Dalvík/Reynir vann Samherja í Mjólkurbikarnum

Lið Dalvíkur/Reynis mætti liði Samherja í dag í Mjólkurbikarnum, en leikið var á Akureyri.  Fyrirfram var búist við þægilegum leik fyrir Dalvík/Reyni.

Samherjar skoruðu sjálfsmark á 17. mínútu og komst Dalvík/Reynir því í 1-0. Skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði Borja Laguna fyrir Dalvík/Reyni og kom þeim í 2-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Dalvík skoraði svo tvö mörk með skömmu millibili á 69. mínútu skoraði Gunnlaugur og 73. mínútu og komust í 4-0, en Atli Fannari skoraði úr víti.

Undir lok leiksins bætti svo Dalvík við tveimur mörkum og innsigluðu stórsigurinn, Borja Laguna skoraði á 89. mínútu og Pálmi Birgisson á 92. mínútu. Lokatölur 6-0 og Dalvík/Reynir mætir liði Þórs í næstu umferð.

Dalvíkingar fá nýtt gervigras

Dalvíkurbyggð hefur undirritað framkvæmdasamning við UMFS Dalvík vegna framkvæmdar á nýjum gervigrasvelli á Dalvík. Dalviksport.is greindi fyrst frá þessu.

Í samningnum kemur m.a. fram að UMFS Dalvík muni sjá um framkvæmdina og ákvörðunartökur í efnisvali og slíku.  Búið er að velja gras á völlinn en gervigrasið og innfylling verður keypt af Metatron ehf.
Gervigrasið er fyrsta flokks með snjóbræðslu- og vökvunarkerfi.
Framkvæmdir eru nú þegar hafnar og gengur jarðvinnan gengur vel.  Það er Steypustöðin á Dalvík sem vinnur þann verkþátt.

Heimild: dalviksport.is

Mynd: dalviksport.is

Líf og fjör á Torginu um páskana

Það verður stemning á veitingahúsinu Torginu á Siglufirði um Páskana. Veitingastaðurinn býður upp á fjölbreyttan matseðil, m.a. ferskan fisk, steikur, salöt, hamborgara og pizzur. Hægt er að skoða matseðlana á netinu á heimasíðu staðarins. Einnig er sérstakur barnamatseðill í boði fyrir yngri kynslóðina.
Föstudaginn langa mæta strákarnir í dúettnum Einn plús 1 og halda uppi stemningu fram á nótt.
Laugardagskvöldið 20. april mætir Eva Karlotta og spilar eins og henni einni er lagið.
Á Páskadag er einnig opið til kl. 01:00.
Báðir viðburðir hefjast um kl. 23:00 og er frítt inn.

Tindastóll vann Æskuna í Mjólkurbikarnum

Tindastóll mætti liði Æskunnar á Sauðárkróksvelli í gær í Mjólkurbikarnum. Heimamenn voru með betra liðið og skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik. Arnar Ólafsson skoraði strax á 16. mínútu og Hafsteinn Magnússon skoraði tvívegis með stuttu millibili, á 30. mínútu og aftur á 36. mínútu. Staðan var því 3-0 í hálfleik.

Um miðjan síðari hálfleik skoraði Hafsteinn aftur tvö mörk með tveggja mínútna millibili á 65. mín og 67. mín. og staðan orðin 5-0 fyrir heimamenn.

Fleiri urðu mörkin ekki og eru Stólarnir komnir í næstu umferð og mæta Völsungi á Húsavík 24. apríl.

 

Sýning um Ólafsfjarðarvatn opnar í Pálshúsi í maí

Opnuð verður sýning um Ólafsfjarðarvatn í Pálshúsi í Ólafsfirði laugardaginn 18. maí næstkomandi. Mikil vinna hefur verið unnin i húsinu sl. ár og húsið verið gert upp. Í sumar stendur einnig til að skipta út klæðningu á húsinu, en þar verður járnið tekið af og timburklæðning sett á húsið. Á efri hæð hússins hefur einnig verið mikil vinna en þar stendur til að opna Ólafsfjarðarstofu á árinu 2020, á 75 ára afmæli Ólafsfjarðarkaupstaðar. Á efri hæð hússins verður hægt að kynna sér sögu Ólafsfjarðar í máli og myndum.

Mynd frá efri hæð Pálshúss.

 

KF komið áfram í Mjólkurbikarnum eftir framlengdan leik

KF og Nökkvi mættust í dag á Akureyri í 1. umferð Mjólkurbikarsins. Nökkvi er lið sem ekki margir þekkja, en liðið leikur utan deilda og er skipað leikmönnum á öllum aldri og eru nokkrir reynsluboltar sem eru komnir á fimmtugsaldurinn. Fyrirfram var því búist við þægilegum leik fyrir strákana úr Fjallabyggð, en liðin höfðu mæst fyrir ári síðan og vann KF þá stórsigur.

