Hækka launataxta vinnuskólans í Dalvíkurbyggð

Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að hækka laun í vinnuskóla Dalvíkurbyggðar fyrir sumarið 2019 til samanburðar við nágrannasveitarfélögin. Færri nemendur sóttu um í vinnuskólanum en reiknað hafði verið með og var því svigrúm til hækkanna.

Eftirfarandi er lagt til fyrir árið 2019 hvað varðar launataxta per klst:
8. bekkur 650 kr.
9. bekkur 750 kr.
10. bekkur 1.050 kr.

Myndlistarsýning Kompunni Alþýðuhúsinu

Í dag kl. 15.00 opnar Kristín Gunnlaugsdóttir sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.  Kristín sýnir 40 teikningar og eitt málverk og ber sýningin yfirskriftina Málverk og teiknngar 2018.

Verkin eru unnin árið 2018.  Málverkið, með olíu á striga og teikningarnar, með kolblýanti, vatnslit og glimmer.  Teikningarnar eru unnar með lifandi fyrirmynd.

“Að teikna mannslíkamann krefst stöðugrar þjálfunar eins og íþrótt. Hvert verk geymir innri reynslu og tilfinningu. Ég teikna konur því ég þekki tilfinninguna sem býr í líkamanum sem kona”.
Glimmer er eiginlega bannað í myndlist. Aðeins of stelpulegt. Eða bara of fallegt og auðvelt og þar með hættulegt. Þess vegna nota ég það og það er æðislegt” segir Kristín Gunnlaugsdóttir.

Sýningin er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 til 22. júní.

Kristín Gunnlaugsdóttir er fædd á Akureyri 1963. Hún hófs snemma myndlistarnám í Myndlistaskólanum á Akureyri eða 1975 með námskeiðum og lauk þaðan fornámi 1986.
Hún lauk útskrifaðist frá Myndlista- og Handíðaskólanum 1987.
1987 – 1988 dvaldi hún í klaustri í Róm og lærði þar íkonagerð og málun.
1988 – 1995 Accademia di belle Arti í Flórens og útskrifaðist með láði.
1995 – 1996 Scuola Oro e colore, Flórens

Í myndlist sinni vinnur Kristín aðallega málverk, veggteppi með útsaumi, teikningar, eggtemperur með blaðgulli og vatnslitamyndir.
Kristín hefur haldið fljölda einkasýninga og tekið þátt í listviðburðum heima sem erlendis.
Hún hefur einnig kennt myndlist við Myndlistaskólann í Reykjavík, Listaháskólann og Einar Granum Kunstskola Oslo.

Kristínu var veitt íslenska fálkaorðan fyrir framlag sitt til myndlistar 2018.

Uppbyggingasjóður/Eyþing, Fjallabyggð, Norðurorka og Aðalbakarí styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Dagur hafsins og Norðurstrandarleið opnar

Laugardaginn 8. júní verður Dagur hafsins eða World Oceans Day, haldinn hátíðlegur um allan heim og einnig í Fjallabyggð.  Tilgangur þessa dags er meðal annars að fagna og heiðra hafið og draga fram hversu mikilvægt er að passa hafið. Á þessum degi verður opnunarhátíð Norðurstrandaleiðar; Arctic Coast Way.

Í tilefni dagsins eru íbúar og vinir Fjallabyggðar hvattir til að ganga fjörur Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og týna rusl sem fallið hefur til.

Móttökustaðir í Fjallabyggð verða eftirfarandi:

Ólafsfjörður:
Kleifarhorn
Brennusvæðið vestan ós

Siglufjörður:
Við endann á flugvellinum
Við Eyrarflötina
Við endurvinnslustöð

Fjallabyggð leggur til poka sem aðgengilegir verða áhugasömum í íþróttamiðstöðvum Fjallabyggðar bæði í Ólafsfirði og á Siglufirði.

Opnunartími íþróttamiðstöðva laugardaginn 8. júní:

Ólafsfjörður opið frá kl. 10:00-18:00
Siglufjörður opið frá kl. 10:00-18:00

Heimild: fjallabyggd.is

Aðstoðarverkefnastjóri í sjúkraflutningum í Fjallabyggð

Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Fjallabyggð hefur auglýst stöðu aðstoðarverkefnastjóra í sjúkraflutningum lausa til umsóknar. Ráðningartími er frá 1. júlí og er starfið framtíðarstarf.  Starfshlutfall er 100% og er umsóknarfrestur til og með 24.06.2019.

