Viðtal við Hákon Leó leikmann KF

Hákon Leó Hilmarsson kom í viðtal til okkar á dögunum og svaraði nokkrum spurningum. Hákon er uppalinn hjá KF og lék upp yngri flokkana og byrjaði ungur að koma við sögu í Lengjubikar og Kjarnafæðismótinu með meistaraflokki KF, en þetta var vorið 2014. Hann fékk fá tækifæri með liðinu um sumarið og undir lok sumars 2014 gekk hann til liðs við nágrannana á Dalvík og lék tvo leiki með meistaraflokki Dalvíkur/Reynis en skipti aftur yfir í KF um haustið.  Árið 2015 var svipað, hann fékk tækifæri með liðinu í Lengjubikarnum um vorið og lék svo með 2. flokki KF um sumarið en náði þó einum leik með meistaraflokki um haustið. Á næsta tímabili lét hann meira að sér kveða og lék 14 leiki fyrir KF og var kominn með sæti í byrjunarliðinu. Eftir sumarið 2016 hefur hann leikið flesta leiki með liðinu og hefur núna spilað 75 leiki í deild og bikar og skorað 2 mörk.

Hákon þykir harður í horn að taka á vellinum og hefur hann náð sér í 40 gul spjöld frá árinu 2013 og eitt rautt spjald. Inni í þessari tölu eru leikir í deild og bikar, Lengjubikar, Kjarnafæðismóti og nokkrum leikjum í 2. flokki. Milli æfinga og leikja vinnur Hákon hjá Aðalbakarí á Siglufirði sem bakari.  Hákon var einnig í viðtali hjá okkur í fyrra, og má lesa það hér á vefnum.

VIÐTAL

1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?
Uppleggið var aðallega að vera vel skipulagðir og byrja alla leiki að krafti og ná inn marki sem fyrst. Ef við lítum á síðasta tímabil þá vorum við ansi oft að fá á okkur mark í byrjun leiks. En nú vorum við miklu betur skipulagðri og náðum að pressa liðin vel.

2. Hópurinn hefur verið sterkur í sumar margir nýir leikmenn komu í vor, hvernig hefur baráttan verið um fast sæti í liðinu?

Rétt er það, hópurinn í sumar var rosalega sterkur og allar stöður vel mannaðar. Það nánast skipti ekki máli þótt einn leikamður missti úr leik, það kom alltaf maður í manns stað og það er lykillinn að góðu gengi í sumar. Við höfum margir verið að spila saman undanfarin þrjú ár og nú er þessi óslípaði demantur orðinn að fallegum demant.

3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Það eru margir leikir sem koma upp í hausinn á mér. Það voru margir sigrar svo ótrúlega sætir t.d. báðir leikirnir gegn Sindra þar sem við náðum sigurmarki á lokasekúndum leiksins. Sigurinn gegn Kórdrengjum og Hött/Huginn á útivelli. En ef ég ætti að velja einn þá er það Reynir Sandgerði heima þegar við tryggjum okkur upp um deild, það er tilfinning sem er æðisleg.
Atvik í leik hjá mér persónulega er ekkert skemmtilegt en sjálfsmarkið mitt gegn Vængjum var líklega eitt af mörkum sumarsins, ég get hlegið af því núna en vikan eftir markið var ansi erfið. En það er bara eins og það er.

4. Hvernig gengur að stilla saman atvinnu(Aðalbakarí) og knattspyrnuferlinum varðandi æfingar og leiki ?

Það gengur eins og í sögu. Margir segja að þetta sé galinn vinnutími að byrja 04:00 á nóttunni en þetta kemst í vana eins og allt annað. Ég klára vinnu yfirleitt í hádeginu og legg mig eftir það og svo æfing. 

5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?

Bara hóflegar, við verðum nýliðar í deildinni og margir munu líta á okkur sem fallbyssufóður. Við munum bara halda áfram að spila okkar leik og fyrsta markmið er að sjálfsögðu að festa okkur í sessi í deildinni og vinna út frá því.

6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?

Gervigras mun breyta öllu fyrir félagið, bæði fyrir meistaraflokk og yngri flokkana. Við erum eins og þú segir með mjög takmarkaða æfingaaðstöðu og þurfum í meistaraflokki t.d. að keyra til Akureyrar 6 mánuði á ári til þess að æfa við boðlegar aðstæður. Fótboltaiðkun mun bætast Fjallabyggð með gervigrasi er ég alveg klár á, vegna þess að þá geta bæði meistaraflokkur og yngri flokkar KF æft í okkar heimabæ við almennilegar aðstæður og verður áhuginn og viljinn að bæta sig miklu meiri.  Fótbolti er vinsælasta íþróttin og með þessum aðstæðum í dag mun fótboltinn deyja hægt og rólega í Fjallabyggð sem væri algjör synd fyrir staði eins og Siglufjörð og Ólafsfjörð sem hafa átt sögufræg lið í gegnum tíðina.

7. Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið?

Alexander hefur reynst okkur mjög vel eins og tölur segja til um. 28 mörk í 22. leikjum segir sig eiginlega bara sjálft. Okkur hefur vantað alvöru sóknarmann þarna frammi undanfarin ár og hann hefur kannski verið týnda púsluspilið.  Pressan á hann var ekkert svakaleg held ég. Það vita allir hvað hann getur í fótbolta og vissu allir hverju mátti búast við og skilaði hann því bara.

8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö bein rauð spjöld (Vitor fékk tvö gul og þar með rautt í einum leik). Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar?

Engin heppni myndi ég segja, frekar óheppni. Við fengum reyndar 3 rauð spjöld í sumar og voru þetta allt rosalega mikil vafa atriði og frekar illa vegið að okkur. Við spilum fast og látum finna fyrir okkur með skynsemi og því engin heppni með fá  ekki fleiri rauð spjöld heldur bara vel spilað hjá okkur.

Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Mynd frá Guðný Ágústsdóttir.
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.
Mynd frá Hákon Hilmarsson.
Hákon Leó Hilmarsson, bakari hjá Aðalbakarí.

 

Arctic Drone Yoga á Fosshótel Húsavík

Upplifunin verður engu lík þegar viðburðurinn Arctic Drone Yoga verður haldinn dagana 19.-20. október næstkomandi á Fosshótel Húsavík.  Í heilan sólarhring verður spiluð svokölluð drun-tónlist, eða „drone“ eins og það kallast á ensku. Skapaður verður einstakur hljóðheimur sem gestir stíga inn í og umlykur þá á meðan þeir dvelja í rýminu. Ótruflaðir tónarnir, skapaðir af röddum eða hljóðfærum, ná út fyrir tíma, tónlistarflokka og jafnvel tónlistina sjálfa. Upplifunin verður þannig sameiginleg bæði fyrir gestina og tónlistamennina sem skapa hljóðheiminn.

