Ólafsfjörður í dag

Fjöldi þjóðvega á Norðurlandi voru lokaðir í dag. Siglufjarðarvegur er enn lokaður frá því í gærkvöldi, Öxnadalsheiði er lokuð, Þverárfjall og Vatnsskarð einnig lokað.

Í Ólafsfirði var einnig mjög hvasst í dag og fóru mestu hviðurnar 31 m/s í morgun kl. 10:00-11:00.

Á Siglufirði fór mesta hviða í 40 m/s kl. 16:00-17:00 í dag. Mestur vindur var þar milli kl. 13:00-17:00 í dag.

Ljósmyndir með fréttinni tók Guðmundur Ingi Bjarnason, og eru þær birtar með góðfúsu leyfi hans.

Myndir: Guðmundur Ingi Bjarnason

Lokað í Menntaskólanum á Tröllaskaga

Vegna veðurspár verður Menntaskólinn á Tröllaskaga lokaður föstudaginn 14. febrúar. Ekki er hefðbundin kennsla á föstudögum í skólanum og því hefur þetta ekki áhrif á störf nemenda og kennara heldur einungis áhrif á annað starfsfólk skóla en það sem sinnir nám og kennslu. Síma verður ekki svarað og húsnæðið lokað. Ef áríðandi er að ná til skólans hafið samband við skólameistara Láru Stefánsdóttur sími 896-3357.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Fréttatilkynning frá Fjallabyggð – allt skólahald fellur niður

Vegna spár um ofsaveður á öllu landinu næsta sólarhring og óvissustigs almannavarna sem lýst hefur verið yfir á öllu landinu var tekin sú ákvörðun á fundi viðbragðsaðila í Fjallabyggð að allt skólahald í Fjallabyggð falli niður á morgun föstudaginn 14. febrúar 2020. Það gildir um leikskólastarf, grunnskólastarf og starf Tónlistarskólans á Tröllaskaga í Fjallabyggð. Þessar stofnanir verða því lokaðar.
Þá fellur allur akstur skólarútu niður á morgun föstudag og ekkert starf verður í Félagsmiðstöðinni Neon á föstudagskvöld.
Íþróttahús og sundlaugar Fjallabyggðar verða einnig lokaðar í báðum byggðarkjörnum á morgun 14. febrúar.
Þá fellur allt skipulagt starf fyrir eldri borgara á vegum sveitarfélagsins niður í báðum byggðarkjörnum svo og starf í Iðjunni dagvist.
Íbúar eru hvattir til að vera ekki á ferli að nauðsynjalausu ef spár ganga eftir og ganga vel frá lausum munum til að koma í veg fyrir foktjón eins og kostur er.

Styrktartónleikar í Siglufjarðarkirkju

Þriðjudaginn 11. febrúar kl. 20:00 verða tónleikar í Siglufjarðarkirkju til styrktar Björgunarsveitarinnar Stráka, til kaupa á sértækum skyndihjálpartöskum til að hafa í bílum sveitarinnar.

Glæsilegur hópur flytjenda mun koma fram á tónleikunum og flytja fjölbreytta dagskrá. Miðaverð er aðeins 2000 krónur.

Meðal flytjenda verða:
Karlakórinn í Fjallabyggð
Rafn Erlendsson
Guito og Steini
Landabandið
Hófí
Eva Karlotta, Ragna Dís og Fannar
Ræningjarnir
Dúó Brasil
og margir fleiri.

 

Blakfélag Fjallabyggðar bikarmeistari

Bikarmót Blaksambands Íslands fyrir yngri flokka var haldið HK í Digranesi og Fagralundi um helgina. Blakfélag Fjallabyggðar sendi lið í 4. flokki í mótið í blönduðu liði. Í liðinu voru einnig tveir drengir úr Dalvíkurbyggð.

Blakfélag Fjallabyggðar gerði sér lítið fyrir og varð bikarmeistari 2020 og vann alla sína 5 leiki. Frábær árangur hjá liðinu og sannarlega mikill efniviður á ferðinni.

Liðið spilaði við Vestra í 1. umferðinni og vann 2-0 í nokkuð jöfnum leik, (25-23, 25-21).  Í annari umferð spilaði BF við HK og vann örugglega, 2-0, (25-15, 25-9). Í þriðju umferð spilaði BF við Vestra og vann 2-0 (25-18, 25-21). Í fjórðu umferð vann BF Þrótt Nes 2-0 í jöfnum og spennandi leik, lokatölur 25-22, 25-23. Í 5. umferðinni vann BF öruggan sigur á Aftureldingu 2-0, (25-7, 25-15).