Nánari upplýsingar veitir
Einar Áki Valsson – einar.aki.valsson@hsn.is – 460-2180

Helstu verkefni og ábyrgð
– Hefur yfirumsjón með sjúkraflutningum í Fjallabyggð
– Hefur umsjón með fasteignum á vegum HSN í Fjallabyggð
– Sinnir húsumsjón á dagvinnutíma
– Gengur vaktir á sjúkrabíl
– Önnur tilfallandi verkefni

Aðeins eitt tilboð barst í endurbætur á Ráðhúsi Fjallabyggðar

Fjallabyggð auglýsti á dögunum eftir tilboðum í endurbætur utanhúss á Ráðhúsi Fjallabyggðar og voru tilboð opnuð þann 3. júní sl. Aðeins eitt tilboð barst sem kom frá L7 ehf, og var það rúmum 10 milljónum yfir kostnaðaráætlun og var tilboðinu hafnað.  Kostnaðaráætlun var 15.367.000 kr. og tilboð L7 ehf var 25.999.250 kr.

Fjallabyggð mun skoða aðra möguleika vegna verksins.

 

Arctic Adventures verður einn af aðalstyrktaraðilum Fiskidagsins Mikla

Fiskidagurinn Mikli á Dalvík og ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures undirrituðu samning um að síðarnefndu verði einn af aðalstyrktaraðilum fjölskylduhátíðarinnar Fiskidagsins Mikla á Dalvík. Jafnframt var tilkynnt um verkefni í hreinsun á fjörum við utanverðan Eyjafjörð í tengslum við hátíðina. Arctic Adventures mun útvega báta og búnað til að fara upp í fjörur og hreinsa þar til. Áætlað er að fara í þessa hreinsun fimmtudaginn 8. ágúst. Ruslið og það sem finnst við strendurnar mun verða til sýnis á laugardeginum eða sjálfum Fiskideginum Mikla til að vekja fólk til umhugsunar og til að sýna hvað það er sem finnst í fjörutiltekt. Mikil vakning hefur orðið fyrir mikilvægi þess að hreinsa hafið og strandlengjur landsins. Við utanverðan Eyjafjörð eru margar fjörur illfærar og þar mun verkefnið að mestu fara fram. Fiskidagurinn Mikli og Arctic Adventures munu síðar auglýsa eftir fólki til að taka þátt.

Júlíus Júlíusson segist vera himinlifandi að fá Arctic Adventures inn í hóp aðalstyrktaraðila Fiskidagsins Mikla og hann segir það frábært fyrir Fiskidaginn Mikla að fá aðila sem hafa sterka umhverfisvitund þar sem að hátíðin hefur verið að setja umhverfismál í fyrsta sæti og bæta sig á hverju ári í þeim efnum. Hann segir einnig að það sé magnað að þetta áhugaverða verkefni verði hluti af dagskrá Fiskidagsins Mikla og að gestir og heimamenn geti lagt sitt af mörkum með þátttöku.

Önnur umhverfisverkefni sem Arctic Adventures stendur fyrir ásamt starfsmönnum sínum eru minnkun úrgangs, aukin endurvinnsla og fræðsla til ferðamanna um mikilvægi umhverfisverndar, bæði fyrir komuna til landsins og í ferðum með Arctic Adventures. Arctic Adventures hefur einnig fjárfest í aukinni rafvæðingu bílaflota félagsins og býður tækifæris til að fjölga rafbílum fyrirtækisins enn frekar.  “Við erum mjög stolt af að verða einn aðalstyrktaraðili fjölskylduhátíðarinnar Fiskidagsins mikla nú á 10 ára afmæli hvalaskoðunar Arctic Adventures á Dalvík. Það hefur verið mikil vitundarvakning í hreinsun hafsins og strandlengju Íslands og við viljum leggja okkar að mörkum og nýta bátakost okkar til að fara á þau svæði sem erfitt er að hreinsa” segir Freyr Antonsson hjá Arctic Adventures.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Freyr Antonsson og Júlíus Júlíusson um borð í hvalaskoðunarbátnum Draumi við undirritunina

Hárgreiðslustofa Sirrýjar opnar aftur

Hárgreiðslustofa Sirrýjar hefur opnað aftur á Siglufirði, en eins og greint var frá hér á vefnum í vor þá hætti Hárgreiðslustofan rekstri. Nýr starfsmaður mun vera til staðar í sumar sem kemur frá Hofsósi og er háriðnmeistari. Hægt verður að panta tíma á fésbókarsíðu stofunnar. Eigandi stofunnar mun svo byrja í september og verður tvo daga í viku.

