Elías Þorvaldsson Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2020

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt á fundi sínum fimmtudaginn 5. desember 2019 að útnefna Elías Þorvaldsson sem Bæjarlistamann Fjallabyggðar 2020.

Útnefningin fer fram í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 23. janúar 2020  kl. 18:00.
Við sama tilefni verða afhentir styrkir til menningarmála fyrir árið 2020.

Elías Þorvaldsson er Siglfirðingur fæddur 24. maí 1948, sonur hjónanna Þorvaldar Þorleifssonar og Líneyjar Elíasdóttur, yngstur þriggja systkina. Hann stundaði nám við Barnaskólann og Gagnfræðaskóla Siglufjarðar og einnig Iðnskólann á Siglufirði.

Tónlistin heillaði hann alla tíð og hófst hans tónlistarnám á Siglufirði fyrst þegar hann var níu ára gamall. Lagði hann stund á nám í píanóleik, þverflautu og fiðlu hjá ýmsum góðum kennurum og má þar sérstaklega nefna Sigursvein D. Kristinsson og Gerhard Schmidt.

Elías fór fyrst að kenna tónlist á Siglufirði á vegum verkalýðsfélaganna á árunum 1972-1975 og hóf svo kennslu við Tónlistarskóla Siglufjarðar frá stofnun hans árið 1975 allt til ársins 2010. Þá var Elías skólastjóri sama skóla frá árinu 1977 til 2010 og aðstoðarskólastjóri Tónskóla Fjallabyggðar á árunum 2010 til 2016 er hann lét af störfum eftir rúmlega 40 ára samfelldan starfsferill. Elías kenndi einnig tónmennt við Grunnskóla Siglufjarðar til fjölda ára og þá sinnti hann enskukennslu í efri bekkjum grunnskólans í nokkur ár.

Elías útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1992, með ensku sem valgrein, en lokaritgerð hans nefndist “Tónlist og tungumálanám.”

Hann lék með hljómsveitinni Gautum í hartnær þrjá áratugi og tók ásamt hljómsveitinni þátt í “Vísis-ævintýrinu” með tilheyrandi plötuupptökum, tónleikum og ferðalögum meðal annars til Danmerkur og Frakklands undir stjórn hins frábæra kórstjóra og tónlistarmanns Gerhards Schmidt.

Elías hefur í fjöldamörg ár stjórnað, meðleikið og útsett hjá mörgum kórum, sönghópum og hljóðfærahópum. Má þar meðal annars nefna kvennakóra, Barnakór grunnskólans og Karlakór Siglufjarðar. Elías er núverandi stjórnandi Karlakórsins í Fjallabyggð.

Þá eru ótaldir ýmsir samspilshópar sem hann hefur haft umsjón með, til dæmis Harmonikkusveit Siglufjarðar sem lengi var mjög virkur félagsskapur.

Þá hefur Elías útsett og samið fjöldann allan af tónlist og verið leiðbeinandi á fjölmörgum námskeiðum tengdum tónlist og hljóðfæraleik.

Dalvíkurbyggð styrkir íþrótta- og afreksfólk

Dalvíkurbyggð hefur tekið fyrir umsóknir í afreks- og styrktarsjóð íþrótta- og æskulýðsráðs vegna ársins 2019. Styrkirnir verða afhentir á hátíðarfundi þriðjudaginn 14. janúar 2020, kl. 17:00.