Mynd frá Frétta- og fræðslusíða UÍF.
Mynd: Grétar og Bella

Sóknarpresturinn í Ólafsfirði hættir í vor

Greint hefur verið frá því opinberlega á vef Þjóðkirkjunnar að sr. Sigríður Munda Jónsdóttir, sóknarprestur í Ólafsfjarðarprestakalli hafi verið ráðin sóknarprestur í Þorlákshafnarprestakalli. Samkvæmt upplýsingum frá formanni sóknarnefndar Ólafsfjarðarsóknar mun sr. Sigríður láta af störfum í vor eftir fermingar sóknarbarna. Sr. Sigríður Munda var vígð árið 2004 til Ólafsfjarðarprestakalls í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Sr. Sigríður var meðal 6 umsækjanda um stöðu sóknarprests í Þorlákshafnarprestakalli og var hún valin af kjörnefnda prestakallsins í starfið.

Sr. Sigríður Munda lauk stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum á Akranesi vorið 1986. Þá lauk hún BA-próf í uppeldisfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og cand. theol. próf frá sama skóla árið 2003. Diplómaprófi í jákvæðri sálfræði lauk hún frá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2017 og mun ljúka diplómaprófi í sálgæslufræðum í vor frá sömu stofnun.

Ekki hefur verið auglýst í starf sóknarprests í Ólafsfjarðarprestakalli, en líklegt er að það verði á allra næstu vikum.

Mynd frá Sigríður Munda Jónsdóttir.

 

 

Úrslit og myndir úr Fjarðargöngunni

Úrslit liggja fyrir í Fjarðargöngunni sem hófst í morgun kl. 11:00. Alls voru 240 keppendur skráðir í keppnina og var uppselt í gönguna fyrir keppnisdaginn. Keppendur voru heppnir með veður og vinda en hiti var um frostmark og hægur vindur þegar keppnin hófst.

Akureyringurinn Arnar Ólafsson frá SKA kom fyrstur í mark í 30 km göngunni á 1.32 klst. Gísli Einar Árnason frá SKA var í 2. sæti rúmlega mínútu á eftir fyrsta manni. Birkir Stefánsson var þriðji í mark, rúmlega 6 mínútum á eftir fyrsta manni. Veronika Guseva var fyrsta kvenna í mark í 30 km göngu, á tímanum 1.58 klst. Alls tóku 104 þátt í 30 km göngunni í ár og luku 102 keppni.

Í 15. km göngunni var Þorvaldur Sveinn Guðbjörnsson (SÓ-Elítan) í 1. sæti á tímanum 0,56 klst. Árni Stefánsson frá SKA var í 2. sæti og var aðeins 0,24 sek. á eftir fyrsta manni.  Markmaður KF, Halldór Ingvar Guðmundsson var í 3. sæti á tæpum 0,58 klst. Lísebet Hauksdóttir var fyrst kvenna í 15 km göngunni á 01:01:41 klst. Alls tóku 76 keppendur þátt í 15 km göngunni, tveir mættu ekki til leiks.

Í 3. km göngunni var Árni Helgason frá SÓ í 1. sæti á 0,15 klst. Ragnhildur Vala Johnsdóttir var fyrst kvenna í 3. km göngunni á 0,16 klst. Þess má geta að 34 tóku þátt í 3. km göngunni.

Öll önnur úrslit má finna á Tímataka.net.

Myndir með frétt tók Jón Valgeir Baldursson, og eru honum færðar bestu þakkir.

Styrkja starfsemi Virkisins á Akureyri

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar,  hafa undirritað samkomulag um styrk til Akureyrjarbæjar til starfsemi Virkisins. Styrkurinn hljóðar upp á þrjár milljónir króna.

Virkið er þverfaglegur samstarfsvettvangur fjórtán aðila á Akureyrar- og Eyjafjarðarsvæðinu og er meginmarkmiðið að grípa ungmenni sem falla milli kerfa og veita þeim heildstæðari þjónustu. Starfsemi Virkisins miðar að því að aðstoða ungmenni, á aldrinum 16-29 ára, sem þurfa á samfelldri þjónustu að halda vegna atvinnuleitar, skólagöngu, endurhæfingar eða annarrar meðferðar. Virkið býður upp á einstaklingsmiðaða ráðgjöf með það að markmiði að bæta líðan og efla virkni ungmenna í samfélaginu.

