Lýðheilsugöngur um allt land

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands verða á öllu landinu og eru einn af hápunktum í glæsilegri afmælisdagskrá FÍ en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka um 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Fjallabyggð hefur ákveðið að taka þátt í verkefninu með FÍ og eru bæjarbúar hvattir til að taka þátt.

Nokkra lýðheilsugöngur verða í Fjallabyggð og hefst fyrsta gangan í dag, 7. september í Ólafsfirði. Fararstjóri er Harpa Hlín Jónsdóttir. Mæting er kl. 16.50 við ÚÍF húsið, keyrt verður  fram að Reykjum í einkabílum, gengið upp að Reykjafossi og áfram upp Reykjadalinn eftir slóða. Ganga við allra hæfi og allir velkomnir.

Fararstjórar í Fjallabyggð eru Harpa Hlín Jónsdóttir (Ólafsfjörður) og Gestur Hansson (Siglufjörður).

Næstu göngur verða sem hér segir:

Miðvikud. 7. sept. kl. 16:50 – Gengið upp að Reykjafossi og upp Reykjadal við Ólafsfjörð

Miðvikud. 13. sept. kl. 16:50 – Gengið með Hörpu Hlín við Ólafsfjörð
Miðvikud. 13. sept. kl. 18:00 – Gengið með Gesti Hansa við Siglufjörð

Miðvikud. 20. sept. kl. 16:50 – Gengið með Hörpu Hlín við Ólafsfjörð
Miðvikud. 20. sept. kl. 18:00 – Gengið með Gesti Hansa við Siglufjörð

Miðvikud. 27. sept. kl. 16:50 – Gengið með Hörpu Hlín við Ólafsfjörð
Miðvikud. 27. sept. kl. 18:00 – Gengið með Gesti Hansa við Siglufjörð

Athugið að allar göngur taka mið af færð og veðri hverju sinni og gætu færst til ef veður er slæmt.

Afli minnkar til muna á milli ára í Fjallabyggð

Hafnarstjórn Fjallabyggðar hefur birt fjöldi landana og afla í höfnum Fjallabyggðar fyrir tímabilið 1. jan – 31. ágúst 2017 ásamt samanburði við sama tíma árið 2016.
Á Siglufirði voru 7596 tonn í 1524 löndunum á tímabilinu og í Ólafsfirði voru 366 tonn í 434 löndunum.

Til samanburðar á sama tímabili árið 2016 var á Siglufirði 11055 tonn í 1532 löndunum og í Ólafsfirði 397 tonn í 457 löndunum.

Samtals afli 2017 í báðum höfnum var því 7962 tonn.
Samtals afli 2016 í báðum höfnum var því 11452 tonn.
Mismunur á afla á þessu tímabili milli ára er því 3490 tonn.

Fjallabyggð gerir ekki samning um einkaafnot af fjalllendi

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur tekið afstöðu í máli Viking Heliskiing þar sem fyrirtækið óskaði eftir einkaafnot af fjalllendi Fjallabyggðar fyrir þyrluskíðamennsku. Fjallabyggð mun ekki gera samning um einkaafnot af fjalllendi sveitarfélagsins við eitt fyrirtæki umfram annað.  Bæjarráð Fjallabyggðar lítur svo á að Viking Heliskiing hafi jafnan rétt á við aðra til nýtingar á fjalllendi sveitarfélagsins.

 

Háskólinn á Akureyri 30 ára – aldrei fleiri nýnemar

Alls eru 1.022 nýnemar nám við Háskólann á Akureyri sem er 114 nemendum fleira en árið áður. Langflestir, eða 322, hefja nám í félagsvísinda- og lagadeild en til hennar telst m.a. nám í fjölmiðlafræði, félagsvísindum, sálfræði og lögreglufræði. Þetta er í annað skipti sem Háskólinn á Akureyri tekur við nemendum í lögreglufræði eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fól skólanum að hýsa námið í fyrra. Samtals hefja 157 nám í lögreglufræði á haustmisseri.

„Það er afar ánægjulegt að sjá að gæði og orðspor Háskólans á Akureyri eru að skila okkur fleiri nemendum. Þetta er þriðja árið í röð sem við fáum metaðsókn og því ljóst að námið hjá okkur er eftirsóknarvert. Það veldur mér þó áhyggjum að við munum ekki geta tekið við sama fjölda nýnema á næstu árum. Eins og staðan er í dag er Háskólinn á Akureyri fullsetinn og ljóst að grípa þarf til aðgangstakmarkana strax á næsta ári,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Engar aðgangstakmarkanir eru á fyrsta árinu en aðeins 55 nemar komast áfram í hjúkrunarfræði af þeim 156 sem hefja námið á þessu haustmisseri. Því er eins háttað með lögreglufræði: Af þeim 157 sem hefja námið eru aðeins 40 sem komast að í tveggja ára starfsnám fyrir lögreglumenn en einnig er hægt að halda áfram og ljúka þriggja ára bakkalárnámi í greininni.