Einnig verður boðið upp á jóga í sex klukkustundur, en gestir geta bæði stundað jóga á meðan þeir hlusta og upplifa tónlistina eða einfaldlega komið sér þægilega fyrir og leyft tónunum að flæða um líkamann.

Drun tónlist á sér langa sögu og hefur verið notuð í þjóðlagatónlist í þúsundir ára. Á Arctic Drone Yoga koma fjölmargir tónlistarmenn fram og sumir þeirra heimsþekktir eins og Melissa Auf der Maur bassaleikari Smashing Pumpkins, Atli Örvarsson, Ólöf Arnalds, Barði Jóhannsson í Bang Gang, Sin Fang, JFDR, IamHelgi og fleiri. Jógatíminn verður í umsjón Yoga Shala.

Viðburðurinn hefst klukkan 10:00 þann 19. Október og lýkur kl. 10:00 daginn eftir. Ekki verða seldir miðar á viðburðinn, en hótelgestir komast inn og sömuleiðis þeir sem kaupa sér aðgang að hádegishlaðborðinu á Fosshótel Húsavík.

Nánari upplýsingar á islandshotel.is/droneyoga – www.droneyoga.is

eða hjá Barða Jóhannssyni, bardi@islandshotel.is

Aðsend fréttatilkynning.

 

Viðtal við Grétar Áka fyrirliða KF

Grétar Áki Bergsson er einn af uppöldum leikmönnum KF og hefur verið undanfarin ár fyrirliði liðsins. Hann hefur leikið 7 tímabil í meistaraflokki KF og hefur spilað 109 leiki í meistaraflokki og skorað 13 mörk. Árið 2013 var hann að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki þegar Lárus Orri Sigurðsson var þjálfari og liðið spilað þá í 1. deildinni sem heitir í dag Inkassó-deildin. Liðið féll úr deildinni þetta ár og vantaði aðeins einn sigur til að halda sér uppi. Lárus hætti með liðið og Dragan Stojanovic þjálfaði liðið í 2. deild árið 2014 og endaði KF í 7. sæti. Grétar Áki festi sig meira í sessi í byrjunarliðinu og spilaði 13 leiki í deild og bikar. Árið 2015 var KF enn í 2. deild og með nýjan þjálfara, Jón Aðalstein Kristjánsson og lék Grétar Áki 14 leiki í deild og bikar fyrir liðið. Hér var ekki aftur snúið, Grétar Áki var orðinn fastamaður í byrjunarliðinu eftir þessi tvö tímabil með meistaraflokki og var síðar gerður að fyrirliða liðsins. Grétar Áki átti gott tímabil í ár og lék 21 leik í deild og bikar og skoraði 3 mörk.  Grétar Áki var einnig í viðtali hjá okkur árið 2017 sem má lesa hér.

VIÐTAL

1. Hvað var uppleggið fyrir mótið og voru áherslubreytingar frá þjálfara?

Við vildum spila skemmtilegan bolta og hlaupa yfir andstæðinga okkar eins og við höfum verið að gera síðustu ár. Við vorum grátlega nálægt að fara upp í fyrra þannig við vissum hvað þurfti til að fara upp.

2. Hvað var þitt markmið fyrir Íslandsmótið sem leikmaður og fyrirliði?

Markmiðið mitt var einfaldlega það að leggja mig allan fram í hverjum einasta leik til að hjálpa liðinu að vinna og komast upp.  

3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Mér finnst leikurinn úti gegn Sindra mjög eftirminnilegur þar sem við gátum ekki neitt og lentum undir en náðum síðan að kreista fram sigur á 97’ mínútu með marki frá Ljuba. Svo var auðvitað skemmtilegt atvik gegn Vængjum á útivelli þegar Andri Snær þurfti að fara í markið. (Innskot: Halldór markmaður var rekinn af velli og enginn varamarkmaður á leikskýrslu)

4. Þú hefur spilað sjö tímabil með KF, hefur orðið einhver breyting eða þróun á félaginu á þessum tíma ?

Auðvitað koma alltaf upp einhverjar breytingar. Þjálfaraskipti, breytingar á leikmannahóp og svoleiðis. En mér finnst núna að þetta sé að þróast í góða átt, það er að koma meiri fagmennska inn í þetta hjá okkur og það mun bara hjálpa.

5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?

Ég er bara gríðarlega spenntur fyrir næsta tímabili. Ef við höldum svipuðum hóp og í ár og fáum inn einhverjar styrkingar þá getum við gert fína hluti.

6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?

Þetta getur gert helling fyrir KF, bæði fyrir yngri flokkana og meistaraflokk. Þarna kemur völlur sem allir geta nýtt yfir veturinn til þess að æfa sig og verða betri í fótbolta.

7. Hversu mikilvægur hefur Alexander Már verið fyrir lið í sumar? Var mikil pressa á honum að skora þegar leið á mótið?

Alli minn var ótrúlegur í sumar með 28 mörk í 21 leik hahahaha þetta er Cristiano Ronaldo tölfræði. Ég myndi ekki segja að það hafi verið einhver pressa á honum, hann vissi alveg að hann myndi skora.

8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö bein rauð spjöld. Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar?

Rauðu spjöldin voru reyndar þrjú (Innskot: Vitor fékk tvö gul spjöld í einum leik og þar með rautt en gögn KSÍ telja það sem gul spjöld) í sumar en tvö af þeim fannst mér mjög ósanngjörn þannig ég myndi frekar segja að við vorum óheppnir hvað það varðar. En við hugsuðum bara um að spila okkar leik í sumar og það snýst alls ekki um að fá spjöld.

 

Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Mynd: Kfbolti.is
Mynd: Guðný Ágústsdóttir.

Viðtal við Alexander Má Þorláksson hjá KF

Við fengum markakónginn Alexander Má Þorláksson hjá Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar í viðtal og spurðum hann nokkurra spurninga. Alexander er uppalin á Akranesi og lék með yngri flokkum ÍA en hefur svo spilað með nokkrum liðum í meistaraflokki eins og Fram, Hetti, Kára og KF, auk nokkra leikja með meistaraflokki ÍA.  Alexander á tvíburabróður sem heitir Indriði Áki en hann lék með Kára á Akranesi í sumar.

Alexander kom fyrst til KF árið 2015 þegar liðið lék í 2. deildinni og skoraði hann þá 18 mörk í tuttugu og einum leik fyrir liðið, en kom þá á lánssamningi frá Fram. Hann kom svo aftur í KF í apríl 2019, skömmu fyrir Íslandsmótið og gerði nú félagskipti úr ÍA. Alexander náði að leika 22 leiki í sumar fyrir KF í deild og bikar og skoraði 28 mörk í deildinni og var markahæsti leikmaður 3. deildar. Hann hefur alls leikið 43 leiki með KF og skorað 46 mörk. Frábær árangur það hjá honum sem verður erfitt að toppa. Alexander var einn af lykilmönnum KF í sumar.