Styrkir sem veittir verða eru:

a) Rebekka Lind Aðalsteinsdóttir vegna ástundunar og árangurs í knattspyrnu
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Rebekku Lind um kr. 50.000.-

b) Amalía Nanna Júlíusdóttir vegna ástundunar og árangurs í sundi
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Amelíu Nönnu um kr. 50.000.-

c) Ingvi Örn Friðriksson vegna ástundunar og árangurs í kraftlyftingum
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Ingva Örn um kr. 175.000.-

d) Amanda Guðrún Bjarnadóttir vegna ástundunar og árangurs í golfi
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Amöndu Guðrúnu um kr. 175.000.-

e) Guðfinna Eir Þorleifsdóttir vegna ástundunar og árangurs á skíðum
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Guðfinnu Eir um kr. 175.000.-

f) Snorri Guðröðarson vegna ástundunar og árangurs í frisbí-golfi
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Snorra um kr. 100.000.-

g) Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir vegna ástundunar og árangurs í knattspyrnu
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Snædísi Ósk um kr. 50.000.-

h) Knattspyrnudeild Dalvík/Reynir vegna búnaðarkaupa fyrir afreksþjálfun á nýjum gervigrasvelli
Íþrótta- og æskulýðsráð samþykkir að styrkja Knattspyrnudeild Dalvík/Reynir um kr. 350.000.-

Skíðasvæðið á Dalvík opið næstu daga

Skíðasvæðið á Dalvík opnar á morgun, föstudaginn 6. desember klukkan 16-18. Frítt verður inn fyrsta opnunardaginn

Það er lítill snjór og aðeins opið upp að þriðja mastri. Það verður einnig opið á laugardaginn 7. desember og sunnudaginn 8. desember milli 11:00 og 14:00.

Snjóframleiðslan hefur verið í fullum gangi síðustu vikur og gengið ágætlega að safna snjó.

Lilla Steinke er Ungskáld 2019

Lilla Steinke er Ungskáld Akureyrar 2019 en úrslit í ritlistakeppni Ungskálda voru kunngerð á Amtsbókasafninu á Akureyri í vikunni.

Þriðju verðlaun hlaut Daniel Ben fyrir verkið “Hvað ef ég er ekki kona?”, önnur verðlaun komu í hlut Söndru Marínar Kristínardóttur fyrir verkið “Tíu ára tímabil” og Lilla Steinke hlaut sem áður segir fyrstu verðlaun fyrir ljóðið “Ég heyri rödd þína í rigningunni.”

Ungskáldaverkefnið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi en markmiðið með því er að hvetja ungt fólk á aldrinum 16-25 ára til skapandi skrifa. Verkefnið hefur vaxið og dafnað vel á síðustu árum og umfang þess aukist.

Síðasta mánuðinn eða svo hefur ýmislegt verið á döfinni í höfuðstað Norðurlands fyrir ungt fólk með áhuga á ritlist:

Í byrjun nóvember var haldin ritlistasmiðja Ungskálda í Verkmenntaskólanum. Leiðbeinendurnir voru rithöfundarnir Stefán Máni og Bryndís Björgvinsdóttir sem jusu úr viskubrunnum sínum og leiðbeindu ungmennunum. Líkt og áður var smiðjan opin öllum á aldrinum 16-25 ára og þátttakendum að kostnaðarlausu.

Í framhaldinu var blásið til ritlistakeppni Ungskálda. Engar kröfur voru gerðar um að hafa sótt ritlistasmiðjuna, allir á aldrinum 16-25 ára á Norðurlandi eystra höfðu tækifæri til þess að senda inn verk í keppnina. Engar hömlur voru á lengd og formi verka en textinn þurfti þó að sjálfsögðu að vera á íslensku.

Í ár var svo bætt við þeirri nýjung að efna til kaffihúsakvölds Ungskálda en það var haldið fyrr í vikunni og sótt af um 30 manns. Efnileg ungskáld lásu upp eigin verk og annarra og aðrir komu einfaldlega til þess að hlusta og njóta.

Í dómnefnd ritlistakeppninnar að þessu sinni voru þau Sigríður Kristjana Ingimarsdóttir, bókmenntafræðingur, Kristín Árnadóttir, fyrrverandi íslenskukennari við Verkmenntaskólann á Akureyri, og Björn Þorláksson, rithöfundur og fyrrum bæjarlistamaður.