Kynjahlutfall nýnema er svipað og árið áður og nú hefja 36% karlar nám á meðan hlutur kvenna er 64%. Í Háskólanum á Akureyri er boðið uppá 13 námsleiðir í grunnnámi, þar af eru 7 námsleiðir sem enginn annar háskóli á Íslandi býður upp á.

Háskólinn á Akureyri fagnaði 30 ára afmæli um síðastliðna helgi. Skólinn hóf starfsemi 5. september 1987 með kennslu á tveimur námsbrautum, hjúkrunarfræði og iðnrekstrarfræði. Skráðir nemendur hafa aldrei verið fleiri en á þessu haustmisseri eða tæplega 2.100.

Heimild: unak.is

KF tapaði óvænt á heimavelli

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Reynir frá Sandgerði kepptu í lokaleik 16. umferðar í 3. deild karla í dag á Ólafsfjarðarvelli.  KF hefur verið í baráttunni í sumar um 2. sæti deildarinnar, en eftir slæman kafla í síðustu þremur leikjum þá hefur liðið fjarlægst 2. sætið hratt. Liðið hefur aðeins skorað eitt mark í síðustu þremur leikjum, en fengið á sig ellefu, sem sagt þrír tapleikir í röð. Í fyrri leik liðinna vann KF örugglega 0-3 á heimavelli Reynis, en liðið hefur aðeins unnið 2 leiki í sumar og var í næstneðsta sæti fyrir þennan leik og þurfti nauðsynlega á sigri að halda til að sleppa við fall úr deildinni, en liðið er í keppni við Dalvík/Reyni um sæti í 3. deild. KF var með 24 stig fyrir þennan leik og Reynir var með 10 stig. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið, KF þurfti öll stigin til að halda lífi í baráttunni um 2. sæti deildarinnar og Reynir til að sleppa við fall. Reynismenn voru taplausir í síðustu þremur leikjum, gerði tvö jafntefli og vann einn leik, en náði meðal annars góðum úrslitum gegn toppliðinu Kára og Vængjum Júpíters.

Leikurinn hófst kl. 14:00, en þá var um 12 stiga hiti á flottar vallaraðstæður. Hópur gestanna úr Sandgerði var frekar þunnskipaður, en þeir höfðu aðeins tvo varamenn á leikskýrslu en þó hafa alls 31 leikmaður leikið fyrir þá í sumar í deild og bikar. KF var með frekar hefðbundið byrjunarlið en þó voru þrjár breytingar frá síðasta leik, en inná voru komnir þeir Hákon Leó, Magnús Aron og Jón Árni. Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta og eina mark leikins á 29. mínútu, en markið gerði Serbinn Dimitrije Pobulic, hans fyrsta mark í sumar fyrir Reyni, en hann kom til liðsins í lok júlí og hefur leikið 5 leiki fyrir liðið. KF gerði þrjár skiptingar þegar líða tók á síðari hálfleik, en inn vildi boltinn ekki og því óvænt tap á Ólafsfjarðarvelli í dag þar sem 46 áhorfendur fylgdust með.

KF hefur nú tapað 8 leikjum, unnið 8 en gert ekkert jafntefli, og er eina liðið í deildinni sem hefur ekki gert jafntefli. Liðið hefur skorað 32 mörk, en fengið á sig 31 mark, sem er of mikið í þessari stuttu deild. Liðinu hefur vantað alvöru markaskorarar í sumar, en markahæsti maður liðsins er aðeins með 6 mörk í 15 leikjum, en annars er góð dreifing á hinum mörkunum. Alls hafa 25 leikmenn tekið þátt í þessum 16 leikjum. KF er nú sex stigum frá 2. sæti, en liðið er í 5. sæti þegar tvær umferðir eru eftir. Í næstu umferð heimsækir liðið Einherja á Vopnafirði og í lokaumferðinni á liðið heimaleik gegn Ægi.

 

Nemendur í Fjallabyggð heimsóttu beinhákarlinn

Eins og greint var frá hér á vefnum á þriðjudaginn þá fannst beinhákarl í fjörunni í Ólafsfirði snemma morguns 29. ágúst af ferðaþjónustuaðila. Nemendur í Grunnskóla Fjallabyggðar heimsóttu hákarlinn á miðvikudag enda ekki á hverjum degi sem hægt er að skoða svona hákarl.  Nemendur á starfsbraut Menntaskólans á Tröllaskaga heimsóttu einnig hákarlinn á miðvikudag og prufuðu sumir að standa ofan á honum, og aðrir fengu hugmyndir um hvernig væri hægt að nýta hræið.

Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar
Mynd: MTR .is
Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar
Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar

Háar hitatölur á Norðurlandi í dag

Norðlendingar hafa verið sérlega heppnir með veðrið í dag, föstudaginn 1. september. Á Siglufirði mældist hitinn mestur 22,6° kl. 14:00 í dag. Í Ólafsfirði fór hitinn upp í 23,7° kl: 14:00. Í Héðinsfirði var hitinn 20,7° kl. 17:00. Á Sauðárkróksflugvelli fór hitinn í 19,5° og á Akureyri fór hitinn í 21,9°. Á Húsavík fór hitinn í 22,2 °.  Á morgun er spáð úrkomu og mun lægri hita en hefur verið í dag á Norðurlandi.