 

Saga-Fotografica opið alla daga í sumar

Ljósmyndasögusafnið Saga-Fotografica á Siglufirði verður opið alla daga í sumar frá kl. 13:00-16:00. Safnið stendur við Vetrarbraut 17. Aðgangur að safninu er ókeypis og eru safnverðir alltaf til aðstoðar fyrir þá sem vilja fá frekari upplýsingar. Á safninu má finna fjölda áhugaverðra ljósmynda og ljósmyndamuna. Safnið opnaði þann 17. júní 2013 og fagnar því sex ára afmælinu í ár. Safnið verður opið á 17. júní næstkomandi frá kl. 13:00-17:00 og eru allir boðnir sérstaklega velkomnir að fagna afmælinu.

Safnverðir eru þeir Sveinn Þorsteinsson sími: 848-4143 og Steingrímur Kristinsson 892-1569. Utan opnunartíma er hægt að panta tíma fyrir hópa.

Meðal sýninga sem verður hægt að sjá í sumar eru myndir frá RAX, Ragnari Axelssyni og Leifi Þorsteinssyni.

 

Nánar um Leif:

Leifur Þorsteinsson fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1933. Hann lauk gagnfræðaprófi við Ingimarsskólann í Reykjavík, las landspróf utanskóla og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1955. Sama sumar giftist hann samstúdent sínum, Friðriku G. Geirsdóttur, síðar myndlistarkonu og grafískum hönnuði. Þau fluttu saman til náms í Kaupmannahöfn um haustið. Hún lagði stund á myndlist og grafíska hönnun við Kunsthåndværkerskolen en hann stundaði nám við Kaupmannahafnarháskóla í eðlis- og efnafræði. Hann lauk hluta fyrrihlutaprófs 1958 áður en hann söðlaði um og hóf nám í ljósmyndun við Photografisk forenings fagskole í Kaupmannahöfn. Meistari hans var Jan Selzer sem rak litvinnslustöð sem var talsverð fyrirhöfn á þessum tíma og þar kom efnafræðikunnátta Leifs að góðum notum. Fyrir vikið bauðst honum að stýra litframköllunarstofunni og fékk full mánaðarlaun í stað nemalauna. Sveinsprófi lauk Leifur vorið 1962.

Leifur og Friðrika fluttu heim í árslok 1962. Leifi tókst ekki að finna starf við blaðaljósmyndun svo í ársbyrjun 1963 stofnaði hann, ásamt Oddi Ólafssyni ljósmyndara, fyrirtækið Myndiðn. Oddur hætti fljótlega en Leifur rak fyrirtækið allt fram til 1998.

Leifur var einn af stofnendum Ljósmyndasafnsins sem síðar varð Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Hann vann mikið að fræðslu, fyrst á vegum Ljósmyndarafélagsins og síðar við Iðnskólann og Myndlista- og handíðaskólann þar sem hann var driffjöður í ljósmyndakennslu og tölvufræðum.

Leifur byggði upp og var forstöðumaður ljósmyndaverkstæðis Listaháskóla Íslands frá 1998 til 2006.

Þekking Leifs á efna- og eðlisfræðilegri hlið ljósmyndunar, sérstaklega littækni og litvinnslu, var mikils metin og hann var lærifaðir margra íslenska ljósmyndara á því sviði. Hann tileinkaði sér mjög snemma stafræna ljósmyndun og myndvinnslu í tölvum.

Sérsvið Leifs var það sem hann kallaði iðnaðar- og auglýsingaljósmyndun. Þetta var óþekkt iðngrein þegar hann kom heim úr námi. Leifur vann mikið að all kyns tæknilegri ljósmyndun. Meðal annars var hann ráðinn af eftirlitsfyrirtæki á vegum alþjóða gjaldeyrissjóðsins til þess að mynda mánaðarlega framkvæmdir við smíði Búrfellsvirkjunar. Hann vann mikið að ljósmyndavinnslu fyrir rannsóknarstofnanir, heilbrigðisþjónustu og auglýsingagerð.

Leifur var svo lánsamur að geta sameinað starf sitt og áhugamál. Það var gjarnan hans hvíld frá ljósmyndastarfinu að fara um með myndavélina og festa á filmu það sem honum var hugleikið. Fyrir Leifi var ljósmyndun ekki aðeins iðngrein heldur einnig tækni til listrænnar tjáningar. Mestan áhuga hafði hann á að túlka sýn sína á fólki og mannvist. Reykjavíkurborg var honum einstaklega hugleikin. Ásamt Gísla B. Björnssysni og Birni Th. Björnssyni gerði hann ljósmyndabókina Reykjavík þar sem hann átti allar myndirnar. Hún var gefin út árið 1969 en hugmyndin að bókinni kviknaði árið áður þegar Leifur hélt sína fyrstu einkasýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins undir nafninu Myndir úr borginni. Næsta einkasýning hans hét Fólk og var einnig í Bogasalnum árið 1975Með þessum tveimur sýningum lagði hann grunninn að þeirri túlkun á manninum og umhverfi hans sem hann varð þekktur fyrir. Hann hélt fjölda einka- og samsýninga bæði heima og erlendis.