Nökkvamenn komu á óvart í þessum leik og ætluðu að selja sig dýrt. Þeir skoruðu óvænt fyrsta mark leiksins þegar Jón Friðrik Þorgrímsson skoraði á 40. mínútu, og var staðan því 1-0 fyrir Nökkva í hálfleik. Þjálfari KF hefur ekki verið hress í hálfleik með stöðu mála, því hann gerði strax tvöfalda skiptingu eftir hálfleikinn, og inná kom Ljubomir Delic og Jakob Auðun, og útaf fóru Vitor og Halldór Logi.

Nökkvi fékk svo vítaspyrnu á 56. mínútu og úr henni skoraði þeirra reynslumesti leikmaður, Davíð Rúnar Bjarnason, og kom þeim í 2-0 ! Davíð Rúnar lék í mörg ár með KA og hefur spilað 169 leiki í efstu tveimur deildum á Ísland.

KF gerði skiptingu nokkrum mínútum síðar og kom Óliver inná fyrir Sævar Þór.  Á 61. mínútu gerðu Nökkvamenn sjálfsmark og var staðan því orðin 2-1 þegar tæpur hálftími var eftir. Á 87. mínútu kom Ljubomir Delic KF til bjargar og jafnaði leikinn í 2-2. Í uppbótartími var Sævar Péturssyni leikmanni Nökkva vikið af leikvelli með beint rautt spjald. Sævar einnig reynslumikill leikamaður, 45 ára gamall, með 147 leiki í meistaraflokki.

Leikurinn fór því í framlengingu, og léku Nökkvamenn einum leikmanni færri í framlengingunni. Anton kom inná fyrir Hákon hjá KF í framlengingunni og á 110. mínútu komst KF yfir í fyrsta sinn þegar Óliver Jóhannsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið en hann er nýkominn frá Einherja. Staðan 2-3 þegar um 10 mínútur voru eftir. Grétar Áki innsiglaði svo sigurinn á 117. mínútu með marki úr vítaspyrnu og kom KF í 2-4 þegar skammt var eftir.

KF vann leikinn 2-4 og var óvænt mótstaða í liði Nökkva. KF mætir því Magna frá Grenivík í næstu umferð.

Námsbraut í Fisktækni hættir hjá MTR

Fram kemur í fundargerð skólanefndar Menntaskólans á Tröllaskaga að skólameistari hafi tilkynnt um lokun námsbrautar í fisktækni.  Ástæðan er að ekki hefur tekist
að ljúka við útfærslu brautarinnar og hún ekki fengist staðfest hjá ráðuneyti.

Þá var einnig tilkynnt að tónlistarsvið listabrautarinnar hafi verið opnað aftur og mögulegt að innrita nemendur á það. Á brautinni eru námsgreinar eins og heimspeki, listir, myndlist, skapandi tónlist, tónheyrn og tónfræði.

Lýsing námsbrautar í fisktækni

Nám á fisktæknibraut býr nemendur undir störf í fiskvinnslu, við fiskveiðar og fiskeldi. Námið getur enn fremur verið grunnur að öðru námi í framhaldsskóla. Námið er skipulagt sem tveggja ára nám. Eitt ár í skóla og eitt ár á vinnustað undir leiðsögn. Nemendur geta á námstímanum tekið námskeið í stjórnun vinnuvéla. Fisktæknir starfar við vinnslu sjávarafurða sem sérhæfður starfsmaður eða flokkstjóri með ábyrgð á ákveðnum verkstöðvum hjá fiskvinnslufyrirtækjum, útgerðum, fiskeldisstöðvum eða öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Fisktæknir getur einnig starfað sem sölumaður hjá fisksölufyrirtæki eða fyrirtæki sem selur tæki og búnað fyrir sjávarútveg. Námslok brautar eru á öðru hæfniþrepi.

Þrír nemendur segjast verða fyrir einelti í Grunnskóla Fjallabyggðar

Niðurstöður eineltiskönnunar sem lögð var fyrir nemendur í 4.-10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar sl. haust var rædd á Skólaráðsfundi grunnskólans sem haldinn var mars mánuði.

Í fundargerðinni kemur fram að þrír nemendur segjast verða fyrir einelti í Grunnskóla Fjallabyggðar, einn drengur á miðstigi, einn drengur og ein stúlka á unglingastigi. Til samanburðar voru árið 2017 fimm nemendur sem sögðust verða fyrir einelti í skólanum, ein stúlka og þrír drengir á miðstigi, einn drengur á unglingastigi (4,9%).