Bókmenntahátíð á Akureyri

Bókmenntahátíð á Akureyri er nú haldin í fyrsta sinn og dagskrá hennar unnin í afar góðu samstarfi Menningarfélags Akureyrar og Amtsbókasafnsins á Akureyri við Bókmenntahátíðina í Reykjavík.   Tveir erlendir rithöfundar taka þátt en það eru þær Anne-Cathrine Riebnitzsky og Esmeralda Santiago.  Tveir viðburðir verða á bókmenntahátíðinni: Höfundamót, höfundar, sögupersónur, lesendur kl. 11.30 þriðjudaginn 5. september og Maður á mann kl. 17.00. Allir eru hjartanlega velkomnir á hátíðina.

Anne-Cathrine Riebnitzsky er danskur rithöfundur með óvenjulegan bakgrunn, en hún var í danska hernum og fór með honum til Afganistan 2007, fyrst sem óbreyttur hermaður en síðar sem ráðgjafi á vegum utanríkisráðuneytisins. Í Afganistan starfaðir Riebnitzsky meðal annars með stríðshrjáðum konum og hefur sú reynsla orðið henni að yrkisefni í verkum hennar þar sem hlutskipti kvenna og barna í stríði hefur verið áberandi stef. Frumraun hennar var ævisögulegt uppgjör við árin í Afganistan og nefndist Stríð kvennana (Kvinderens krig) en hún kom úr 2010.  Nýjasta bók Riebnitzsky, Stormarnir og stillan er nýkomin út á íslensku.

Esmeralda Santiago er þekktust fyrir endurminningabækur sínar sem fjalla meðal annars um þá reynslu að tilheyra tveimur löndum, en sjálf fæddist hún á Puerto Rico og fluttist til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni þegar hún var þrettán ára.  Tvær endurminningabókanna hafa verið gefnar út í íslenskri þýðingu Herdísar Magneu Hübner hjá bókaforlaginu Sölku, en það eru bækurnar Stúlkan frá Púertó Ríkó og Næstum fullorðin. Í bókunum dregur Santiago upp ljóslifandi myndir úr lífi ungrar konu í New York á sjöunda áratugnum og lýsir togstreitunni sem þrá hennar eftir menntun hefur í för með sér. Nýjasta bók hennar heitir Conquistadora og er söguleg skáldsaga sem gerist á Puerto Rico en hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.

 

220 nemendur í Dalvíkurskóla í haust

Í síðustu viku var Dalvíkurskóli settur í 20. sinn. Við skólasetninguna talaði Gísli Bjarnason skólastjóri um mikilvægi þess að vera jákvæður og vanda samskiptin við aðra, en í skólanum í vetur verða um 220 nemendur og 50 starfsmenn. Fyrirtækið Sæplast gaf nemendum fyrsta bekkjar nýjar skólatöskur og pennaveski og Dalvíkurbyggð útvegaði önnur námsgögn fyrir alla nemendur.
Fyrirtækið Blágrýti mun sjá um mötuneytismálin í vetur, en Veisluþjónustan hafði gert það síðustu árin. Búið er að flytja Frístundina í Dalvíkurskóla og einnig tónmenntakennsluna.

Vilja einkaafnot af fjalllendi Fjallabyggðar fyrir þyrluskíðamennsku

Fyrirtækið Viking Heliskiing hefur óskað eftir því að Fjallabyggð hefji viðræður við fyrirtækið um samning til ótilgreinds árafjölda um einkaafnot af fjalllendi sveitarfélagsins til skíðaiðkunar. Ef því verður hafnað hefur fyrirtækið óskað eftir að fá með formlegum hætti, almennan rétt til nýtingar á fjalllendi Fjallabyggðar til að stunda þyrluskíðamennsku.

Stofnendur Viking Heliskiing eru Jóhann H. Hafstein og Björgvin Björgvinsson, en þeir eru báðir fyrrverandi landsliðsmenn á skíðum. Fyrirtækið býður uppá þyrluskíðun og almenna fjallaskíðaiðkun frá mars til júní ár hvert.

 

Beinhákarl fannst í fjöru við Ólafsfjörð

Beinhákarl (Cetorhinus maximus) fannst um klukkan 10:20 í morgun á Ósbrekkusandi í Ólafsfirði. Ferðaþjónustuaðilinn Fairytale at sea frá Ólafsfirði kom auga á hákarlinn í morgun, og er talið að um sé að ræða beinhákarl.