37 án atvinnu í Fjallabyggð

Í lok október voru alls 37 án atvinnu í Fjallabyggð og fjölgaði um 5 frá því í september 2019. Alls eru þetta 14 karlar og 23 konur sem eru án atvinnu í Fjallabyggð. Atvinnuleysi jókst um 0,5% á milli mánaða og mælist nú 3,4%.

Þá voru 20 án atvinnu í Dalvíkurbyggð í lok október 2019 og fækkaði um 1 á milli mánaða. Alls voru þetta 10 karlar og 10 konur. Atvinnuleysi mældist 1,9% í lok október í Dalvíkurbyggð og minnkaði um 0,1% á milli mánaða.

Samherji lét kanna tölvupósta sem Wikileaks birti

Undanfarið hefur Samherji látið kanna þau gögn sem Wikileaks hefur birt um félagið en þar er aðallega um að ræða mikið magn tölvupósta úr pósthólfi Jóhannesar Stefánssonar. Þetta eru þau gögn sem fjölmiðlar hafa stuðst við í umfjöllun um starfsemi félaga sem tengjast Samherja í Namibíu.

Jóhannes hafði að minnsta kosti 44.028 tölvupósta í pósthólfi sínu milli áranna 2014 og 2016. Hann afhenti Wikileaks 18.497 tölvupósta frá þessu tímabili sem þýðir að hann afhenti aðeins 42% af tölvupóstunum. Flestir þeirra pósta sem Jóhannes afhenti ekki eru frá árinu 2015 en hann virðist ekki hafa afhent Wikileaks neina tölvupósta frá því ári ef undanskildir eru nokkrir póstar frá janúar. Þetta sést glögglega á meðfylgjandi grafi.

Fjoldi_posta

Sú aðferð sem hér hefur verið beitt, að handvelja tölvupósta, hlýtur að vekja upp fleiri spurningar en hún svarar. Hvert var efni þeirra pósta sem ekki voru birtir? Hvers vegna voru þau tímabil sem um ræðir valin en ekki allt tímabilið? Er ósamræmi í þeim gögnum sem var sleppt og þeim sem hingað til hefur verið fjallað um?

Sú staðreynd að 58% af tölvupóstunum voru aldrei birt hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir þá sem telja að frásögn Jóhannesar Stefánssonar sé rétt og sannleikanum samkvæm. Þeir fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið þurfa líka að velta fyrir sér hvort þeir hafi aðeins séð þau gögn sem styðja frásögn heimildarmannsins en ekki heildarmyndina.

Texti: Tilkynning frá Samherja.

Íbúum fjölgaði í Fjallabyggð en fækkaði í Dalvíkurbyggð

Íbúum í Fjallabyggð fjölgaði um 5 á milli ára og voru alls 2009 í desember 2019. Á sama tíma í fyrra var fjöldinn 2004 og í desember árið 2017 var fjöldinn 2011. Fjölgunin er því 0,2% á milli tímabila desember 2018 til desember 2019 í Fjallabyggð.

Í Dalvíkurbyggð fækkaði um 8 og var íbúafjöldinn í desember 1900 manns en var 1908 í fyrra og 1889 í desember 2017. Fækkunin er 0,4% á milli ára.

Í Skagafirði fjölgaði um 45 og voru íbúar í desember 4035 en voru 3990 í desember 2018. Fjölgunin í Skagafirði er 1,1% á milli ára.

Á Akureyri fjölgaði um 140 manns á milli ára eða 0,7% og eru íbúar 19.040 alls í desember 2019.

Tölulegar upplýsingar koma frá Þjóðskrá Íslands.

Norðurlandsmótið í knattspyrnu aldrei verið stærra

Kjarnafæðimótið 2020 hefst næsta sunnudag, mótið er einnig kallað Norðurlandsmótið. Alls eru 18 lið skráð til leiks – og í fyrsta skipti verður kvennadeild í mótinu. Opnunarleikur Kjarnafæðimótsins 2020 fer fram á sunnudaginn næsta þegar Þór og KA2 eigast við í Boganum á Akureyri klukkan 13:15. Mótið í ár hefur aldrei verið stærra en alls taka átján lið þátt í mótinu í þremur deildum.

