Skoða ávinning af friðlýsingu svæða á Norðurlandi eystra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Hilda Jana Gísladóttir, formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE) skrifuðu undir samning í Mývatnssveit í dag um greiningu tækifæra og áhrif friðlýstra svæða á nærsvæði þeirra.

Verkefnið er ein aðgerða á Byggðaáætlun 2018-2024 en er einnig hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar um sérstakt átak í friðlýsingum og að skoðaðir verði möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum en nú er. Verkefnið byggir á greiningu á hagrænum áhrifum friðlýstra svæða. Það er einnig unnið með hliðsjón af greiningum á áhrifum þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða á þróun byggða sem Hagfræðistofnun Háskólans vann fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. SSNE fær 7 milljónir til verkefnisins.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra leitaði eftir tillögum sveitarfélaga í landshlutanum að svæðum og lagði stjórn SSNE til að unnið yrði með Mývatn og Laxá. Tilgangur verkefnisins er að greina tækifæri og mögulegan ávinning í héraði af þjónustu sem byggist á nýtingu og umsjón friðlýstra svæða, s.s. náttúrutengdri ferðaþjónustu. Þá verða hugmyndir mótaðar í víðtæku samráði við heimafólk, fyrirtæki og stjórnvöld um þróun friðlýstra svæða, auk þess að skoða hvaða áskoranir og tækifæri þau geta skapað byggðarlögum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Hilda Jana Gísladóttir, formaður SSNE skrifuðu undir samninginn á Mývatni í dag. - mynd
Heimild og myndir: stjornarrad.is

 

 

Umhverfisráðherra heimsótti Dalvíkurbyggð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, heimsótti Dalvíkurbyggð í dag.  Guðmundur mætti ásamt aðstoðarmanni sínum, Sigríði Halldórsdóttur og Birni Helga Barkarsyni, sérfræðingi hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, á nýja áningastaðinn við Hrísatjörn og fékk þaðan leiðsögn um Friðland Svarfdæla.

Á áningarstaðnum tóku á móti ráðherranum, Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs, Steinþór Björnsson, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar, Davíð Örvar Hansson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun og Hjörleifur Hjartarson, landvörður í Friðlandi Svarfdæla.

Frá þessu var greint á vef Dalvíkurbyggðar.

 

Myndir og heimild: dalvik.is

 

Guðmundur Ármann sýnir í Bergi á Dalvík

Guðmundur Ármann Sigurjónsson, hefur sett upp sýningu á málverkum og grafík í Menningarhúsi Dalvíkinga, Bergi.
Formleg opnun verður laugardaginn 16. maí kl. 14:00. Léttar veitingar.
Sýninguna nefnir Guðmundur Árskíma myndirnar, 21 olíumálverk og sex einþrykk, eru unnin 2019 og 2020.
Kveikjan að þessum verkum er náttúran, fjöllin, himininn og byggðin sem kúrir undir fjöllunum á Tröllaskaga. Fyrstu skrefin voru unnin í seríu mynda sem voru unnar árin 2018-19 með grafískri aðferð sem nefnist  einþrykk.
Sýningin verður opin á opnunartíma Bergs til 31. maí. Virka daga opið kl. 10 – 17, laugardaga 13 – 17, lokað á sunnudögum.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson

Lauk prentmyndasmíðanámi 1962. Hóf myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962 og útskrifaðist af málunardeild 1966. Nám við Valand, Listaháskólann í Gautaborg 1966 og  lauk þar námi við grafíkdeild skólans 1972. Kennararéttindarnám við Háskólann á Akureyri 2002. Frá sama skóla meistaranám í menntunarfræðum M.Ed. 2013.
Fyrsta einkasýning á Mokkakaffi í Reykjavík 1962, sýndi þar blekteikningar og kolteikningar. Einkasýningar eru 40. Sýndi sumarið 2008 í Listasafninu á Akureyri. Þátttaka í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Tekið þátt í og skipulagt norræn myndlistarverkefni tekið þátt í alþjóðlegum grafík- og vatnslitasýningum. Verk í eigu Listasafna á Íslandi, safna á Norðurlöndunum og alþjóðlegu vatnslitasafni í Fabriano á Ítalíu. Starfslaun úr launasjóði myndlistar 1986. Bæjarlistamaður Akureyrar 1994. Þátttaka og verk á alþjóðlegu vatnslitasýningunni Fabriano Acquarello 2018 og 2019. Er meðlimur í Íslenskri grafík, Félagi íslenskra myndlistakennara, Gilfélaginu, Íslenska Vatnslitafélaginu, Norræna vatnslitabandalaginu og Myndlistafélaginu á Akureyri. Starfaði sem kennari við  listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2000-2014.

 

 

Málverkasýningin KÓF – Innilokun á striga

Laugardaginn 16. maí kl. 14:00 opnar Ragnar Hólm málverkasýninguna KÓF í Deiglunni á Akureyri. Þar sýnir hann ný olíumálverk sem hafa orðið til á síðustu mánuðum og endurspegla undarlega tíma einangrunar og ótta. Sýningin er aðeins opin helgina 16.-17. maí frá kl. 14-17 báða daga.

Í kófinu ægir saman sterkum kenndum. Þar blandast saman innilokun og ótti, einangrun og ofstæki, ástúð og ofbeldi. Að vera lokaður frá umheiminum langtímum saman, aleinn eða með sínum nánustu. Sést þá úr hverju mannskepnan er gerð og hvað býr inn við beinið? Hversu varnarlaust getur mannkynið orðið? Málverkin eru þannig eins konar óreiðukennd tilraun um manninn.

