Leikjafjör í Ólafsfjarðarkirkju fyrir 4.-7. bekk

Ólafsfjarðarkirkja er með starf fyrir börn í 4.-7. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar á fimmtudögum í október og nóvember. Starfið er kallað Leikjafjör og er fyrir 9-12 ára börn og er frá kl. 17:30-18:20. Umsjón með starfinu hafa Sindri Geir og Sigríður Munda.

 

Dagskrá:

4. okt. Leikir og kynning
11. okt. Fáránleikar
18. okt. GAGA bolti
25. okt. Jól í skókassa
1. nóv. Kúluklikkun
8. nóv. Spil og leikir
15. nóv. Brjóstsykurgerð
22. nóv. Piparkökur og kakó

 

Námskeiðið Mannlegi millistjórnandinn

Námskeiðið „Mannlegi millistjórnandinn“ verður haldið á Sauðárkróki dagana 30. október og 13. nóvember á vegum Starfsmenntar.

Markmið námskeiðisins er að styrkja nýja stjórnendur og millistjórnendur í störfum sínum.
Námskeiðið verður haldið í Farskólanum á Sauðárkróki, Faxatorgi.

Skráning er á Smennt.is fyrir félagsmenn Starfsmenntar, og einnig hjá Farskólanum fyrir utanfélagsmenn.

Nánari upplýsingar um námskeiðið eru á vef Smennt.is.

Búið að fullfjármagna uppsetningu ILS búnaðar á Akureyrarflugvelli

Þær ánægjulegu fréttir bárust nýverið að búið sé að fullfjármagna uppsetningu ILS búnaðar sem settur verður upp á Akureyrarflugvöll fyrir aðflug úr norðri. Tafir hafa orðið á verkefninu og mun búnaðurinn ekki verða kominn í gagnið fyrir flugferðir bresku ferðaskrifstofunnar Super Break í vetur, en engu að síður skiptir þessi búnaður miklu máli fyrir markaðssetningu flugvallarins erlendis gagnvart flugfélögum sem hafa sýnt því áhuga að fljúga til Akureyrar.

Salan hjá Super Break á vetrarferðunum gengur vel og í september hófst hin eiginlega markaðssetning ferðaskrifstofunnar. Þar spilar sjónvarpsauglýsing, sem unnin var upp úr efni frá Markaðsstofunni, miklu máli en henni er sjónvarpað um allt Bretland og því mikil auglýsing sem Norðurland fær.

Tæplega 200 nemendur í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga og 17 á biðlista

Á skólaárinu 2018-2019 eru 193 nemendur skráðir í Tónlistarskólann á Tröllaskaga og þar af eru 40 nemendur skráðir á fleira en eitt hljóðfæri.  Þá eru 17 nemendur á biðlista og flestir eftir söngnámi. Nemendum á biðlista hefur verið boðið annað tónlistarnám í þeim hljóðfæraflokkum þar sem enn er laust. Þetta kom fram á fundi skólanefndar Tónlistarskólans á Tröllaskaga sem haldinn var í Ráðhúsinu á Dalvík í morgun.

Skólinn starfar í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð, með starfsstöðvar á Siglufirði, Ólafsfirði og á Dalvík.

Gamall slökkvibíll til sölu á Dalvík

Dalvíkurbyggð hefur auglýst til sölu gamlan Bedford slökkvibíl sem er skráður á götuna árið 1962. Bíllinn var tekinn úr umferð árið 2004. Bíllinn hefur stýri hægra megin og er um 5 tonn á þyngd.  Óskað er eftir verðtilboðum í bílinn.

Upplýsingar um bílinn:

 • Vél 350 Chevrolet,  annað upphaflegt.
 • Stýri hægra megin.
 • Eigin þyngd 5100 kg
 • Dæla, original Sigmund fire pump FN5 900 gpm
 • Bíllinn hefur staðið inni alla tíð.

Nánari upplýsingar gefur slökkviliðsstjóri Dalvíkurbyggðar, Vilhelm Anton Hallgrímsson, í síma 897-1591.

Tímamót í velferðarþjónustu

Ný heildarlög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir tóku gildi þann 1. október sl. Lögin fela í sér margvíslegar réttarbætur fyrir fatlað fólk. Þar með er talin lögleiðing notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir daginn merkisdag sem eigi án efa eftir að festa sig í huga þeirra fjölmörgu sem hafa til ára barist fyrir innleiðingu NPA sem lögbundinnar þjónustu við fatlað fólk sem þarf á miklum stuðningi að halda. Samhliða nýju heildarlöggjöfinni tóku einnig gildi ýmsar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem styðja við innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var af hálfu Íslands árið 2007 og fullgiltur árið 2016.

Samningur Sameinuðu þjóðanna hefur haft mikil áhrif á viðhorf samfélagsins til fatlaðs fólks á liðnum árum og ýtt undir margvíslegar úrbætur, bæði til að efla og bæta þjónustu en ekki síður að efla mannréttindi og auka vernd fólks með fötlun.

Heimild: stjornarrad.is

Auka þarf þrýsting á slökkvivatni í Ólafsfirði

Fjallabyggð leitaði ráðgjafar og lausnar hjá VSÓ verkfræðistofu vegna vatnsþrýstings og slökkvivatns í Ólafsfirði. VSÓ verkfræðistofa hefur lagt til hönnun til þess að auka vatnsþrýsting og slökkvivatn á kerfinu í Ólafsfirði upp að 5 börum, en til þess þurfi að setja þrýstijafnara á neðri vatnstank í Ólafsfirði.  Lagt hefur verið til að farið verði í framkvæmdir í maí mánuði á næsta ári.

Áætlaður kostnaður vegna þessa framkvæmda er um 5-7 milljónir króna.

Framkvæmdir hafnar við áningastað við Hrísatjörn

Hafnar eru framkvæmdir við gerð áningastaðar við Hrísatjörn í Friðlandi Svarfdæla í Dalvíkurbyggð en sveitarfélagið fékk úthlutað 45.391.400.- kr. styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir verkefnið. Dalvíkurbyggð greinir frá þessu á vef sínum.

Áningastaðurinn er hugsaður sem hluti af þeirri uppbyggingu sem nú á sér stað í Friðlandi Svarfdæla en nú þegar hafa verið byggðir upp göngustígar með upplýsingaskiltum, brýr og fuglaskoðunarhús. Áningastaðurinn verður sem fyrr segir staðsettur við Hrísatjörn en markmiðið með uppbyggingu hans er að auka aðgengi ferðamanna að þessu fuglaskoðunarsvæði. Þá verður á svæðinu bílastæði, kort af sveitarfélaginu með helstu kennileitum auk þess sem þar verður aðgangur að salerni en það verður hið eina við þjóðveginn á milli Akureyrar og Siglufjarðar. Sérstaklega verður hugað að aðgengi fyrir fatlaða og gert ráð fyrir að gestir geti notað áningastaðinn til fuglaskoðunar úr hjólastólum.