KDN, Knattspyrnudómarafélag Norðurlands, hefur um árabil annast umgjörð mótsins. Í ár eru þrettán lið skráð til keppni í karlaflokki, sjö í A deild karla og sex í B deild. Þá eru fimm kvennalið eru skráð til leiks í Kjarnafæðimótinu í ár.

Skipting liðanna niður í deildir er með þessum hætti:

A-deild karla: Dalvík/Reynir, KA, KA2, Leiknir F, Magni, Völsungur, Þór

B-deild karla: KA3, Huginn/Höttur, KF, Samherjar, Tindastóll, Þór2

A-deild kvenna: Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir, Hamrarnir, Tindastóll, Völsungur, Þór/KA

Jólakvöldið mikla í Ólafsfirði

Föstudaginn 6. desember verður hið árlega jólakvöld haldið í miðbæ Ólafsfjarðar. Klukkan 19:30 hefst jólakvöldið með göngugötu stemningu og stendur fram eftir kvöldi. Ýmis konar varningur verður til sölu í jólahúsunum, Arion húsinu, Pálshúsi, Gallerý Uglu og smíðakompu Kristínar.
Kaffi Klara verður opin og Kjörbúðin með ýmis tilboð og kynningar.
Jólasveinasafn Egils Sigvaldasonar verður til sýnis í Pálshúsi, og yfirlitsýning á verkum Hildar Magnúsardóttur í Arion húsinu.
Tónlistarfólk kemur fram á svæðinu og húsum í kring.
Klukkan 22:00 hefst tónlistarflutningur í Menningarhúsinu Tjarnarborg. Ljúf jólalög flutt af tónlistarfólki úr Fjallabyggð.

Fjölmenni á aðventuviðburðum í Ólafsfirði – myndasyrpa

Að vanda létu Ólafsfirðingar ekki rigninguna stoppa sig að mæta á jólamarkaðinn í Tjarnarborg sem fram fór um helgina og einnig þegar kveikt var á jólatrénu. Jólasveinarnir létu sjá sig og skemmtu börnunum.

Ýmsir aðrir viðburðir voru í Ólafsfirði um helgina, en Kaffi Klara var með jólatapas, Hólmfríður Arngríms sýndi í Pálshúsi og þá var aðventuhátíð í Ólafsfjarðarkirkju.

Guðný Ágústsdóttir tók myndirnar sem fylgja fréttinni, og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.

Úthlutun úr Menningar-og viðurkenningasjóði KEA

KEA afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði félagsins, sunnudaginn 1. desember og fór styrkúthlutunin fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Þetta var í 86. skipti sem KEA veitir styrki úr sjóðnum. Auglýst var eftir styrkjum í október síðastliðnum og bárust 154 umsóknir. Úthlutað var tæpum 15 milljónum króna til 52 aðila.
Styrkúthlutun tók til fjögurra flokka samkvæmt reglugerð sjóðsins: Menningar- og samfélagsverkefna, Rannsókna- og menntamála, ungra afreksmanna og Íþrótta- og æskulýðsfélaga.

Í flokknum Menningar- og samfélagsverkefni hlutu 13 aðilar styrki, rúmlega 2,6 milljónir króna.