VIÐTALIÐ

1. Hvað varð til þess að þú samdir aftur við KF í vor?   Ég þekki marga stráka í liðinu og hef haldið sambandi við þá alveg síðan að ég spilaði síðast fyrir KF í 2.deild. Ég var úti í Danmörku með Helgu kærustunni minni í vetur og við ákváðum eiginlega bara í sameiningu að vera á Siglufirði þetta sumar en hún er einmitt þaðan. Ég á ættir að rekja til Ólafsfjarðar þannig að þetta var auðveld ákvörðun.
 
2. Varstu með eitthvað persónulegt markmið varðandi fjölda marka sem þú vildir ná í sumar og áttir þú von á því að ná svona mörgum mörkum fyrir KF ?  Ég kom seint í undirbúninginn og mætti eiginlega bara beint í bikarleik við Magna þannig að eina sem ég hugsaði um var að koma mér í stand fyrir tímabilið. Ég setti mér ekki fyrir nákvæma tölu en fannst ég auðveldlega geta skorað meira en þegar ég var hér síðast þar sem ég tel mig hafa þroskast og bætt minn leik síðan þá. Ég bjóst kannski ekki við 28 mörkum en við pressuðum hátt og unnum boltann oft ofarlega á vellinum sem útskýrir af hverju við skoruðum svona mikið þetta sumar.
 
3. Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?  Það var virkilega sterkt að klára Kórdrengi á útivelli en þeir eru með frábært lið. Það voru svo nokkur eftirminnileg atriði í seinni leiknum gegn Vænjum Júpíters þegar að Dóri (markmaður) fær rautt á furðulegan hátt og Andri Snær þurfti að skella sér í markið.
 
4. Hvaða atvinnu eða nám stundar þú með knattspyrnuferlinum ? Ég er í kennslufræði í HÍ og í sumar var ég flokkstjóri, vallarstarfsmaður, þjálfari og tók vaktir hjá Sundlauginni í Fjallabyggð.
 
5. Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í 2. deild karla, en KF spilaði þar síðast 2016 ?  Ég vona svo innilega að allir ungu strákarnir verði áfram því að þeir stóðu sig frábærlega í sumar og eru kjarninn í þessu liði. Ef liðið á að ná góðum árangri á næsta tímabili þarf að bæta í og sækja nokkra reynda og öfluga leikmenn til viðbótar.
 
6. Gervigras er komið á teikniborðið hjá Fjallabyggð, hverju mun það skipta fyrir félag eins og KF sem hefur haft takmarkaða æfingaaðstöðu yfir veturinn?  Ég held að það væri frábært að fá gervigras þótt ég sé ekki sammála því að setja það á aðalvöllinn. Það er nauðsynlegt fyrir iðkendur að þurfa ekki að fara til Akureyrar til þess að æfa á veturna.
 
7. Þú hefur leikið fyrir mörg félög, er mikill munur á að leika fyrir landsbyggðarlið en lið í Reykjavík ? (Aðstaða, þjálfun, umgjörð, stuðningsmenn). Munurinn liggur aðallega á milli deilda, því betri deild því betri aðstaða og umgjörð, hefur kannski ekkert að gera með Reykjavík eða landsbyggðina.
 
8. Liðið var nokkuð heppið með rauð spjöld á Íslandsmótinu, en liðið fékk aðeins tvö rauð spjöld. Voru þið að spila af meiri skynsemi í nágvígum eða spilaði einhver heppni með liðinu í sumar? Þegar að það gengur vel þá vill er minni pirringur og allir vilja spila næsta leik þannig að það gæti hafa haft smá áhrif. Það hjálpaði líka að Hákon Leó var prúður í sumar en hann hefur átt það til að taka eina af gamla skólanum hér og þar. 
Ljósmynd: Guðný Ágústsdóttir
Ljósmynd: Guðný Ágústsdóttir

Kvennalið BF vann KA-B

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti KA-B í Benecta-deildinni í Íþróttahúsinu á Siglufirði í dag. BF lenti í vandræðum í síðasta leik og tapaði 1-3, en voru mun ákveðnari í þessum leik frá upphafi.

BF náði strax góðri forystu í fyrstu hrinunni og komst í 6-2 en KA stelpur komu til baka og jöfnuðu 7-7 með góðum uppgjöfum. BF hrökk aftur í gang og komst í 14-9 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF komst í 19-11 og KA stelpurnar gerðu nokkrar skiptingar en það hafði ekki mikil áhrif. BF kláraði hrinuna örugglega 25-14 og skoruðu 6 stig á móti 1 í lokin.

BF byrjaði svo aðra hrinu með látum og komust í 4-0 með góðu spili. KA stelpurnar komust hægt og rólega inn í leikinn og jöfnuðu leikinn 8-8. BF komst í 12-10 og tóku svo leikhlé. Stelpurnar komu mjög ákveðnar á völllinn eftir pásuna og skoruðu 7 stig í röð og tóku nú gestirnir leikhlé. BF stelpurnar gáfu ekkert eftir og hleyptu KA stelpunum ekkert inn í leikinn og unnu örugglega 25-12 og voru komnar í 2-0.

Þriðja hrinan var aðeins kaflaskipt en BF byrjuðu vel og komust í 6-1 og tók þjálfari KA leikhlé til að koma skilaboðum til liðsins. Spilið hjá BF gekk áfram vel og komust þær í 12-5 og 20-6 og töldu nú margir formsatriði að klára leikinn. BF gerði hérna tvöfalda skiptingu og leyfðu fleiri stelpum að taka þátt. Í stöðunni 21-7 kom mjög góður kafli hjá KA þar sem þær gerðu 5 stig í röð og minnkuðu muninn í 21-12. BF gerði aftur tvær skiptingar og komust í 23-13 og 24-14, en mjög erfiðlega gekk að fá lokastigið í hús. KA stelpur skoruðu nú sex stig í röð og minnkuðu munin í 24-18. BF stelpur kláruðu svo hrinuna 25-18 og leikinn 3-0.

Frábær sigur í kvöld hjá stelpunum, en mótstaðan var ekki mikil. Spilið var að ganga vel og færri mistök áttu sér stað en í fyrsta leik mótsins.

79 nemendur Grunnskóla Fjallabyggðar hlupu í Ólympíuhlaupinu

Nemendur 6.-10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar hlupu í vikunni í Ólympíuhlaupi ÍSÍ. Alls voru það 79 nemendur sem tóku þátt og hlupu þeir samtals 655 km. Veðrið lék við hlauparana, hlýtt var í veðri, logn og smá rigning, eða fullkomið hlaupaveður.  Á næstu dögum munu svo krakkarnir innheimta áheitin sem þeir söfnuðu með hlaupinu.

