967 3,8 496
261 Litla-Þverá í Fljótshlíð 10 1975 4 858
30 Stóra-Laxá 120 1985 4 1326
30 Hvítá hjá Brúarhlöðum 73,3 1927 2,6 373
31 Hvítá hjá Iðu 107 1957 3,8 419
32 Þverá 20 1965 4 497
32 Fossá 58 1965 4 434
32 Sandá 35 1965 4 434
32 Þjórsá hjá Sandafelli 185 1973 3,58 396
35 Tungufljót 67 1966 4,5 2428
355 Fullsæll hjá Reykjum 22 1962 3,2 606
359 Tungufljót hjá Króki 90 1990 4 749
363 Öxará 28 1998 4 501
47 Laxá í Kjós 43 1932 3,4 808
50 Hvítá hjá Kljáfossi 41 1985 4,1 431
50 Þverá á Lundahyl 46 1980 4 515
50 Norðurá hjá Haugum 118 1972 4 515
518 Kaldá 12 1958 3,2 328
54 Miðá 72 1946 3,5 306
54 Hörðudalsá 42 1947 3,74 306
60 Haukadalsá 53 1971 4 815
60 Fáskrúð 40 1979 4 676
60 Glerá 40 1973 4 676
63 Botnsá í Tálknafirði 17 1950 3,04 301
74 Laxá hjá Syðra-Hóli 75 1973 4 448
75 Austurós Héraðsvatna 130 1977 4 518
821 Finnastaðaá 12 1970 4 400
821 Djúpadalsá 22 1975 4 400
821 Skjóldalsá 14 1975 4 400
823 Eyjafjarðará hjá Hrafnagili 137 1982 4 335
846 Reykjadalsá hjá Laugum 32 1944 2,8 378
85 Rangá hjá Ófeigsstöðum 8 1958 3,4 586
85 Skjálfandafljót 196 1935 2,83 586
85 Köldukvíslargil 70 1971 4 786
85 Jökulsá í Axarfirði 116 1957 3,8 473
864 Syðri-Vatnsleysa II 8 1956 3,5 305
931 Grímsá á Völlum 70 1981 4 423
95 Gilsá á Völlum 34 1956 3,7 396

*ÁDU: Ársdagsumferð, sem er umferðin að meðaltali hvern dag ársins.

Heimild: Vegagerðin.is

Sumarstörf á Hornbrekku

Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hornbrekka í Ólafsfirði hefur auglýst eftir starfsmönnum til afleysinga sumarið 2019. Umsækjendur þurfa að hafa náð 18 ára aldri. Um er að ræða störf við umönnun, í eldhúsi og í ræstingu.  Umsóknarfrestur er til 20. febrúar 2019.  Nánari upplýsingar veitir Birna Sigurveig Björnsdóttir forstöðumaður og hjúkrunarforstjóri í síma 466 4066 / 663 5299 eða í gegnum birna@hornbrekka.is.

Markmið og stefna Hornbrekku er að er að tryggja íbúum vistlegt heimili, hjúkrun, þjálfun og aðhlynningu eftir þörfum hvers og eins. Að veita bestu mögulegu þjónustu með áherslu á vellíðan og ánægju íbúa. Íbúar heimilisins eru mismunandi og hafa mismunandi þarfir, starfsfólk leggur sig fram við að viðhalda eða bæta líkamlega, andlega og félagslega færni, efla og styðja sjálfræði og sjálfsbjörg við athafnir daglegs lífs og auka lífsgæði við breyttar aðstæður.

Fjarðargangan í Ólafsfirði eftir viku

Eftir viku fer fram hin vinsæla Fjarðarganga í Ólafsfirði. Allt stefnir í að uppselt verði í gönguna en nú þegar hafa 122 skráð sig til leiks, en aðeins er hægt að skrá 150 manns til leiks.

Í kvöld verða dregnir út frábærir vinningar úr skráningu í 15km og 30 km.