Með því að styðja við starfsemi Virkisins er stutt við snemmtæka íhlutun og forvarnarstarf á Norðurlandi og við undirritunina sagði Ásmundur Einar að það væri „mikilvægt að styðja við starfsemi af þessum toga, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins“ og að það væri „ánægjulegt að sjá gróskuna í úrræðum af þessum toga á Akureyri“.

Ásthildur sagði við undirritunina að það væri gríðarlega mikilvægt og ánægjulegt að finna fyrir einlægum áhuga ráðherrans á því góða starfi sem unnið er í Ungmennahúsinu á Akureyri. „Virkið er verkefni sem er algjörlega til fyrirmyndar og mikilvægt að finna því fastan farveg til lengri tíma litið. Hver einasti einstaklingur skiptir máli og það vita þeir sem starfa í Virkinu”.

Heimild: www.stjornarradid.is

 

Hátíðarhöld vegna 100 ára afmælis Skíðafélags Siglufjarðar

Í dag verður haldið upp á 100 ára afmæli elsta skíðafélags á landinu. Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg fagnar deginum með hátíðarmóti á Skíðasvæðinu í Skarðsdal.

Gönguskíðanámskeið verður á Hóli kl. 10:00-12:00. Skíðagleði, leikjabraut og afmælismót í svigi verður í Skarðsdal kl. 10:00-14:00. Afmæliskaffi verður kl. 16:00 í Bláa húsinu og þar verður einnig sýning á skíðum völdum gripum úr vörslu Síldarminjasafnsins.

100 ára afmæli Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborg

Dagskrá Fjarðargöngunnar í Ólafsfirði

Fjarðargangan fer fram í dag í Ólafsfirði og hafa undirbúningsaðilar komið fyrir snjó í miðbænum fyrir keppnina. Afhending keppnisgagna hefst kl. 8:00-10:00 í Íþróttahúsinu í Ólafsfirði. Keppnin sjálf hefst kl. 11:00 og eru íbúar á áhugamenn hvattir til að fylgjast með keppninni.
Dagskrá:
 • Kl. 08-10 Afhending keppnisgagna. Íþróttahúsinu á Ólafsfirði
 • Kl. 08-11 Fjallakofinn og Ísfell/KRS (íþróttahús Ólafsfirði)
 • Kl. 08-16 Smurningsaðstaða í sal, gengið inn að sunnan. Íþróttahús
 • Kl. 10:00 Brautarfundur í sal Íþróttahúsins
 • Kl. 11:00 Start, allar vegalengdir
 • Kl. 15:00 Kaffisamsæti og verðlaunaafhending í Tjarnarborg
Fjarðargöngupartý kl. 22:00, Höllin Veitingahús.
 • Frítt inn og drykkur í boði Hallarinnar við innganginn!
Mynd frá Fjarðargangan.
Myndir: fjarðargangan

Mynd frá Fjarðargangan.

Elías Þorvaldsson útnefndur Bæjarlistamaður Fjallabyggðar við hátíðlega athöfn

Elías Þorvaldsson hefur verið útnefndur Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2020. Er það í ellefta sinn sem bæjarlistamaður er útnefndur í Fjallabyggð.
Athöfnin fram fór í Menningarhúsinu Tjarnarborg í vikunni en þar voru einnig formlega afhentir, menningar- og fræðslustyrkir, styrkir til reksturs safna og til hátíðarhalda.

Ólafur Stefánsson formaður markaðs- og menningarnefndar og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar afhentu styrkina.

Við athöfnina voru flutt tónlistaratriði og fram komu þau Hörður Ingi Kristjánsson sem spilaði á píanó, Guðmann Sveinsson og Hólmfríður Ósk Norðfjörð Rafnsdóttir fluttu tvö lög og Karlakórinn í Fjallabyggð fyllti svo Tjarnarborg með söng sínum undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar bæjarlistamanns. Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar.