Leifur lést í árslok 2013.

No photo description available.

No photo description available.

 

 

Seabourn Quest á Siglufirði með 450 farþega

Skemmtiferðaskipið Seabourn Quest er nú statt á Siglufirði og ferjar farþega frá borði með litlum bátum. Seabourn Quest er með um 450 farþega sem stoppa til kl. 17:00 á Siglufirði, en skipið kom frá Akureyri. Skipið er eitt af þeim stærri sem kemur til Siglufjarðar í sumar, en í því eru 229 herbergi. Með skipinu eru 330 áhafnarmeðlimir og er skipið frekar nýlegt, byggt árið 2011.

Pistill formanns KSÍ: Framtíðin er núna

KSÍ hefur birt á vef sínum eftirfarandi pistil frá Guðna Bergssyni, formanni.

Nú er íslenska fótboltasumarið komið á fulla ferð. Tíðin hefur verið góð og vellirnir hafa komið vel undan vetri, grasið og gervigrösin iðagræn. Þróunin virðist vera sú að mörg félaganna eru að kjósa gervigrasið á sína keppnisvelli fyrst og fremst vegna aukinna nýtingarmöguleika sem því fylgir og stöðugleika í vallargæðum. Þetta mun leita jafnvægis en ég vona að við sjáum ekki á eftir öllum okkar náttúrulegu grasvöllum. Þeir bjóða upp á viss gæði og sjarma sem gaman er að upplifa sem leikmaður og áhorfandi.

Keppnistímabilið finnst mér hafa farið vel af stað. Pepsi Max deild karla er jöfn og spennandi og gaman að sjá spútnik lið Skagans byrja með látum. Íslandsmeistarar Vals byrja illa, en það bara sýnir að það er ekkert gefið í þessu, enda er deildin jöfn og erfið. Pepsi Max deild kvenna er að taka á sig mynd. Breiðablik og Valur byrja vel og það er leikið til sigurs, þar sem jafntefli sjást ekki. Neðri deildirnar eru svo ekki síðri skemmtun þar sem allir vilja upp um deild. Það er allt að gerast svo ég tali nú ekki um yngri flokkana. KSÍ skipuleggur ríflega 6000 leiki á ári og það er í nógu að snúast.

Yfirmaður knattspyrnusviðs, Arnar Þór Viðarsson, er kominn til starfa. Hann hefur fundað með yfirþjálfurum félaganna og er byrjaður að heimsækja aðildarfélögin. Ég er sannfærður um að þessi samvinna mun leiða gott af sér og við munum sjá þess merki fljótlega. Þetta er engu að síður langtímaplan í því að styrkja þjálfun okkar leikmanna á öllum sviðum, frá grasrótinni til A-landsliðanna. Eins gott og starfið okkar er þá er gott til þess að vita að við getum enn bætt okkur á ýmsum sviðum, sem er ekki óeðlilegt í samanburði við fjölmennar knattspyrnuþjóðir og stærri félög á meginlandi Evrópu. Þess vegna verðum við að vera framsækin, vinna saman og samnýta þekkinguna okkar.

Við verðum alltaf að horfa til framtíðar og þess vegna eru yngri landsliðin okkur svo mikilvæg. Góður árangur hefur verið að nást með yngri landsliðum sem hafa verið að komast í milliriðla, og svo ber hæst árangur U17 landsliðs karla sem komst í úrslitakeppni EM á Írlandi. Strákarnir unnu frækinn sigur gegn Rússum 3-2 og voru síðan, þegar korter lifði af síðasta leik, með stöðu sem hefði komið þeim áfram í 8-liða úrslit, en náðu ekki að landa jafntefli gegn Portúgölum í þeim leik og duttu út. Þarna sá maður ýmsa framtíðarleikmenn og það verður spennandi að fylgjast með þeim og öllum ungu leikmönnunum okkar á næstu árum.