Leiðir:

 • 30 km fyrir 17 ára og eldri, skráningargjald 7.000 kr. til og með 2.febrúar, eftir það
  hækkar skráningargjald í 10.000 kr. Skráningu líkur 7. febrúar kl. 21:00.
  Allir sem taka þátt í 30 km fá veglegan verðlaunapening og halda númeri sínu til
  minningar.
 • 15 km fyrir 12 ára og eldri, skráningargjald 4.000 kr. til og með 2.febrúar, eftir það
  hækkar skráningargjald í 6.000 kr.  Allir sem taka þátt í 15 km fá verðlaunapening.
 • 5 km ekkert aldurstakmark, skráningargjald 1.000 kr, engin tímamörk á skráningu,
  allir þátttakendur fá verðlaunapening.

Drög að dagskrá 8.-9. febrúar 2019

Föstudaginn 8. febrúar: Afhending gagna og brautarlýsing.

Laugardag 9.febrúar Fjarðargangan kl. 11:00 allir flokkar.

Veisla í Tjarnarborg, verðlaun, útdráttarverðlaun, glæsilegt veislukaffi, kl 16:00.

Lokahóf Fjarðargöngunnar kl. 20:00 Matur, fjöldasöngur, skemmtiatriði, sveitaball!

Verð 6.900 á mann Ferðir milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar gegn gjaldi.

Nánari upplýsingar og miðapantanir: lea@northexperience.is

No photo description available.No photo description available.

BF og HK mættust á Siglufirði

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og HK-B mættust í Íþróttahúsinu á Siglufirði í gærkvöldi. Búist var við erfiðum leik, en HK hefur verið í efri hluta deildarinnar en BF í neðri hlutanum.

Það voru gestirnir sem byrjuðu af krafti og komust í 0-3 og 2-7 og tóku þá BF stelpurnar strax leikhlé. Í stöðunni 4-10 tóku BF stelpurnar við sér og jöfnuðu leikinn í 11-11 og komust yfir 15-13. HK stelpurnur áttu þá mjög góðan kafla og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 15-22. BF stelpurnar löguðu aðeins stöðuna en HK vann hrinuna nokkuð örugglega 18-25.

Í annari hrinu voru BF stelpur með yfirhöndina í upphafi en HK stelpur leiddu svo út hrinuna. BF komst í 2-0 og 5-2 en sex stig í röð hjá HK breytti stöðunni í 5-8 og tóku þá BF stelpur leikhlé. HK var áfram sterkara liðið og komst í 6-12 og 8-15 og tóku þá BF stelpur annað leikhlé. HK stelpurnar voru áfram sterkari og breyttu stöðunni í 12-20 og 17-22. BF stelpurnar söxuðu jafnt og þétt á forskotið en það dugði ekki til og vann HK aðra hrinu 21-25 og staðan orðin 0-2!

BF stelpurnar voru mun betri í þriðju hrinu og sáu HK stelpurnar aldrei til sólar. BF komst í 4-0 og 6-1 og vaknaði þá HK af blundinum og skoruðu þrjú stig í röð og breyttu stöðunni í 6-4. BF stelpurnar héldu áfram að leiða og héldu áfram góðu forskoti, Í stöðunni 14-11 gerir BF fjögur stig í röð og kemst í 18-11 og 20-13. Í stöðunni 22-15 komu þrjú stig frá HK og staðan orðin 22-18 og tóku þá heimakonur leikhlé. BF stelpurnar kláruðu svo hrinuna með stæl og unnu 25-19 og var sigurinn í hrinunni aldrei í hættu.

Í fjórðu hrinu var jafnræði með liðunum fram í miðja hrinu, en þá voru HK stelpur sterkara liðið og allt gekk upp hjá þeim. HK komst í 1-3 og tók þá BF strax leikhlé. HK hélt áfram 2ja stiga forskoti fram í miðja hrinu og var staðan 3-5, 5-7, 8-10, en þá fór að draga á milli og komst HK í betri stöðu. BF tók annað leikhlé í stöðunni 8-12 en þá var HK að byrja síga framúr. BF náði með góðum kafla að jafna í 14-14 og 16-16, en þá tók HK völdin og komst í 17-22. HK var svo sterkari í lokin og unnu nokkuð þægilega 19-25 og leikinn 1-3. Leikurinn tók í heildina 96 mínútur.