Í ár voru úthlutaðir styrkir til fræðslu- og menningarmála að upphæð 10.600.000.-  Þar af fara kr. 2.700.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 3.250.000.- til hátíðarhalda og kr. 2.750.000.- til reksturs safna og setra. Styrkur til fræðslumála nam kr. 100.000.- og framkvæmdastyrkur til Pálshúss nemur kr. 1.500.000.-
Að auki er árlegur styrkur til bæjarlistamanns Fjallabyggðar kr. 300.000.-

Heimild: Fjallabyggð.is

Myndir: Fjallabyggð / Albert Gunnlaugsson
Myndir: Fjallabyggð / Albert Gunnlaugsson

Von á 240 skíðagöngufólki til Ólafsfjarðar

Hin árlega Fjarðarganga fer fram í Ólafsfirði, laugardaginn 8. febrúar. Eftir frábæra Fjarðargöngu á síðasta ári hófst strax undirbúningur fyrir næstu göngu. Metþátttaka var í göngunni árið 2019 eða 150 manns og var uppselt.
Fjarðargangan er hluti af Íslandsgöngunni sem er mótaröð hjá Skíðasambandi Íslands í skíðagöngu.
Í ár er aftur orðið uppselt í gönguna og er von á 240 þátttakendum. Mikill metnaður er lagður í gönguna af Skíðafélagi Ólafsfjarðar svo að upplifun þátttakenda og áhorfenda verði sem skemmtilegust. Keppnisbrautin er gerð með því markmiði að allir geti tekið þátt, ungir, gamlir, reyndir og óreyndir.
Brautin liggur meðal annars um götur á Ólafsfirði. Reynt er að gera viðburðinn glæsilegan með mikilli umgjörð, stemmningu og flugeldum.  Fyrsta konan og fyrsti karlinn í göngunni fá blómakrans.
Verðlaunaafhending og kaffisamsæti er að keppni lokinni, sannkölluð veisla að hætti heimamanna.
Íbúar Fjallabyggðar og skíðaáhugafólk er hvatt til að mæta og fylgjast með göngunni.
Reiknað er með að heimamenn sé um 40 af þessum 240 sem gert er ráð fyrir í göngunni. Gera má ráð fyrir að hótel og gistiheimili á svæðinu séu vel nýtt þessa helgina. Svona viðburður skiptir samfélagið og fyrirtæki miklu máli í Fjallabyggð.
Image preview
Texti og myndir: Aðsent
Image preview
Image preview

Aflatölur 2019 í Fjallabyggð – aukning á Siglufirði

Tæplega 29.000 þúsund tonn voru lönduð á Siglufirði árið 2019 en aðeins tæplega 390 tonn voru lönduð í Ólafsfirði og fækkaði um tæp 90 tonn á milli ára en jókst um tæp 5000 tonn á Siglufirði.

Fjöldi landana og afli í höfnum Fjallabyggðar tímabilið 1. janúar – 31. desember 2019 ásamt samanburði við sama tíma árið 2018.
2019 Siglufjörður 28830 tonn í 1873 löndunum.
2019 Ólafsfjörður 389 tonn í 363 löndunum.
2018 Siglufjörður 24207 tonn í 1816 löndunum.
2018 Ólafsfjörður 478 tonn í 457 löndunum.

Eyrarrósin 2020 til Siglufjarðar?

Eyrarrósin, sem nú er veitt í sextánda sinn, er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Alls bárust 25 umsóknir um Eyrarrósina 2020, en umsóknarfrestur rann út 7. janúar.

Sex verkefni hafa verið valin á Eyrarrósarlistann í ár.

Verkefnin:

Júlíana – hátíð sögu og bóka (Stykkishólmur)
Kakalaskáli í Skagafirði (Akrahreppur)
Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði (Fjallabyggð, Siglufjörður)
Plan B Art Festival (Borgarbyggð/Vesturland)
Reykholtshátíð (Borgarfjörður/Vesturland)
Skjaldborg – Hátíð íslenskra heimildarmynda (Patreksfjörður)

Þrjú verkefnanna hljóta formlega tilnefningu til verðlaunanna og eiga þar með möguleika á að hljóta Eyrarrósina 2020. Þau eru: Kakalaskáli í Skagafirði, Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda á Patreksfirði.

Eyrarrósin verður afhent við hátíðlega athöfn þann 14. febrúar næstkomandi á Seyðisfirði, heimabæ handhafa Eyrarróasarinnar 2019; listahátíðarinnar List í ljósi. Frú Eliza Reid, verndari Eyrarrósarinnar mun afhenda verðlaunin.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar, Byggðastofnunar og Air Iceland Connect.