Sérstök stjórnunar- og verndaráætlun er í gildi fyrir Friðland Svarfdæla og er þessi framkvæmd hluti af henni. Þannig er áningastaðurinn hugsaður til verndar á svæðinu en með því að gera aðgengi að því betra kemur það í veg fyrir, til dæmis, að ferðamenn leggi bílum sínum út í vegköntum til þess að taka myndir og skoða fuglalíf. Þá verður öll hönnun og efnisval í samræmi við reglur um framkvæmdir í Friðlandi Svarfdæla og tekur mið af vistvænni hönnun.

Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki að mestu leyti á þessu ári. Framkvæmdirnar eru unnar í samráði við Vegagerðina og Friðlandsnefnd Friðlands Svarfdæla.

NorðurOrg 2019 haldin í Fjallabyggð

Fjallabyggð mun halda söngkeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi, sem nefnist NorðurOrg á næsta ári. NorðurOrg er undankeppni félagsmiðstöðva á Norðurlandi fyrir söngkeppni Samfés sem fer fram í Laugardalshöll 23. mars 2019. Um er að ræða stóran viðburð sem halda þarf í íþróttahúsinu í Ólafsfirði. Búast má við 350-500 unglingum á viðburðinn. NorðurOrg 2018 var haldin á Sauðárkróki í janúar síðastliðinn.

Viðtal við Aksentije Milisic leikmann KF

Aksentije Milisic kom í viðtal hjá okkur skömmu eftir Íslandsmótið í knattspyrnu. Hann er einn af reyndari leikmönnum KF og hefur leikið 56 KSÍ leiki með liðinu og skorað 10 mörk. Hann hefur einnig leikið fyrir Dalvík, Magna og KA og alls leikið 99 leiki í meistaraflokki á Íslandi og skorað 15 mörk. Hann leikur á miðjunni með KF og er skapandi leikmaður. Aksentije rennur út á samningi 31.12.2018 hjá KF og er því framtíðin óráðin. Faðir Aksentije er Slobodan Milisic þjálfari KF, en hann spilaði á sínum yngri árum fyrir Leiftur í Ólafsfirði í fjögur tímabil en fór síðan til ÍA og KA.

Einkaviðtal við Aksentije Milisic leikmann KF

Nafn, aldur, leikstaða, atvinna ? 

Aksentije Milisic, 25 ára, Miðjumaður, Í námi við Háskóla Akureyrar.

 Hvaða væntingar hafðir þú til KF liðsins áður en Íslandsmótið byrjaði í vor og var eitthvað markmið hjá liðinu fyrir mótið? 

Satt best að segja hafði ég ekki miklar væntingar til liðsins fyrir mót. Ástæðurnar eru þær að við missum 4-5 sterka byrjunarliðsmenn frá því í fyrra og fáum inn unga strákar sem flestir voru að spila sína fyrstu keppnisleiki í meistaraflokki og voru þannig séð óskrifuð blöð og svoleiðis getur alltaf tekið smá tíma að smella. Það er jákvætt að spila ungum og óreyndum strákum en þá verða menn að vera þolinmóðir varðandi það að vilja skjótast strax upp um deild, ef þetta er leiðin sem verið er að fara.  Mér fannst við vera fara inn í mótið með slakari mannskap heldur en í fyrra og það var allt mjög lengi að gerast í leikmannamálum hjá liðinu. Við vorum frekar fáir að æfa í allan vetur og náðum oftar en ekki rétt að skrapa saman í lið í leiki og svoleiðis getur tekið á. Við fengum inn suma leikmenn þegar 2-3 leikir voru nú þegar búnir af mótinu svo að það var erfitt að fara gera eitthverjar vætingar af viti annað en þær að vera á ágætu róli um miðja deild. Á meðan flest öll önnur lið deildarinnar voru að styrkja sig fyrir mót var lítið að frétta hjá okkur og það var ekki fyrr en eftir nokkrar umferðir að við vorum búnir að ná að slípa okkur ágætlega saman. Þrátt fyrir það vorum við með mjög þunnan hóp en við vorum heppnir að sleppa tilturlega vel við meiðsli yfir allt mótið. Mér fannst óraunhæft fyrir tímabilið að ætlast til þess að liðið færi upp um deild miðað við hópinn sem þjálfarinn hafði í höndunum þegar fyrsti leikur var flautaður á.

Það voru engin sérstök markmið sett fyrir mótið en menn vilja alltaf gera betur heldur en árið áður og reyna að blanda sér í baráttuna í efri hluta deildarinnar. Það var markmið að gera heimavöllinn af alvöru gryfju og það tókst, 8 sigrar af 9 mögulegum þetta sumarið. 

KF var í neðsta sæti eftir 5. umferðir, með einn sigraðan leik og 4 töp, og hafði aðeins skorað 2 mörk. Hvað var í gangi í upphafi móts og hvað var gert til að bæta úrslit og leik liðsins? 

Það sem var að hrjá okkur aðalega í byrjun móts voru einstaklingsmistök. Að mínu mati vorum við búnir að spila 3 og hálfan leik kannski af þessum fyrstu 5 bara nokkuð vel. En það er hrikalega dýrt þegar við gefum andstæðingunum mörk í jöfnum leik og mörk breyta leikjum. Einnig vantaði smá bit á síðasta þriðjungi vallarins að skapa og klára færi og því varð byrjunin svona, bæði algjör klaufamistök og svo voru hlutirnir ekki að falla með okkur á réttum tímapunktum. Fólk sá kannski á töflunni að við vorum neðstir og héldu að við værum með lélegt lið en bæði við og þau sem horfðu á leikina okkar vissu að við stóðum okkur betur heldur en taflan sýndi. Við vorum með yngsta liðið í 3.deildinni í sumar og í byrjun sýndi sig ákveðið reynsluleysi á ákveðnum sviðum leiksins.
Það var þannig séð ekki gert eitthvað eitt sérstakt til að bæta gengi liðsins, það vantaði aðalega það að vinna 2-3 leiki í röð og fá sjálfstraust. Við æfðum alveg jafn vel sama þó að það gengi illa eða ekki og ég held að vendipunkturinn okkar í sumar hafi verið sá þegar við heimsóttum topplið Dalvíkur/Reynis og vorum fyrsta liðið í deildinni til að sækja stig á þann völl í mjög vel útfærðum leik að okkar hálfu. Þar á undan unnum við lífsnauðsynlegan sigur gegn KV og þá var farið að koma meira sjálfstraust í liðið og við vissum að á góðum degi gátum við unnið öll lið í þessari deild.  Aðalmálið var að fara ná í eitthver stig á útivelli því á heimavelli vorum við óstöðvandi. Einnig á þessum tímapunkti vorum við byrjaðir að spila mun betri varnarleik sem lið, minnka einstaklingsmistökunum og þá var oftar en ekki alltaf nóg að skora aðeins eitt mark og vinna leikina eins og síðar varð raunin hjá okkur. Við héldum markinu hreinu alls 8 sinnum í sumar.

 Eftir 10 leiki þá var liðið komið í 7. sæti og hafði unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum. Taldir þú líklegt að liðið myndi enda í efstu sætunum í deildinni þegar hér var komið við sögu? 