Mynd: Grunnskóli Fjallabyggðar.

47 þúsund gestir í sundlaugunum í Skagafirði í sumar

Sundlaugarnar í Skagafirði voru vel sóttar í sumar og var aukning frá því sumarið 2018. Gestir sundlauganna í sumar voru ríflega 47 þúsund og er það um 6% aukning frá síðasta ári. Fjöldi gesta sem sóttu sundlaugina í Varmahlíð tvöfaldaðist milli ára en mesta aukning þar er meðal barna sem rekja má til hinnar nýju og glæsilegu rennibrautar.

Frá þessu var fyrst greint á vef Skagafjarðar.is

Ónæði af nýja körfuboltavellinum á Siglufirði

Í sumar var lagður glæsilegur körfuboltavöllur á grunnskólalóðina á Siglufirði. Nærliggjandi íbúar hafa nú orðið varir við meira ónæði frá lóðinni en áður, en eitt fjölbýlishús stendur mjög nærri körfuboltavellinum. Ónefndur íbúi í nærliggjandi húsum hefur kvartað undan ónæði frá körfuboltavellinum seint á kvöldin.  Ekki var mikið um úti körfuboltavelli á Siglufirði þar til í sumar og er því íþróttin eflaust vinsæl hjá unglingum um þessar mundir. Bæjarráð Fjallabyggðar tók málið fyrir á fundi í vikunni.

Íbúi í nærliggjandi húsi segir að körfuboltarnir fari í gluggana hjá sér og að körfubolti sé stundum spilaður þarna vel yfir miðnætti til tilheyrandi hávaða.

Þrátt fyrir að mjúkt undirlag sé á vellinum þá skapast alltaf ákveðinn hávaði út frá körfuboltaíþróttinni.

 

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon – Körfuboltavöllur í vinnslu í sumar.

Hugmyndir um almennings- eða trjágarð í miðbæ Ólafsfjarðar

Garðyrkjufélag Íslands hefur haft samband við Fjallabyggð vegna hugmyndar um almennings- eða trjágarð í miðbæ Ólafsfjarðar. Hugmyndin væri að garðurinn yrði á milli Tjarnarstígs, Aðalgötu og lóðar Grunnskóla Fjallabyggðar og yrði samtengdur grænu svæði austan Ægisgötu þar sem nú er Aldingarður æskunnar.

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Nemandi í MTR vill slá Íslandsmet í ljósmyndun fugla

Mikael Sigurðsson er nemandi á fyrsta ári Menntaskólans á Tröllaskaga og hefur hann mikinn áhuga á fuglaskoðun og fuglaljósmyndun. Mikael er á tónlistarbraut MTR en hefur einnig áhuga á náttúrufræðibraut. Frá þessu var fyrst greint á vef MTR.is.

Hann stefnir að því að slá Íslandsmet með því að verða yngstur til að sjá og mynda 200 fuglategundir. Hann er aðeins fimmtán ára og er kominn í 171 tegund fugla. Fuglarnir verða að vera lifandi þegar mynd næst af þeim. Síðan þarf að senda myndina til Flækingsfuglanefndar og hún þarf að staðfesta tilvikið. Mikael náði nýlega að mynda ormskríkju, lítinn amerískan spörfugl, við Reykjanesvita. Fleiri náðu mynd af fuglinum, er þessi tegund hefur aðeins einu sinn áður sést hér á landi.

Mikael spilar á bassa og gítar og er í hljómsveitinni Ronja og ræningjarnir sem hefur komið fram opinberlega í Fjallabyggð við góðar undirtektir.

Hægt er að sjá myndir eftir Mikael á myndasíðu hans á Facebook.

Ráðin sérfræðingur varðveislu og miðlunar hjá Síldarminjasafninu

Síldarminjasafnið á Siglufirði hefur ráðið Ingu Waage í starf sérfræðings varðveislu og miðlunar úr hópi átta umsækjenda.  Inga Þórunn er með BA gráðu í ensku frá Háskóla Íslands, MA gráðu í bókmenntum, menningu og miðlun frá Humboldt-Universität í Berlín og hefur lagt stund á doktorsnám í enskum bókmenntum frá árinu 2016 og er jafnframt með diplómu í ljósmyndun frá ICPP í Melbourne í Ástralíu. Hún er fædd árið 1984 og hefur verið búsett í Þýskalandi en er fædd í Reykjavík. Frá þessu er greint á vef Síldarminjasafnsins.

Inga Þórunn hefur störf um miðjan október á safninu.

 

Viðburðir Ljóðahátíðar í vikunni

Ljóðahátíðin Haustglæður heldur áfram af fullum krafti í þessari viku. Viðburðir verða á Skálarhlíð, Gránu, Ljóðasetrinu og í Grunnskóla Fjallabyggðar.

Dagskrá:

Fimmtudagur 26. sept. kl. 14.30 Skálarhlíð –
Þórarinn Hannesson flytur eigin lög við ljóð Siglfirðinga.

Laugardagur 28. sept. kl. 20.00 GránaMeð fjöll á herðum sér. Frumsýning ljóðaleiks með ljóðum Stefáns Harðar Grímssonar í tónum og tali. Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir flytja.
– Hóf fyrir frumsýningargesti á Ljóðasetri að lokinni frumsýningu.

Sunnudagur 29. sept. kl. 16.00 Ljóðasetur Íslands –
Lesið og sungið úr nýju ljóðasafni Stefáns frá Hvítadal.
– Elfar Logi og Þórarinn Hannessynir sjá um dagskrána.

Mánudagur 30. sept. Gísli Súrsson – Leiksýning frá Kómedíuleikhúsinu í Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði.

Frítt er inn á alla viðburði hátíðarinnar í boði Uppbyggingarsjóðs Norðurlands eystra og Fjallabyggðar.

Það eru Umf Glói og Ljóðasetur Íslands sem standa að hátíðinni.

Dalvík tapaði fyrir Víði í lokaumferðinni

Dalvík/Reynir heimsótti Víði í Garði í lokaumferðinni í 2. deild karla sem leikin var í gær. Erfiðlega hefur gengið að sækja stig í síðustu leikjum og voru leikmenn staðráðnir í að enda tímabilið á jákvæðum nótum.

Víðir byrjaði leikinn vel og skoraði Helgi Þór Jónsson strax á 7. mínútu leiksins. D/R tókst ekki að skora í fyrri hálfleik og var staðan því 1-0 fyrir heimamenn í hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks fékk Víðir dæmda vítaspyrnu og úr henni skoraði Helgi Þór Jónsson, hans annað mark leiknum og staðan 2-0 eftir 50. mínútur.