Þeir staðir sem nemendur nefna þar sem einelti á sér stað eru á skólalóðinni, á göngum, í kennslustofu, í kennslustofu án kennara, í búningsklefum og sturtu, í leikfimislanum, í matsalnum og í skólabílnum.
Niðurstöður sýna að tæplega 80% telja að kennarar eða aðrir fullorðnir bregðist við til að stöðva einelti.

Niðurstöður sýna í grófum dráttum að einelti í Grunnskóla Fjallabyggðar mælist núna 3,1% en einelti í Olweusarskólum á Íslandi mælist 6,3%.

98 nemendur (97%) í 5. – 10. bekk tóku könnunina í lok nóv 2018. Könnunin skiptist í fjóra þætti. 1. vini og líðan í skólanaum, 2. mælingar á einelti, 3. tilfinningar og afstöðu til eineltis og 4. hvernig umhverfið
bregst við.

Skíða- og snjóbretta fólk keppir á Siglufirði

Siglo Freeride er þriggja daga keppni og helgarviðburður fyrir skíða- og snjóbrettafólk með áherslu á rennsli utan brauta. Keppnin hófst í gær á skíðasvæðinu
á Siglufirði og gefur stig inn á alþjóðlegan styrkleikalista. Á Siglufirði munu um 50 keppendur renna sér niður fjallshlíðar og því er mikil veisla í vændum fyrir áhugamenn
um rennsli utanbrauta. Skíðasvæðið er opið í dag fyrir almenning frá kl. 10-16 og er hægt að velja úr tíu skíðaleiðum. Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmanni skíðasvæðisins er 6 stiga hiti og mun færið mýkjast þegar líður á daginn.

 

Grunnskóli Fjallabyggðar fékk styrk úr Sprotasjóði

Grunnskóli Fjallabyggðar hefur fengið útlutað 1.000.000 kr. úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytis fyrir verkefnið Framúrskarandi skóli – færni til framtíðar. 

Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum í samræmi við stefnu stjórnvalda og aðalnámskrá viðkomandi skólastiga. Á dögunum var úthlutað úr sjóðnum og hljóta alls 44 verkefni styrki að þessu sinni. Heildarupphæð styrkjanna eru rúmlega 57 milljónir kr.

Áherslusvið styrkveitinganna nú eru á eflingu íslenskrar tungu, lærdómssamfélag og samvinnu milli skólastiga og færni til framtíðar. Alls bárust 100 umsóknir um styrki úr sjóðnum og var heildarupphæð umsóknanna rúmar 219 milljónir kr.

Fjölskyldusirkushelgi í Fjallabyggð

Húlladúllan stendur fyrir verkefninu “Fjölskyldusirkushelgar í Eyþingi”. Verkefnið er unnið undir formerkjum heilsueflandi nálgunnar. Dagskráin er sérstaklega sniðin að því að fjölskyldan og samfélagið geti öll tekið þátt og notið helgarinnar saman, burtséð frá aldri og stærð. Húlladúllan mætir í Fjallabyggð, (4. -5. maí),  í Skútustaðahrepp (11. -12. maí) og í Eyjafjarðarsveit (25. -26. maí).

Fjölskyldusirkushelgin felur í sér tveggja daga kennslu þar sem þátttakendur fá að prófa hinar ýmsu sirkuslistir og og sirkusáhöld undir leiðsögn tveggja frábærra kennara. Húlladúllan og sirkuslistakonan Unnur Máney leiða kennsluna og með henni er Erna Héðins, kennari og markþjálfi.  Kennt er í sex klukkutíma laugardag og sunnudag með klukkutíma hádegishléi hvorn dag.

Markmið kennslunnar er að þátttakendur geti eftir að námskeiðinu lýkur nýtt sér það sem þau lærðu til að leika og njóta. Þátttakendur fá kennslugögn sem innihalda minnislista yfir þau trix sem kennd voru, leiðbeiningar um það hvaða áhöld megi nota í stað sérhæfðra sirkusáhalda og leiðbeiningar um það hvar á vefnum sé að finna góð kennslumyndbönd fyrir þau sem vilja halda áfram að bæta við þá kunnáttu sem þau öðluðust um helgina.

Hver smiðja getur tekið á móti 50 þátttakendum frá grunnskólaaldri og upp úr. Þátttökukostnaði er haldið í lágmarki en aðeins er rukkað 2000 króna skráningargjald fyrir hvern þátttakanda.  Þetta er mögulegt þökk sé stuðningi Norðurorku og Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra ásamt stuðningi þeirra sveitarfélaga sem taka þátt, í formi afnota af aðstöðu.

Skráning fer fram á vefsíðu Húlladúllunnar www.hulladullan.is og þar er að finna allar frekari upplýsingar.