• Félag harmonikuunnenda v/Eyjafjörð- Í tilefni 40 ára afmælis þess á næsta ári.
• Kór Möðruvallaklausturskirkju- Til að fara í söngferð til Færeyja.
• Barnakórar Akureyrarkirkju- Vegna flutnings tónverksins “Hver vill hugga krílið?” eftir Olivier Manoury.
• Helga Kvam- Vegna flutnings tónlistardagskránnar “María drottning dýrðar”.
• Karlakór Akureyrar-Geysir- Til að halda karlakóramótið “Hæ-tröllum“.
• Gunnar Jónsson- Til að koma á fót gagnasafni um sögu Eyjafjarðarsveitar.
• Safnasafnið á Svalbarðsströnd- Til viðgerðar á Gömlu-Búð, áður Kaupfélagi Svalbarðseyrar.
• Útgerðarminjasafnið á Grenivík- Til reksturs safnsins.
• Krabbameinsfélag Akureyrar- og nágrennis- Til að halda málþingið “Hrúturinn” sem er hluti af forvarnarstarfi og vitundarvakningu um krabbamein í karlmönnum.
• Margrét Guðmundsdóttir og Þórarinn Hjartarson- Til að skrá og gefa út lífssögu Sigríðar á Tjörn.
• Ungmennafélagið Þorsteinn Svörfuður- Til útgáfu afmælisrits í tilefni 100 ára afmælis félagsins.
• Menningarfélagið Norðri- Til að gera heimildarmynd um þjóðskáldið Matthías Jochumsson á Sigurhæðum.
• Skógræktarfélag Eyfirðinga -Til að halda fræðslukvöld fyrir almenning um skógrækt.

Í flokknum Íþrótta- og æskulýðsmál hlutu 21 aðilar styrki, fyrir rúmlega 9milljónir króna.

• KA aðalstjórn
• Þór aðalstjórn
• Sundfélagið Óðinn
• Bocciafélag Akureyrar
• Ungmennafélagið Narfi
• Knattspyrnudeild Dalvíkur
• Golfklúbbur Akureyrar
• Siglingaklúbburinn Nökkvi Akureyri
• Íþróttafélagið Akur
• Íþróttafélagið Magni
• Ungmennafélagið Efling
• Skíðafélag Dalvíkur
• Íþróttafélagið Eik
• Þór KA kvennabolti
• KFUM og KFUK á Akureyri
• Völsungur
• Golfklúbbur Fjallabyggðar
• Undirbúningsnefnd Andrésar Andarleikanna
• Hestamannafélagið Léttir Akureyri
• Ungmennafélagið Smárinn, Hörgársveit
• Knattspyrnufélag Fjallabyggðar

Í flokknum Ungir afreksmenn, hlutu 14 aðilar styrk hver að upphæð kr 150.000.-

• Aldís Kara Bergsdóttir, listskautar
• Amanda Guðrún Bjarnadóttir, golf
• Ásgeir Ingi Unnsteinsson, bogfimi
• Benedikt Friðbjörnsson, snjóbretti
• Dofri Vikar Bragason, júdó
• Gunnar Aðalgeir Arason, íshokkí
• Hildur Védís Heiðarsdóttir, alpaskíði
• Júlía Rós Viðarsdóttir, listskautar
• Karen Lind Helgadóttir, körfubolti
• Karen María Sigurgeirsdóttir, knattspyrna
• Karl Anton Löve, kraftlyftingar
• Katla Björg Dagbjartsdóttir, alpaskíði
• Marta María Jóhannsdóttir, listskautar
• Svavar Ingi Sigmundsson, handbolti

Fjögur verkefni hlutu styrk í flokki Rannsókna- og menntamála, samtals tæplega 900 þúsund krónur.

• Fablab- Til tækjakaupa
• Verkmenntaskólinn á Akureyri- Vegna nemendasjóðs
• Restart- Til rekstur vinnustofunnar
• Bjarmahlíð miðstöð fyrir þolendur ofbeldis – Til rekstrar félagsins

Mynd: Þorgeir Baldursson

Dagskrá tileinkuð Davíð Stefánssyni á Ljóðasetrinu

Í dag, sunnudaginn 1. desember kl. 15.00 verður dagskrá á Ljóðasetrinu á Siglufirði tileinkuð Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi í tilefni þess að í ár eru liðin 100 ár frá því að fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir, kom út. Bókin vakti mikla athygli, vægast sagt, og nýtt þjóðskáld var fætt.