UM VERKEFNIN

Júlíana – hátíð sögu og bóka

Framtak fjögurra kvenna í Stykkishólmi sem ákváðu að koma á fót bóka- og söguhátíð að vetri til þess að lífga upp á menningarlífið í bænum. Fyrsta hátíðin fór fram í febrúar 2013 og hefur verið haldin árlega síðan. Hátíðin hefur að leiðarljósi að stuðla að umfjöllun um þýðingu sögunnar og sagnaarfsins í samtímanum og hverfist hver hátíð um ákveðið viðfangsefni. Júlíana – hátíð sögu og bóka er haldin í góðu samstarfi við ýmsar menningar- og menntastofnanir Stykkishólmsbæjar og býður árlega heim rithöfundum í fremstu röð. Hátíðin ber nafn Júlíönu Jónsdóttur í Akureyjum (1838-1917), fyrstu íslensku skáldkonunnar sem fékk gefna út eftir sig ljóðabók og leikrit eftir sig sett á svið.

Kakalaskáli í Skagafirði – TILNEFNING

Í Kakalaskála er sögu Sturlungaaldar miðlað á afar áhugaverðan hátt. Um er að ræða sögu- og listasýningu með hljóðleiðsögn. Sýningin var unnin af 14 listamönnum frá 10 mismunandi þjóðlöndum vorið 2019 sem gefur nýja og ferska sýn á þjóðararfinn og stendur fyrir sínu bæði sem sögu- og listasýning. Á staðnum er einnig sérstætt útilistaverk sem sviðsetur Haugsnesbardaga. Útilistaverkið samanstendur af rífega 1300 steinum sem taka hver álíka pláss og einn maður í herfylkingu myndi gera. Sviðsmyndin sýnir fylkingar Sturlunga og Ásbirninga skömmu áður en þær skella saman í bardaga. Verkið er unnið af Sigurði Hansen.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði – TILNEFNING

Í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hefur um árabil verið rekið fjölþætt menningarstarf allt árið um kring sem hefur haft mikil áhrif á bæjarbraginn. Aðstaðan er góð fyrir sýningar í litla sýningarrýminu Kompunni, haldnir eru fyrirlestrar og kynningar af ýmsum toga í alrými hússins og í stóra vinnusalnum eru haldnir tónleikar, listasmiðjur, fjöllistasýningar, gjörningar og margt fleira. Á þeim 8 árum sem starfseminni hefur verið haldið úti hafa um þúsund listamenn og skapandi einstaklingar komið fram í Alþýðuhúsinu og um 300 viðburðir verið settir upp fyrir gesti og gangandi að njóta.

Plan-B Art Festival, Borgarnesi

Grasrótarhátíðin Plan-B Art Festival hefur frá árinu 2016 fest sig í sessi sem þekkt stærð í íslensku listalífi og vex ásmegin ár frá ári. Hátíðin er haldin árlega í Borgarnesi og nærsveitum. Stefna Plan-B Art Festival er að vera vettvangur fyrir listamenn til að þróa hugmyndir sínar og listsköpun í því formi sem þeir kjósa. Þeir miðlar sem listamenn hátíðarinnar vinna í eru því fjölbreyttir, allt frá málverki til gjörninga, sem gerir hátíðina að upplifun sem gestir taka beint og óbeint þátt í að skapa.

Reykholtshátíð í Borgarfirði

Reykholtshátíð er ein af rótgrónustu tónlistarhátíðum landsins og hefur verið haldin árlega allt frá árinu 1996 síðustu helgina í júlí í Reykholti í Borgarfirði. Flytjendur úr fremstu röð íslensks tónlistarlífs hafa komið fram á hátíðinni í gegnum tíðina auk margra erlendra gesta. Aðstandendur Reykholtshátíðar hafa unnið brautryðjendastarf á Íslandi með því að halda úti tónlistarhátíð á landsbyggðinni með áherslu á klassíska söng- og hljóðfæratónlist. Hátíðin er mikilvægur viðburður í menningarlífi sögustaðarins Reykholts og telst til eins af hápunktum ársins í menningarlífi Vesturlands og á landsvísu.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda, Patreksfirði – TILNEFNING

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndafólks og eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar. Auk frumsýninga eru á dagskrá vinnustofur, hliðardagskrá og skemmtanahald sem setur mikinn svip á Patreksfjörð á meðan á hátíðinni varir.