Ekki akkúrat á þessum tímapunkti kannski. Þarna hafði ég trú á því að við myndum mjakast hægt og rólega upp töfluna en ég var ekki viss um að við myndum berjast um fyrstu 2 sætin. Það var eftir sigurinn á Einherja í 12.umferð sem ég sá tækifærið okkar, miðað við leikina sem voru framundan eftir verslunarmannahelgina þá sá ég fram á það ef við næðum góðum stöðugleika þarna í þessum leikjum og önnur úrslit myndum af og til detta með okkur þá væri þetta klárlega séns, sem þetta síðar varð og rúmlega það.

Eftir 15 leiki þá var liðið allt í einu komið í bullandi séns að tryggja sér sæti í 2. deildinni. Var mikil spenna fyrir síðustu umferðir Íslandsmótsins, og var eitthvað ákveðið sem hefði mátt fara betur í síðustu þremur leikjum liðsins?

Já það var mjög mikil spenna, enda miklu skemmtilegra að spila leiki þar sem allt er undir og þá kemur í ljós úr hverju menn eru gerðir. Í tveimur af síðustu þremur leikjunum sigrum við KH og Dalvík/Reyni sannfærandi svo það er ekkert út á þessa tvo leiki að setja. Það er fyrst og fremst KV leikurinn í næst síðustu umferð sem svíður mjög mikið. Á þeim tímapunkti var allt í okkar höndum og við byrjuðum þann leik af krafti, nýttum ekki færin okkar og KV-menn refsuðu grimmilega úr skyndisóknum. Í kjölfarið urður þeir mjög þéttir í varnarleiknum. Það var að sjálfsögðu margt sem við hefðum geta gert miklu betur í þeim leik en ég myndi ekki segja að við höfðum bognað undan einhverri pressu, við sigrum t.d. Dalvík/Reyni í lokaleiknum undir svakalegri pressu þegar allt var undir. Það var frekar það að þetta var mjög vel útfærður leikur hjá KV, voru þéttir til baka og særðu okkur á skyndisóknum og bara hrós á þá fyrir vel skipulagaðan og agaðan leik.

KF endaði aðeins í 5. Sæti árið 2017 á Íslandsmótinu, en í ár var það 3. sætið og hársbreidd frá sæti í 2. deild að ári. Var tímabilið ásættanlegt þegar horft er á allt mótið sem heild ?

Já ég myndi klárlega segja það þó að endirinn hafi síðan orðið grátlegur. Miðað við hvernig staðan á liðinu var rétt fyrir mót og hvernig mótið byrjaði þá held ég að við höfum gert mjög vel þegar öllu er á botninn hvolft og þjálfarinn náð að kreysta nær allt út úr liðinu. Ef einhver hefði boðið okkur það fyrir mót að vera í 2.sæti þegar ein mínúta væri eftir af tímabilinu, þá held ég að hver einasti maður hefði tekið því.

KF gerði 29 mörk og fékk á sig 23 mörk. Var varnarleikurinn lykill að góðum árangri í sumar? Tímabilið á undan þá skoraði KF 34 og fékk á sig 34.

Já hann var mjög mikilvægur hluti af velgengninni. Við fengum mjög góðan liðsstyrk þegar mótið var byrjað í Jordan Damachoua og hann varð fljótlega eins og klettur í vörninni og líklega besti miðvörður deildarinnar. Einnig datt Halldór markmaður í gírinn um mitt mót og þá byrjaði allt liðið að fúnkera mjög vel í varnarleiknum og var vel agað og skipulagt af þjálfaranum. Það sást best í 0-1 útisigrum á Sindra og Ægi að þá klúðruðum við hverju dauðafærinu á fætur öðru að gera út um leikina en aftur á móti gaf hver einasti maður sig allan fram í varnarleiknum og gáfum við mjög fá færi á okkur og þá var nóg að skora aðeins eitt mark til þess að sækja stigin.

Tíu leikmenn skoruðu mörk KF á Íslandsmótinu, en liðinu hefur vantað mann sem skorar meira en 10 mörk á tímabili. Er þetta það sem skilur liðin af sem komast upp um deild og hafa mikla markahróka í sínu liði? 

Já, það er einn af þeim hlutum sem skilur liðin af. Það er mikilvægt að hafa mann sem hægt er að treysta á að skili 10+ mörkum um sumarið og það er eitthvað sem okkur hefur skort bæði í fyrra og í ár. Aftur á móti fengum við mörk úr mörgum áttum frá liðinu í sumar og það er líka jákvætt. En það er alltaf betra að hafa topp markaskorara sem hægt er síðan að byggja liðið í kringum.

Friðrik Örn (13 leikir) og Hákon Leó (17 leikir) fengu báðir 6 gul spjöld í sumar. Eru þetta grófustu leikmenn liðsins, eða spila þeir bara fastar en aðrir?

Já hiklaust, held að ég tali fyrir hönd allra í hópnum að þessi tölfræði kemur engum á óvart. Skemmtilegt að sjá hins vegar að þeir félagarnir slysuðust í að skora 3 mörk samanlagt í sumar.

Reynir Sandgerði og Höttur og Huginn á Austurlandi verða í 3. deildinni næsta sumar, þekkið þið til þessara liða?

Við þekkjum nokkuð vel til Reynis þar sem við mættum þeim fyrir aðeins ári síðar og við vitum við hverju á að búast í leikjum gegn þeim. Hin tvö liðin vitum við hins vegar minna um og þau gætu mætt með töluverðan breyttan hóp til leiks næsta sumar heldur en hann hefur verið hjá þeim síðustu ár.

Hvernig leggst næsta sumar í leikmenn KF? Eigi þið von að halda svipuðum hóp og jafnvel fá nýja menn næsta vor?

Í hreinskilni sagt hef ég hreinilega ekki hugmynd um það eins og staðan er núna hvernig næsta ár verður. Þjálfarinn er orðinn samningslaus og lítið komið fram en sem komið er hvort hann verður áfram ásamt því að þó nokkuð af leikmönnum þar á meðal ég, eru samningslausir. Ef Míló verður áfram býst ég við því að það verður svipaður hópur og var í ár og þá vonandi með viðbót nokkurra leikmanna tímanlega svo hægt sé að gera alvöru atlögu að toppbaráttunni aftur. Ef það kemur nýr maður í brúnna hins vegar þá gætu orðið töluverðar breytingar á leikmannahópnum.

Fréttamiðillinn Héðinsfjörður.is hefur verið með umfjallanir um leiki KF síðustu árin. Lesa leikmenn þessar fréttir og finnst ykkur að þær auki áhugann á leikjum liðsins ?

Þetta er frábært framtak og langtum flestir leikmenn liðsins lesa þetta enda mjög gaman að sjá hvernig fjallað er um okkur. Þetta hefur klárlega aukið áhugann á liðinu og einnig er gaman að sjá að lífgað hefur verið upp á Facebook síðu liðsins þar sem leikmannakynningar og aðrar fréttir tengdar liðinu og leikjum hefur verið sett inn reglulega yfir sumarið. Svona hlutir auka áhugann og gaman fyrir fólk að geta fylgst með liðinu hvar sem það er statt.