Beinhákarl er næststærsta fisktegund í heimi.  Hann er eini hákarlinn með beinkennda stoðgrind í stað brjóskkenndrar eins og hinar rúmlega 300 tegundirnar hafa.  Beinhákarlar gjóta ungum en ekki eggjum eða pétursskipum eins og flestir aðrir hákarlar.  Beinhákarlinn syndir með risavaxinn skoltinn galopinn og talið er að á hverri klukkustund síi hann allt að 2.000 lítra af sjó. Sjórinn berst í gegnum tálknagrindina þar sem hár sía smádýrin úr sjónum.

Beinhákarlar eru algengastir á strandsvæðum með mikla framleiðni, svo sem við strendur Íslands. Fæða þeirra er eins og áður segir dýrasvif sem heldur sig í efstu lögum sjávar, til dæmis örsmáar krabbaflær, lirfur fiska og hryggleysingja og hrogn. Lifrin í beinhákarlinum getur vegið allt að 25% af heildarlíkamsþyngd dýrsins en það gefur honum mikla flothæfni í vatni. Beinhákarlar halda sig á grunnsævi og oft má sjá bakuggann og trjónuna þar sem hann syndir hægt og letilega um sjóinn.

Vetrarstarf Blakfélags Fjallabyggðar hafið

Blakfélag Fjallabyggðar (BF) hefur gengið frá ráðningu á Raul Rocha og Önnu María Björnsdóttur fyrir veturinn. Raul, sem er 34 ára Spánverji, mun þjálfa meistaraflokka félagsins ásamt byrjendablakið. Raul og Anna María munu svo í sameiningu sjá um barna- og unglingastarf félagsins.
Stjórn Blakfélags Fjallabyggðar gerir ráð fyrir að starfsemi félagsins muni aukast enn meira á komandi vetri eftir vel heppnað fyrsta starfsár, bæði síðastliðin vetur og í strandblakinu í sumar.
Vetrarstarfið hófst í vikunni þegar yfir 20 krakkar úr 1.-4.bekk mættu á sína fyrstu blakæfingu og í næstu viku mun starfið hjá eldri krökkunum hefjast. Fullorðinsblakið einnig á fullt í næstu viku en félagið verður með þrjú lið á Íslandsmótinu (1. deild karla, 2. deild kvenna og 3. deild kvenna). Á þriðjudaginn í næstu viku hefst svo byrjendablakið. Áætlað er að á annað hundrað iðkendur munu æfa hjá félaginu í vetur.

Lagfæringar á Sundlauginni á Dalvík

Vegna lagfæringa á sundlauginni á Dalvík verður ekki hægt að nota sundlaugina frá 28.-30. ágúst næstkomandi. Heitupottarnir og vaðlaugar verða í notkun mánudag og miðvikudag, en þriðjudaginn 29. ágúst verður allt sundlaugarsvæðið lokað. Þessi viðhaldsvinna hefur engin áhrif á aðra starfsemi íþróttamiðstöðvar Dalvíkur. Líkamrækt verður opin á hefðbundum opnunartíma.

Uppskeruhátíð Þjóðlagaseturs Íslands

Fimmtudaginn 31. ágúst er síðasti sumaropnunardagur Þjóðlagasetursins á Siglufirði.  Uppskeruhátíð Setursins verður haldið sama kvöld klukkan 20:00 í Brugghúsi Seguls 67 á Siglufirði.  Þar munu meðlimir úr Kvæðamannafélaginu Rímu kveða og syngja tvísöngva og Ella Vala Ármannsdóttir og Mathias Spoerry frá Böggvisstöðum flytja valda söngva við langspilsundirleik Eyjólfs Eyjólfssonar. Bar brugghússins verður opinn þar sem gestir geta valið milli nokkurra siglfirskra bjórtegunda en léttar veitingar verða í boði kvæðamannafélagsins.

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir!

Skíðastökkpallurinn í Ólafsfirði 50 ára

Skíðastökkpallurinn í Ólafsfirði er mjög sérstök bygging sem vekur mikla eftirtekt þeirra sem leið eiga um Ólafsfjörð. Verkefnið og bygging stökkpallsins hófst árið 1967 og var það Íþróttabandalag Ólafsfjarðar og Ólafsfjarðarbær sem stóðu að verkinu ásamt Rótarýklúbbi Ólafsfjarðar og var að mestu unnið í sjálfboðavinnu. Framkvæmdastjóri byggingarinnar var Björn Þór Ólafsson. Edgar Guðmundsson verkfræðingur og Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir arkitektar gerðu teikningar og sérfræðilegan undirbúning.  Pallurinn var hugsaður ungum skíðaiðkenndum og áttu þeir að geta stokkið allt að 15 metra í brautinni. Pallurinn var mikið notaður fyrstu áratugina, enda mikill áhugi fyrir skíðastökki á þessum tíma í Ólafsfirði.

Viðhald og umhirða skíðapallsins er eitt af samfélagsverkefnum sem Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar hefur sinnt síðustu áratugi. Í sumar var farið í að mála pallinn og á síðasta ári var lagfærð skrautlýsing á pallinum.

Skíðastökk er því miður ekki lengur keppnisgrein á Íslandi, en pallurinn er helst nýttur sem vatnsrennibraut í kringum 17. júní hátíðina í Fjallabyggð.

