1-1-2 dagurinn á Akureyri

Sunnudaginn 11. febrúar verður 1-1-2 dagurinn þá munu viðbragðsaðilar á Akureyri keyra hring um bæinn og enda á Glerártorgi þar sem tæki og búnaður viðbragðsaðila verða til sýnis. Reiknað er með að flotinn verði við Glerártorg um kl. 13:45 og verða tækin til sýnis til kl. 14:30. Þeir aðilar sem verða á staðnum eru Slökkvilið Akureyrar, Lögreglan á Norðurlandi eystra, Súlur björgunarsveitin á Akureyri og Rauði krossinn á Akureyri

Útgáfuhátíð Einingar-Iðju í Hofi

Á morgun, laugardaginn 10. febrúar, kl. 13:00 verður útgáfuhátíð Einingar-Iðju í Hofi í tilefni af útkomu bókarinnar „Til starfs og stórra sigra“ – Saga Einingar-Iðju 1906-2004.  Þessi dagur var valinn því þann 10. febrúar, fyrir 55 árum, sameinuðust Verkakvennafélagið Eining og Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar.  Í tilefni af útgáfunni mun félagið afhenda fjórum félögum/stofnunum á félagssvæðinu gjöf.

Sérstakur gestur hátíðarinnar verður forseti Íslands hr. Guðni Th. Jóhannesson.

Meðal dagskráratriða:

 • Lúðrasveit Akureyrar
 • Kórinn Hymnodia
 • Jón Hjaltason sagnfræðingur kynnir efni bókarinnar
 • Bókasöfn á félagssvæðinu fá bókina að gjöf

Ávörp:

 • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
 • Anna Júlíusdóttir, varaformaður Einingar-Iðju
 • Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju

Í lok hátíðar verður boðið upp á kaffi og kleinur.

Umfangsmiklar lögregluaðgerðir á Akureyri

Fimm einstaklingar voru handteknir á Akureyri í dag, grunaðir um alvarlega líkamsárás og frelsissviptingu.  Í þessari aðgerð tóku þátt lögreglumenn á Akureyri, Húsavík, Dalvík og frá sérsveit Ríkislögregustjóra. Auk þessa voru framkvæmdar húsleitir á nokkrum stöðum með stuðningi tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Flestir hinna handteknu hafa komið áður við sögu hjá lögreglu ýmist vegna ofbeldismála eða fíkniefnamála. Hinir sömu hafa verið færðir til vistunar í fangageymslur lögreglu, en yfirheyrslur munu standa yfir fram á nótt og verður síðan framhaldið í fyrramálið. Í fyrramálið verður tekið ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir einhverjum hinna handteknu, slíkt fer eftir framvindu rannsóknarinnar.

Rannsókn málsins er á frumstigi og vegna rannsóknarhagsmuna er ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Ólafsfjarðar

Aðalfundur Sjálfstæðisfélags Ólafsfjarðar verður haldinn í Sandhóli, húsnæði Slysavarnarfélags Ólafsfjarðar við Strandgötu, þriðjudaginn 13. febrúar kl. 17:00.

Dagskrá:

1. Fundarsetning.
2. Ársreikningur fyrir árið 2017.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Stjórnarkjör.
5. Kosning fulltrúa á Kjördæmisþing og Landsfund Sjálfstæðisflokksins 2018.
6. Umræða um bæjarmál og sveitarstjórnarkosningar 2018.
7. Önnur mál.

Lýst eftir tillögum um handhafa Landstólpans 2018

Landstólpinn Samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar er viðurkenning sem Byggðastofnun veitir árlega á ársfundi sínum. Viðurkenningin er hvatning, því hugmyndin að baki er að efla skapandi hugsun og bjartsýni.

Landstólpinn er veittur einstaklingi, fyrirtæki eða hóp/verkefni á vegum fyrirtækis eða einstaklinga, fyrir framtak sem vakið hefur athygli á byggðamálum, landsbyggðinni í heild, eða einhverju tilteknu byggðarlagi og þannig aukið veg viðkomandi samfélags.

Byggðastofnun lýsir nú eftir tillögum um handhafa Landstólpans 2018. Dómnefnd velur úr þeim tillögum sem berast.

Hafa má í huga hvort viðkomandi hafi:

 • gefið jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði
 • aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu
 • orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til
 • dregið að gesti með verkefni eða umfjöllun sinni

Ekki er nauðsynlegt að öllum þessum atriðum sé fylgt eftir, heldur séu þau höfð til hliðsjónar. Nauðsynlegt er að rökstuðningur fylgi tilnefningunni.