 

Viðtal við Tómas Veigar leikmann KF

Við fengum nokkra af leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal eftir að Íslandsmótinu lauk í 3. deild karla. Liðið enda í 3. sæti deildarinnar og var mjög nálægt því að komast upp um deild þrátt fyrir að hafa byrjað mótið illa. Annar í viðtal var Tómas Veigar sem leikur á miðjunni hjá KF og stundar auk þess nám í Háskólanum í Reykjavík . Tómas lék  alla 18 leikina í deildinni og tvo í bikarkeppninni, og skoraði 1 mark. Hann hefur alls leikið 21 KSÍ leik með félaginu.  Fleiri viðtöl birtast næstu daga.

Nafn, aldur, leikstaða, atvinna ? Tómas Veigar Eiríksson, 20 ára miðjumaður og námsmaður.

Hvaða væntingar hafðir þú til KF liðsins áður en Íslandsmótið byrjaði í vor og var eitthvað markmið hjá liðinu fyrir mótið?                                                                                                                                         

Fyrir mót vildi ég fara upp í 2. deildina þar sem við áttum gott undirbúningstímabil þá sérstaklega í Lengjubikarnum og taldi ég því liðið eiga góðan möguleika á toppbaráttu, sem og aðrir leikmenn liðsins þar sem markmið liðsins var alltaf að vera í efstu sætunum.

 

KF var í neðsta sæti eftir 5. umferðir, með einn sigraðan leik og 4 töp, og hafði aðeins skorað 2 mörk. Hvað var í gangi í upphafi móts og hvað var gert til að bæta úrslit og leik liðsins? 

Byrjunin var erfið fyrir okkur alla. Fyrir utan leikinn á móti Sindra sem var ömurlegur, get ég ekki sagt að við spiluðum fyrstu 5 leikina mjög illa. Við spiluðum á köflum ágætlega en náðum einfaldlega ekki að skora, því náðum við aldrei á fá almennilegt sjálfstraust til þess að spila okkar bolta sem gerði byrjunina einkar erfiða fyrir allt liðið. Á þessu tímabili breyttist markmið okkar frá því að vinna deildina í það að berjast fyrir lífi okkar í deildinni og ég er nokkuð viss um að enginn hugsaði um það að reyna komast upp um deild. Ég held að það sem breytti öllu fyrir okkur var akkúrat þessi breytta nálgun á tímabilið. Þegar þarna var komið þurftum við að girða okkur í brók og fara berja á andstæðingum okkar í stað þess að vera leyfa þeim að komast upp með að taka 3 stig úr öllum leikjum.

 

Eftir 10 leiki þá var liðið komið í 7. sæti og hafði unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum. Taldir þú líklegt að liðið myndi enda í efstu sætunum í deildinni þegar hér var komið við sögu? 

Eftir þessa slöku byrjun fannst mér margt breytast. Við unnum Ægi sem var góður sigur og töpuðum svo gegn góðu liði KH. Leikurinn eftir þann leik breytti fannst mér öllu. Það var leikurinn gegn KV, sem var eitt af toppliðunum þá. Eftir þann sigur kom loksins sjálfstraust í liðið sem hafði vantað frá byrjun. Eftir 10 umferðir vorum við komnir á fínt skrið og þá var ég aftur byrjaður að hugsa um toppsætin og var viss um að ef við myndum ná að fylgja þessum árangri eftir þá gæti allt gerst.

Eftir 15 leiki þá var liðið allt í einu komið í bullandi séns að tryggja sér sæti í 2. deildinni. Var mikil spenna fyrir síðustu umferðir Íslandsmótsins, og var eitthvað ákveðið sem hefði mátt fara betur í síðustu þremur leikjum liðsins? 

Já, spennan fyrir þessa þrjá síðustu leiki var mikil innan hópsins enda gerðu menn sér grein fyrir því að það var undir okkur komið að koma liðinu aftur upp um deild. Þegar ég horfi til baka á þessa síðustu leiki er augljóst hvað mátti betur fara og það var leikurinn á mótí KV. Leikirnir á móti bæði KH og Dalvík voru frábærir en leikurinn gegn KV var hreint út sagt arfaslakur. Við nýttum ekki góð færi og vorum kæruleusir í vörninni, eitthvað sem minnti á byrjun tímabilsins.

KF endaði aðeins í 5. Sæti árið 2017 á Íslandsmótinu, en í ár var það 3. sætið og hársbreidd frá sæti í 2. deild að ári. Var tímabilið ásættanlegt þegar horft er á allt mótið sem heild ?  

Eins og ég sagði áðan vildi ég fara upp fyrir tímabilið svo út frá því séð fannst mér það mikil vonbrigði. En hvernig tímabilið spilaðist og hvernig KF hefur gengið undafarin ár er þetta vissulega bæting og auðvitað ásættanlegt en ásættanlegt er ekki alltaf nóg, en kannski er þetta bara biturleikinn að tala.

KF gerði 29 mörk og fékk á sig 23 mörk. Var varnarleikurinn lykill að góðum árangri í sumar? Tímabilið á undan þá skoraði KF 34 og fékk á sig 34.

Varnarleikurinn var klárlega stór hluti af gengi liðsins í sumar. Öftustu fjórir voru alltaf tilbúnir í leikina og voru heilt yfir frábærir, því er ekki furða að besti leikmaður KF var Damak og Andri valinn í lið 3. deildar hjá Fótbolta.net. Varnarleikurinn er samt meira en bara varnarlínan og var meginástæða góðrar varnarvinnu í sumar var liðið í heild. Það voru allir tilbúnir að verjast saman. Ef menn eru ekki allir eru tilbúnir í það, skiptir ekki máli hversu góðir einstaklingarnir eru og árangurinn verður enginn. Þess vegna er gott að hafa þjálfara eins og Milo sem minnir mann reglulega á það að allir verða að vera tilbúnir til þess að leggja á sig. Þó er vert að minnast á það að frammistaðan okkar heima var frábær og var hún einn stærsti hlutinn af góðu gengi. Þessi góða frammistaða á heimavelli hefði orðið engin ef áhorfendur hefðu ekki verið tilbúnir í að styðja við bak okkar, þó byrjunin hefði verið slök og það sést hversu miklu þessi stuðningur breytir, enda er liðið þakklátt fyrir alla þá sem komu að hvetja okkur áfram í sumar.

Tíu leikmenn skoruðu mörk KF á Íslandsmótinu, en liðinu hefur vantað mann sem skorar meira en 10 mörk á tímabili. Er þetta það sem skilur liðin af sem komast upp um deild og hafa mikla markahróka í sínu liði?

Fótbolti er liðsíþrótt og þarf liðið að vera samstillt og tilbúið í allt saman en auðvitað er mikilvægt að hafa leikmann sem skorar mörk gerir út um leiki. Því er þetta án efa einn af þeim hlutum sem skilja liðin af sem komast upp og þau sem gera það ekki.

Friðrik Örn (13 leikir) og Hákon Leó (17 leikir) fengu báðir 6 gul spjöld í sumar. Eru þetta grófustu leikmenn liðsins, eða spila þeir bara fastar en aðrir?