Á 60. mínútu gerði þjálfari D/R þrefalda skiptingu og sendi hann Viktor Daða, Rúnar Helga og Kristinn Þór inná fyrir þá Steinar Loga, Pálma Heiðmann og Kelvin sem var á gulu spjaldi. Aðeins nokkrum mínútum eftir þessar skiptingar fengu D/R dæma vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Laguna, hans 9. mark í 19 leikjum í deild og bikar í sumar. Staðan orðin 2-1 þegar tæpur hálftími var eftir.

Dalvík gerði fleiri skiptingar og setti Núma Kára inná fyrir Alexander Inga á 69. mínútu og Gunnlaug Bjarnar inná fyrir Jón Björgvin á 80. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og þurfti D/R að sætta sig við tap í lokaleik umferðarinnar. Liðið endaði í 8. sæti í deildinni, en hefði með sigri í þessum leik endaði í 5. sæti.

Borja Laguna var markahæsti leikmaður D/R í sumar með 6 mörk, Jóhann Örn með 5 og Sveinn Margeir með 4. Dalvík fékk aðeins 2 stig úr síðustu 5 leikjum liðsins í deildinni.

Alexander Már kosinn bestur á lokahófi KF

Lokahóf KF fór fram í gær á Kaffi Rauðku á Siglufirði. Veittar voru viðurkenningar fyrir markahæsta leikmanninn, besta leikmanninn, Nikulásarbikarinn og ungur og efnilegur. Þríréttaður matur var í boði og Dj Náttfríður spilaði tónlistina eftir matinn.

Besti leikmaður KF var kjörinn Alexander Már Þorláksson. Alexander lék 22 leiki í deild og bikar og skoraði 28 mörk í deildinni.

Markahæsti maður KF var Alexander Már, hann skoraði 28 mörk í 21 deildarleik í sumar og var lykilmaður.

Nikulásarbikarinn fékk Andri Snær Sævarsson, sem er lánsmaður frá KA. Hann lék 17 leiki og skoraði 3 mörk.

Ungur og efnilegur var kjörinn Þorsteinn Már Þorvaldsson. Hann er 18 ára, lék 19 leiki í deildinni og skoraði 1 mark.

KF leikur í 2. deild á næsta ári og verður spennandi að sjá leikmannahópinn fyrir komandi tímabil.

Myndir með frétt koma frá KF – Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Forsíðufrétt – Guðný Ágústsdóttir.

 

Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Besti leikmaður KF 2019.

 

Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Ungur og efnilegur.
Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Markahæstur.
Mynd frá Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.
Nikulásarbikarinn 2019

Kvennalið BF mætti Álftanesi á Siglufirði

Blakvertíðin í Fjallabyggð hófst með tveimur leikjum í Benecta-deildum Íslandsmótsins í blaki í dag. Kvennalið BF hóf leik gegn Álftanesi-2 og strax á eftir hófst leikur BF og Hamars í karlaflokki. Um 50 áhorfendur voru mættir til að styðja við keppendur í þessum leik. Eins og karlaliðið þá hefur liðið fengið nýjan þjálfara frá Spáni.

Lið Álftaness þurfti eftirminnilega að gefa síðasta leikinn gegn BF síðasta vetur þar sem einn leikmaður meiddist á fæti og önnur fékk mígreniskast. Hvorugur leikmannana treysti sér til að halda áfram og liðið hafði engan til taks á varamannabekknum. Liðið var nú aftur komið á Siglufjörð og ætlaði ekki tómhent heim. Liðið var þó áfram með engan varamann í þessum leik.

BF stelpurnar byrjuðu leikinn af krafti og komust í 6-0 og á þeim kafla tóku gestirnir eitt leikhlé til að ná áttum. BF stelpurnar voru áfram mun sterkari í hrinunni og komust í 10-3 og 13-5. Gestirnir skoruðu þá þrjú stig í röð og minnkuðu muninn í 13-8, en BF komst svo í 16-8 og aftur tóku gestirnir leikhlé.  Spilið hjá BF gekk vel í þessari hrinu og náði Álftanes aldrei að komast í takt við leikinn. BF komst í 20-12 og 24-14 og unnu hrinuna örugglega 25-16.

Gestirnir komu mun sterkari til leiks í næstu hrinu sem byrjaði þó ágætlega fyrir BF sem komust í 3-1. Eftir það tóku gestirnir völdin og skoruðu 7 stig í röð og komust í 3-8 og tóku nú BF stelpur leikhlé. Álftanes voru áfram með 3-5 stiga forskot í hrinunni og gekk spil BF ekki vel og komu stig hjá þeim frekar handahófskend. Gestirnir leiddu 6-10, 8-13 og 10-13, en þá kom góður kafli hjá þeim og gerðu þær 5 stig í röð og komust í 10-18, og aftur tók BF leikhlé. Gestirnir unnu hrinuna með nokkrum yfirburðum 19-25 og jöfnuðu leikinn í 1-1.

Þriðja hrina var lík þeirri annarri, gestirnir voru með forystu og spilið hjá þeim gekk betur en hjá BF stelpum í þessum leik. BF náði aldrei að ógna forskoti gestanna og unnu þær þessa hrinu 18-25 og voru komnar í vænlega stöðu, 1-2.

Fjórða hrinan var einnig eign Álftaness, spilið hjá þeim virkaði einfalt og voru þær ákveðnari og beittari í sínum sóknum.  Álfanes vann hrinuna örugglega 16-25 og leikinn 1-3.

Lið BF þarf greinlega aðeins meiri tíma að slípa sig saman og koma eflaust ákveðnari í næsta leik.

 

Hamar vann BF 3-0 á Siglufirði

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék í dag gegn Hamar í íþróttahúsinu á Siglufirði.  Búist var við jöfnum leik en í síðustu fjórum viðureignum liðanna hefur BF unnið tvisvar og Hamar tvisvar.

BF hefur fengið nýjan þjálfara fyrir þetta tímabil, Gonzalo Garcia Rodriguez, sem kom frá Spáni og hefur talsverða reynslu af þjálfun. Hann er fæddur árið 1977 og getur spilað með liðinu ef á þarf að halda, en mun líklega halda sig á hliðarlínunni í vetur.  BF liðið er svipað og í fyrra, byggt á eldri og yngri leikmönnum, en fleiri yngri liðsmenn hafa nú bæst í hópinn. Liðið hóf æfingar í byrjun september og hefur nýi þjálfarinn byrjað með mikinn hraða á æfingum til að koma liðinu í sem best form.