Kristján Edelstein, Pálmi Gunnarsson og Phil Doyle leika djassaðan blús af fingrum fram við opnun.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Hólm í síma 867 1000.

Fyrri einkasýningar:

Kaktus, Akureyri: (soldið) Erlendis, október 2019
Mjólkurbúðin, Akureyri: Sumarljós, maí 2019
Deiglan, Akureyri: Hauströkkur, nóvember 2018
Deiglan, Akureyri: Birtuskil, nóvember 2017
Menningarhúsið Berg, Dalvík: Litbrigði landsins, ágúst 2016
Listhús Ófeigs, Reykjavík: Að norðan, apríl 2016
Deiglan, Akureyri: Upprisa, október 2015
Mjólkurbúðin, Akureyri: Vetur að vori, apríl 2015
Háskólinn á Akureyri: Sitt sýninst hverjum, nóvember 2014
Populus tremula, Akureyri: Loftið & landið, júní 2014
Populus tremula, Akureyri: Dagur með Drottni, nóvember 2013
Jónas Viðar Gallerí, Reykjavík: Afmælissýning 5/50/150, desember 2012
Populus tremula, Akureyri: Afmælissýning 5/50/150, nóvember 2012
Gallerí LAK, Akureyri: Afmælissýning 5/50/150, október 2012
Populus tremula, Akureyri: Birtan á fjöllunum, maí 2011
Populus tremula, Akureyri: Sérðu það sem ég sé, mars 2010

Mynd frá Ragnar Hólm.
Mynd og texti: Aðsend fréttatilkynning.

Gáfu Síldarminjasafninu hjartastuðtæki

Fulltrúar frá Kiwanisklúbbnum Skildi í Fjallabyggð færðu Síldarminjasafninu hjartastuðtæki að gjöf föstudaginn 8. maí síðastliðinn.
Tækið er hið vandaðasta, af gerðinni Samaritan PAD350, og er hálfsjálfvirkt. Kiwanisklúbburinn Skjöldur gaf að auki fylgihluti með tækinu og skáp til að geyma búnaðinn.  Þetta kemur fram á vef Síldarminjasafnsins.

Fari einstaklingur í hjartastopp utan sjúkrahúss skiptir hver mínúta sköpum og geta hjartastuðtæki verið mikilvægur þáttur í að bjarga mannslífum. Tækinu verður komið fyrir í Bátahúsinu og starfsfólki Síldarminjasafnsins kennt að nota það.

Á meðfylgjandi ljósmynd má sjá Kiwanismennina Ómar Hauksson, Þorgeir Gunnarsson og Albert Gunnlaugsson og Eddu Björk Jónsdóttur og Anitu Elefsen sem veittu gjöfinni viðtöku fyrir hönd Síldarminjasafnsins.

Heimild: sild.is

Mynd: sild.is

3400 sumarstörf fyrir námsmenn auglýst á næstunni

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið, í samræmi við tillögu ríkisstjórnar Íslands, að verja um 2.200 milljónum króna í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar. Markmiðið er að með átakinu verði til 3.400 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, á milli anna sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Um er að ræða 4,5 sinnum stærra átak en ráðist var í eftir hrunið árið 2008.

Átakið er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er vinna þegar hafin við undirbúning. Öll sveitafélög munu skila inn tillögum til Vinnumálastofnunar og í framhaldinu verða öll störfin auglýst. Undirbúningi verður lokið á næstu vikum þannig að unnt verði að auglýsa störfin opinberlega fyrir 26. maí næstkomandi. Stofnanir og sveitarfélög þurfa að skapa ný störf í tengslum við átakið. Ráðningartími námsmanna er að hámarki tveir mánuðir og miðað er við tímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Við erum að setja aukinn kraft í atvinnuúræði fyrir námsmenn sem munu standa frammi fyrir erfiðleikum við að finna fá vinnu í sumar vegna þess óvissuástands sem nú ríkir vegna COVID-19 faraldursins. Þessar aðgerðir eru hluti af félagslegum aðgerðapakka sem er ætlað að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hefur á ýmsa hópa í samfélaginu.”

Heimild: stjornarrad.is.

Nýr áningastaður á Kambi í Ólafsfirði

Ungmennafélagið Vísir hyggst koma upp söguskilti við nýjan áningastað úti á Kambi í Ólafsfirði, austan fiskihjallanna. Hugmyndin er að setja upp skilti með upplýsingum um Kleifar, Múlann og landnámsmanninn Gunnólf gamla. Ungmennafélagið myndi sjá um kostnað við gerð skilta og uppsetningu, en Fjallabyggð sér um undirbúning svæðisins og staðsetningu.

 

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2019 var tekinn til fyrri umræðu í sveitarstjórn í vikunni.

Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og Eyvindarstaðaheiði ehf.

Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.977 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 5.119 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 5.250 millj. króna, þar af A-hluti 4.660 millj. króna. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 728 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 459 millj. króna. Afskriftir eru samtals 234 millj. króna, þar af 139 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 262 millj. króna, þ.a. eru 205 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta á árinu 2019 er 231 millj. króna og rekstrarafgangur A-hluta er er jákvæður um 115 millj. króna.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 10.102 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 8.040 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2019 samtals 6.999 millj. króna, þar af hjá A-hluta 6.205 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 4.577 millj. króna hjá A- og B-hluta auk 401 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 3.103 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 30,7%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.196 millj. króna í árslok.

Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 667 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 420 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 424 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2019, 563 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 578 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 423 millj. króna. Handbært fé nam 120 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán voru að fjárhæð 422,5 millj. króna.

Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna og langtímakröfu vegna Brúar lífeyrissjóðs. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2019, 117,1% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 88,2% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga og veltufé frá rekstri.

Að lokinni fyrri umræðu samþykkti sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar að vísa ársreikningi 2019 til síðari umræðu sveitarstjórnar.

Texti: skagafjordur.is

Tilkynning til atvinnuleitenda í minnkuðu starfshlutfalli

Vinnumálastofnun beinir því til atvinnuleitenda í minnkuðu starfshlutfalli að þeir þurfa að skrá sig af atvinnuleysisskrá ef þeim hefur verið sagt upp störfum og/eða ef þeir fara aftur í fyrra starfshlutfall. Sé um uppsögn að ræða ber að skrá sig af atvinnuleysisbótum frá og með fyrsta degi þess mánaðar sem uppsagnarfrestur byrjar að líða. Við afskráningu ber þá að merkja við fyrsta dag þess mánaðar, t.d. hafi starfsmanni verið sagt upp 28. apríl sl. ber að merkja við 1. maí 2020.

Hafi atvinnuleitandi farið aftur í fyrra starfshlutfall ber að skrá þann dag þegar valin er dagsetning afskráningar. Dæmi: Hafi atvinnuleitandi farið í fyrra starfshlutfall 4. maí sl. ber að merkja við 4. maí 2020 þegar fyllt er út upplýsingar um afskráningu. Atvinnuleitendur geta afskráð sig á mínum síðum og hefur Vinnumálastofnun sent út skilaboð og leiðbeiningar til þessa hóps varðandi afskráningu. Vinnumálastofnun leggur áherslu á að afskráning kemur ekki í veg fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta hafi atvinnuleitandi ekki enn fengið greitt fyrir apríl mánuð.

Upplýsingar um rétt einstaklinga til almennra atvinnuleysisbóta eru aðgengilegar hérhttps://vinnumalastofnun.is/atvinnuleitandi/rettur-til-atvinnuleysisbota  

Upplýsingar um réttindi einstaklinga í kjölfar gjaldþrots fyrirtækis eru aðgengilegar hér: https://vinnumalastofnun.is/atvinnuleitandi/rettur-til-atvinnuleysisbota/gjaldthrot-atvinnurekanda 

Heimild: vmst.is

 

VR óskar eftir tilboðum fyrir félagsmenn

VR óskar eftir samstarfi við ferðaþjónustuaðila sem hafa áhuga á að veita félagsmönnum VR tilboð eða afslætti fyrir sumarið 2020. Áhugasamir sendi upplýsingar á vr@vr.is fyrir 1. júní 2020. Þetta er gott tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi til að taka þátt, og getur orðið ágætis auglýsing í leiðinni.

Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja:

 • Merki eða mynd til birtingar á vef VR
 • Stutt lýsing
 • Tengill á vefsíðu
 • Gildistími tilboðs

Þjóðlagahátíðinni í ár frestað – en setrið opið í allt sumar

Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði hefur verið frestað um eitt ár. Til stóð að halda hátíðina dagana 1. til 5. júlí en af því getur ekki orðið. Í staðinn verður hátíðin haldin dagana 7. til 11. júlí 2021. Þjóðlagasetrið verður hins vegar opið í sumar frá 1. júní til 31. ágúst. Haldnir verða sumartónleikar í setrinu með mörgum kunnum listamönnum. Dagskrá tónleikanna verður auglýst síðar.

Þjóðlagahátíðin sumarið 2021 ber yfirskriftina Fornar tungur og tónlist og koma tónlistarmenn víða að úr heiminum til leiks. Flutt verður tónlist á fornum tungum á borð við grísku, litháísku og ladino úr sefardískri tónlistarhefð gyðinga sem og á forníslensku. Á meðal gesta á hátíðinni verða nemendur við Listaháskólann í Vilnius, Ragnheiður Gröndal, KIMI-tríóið frá Danmörku, djasshljómsveitin Gaukshreiðrið, Þjóðlagatríóið JÆJA frá Englandi, Salamander frá Svíþjóð, Skuggamyndir frá Byzans, kvennakórinn Vox Feminae og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hefur verið haldin árlega frá árinu 2000. Hún er alþjóðleg tónlistarhátíð með áherslu á að kynna tónlist ólíkra þjóða og þjóðarbrota sem og íslenska tónlist, gamla sem nýja. Auk tónleika er staðið fyrir sérstakri þjóðlagaakademíu og fjölbreyttum námskeiðum fyrir börn og fullorðna. Gunnsteinn Ólafsson er listrænn stjórnandi Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði. Sjá nánar www.siglofestival.com.

Starfshópur skipaður til eflingar nýsköpunar í Skagafirði

Starfshópur um aðgerðir til eflingar nýsköpunar í Skagafirði hefur verið myndaður. Í hópnum eru fimm einstaklingar sem hafa farsæla reynslu af nýsköpunar-, tækni- og frumkvöðlastarfsemi til þess að koma með tillögur að eflingu nýsköpunar í Skagafirði. Hópurinn á að vinna hratt og vel og skila af sér niðurstöðu í formi skýrslu eða minnisblaðs til byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem inniheldur greiningu mögulegra sviðsmynda um eflingu nýsköpunar á svæðinu. Niðurstöður liggi fyrir innan 3ja til 4ja vikna.