Viðurkenningunni fylgir listmunur hannaður af íslenskum listamanni.

Tillögur sendist á netfangið: landstolpinn@byggdastofnun.is
Nánari upplýsingar gefur Anna Lea Gestsdóttir, s. 4555400.

Frestur til að til að koma tillögum til skila rennur út miðvikudaginn 28. febrúar 2018.

 

Fyrri handhafa Landstólpans eru:

 • 2011: Jón Jónsson þjóðfræðingur og menningarfulltrúi á Ströndum
 • 2012: Örlygur Kristfinnsson frumkvöðull á Siglufirði
 • 2013: Þórður Tómasson safnvörður á Skógum
 • 2014: Fyrirtækið Norðursigling á Húsavík
 • 2015: Vilborg Arnarsdóttir frá Súðavík
 • 2016: Sönghópurinn Álftagerðisbræður ásamt stjórnanda sínum Stefáni R. Gíslasyni
 • 2017: Hörður Davíðsson athafnarmaður í Efri-Vík í Skaftárhreppi

Veglegir menningarstyrkir til Fjallabyggðar

Þann 1. febrúar síðastliðinn, úthlutaði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra 100 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings.  Uppbyggingarsjóði bárust samtals 133 umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar.  Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 85 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 100 m.kr. Samtals var sótt um rúmlega 271 mkr.

Í Fjallabyggð hlutu eftirfarandi styrk: Alþýðuhúsið á Siglufirði hlaut 2 milljónir fyrir menningarstarf í húsinu.  Félag um Þjóðlagasetur hlaut 2 milljónir í rekstrarstyrk. Fjallasalir ses hlaut 5 milljónir í styrk fyrir Ólafsfjarðarstofu. Síldarminjasafnið hlaut 1,5 milljónir fyrir Norræna strandmenningarhátíð 2018. Félag um Ljóðasetur Íslands hlaut 1 milljón króna í rekstrarstyrk.

Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála.  Hann er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019. Þetta er fjórða árið sem sjóðurinn starfar, og var nú í fyrsta sinn notast við rafræna umsóknargátt.

Allan listann má sjá á vef Eyþings.

 

 

Veglegir menningastyrkir til Fjallabyggðar

Þann 1. febrúar síðastliðinn, úthlutaði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra 100 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings.  Uppbyggingarsjóði bárust samtals 133 umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar.  Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 85 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 100 m.kr. Samtals var sótt um rúmlega 271 mkr.

Í Fjallabyggð hlutu eftirfarandi styrk: Alþýðuhúsið á Siglufirði hlaut 2 milljónir fyrir menningarstarf í húsinu.  Félag um Þjóðlagasetur hlaut 2 milljónir í rekstrarstyrk. Fjallasalir ses hlaut 5 milljónir í styrk fyrir Ólafsfjarðarstofu. Síldarminjasafnið hlaut 1,5 milljónir fyrir Norræna strandmenningarhátíð 2018. Félag um Ljóðasetur Íslands hlaut 1 milljón króna í rekstrarstyrk.

Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála.  Hann er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019. Þetta er fjórða árið sem sjóðurinn starfar, og var nú í fyrsta sinn notast við rafræna umsóknargátt.

Allan listann má sjá á vef Eyþings.

 

 

Auglýst eftir frambjóðendum á framboðslista X-D í Fjallabyggð

Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins hefur auglýst eftir áhugasömum frambjóðendum á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2018.  Þeir sem hafa áhuga á að taka sæti á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018 eru hvattir til að mæta á fund Sjálfstæðisfélaganna í Fjallabyggð, fimmtudaginn 15. febrúar kl.19:30 í Ráðhúsi Fjallabyggðar eða hafa samband við Guðrúnu Hauksdóttur í síma 869-4441.

Björgunarsveitin Tindur vill mynda vettvangsliðateymi í Ólafsfirði

Sumarið 2017 var lagður af rekstur sjúkraflutningabifreiðar í Ólafsfirði. Þá hafði Fjallabyggð hafnað því að slökkvilið byggðarlagsins myndi aðstoða íbúa Ólafsfjarðar vegna neyðarútkalla í firðinum. Því er staðan sú að engir viðbragðsaðilar eru í Ólafsfirði sem sinna bráðum veikindum eða slysum, hvorki á vegum ríkis né sveitarfélagsins. Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur óskað eftir samningi við Björgunarsveitina Tind í Ólafsfirði um að stofnsetja viðbragðsteymi. Eins og staðan er nú kemur sjúkrabifreið á vettvang um 15-20 mínútum síðar ef veður er gott en allt niður í að vera ekki fyrir hendi í ófærð.