Að því sögðu þá eru framundan tveir stórleikir á Laugardalsvellinum, gegn Albönum og Tyrkjum 8. og 11. júní, í undankeppni EM 2020. Við erum á kúrs má segja í riðlinum með 3 stig eftir tvo útileiki á móti Andorra og heimsmeisturum Frakka. Karlalandsliðið hefur farið í gegnum nokkuð erfiða tíma undanfarið ár hvað úrslit leikja varðar, en á sama tíma þó upplifðum HM saman í Rússlandi. Við verðum að sjá þetta í samhengi hlutanna og líta einnig til þeirra sterku andstæðinga sem að við höfum leikið gegn og þeirra meiðsla sem við höfum glímt við. Leikmenn eru ekki vélar og karlaliðið hefur staðið sig með ólíkndum vel undanfarin ár. Nú mun virkilega reyna á leikmenn að stimpla sig inn í þessa keppni, sýna að það er nóg eftir á tankinum og að hungrið sé enn til staðar eftir velgengni síðustu ára. Við vinnum saman og töpum saman. Nú er tími til þess að stíga upp og fyrir okkur að styðja við liðið okkar.

A landslið kvenna hefur síðan verið að gera góða hluti undanfarið undir stjórn nýs þjálfara í Jóni Þór Haukssyni með Ian Jeffs sér til aðstoðar. Þar hafa ákveðin kynslóðaskipti verið að eiga sér stað og greinilegt að með liðsvali sínu fyrir komandi tvo vináttuleiki við Finnland ytra í júní þá er verið að horfa til framtíðar og áframhaldandi uppbyggingar. Við ætlum okkur í lokakeppni EM 2021 og leiðin okkar til Englands liggur í gegnum riðilinn sem byrjar í haust með tveimur heimaleikjum. Þá verðum við að mæta á völlinn og styðja kvennaliðið okkar til sigurs. Það var algjörlega stórkostlegt að sjá fullan Laugardalsvöll á leiknum við Þýskaland síðasta haust og stemmningin var mögnuð. Vonandi upplifum við fleiri kvennalandsleiki á næstu árum með þjóðarleikvanginn troðfullan.

Talandi um heimaleiki þá er nú loksins að hefjast lokaáfangi í ákvörðunarferlinu með uppbyggingu Laugardalsvallar. Stjórn undirbúningsfélagsins, sem ákveðið var að stofna fyrir rúmu ári síðan, er að fara að hefja störf. Það verður að segjast að það hefur tekið of langan tíma að koma þessu í gang af hálfu stjórnvalda en nú er þetta loksins að byrja og ég er bjartsýnn á að við munum komast að góðri niðurstöðu fyrir íslenskan fótbolta og samfélagið okkar. Í ljósi mótsleikja að vetri til hjá karlalandsliðinu og möguleikanna sem fylgja fjölnota leikvangi fyrir fótboltann allan og samfélagið í heild sinni, þá trúi ég því að það verði lokaniðurstaðan í þessu, okkur öllum til heilla. Laugardalsvöllur er nú á undanþágu með vallarleyfi og stenst engan veginn nútímakröfur til þjóðarleikvanga. Það er réttlætanlegt og í raun nauðsynlegt að fara í þannig framkvæmdir á þjóðarleikvanginum, nú sem orðið er á 60 ára fresti, í ljósi þess hvað fótboltinn og íþróttir almennt þýða fyrir samfélagið. Sýnum metnað og samstöðu í þessu eins og við gerðum þegar Laugardalsvöllur var fyrst byggður af stórhug fyrir öllum þessum árum.

Á síðasta ári tók KSÍ þátt í verkefni með Krafti – félagi ungs fólks með krabbamein. „Lífið er núna“ voru einkunnarorð þess verkefnis. Grípum þessi orð á lofti og mótum framtíð íslenskrar knattspyrnu saman.

Framtíðin er núna!

Heimild og texti: ksi.is

Pan Orama á Siglufirði í dag

Skútan Pan Orama var á Siglufirði í dag og kom frá Húsavík. Skipið er með 49 farþega sem stoppuðu í um fjóra tíma á Siglufirði og skoðuðu helstu söfn og afþreyingu á svæðinu. Skipið hélt svo áleiðis til Ísafjarðar eftir heimsóknina á Siglufirði. Áætlað er að skipið komi í 11 heimsóknir til Siglufjarðar í sumar en skipið kom einnig á síðasta ári en þá í 16 heimsóknir.

Skipið sjálft er smíðað árið 1993 og siglir með grísku flaggi. Skipið var endurbyggt árið 2001. Pan Orama er 177 m á lengd, hefur 24 klefa/herbergi og 18 manns í áhöfn.