Hópinn skipa:
Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Genís, formaður.
Dr. Bjarni Kristófer Kristjánsson, prófessor og deildarstjóri fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum.
Kristinn Hjálmarsson, framkvæmdastjóri hjá Icelandic Sustainable Fisheries.
Stella Björg Kristinsdóttir, forstöðumaður sölu-, markaðs og vöruþróunar hjá
Mjólkursamlagi KS.
Dr. Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnarformaður Sjávarklasans.

Með hópnum starfa einnig Sigfús Ólafur Guðmundsson og Heba Guðmundsdóttir, verkefnastjórar í atvinnu-, menningar- og kynningarmálum hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.

 

Íbúum á Norðurlandi eystra fækkaði um 39

Íbúum á Norðurlandi eystra fækkaði um 39 frá 1. desember 2019 til 1. maí 2020. Aðeins var fækkun í tveimur landshlutum á þessu tímabili.

Í Fjallabyggð fækkaði um 9 á þessu tímabili og um 20 í Dalvíkurbyggð. Þá fækkaði um 6 í Norðurþingi og um 4 í Þingeyjarsveit. Á Akureyri fjölgaði hinsvegar um 29 manns og 8 í Grýtubakkahreppi.

Á Norðurlandi vestra fjölgaði um 60 manns. Í Skagafirði fjölgaði um 36 manns, og um 16 í Húnaþingi Vestra og um 7 á Blönduósi.

Tölulegar upplýsingar koma úr gögnum Þjóðskrár Íslands.

Pálshús opnar 30. maí

Framkvæmdir ganga vel í Pálshúsi í Ólafsfirði en þessa dagana er verið að klæða húsið að utan. Neðri hæð safnsins verður opnuð laugardaginn 30. maí og verður opið frá kl. 13-17 alla daga í sumar. Þá opnar einnig Árni Rúnar Sverrisson myndlistarsýningu í sýningarsalnum. Stefnt er að því að opna efri hæð hússins, Ólafsfjarðarstofu, laugardaginn 1. ágúst. Þar opna Sigtryggur Baldvinsson og Tinna Gunnarsdóttir sýningu í sýningarsalnum.

Einnig stefnt að því að halda uppá 75 ára afmæli Ólafsfjarðarkaupstaðar með uppákomum og útiveislu síðar í sumar ef aðstæður leyfa.

Myndir: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon
Myndir: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon
Mynd frá Björn Þór Ólafsson.
Mynd: Björn Þ. Ólafsson

Fjallabyggð kallar til samráðsfundar

Fjallabyggð kallar til samráðsfundar um sameiginlegt markaðsátak með ferðaþjónustu- og afþreyingaraðilum í Fjallabyggð. Fundurinn verður haldinn í Tjarnarborg fimmtudaginn 7. maí nk. kl. 17:00-1900. Á fundinum verða einnig kynnt fimm átaksverkefni til uppbyggingar ferðamannastaða.

Umræðuefni fundarins eru:

17:00-18:45 Sameiginlegt markaðsátak í Fjallabyggð

Dagskrá:

 • Samstillt átak í markaðsmálum
 • Staða ferðaþjónustunnar
 • Markaðsleiðir – Tækifæri í markaðssetningu
 • Umræður

18:45-19:00 Uppbygging ferðamannastaða

Dagskrá:

 • Áfangastaðaáætlun (DMP)
 • Kynning á fimm uppbyggingarverkefnum í Fjallabyggð

Skráning verður á fundinn vegna fjöldatakmarkana og gætt verður að 2 metra reglunni.

Skráning á viðburðinn er hér.

Upplýsingapóstur frá bæjarstjóra Fjallabyggðar

Kæru íbúar Fjallabyggðar.

Upp er runninn 4. maí, dagurinn sem við höfum öll verið að bíða eftir. Dagur sem, ef vel tekst til, markar lok tímabils farsóttar en um leið upphaf leiðarinnar að eðlilegra lífi okkar og upphaf glímunnar við efnahagslegar afleiðingar Covid-19. Frá og með deginum í dag er s.s. slakað á ýmsum þáttum samkomubanns og möguleikar okkar til þess lífs sem við teljum eðlilegt með því auknir. Auknar tilslakanir eru svo væntanlegar í lok mánaðar að því er þríeykið segir okkur.

Stærsta tilslökunin er að sjálfsögðu sú að nú starfa skólar og leikskólar með eðlilegum hætti og íþróttaæfingar barna á grunnskólaaldri eru leyfðar. Eitthvað sem telja má mikið fagnaðarefni enda ljóst að börnin okkar hafa saknað hins reglulega skólalífs. Það er að mínu áliti morgunljóst að sú reynsla sem skólasamfélagið hefur á undanförnum vikum aflað sér í notkun tækni við kennslu og störf mun nýtast til framtíðar. Mitt mat er að við sem samfélag ættum jafnvel að gefa í hvað varðar kennslu í samræmi við breytta tíma og tækni. Tel að með nýtingu tækni sem nú fleygir fram þá getum við kennt börnunum okkar að fjarlægð frá stórborg þarf ekki að vera takmarkandi þáttur þegar starf er valið og búseta í heimabyggð.

Hvað varðar helstu þætti þess sem nú breytist í leik- og grunnskólastarfi má nefna eftirfarandi: Fjöldatakmörkum samkomubanns nær ekki til starfsemi leik- og grunnskóla, til að hægt sé að halda vistun og kennslu óskertri. Sama á við um dagforeldra, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Þar verða ekki takmarkanir á því hversu margir nemendur geti verið saman komnir eða nálægð þeirra í frímínútum og mötuneyti. Allir nemendur geta sem sagt mætt samtímis í skólann, farið í útiveru og verið í mötuneyti.