Björgunarsveitin Tindur vill umfram allt hafa sjúkrabifreið í Ólafsfirði, enda hefur hún þurft að reiða sig á hana, en þarf að horfast í augu við þá staðreynd að nú þarf að leita til hennar í neyð án þess að hún hafi undirbúning til að bregðast við. Vettvangsliðateymi sjálfboðaliða getur aldrei veitt sömu þjónustu og þjálfaðir sjúkraflutningamenn með vel búna sjúkrabifreið en myndi að sjálfsögðu auka þjónustu miðað við það ástand sem nú er.

Björgunarsveitin Tindur í Ólafsfirði er lítil björgunarsveit sjálfboðaliða og hluti af landssamtökum björgunarsveita, Landsbjörgu. Hlutverk björgunarsveita er

„að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Í þeim tilgangi er öflugur hópur sjálfboðaliða til taks ef út af bregður, á nóttu sem degi, allt árið um kring.“ (https://www.landsbjorg.is/felagid)

Lög og reglugerðir um hlutverk björgunarsveita í vettvangsliðateymum eru ekki skýrar eins og staðan er og þarf að skýra  nánar. Tryggingar þær sem björgunarsveitarmenn hafa við störf sín ná ekki til allra þeirra þátta sem störf í vettvangsliðateymi snúa að. Björgunarsveitin hefur verið í samræðum við stjórn Landsbjargar vegna þessa máls sem er í samræðum við yfirvöld.

Sjálfboðaliðar í Björgunarsveitinni Tindi hafa verið reiðubúnir til að bregðast við útköllum í Ólafsfirði í samstarfi við björgunarsveitir í nágrenninu.  Hingað til hefur björgunarsveitin getað reitt sig á samstarf við aðra viðbragðsaðila á svæðinu svo sem lögreglu, sjúkrabifreið, slökkvilið, sveitarfélagið og íbúa. Við breyttar aðstæður, hefur björgunarsveitin setið uppi með að vera fyrsti viðbragðsaðili í stað sjúkrabifreiðar, komi eitthvað fyrir, þangað til hjálp berst, án þess að hafa haft tök á að mennta félaga sína eins og þörf er á, eða koma upp búnaði sem nauðsynlegt er að hafa fyrir hendi. Á sama tíma er óvissa um samstarf við íbúa, sveitarfélagið og slökkvilið sveitarfélagsins.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur óskað eftir samningi við björgunarsveitina. Þeir bjóðast til að kosta auka grunnmenntun félaga sveitarinnar og aðstoða við að efla búnað þannig að hún sé betur búin. Heilbrigðisstofnunin er tilbúin til að ganga frá tryggingum björgunarsveitarmannanna sem tryggingar Landsbjargar ná ekki yfir.

Í núverandi stöðu er björgunarsveitinni vandi á höndum. Íbúar eru reiðir vegna brotthvarfs sjúkrabifreiðar og sumir þeirra vilja ekki að myndað sé vettvangsliðateymi því þeir telja að slíkt hindri baráttu fyrir því að fá sjúkrabifreið aftur í fjörðinn. Sveitarfélagið krefur heilbrigðisstofnunina um sjúkrabifreið, neitar aðstoð slökkviliðs sveitarfélagsins og krefst lausnar enda er málið á hendi hennar.

Björgunarsveitin telur að með aukinni menntun félaga sveitarinnar og virkri þátttöku í vettvangsliðateymi geti viðbrögð við áföllum eflst. Bæði hvað varðar hefðbundin útköll sveitarinnar sem og þau er snúa að vettvangsliðateymi. Telur hún að hvort sem sjúkrabifreið sé í Ólafsfirði eða ekki, þá sé aukin menntun og tækjabúnaður til góðs. Hins vegar aftekur sveitin með öllu að vera notuð sem blóraböggull íbúa, sveitarfélags eða heilbrigðisstofnunar í átökum sínum um sjúkrabifreið í Ólafsfirði.

Björgunarsveitin Tindur vill efla þjónustu við íbúa fjarðarins með öllum tiltækum ráðum og styður einnig eindregið veru sjúkrabifreiðar í Ólafsfirði.