Í dagskránni verður fjallað um lífshlaup Davíðs, verk og ljóð hans verða lesin og sungin.

Auk þess hefur verið sett upp sérsýning með bókum hans og fleiru honum tengt og fyrir þá sem vilja eignast ljóðabækur Davíðs þá verða þau aukaeintök af bókum hans á sérstöku tilboðsverði.

Þessi dagskrá er liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem styrkt er af Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Enginn aðgangseyrir, allir velkomnir.

BF vann HK-b á Siglufirði

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og HK-b mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í gær í Benecta deildinni í blaki. HK vann fyrri leik liðanna í Fagralundi í október og vildu því BF stelpurnar svara fyrir það í þessum leik. HK vann KA-b í síðasta leik 3-2 á meðan BF vann UMFG 3-1. HK mætti með frekar þunnskipað lið í leikinn eins og liðin gera gjarnan á útileikjum langt úti á landi en BF hafði úr breiðum hópi að velja fyrir þennan leik.

Gestirnir byrjuðu óvænt mun betur og komust í 2-8 og tók þá þjálfari BF strax leikhlé og stappaði stálinu í stelpurnar. Þessi stutta pása virkaði mjög vel á BF stelpurnar sem skoruðu 7 stig í röð og jöfnuðu 9-9. Leikurinn var mjög sveiflukenndur á þessum kafla og skoraði HK næstu 8 stigin og komst í 9-16 og aftur tók BF leikhlé. BF náði góðum kafla eftir hlé og minnaði muninn í 16-18 og jöfnuðu 20-20 og var töluverð spenna komin í leikinn á þessu stigi. Í stöðunni 21-22 tóku gestirnir síðustu þrjú stigin og unnu hrinuna 21-25 eftir miklar sveiflur og voru óvænt komnar í 0-1.

Í annarri hrinu voru hlutskiptin ólík, heimaliðið var mun sterkara og eftir að staðan var 2-2 í upphafi þá skoraði BF 10 stig í röð og komst í 12-2 og tóku gestirnir leikhlé á þessum kafla og gerðu skiptingar á liðinu. BF var áfram sterkara liðið og komst í 17-8 og aftur tók HK leikhlé. Gestirnir klóruðu aðeins í bakkann og minnkuðu muninn í 19-15 og tók þá þjálfari BF leikhlé. BF stelpurnar voru mun sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 25-17 á sannfærandi hátt og jöfnuðu leikinn í 1-1.

Þriðja hrina var lík þeirri annari, BF hafið yfirburði og tóku afgerandi forystu í byrjun og komust í 10-1 og Emil Gunnarsson þjálfari HK tók leikhlé í þessari syrpu BF. Gestirnir komust lítið inn í leikinn á þessum kafla og komst BF í 16-3 þegar HK tók sitt annað leikhlé og gerðu skiptingar. HK minnkaði muninn í 17-8 en BF kláraði hrinuna með öryggi og unnu 25-9. Frábært spil hjá stelpunum og staðan orðin 2-1.

Fjórða hrina var keimlík þeim á undan og hafði BF mikla yfirburði og forystu í hrinunni. BF komst í 9-2 og hafði þá þjálfari HK tekið tvö leikhlé með stuttu millibili. BF komst í 18-5 en HK minnkaði muninn í 19-10 og 22-13, en það kom aldrei spenna í þessa hrinu. BF kláraði leikinn með stæl og unnu hrinuna sannfærandi 25-14 og leikinn 3-1.

BF stelpurnar eru komnar í 5. sæti deildarinnar með 16 stig og eru aðeins nokkrum stigum liðunum á undan sem eiga þó nokkra leiki til góða. Liðið á tvo útileiki í desember gegn UMFG og Afturelding-X.