HVAÐ ER Í BOÐI Á
FJÖLSKYLDUSIRKUSHELGUM
HÚLLADÚLLUNNAR?
Skemmtilegir leikir
Jafnvægisfjaðrir
Kínverskir snúningsdiskar
Kasthringir
Djöggl með mismunandi áhöldum
Loftfimleikar
Veltibretti
Trúðalæti
Skemmtileg líkamsrækt
Sirkusfimleikar
Húllahopp
Hlátur
Blómaprik
Gleði

Myndir: Húlladúllan.

Opnun tilboða í endurgerð grunnskólalóðar í Ólafsfirði

Fjallabyggð hefur birt tilboð sem bárust  vegna endurgerðar 2.-3. áfanga á grunnskólalóðinni í Ólafsfirði. Tvö tilboð bárust í verkið. Kostnaðaráætlun var 59.798.597 kr. og var lægstbjóðandi Sölvi Sölvason með tilboð uppá 61.404.775 kr. Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að taka tilboði Sölva Sölvasonar.

Eftirfarandi tilboð bárust:
Smári ehf 69.862.379
Sölvi Sölvason 61.404.775
Kostnaðaráætlun 59.798.597

Bjóða út ræstingu í Ráðhúsi Fjallabyggðar

Fjallabyggð hefur óskað eftir tilboðum í reglulega ræstingu í Ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði samkvæmt útboðslýsingu.  Heildarfjöldi fermetra í útboðinu er 671,9 m².
Reiknað er með að ræsting á grundvelli útboðsins hefjist þann 15. maí 2019 og að gerður verði verksamningur um verkið til þriggja ára, eða til 14. maí 2022.

Vettvangsskoðun: Mánudaginn 15. apríl kl 16.00
Opnunartími tilboða: Mánudaginn 29. apríl kl. 11.00
Opnunarstaður tilboða er: Ráðhús Fjallabyggðar, 2. hæð Gránugötu 24, 580.

Útboðsgögn verða afhent á bæjarskrifstofu Fjallabyggðar að Gránugötu 24 á Siglufirði frá og með 10. apríl 2019 gegn gjaldi kr. 2.000,-.

Allar nánari upplýsingar veitir Guðrún Sif Guðbrandsdóttir
Netfang: gudrun@fjallabyggd.is
Sími: 464 9100.

Útboð – Ræsting Ráðhús Fjallabyggðar, Siglufirði

Minningarathöfn vegna snjóflóða í Héðinsfirði fyrir 100 árum

Dagana 12. og 13. apríl næstkomandi verða 100 ár liðin frá mannskæðustu snjóflóðum í Hvanneyrarhreppi. Síldarminjasafn Íslands og Siglufjarðarkirkja minnast atburðanna með dagskrá þessa daga.

Föstudagurinn 12. apríl

17:00 Gengið að rústum Evanger
undir leiðsögn starfsmanna Síldarminjasafnsins. Sr. Sigurður Ægisson minnist þeirra sem fórust. Boðið upp á kaffi og kleinur.

Kl. 18:30 Héðinsfjörður og Engidalur 
Keyrt á einkabílum. Sr. Sigurður Ægisson minnist þeirra sem fórust.

Laugardagur 13. apríl

Kl. 11:00    Kyrrðarstund í Siglufjarðarkirkju til minningar um þau átján sem létust í snjóflóðunum.

Mynd og texti: Fjallabyggð.is

Siglo Freeride fyrir skíða- og snjóbrettafólk

„Keppast niður fjöll Siglufjarðar á skíðum og snjóbrettum“
Siglo Freeride er þriggja daga keppni og helgarviðburður fyrir skíða- og snjóbrettafólk með áherslu á rennsli utan brauta. Keppnin verður haldin 12.-14. apríl á skíðasvæðinu
á Siglufirði og gefur stig inn á alþjóðlegan styrkleikalista. Á Siglufirði munu um 50 keppendur renna sér niður fjallshlíðar og því er mikil veisla í vændum fyrir áhugamenn
um rennsli utanbrauta. Helgin er ekki bara fyrir keppendur en gestir og áhorfendur eru hvattir til að koma í fjallið og renna sér með. Fjölbreytt dagskrá verður yfir alla
helgina, hvort sem er á skíðasvæðinu eða á götum Siglufjarðar. Sérstakt áhorfendasvæði verður miðpunktur fjallsins með plötusnúð, sætum, drykkjum og
veitingum. Á laugardagskvöldið verður ball á Rauðku þar sem Jói Pé & Króli og Úlfur Úlfur spila og halda uppi fjöri. Siglo Freeride á við allt skíða- og snjóbrettafólk sem vill
eiga skemmtilega helgi tileinkaðri útivist og hitta annað fólk sem rennir sér.