Aukning gistinótta á Norðurlandi í apríl

Gistinóttum á hótelum á Norðurlandi fjölgaði um 7% í apríl 2019, miðað við apríl 2018. Gistinætur voru alls 20.916 í apríl 2019.  Frá maí 2018 til apríl 2019 fjölgaði um 6% og voru alls 326.570 gistinætur á Norðurlandi á þessu tímabili samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Alls voru seld 1.164 herbergi á Norðurlandi í apríl sem er aukning um 15,2% miðað við apríl 2018. Þá var herbergja nýting 35,6% í apríl 2019 og lækkaði um -1,4%.

Úrslit í Sjóarasveiflu í Ólafsfirði

Golfmótið Sjóarasveifla var haldið á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði um helgina í tilefni Sjómannahelgarinnar, það var Golfklúbbur Fjallabyggðar(GFB) sem hélt mótið. Fjórtán voru skráðir til leiks en þrír mættu ekki á rástíma, alls voru 8 karlar og 3 konur sem kepptu. Keppt var í punktakeppni með forgjöf í opnum flokki og voru leiknar 18 holur.

Björn Kjartansson fékk flesta punkta í dag, eða 38 punkta og lék mjög vel, hann var með 12 í forgjöf fyrir mótið en lék á 10. Í öðru sæti var Sigríður Guðmundsdóttir með 35 punkta. Í þriðja sæti var Konráð Þór Sigurðsson með 34 punkta.  Allir nema Björn Kjartansson léku talsvert yfir sinni forgjöf á þessu móti.

Sjómannadagshelgin – sunnudagur

Til hamingju með daginn Sjómenn! Fjölbreytt dagskrá heldur áfram í dag í Fjallabyggð þar sem mikil veisla hefur verið í Ólafsfirði alla helgina. Dagskráin í dag hefst kl. 10:15 með skrúðgöngu frá hafnarvog að Ólafsfjarðarkirkju, en þar verður hátíðarmessa kl. 10:30 og sjómenn heiðraðir. Fjölskylduskemmtun verður við Tjarnarborg kl. 13:30, hoppukastalar og sölubásar, þar skemmta Jói P og Króli, Ronja og Ræningjarnir, Pétur Jóhann, Ari Eldjárn, Auddi og Steindi Jr. Klukkan 14:30 hefst kaffisala Slysavarnardeildar kvenna í Tjarnarborg.

Árshátíð Sjómanna hefst kl. 19:00 í íþróttahúsinu, sem búið er að gera að skemmtistað. Veislustjóri er Pétur Jóhann, og skemmtiatriði frá Audda og Steinda Jr. og Ara Eldjárns. Eurobandið leikur fyrir dansi kl. 23:00 ásamt Pálma Gunnars.

Sjómannadagurinn í Skagafirði

Um helgina fagna sjómenn og aðrir landsmenn sjómannadeginum með hefðbundnum hætti.  Hátíðahöld verða á Sauðárkróki á laugardeginum og á Hofsósi á sunnudeginum.

Laugardagurinn 1. júní hefst með skemmtisiglingu með Drangey SK 2 kl. 11:00 og boðið upp á fiskisúpu og pylsur að henni lokinni. Hátíðahöldin hefjast á hafnarsvæðinu kl. 12:00 og verður dorgveiðikeppni, carnival leikir, hoppukastalar og andlitsmálning ásamt kassaklifri og Hvolpasveitinni í boði. Skagfirðingasveit og Slysavarnadeildin Drangey verða með kaffisölu í neðri salnum á Kaffi Krók milli kl 12:00 og 16:00 sama dag.

Á laugardagskvöldinu er ball í íþróttahúsinu á Sauðárkróki þar sem hljómsveitin Stjórnin mun halda uppi fjörinu.

Sunnudaginn 2. júní hefst hátíðardagskráin á Hofsósi með helgistund við minnisvarðann um látna sjómenn kl 12:30. Að henni lokinni hefst dagskráin á hafnarsvæðinu þar sem verður m.a. dorgveiðikeppni, þrautabraut og sigling. Björgunarsveitin Grettir og Slysavarnardeildin Harpa verða með kaffisölu í Höfðaborg sem hefst kl 15:00.

Heimild: skagafjordur.is

Dramatískur sigur á Ólafsfjarðavelli – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Sindri frá Hornafirði mættust í dag á Ólafsfjarðarvelli. KF gat með sigri í dag endurheimt toppsæti deildarinnar, en KV og Kórdrengir höfðu bæði komist yfir KF þar sem liðin léku á fimmtudag sinn leik. KF sigraði Skallagrím í síðustu umferð í erfiðum leik á meðan Sindri gerði 0-0 jafntefli Augnablik í fjórðu umferðinni.