Mynd: Rótarýklúbbur Ólafsfjarðar, K.Haraldur Gunnlaugsson.

Siglufjarðarkirkja 85 ára

Á mánudaginn næstkomandi eru 85 ár frá því Siglufjarðarkirkja var tekin í notkun.  Í tilefni afmælisins verður hátíðarmessa í dag, sunnudag, 27. ágúst, kl. 14.00. Frú Solveig Lára Guðmundsdóttir Hólabiskup prédikar, sóknarprestur þjónar fyrir altari, Kirkjukór Siglufjarðar syngur og auk hans þær systur Eva Karlotta og Ragna Dís Einarsdætur, sem og Þorsteinn B. Bjarnason. Sigurður Hlöðvesson leikur á trompet. Organisti verður Rodrigo J. Thomas.

Sumarið 1930 var byrjað að undirbúa bygginguna og fjáröflun gerð fyrir verkið. Kostnaðaráætlun fyrir verkið var 80.677 kr að undanskilinni jarðvinnslu.  Arkitektinn var Árni Finsen og yfirsmiður var Sverrir Tynes. Útboðið var auglýst um haustið samtímis á Siglufirði, Akureyri og í Reykjavík. Jón Guðmundsson og Einar Jóhannsson voru valdir til verksins og voru þeir frá Akureyri. Þeir áttu ekki lægsta tilboðið og olli það einhverjum deilum. Þeir skrifuðu undir verksamning í febrúar 1931. Byrjað var að grafa fyrir kirkjunni í maí 1931 og hófst steypuvinna í júní sama ár. Steypu var lokið í ágúst 1931 og var kirkjan þá nær fokheld. Var svo kirkjan fullsmíðuð um veturinn. Málngarvinnan var einnig boðin út í júní 1932 og var hún máluð um sumarið.

Kirkjubekkirnir voru smíðaðir af Ólafi Ágústssyni á Akureyri, Altarið var smíðað af þeim Jóni og Einari og var það gjöf þeirra til kirkjunnar og þótti raunsarlegt.  Orgelið og kirkjuklukkurnar voru gjafir frá Sparisjóði Siglufjarðar en stærri kirkjuklukkan er talin vega um 900 kg. Orgelið var víst ókomið þegar að kirkjan var vígð í ágúst 1932, og tafðist afhending um 1 ár. Þann 28. ágúst 1932 voru liðnar 67 vikur frá því að byggingarframkvæmdir hófust.

Á vígsludaginn 1932 komu fjöldi fólks frá Reykjavík með Dettifossi og fólk kom með skipinu Erni frá Akureyri. Úr nærsveitum kom fólk með smábátum.

Kirkjan er um 35 metra löng og 12 metra breið. Hún tekur um 400 manns í sæti. Turninn er um 30 metra hár og tvær miklar klukkur.

Heimildir: Bókin Siglufjarðarkirkja, Afmælisrit gefið út af sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju árið 1982.

KF tapaði stórt í Garðabænum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar heimsótti Knattspyrnufélag Garðabæjar, öðru nafni KFG. Heimavöllur þeirra er  gervigrasvöllur Stjörnunnar í Garðabæ. KF sigraði fyrri leik liðanna fyrr í sumar 1-2 á Ólafsfjarðarvelli. KF hafði tapað síðustu tveimur deildarleikjum en KFG hafði tapað þremur af síðustu fjórum leikjum liðsins. Fyrir leikinn mátti búast við jöfnun leik, enda liðin hlið við hlið í deildinni og KFG aðeins þremur stigum fyrir neðan KF. Raunin var hins vegar allt önnur og eftir aðeins 13. mínútur var staðan orðin 3-0 fyrir heimamenn og þar af eitt mark úr víti. KF minnkaði muninn á 30. mínútu með marki frá hinum tvítuga Jakobi Sindrasyni, hans fjórða mark í sumar. KFG skoraði sitt fjórða mark 8 mínútum síðar, og var staðan 4-1 í hálfleik fyrir heimamenn.

KFG gerði sitt fimmta mark á 68. mínútu, staðan 5-1 og tæpar 20 mínútur eftir. KF gerði þrefalda skiptingu á 71. mínútu til að reyna brjóta upp spilið, en það hafði ekki nægjanleg áhrif í þetta skiptið og leiknum lauk með 5-1 sigri KFG.

Nú er aðeins þrjár umferðir eftir, og 9 stig í boði, en KF er sem stendur í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá 2. sæti en einum leik er ólokið í umferðinni sem getur haft áhrif á 2. sætið. Þriðja tap KF í röð staðreynd, og markatalan úr þeim leikum 1-11 (eitt skorað, 11 fengin á sig).