Karlalið BF spilaði gegn Aftureldingu

Blakfélag Fjallabyggðar lék við Aftureldingu-B í dag á Siglufirði, og fór leikurinn fram strax á eftir kvennaleiknum. Í lið BF vantaði meðal annars Óskar Þórðarsson, sem hefur spilað stórt hlutverk í liðinu undanfarin ár. Agnar Óli Grétarsson (f.2008) lék sem liberó í dag fyrir BF og stóð sig vel miðað við aldur og litla reynslu. Afturelding er á toppi deildarinnar og var búist við erfiðum leik fyrir BF sem hefur aðeins fengið 5 stig úr leikjum vetrarins.

Afturelding fór vel af stað í fyrstu hrinu og komst í 2-8, 3-11 og 6-12. BF komst þá aðeins betur inn í leikinn og minnkaði muninn í 9-12 og 12-14. Afturelding tók leikhlé í stöðunni 14-15 og komust fljótlega í 15-20 og tóku þá heimamenn leikhlé. Daníel Pétursson var settur inn á til að setja meiri þunga í sóknarleikinn síðustu mínúturnar. Afturelding komst í 18-23 og kláraði leikinn 18-25.

BF byrjaði aðra hrinu vel og lét finna fyrir sér og komust í 5-1 en Afturelding jafnaði 5-5 og komust yfir 7-9. Gestirnir sigu hægt framúr og náðu upp góðu forskoti og voru sterkari þegar leið á hrinuna. Afturelding komst í 11-16 og tóku þá heimamenn leikhlé. BF náði að minnka muninn í fjögur stig en komust ekki nær gestunum sem eru með sterkt lið.  Loktatölur í hrinunni voru 16-25 og vann Afturelding hana með nokkru öryggi.

Þriðja hrinan gekk ekki vel hjá BF og var aldrei möguleiki eftir fyrstu mínúturnar.  Jafnt var í stöðunni 3-3 en eftir það átti Afturelding leikinn og komust í 4-13 með því að skora 8 stig í röð og tók þá þjálfari BF loksins leikhlé til að stöðva þetta áhlaup. BF náði einu stigi til viðbótar strax en Afturelding refsaði strax til baka og komust í 7-23 og sýndu mikla yfirburði á vellinum. Lokatölur urðu 10-25 í öruggum sigri Aftureldingar.

Erfiður leikur í dag fyrir BF en liðið leikur næst 16. febrúar gegn HK-B á Siglufirði.

Blakfélag Fjallabyggðar mætti Aftureldingu

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Aftureldingu-B í 1. deild kvenna, Benectadeildinni í dag á Siglufirði. Afturelding er toppliðið í deildinni, skipað ungum og öflugum stelpum. Afturelding hafði aðeins tapað einum leik en unnið tólf fyrir þennan leik á meðan BF hafði unnið 8 og tapað 7. Búist var við hörkuleik á milli þessara liða en þau mættust í Mosfellsbæ 25. janúar síðastliðinn og vann þá Afturelding 3-1.

Fyrsta hrina var æsispennandi en Afurelding hafði forystuna framan af og náði upp góðu forskoti áður en BF komst betur inn í leikinn. Afturelding komst í 2-6, 4-9 og 6-12.  Í stöðunni 9-15 tók BF gott leikhlé og komu sterkari til leiks eftir það. BF skoraði hérna 7 stig í röð og komst yfir í fyrsta sinn í hrinunni, 16-15 og tóku nú gestirnir leikhlé. Lokakaflinn var spennandi og jafn, staðan var 19-19  og 19-22 fyrir Aftureldingu. BF komst aftur inn í leikinn og jafnaði 23-23. Afturelding náði síðustu tveimur stigunum og unnu hrinuna 23-25, og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var kaflaskipt, BF byrjaði vel en Afturelding komst fljótt inn í leikinn og voru sterkari á endasprettinum. BF komst í 5-1 og tóku gestirnir strax leikhlé til að stöðva þessa hrinu. BF komst í 7-4 en þá kom góður kafli hjá Aftureldingu sem skoraði nú 7 stig í röð og komst yfir 7-11 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Afturelding hafði yfirhöndina út hrinuna og hleyptu ekki BF nærri sér. Staðan var 10-15, 15-19 og 16-22 en BF náði ekki upp sínu besta spili í lok hrinunnar. Afturelding vann nokkuð örugglega 18-25 og var komið í 0-2.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi en Afturelding komst í 0-4 en BF jafnaði 5-5 og komst yfir í 8-5. Afturelding skoraði aftur 7 stig í röð og tóku forystuna í stöðunni 8-12. BF náði með góðum sóknum að jafna 13-13 og komst svo yfir 17-15 og tóku gestirnir hérna dýrmætt leikhlé. Afturelding jafnaði 18-18 og komst yfir 19-21. BF minnkaði hérna muninn í eitt stig, en það var ekki nóg, gestirnir tóku síðustu fjögur stigin og unnu hrinuna 20-25.