Þjálfari KF gerði tvær breytingar frá síðasta leik, en Andri Snær og Valur Reykjalín voru í byrjunarliðinu og Hákon Leó og Sævar Gylfason byrjuðu á bekknum. Það var KF sem tók forystuna í leiknum þegar dómarinn dæmdi víti á 24. mínútu. Alexander Már (nr.10) skoraði af öryggi úr spyrnunni og kom KF í 1-0. Var þetta hans 7. mark í 6 leikjum í deild og bikar í sumar. Eftir markið fengu gestirnir tvö gul spjöld frá dómaranum, en KF leiddi 1-0 í hálfleik.

Sindri gerði tvær skiptingar í hálfleik og ætluðu sér að jafna leikinn sem fyrst, en á 70. mínútu skoraðu þeir og jöfnuðu leikinn í 1-1 og aðeins 20 mínútur eftir auk uppbótartíma. Þjálfari KF brást strax við eftir jöfnunar markið og gerði þrefalda skiptingu og sendi Þorstein Má, Hákon Leó og Sævar Gylfason inná, en útaf fóru þeir Andri Snær, Vitor og Valur Reykjalín.

KF lagði allt í að sigra leikinn og á 93. mínútu skoraði varamaðurinn Sævar Gylfason (nr.8) sigurmark leiksins, eftir hornspyrnu frá Hákoni og vann KF frábærar sigur á Sindra, 2-1 og eru nú aftur á toppi deildarinnar með 13 stig eftir fimm leiki, og eru eina ósigraða liðið í deildinni.

Image may contain: 4 people, people smiling, outdoorImage may contain: 4 people, people smiling, people playing sports, grass, outdoor and nature

Sjómannadagshelgin í Ólafsfirði – laugardagur

Sjómannadagshelgin í Ólafsfirði hófst í gær og fullt af viðburðum verður einnig í dag. Klukkan 9:30 hófst dorgveiðikeppni fyrir börnin við höfnina. Klukkan 12:30 hefst kappróður sjómanna við höfnina og þar verða grillaðar pylsur. Klukkan 13:30 verður keppni um Alfreðsstöngina, tímaþraut og trukkadráttur við Tjarnarborg og sundlaugina. Ramminn mun bjóða upp á sjávarréttasúpu. Klukkan 15:00 hefst svo knattspyrnuleikur KF og Sindra á Ólafsfjarðarvelli í 3. deild karla. Strax á eftir eða kl. 17:00 hefst leikur Sjómenn-Landmenn á Ólafsfjarðarvelli og mun Eiður Smári spila með sjómönnum. Úrslitaleikur meistaradeildarinnar verður sýndir í Tjarnarborg kl. 19:00 og verða bjór og veitingar til sölu.

Um kvöldið klukkan 21:00 hefst útiskemmtun við Tjarnarborg þar sem Ronja og Ræningjarnir, Trúðurinn Walle og Stebbi Jak ásamt Audda og Steinda Jr.

Klukkan 23:00 verður svo ball í Tjarnarborg með Stebba Jak og Andra Ívars, og kostar miðinn 3000 kr.

Bjórhátíð á Hólum

Bjórhátíðin á Hólum er nú haldin í níunda skiptið á vegum Bjórseturs Íslands. Hátíðin hefst laugardaginn 1. júní kl. 15:00.

Flest ef ekki öll brugghús landsins mæta á hátíðina til að kynna fyrir gestum hvað hefur verið að gerjast hjá þeim síðasta árið, eða frá síðustu bjórhátíð. Eins og áður verður kútarallið, happdrætti, kosið um besta básinn og auðvitað besti bjórinn valinn. Boðið verður upp á ýmislegt af grillinu.

Sjómannadagsdagskráin hefst í dag

Sjómannadagshelgin hefst í dag í Ólafsfirði, föstudaginn 31. maí.  Meðal viðburða í dag má nefna útvarpsþátt FM95Blö sem sendur verður út á tíðinni 101,7 í Fjallabyggð klk. 16:00.  Einnig kl. 16:00 hefst Leirdúfuskotmót sjómanna á skotsvæði Skotfélags Ólafsfjarðar. Sjóarasveifla er golfmót sem hefst kl. 17:00 og verða spilaðar 18 holur á Skeggjabrekkuvelli.