Hvað varðar íþrótta- og æskulýðsstarfsemi þá verður hún heimil inni sem úti. Íþróttaæfingar í Frístund og sund- og íþróttakennsla nemenda í Grunnskóla Fjallabyggðar fer af stað í íþróttamiðstöðvunum. Í þessari tilslökun verða Íþróttaæfingar og keppnir aftur leyfðar með ákveðnum skilyrðum og án áhorfenda. Snertingar eru þó óheimilar og virða skal tveggja metra regluna. Þá skal halda notkun á sameiginlegum búnaði í lágmarki. Ekki verður heimilt að nota búnings- og sturtuklefa. Innandyra mega ekki fleiri en fjórir æfa saman í einu rými og úti mega ekki fleiri en sjö æfa saman í hópi.

Sundlaugar og líkamsræktaraðstaða verða lokaðar enn um sinn en vonir standa til opnunar í næsta áfanga tilslökunar samkomubanns.

Frá og með deginum í dag mun heilbrigðisþjónusta sem krefst snertingar eða nálægðar verða heimil, svo sem læknisskoðanir, tannlæknaþjónusta og sjúkraþjálfun. Nuddarar, hárgreiðslufólk og snyrtifræðingar geta nú tekið á móti viðskiptavinum á ný. Ljóst að margir munu fagna því að geta látið klippa sig, bæði þeir sem klipptir verða sem og aðstandendur og vinir.

Á vinnustöðum, veitingahúsum, í mötuneytum fullorðinna sem og verslunum þarf að gæta þess að ekki séu fleiri en 50 í sama rými. Hið sama á við um ráðstefnur og fundi, kennslu, fyrirlestra, próf og viðburði á borð við tónleika, íþróttaviðburði og kirkjuathafnir. Ætíð þarf að virða tveggja metra regluna í því sem við fullorðna fólkið tökum okkur fyrir hendur.

Með hliðsjón af tilslökunum sóttvarnalæknis munum við á skrifstofu Fjallabyggðar taka skref í átt að eðlilegri starfsemi. Frá og með deginum í dag verða allir starfsmenn við vinnu á skrifstofunni nema gild rök hnígi að öðru. Skrifstofan verður þó lokuð fyrir utanaðkomandi eitthvað áfram en mögulegt er að panta viðtal við starfsmenn og funda með þeim. Vonandi getum við fljótlega opnað að fullu fyrir aðgengi, en vegna smæðar vinnustaðarins treystum við okkur ekki lengra að sinni.

Eins og fram kom hér að ofan þá markar þessi dagur einnig upphaf hinnar raunverulegu glímu við efnahagslegar afleiðingar farsóttarinnar. Ljóst má vera að sú grein atvinnulífsins sem verst er að fara út úr undanförnum vikum og mun glíma við langvarandi afleiðingar er ferðaþjónustan. Til að bregðast við því, eins og bæjarfélagið getur, þá hafa fulltrúar ferðaþjónustu og bæjarfélags fundað og leitað leiða til varðstöðu um þessa mikilvægu atvinnugrein. Meginefni funda hefur verið að tryggja eftir mætti að allir aðilar sem að þessum málum koma innan Fjallabyggðar muni toga í sömu átt í komandi átaki sem ætlað er til að vekja athygli á Fjallabyggð sem áfangastað fyrir ferðaþyrsta Íslendinga. Fundir þessir og samtöl þeim tengd hafa verið ákaflega ánægjuleg og gaman að sjá hve hugmyndaríkt fólk í Fjallabyggð er og ákveðið að standa saman í gegn um þá erfiðleika sem nú eru augljóslega framundan.

Jafnframt hefur verið unnið að framgangi þeirrar samþykktar bæjarstjórnar sem kveður á um aðgerðir til varnar áhrifum farsóttarinnar á samfélagið og atvinnulífið í Fjallabyggð. Eins og áður hefur verið kynnt þá hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir svo sem frestun eindaga fasteignagjalda og aðrar aðgerðir sem gagnast til skemmri tíma. Nú er, í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar, unnið að yfirferð á framkvæmdaáætlun með það að markmiði að hún gagnist okkur sem best við að halda uppi atvinnu og bæta umgjörð og aðstöðu í bæjarfélaginu. Líklegt er að tillögur að áherslubreytingum í framkvæmdum verði kynntar í næstu viku.

Nú þegar bæjarfélagið okkar er að koma undan snjó þá kemur eðlilega ýmislegt í ljós í umhverfinu sem þarfnast lagfæringar, einnig kemur að líkindum töluvert upp af drasli ýmiskonar. Um leið og ég hvet íbúa til að safna lausu smárusli saman og koma í þar til gerð ílát þá bið ég ykkur að láta okkur vita um atriði sem þarfnast lagfæringar, svo sem skemmdir af völdum snjómoksturs, í netfangið fjallabyggd@fjallabyggd.is. Gott væri ef þið senduð myndir því það hjálpar við skilning á verkefninu á hverjum stað. Augljóslega er ekki mögulegt að bjarga öllu strax en skipulega verður unnið að úrbótum. Sama á við um aðrar umhverfisúrbætur sem ykkur kæru íbúar koma til hugar. Verið endilega í sambandi, við starfsfólk bæjarfélagsins gerum svo eins og mannafli og fjármunir leyfa okkur.