Mynd: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon

Jordan Damachoua farinn frá KF

Varnar- og miðjumaðurinn Jordan Damachoua sem spilað hefur stórt hlutverk hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar síðustu tvö tímabil hefur gert samning við Kórdrengi og mun leika með þeim í 2 .deildinni á næsta tímabili. Jordan átti frábært tímabil í sumar og var hann færður á miðjuna í byrjun tímabils og átti hann frábæra leiki í þeirri stöðu. Hann spilaði 20 leiki og skoraði 5 mörk í sumar en hefur alls leikið 36 leiki og skorað 6 mörk fyrir KF.

Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir

Aðventuhátíð í Ólafsfjarðarkirkju

Þann 1. desember verður fjölbreytt starf í Ólafsfjarðarkirkju.  Barnastarf hefst kl. 11:00 – Börnin mega koma með bangsann sinn – Málað verður á piparkökur í safnaðarheimilinu.

Aðventustund verður á Hornbrekku kl. 15:00. Kirkjukórinn syngur aðventu- og jólalög undir stjórn Ave Köru Sillaots – Jólasaga lesin.

Aðventuhátíð kl. 17:00 Guito Thomas, kennari við Tónlistarskólann á Tröllaskaga flytur hugvekju. Fermingarbörn bera inn ljósið og lesin verður jólasaga. Kór Ólafsfjarðarkirkju syngur aðventu˗ og jólalög undir stjórn Ave Köru Sillaots. Nemendur úr Tónlistarskólanum á Tröllaskaga leika á hljóðfæri og syngja.

Aðalheiður opnar vinnustofu í Freyjulundi

Í dag, laugardaginn 30. nóvember og sunnudaginn 1. desember opna Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Jón Laxdal vinnustofur sínar og heimili í Freyjulundi norðan Akureyrar. Þetta verður í 20. sinn sem vinnustofa þeirra er opin á aðventu og 20. árið sem jólakötturinn fæðist uppúr spítnakössum Aðalheiðar. Í gegnum tíðina hafa svo bæst við ýmis smáverk sem tilvalin eru til jólagjafa. Gestum er boðið að skoða smærri og stærri verk og eiga notalega stund í sveitasælunni.

Athugið að ekki er tekið við greiðslukortum en minni verk eru á verðbilinu 1500 kr. til 50.000 kr.

Stækka mynd

Rafmagnsleysi á Dalvík, Svarfaðardal og Hrísey

Rafmagnslaust verður á Dalvík, Svarfaðardal og í Hrísey aðfararnótt föstudagsins 29.11.2019 frá kl. 00:00 til kl 01:00 vegna vinnu í aðveitustöð. Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Norðurlandi í síma 5289690 og kort af svæðinu má sjá á www.rarik.is/rof.  Í Hrísey er ráðgert að rafmagnsleysi verði frá kl. 00:00 til kl. 01:30.

Ljósmynd: Upplýsingamiðstöð Dalvíkurbyggðar

Björgunarsveitin Strákar tengja ljósakrossana

Félagar í Björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði byrja að tengja ljósakrossana í gamla og nýja kirkjugarðinum á Siglufirði, fimmtudaginn 28. nóvember.
Miðar fyrir tengigjaldi verða seldir í SR-Byggingavörum og þeir sem eru með krossa í fóstri hjá björgunarsveitinni fá sendan greiðsluseðil fyrir árgjaldi.
Í ár verður sú breyting gerð að eingöngu verða notaðar LED perur í krossana.  Þeir sem greiða tengigjald fá afhentar perur þegar greitt er í SR-Byggingavörum.
Tengigjaldið í ár er Kr. 3.500.- og fylgja 16stk LED perur.  Gjald fyrir krossa í fóstri er Kr. 7.000,- og verða einnig settar LED perur í þá krossa.
Með þökk fyrir stuðninginn
Björgunarsveitin Strákar

Ferðamenn líklegri í hvalaskoðun á Norðurlandi

Erlendir ferðamenn sem heimsækja Norðurland eru mun líklegri til þess að fara í hvalaskoðun, heldur en aðrir ferðamenn sem koma til Íslands. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar vann fyrir Markaðsstofu Norðurlands, upp úr árlegri könnun fyrirtækisins hjá ferðamönnum sem fara um Keflavíkurflugvöll.