Frikki og og Hákon eru einfaldlega dólgar á vellinum, það verður bara að segjast eins og er. Þeir æfa eins og þeir spila, hart og fá gul spjöld meira en aðrir. Það er samt eitt af því sem lið þurfa að hafa, einhverja vitleysinga sem rífa liðið áfram þegar menn verða andlausir. Þó er það rannsóknarefni hvernig Hákon fékk ekki fleiri gul spjöld fyrir svanadýfurnar sína, þær voru svakalegar.

Reynir Sandgerði og Höttur og Huginn á Austurlandi verða í 3. deildinni næsta sumar, þekkið þið til þessara liða?

Þetta eru allt góð lið sem geta spilað fínan fótbolta en KF er einfaldlega betra í íþróttinni og ég hef engar áhyggjur af þessum liðum, frekar en öðrum.

Hvernig leggst næsta sumar í leikmenn KF? Eigi þið von að halda svipuðum hóp og jafnvel fá nýja menn næsta vor?

Það hlýtur að leggjast vel í leikmennina og þeir stemmdir að byggja ofan á fínan árangur í sumar. Þetta er svo spurning sem Maggi og félagar hljóta að vera velta fyrir sér.

Fréttamiðillinn Héðinsfjörður.is hefur verið með umfjallanir um leiki KF síðustu árin. Lesa leikmenn þessar fréttir og finnst ykkur að þær auki áhugann á leikjum liðsins ?

Já algjörlega, leikmennirnir lesa þessar fréttir og hafa gaman af. Þær auka vissulega áhugann bæði hjá áhorfendum sem og leikmönnum liðsins, enda alltaf gaman að sjá myndir af Hákoni í loftinu.

 

 

 

 

 

 

 

Viðtal við Hákon Leó leikmann KF

Við fengum nokkra af leikmönnum Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal eftir að Íslandsmótinu lauk í 3. deild karla. Liðið enda í 3. sæti deildarinnar og var mjög nálægt því að komast upp um deild þrátt fyrir að hafa byrjað mótið illa. Fyrstur í viðtal var Hákon Leó sem leikur sem vinstri bakvörður hjá KF og er einnig bakari hjá hinu frábæra Aðalbakarí á Siglufirði. Hákon Leó lék 17 leiki í deildinni og tvo í bikarkeppninni, og skoraði 1 mark. Hann hefur alls leikið 55 KSÍ leiki með félaginu.  Fleiri viðtöl birtast næstu daga.

Einkaviðtal við Hákon Leó leikmann KF

1. Nafn, aldur, leikstaða, atvinna ?

Hákon Leó Hilmarsson, 21 ára, vinstri bakvörður og Bakari í Aðalbakaríinu á Siglufirði.

2. Hvaða væntingar hafðir þú til KF liðsins áður en Íslandsmótið byrjaði í vor og var eitthvað markmið hjá liðinu fyrir mótið?

Ég hafði miklar væntingar til liðsins, Við áttum mjög gott undirbúningstímabil og vorum við alls líklegir. Markmiðið var að fara upp.

3. KF var í neðsta sæti eftir 5. umferðir, með einn sigraðan leik og 4 töp, og hafði aðeins skorað 2 mörk. Hvað var í gangi í upphafi móts og hvað var gert til að bæta úrslit og leik liðsins?

Það er ekki gott að segja, eins og ég kom fram á áðan þá áttum við mjög gott undirbúningstímabil og unnum okkar riðil í lengjubikarnum. Fyrsti leikurinn okkar gegn KFG var mjög góður og frábær varnaleikur. Aðal vandamálið var að búa okkur til færi og skora, það þurfti bara aðeins að fín pússa liðið.

4. Eftir 10 leiki þá var liðið komið í 7. sæti og hafði unnið 4 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum. Taldir þú líklegt að liðið myndi enda í efstu sætunum í deildinni þegar hér var komið við sögu?

Ég viðurkenni það alveg að þegar við vorum að skrapa botninn þá var útlitið ekkert bjart en við náðum að snúa okkar leik við og eftir leikinn gegn Dalvík á útivelli var mjög góður andi í liðinu og ég hafði fulla trú að við gætum endað í efri hluta deildarinnar.

5. Eftir 15 leiki þá var liðið allt í einu komið í bullandi séns að tryggja sér sæti í 2. deildinni. Var mikil spenna fyrir síðustu umferðir Íslandsmótsins, og var eitthvað ákveðið sem hefði mátt fara betur í síðustu þremur leikjum liðsins?

Liðið var svo einbeitt að koma sér eins ofarlega og hægt var eftir slæma byrjun að allt í einu vorum við í kjörstöðu að klára dæmið. Öll lið í kringum okkur voru að tapa stigum hér og þar og við héldum bara okkar striki. Eini leikurinn sem hefði mátt fara betur í þessum lokaleikjum var að sjálfsögðu tapleikurinn gegn KV, hann var gríðarlega mikilvægur í þessari toppbaráttu en enginn af okkur átti góðan dag og KV menn voru með hörkulið sem unnu sanngjarnan sigur.

6. KF endaði aðeins í 5. Sæti árið 2017 á Íslandsmótinu, en í ár var það 3. sætið og hársbreidd frá sæti í 2. deild að ári. Var tímabilið ásættanlegt þegar horft er á allt mótið sem heild ?

Klárlega, miða við þessa byrjun hjá okkur sjá allir sem horfa á tímabilið að 3. sæti er eiginega ótrúlegur árangur. En fyrir tímabil og eftir það vita allir að KF á að sjálfsögðu heima í hærri deild.

7. KF gerði 29 mörk og fékk á sig 23 mörk. Var varnarleikurinn lykill að góðum árangri í sumar? Tímabilið á undan þá skoraði KF 34 og fékk á sig 34.

Alveg pottþétt, í 7 leikjum af 18 fáum við ekki á okkur mark þannig við vorum mjög góðir varnarlega. Sóknarlega vorum við einnig mjög sterkir en okkur vantaði oft smá heppni með okkur til að klára færin.

8. Tíu leikmenn skoruðu mörk KF á Íslandsmótinu, en liðinu hefur vantað mann sem skorar meira en 10 mörk á tímabili. Er þetta það sem skilur liðin af sem komast upp um deild og hafa mikla markahróka í sínu liði?

Þegar upp er staðið þá eru liðin sem komust upp með leikmenn sem skoruðu mörg mörk og eru þeir klárlega ástæða afhverju þessi lið enduðu fyrir ofan okkur, því án þeirra hefðu þeir tapað fleiri stigum.

9. Friðrik Örn (13 leikir) og Hákon Leó (17 leikir) fengu báðir 6 gul spjöld í sumar. Eru þetta grófustu leikmenn liðsins, eða spila þeir bara fastar en aðrir?

Ég get alveg tekið á mig þann heiður að vera grófur leikmaður en við sem lið spilum hart og fast og það fer stundum fyrir hjartað á öðrum liðum og dómurum því miður. Annars er Frikki líka rosa grófur.