Lið Hamars er talsvert eldra en BF, byggt á leikmönnum á milli fertugs og fimmtugs og aðeins tveir ungir leikmenn í liðinu sem eru 20 og 22 ára. Lið Hamars hefur Jón Ólafs Valdimarsson í uppspilinu en hann er mjög reyndur leikmaður sem hefur leikið í efstu deild blaksins á Íslandi í mörg ár og einnig dæmt fjölmarga leiki á Íslandi.

Hamar byrjaði fyrstu hrinuna aðeins betur og komust í 2-4 en BF jafnaði 5-5. Aftur var jafnt 8-8, 10-10 og 15-15 en þá kom góður kafli hjá Hamar og skoruðu þeir 7 stig á móti 1 og tóku heimamenn leikhlé í þessum kafla. Í stöðunni 16-22 tók BF aftur leikhlé. Hamar skreið framúr og komst í 17-24 en BF gerði þá þrjú stig í röð og minnkaði muninn í 20-24. Hamar átti síðasta stígið og unnu hrinuna 20-25.

Önnur hrina byrjaði svipað og sú fyrri, liðin voru jöfn í upphafi en Hamar var að ná 2ja-3ja stiga forskoti og leiddu alla hrinuna. Í stöðunni 15-17 tók BF leikhlé en þeir höfðu átt ágætis kafla á undan. Hamar kom hinsvegar sterkari út eftir hléið og komust í 15-19 og 16-22.  Hamar vann hrinuna nokkuð örugglega 18-25 en BF náði ekki vinna upp forskotið sem gestirnir höfðu alla hrinuna.

Í þriðju hrinu komu heimamenn aðeins ákveðnari til leiks og komust í 4-2 og 6-4 áður en Hamar jafnaði í 8-8. Aftur var jafnt 10-10 en nú kom góður kafli hjá Hamar sem skoruðu 5 stig í röð og breyttu stöðunni í 10-15 og tóku nú heimamenn leikhlé. Hamar var áfram sterkari eftir hlé og komust í 12-18 og 14-22 með góðu spili og þéttum leik. BF náði ekki að komast inn í leikinn aftur og vann Hamar þriðju hrinuna 17-25.

Ólafur Björnsson hjá BF átti ágæta spretti í leiknum, ógnaði kantinum og var öflugur í hávörn. Liðið er greinilega enn að spila sig saman og stutt síðan æfingar hófust og leikformið ekki alveg það besta.

Jón Óli hjá Hamar skilað vel sínu í þessum leik með góðu uppspili og lágvörn. Sanngjarn 0-3 sigur hjá Hamar í þessum leik.

Kvennalið BF lék einnig í dag gegn Álftanesi, og verður nánar greint frá þeim leik síðar.

Fjölbreyttar göngur á útivistardegi Grunnskóla Fjallabyggðar

Í byrjun vikunnar var haldinn útivistardagur hjá 6.-10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Nemendur og kennarar gengu mismunandi leiðir í góða veðrinu og voru allir glaðir og sáttir í lok dags.

6.bekkur gekk inn Burstabrekkudal, 7.bekkur gekk út í Fossdal og 8.-10.bekkur fór með rútu inn fyrir Múlagöngin og gengu gamla Múlaveginn til baka. Í lok dags gafst nemendum svo kostur á því að fara í sund og slaka á.

Frá þessu var greint á vef Grunnskóla Fjallabyggðar og koma myndir einnig þaðan.

Myndir: Grunnskóli Fjallabyggðar.

2

4

Myndir: Grunnskóli Fjallabyggðar.

Ólympíuhlaup ÍSÍ í Fjallabyggð

Miðvikudaginn 25. september munu nemendur 6.-10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar hlaupa Ólympíuhlaup ÍSÍ.  Hlaupið hét áður Norræna skólahlaupið.

Að þessu sinni hafa nemendur ákveðið að láta gott af sér leiða og safna áheitum fyrir Sigurbogann, styrktarfélag Sigurbjörns Boga Halldórssonar, 7 ára fjölfatlaðs drengs á Siglufirði.

Nemendur hlaupa 2,5 km hring og geta þau að hámarki hlaupið 4 hringi eða 10 km.  Upphæðin á hvern hring er 250 krónur eða að hámarki 1000 krónur á hvern styrktaraðila.

Vonast er eftir góðum undirtektum íbúa.

Mynd: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon

Garnaveiki staðfest á Tröllaskaga

Garnaveiki hefur verið staðfest á sauðfjárbúi í Tröllaskagahólfi, nánar tiltekið á bænum Brúnastöðum í Fljótum. Garnaveiki hefur ekki greinst í hólfinu frá árinu 2008. Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum, en með bólusetningu er hægt að verja sauðfé fyrir sjúkdómnum og halda smitálagi í lágmarki. Á bæjum sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu.

Tilfellið uppgötvaðist við smölun um síðustu helgi og eftir að héraðsdýralæknir hafði skoðað kindina var henni lógað, sýni tekið úr henni og sent til greiningar á Keldum. Sýnið reyndist jákvætt m.t.t. garnaveiki.

Orsök sjúkdómsins er lífseig baktería af berklaflokki. Helstu einkenni hennar eru hægfara vanþrif með skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þó nokkuð um „heilbrigða smitbera“. Meðgöngutími í sauðfé er 1-2 ár eða lengri. Garnaveikibakterían veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni.

Matvælastofnun greindi fyrst frá þessu á vef sínum.

Mynd: Héðinsfjörður.is /Magnús Rúnar Magnússon
Mynd: Héðinsfjörður.is /Magnús Rúnar Magnússon

KF sigraði í lokaumferðinni – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Einherji á Vopnafirði mættu í lokaumferðinni í 3. deild karla í dag. Leikurinn hófst kl. 16:30 á Vopnafjarðarvelli en KF fékk leiktímanum breytt vegna lokahófs sem verður haldið á morgun í Fjallabyggð, en lokaumferðinni lýkur á morgun. KF hafði þegar tryggt sér 2. sæti deildarinnar og gat ekki náð Kórdrengjum að stigum og var því leikið upp á heiðurinn í þessum leik. Lið Einherja  var sloppið við fall en hefði mögulega geta komist í 5. sæti deildarinnar með sigri og hagstæðum úrslitum í lokaumferðinni. KF tefldi fram ungu byrjunarliði í þessum leik og var Alexander Már geymdur á bekknum í fyrri hálfleik. Það vakti hins vegar athygli að Einherji telfdi fram einum 15 ára leikmanni í byrjunarliðinu, Eiður Orri Ragnarsson, en hann lék sinn 7 leik fyrir liðið í sumar. Meðalaldur byrjunarliðs KF í þessum leik var aðeins 21,4 ár.