En við núverandi stöðu er ekki lengur hægt að búa. Björgunarsveitin er tilbúin til þess að auka menntun félagsmanna og vinna að eflingu búnaðar í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands og setja á stofn vettvangsliðateymi. En hún þarf einnig samstarf við sveitarfélagið þegar á þarf að halda eins og verið hefur.

Texti:  Tómas Atli Einarsson, Formaður, Björgunarsveitarinnar Tinds í Ólafsfirði.

Skólahreystihópur Grunnskóla Fjallabyggðar

Í byrjun mánaðarins fór fram undankeppni fyrir Skólahreysti þar sem æfingahópur Grunnskóla Fjallabyggðar var valinn til að keppa í Skólahreystikeppninni á Akureyri þann 4. apríl næstkomandi.  Nemendur í 8.-10. bekk tóku þátt og þeir sem stóðu sig best voru valdirnn í æfingahópinn.  Sigurvegari í hverri grein fékk einnig 3 mánaða kort í ræktina í Íþróttamiðstöðvum Fjallabyggðar. Keppt var í hraðabraut, upphífingum, dýfum, armbeygjum og fitnessgreip.

Æfingahópur Grunnskóla Fjallabyggðar 2018:

 • Oddný Halla Haraldsdóttir
 • Júlía Birna Ingvarsdóttir
 • Birna Björk Heimisdóttir
 • Ronja Helgadóttir
 • Helgi Már Kjartansson
 • Júlíus Þorvaldsson
 • Joachim Birgir Andersen
 • Alexander Smári Þorvaldsson
Myndir: Grunnskóli Fjallabyggðar

Videoval á Siglufirði ein af síðustu leigunum

Videoval á Siglufirði er gamalt og gróið fyrirtæki sem hefur haft nokkra eigendur í gegnum tíðina. Fyrirtækið hefur verið í nokkrum húsnæðum á Siglufirði en er í dag Suðurgötu 6 skammt frá Ráðhústorginu. Videoleigum á Íslandi hefur fækkað hratt síðasta áratuginn og er Videoval ein af síðustu leigunum á landinu.  Mæðgurnar Sigrún Björnsdóttir og Svala Júlía Ólafsdóttir sem reka leiguna segja í samtali við Ruv.is þetta vera sorglega og öfuga þróun og vísa í stemninguna sem fylgir því að fara á leiguna, stemningu sem ekki er hægt að upplifa með því að hala myndinni niður af netinu eða sækja hana í gegnum myndlykil. Sigrún rak áður fataverslun í húsnæðinu áður en hún keypti Videoval.
Það er bara rúmlega ár síðan þær mæðgur hættu að panta inn nýjar myndir, en það stóð ekki lengur undir kostnaði.  Í dag halda þær rekstrinum gangandi með því að selja allt frá dýrafóðri til leikfanga en mesta aðdráttaraflið hefur nammibarinn.  Fólk leigir ennþá myndir í Videoval þrátt fyrir að úrvalið endurnýjist ekki, en mest er að gera á sumrin þegar sumarhúsaeigendur eru í bænum.

,,Það er alltaf einn og einn sem kemur og tekur, eins og sjómenn sem lenda hérna inni í brælu og komast ekki á sjó, þeir koma og taka myndir til að stytta sér stundirnar,” segir Svala.

Heimild: ruv.is – Birt með leyfi.

Hreinsunarátak á Hofsósi í vor

Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hyggst fara í hreinsunarátak á Hofsósi í vor.  Lögð verður áhersla á bifreiðar, lausamuni og annað sem skapar mengunarhættu, m.a. sjónmengun og líti á umhverfi.
Átakið verður nánar auglýst þegar nær dregur.
Umhverfis- og samgöngunefnd Skagafjarðar hefur fagnað framtakinu og hvatt íbúa að fara að huga að hreinsun hið fyrsta. Nefndin vill einnig að átakinu verði haldið áfram og framkvæmt á fleiri stöðum innan sveitarfélagsins.

Samstarf MA og VMA um námsáfanga

Á þessari önn eiga framhaldsskólarnir á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn á Akureyri, með sér samstarf um áfanga fyrir nemendur skólanna. Nemendur koma úr MA í VMA og taka þar áfanga sem ekki er í boði í þeirra skóla og öfugt. Á þessari önn taka fjórir nemendur úr MA, sem eru á öðru ári í skólanum, grunnáfanga í teikningu á listnáms- og hönnunarbraut VMA – SJÓN1TF05. Þessi áfangi er ekki í boði í MA.