Ljóst er að margir hér í bæjarfélaginu, og um land allt, eiga nú um sárt að binda og eða sjá fram á efnahagslega erfiðleika. Nú ríður því á að við, samfélagið í Fjallabyggð, stöndum saman og sýnum hverju öðru þolinmæði, samkennd og samhug. Byggt á minni stuttu reynslu í þessu góða samfélagi veit ég að þar munum við öll standa okkur. Munum að við vitum sjaldnast hvaða baráttu sá er við hittum heyr, því skulum við ætíð gæta þess að vera góð hvert við annað.

Með góðri kveðju og ósk um gleðilegt sumar.

Elías Pétursson
bæjarstjóri

 

Texti: Fjallabyggð.is

Sigló hótel opið allar helgar í maí

Sigló hótel hefur tilkynnt að hótelið verði opið allar helgar í maímánuði. Þá er hægt að panta herbergi fyrir aðeins 18.900 kr. nóttina ásamt morgunverði. Aðeins bókanlegt á siglohotel@siglohotel.is. Nú er bara að drífa sig norður einhverja helgina í maí og njóta náttúrunnar og safnanna sem Fjallabyggð hefur uppá að bjóða.

Mynd:Hedinsfjörður.is /Magnús Rúnar Magnússon

Gistinóttum á hótelum fækkaði um 54% á Norðurlandi

Gistinætur á hótelum á Norðurlandi í mars síðastliðnum voru 10.139 sem er fækkun um 54% frá sama mánuði árið áður. Í mars árið 2019 voru keyptar gistinætur á Norðurlandi 22.079, svo um töluverðan samdrátt er að ræða. Herbergjanýting hótela á Norðurlandi í mars síðastliðnum var aðeins 17,0%, en var 37,8% í mars 2019. Aðeins einn landshluti var með lægri nýtingarhlutfall á hótelherbergjum, en það var Austurland, en þar var aðeins 15,3% nýting í mars síðastliðnum.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands.

Átak í hreinsun bílhræja í Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð og Landhreinsun ehf. bjóða upp á að fjarlægja bílhræ fyrir íbúa sveitarfélagsins þeim að kostnaðarlausu í allt sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Dalvíkurbyggðar. Landhreinsun tekur einnig allt brotajárn, rafmagnskapla, rafgeima, dekk og felgur.

 

Það sem þú þarft að gera er þetta:

 1. Hafa bifreiðina þar sem vörubíll kemst að henni.
 2. Hringja á skrifstofu sveitarfélagsins eða senda e-mail á netfangið steinthor@dalvikurbyggd.is
 3. Kvitta rafrænt eða á blað fyrir förgun þegar bifreiðin er fjarlægð til að tryggja að 20.000 krónur séu lagðar inn á reikning bifreiðareigandans.

 

Viðbygging við íþróttamiðstöð á Siglufirði – aðsend grein

Á fjárhagsáætlun 2020 er reiknað með 125 mkr. í framkvæmdir til að bæta aðgengi að íþróttamiðstöðinni á Siglufirði. Þörf framkvæmd og nauðsynleg. Í byrjun september 2019 voru
kynntar tillögur að þessum framkvæmdum fyrir fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar. Gert er ráð fyrir viðbyggingu sunnan við núverandi sundlaugarbyggingu (sunnan við núverandi búningsklefa ) þar yrði ný móttaka og þar undir nýir búningaklefar. Gert að sjálfsögðu ráð fyrir lyftu og stigum enda þarf að fara niður um 4,3 metra til að komast á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. Samkvæmt tillögunni er einnig gert ráð fyrir miklum framkvæmdum austan við sundlaugargaflinn. Þar á að koma fyrir heitum og köldum pottum, setlaug og sjóbaðsaðstöðu.

Ég hef velt þessum framkvæmdum töluvert fyrir mér. Því miður hefur skipulags- og umhverfisnefnd ekki enn fengið kynningu á þessum framkvæmdum en það hlýtur að styttast í að lokateikningar verði klárar.
Kannski hafa ýmsir aðrir kostir verið skoðaðir en engar upplýsingar hef ég um það. En skoðum þessa tillögur aðeins betur. Aðalástæða þess að farið er í þessar framkvæmdir er til að bæta aðgengi. Hér er lagt til að byggja tveggja hæða byggingu til þess að færa fólk af götuhæð niður á gólfhæð íþróttahúss og sundlaugar. En væri vert að skoða þann möguleika að færa alla aðkomu að
íþróttamiðstöðunni niður fyrir núverandi byggingar?
Ég sé fyrir mér byggingu upp við austurgafl sundlaugarinnar. Í þeirri byggingu yrðu nýjir búningsklefar, móttaka og vöktun starfsmanna. Ofaná þessa byggingu væri svo hægt að hafa
glæsilegt setu- og sólbaðssvæði með frábært útsýni í allar áttir. Sunnan við þessa byggingu yrðu svo nýjir pottar. Með þessu móti hefðu starfsmenn góða yfirsýn yfir sundlaug og potta og örstutt í
tækjasal og íþróttasalinn.

Öll aðkoma að íþróttamiðstöðinni yrði sunnan frá sem myndi létta mjög mikið á bílastæða vandamálum við Hvanneyrarbraut. Einnig yrði hægt að komast niður með sundlauginni að norðan,
gangandi. Reikna má með að breikka þurfi landfyllingu austan við íþróttahúsið og sundlaug. Með þessu móti er öll aðkoma á sömu hæðinni og því mjög gott aðgengi.
Ég hef heyrt að það gæti verið vandamál með ræsið sem liggur í gegnum Hvanneyrarbrautina að líklegt væri að nýja viðbyggingin sunnan sundlaugar lendi beint ofan á henni. Ef það er raunin gæti
þessi framkvæmd sem stendur til að fara í orðið mjög dýr og í ljósi þess því ekki að skoða aðra kosti?