Siglo Freeride er hluti af alþjóðlegri mótaröð, Freeride World Tour. Valin er hentug fjallshlíð ofan við lyftur og fá keppendur eina tilraun til að sýna færni sína niður bratt
landslag. Dómarar gefa stig og meta íþróttamanninn eftir ýmsum þáttum tækni, stjórn og vel framkvæmdum stökkum. Aðferðin er frábrugðin fjallaskíðum að því leiti að
engin keppni er fólgin í uppleiðinni heldur er dæmt um hversu fær skíðamaður er á niðurleið. Keppt er í fullorðinsflokki og 14-18 ára. Keppnin á Siglufirði er tveggjastjörnu keppni af fimm. Á efsta stigi keppninnar eru bestu skíða- og snjóbrettamenn heims í greininni. Markmiðið er að halda viðburðinn árlega og styrkja skíðasenuna á Íslandi.

Fyrir þá sem vilja horfa á keppnina og skíða opnar skíðasvæðið klukkan 13:00 á föstudaginn og hefst undankeppni fullorðinna. Á laugardaginn opnar 10:00 í fjallinu og
stefnt er á úrslit fullorðinna auk keppni ungmenna. Á sunnudaginn er skíðasvæðið opið frá 10:00-16:00. Lagt er upp úr því að armbandshafar, keppendur og gestir eigi
frábæra helgi.
Áhugasamir eru hvattir til þess að kynna sér dagskrá helgarinnar. Hægt er að fá helgararmband sem kostar 12.500kr. Innifalið er þriggja daga skíðapassi á skíðasvæði
Siglufjarðar, tónleikar, bíósýning ásamt tilboðum og afsláttum! Keppendur fá slíkt innifalið í skráningargjöldum. Allar upplýsingar og skráning fyrir viðburðinn má finna á
TMPEXP.IS sem er staðarhaldari keppninnar á Íslandi. Einnig er hægt að kaupa miða eingöngu á tónleikana á laugardagskvöld á 5.500kr í forsölu. Má búast við að mikil
stemning verði á Siglufirði.

Sjáumst!

 

Fjölbreytt sumarstörf hjá Fjallabyggð

Sveitarfélagið Fjallabyggð hefur auglýst fjölbreytt sumarstörf á vef sínum. Helstu störf eru sláttugengi, vélamaður, skógrækt, starfsmaður á þjónustumiðstöð, vinnuskóli Fjallabyggðar, Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar og yfirmaður umhverfisverkefna.  Umsóknarfrestur allra starfa er til og með 3. maí. Allar nánari upplýsingar fást á vef Fjallabyggðar.

Eftirtalin sumarstörf hjá Fjallabyggð eru laus til umsóknar:

Yfirmaður umhverfisverkefna. Auglýstar eru tvær stöður yfirmanns umhverfisverkefna, annars vegar á Ólafsfirði og hins vegar á Siglufirði. Hann skipuleggur og stýrir umhverfisverkefnum í Fjallabyggð og hefur umsjón með sláttugengi sem sinnir slætti og umhirðu á opnun svæðum. Starfstímabil er frá 15. maí – 15. september. Leitað er eftir einstaklingum sem eru 25 ára eða eldri, skipulagðir og sjálfstæðir í starfi. Reynsla af garðyrkju og öðrum verkefnum á opnum svæðum æskileg.

Sláttugengi – Þjónustumiðstöð auglýsir eftir starfsmönnum til að sinna slætti og umhirðu á opnum svæðum. Starfstímabil er frá 27. maí til 16. ágúst. Umsækjendur þurfa að vera 16 ára (f.2002) og eldri.

Starfsmaður í skógrækt. Auglýst er eftir starfsmanni til að sinna viðhaldsverkefnum í Skógrækt Siglufjarðar. Starfstímabil er frá 18. júní – 16. ágúst. Reynsla af skógræktarvinnu æskileg.

Þjónustumiðstöð Fjallabyggðar auglýsir eftir starfsmönnum í almenna verkamannavinnu. Helstu verkefni; girðingarvinna, málun gangbrauta og annarra merkinga, hreinsun leiksvæða og opinna svæða. Starfstímabil er frá 27. maí – 16. ágúst.

Vélamaður. Auglýst er eftir vélamanni til að vinna við garðslátt og umhirðu á opnum svæðum. Umsækjendur þurfa að vera 18 ára og hafa dráttarvélaréttindi. Starfstímabil er frá 27. maí – 16. ágúst.