Að sama skapi sækja þrír nemendur úr VMA eðlisfræðiáfanga í MA, sem ekki er í boði á þessari önn í VMA. Einn þessara nemenda er af náttúruvísindabraut og tveir úr rafvirkjun/rafeindavirkjun.

Heimild: vma.is

KF með sigur á Kjarnafæðismótinu

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék síðasta leik sinn á Kjarnafæðismótinu í gær, og var leikurinn gegn Þór-2. (2. flokkur Þórs).  KF tók forystu í leiknum á 15. mínútu með góð skoti langt fyrir utan vítateig, en markið skoraði Marinó Birgisson sem er á reynslu hjá félaginu en hann kemur frá Þór. Þórsarar jafna leikinn á 28. mínútu með marki frá Sölva Sverrissyni, en Þórsarar fóru í skyndisókn og náðu góðri fyrirgjöf fram hjá markmanni KF og skoruðu auðveldlega. Staðan var 1-1 í hálfleik og á 53. mínútu komast Þórsarar í 1-2 eftir mark úr vítaspyrnu en brotið var á leikmanni Þórs innan vítateigs. Guðni Sigþórsson skoraði örugglega úr spyrnunni fram hjá markmanni KF sem skutlaði sér í rangt horn. Tæplega 10 mínútum síðar jafnaði KF leikinn í 2-2 með marki frá Kristófer Ólafssyni, en há og löng sending kom inn í vítateig Þórsara og var Kristófer á undan markmanni Þórsara í boltann og skallaði í markið. Flott sókn og vel gert hjá KF.

Á 83. mínútu þá kemst KF í 3-2 með skallamarki eftir góða fyrirgjöf frá kanti og skoraði Marinó sitt annað mark í leiknum og vel gert hjá þessum leikmanni sem er á reynslu hjá félaginu. KF hélt út og vann leikinn og enda með 7 stig í B-deild Kjarnafæðismótsins, en síðusta leiknum lýkur í kvöld og skýrist þá hvort KF lendir í 2. sæti eða 3. sæti.  KF vann tvo leiki, gerði 1 jafntefli og tapaði einum á þessu móti.

Leikfélag VMA sýnir Ávaxtakörfuna í Hofi

Leikfélag VMA frumsýnir Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og Þorvald Bjarna Þorvaldsson í Menningarhúsinu Hofi 11. febrúar næstkomandi. Fimmtán leikarar koma fram í sýningunni en alls koma um sextíu manns að henni með einum eða öðrum hætti.

Hið sígilda barnaleikrit Ávaxtakarfan fer á fjalirnar í Hofi í febrúar. Leikfélag Verkmenntaskólans á Akureyri hefur síðustu ár verið með metnaðarfullar uppsetningar og er þessi sýning sú stærsta til þessa.

Nokkrar áherslubreytingar verða í sýningunni, miðað við fyrri uppfærslur á verkinu, og má þar nefna að grænu bananarnir eru tveir og auk þeirra eru fimm mandarínur sem langar óskaplega mikið að vera með öllum hinum í ávaxtakörfunni.

Leikstjóri er Pétur Guðjónsson og honum til aðstoðar er Jokka G. Birnudóttir. Tónlistina í sýningunni hefur höfundur hennar, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, unnið. Söngstjóri er Sindri Snær Konráðsson, raddþjálfun annast Þórhildur Örvarsdóttir, Ívar Helgason sér um hreyfingar, Harpa Birgisdóttir um útlit og Soffía Margrét Hafþórsdóttir hannar búninga. Þá eru ónefndir allir þeir fjölmörgu nemendur VMA sem hafa lagt hönd á plóg við uppfærsluna.

Sýningarnar verða eftirfarandi: 11. febrúar kl. 14:00 og 17:00, 18. febrúar kl. 14:00 og 17:00.  Miðaverð er 3990 kr.

Fimm prósent aukning gistinátta á Norðurlandi á síðasta ári

Herbergjanýting á hótelum á Norðurlandi jókst um 5% á milli áranna 2016-2017. Alls voru gistinætur 297.609 á Norðurlandi á árinu 2017, en voru 284.050 á árinu 2016. Í desember 2017 voru 8.107 gistinætur á Norðurlandi en voru 6.873 í desember 2016 og er þetta aukning um 18%.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Heimild: hagstofa.is

353 fiskiskip á Norðurlandi

Alls voru 1.621 fiskiskip á skrá hjá Samgöngustofu í lok árs 2017 og hafði þeim fækkað um 26 frá árinu 2016. Fiskiskip eru flokkuð í þrjá flokka hjá Samgöngustofu, opna báta, togara og vélskip. Vélskip eru öll yfirbyggð skip önnur en skuttogarar, en í þeim flokki eru nokkur skip sem eru stærri en stærstu skuttogararnir. Á Norðurlandi voru alls 353 fiskiskip á skrá árið 2017, mest vélskip og opnir fiskibátar, en togarar í minnihluta. Á Norðurlandi eystra voru 225 fiskiskip og á Norðurlandi vestra 128 fiskiskip.   Flestir togarar á landinu höfðu skráða heimahöfn á Norðurlandi eystra eða alls 11.