Opið í Tindaöxl

Skíðasvæðið í Tindaöxl í Ólafsfirði verður opið í dag, laugardaginn 2.febrúar. Svæðið er orðið nokkuð gott upp að fjórða staur, en grunnt utan troðna leiða samkvæmt upplýsingum frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar. Nánari upplýsingar eru veittar í skíðaskálanum Tindaöxl.

Bárubraut verður troðin kl. 09:00 og einnig verður troðin braut við íþróttahúsið. Í skoðun er að spora á Ólafsfjarðarvatni.

Topp færi í Skarðsdal

Skíðasvæðið í Skarðdal er opið í dag, laugardaginn 2. febrúar frá kl. 10:00-16:00. Topp færi og troðinn þurr snjór samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmönnum svæðisins. Fjórar lyftur verða opnar í dag og einnig er göngubraut tilbúin í Hólsdal. Mikið af snjó hefur safnast í brekkurnar síðustu daga og nú er lag fyrir alla að skella sér á skíði.

 

Auglýst eftir verslunarstjóra í Kjörbúðinni Siglufirði

Kjörbúðin Siglufirði leitar að jákvæðum, ábyrgðarfullum og kraftmiklum verslunarstjóra sem hefur gaman af mannlegum samskiptum. Umsóknarfrestur er til 9. febrúar 2019.   Allar nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Heiðari Róberti rekstrarstjóra Kjörbúða – heidar@samkaup.is.

Hæfniskröfur: 

 • Marktæk reynsla af stjórnun og starfsmannahaldi hjá verslunar- og/eða þjónustufyrirtækjum.
 • Styrkleiki í mannlegum samskiptum, sjálfstæð vinnubrögð, skipulagshæfni, reglusemi og árverkni í hvívetna.

 

Átak í matarsóun í Lundarskóla á Akureyri

Á dögunum var átak í eina viku í Lundarskóla á Akureyri gegn matarsóun. Umræða um almenna matarsóun átti sér stað í öllum árgöngum skólans og allir árgangarnir fengu tækifæri til að leggja sitt af mörkum við að minnka matarsóun í Lundarskóla. Átakið gekk mjög vel og sá árgangur sem henti minnsta matnum fékk umbun fyrir og fékk að velja matseðilinn þann 21. febrúar næstkomandi.  Í þessu viku átaki var 10. bekkur með minnsta matarsóun. Þetta kemur fram á vefsíðu Lundarskóla.

Fyrir átakið henti Lundarskóli daglega um 30 kílóum af matarafgöngum. Í lok átaksins hafði heildartalan fyrir vikuna aðeins náð 13,7 kílóum. Þess má geta að nemendur borðuðu vel, hentu minni mat en borðuðu jafn mikið eða jafnvel meira í sumum tilfellum.

Nemendur voru almennt mjög áhugasamir og meðvitaðir um matarsóunina, fengu sér hæfilegt magn af mat á diskinn, fóru fleiri ferðir ef þeir vildu og kláruðu af diskunum sínum.

Áætlað er að fylgja átakinu eftir og vigta afgangana nokkrum sinnum fram á vorið.

Lundarskóli

Heimild: lundarskoli.is

Fyrirlestur um einhverfu haldinn í MTR

Ásdís Bergþórsdóttir sálfræðingur heldur fyrirlestur í Menntaskólanum á Tröllaskaga fimmtudaginn 31. janúar kl. 12:10. Fyrirlesturinn er opinn öllum en foreldrar barna á einhverfurófi eru sérstaklega boðnir velkomnir. Sama á við um fólk sem vinnur með þessum hópi. Ásdís Bergþórsdóttir lagði sérstaka áherslu á einhverfurófsraskanir í sálfræðinámi sínu. Hún fékk réttindi til að starfa sem sálfræðingur árið 2014. Þetta kemur fram á vef mtr.is.

Bæjar- og menningarvefur