22 skemmtiferðaskip komu til Siglufjarðar í sumar

Síðasta skemmtiferðaskip sumarsins kom til Siglufjarðar á mánudaginn síðastliðinn, en það var Ocean Majesty, með um 620 farþega og jafnframt stærsta skip sumarsins. Skipið er byggt árið 1965 og siglir undir Portúgölsku flaggi. Ocean Majesty fór í framhaldinu til Akureyrar og stoppaði þar í hálfan dag. Þann 17. ágúst síðastliðinn kom skipið National Geographic Explorer óvænt til Siglufjarðar, en það hafði komið sex sinnum áður í sumar. Í framhaldinu fór skipið til Akureyrar og Grímseyjar.

Alls komu því 22 skip til Siglufjarðar, en hefðu átt að vera 14 fleiri í ár, því litla skemmtiferðaskipið Callisto hætti við að koma vegna bilunar en skipið átti bókaðar 14 ferðir í sumar til Siglufjarðar, en áætlað var að skipið kæmi með 50 farþega í hvert sinn.  Alls komu um 4460 farþegar með skemmtiferðaskipum til Siglufjarðar í sumar.

Sumarið 2016 komu 14 skip og sumarið 2015 komu 19, en töluvert færri skip komu árin á undan. Farið var í mikið markaðsstarf fyrir höfnina á Siglufirði og hefur það skilað sér í fleiri og tíðari skipakomum. Næsta sumar hafa þegar 22 skip bókað komu sína til Siglufjarðar en sú tala getur hæglega orðið stærri þegar líður nær vorinu 2018.

 

Nýtt þjónustuúrræði fyrir ungt fatlað fólk á Akureyri

Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt tillögu að nýju þjónustuúrræði fyrir ungt fatlað fólk sem hefur lokið námi í framhaldsskóla. Um er að ræða þjálfun í lífsleikni til að búa þátttakendur undir búsetu á eigin vegum.  Áætlaður kostnaður vegna verkefnisins er um 2,3 m.kr. á árinu 2017 og um 6,8 m.kr. á árinu 2018, vegna ráðningar tveggja starfsmanna í hlutastörf, samtals um 1 stöðugildi.

Norrænt höfuðborgarmót í Þórshöfn í Færeyjum.

Norrænu félögin í höfuðborgum Norðurlanda hittast í Þórshöfn í Færeyjum um helgina til að halda fyrsta höfuðborgarmótið í Færeyjum. Fjölbreytt færeysk/íslensk dagskrá verður í boði á mótinu, sem er óvenju vel sótt í þetta skiptið.

Höfuðborgardeildir Norrænu félaganna hittast árlega og til skiptis í höfuðborgum Norðurlanda, en þar nær samstarf grasrótarhreyfinganna hámarki í leik og starfi, þar sem þátttakendum býðst að kynna sér samfélag og menningu hverrar borgar. Nú fá félagar að kynnast höfuðborginni Þórshöfn í fyrsta sinn. Það er gleðiefni, enda er þátttaka frá Norðurlöndum með mesta móti í ár.

Færeyingar hafa áður óskað eftir því að halda höfuðborgarmót, en ekki hefur orðið af því fyrr en nú. Reykjavík átti að halda höfuðborgarmót 2017, en ákvað að framselja rétt sinn til Færeyja, eða öllu heldur halda mótið með Færeyingum í Þórshöfn.

Meginástæðan fyrir því er að nú liggur fyrir beiðni færeyskra stjórnvalda um að verða fullgildir, sjálfstæðir fulltrúar í Norðurlandaráði. Því þótti Reykjavíkurdeild Norræna félagsins upplagt að grasrótin færi fremst í að styðja þá kröfu með því að halda samstarfsmót Færeyja og Íslands í Þórshöfn.

Norræna félagið í Reykjavík telur að Færeyjar sé á margan hátt miðja norræns samstarfs. Færeysk þjóð og saga hennar eigi sterkar  rætur í norrænni sögu og menningu. Það þykja félögunum fullgild rök fyrir sjalfstæðri aðild  að norrænu samstarfi. Færeyjar eru ennfremur landfræðilegur miðpunktur,  þar sem vegir liggja til allra norrænna átta.  Það er því sérstakur heiður fyrir Reykjavíkurdeild Norræna félagsins að fá að taka þátt í höfuðborgarmóti í Þórshöfn, með fjölbreyttri menningardagskrá, færeysk/íslenskum tónleikum, http://www.nlh.fo/#/2253/gudrid-og-snorri og umræðum um umhverfismál og framtíð norræns samstarfs.

Akureyrarvaka að hefjast

Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrarbæjar fer fram dagana 25.-26. ágúst 2017, og eru fjölbreyttir viðburðir í boði. Formleg setning er að venju í rökkurró og rómantík í Lystigarðinum á föstudagskvöld og úr rómantíkinni verður haldið yfir í Hryllingsvökuna í Íþróttahöllina þar sem þemað er svart og ungt og efnilegt tónlistarfólk á Norðurlandi heldur uppi fjörinu.

Á Akureyrarvöku er einnig fjöldi  listsýninga, ein þeirra er  „Fólkið í bænum sem ég bý í“ en hún opnar á föstudagskvöld og þar er sjónum beint að átta áhugaverðum einstaklingnum, fjórum konum og fjórum körlum.