Vinnuskóli Fjallabyggðar auglýsir eftir flokksstjórum til að starfa við skólann. Starfstímabil er frá 27. maí til 16. ágúst. Umsækjendur þurfa að vera 20 ára og eldri. Flokksstjórar stjórna daglegu starfi vinnuflokka skólans og stuðla að reglusemi, ástundun og góðri umgengni starfsmanna. Flokksstjórar vinna með unglingunum og sýna þeim hvernig staðið skuli að verki og leiðbeina um notkun á áhöldum og tækjum.

Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar vantar starfsmenn á Siglufirði og Ólafsfirði. Starfstímabil er frá 11. júní – 19. ágúst. Leitað er að einstaklingum 20 ára og eldri sem hafa þekkingu í skyndihjálp og standast kröfur sem gerðar eru til sundvarða sem felast í því að taka sundpróf samkvæmt reglugerð um öryggi á sundstöðum.

Allar nánari upplýsingar um störfin er hægt að nálgast hjá: haukur@fjallabyggd.is vegna flokkstjóra og íþróttamiðstöðva. armann@fjallabyggd.is og Birgir bæjarverkstjóri s: 893 1467 vegna annarra auglýstra starfa.

 

Dalvík/Reynir vann Víði í undanúrslitum Lengjubikars

Í gær spilaði Dalvík/Reynir gegn Víði Garði í undanúrslitum B-deildar Lengjubikarsins. Leikurinn fór fram á Sauðárkróksvelli á nýju gervigrasi. Dalvík gerði fyrsta mark leiksins á 37. mínútu þegar Númi Kárason skoraði eftir góða sókn. Staðan í hálfleik var 1-0.

Í upphafi síðari hálfleiks þá jafna Víðismenn leikinn en markið er skráð sjálfsmark í leikskýrslu KSÍ. Á 65. mínútu fékk Dalvík/Reynir vítaspyrnu eftir að brotið var á Núma, spyrnuna tók Borja López Laguna og skoraði örugglega, staðan 2-1.

Á 73. mínútu skoraði Númi aftur og kom Dalvík/Reyni í 3-1 þegar skammt var eftir af leiknum.
Á fjórðu mínútu uppbótartíma þá minnkaði Víðir muninn í 3-2, en lengra náðu þeir ekki og vann Dalvík/Reynir góðan sigur og leika til úrslita á móti Selfossi.

Lausar stöður við Grunnskóla Fjallabyggðar

Eftirfarandi stöður eru lausar til umsóknar við Grunnskóla Fjallabyggðar fyrir skólaárið 2019-2020. Um er að ræða ótímabundnar ráðningar nema um annað sé samið. Leitað er eftir einstaklingum sem eru tilbúnir til að viðhalda og byggja upp öflugt skólasamfélag af dugnaði og atorku samkvæmt gildandi fræðslustefnu, með virðingu, metnað og gleði að leiðarljósi.

  • Þroskaþjálfi 75% staða.
  • Náms- og starfsráðgjafi 50% staða.
  • Stöður grunnskólakennara.  Meðal kennslugreina er hönnun og smíði og almenn kennsla og umsjón á yngsta stigi.

Upplýsingar veitir Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar í gegnum netfangið erlag@fjallaskolar.is eða síma 865-2030. Umsóknum skal skila á netfangið erlag@fjallaskolar.is.

Umsóknarfrestur er til og með 28. apríl nk.

Nánari upplýsingar má finna á vef Grunnskóla Fjallabyggðar.

Nemendur MTR gistu í tjöldum í Héðinsfirði

Í lok mars mánaðar fór hópur nemenda úr Menntaskólanum á Tröllaskaga til Héðinsfjarðar til að gista í tjöldum og leysa ýmis verkefni tengd námi í útivist í snjó og vetrarfjallamennsku. Í fyrstu tilraun skall á stórhríð og óveður og var því snúið við en reynt aftur næsta dag. Síðari tilraunin gekk vel og var veður gott en talsvert frost var um nóttina en hlýnaði með morgninum.  Kennarar með hópnum voru Gestur Hansson og Kristín Guðmundsdóttir.

Hópurinn gékk í tvær og hálfa klukkustund niður að Vík í Héðinsfirði með búnað á bakinu. Þar var tjaldað, kveiktur varðeldur, eldað og ýmis verkefni leyst.

Myndir: MTR.is

Atomic Cup fór fram í Hlíðarfjalli

Atomic Cup, alþjóðleg FIS mótaröð, fór fram í Hlíðarfjalli á Akureyri í vikunni og innihélt tvö svig og tvö stórsvig. Aðstæður voru hinar bestu, veður var frábært og færi þokkalegt.  Bæði stórsvigin voru einnig hluti af bikarmótaröð SKÍ og gefa því bikarstig.