Á síðustu fimm árum hafa 70 ný skip bæst við fiskveiðiflotann á öllu landinu. Átta skuttogarar, 37 vélskip og 25 opnir bátar. Alls voru 53 þessara skipa smíðuð á Íslandi og eru þau öll úr trefjaplasti og undir 30 brúttótonnum. Allir togararnir voru smíðaðir í Tyrklandi, ásamt fjórum af þeim sjö vélskipum sem voru yfir 1.000 brúttótonn.

Heimild: Hagstofa.is

Öryggi á Tröllaskaga ógnað

Ef slys verður á Tröllaskaga getur skapast neyðarástand vegna fjarveru sjúkraflutningamanna á svæðinu. Engir menn hafa verið þjálfaðir upp sem vettvangsliðar til þess að taka við verkefnum sem áður voru í höndum sjúkraflutningamanna.  Sjúkrabíll er í bænum en enginn með heimild til þess að aka honum.  Ófremdarástand, segir einn af heimamönnum í Ólafsfirði.

Þjóðvegirnir á svæðinu eru skilgreindir meðal hættulegustu og erfiðustu þjóðvegum landsins og oft er svæðið einangrað vegna ófærðar beggja vegna Ólafsfjarðar. Oft er enginn læknir á staðnum og því gæti skapast neyðarástand ef slys ber að höndum.

Sjúkraflutningamönnum á svæðinu hefur öllum verið sagt upp og þeir hætt störfum. Til stóð að þjálfa upp 10-12 manna hóp vettvangsliða, sem tækju við sem fyrsta hjálp á Tröllaskaga. Af þeirri þjálfun hefur ekki orðið enn. Víða annars staðar á landinu er búið að þjálfa vettvangsliða, sem eru ólaunaðir sjálfboðaliðar með stutt námskeið að baki og án viðeigandi trygginga.

Þetta er mikil skerðing á bráðaþjónustu utan spítala á Tröllaskaga“, segir Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. „ Það hafa þegar komið upp alvarleg mál í Ólafsfirði vegna þessa ástands og í augum heimamanna er mannaður sjúkrabíll grunnþjónusta og sjálfsögð mannréttindi“.

Stefán segir ennfremur að ef það sé stefna heilbrigðisyfirvalda að láta vettvangsliða taka við verkefnum, sem áður hafa verið í höndum sjúkraflutningamanna, þurfi að lágmarki að tryggja þeim nauðsynlega fræðslu og undirbúning, auk þess að tryggja mennina og greiða þeim lágmarkslaun fyrir útkall.

Texti: Ályktun frá stjórn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna.

Skíðarúta á Akureyri

The Traveling Viking rekur skíðarútu á Akureyri og hefur gert undanfarin ár. Um er að ræða áætlunarferðir og skutlþjónustu við Hlíðarfjall. Bíllinn ekur hring um Akureyri og stoppar við öll stærri hótel og gistiheimili í bænum. Þaðan liggur svo leiðin í fjallið.  Heildarlengd ferðar er um það bil 30 mínútur. Það kostar 1.000 kr. að taka sér far með skíðarútunni aðra leið en 1.500 báðar leiðir. Börn á aldrinum fá 50% afslátt.

Ekið er allar helgar (föstudaga, laugardaga og sunnudaga).

Föstudaga: Upp í fjall klukkan 12.00* & 14.00, úr fjallinu klukkan 15.00* & 19.10 (*bara þegar fjallið opnar fyrir kl 14.00).

Laugardaga & sunnudaga: Upp í fjall klukkan 9.00 & 12.00, úr fjallinu klukkan 13.00, 15.00 & 16.10.