Samkvæmt skýrslunni fóru 45% ferðamanna í hvalaskoðun yfir sumartímann árið 2018, en aðeins 30% af ferðamönnum almennt. Sérstaka athygli vekur að yfir vetrartímann eru ferðamenn tvöfalt líklegri til að fara í hvalaskoðun á Norðurlandi en almennt, 25% ferðamanna skoðuðu hvali yfir vetur á Norðurlandi en aðeins 12% almennt. Enn fremur var sérstaklega skoðað hversu margir gestir á Húsavík, Akureyri og Dalvík fóru í hvalaskoðun. Á Húsavík fóru 59%ferðamanna í hvalaskoðun yfir sumarið og 47% yfir veturinn. Á Akureyri fóru 45% sumargesta í hvalaskoðun og 51% sumargesta á Dalvík.

Borið saman við árið 2015, kemur í ljós að erlendir ferðamenn á Norðurlandi voru að jafnaði um 65% líklegri til þess að skoða hvali í sinni ferð um landið en hinn almenni ferðamaður á Íslandi, og því má ráða af þessu að hvalaskoðun á Norðurlandi dragi ferðamenn að verulegum mæli inn í landshlutann.

Skýrsluna má lesa hér.

Mynd og texti: Markaðsstofa Norðurlands.

Primex og Sólrún Anna undirrita styrkarsamning

Á dögunum skrifaði Primex Iceland undir styrktarsamning við afrekskonuna Sólrúnu Önnu Ingvarsdóttur. Hún er hluti af A-landsliði Íslands í Badminton og afrekshóp Badmintonsambands Íslands. Ásamt því að keppa og stunda æfingar erlendis er hún líka að þjálfa. Sólrún Anna gerði sér lítið fyrir á dögunum og vann sterkt meistaramót Badmintonfélags Hafnarfjarðar í einliðaleik meistaraflokki kvenna. Það verður spennandi að fylgjast með henni á næstu árum.

 

Photo-10-11-2019-14-10-18-1-
Mynd: Primex.is

Dalvíkurbyggð skipaði skilanefnd fyrir Náttúrusetrið á Húsabakka

Stjórn Náttúrusetursins á Húsabakka óskaði við Ríkisskattstjóra að slíta félaginu á einfaldan máta í byrjun nóvember. Ríkisskattstjóri taldi að kjósa þyrfti skilanefnd til að slíta félaginu þar sem þetta væri sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri.

Eigendur Náttúrusetursins ses. óskuðu í framhaldinu eftir því að Dalvíkurbyggð leiddi þessa vinnu við að skipa skilanefnd.

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar samþykkti svo á síðasta fundi að skipa slitanefnd fyrir Náttúrusetrið á Húsabakka ses. Í nefndinni eru Þorsteinn Þorsteinsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar.

Jólastemning á Ráðhústorginu á Siglufirði

Jólastemning verður á Ráðhústorginu á Siglufirði sunnudaginn 1. desember  kl. 16:00. Ljósin verða tendruð á trénu og flutt verður hátíðarávarp.

Dagskrá:

  • Hátíðarávarp
  • Börnin syngja jólalögin
  • Barn úr leikskólanum Leikskálum tendrar ljósin á trénu
  • Börn úr kirkjuskólanum hengja skraut á tréð
  • Kirkjukór Siglufjarðarkirkju syngur jólalög
  • Hó, hó, hó! Jólasveinarnir koma í í heimsókn með eitthvað gott í pokanum
  • Dansað kringum jólatréð með jólasveinunum

Kaupmannafélagið býður upp á heitt kakó og piparkökur.

Bæjar- og menningarvefur