Heildar sigurvegarar á Atomic Cup: Freydís Halla Einarsdóttir og Sturla Snær Snorrason

Öll úrslit má sjá hér.

Miðvikudagur 3.apríl

Fyrra svig – Konur
1. Freydís Halla Einarsdóttir
2. María Finnbogadóttir
3. Sigríður Dröfn Auðunsdóttir

Fyrra svig – Karlar
1. Sturla Snær Snorrason
2. Gauti Guðmundsson
3. Georg Fannar Þórðarson

Seinna svig – Konur
1. Freydís Halla Einarsdóttir
2. Aðalbjörg Lillý Hauksdóttir
3. Vigdís Sveinbjörnsdóttir

Seinna svig – Karlar
1. Sturla Snær Snorrason
2. Georg Fannar Þórðarson
3. Aron Máni Sverrisson

Fimmtudagur 4.apríl

Fyrra stórsvig – Konur
1. María Finnbogadóttir
2. Sigríður Dröfn Auðunsdóttir
3. Freydís Halla Einarsdóttir

Fyrra stórsvig – Karlar
1. Georg Fannar Þórðarson
2. Jón Óskar Andrésson
3. Darri Rúnarsson

Seinna stórsvig – Konur
1. Sigríður Dröfn Auðunsdóttir
2. Aðalbjörg Lilly Hauksdóttir
3. María Finnbogadóttir

Seinna stórsvig – Karlar
1. Sturla Snær Snorrason
2. Gísli Rafn Guðmundsson
3. Georg Fannar Þórðarson

Mynd og heimild: ski.is

Skíðamót Íslands á Dalvík

Skíðamót Íslands er haldið á Dalvík um helgina í Böggvisstaðafjalli. Fararstjórafundur var haldinn í gær í Brekkuseli. Til stóð að mótið yrði á Ísafirði, en vegna aðstæðna þar var ákveðið að mótið yrði keyrt á Dalvík. Verðlaunaafhending verður í Bergi í dag eftir að stórsvigi líkur.

Ráslistar í stórsvigi dagsins: 

https://www.live-timing.com/race2.php?r=200930
https://www.live-timing.com/race2.php?r=200931

Dagskrá: 

Laugardagur 6.apríl – Stórsvig
09:10 – Skoðun fyrri ferð
10:00 – Start fyrri ferð
12:00 – Skoðun seinni ferð
12:50 – Start seinni ferð
Fararstjórafundur eftir keppni í Brekkuseli.
15:00 – Verðlaunaafhending og kaffi í Bergi menningarhúsi Dalvíkur.

Sunnudagur 7.apríl – Svig
09:10 – Skoðun fyrri ferð
10:00 – Start fyrri ferð
12:00 – Skoðun seinni ferð
12:50 – Start seinni ferð
Verðlaunafhending eftir keppni í Brekkuseli.

Geggjað veður í Skarðsdalnum

Skíðaparadísin í Skarðsdal á Siglufirði er opin í dag og þar er frábært veður og færi. Svæðið verður opið frá kl. 10-16 í dag. Níu skíðaleiðir eru tilbúnar og göngubraut í Hólsdal. Umsjónarmaður skíðasvæðisins var mættur út eldsnemma í morgun til að kanna aðstæður og náðist á mynd. Hægt er að fylgjast með myndavél og veðurupplýsingum á Skarðsdalur.is.

Skólaþing Grunnskóla Fjallabyggðar

Grunnskóli Fjallabyggðar er að leggja upp í vegferð um bætt skólastarf. Verkefnið er kallað Framúrskarandi skóli – færni til framtíðar.  Skólaþingið er liður í vinnu nemenda, starfsfólks, kennara og foreldra við að móta stefnu skólans.  Frá þessu er greint á vef grunnskólans.

Samstarf við foreldra, fyrirtæki og stofnanir er lykilatriði svo skólastarf dafni í Fjallabyggð.  Grunnskóli Fjallabyggðar hvetur sem flesta til að mæta og leggja sitt af mörkum til að byggja upp framúrskarandi skóla í Fjallabyggð.

Þingið verður haldið í Grunnskóla Fjallabyggðar við Tjarnarstíg í Ólafsfirði, þriðjudaginn 9. apríl kl. 18.00- 20:00. Léttar veitingar í boði.

Setning Barnamenningarhátíðar á Akureyri

Barnamenningarhátíð á Akureyri hefst þriðjudaginn 9. apríl og stendur til sunnudagsins 14. apríl. Á dagskrá eru alls kyns listasmiðjur og ótal viðburðir við hæfi barna á öllum aldri.  Setning hátíðarinnar verður í Hamragili í Hofi kl. 16-17 þriðjudaginn 9. apríl. Grunnsveit Tónlistarskólans á Akureyri spilar, Herra Hnetusmjör flytur nokkur lög, hópur frá Dansstúdíói Alice dansar, sýnt verður atriði úr fjölskyldusöngleiknum vinsæla Gallsteinar afa Gissa og sýning á myndskreytingum í barnabókum verður opnuð formlega. Enginn aðgangseyrir og ungir sem aldnir hvattir til að mæta og gleðjast yfir menningu barna.