Viðkomustaðir bílsins eru:

Bónus Naustahverfi (+00 min)
Sæluhús – Hotel (+03)
Heimavistin Þórunnarstræti (+05 min)
Icelandair Hótel (+07 min)
Kea Hótel (+09)
Hótel Akureyri (+11 min)
N1 Hörgarbraut (+15 min)
Samkaup Borgarbraut (+20 min

205.777 farþegar um Akureyrarflugvöll árið 2017

Alls fóru 205.777 farþegar um Akureyrarflugvöll á árinu 2017, en árið 2016 fóru alls 188.810 um völlinn og var því 9,0% fjölgun á milli ára.  Mikil aukning var í desember 2017, en þá fóru 15.141 farþegar um völlinn en voru 12.634 í desember 2016, sem er 19,8% aukning. Alls voru þetta 93.477 flug (brottfarir og komur) samanlagt á árinu 2017 en voru 78.364 árið 2016 sem er aukning um 19,3%.  Alls voru 323 fragtflug árið 2017 til Akureyrar en voru 403 árið 2016 sem er fækkun um 19,8% á milli ára.

Farþegatölur eru frá Isavia.

Vitor Vieira Thomas farinn frá KF

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur nú misst tvo af sínum ungu og efnilegu leikmönnum til Íslandsmeistara Vals.  Vitor Vieira Thomas hefur gert félagsskipti yfir í Val og er kominn með leikheimild. Hann mun spila með 2. flokki félagsins og berjast um sæti í meistaraflokki. Vitor er fæddur árið 1999 og hefur leikið upp yngri flokka með KF og á 18 leiki með meistaraflokki og gert 3 mörk.  Vitor var samningslaus í lok árs og fer því frítt til Vals.

Vitor segir í samtalið við vefinn að hann hafi prófað að æfa með 2. flokki Vals fyrir jól og gengið vel. Hann flutti svo til höfuðborgarinnar í byrjun árs og hefur náð að spila einn æfingaleik með meistaraflokki Vals. Hann stefnir á Háskólanám í vor.

Valur Reykjalín Þrastarson hefur einnig gert félagsskipti til Vals úr KF og hefur þegar spilað nokkra leiki með 2. flokki og meistaraflokki félagsins.

Byggðastofnun gerir þjónustukort í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur falið Byggðastofnun að vinna þjónustukort í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Kortið á að sýna á aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.

Tilgangur þjónustukortsins er að bæta yfirsýn og skapa grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur falið Byggðastofnun þetta verkefni í ljósi lögbundins hlutverks hennar enda hefur stofnunin þegar kortlagt hvar er að finna grunnþjónustu opinberra aðila og einkaaðila og um hversu langan veg íbúar þurfa að sækja slíka þjónustu. Mun þessi vinna stofnunarinnar því nýtast vel við gerð þjónustukorts í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem yrði undirstaða frekari stefnumörkunar um staðsetningu opinberrar þjónustu ríkisins. Á þeim grunni telur ráðuneytið að unnt verði að bæta yfirsýn og skapa um leið grundvöll fyrir aðgerðir til að tryggja íbúum þjónustu og jafna kostnað

Ráðuneytið leggur til að Byggðastofnun annist verkefnið í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, einstök ráðuneyti eftir því sem við á og eftir atvikum fleiri aðila. Lagt er til að verkefnið verði í forgangi hjá stofnuninni og að stefnt verði að lokum þess fyrir árslok. Afurð verkefnisins verði annars vegar gagnagrunnur sem geymir upplýsingar um aðgengi allra landsmanna að almennri þjónustu hins opinbera og einkaaðila og hins vegar um myndræna og gagnvirka framsetningu á upplýsingum úr gagnagrunninum, aðgengilega stjórnvöldum og almenningi. Ráðuneytið óskar jafnframt eftir því að verða upplýst reglulega um framvindu verkefnisins og að staða þess verði rædd á sameiginlegum fundi í september.

Heimild: stjornarradid.is

MTR tekur Græn skref í Ríkisrekstri

Menntaskólinn á Tröllaskaga skráði sig í lok október í verkefnið Græn skref í Ríkisrekstri.  Skólinn hefur hlotið viðurkenningu fyrir fyrsta Græna skrefið. Innleiðing skrefsins gekk fljótt og vel í skólanum og er endurnýtingu hluta gert hátt undir höfði.  Í listsköpun sinni nýta nemendur til að mynda alls konar hluti sem falla til á heimilum og í skólanum og búa til hluti og list úr slíkum efnivið.

Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun kom í skólann og skoðaði sérstaklega flokkunarmál og innkaup með tilliti til þess hvort keyptar væru vistvænar hreingerningavörur og pappír.  Skilyrði er að nota umhverfisvottaðar vörur.  Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt.  Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi  stofnana og draga úr kostnaði.