Á laugardag er upplagt að hefja daginn með stuttri fjölskyldusiglingu um Pollinn með Húna eða sjá heimildarmyndina Amma Dagbók Dísu sem sýnd verður á Öldrunarheimilinu Hlíð kl. 11:00 en aðalsöguhetjan er Hjördís Kristjánsdóttir íbúi á Hlíð.

Í Listagilinu verður líf og fjör með tónlist, mat, listsýningum og leiðsögn og listahópurinn RÖSK kemur sér fyrir með gjörninginn #fljúgandi. Á Ráðhústorgi verður skátagaman þar sem ungviðinu gefst kostur á búa til barmmerki, gera poppkorn yfir eldstæði o.fl. og í Landsbankanum verður leiðsögn um listaverkaeignina kl. 14-15  en þar má sjá fjölda verka efitr þekktustu listamenn þjóðarinnar. Í Kaktus verður mikið um að vera alla Akureyrarvöku, myndlist, tónlist, bíósýningar og fljúgandi matarboð. Í Rósenborg verður sérstaklega vel tekið á móti ungviðinu en þar verður Fjölskyldudagur Myndlistarfélagsins þar sem boðið verður upp á vinnustöðvar og verða leiðbeinendur á staðnum, einnig verða í Listasalnum Braga tvær ljósmyndasýningar á verkum Sigríðar Ellu Frímannsdóttur.

 

VÍSINDASETUR Í HOFI

Vísindasetur sem verður í Hofi verður fjölbreytt og fræðandi. Það verða m.a. sprengjusýningar, hitamyndavél, allskonar slímframleiðsla, froðutöfrar, spennandi fyrirlestrar, hljóðtaktar verða teygðir til og tvistaðir, kíkt verður undir malbikið á hin ýmsu rör, rafrásir settar saman og leyndarmál bergsins skoðað.

Í Samkomuhúsinu verður gamanóperan Piparjúnkan og þjófurinn sýnd, skáldið KÁINN verður til umfjöllunar í Háskólanum á Akureyri og ljóð og lög listakonunnar í Fjörunni verða sungin og flutt í Minjasafnskirkjunni.  Við togarabryggjuna verður Kaldbaki EA 1 gefið nafn við hátíðlega athöfn og kaffiveitingar á eftir í húsnæði Útgerðarfélagsins í boði Samherja.

 

STÓRTÓNLEIKAR Í LISTAGILINU

Það verða stórtónleikar í Listagilinu á laugardagskvöld sem hefjast kl. 21:00. Fram kemur hljómsveitin VAÐLAHEIÐIN sem sett er saman sérstaklega fyrir Akureyrarvöku en hana skipa Valur Freyr Halldórsson, Summi Hvanndal, Kristján Edelstein, Arnar Tryggvason og Valmar Valjaots og munu þessi flottu listamenn verða gestgjafar á sviði. Gestir stórtónleikanna verða þau Andrea Gylfadóttir, Pálmi Gunnarsson, KÁ-AKÁ, Valdimar og Jóhanna Guðrún og á lagalistanum eru lögin sem landsmenn þekkja svo vel og hafa sungið með í gegnum tíðina. Tónleikarnir verða sendir út á Rás 2.

 

FRIÐARVAKA Í KIRKJUTRÖPPUNUM

Friðarvakan í kirkjutröppunum er orðinn fastur liður í lok Akureyrarvöku en þá eru tröppurnar fylltar af friðarkertum sem Plastiðjan-Bjarg framleiðir sérstaklega fyrir þennan viðburð. Bæjarbúar og gestir eru hvattir til að taka þátt með því að kaupa kerti en það er Slysavarnadeildin á Akureyri sem sér um sölu á kertunum og verður safnað fyrir hjartastuðtækjum sem komið verður fyrir á fjölförnum stöðum í bænum. Kertin verða seld í Lystigarðinum við setningu Akureyrarvöku og allan laugardaginn í miðbænum.

Upplagt er að enda Akureyrarvöku á rómantískri siglingu kl. 23 með Húna um Pollinn. Með í för verða félagar úr Karlakór Akureyrar-Geysi sem flytja huggulega tónlist.

Sunddagurinn mikli á Dalvík

Laugardaginn 26. ágúst verður Sunddagurinn Mikli haldinn hátíðlegur um land allt. Af því tilefni verður frítt í sund í Sundlaug Dalvíkur. Opið er í sundlauginni á milli kl. 9:00 – 17:00.  Sundfélagið Rán mun veita viðurkenningar fyrir 200 m eða lengri sund milli kl. 10:00 – 14:00.  Á sama tíma er tekið á móti skráningum á sundæfingar hjá Sundfélaginu Rán fyrir haustið.