Liðin mættust í júlí á Ólafsfjarðarvelli og endaði sá leikur með 1-1 jafntefli. Liðin mættust einnig í deildinni í fyrra og vann Einherji heimaleikinn og KF sinn heimaleik. Þjálfari KF gerði sex breytingar frá síðasta sigurleik og gaf yngri leikmönnum tækifæri í þessum leik.  Sindri Leó markmaður hélt stöðunni í þessum leik en Halldór var í leikbanni í síðasta leik. Hákón Leó, Óliver, Jordan, Sævar Gylfa, Sævar Þór og Þorsteinn Már voru allir komnir í byrjunarliðið og Jordan var kominn úr leikbanni.

Lið Einherja hefur verið mest byggt upp á erlendum leikmönnum síðustu árin en 5 erlendir leikmenn voru í byrjunarliðinu í þessum leik og tveir á varamannabekknum. Björn Andri Ingólfsson lék með Einherja í þessum leik en hann lék með KF í fyrra og skoraði 6 mörk í 20 leikjum.

Það var KF sem komst yfir í leiknum með marki skömmu fyrir leikhlé en markið gerði Sævar Gylfason á 42. mínútu, hans þriðja mark í sumar í 14 leikjum í deild og bikar. Staðan var því 0-1 í hálfleik. Heimamenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik, en þeir gerðu eina skiptingu í hálfleik þegar Björgvin Garðasson 17 ára varamarkmaður liðsins var settur inná fyrir Javon Sample. Einherji fékk svo vítaspyrnu á 50. mínútu og úr henni skoraði Sigurður Donys og jafnaði hann leikinn í 1-1.

Stefán Bjarki kom inná fyrir Hákon Leó sem var á gulu spjaldi á 71. mínútu og Valur Reykjalín og Alexander Már komu inná á 75. mínútu og átti það eftir að skila sér fljótlega.

Alexander Már var ekki lengi að koma KF yfir og skoraði hann á 77. mínútu og kom KF í 1-2. Einherji notaði allar sínar skiptingar í leiknum og var því rúmum 8 mínútu bætt við venjulegan leiktíma vegna skiptinga og meiðsla. KF hélt út og vann 1-2 á þessum erfiða útivelli og endar liðið 51 stig í 2. sæti deildarinnar.

Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa lesið umfjöllun um KF í sumar og sérstakalega styrktaraðilum að þessum umfjöllunum. Takk fyrir að deila og takk fyrir að lesa fréttirnar hér á síðunni.

Mynd frá Guðný Ãgústsdóttir.

Heilbrigðisstofnun Norðurlands rekin með 126 milljón króna afgangi árið 2018

Ársfundur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) var haldinn í Hofi föstudaginn 20. september, 2019. Helstu niðurstöður rekstrarársins 2018 eru þær að stofnunin var rekin með 126 milljóna afgangi á árinu. Rekja má afganginn til sérstakrar aukafjárveitingar sem heilbrigðisstofnanir fengu á árinu 2018. Rekstur stofnunarinnar er fyrstu 8 mánuði ársins 2019 samkvæmt áætlun en stefnt er á að stofnunin verði rekinn með 30 milljóna halla á árinu 2019.

 

 • Úrbætur á húsnæði heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri í vinnslu
 • Þjónusta styrkt á fjölmörgum stöðum starfseminnar, m.a.:
  • Hjúkrunarmóttökur efldar til að bæta þjónustu og létta á biðtíma eftir lækni
  • Lífsstíls- og sykursýkismóttökur settar á laggirnar
  • Aukin mönnun í heimahjúkrun
  • Aukin mönnun í sálfélagslegri þjónustu
 • Nýtt geðheilsuteymi stofnað
 • Boðið verður upp á heilsueflandi heimsóknir til allra 80 ára og eldri

 

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN:

“Það er vissulega ánægjulegt að sjá þennan árangur í rekstrinum, þrátt fyrir miklar áskoranir. Ég vil  þakka og hrósa starfsfólki HSN fyrir þeirra framlag sem hefur haft allt að segja. Fjölmörg brýn og fjárfrek verkefni eru fram undan hjá okkur. Eitt meginverkefna okkar þar eins og víðar í heilbrigðiskerfinu er að tryggja nægilega mönnun sem nauðsynlegt er til að veita fullnægjandi þjónustu. Þrátt fyrir að stofnunin sé vel mönnuð að flestu leyti hafa verið erfiðleikar við mönnun hjúkrunarfræðinga á einstaka stöðum. Þá vantar víða heimilislækna til starfa, en enginn fastur læknir er á Blönduósi og mönnun heimilislækna á Akureyri hefur verið ófullnægjandi sem valdið hefur of löngum biðtíma eftir lækni. Við höfum brugðist við þessu með því að styrkja hjúkrunarmóttöku hjá okkur, setja upp sérstakt verkjateymi og að ráða sjúkraþjálfara til starfa á stöðinni á Akureyri.”

 

Niðurstöður ársfundarins voru að auki:

 • Tekin hefur verið ákvörðun um að byggja nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík sem verður til mikilla bóta fyrir aðstöðu þar.
 • Unnið er að því að tryggja nýtt húsnæði undir heilsugæsluna á Akureyri. Stefnt er að því að leigja sérhæft húsnæði undir tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri og flytja úr húsnæði heilsugæslunnar í Hafnarstræti.
 • Stofnuninn hefur styrkt þjónustu sína á fjölmörgum sviðum, svo sem í hjúkrunarmóttöku,  með uppsetningu lífsstíls- og sykursýkismóttökum, með aukinni mönnun í heimahjúkrun, og í sálfélagslegri þjónustu.
 • Ákveðið er að boðið verði upp á heilsueflandi heimsóknir til einstaklinga sem náð hafa 80 ára aldri á öllu starfssvæðinu á árinu. Starfsemistölur sýna flestar aukna þjónustu stofnunarinnar við fólk á starfssvæðinu.
 • Nýtt geðheilsuteymi sem starfa mun þvert á umdæmi einstakra heilsugæslustöðva hefur verið stofnað. Geðheilsuteymið er skilgreint sem 2. línu þjónusta innan geðheilbrigðiskerfisins þar sem hægt verður að veita lengri og sérhæfðari þjónustu en tök eru á í sjálfri heilsugæslunni. Þá er geðheilsuteymi HSN einnig ætlað hlutverk sem n.k. brú á milli HSN, geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri og félagsþjónustu sveitarfélaganna á starfssvæði HSN. Auk þess má gera ráð fyrir að samstarf verði við starfsendurhæfingarúrræði á svæðinu.