Tengiliður verkefnisins í MTR er Unnur Hafstað en við framkvæmdina reynir mest á Björgu Traustadóttur, Gísla Kristinsson og Jónínu Kristjándóttur, sem sjá um rekstur, innkaup og þrif hússins.

Þess má geta að Vínbúðin á Siglufirði hóf þátttöku í verkefninu í lok árs 2014 og hefur lokið fimm grænum skrefum.

Sungið til sólar í Fjallabyggð

Áralöng hefð er fyrir því að halda uppá fyrsta sólardag í Fjallabyggð en sólin hverfur bakvið fjöllin í  rúmar 10 vikur og birtist á Siglufirði 28. janúar og 25. janúar í Ólafsfirði. Nemendur í Grunnskóla Fjallabyggðar og Leikskóla Fjallabyggðar fjölmenntu á kirkjutröppurnar á Siglufirði í þessu tilefni og sungu lag til sólarinnar. Þá er hefð fyrir því að Sjálfsbjörg á Siglufirði selji pönnukökur til fyrirtækja og einstaklinga til styrkar félaginu.

 

 

Dalvíkingar sterkir í stórsvigi

Um helgina fór fram bikarmót í alpagreinum á Dalvík, en það var Skíðafélag Dalvíkur og Skíðafélag Ólafsfjarðar sem héldu mótið í sameiningu. Keppt var í svigi og  stórsvigi.  Á síðari keppnisdegi var keppt í stórsvigi 14-15 ára stúlkna og drengja. Í stúlknaflokki voru stelpur frá Breiðablik og Ármanni í efstu sætunum, en í drengjaflokki voru Dalvíkingar í þremur af fjórum efstu sætunum.

Aðstæður í fjallinu voru frábærar og veður einstaklega gott.

Loka úrslit í stórsvigi stúlkna og drengja.

Forstjóri HSN mætti til Fjallabyggðar og ræddi stöðu sjúkraflutninga

Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands mætti á fund bæjarráðs Fjallabyggðar í vikunni og ræddi um stöðu sjúkraflutninga í Ólafsfirði.  Helgi hafði afboðað sig á fund bæjarráðs í vikunni á undan vegna veðurs.

Framkvæmdastjórn HSN komst að þeirri niðurstöðu síðastliðið vor að leggja af sjúkrabílavakt á Ólafsfirði, og hafa íbúar haft miklar áhyggjur af stöðu mála eftir að sjúkraflutningavaktin hætti í Ólafsfirði.  Mál hafa komið upp þar sem mikil bið hefur verið eftir sjúkrabíl frá Siglufirði eða Dalvík og sjúklingar þurft að bíða óþarflega lengi eftir akstri á sjúkrahúsið.

Á fundinum kom fram í máli Jóns Helga að unnið væri að myndun teymis vettvangsliða og að sú vinna væri komin vel á veg.  Vonast væri til að teymið verði starfhæft um mánaðamótin febrúar / mars.

KF skoraði 3 mörk á 12 mínútum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og KA-3 kepptu í B-deild Kjarnafæðismótsins nú um helgina.  Bæði lið höfðu leikið tvo leiki fyrir þennan leik en KA-3 voru án stiga en KF hafði náð einu jafntefli og var því með 1 stig. Í liði KA-3 eru strákar fæddir frá 1999-2002 og leika með 2. flokki félagsins. Töluvert meiri reynsla er í liði KF, en í bland við yngri leikmenn og leikmanna á reynslu.

KA strákarnir byrjuðu betur og skoruðu fyrsta mark leiksins á 10. mínútu, og annað mark á 14. mínútu. KA voru meira með boltann í fyrri hálfleik og betra liðið. Staðan var 2-0 í hálfleik en Slobodan þjálfari KF hefur lesið yfir sínu liði því KF mættu mun ákveðnari í síðari hálfleik, voru meira með boltann og sóttu hratt á KA strákana. KF minnkaði muninn í 2-1 á 68. mínútu með marki frá Kristófer Andra.  KF fékk svo víti á 75. mínútu og úr því skoraði Jón Árni og jafnaði leikinn í 2-2. Fimm mínútum síðar, eða á 80. mínútu, þá tekur KF hornspyrnu og boltinn berst að lokum til Grétars Áka sem hamrar boltann óverjandi í netið, og kemur KF í 2-3. KF náði að halda út og unnu góðan sigur og voru mun betra liðið í síðari hálfleik.

Bæjar- og menningarvefur