BF stelpurnar voru óheppnar að fá ekki meira út úr þessum leik eftir mikla baráttu.

 

Endurbæta lyftuna í Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar fyrir 4 milljónir

Ráðast þarf í endurbætur á lyftunni Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar vegna viðvarandi bilana. Á móti hefur verið samþykkt að fresta framkvæmdum á lóð hússins næstu tveggja ára til að mæta kostnaði.
Hlutdeild Dalvíkurbyggðar í endurbótunum eru tæpar 4 milljónir króna. Gert var ráð fyrir lóðaframkvæmdum uppá 1,5 milljónir króna en fjármagnið verður nýtt í viðgerðina á lyftunni.

Hver eru einkenni kórónaveiru?

Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er orsök þessa faraldurs ný tegund kórónaveiru, sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Enn er ekki vitað hversu smitandi veiran er, hversu alvarlegum veikindum veiran veldur eða hverjar smitleiðirnar eru. Faraldsfræðilegar upplýsingar eru enn takmarkaðar og því er margt óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Uppruni veirunnar virðist einkum vera í Wuhan borg í Kína og aðallega tengt ákveðnum matarmarkaði í borginni, en verið er að rannsaka frekari útbreiðslu veirunnar í Kína.

Hver eru einkenni kórónaveiru?

Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. 2019-nCoV getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4-8 degi veikinda.

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum. Einkennalausir einstaklingar sem hafa verið í samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví skv. nánari leiðbeiningum.

Sóttvarnalæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:

 • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
 • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
 • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
 • Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
 • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Uppselt í Fjarðargönguna í Ólafsfirði

Fjarðargangan fer fram á Ólafsfirði laugardaginn 8. febrúar 2020 á vegum Skíðafélags Ólafsfjarðar. Uppselt er orðið í gönguna og hafa 240 skráð sig, en hægt er að skrá sig á biðlista. Í boði verða 30 km. ganga fyrir 17 ára og eldri, 15 km. fyrir 12 ára og eldri og 5 km. fyrir alla aldurshópa. Allir þátttakendur fá verðlaunapening og halda sínu keppnisnúmeri. Gangan hefst kl. 11:00 og verður veisla í Tjarnarborg kl. 15:00.

Drög að dagskrá 7.-8. febrúar 2020
Föstudaginn 7. febrúar:
Afhending gagna og brautarlýsing
Laugardag 8. febrúar
11:00: Fjarðargangan – allir flokkar ræstir
15:00: Veisla í Tjarnarborg, verðlaun, útdráttarverðlaun, kaffihlaðborð.

Mynd frá Visit Olafsfjordur.

Pop-up útivistarverslun í Ólafsfirði

Pop-up útivistarverslunin Gangleri Outfitters opnar í húsi Björgunarsveitarinnar Tinds á Ólafsfirði, föstudaginn 31. janúar kl. 12:00-17:00.  Útivistarverslunin Gangleri Outfitters sem hefur legið í dvala í næstum tvö ár hefur nú byrjað starfsemi sýna á ný sem farandsverslun og vefverslun.

Til sölu verður útivistarfatnaður, dúnúlpur, ullarnærföt og fleira sem er tilvalið fyrir veturinn ásamt blönduðum vörum (fatnað, gönguskór, bakpokar) á góðu verði. Fólk er beðið um að koma með poka með sér, þar sem þeir verða ekki til sölu og vörur nánast umbúðalausar.

10% af sölunni mun renna til styrktar Björgunarsveitarinnar Tinds.

Ókeypis dansnámskeið í Fjallabyggð

Stýrihópur um Heilsueflandi samfélag býður íbúum Fjallabyggðar á opið dansnámskeið sem haldið verður í Menningarhúsinu Tjarnarborg í febrúar og mars. Námskeiðið verður í sex skipti á sunnudagskvöldum frá kl. 20:00 – 21:30. Fyrsti tíminn verður sunnudaginn 9. febrúar. Danskennari verður Ingunn Hallgrímsdóttir. Þátttaka er ókeypis og eru allir velkomnir, ekki er nauðsynlegt að hafa dansfélaga til að mæta.