10. Reynir Sandgerði og Höttur og Huginn á Austurlandi verða í 3. deildinni næsta sumar, þekkið þið til þessara liða?

Við höfum spilað mikið við þessi lið í gegnum tíðina enda höfum við lengi verið saman í 2. deildinni. Reynis menn eru með mjög sterkt lið sem er á mikilli uppleið núna eftir að hafa fallið í 4.deild fyrir ári síðan. Höttur og Huginn eru alltaf óskrifuð blöð fyrir tímabil þar sem liðin þeirra breytast mjög mikið á milli tímabila, sérstaklega Huginn. En við tökum vel á móti þeim á næsta tímabili og hlökkum bara til að fá þá í heimsókn og heimsækja þá.

11. Hvernig leggst næsta sumar í leikmenn KF? Eigi þið von að halda svipuðum hóp og jafnvel fá nýja menn næsta vor?

Fyrir mína parta hlakka ég mjög mikið til næsta tímabils. Leikmannahópurinn held ég að ætti að haldast svipaður en það er aldrei að vita svona snemma eftir tímabil hvort einhverjir leita annað eða hvort nýjir strákar komi inn, það verður bara að koma í ljós.

12. Fréttamiðillinn Héðinsfjörður.is hefur verið með umfjallanir um leiki KF síðustu árin. Lesa leikmenn þessar fréttir og finnst ykkur að þær auki áhugann á leikjum liðsins ?

Já, öll umfjöllun er góð umfjöllun og í ár fannst mér umfjöllunin um liðið til fyrirmyndar og fólk tók mjög vel í það og var mætingin á völlin til fyrirmyndar.

Karatefélagið Fram á Skagaströnd

Karatefélagið Fram á Skagaströnd bauð til æfingabúða með Karin Hägglund í íþróttahúsinu á Skagaströnd dagana 21.-23. september síðastliðinn.

Karin kemur frá Svíþjóð og er margfaldur Norðurlandameistari í kata og hefur nú síðast unnið með sænska katalandsliðinu. Hún hefur áður komið til Íslands til að þjálfa íslenska landsliðið.  Hún kom til Skagastrandar og var með æfingabúðir fyrir börn og konur.

Bryndís Valbjarnardóttir er þjálfari hjá Karatefélaginu Fram á Skagaströnd og bauð hún iðkendum Júdódeildar Tindastóls á æfingabúðirnar til að prófa karate sem er, líkt og júdó, japönsk bardagaíþrótt. Um var að ræða einstakt tækifæri til að prófa karate undir handleiðslu frábærra þjálfara.

Samtals voru fimm æfingar haldnar frá föstudegi fram á sunnudag. Morgunæfingar voru fyrir alla, börn og konur, en eftirmiðdagsæfingar voru einungis fyrir konur.

Æfingabúðirnar heppnuðust afar vel og voru gestir heillaðir af fegurð bæjarins og því góða og óeigingjarna karatestarfi sem Bryndís hefur sinnt á Skagaströnd. Þess má geta að Bryndís hefur verið gestaþjálfari Júdódeildar Tindastóls í Blönduðum Bardagalistum.

Myndir: Tindastoll.is

Texti: Tindastoll.is /  Einar Örn Hreinsson.

Ljóðahátíðin Haustglæður hefst í dag á Siglufirði

Fyrsti viðburður ljóðahátíðarinnar Haustglæður er í dag, sunnudaginn 30. september og er hann samofinn öðrum viðburði sem nefnist Kvöldsöng í Siglufjarðarkirkju, sem stendur frá kl. 17.00 – 18.00.

Kvöldsöngur verður í Siglufjarðarkirkju í dag frá kl. 17.00 til 18.00, og markar hann upphaf vetrarstarfsins. Þar verður komandi vikum og mánuðum heilsað með tónlist og ljóðaflutningi. Um verður að ræða uppbyggilega og gefandi stund í notalegu umhverfi.

Feðginin Amalía Þórarinsdóttir og Þórarinn Hannesson munu sjá um ljóðaflutninginn og verða eingöngu flutt ljóð eftir Siglfirðinga eða skáld tengd Siglufirði. Þar má t.d. nefna Sverri Pál Erlendsson, Hannes Jónasson, Ólaf Ragnarsson, Signýju Hjálmarsdóttur, Inga Steinar Gunnlaugsson, Sigurbjörgu Þrastardóttur og Pál Helgason.

Árlegt bátasmíðanámskeið Síldarminjasafnsins

Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir árlegu námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta dagana 22. – 26. október 2018. Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður og forsvarsmaður Báta- og hlunnindasýningarinnar að Reykhólum sér um kennslu en Hafliði hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum. Sambærileg námskeið hafa farið fram síðastu ár og tekist afar vel til.

Hámarksfjöldi þátttakenda er sjö, þar sem nemendum er ætlað að taka fullan þátt í smíði og annarri vinnu, undir handleiðslu kennara. Umsóknarfrestur er til 10. október. Senda má tölvupóst á netfangið anita@sild.is fyrir nánari upplýsingar og skráningu.

Frjálsíþróttir Tindastóls að hefjast

Frjálsíþróttadeild Tindastóls býður upp á frjálsíþróttaæfingar fyrir alla aldurshópa.  Haustæfingar hefjast 1. október og standa til 31. janúar 2019.  Í frjálsum íþróttum er lögð áhersla á að þjálfa bæði snerpu og úthald. Frjálsar geta því hentað vel með öðrum íþróttum.

Æfingar, æfingatímar og þjálfarar

Í yngsta hópunum 6-9 ára er lögð áhersla á leik og fjölbreyttar æfingar sem veita góðan grunn fyrir frekari frjálsíþróttaþjálfun eða iðkun annarra íþrótta.

 • Þriðjudagar kl.13:15 – 14:00
 • Föstudagar kl. 14:00 – 14:45
 • Þjálfari Daníel Þórarinsson

Í eldri hópum 10-13 ára verður sérhæfingin meiri, farið er að æfa markvisst einstakar greinar innan frjálsra íþrótta, þ.e. hlaup, köst og stökk.

 • Mánudagar kl.16:10 – 17:50
 • Miðvikudagar kl. 17:50 – 19:30
 • Þjálfari Gestur Sigurjónsson

Í unglingahópum 14-18 ára verður sérhæfingin enn meiri og við 19+ ára verður sérhæfingin ennþá meiri en þá hafa flestir valið sér ákveðna grein eða greinar innan frjálsíþrótta.

 • Mánudagar kl. 18:30 – 21:00 Íþróttavöllur / Reiðhöll / Þreksalur
 • Þriðjudagar kl. 17:00 – 18:30 Varmahlíð
 • Miðvikudagar kl. 17:50 – 19:30 Íþróttavöllur / Íþróttahús
 • Fimmtudagar kl. 18:00 – 19:30 Íþróttavöllur / Þreksalur
 • Föstudagar kl. 18:15 – 20:00 Íþróttavöllur / Reiðhöll
 • Þjálfari Sigurður Arnar Björnsson

Allir mega koma og prófa áður en gengið er frá skráningu.