Skipta þarf um sæti í skólarútu vegna öryggiskröfu Fjallabyggðar

Hópferðabílar Akureyrar (HBA) mun sjá um skóla- og frístundaakstur í Fjallabyggð næstu þrjú árin.  Samkvæmt útboði Fjallabyggðar á skólaakstri verða sæti með þriggjafestu mjaðmar- og axlarbeltum og munu yngstu nemendur sitja á bílsessu. Samkvæmt reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja þurfa hópferðabifreiðar aðeins að vera með tveggja festu bílbeltum og eru stórar rútur í skólaakstri almennt búnar slíkum öryggisbúnaði.

Til að fyrirtækið geti uppfyllt ítarlegri öryggiskröfur Fjallabyggðar á öryggisbúnaði í skólarútu þarf að skipta um sæti. Þar sem panta þarf ný rútusæti erlendis frá er ljóst að á fyrstu vikum skólaárs verður skólabíllinn í Fjallabyggð ekki útbúinn þriggja festu öryggisbeltum. Hópferðabílar Akureyrar og Fjallabyggð munu hraða þessari framkvæmd eins og kostur er. Reiknað er með að bílsessur komi í hús í þessari viku.

 

Íris Auður opnar myndlistasýningu í Hofi

Á Akureyrarvöku föstudaginn 25. ágúst næstkomandi, opnar sýning Írisar Auðar Jónsdóttur, 22 konur, í menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Málverkaröðin samastendur af 22 portrait myndum af konum, en þær endurspegla kvenpersónur sem koma úr hugarheimi listamannsins. Íris fær sinn innblástur úr ólíkri tónlist sem mótar persónurnar sem verða til. Þetta er fyrsta einkasýning Írisar. Allar myndirnar eru unnar með akrýl á pappír.

Íris Auður Jónsdóttir fæddist á Akureyri 1981. Með menntaskólanum tók hún fjöldamörg námskeið hjá Myndlistaskólanum á Akureyri og kláraði fornámið þar árið 2001. Árið eftir flutti hún til Spánar og fór í nám í fatahönnun hjá IED í Madríd og útskrifaðist þaðan árið 2005. Íris lauk kennsluréttindanámi hjá Listaháskólanum og hefur síðan ásamt kennslu unnið sem sjálfstæður teiknari. Hún hefur myndskreytt tugi bóka fyrir námsgagnastofnun, teiknað fyrir einstaklinga, sýningar og söfn.

Þar má nefna hreindýrasýningu í Hardangervidda í Noregi, margmiðlunaratriði í Hvalasafninu og teikningar fyrir margmiðlunaratriði sem er við fornleifauppgröft í San Simon í Sloveníu.

Viðbygging MTR vígð

Hátíðleg athöfn verður í Menntaskólanum á Tröllaskaga á föstudaginn næstkomandi þegar tekin verður formlega í notkun ný viðbygging skólans. Framkvæmdir hafa staðið í eitt ár og eru iðnaðar- og verkamenn að leggja síðustu hönd á fráganginn. Aðstaða nemenda mun batna mjög með tilkomu stækkunarinnar. Þar verður mötuneyti og ýmis aðstaða fyrir félagslíf nemenda og sýningar. Það var Illugi Gunnarsson sem tók fyrstu skóflustunguna að viðbyggingunni þann 2. september 2016. Viðbyggingin er ríflega 200 fermetrar og hljóðaði kostnaðaráætlun uppá  93.519.264 kr., en lægsta tilboðið sem barst var 110.811.800 kr. frá B.B. Byggingum ehf. frá Akureyri.  Héðinsfjörður.is skoðaði framkvæmdir í sumar og var þá verkið langt komið.

Dagskrá:

 1. Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar býður gesti velkomna.
 2. Ávarp: Steinunn María Sveinsdóttir formaður Bæjarráðs Fjallabyggðar.
 3. Ávarp: Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga.
 4. Ávarp: Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra.
 5. Formleg opnun nýbyggingar: Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra og Kristinn G. Jóhannsson listmálari og fyrrverandi skólastjóri Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar.

Skólasetning Árskóla á Sauðárkróki

Skólasetning Árskóla á Sauðárkróki fer fram í matsal skólans þriðjudaginn 22. ágúst sem hér segir:

 • 2. og 3. bekkur         kl. 09:00
 • 4. bekkur                 kl. 09:30
 • 5. og 6. bekkur        kl. 10:00
 • 7. bekkur                 kl. 10:30
 • 8. og 9. bekkur        kl. 11:00
 • 10. bekkur               kl.  11:30

1. bekkingar og foreldrar/forsjáraðilar þeirra verða boðaðir í viðtöl 23. og 24. ágúst.

Árskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur sem búa á Sauðárkróki, í Hegranesi, á Reykjaströnd og á Skaga. Í Árskóla vinnur sérmenntað starfsfólk  saman að því að mæta ólíkum einstaklingum með krefjandi verkefnum við hæfi hvers og eins. Unnið er í anda hugmyndafræðinnar um skóla án aðgreiningar og lögð er áhersla á að koma til móts við námsþarfir allra nemenda í skólahverfinu. Um 340 nemendur eru við skólann.

Bæjar- og menningarvefur