Dansnámskeiðið er byggt upp á stökum kvöldum þar sem ákveðið þema er hvert kvöld.

Skipulag dansnámskeiðsins verður eftirfarandi:

9. febrúar: Gömlu dansarnir
16. febrúar:  Samkvæmisdansar (jive, cha cha cha og tjútt)
1. mars: Línudans
15. mars: Salsa
22. mars: Óákveðið, mögulega Zumba
29. mars: Óákveðið

Ekki er krafist skráningu á námskeiðið en búnir verða til viðburðir á Facebooksíðu Fjallabyggðar fyrir hvert kvöld fyrir sig.

Stýrihópur áskilur sér rétt til að færa til einstök kvöld ef aðstæður gera það óhjákvæmilegt.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Woman And Man Dancing Under Light

Erlendir háskólanemar heimsækja MTR

Háskólanemar frá Gustavus Adolphus College í Minnesota í Bandaríkjunum heimsóttu Menntaskólann á Tröllaskaga í vikunni. Þetta var tuttugu manna hópur á aldrinum 18-21 árs ásamt kennurum sínum.

Nemendurnir taka í janúarmánuði námskeið sem er ferðalag. Gjarnan er farið á framandi slóðir og námið hugsað til undirbúnings nemenda fyrir starfsferil þeirra. Áhersla er á samþættingu greina á borð við bókmenntir, hagfræði, hjúkrun, landfræði og lýðheilsu.

Hópurinn verður þrjár vikur á Íslandi og kynnir sér sérstaklega atvinnulíf, mannlíf og menningu í bæjum á Tröllaskaga. Lára Stefánsdóttir og Inga Eiríksdóttir tóku á móti hópnum í Menntaskólanum á Tröllaskaga og sögðu frá skólastarfinu.  Frá þessu er greint á vef mtr.is.

Hægt er að lesa um ferð nemendanna á heimasíðu þeirra skóla, textinn er á ensku.

Mynd: MTR.is/GK

Björgunarsveitin vill samstarf við Fjallabyggð með stjórnstöð almannavarna

Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði hefur kannað vilja Fjallabyggðar til samstarfs um uppbyggingu og rekstri á sameiginlegri stjórnstöð vettvangsstjórnar almannavarna Fjallabyggðar og björgunarsveitarinnar.

Fjallabyggð mun skoða þann möguleika að stjórnstöð almannavarna verði færð úr Ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra og í framhaldi af því að meta kostnað sveitarfélagsins við slíka aðgerð.

Landsmót / Landsbjörg: 22 unglingasveitir björgunarsveita frá flestum landshlutum hafa verið við fjölbreyttar æfingar og þjálfun, undir stjórn eldri og reyndari félaga. Alls munu þátttakendur verið um 300 talsins

Óvissustigi lýst yfir vegna kórónaveiru

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi.

Eftirfarandi er tilkynning Ríkislögreglustjóra:

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV. Staðfest er að veiran smitast á milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Faraldurinn breiðist hratt út en enn sem komið er hafa flest tilfellin greinst í Kína.

Í ljósi þessa, og á grundvelli áhættumats Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Sóttvarnarstofnunar ESB, hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV).

Óvissustigi er lýst þegar grunur vaknar um að yfirvofandi sé atburður sem hefur áhrif á lýðheilsu. Í kjölfarið er samstarf stofnana aukið, sem og upplýsingamiðlun. Vöktun er efld, áhættumat endurskoðað svo oft sem þurfa þykir og birgðastaða nauðsynlegra bjarga er könnuð og skráð. Farið er yfir viðbragðsáætlanir og fyrirliggjandi verkferla.

Gunnar Birgisson orðinn sveitarstjóri í Skaftárhreppi

Gunnar Ingi Birgisson fyrrverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar hefur tekið við tímabundið sem sveitarstjóri hjá Skaftárhreppi. Gunnar mun starfa og sinna störfum sveitarstjóra frá febrúar til loka mars mánaðar. Sveitarstjórinn hefur verið í veikindaleyfi og hefur oddviti hreppsins sinnt málunum frá því í janúar, en eins og áður sagði þá tekur Gunnar Birgisson tímabundið við.

 

Bæjar- og menningarvefur