Kannski var það gert, ég veit það ekki enda sáralítil umræða farið fram um þessa framkvæmd.

Helgi Jóhannsson
Fulltrúi minnihluta H-listann í skipulags- og umhverfisnefnd.

Texti og myndir: Aðsent efni.

Útivistartími barna og unglinga

Útivistartími barna og unglinga tekur breytingum frá 1. maí. Frá þeim tíma mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22.00.  Unglingar 13 til 16 ára mega vera úti til klukkan 24.00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan fyrrgreinds tíma nema í fylgd með fullorðnum. Bregða má út af reglunum fyrir síðartalda hópinn þegar unglingar eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár. Foreldrum/forráðamönnum er að sjálfsögðu heimilt að stytta þennan tíma og setja börnum sínum reglur um styttri útivistartíma.

Útivistarreglurnar eru samkvæmt barnaverndarlögum. Þeim er m.a. ætlað að tryggja nægan svefn en hann er börnum og unglingum nauðsynlegur. Svefnþörfin er einstaklingsbundin en þó má ætla að börn og unglingar á grunnskólaaldri þurfi 10 tíma svefn á nóttu. Mikilvægt er að fylgja því eftir að börn og unglingar fái nægan svefn. Í því felst m.a. að ganga úr skugga um að þau séu ekki í símanum eða tölvunni þegar þau eiga að vera komin í rúmið.

Mynd frá Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrsta maí ávarp forseta ASÍ

Kæru félagar og landsmenn allir.
Um heim allan hefur flestu sem við höfum tekið sem gefnu verið ýtt til hliðar til að verja líf okkar og heilsu. Vinna, nám, félagslíf og samskipti hafa tekið stakkaskiptum og breytingarnar kunna að einhverju marki að vara til frambúðar. Framtíðin sem við höfum undirbúið okkur undir, með aukinni áherslu á tækni og grænar lausnir er allt í einu mætt nokkrum árum fyrr en áætlað var og við stöndum frammi fyrir spurningunni: hvernig ætlum við að hafa framtíðina? Allt er breytt. Möguleikum hefur snarfækkað og snarfjölgað.

Hér á landi hefur nálgunin verið skynsamleg. Við höfum leitað til fólks sem besta þekkingu hefur á faröldrum og almannaöryggi og við sjáum fram á að geta andað aðeins léttar, þó fyrirvararnir séu enn margir og verði áfram. Alltaf búum við vel að því að eiga öflugt heilbrigðisstarfsfólk og sameiginlega innviði, en aldrei hefur það verið jafn ljóst og nú. Við erum komin í þá stöðu á undan flestum ríkjum að geta einhent okkur í uppbyggingu og næstu skref.
Það er einkennandi að þau samfélög sem hafa náð að vernda fólk best gegn veirunni eru þau lönd þar sem samfélagshugsun er ríkjandi í stað þeirrar hugsunar að hver sé sjálfum sér næstur. Lönd sem hafa byggt upp heilbrigðiskerfi og aðra velferð sameiginlega og fyrir alla. Það er dýrmætt að eiga slíka sameign og aldrei sem nú, hana þurfum við að vernda og efla.

Við stöndum frammi fyrir efnahagskreppu og þá reynir á samfélagshugsunina. Við erum ekki öll á sama báti, óhugnanlega margir hafa misst vinnu og enn fleiri orðið fyrir skertum tekjum. En þó við séum ekki á sama báti getum við sannmælst um að tryggja framfærslu fólks, grunn hins siðmenntaða samfélags, að fólk hafi til hnífs og skeiðar, þak yfir höfuðið og geti notið lífsins gæða. Við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum um framtíðina.

Samstaða gegn græðgi og arðráni
Í mínum huga er það hvorki gerlegt né æskilegt að leita í sama farið. Leiðarstef okkar við uppbyggingu samfélagsins og atvinnulífsins á að vera að allir hafi framfærslu; vinnandi fólk, fólk í atvinnuleit, öryrkjar, aldraðir og námsmenn. Ef við tryggjum ekki framfærslu fólks verður kreppan dýpri og erfiðari bæði fyrir einstaklinga og okkur sem samfélag. Framfærslutrygging er því lykilatriði í vörn og viðspyrnu.

Í öllum kreppum leita fjármagnseigendur tækifæra til að auka auð sinn og komast yfir fyrirtæki, stofnanir og jafnvel heimili á brunaútsölu. Eina aflið gegn slíkri græðgi er samstaða fólks og barátta fjöldahreyfinga. Við munum berjast gegn því að endurreisnin verði byggð á að sameignir okkar verði seldar eða að slegið verði af kröfum um laun og aðbúnað vinnandi fólks. Það hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt núna að verja þau réttindi sem við höfum samið um. Við viljum ekki ástand þar sem atvinnulaust fólk er svo örvæntingafullt að það undirbýður hvert annað í þeirri von að fá einhvern pening í vasann. Eða að slakað sé á öryggi vinnandi fólks í skjóli ástandsins. Þetta er raunveruleg hætta hér á landi og um heim allan.