 

#

Frekari upplýsingar:

Jón Helgi Björnsson, forstjóri HSN

Netfang: jon.helgi.bjornsson@hsn.is

 

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Skagafjörður veitti umhverfisviðurkenningar

Sveitafélagið Skagafjörður afhenti umhverfisviðurkenningar í fimmtánda sinn í síðustu viku við hátíðlega athöfn í Húsi frítímans, en það er Soroptimistaklúbbur Skagafjarðar sem hefur umsjón með útnefningu þessara viðurkenninga fyrir Sveitarfélagið.  Viðurkenningarflokkarnir eru sjö talsins, en ekki er alltaf veitt verðlaun í öllum flokkum á sama ári. Í ár voru veittar sjö viðurkenningar í sex flokkum, en þá hafa verið veittar 94 viðurkenningar á 15 árum.

Flokkarnir eru:

 • Sveitabýli með búskap
 • Sveitabýli án búskapar
 • Lóð í þéttbýli
 • Lóð við fyrirtæki
 • Lóð við opinbera stofnun
 • Snyrtilegasta gatan
 • Einstakt framtak

Viðurkenningar hlutu:

Býli með búskap sem hlaut viðurkenninguna í ár er Hátún 1. Þar eru eigendur Gunnlaugur Hrafn Jónsson og Helga Sjöfn Helgadóttir.

Býli án búskapar sem hlaut viðurkenninguna í ár er Syðra-Skörðugil. Þar eru eigendur Ásdís Sigurjónsdóttir og Einar E. Gíslason, sem lést fyrir skömmu.

Í ár voru veitt tvenn verðlaun í flokknum lóð í þéttbýli:

Drekahlíð 8, Sauðárkróki. Drekahlíð 8 er í eigu Ástu Ragnarsdóttur og Magnúsar Sverrissonar.

Brekkutún 4, Sauðárkróki. Brekkutún 4 er í eigu Margrétar Grétarsdóttur og Páls Sighvatssonar.

Lóð við opinbera stofnun sem hlaut verðlaun í ár er Hóladómkirkja. Það voru Laufey Guðmundsdóttir, formaður sóknarnefndar og organistinn Jóhann Bjarnason sem tóku við viðurkenningunni fyrir Hóladómkirkju.

Lóð við fyrirtæki sem hlaut verðlaun er Bændagistingin á Hofsstöðum. Eigendur þar sem og gestgjafar eru Elínborg Bessadóttir og Vésteinn Vésteinsson.

Að lokum var veitt viðurkenning fyrir einstakt framtak. Það voru hjónin Herdís Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson sem hlutu verðlaun í flokknum einstakt framtak. Þau stóðu að því að reisa minnisvarða um Hrafna-Flóka í mynni Flókadals í Fljótum sem vígt var árið 2012.

 

Heimild og mynd: skagafjordur.is

Rússneskar kvikmyndir í Gránu á Siglufirði

Rússneska kvikmyndavikan á Íslandi fer nú fram í sjöunda sinn. Að henni standa Kvikmyndaframleiðslumiðstöðin NORFEST og sendiráð Rússlands á Íslandi með stuðningi Menningarmálaráðuneytis Rússlands og iCan ehf. Í ár er viðburðurinn tileinkaður 75 ára afmæli stjórnmálasambands Rússlands og Íslands.

Föstudagskvöldið 20. september nk. verða sýndar tvær kvikmyndir í Gránu, bræðsluhúsi Síldarminjasafnsins. Sýningin hefst kl. 20:00.

Fyrst verður sýnd ein fyrsta sovéska heimildamyndin um Ísland. Myndin heitir Íslandsferðin og er frá árinu 1955. Í tilefni hátíðarinnar var myndin textuð og fylgir henni því íslenskur texti.

Í framhaldinu verður sýnd kvikmyndin Hamingjan er… eða Happiness is… en myndin er afrakstur verkefnis á vegum Walt Disney. Efnt var til samkeppni meðal rússneskra kvikmyndagerðarmanna og hæfustu leikstjórarnir og handritshöfundarnir verðlaunaðir með tækifæri til að framleiða sína fystu kvikmynd. Myndin kom út á þessu ári, 2019, og fjallar um hamingjuna. Myndin er á rússnesku en með enskum texta. Hér má sjá sýnishorn: youtube.com/watch?v=WTXPXMJEUYI

Ókeypis aðgangur og allir velkomnir!

Texti og mynd: Aðsent / Síldarminjasafnið

Uppskeruhátíð meistaraflokks Knattspyrnufélags Fjallabyggðar

Uppskeruhátíð meistaraflokks Knattspyrnufélags Fjallabyggðar verður haldið á Kaffi Rauðku laugardagskvöldið 21. september.
Boðið verður uppá forrétt, aðalrétt og eftirrétt. Almenningur getur keypt sig inn á lokahófið og fagnað áfanganum með liðinu.
Verð er aðeins 5500 kr. á mann.
Miðapantanir í síma 660-4760. Panta þarf fyrir kl.20:00 fimmtudagskvöldið 19. september.

Fjallabyggð eignast 12 vatnslitamyndir Reynis Vilhjálms

Fjallabyggð hefur samþykkt að kaupa 12 vatnslitamyndir af snjóflóðavarnargörðum á Siglufirði frá landslagsarkitektinum og listamanninum Reyni Vilhjálms. Reynir dvaldi í Herhúsinu á Siglufirði í sumar og hélt sýningu á verkum sínum þar.  Fjallabyggð hefur samþykkt að kaupa 12 af þessum frábæru myndum Reynis til eignar á 450.000 krónur. Reynir hannaði landslagið í kringum snjóflóðavarnargarðana sem eru á Siglufirði.

Myndirnar sýna hönnun og lögun snjóflóðavarnargarðanna og samspil þeirra við náttúru og byggðina í Siglufirði og er falleg heimild um þessi miklu mannvirki.

Ritstjóri vefsins heimsótti Reyni í sumar í Herhúsið á sýningaropnuna hjá honum og eru myndirnar með fréttinni teknar í því tilefni.

Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.
Myndir: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon. Afritun og birting óheimil án leyfis.

 

Akureyringur númer 19 þúsund

Benedikt Árni Birkisson fæddist 20. júlí á Akureyri og er samkvæmt íbúaskráningu íbúi númer 19.000. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Foreldrar drengsins eru Kristjana Árný Árnadóttir og Birkir Rafn Júlíusson. Kristjana er fædd á Akureyri og hefur búið hér alla tíð en Birkir er frá Raufarhöfn. Þau segjast una hag sínum ákaflega vel á Akureyri og vilja hvergi annars staðar búa. Benedikt Árni er að sögn foreldranna ákaflega vær og stækkar hratt og örugglega. Hann var 17,5 merkur og 55 sm þegar hann fæddist.

Akureyrarbær færði fjölskyldunni góðar gjafir; Árskort í Listasafnið á Akureyri og kort í Sundlaug Akureyrar, Sögu Akureyrar í fimm bindum, fallegan blómvönd og silfurskjöld.

Mynd: Akureyri.is

Bæjar- og menningarvefur