Afhjúpa minnisvarða um Gústa guðsmann

Minnisvarði um Gústa guðsmann verður afhjúpaður laugardaginn 13. október á Ráðhústorginu á Siglufirði. Hátíðleg athöfn verður við styttuna sem hefst kl. 13:30 og eru allir velkomnir.

Ágúst Gíslason, eins og hann hét réttu nafni, fæddist 29. ágúst árið 1897. Hann lést 25. mars árið 1985.

Minnisvarðinn mun varðveita um ókomna tíð minninguna um guðsmanninn, kristniboðann, sjómanninn og alþýðuhetjuna. Styttan mun setja sterkan svip á Ráðhústorgið á Siglufirði.

Á koparplatta sem verður við styttuna stendur meðal annars: Hann var alþýðuhetja og mikill mannvinur sem gaf allt sitt aflafé til fátækra barna víða um heim.  Gústi lifði eftir orðum Krists: Sælla er að gefa en þiggja.

Opnaður hefur verið styrktarreikningur í Arion banka á Siglufirði til að kosta gerð styttunnar og hafa margir lagt fram fé nú þegar.

Númer reikningsins er: 0348 – 26 – 2908
Kennitala áhugamannafélagsins er 500817-1000

Laufskálarétt um helgina

Drottning stóðréttanna, Laufskálarétt, verður dagana 28.-29. september í Skagafirði.

Föstudagur 28. September

Stórsýning og skagfirsk gleði í reiðhöllinni Svaðastaðir kl. 20:30 (Höllin opnar kl. 20)

Miðaverð kr. 3.000

Laugardagur 29. September

Laufskálarétt í Hjaltadal:

Stóðið rekið úr Kolbeinsdal til Laufskálaréttar upp úr kl. 11:30

Réttarstörf hefjast kl. 13:00

 

Laufskálaréttarball kl: 23-03

Hljómsveitin Stuðlabandið ásamt Jónsa í Svörtum fötum

Miðaverð í forsölu kr. 3.700 en 4.000 við innganginn

Hafa áhyggjur af Heilsugæsluþjónustu á Akureyri

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur lýst yfir áhyggjum af ástandi heilsugæslugæsluþjónustu HSN á Akureyri og krefst þess að ríkisvaldið setji aukið fjármagn til starfseminnar til að bæta aðstöðu og fjölga læknum.
Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands kom á fund bæjarráðs Akureyrar í vikunni og fór yfir málin.

Langir biðtímar eftir þjónustu heilsugæslulækna að undanförnu helgast að stórum hluta af mönnunarvanda, að mati Jóns Helga, þ.e. læknar stöðvarinnar eru of fáir. Starfsaðstaða hefur einnig áhrif á hvernig gengur að manna stöður. Nýtt húsnæði fyrir heilsugæslustöð eða -stöðvar á Akueyri er því mikilvægt skref í að bæta þjónustuna að mati forsvarsmanna HSN. Jón Helgi lýsti einnig áhyggjum af fjármögnun starfseminnar þegar horft er til framkomins fjárlagafrumvarps vegna 2019.

Grunnlaun bæjarstjóra Akureyrar eru 1.150.000 kr auk stjórnendaálags

Samkvæmt ráðningarsamningi Ásthildar Sturludóttur bæjarstjóra Akureyrarbæjar þá hefur hún 1.150.000 kr. í mánaðarlaun auk 45% stjórnendaálags ofan á grunnlaunin. Það gerir að auki 517.500 kr. í mánaðargreiðslur, og eru því heildargrunnlaun um 1.667.500 kr. Stjórnendaálag er þóknun fyrir unna yfirvinnu og allt áreiti utan dagvinnutíma, undirbúning, ferðatíma, móttökur gesta og hvað annað vinnuframlag sem til fellur utan dagvinnutíma.

Bæjarstjóri fær ekki greitt sérstaklega fyrir setu á fundum bæjarstjórnar, bæjarráðs eða öðrum fundum fastanefnda Akureyrarbæjar. Orlof er 30 virkir dagar á ári hjá bæjarstjóra Akureyrarbæjar.

Akureyrarbær greiðir kostnað bæjarstjóra vegna notkunar á farsíma ásamt kostnaði vegna heimanettengingar.

Allan samningin má lesa á vefsvæði Akureyrarbæjar.

Nýr vefur Fjallabyggðar kominn í loftið

Fréttatilkynning frá Fjallabyggð vegna uppfærslu á heimasíðu sveitarfélagsins.

Í dag miðvikudaginn 26. september hefur endurbættur stjórnsýsluvefur Fjallabyggðar verið opnaður. Um er að ræða uppfærslu á vefumsjónakerfi vefsins og um leið hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á útliti, virkni og skipulagi vefsins. Efni vefsins hefur verið endurskoðað og heilmiklu af nýju efni bætt við. Markmiðið með nýjum og bættum vef er að gera hann enn notendavænni og skilvirkari en áður hefur verið. Leitast var eftir að setja vinsælar leitarleiðir fremst til að auðvelda notendum aðgang að því efni sem vinsælast er.

Opnuð hefur verið Rafræn Fjallabyggð þar sem íbúar hafa aðgang að Mínum síðum og þar munu íbúar geta valið að fara inn um Bæjardyrnar þar sem yfirlit reikninga og samskipta íbúa við bæinn verða aðgengileg.

Vefurinn er vottaður og stenst kröfur um aðgengi fyrir sjóndapra/sjónskerta.

Stefna ehf. sá um forritun vefsins og ráðgjöf vegna viðmóts. Vefurinn er einnig hýstur hjá Stefnu ehf.

Það er von okkar að vefurinn nýtist íbúum og öðrum notendum vel.

Allar ábendingar, hrós sem og kvartanir vegna vefsins má gjarnan senda inn til okkar með því að fara á svæðið Bærinn minn – Fjallabyggð undir viðburðadagatali.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Klassík í Bergi

Fyrstu tónleikarnir í tónleikaröðinni Klassík í Bergi, í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík verða laugardaginn 29. september og eru það félagarnir Sigurður Flosason og Gunnar Gunnarsson sem spila fyrir gesti. Á tónleikunum verður flutt fjölbreytt og blönduð dagskrá þar sem koma fyrir swing tónlist, þekktir sálmar sem þeir félgar hafa hljóðritað auk trúartónlistar þeldökkra bandaríkjamanna; svokallaðra negrasálma og spíritúala. Í öllum tilfellum gera Gunnar og Sigurður tónlistina sína með eigin útsetningum og ófyrirsjáanlegum spuna. Vænta má skemmtilegra kynninga á fjölbreyttum og skemmtilegum tónleikum þar sem samleikur byggður á tuttugu ára samvinnu er í öndvegi. Tónleikarnir hefjast kl. 16:00.