Markmið Barnamenningarhátíðar á Akureyri er að hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta lista og menningar. Sérstök áhersla er lögð á verkefni sem efla sköpunarkraftinn. Meginreglan er að aðgengi að viðburðum sé ókeypis.

Barnamenningarhátíð á Akureyri tekur mið af markmiðum Menningarstefnu Akureyrarbæjar og aðgerðaráætlun Akureyrarbæjar um innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með það að markmiði að verða fyrsta barnvæna sveitarfélagið.

Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar á barnamenning.is.

Aðsend fréttatilkynning.

Skíðagöngubraut lögð í Héðinsfirði

Skíðafélag Ólafsfjarðar mun leggja skíðagöngubraut í Héðinsfirði sem verður tilbúin laugardaginn 6. apríl kl. 11:00.  Brautin verður lögð frá Grundarkoti og eitthvað inn fyrir Ámá. Skíðaæfing félagsins verður því í Héðinsfirði á morgun og ætla foreldrar að fjölmenna.

Skíðasvæðið í Tindaöxl verður opið frá kl. 13:00-16:00 á morgun laugardag.  Kvöldopnun verður svo á Skíðasvæðinu í Tindaöxl frá kl 20:00-22:00 fyrir 16 ára og eldri. Lyftugjald inniheldur fjallakakó og kostar 1.000 kr. Tónlist og stemmning í fjallinu og Bárubrautin verður að sjálfsögðu troðin líka.
Í dag föstudaginn 5. apríl er skíðasvæðið í Tindaöxl opið frá kl. 16:00-19:00 og búið er að troða Bárubraut. Aðstæður er fínar, nægur snjór en nokkuð blautur.

Tveir erlendir leikmenn aftur til KF

KF hefur aftur samið við tvo af erlendu leikmönnunum sem léku með liðinu á síðasta ári, þetta eru þeir Ljubomir Delic og  Jordan Damachoua. Báðir sterkir leikmenn sem munu styrkja hópinn á Íslandsmótinu í 3. deild. Leikmennirnir eru væntanlegir til landsins á næstu dögum og vikum.

Jordan Damachoua er stór og sterkur varnarmaður og var valinn besti leikmaður KF á lokahófi liðsins eftir síðasta tímabil.

Ljubomir Delic er sóknarmaður og er að koma í þriðja sinn til liðsins, hann kom fyrst árið 2017 og lék þá 17 leiki og skoraði 6 mörk. Í fyrra lék hann 17 leiki og skoraði 3 mörk.

Það er ljóst að KF ætlar að vera í toppbaráttunni í 3. deildinni í sumar, en liðið hefur styrkt sig vel í þessum félagsskiptaglugga.

 

Norðurlandsriðillinn í Skólahreysti

Skólarnir á Norðurlandi utan Akureyrar kepptu í 8. riðli í Skólahreysti í vikunni. Keppnin fór fram á Akureyri og keppt var í upphýfingum, armbeygjum, dýfum, hreystigreip og hraðabraut.  Varmahlíðarskóli vann riðilinn örugglega, þriðja árið í röð með 41 stig.  Borgarhólsskóli var í öðru sæti með 34 stig og Grunnskóli Fjallabyggðar í 3. sæti með 33 stig. Grunnskóli Fjallabyggðar einnig í 3. sæti á síðasta ári í sömu keppni með 35,5 stig.

Mikil barátta var um 2.-4. sæti en þar munaði aðeins einu stigi á milli liðanna.

Grunnskóli Fjallabyggðar var í 4. sæti í upphýfingum, 3. sæti í dýfum, 2. sæti í Hraðaþraut (2.52 min), 3. sæti í armbeygjum og næst neðstasæti í hreystigreip (2.02 min).

Úrslit 8. riðils:

Skóli Gildi Stig
Varmahlíðarskóli 41 41,00
Borgarhólsskóli 34 34,00
Gr Fjallabyggðar 33 33,00
Gr Austan Vatna 33 33,00
Gr Þórshöfn 25,5 26,00
Árskóli 19 19,00
Húnavallaskóli 18,5 19,00
Valsárskóli 12 12,00
Image may contain: one or more people, basketball court, crowd and indoor
Mynd: skolahreysti.is

Image may contain: 7 people, basketball court and indoor

Bæjar- og menningarvefur