Ísland er fyrirmynd annarra í viðbrögðum við faraldrinum og við skulum líka vera fyrirmynd í því hvernig við byggjum okkur upp að nýju. Við viljum byggja upp réttlátt þjóðfélag. Við skulum einsetja okkur að eftir eitt ár, fyrsta maí árið 2021, verði búið að útrýma atvinnuleysi með góðum og öruggum störfum. Hér verðum við í fullum gangi að skapa ný tækifæri fyrir fólk og fyrirtæki í matvælaframleiðslu, heilbrigðisþjónustu, menntun, tækni og nýsköpun. Við höfum styrkt okkar innviði og sameiginlegar grunnstoðir. Við getum horft stolt til baka þar sem lífskjörin voru varin, komið var í veg fyrir að reikningnum væri velt yfir á heimilin og jöfnuður hafður að leiðarljósi. Við búum við lýðræðislegt og opið samfélag. Um þetta sameinumst við í dag, á baráttudegi verkalýðsins.

Kæru félagar, það eru víða erfiðleikar en við munum komast í gegnum þá og verðum vonandi sterkari og jafnari og samfélagið réttlátara á eftir. Gleðilegan 1. maí!

Texti: ein.is.

Mynd: ein.is

Hækka orlofsprósentu hjá vinnuskóla Fjallabyggðar – fjölbreytt störf í boði í sumar

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að hækka orlofsprósentu unglinga í vinnuskóla Fjallabyggðar í 13,04% í samræmi við kjarasamning Einingar Iðju. Fram til þessa hefur orlofsprósentan  verið 10,17%.

Á hverju sumri eru fjölbreytt sumarstörf í boði hjá Fjallabyggð, og er núna hægt að sækja um störfin til 8. maí næstkomandi. Nánari upplýsingar eru á vef Fjallabyggðar.

 

Menntaskólinn á Tröllaskaga opnar á mánudaginn – áfram kennt í fjarkennslu

Menntaskólinn á Tröllaskaga verður opnaður aftur mánudaginn 4. maí.  Nemendur og kennarar eru velkomnir í skólann en staðkennsla fer ekki fram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Reglur um 2 metra fjarlægð, hámark 50 í einu rými, handþvott og sprittun gilda áfram. Ef kennarar velja að mæta í skólann verður kennsla þeirra í fjarkennslustofunni eins og verið hefur.

Verið er að kanna möguleika á skólaakstri.

Ef einhverjar spurningar vakna vinsamlega hafðu samband við skólameistara á netfanginu lara@mtr.is.

Jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta – aðsend grein

Undirritaðir Kristján L. Möller og Ólafur H. Kárason fyrir hönd ýmissa rekstrar og þjónustuaðila á Siglufirði, Ólafsfirði og í Fljótum hafa sent inn meðfylgjandi umsögn til Umhverfis og samgöngunefndar Alþingis við tillögu til samgönguáætlunar áranna 2020-2024, og tillögu til samgönguáætlunar áranna 2020-2034.

Umsögnin endar á þessum orðum:

Undirrituðum er kunnugt um að á næstunni mun Vegagerðin skila af sér skýrslu varðandi fyrstu úttekt á þessum jarðgöngum og hvetja því til áframhaldandi vinnu við greiningu á byggðalegum, samfélagslegum og umferðaröryggislegum þáttum þessa verkefnis.

Við undirbúning næstu jarðgangaáætlunar er óhjákvæmilegt annað en að líta til mikilvægis framangreindra jarðganga og raða þeim framarlega í framkvæmdaröð jarðganga á Íslandi.

Með umsögn þessari vilja undirritaðir óska eftir því og hvetja háttvirta umhverfis- og samgöngunefnd sem og Alþingi til þess að setja jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta á stefnumarkandi og endurskoðaða samgönguáætlun áranna 2020-2034 og fjárveitingu til að hefja allar nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir sem allra fyrst á aðgerðaáætlun 2020-2024.

Það eru ánægjuleg tíðindi og mikilvægt að Vegagerðin hefur nú nýlega skilað af sér umræddri skýrslu um jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta og er því þessi umsögn sem 70 aðilar skrifa undir mikilvægt innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað til að þoka áfram gerð umræddra jarðganga milli Siglufjarðar og Fljóta.

Hér er slóð á umrædda umsögn okkar.

https://www.althingi.is/altext/erindi/150/150-1730.pdf

Umsögnin var send inn til umhverfis- og samgöngunefndar 25. mars sl.

Með jarðgangakveðju

Kristján L. Möller.

Ólafur H. Kárason.

 

Texti: Aðsend grein.

Sæplast gefur töskur og ritföng til grunnskólabarna í Dalvíkurbyggð

Sæplast í Dalvíkurbyggð mun gefa nemendum sem hefja skólagöngu í haust í 1. bekk Dalvíkurskóla og Árskógarskóla, skólatösku ásamt reiknivél og pennaveski með ritföngum að gjöf.

Með þessu framlagi vill Sæplast Iceland ehf. leggja sitt af mörkum til samfélagsins og einnig stuðla að því að nemendur allir mæti jafnir til leiks í haust hvað skólabúnað varðar. Síðustu ár hafa verðandi nemendur 1. bekkjar fengið skólatösku að gjöf frá Sæplast en þeir tóku við keflinu af fyrirtækinu Dalpay sem hóf þetta verkefni árið 2010.

Frábært verkefni í Dalvíkurbyggð.

Mynd: Ingunn Hafdís Júlíusdóttir
Mynd frá afhendingu á töskum frá síðasta skólaári.

Bæjar- og menningarvefur