Saxófónleikarinn Sigurður Flosason og organistinn Gunnar Gunnarsson hófu samstarf sitt árið 1998.  Þeir héldu sína fyrstu tónleika í Hallgrímskirkju í september 1999 og fyrsta platan, Sálmar lífsins, kom út árið 2000.  Hún snérist um endurútsetningar þekktra sálmalaga og spuna út frá þeim.  Sálmar jólanna kom út árið 2001, en á henni voru sálmar og önnur tónlist tengd jólum tekin til skoðunar. Þriðji diskurinn, Draumalandið, kom út árið 2004, en hann hefur að geyma íslensk ættjarðarlög í spunaútsetningum dúósins. Sá fjórði, Sálmar tímans, kom ári 2010 en á honum er fjölbreytt úrval sálmalaga. Þá hefur komið út safndiskurinn Icelandic hymns (2013) en á honum eru eingöngu íslenskir sálmar af fyrri diskum Sigurðar og Gunnars í útgáfu fyrir erlenda hlustendur. Gunnar og Sigurður hafa komið fram á fjölmörgum tónleikum í öllum landshlutum, en auk þess í Þýskalandi, Danmörku, Færeyjum og Álandseyjum.

Leikmaður Dalvíkur til Vålerenga á reynslu

Sóknarmaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson í Dalvík/Reyni  fer í byrjun október á reynslu til Vålerenga í Noregi.  Nökkvi mun skoða aðstæður hjá Norska klúbbinum og æfa með aðalliði Vålerenga í vikutíma.  Vålerenga er sem stendur í 7. sæti efstudeildar í Noregi. Hjá félaginu er einn Íslendingur en það er hann Samúel Kári Friðjónsson. Þetta kemur fram á dalviksport.is.
Þjálfari liðsins er Ronny Deila en hann hefur m.a. verið hjá stórliði Celtic í Skotlandi.

Pepsi-deildar félög hér á landi hafa einnig fylgst náið með bræðrunum Þorra og Nökkva og fóru þeir m.a. í vikutíma á reynslu til FH núna í sumar.

Þeir bræður spiluðu stórt hlutverk hjá Dalvík/Reyni í sumar eftir að hafa komið heim frá Hannover í Þýskalandi. Þorri Mar spilaði alla 18 leiki liðsins og gerði í þeim 4 mörk. Nökkvi lék 16 leiki og endaði sem markahæsti leikmaður liðsins með 10 mörk.

Það verður því spennandi að fylgjast með framtíð leikmannana en ljóst er að þetta er mikil viðurkenning fyrir það starf sem unnið er í kringum fótboltann í Dalvíkurbyggð.

Heimild og mynd: dalviksport.is

Arnar Herbertsson sýnir á Siglufirði

Sýning með nokkrum málverkum Arnars Herbertssonar hefur verið opnuð í Söluturninum við Aðalgötu á Siglufirði, en það eru þau Örlygur Kristfinnsson og Guðný Róbertsdóttir eigendur Söluturnsins sem standa fyrir sýningunni.  Söluturinn opnaði sem gallerí í vor eftir miklar endurbætur á húsnæðinu.

Sýningin verður opin um helgar í október frá kl.  15:00-17:00. Ný bók um Arnar og list hans fæst á staðnum.

Arnar Herbertssoner fæddur á Siglufirði árið 1933 og ólst þar upp. Hann lærði húsamálun sem hann sinnti samhliða myndlistariðkun eftir þörfum. Hann flutti til Reykjavíkur 1958 og nam við Myndlistaskólann í Reykjavík 1959-67.

Eftir grafíkskeið sitt málaði hann nokkuð af minningarmyndum af æskuslóðum á Siglufirði ásamt altaristöflum í þjóðlegum stíl. Arnar hefur á síðustu árum vakið mikla athygli fyrir litrík abstrakt verk sín.

Arnar hefur hlotið starfslaun úr launasjóði myndlistarmanna og verk eftir hann eru í eigu helstu safna á Íslandi.

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins á Siglufirði

Það hefur verið metár í heimsóknum Skemmtiferðaskipa á Siglufirði í sumar. Í sumar voru 42 skipakomur og var áætlað að yfir 7100 farþegar hefðu verið í þessum heimsóknum. MS Pan Orama var með 16 heimsóknir í sumar, og verður síðasta heimsókn skipsins á morgun, 24. september samkvæmt upphaflegri áætlun. Með þessu mun heimsóknum skemmtiferðaskipa ljúka, nema einhverjar óvæntar heimsóknir komi. Áætlað er að skipið komi á morgun kl. 13:00 og leggi úr höfn kl. 17:00.  Með skipinu eru 49 farþegar, en þetta er minnsta skipið sem hefur heimsótt Siglufjörð í sumar í þessum skipulögðu ferðum.

Mikið markaðsstarf hefur verið unnið til að fá þessi skip til Siglufjarðar, afþreying fyrir gestina hefur batnað mikið, og heimsækja nú gestir skipanna Brugghúsið Segul 67, Síldarminjasafnið og fleira í Fjallabyggð.

Málverk í eigu Fjallabyggðar til sýnis í MTR í september

Í nýjum sal Menntaskólans á Tröllaskaga eru sett upp listaverk mánaðarlega, oftast af einstökum listamönnum af nærsvæði skólans sem er boðið að sýna verk sín. Í þessum mánuði voru sótt verk í Listasafn Fjallabyggðar.

Yfirskriftin er: „Afstrakt eða Abstrakt“ – en sýningin er helguð óhlutbundnum verkum. Hún samanstendur af fimm verkum úr höfðinglegri gjöf hjónanna Arngríms Ingimundarsonar og Bergþóru Jóelsdóttur til Siglufjarðarkaupstaðar árið 1980. Með henni vildu hjónin sýna Siglfirðingum þakklæti fyrir stuðning þeirra við foreldra Arngríms eftir að þau brugðu búi í Fljótunum vegna heilsubrests og fluttust til Siglufjarðar. Í heild gáfu Arngrímur og Bergþóra Siglufjarðarkaupstað 127 verk eftir marga af frestu listmálurum þjóðarinnar á tuttugustu öld. Er þessi einstaka gjöf grunnurinn að listaverkasafni Fjallabyggðar í dag.

Verkin sem til sýnis eru í Menntaskólanum á Tröllaskaga í september, og eru notuð sem námsefni í grunnáfanga í myndlist.

Tindastóll hélt sætinu í 2. deild

Mikil spenna var í lokaumferð 2. deild karla í knattspyrnu sem fram fór í dag.  Huginn frá Seyðisfirði var þegar fallinn í 3. deild, en þrjú önnur lið gátu fallið, en það voru Höttur, Leiknir F. og Tindastóll.  Leiknir F. var fyrir lokaumferðina í næstneðsta sæti með 19. stig, svo kom Tindastóll með 21 stig og loks Höttur með 21 stig. Að lokum var það Huginn og Höttur sem féllu í 3. deild í ár, en Tindastóll sigraði Völsung 3-2 og Leiknir F. sigraði Víði. Höttur tapaði fyrir Aftureldingu 1-3, en önnur úrslit voru óhagstæði svo ekkert nema sigur hefði dugað í dag fyrir liðið til að halda sér.

Tindastóll endaði í 8. sæti með 24 stig, liðið sigraði 7 leiki, gerði 3 jafntefli og tapaði 12 leikjum. Stefan Antonio Lamanna gerði þrennu fyrir Tindastól í leiknum og Völsungur missti mann af velli á 59. mínútu með rautt spjald.

Bæjar- og menningarvefur