Um kvöldið verður svo Uppistandskvöld þar sem Ari Eldjárn stjórnar ferðinni ásamt hópi uppistandara og verður þessi skemmtun í Tjarnarborg og kostar miðinn 3500 kr. Rétt fyrir miðnætti eða kl. 23:30 mun Herra Hnetusmjör og Huginn ásamt DJ halda ball í Tjarnarborg og kostar miðinn 4000 kr.

Forsala aðgöngumiða fyrir helgina verður í dag, í Tjarnarborg milli 12:00 og 14:00.

Endurnýja þarf 27 ára gamla slökkvibifreið í Dalvíkurbyggð

Slökkviliðsstjóri Dalvíkurbyggðar hefur óskað eftir að í fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2020 verði gert ráð fyrir fjármagni til endurnýjunar á slökkvibíl, en kostnaður liggur á verðbilinu 35-55 m.kr. án vsk.  Í gildandi brunavarnaráætlun fyrir Dalvíkurbyggð fyrir árin 2016-2020 var fyrirhugað að endurnýja 64-132 Ford slökkviliðsbifreið liðsins árið 2018, en bifreiðin er 27 ára.

No photo description available.

Skólaslit Grunnskóla Fjallabyggðar

Skólaslit Grunnskóla Fjallabyggðar verða í Siglufjarðarkirkju föstudaginn 31. maí.  Skólaslit fyrir 1.-5. bekk verða kl. 12:00. Skólabíll fer frá Tjarnarstíg kl. 11:30 og til baka 12:45. Skólaslit fyrir 6.-10. bekk verða kl. 17:00.  Útskrift 10. bekkjar og viðurkenningar fyrir góðan árangur í námi. Skólabíll fer frá Ólafsfirði kl. 16:30 og til baka kl. 18:30.

34 brautskráðir frá MTR á vorönn

Menntaskólinn á Tröllaskaga brautskráði á vorönn 34 nemendur frá skólanum og þar af voru 24 fjarnemar.  Brautskráningin var haldin í sal skólans síðastliðinn laugardag.  Í desember útskrifuðust 21, þannig að á skólaárinu útskrifast samtals 55 nemendur. Frá upphafi hafa 299 brautskráðst frá skólanum. Þrettán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut á vorönn, níu af náttúruvísindabraut, fjórir af íþróttabraut – tveir af íþróttasviði og tveir af útivistarsviði, þrír af listabraut – myndlistarsviði, fjórir luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs og einn útskrifaðist af starfsbraut. Nemendur við skólann á vorönn voru 346 en starfsmenn 25.

Lára Stefánsdóttir skólastjóri hvatti nemendur til að einbeita sér að því að vera góðir stjórnendur í eigin lífi þannig að þeim sjálfum og öðrum liði vel og gengi vel.

Dagný Ásgeirsdóttir flutti ávarp nýstúdents.

Myndir: mtr.is / gk.

LED perur settar í Héðinsfjarðargöng

Nýverið var skipt um perur í Héðinsfjarðargöngum frá Siglufirði til Héðinsfjarðar. Sú lýsing sem var þar fyrir er frá lágþrýstum natríum NaL perum sem gefa gula birtu. Hins vegar stendur til að hætta framleiðslu á slíkum perum og verða þær bannaðar í Evrópu og líklega víðar. Því var ákveðið að skipta þeim út til prufu á 3,9 kílómetra kafla í Héðinsfjarðargöngum og setja í stað þeirra LED perur sem gefa hvítari birtu sem þykir ákjósanlegri en gula birtan. Auk þess nýtir LED peran rafmagn enn betur.
Í þetta sinn var skipt um 220 ljós. Það tók starfsmenn Vegagerðarinnar dágóðan tíma enda þarf að skipta um ákveðinn búnað í ljósinu til að hann henti LED perunni betur. Það tók fimm manna gengi eina klukkustund að skipta um 10 perur og verkið í heild tók því um fjóra daga.
Gísli Eiríksson forstöðumaður jarðganga hjá Vegagerðinni segir að væntanlega þurfi að skipta út öllum ljósum í göngum landsins þegar fram í sækir. LED ljós eru nú þegar í Norðfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum.

Heimild: Vegagerðin.is

Einnig var fjallað um málið á Siglfirðingi.is

Mynd og heimild: Vegagerðin

Afmælisskákmót Skákfélags Akureyrar hálfnað

Þegar fimm umferðum af níu er lokið á afmælismóti Skákfélags Akureyrar, Icelandic Open, hefur hollenski stórmeistarinn Ivan Sokolov unnið allar sínar skákir og þar með tekið forystuna á mótinu. Fast í kjölfar hans fylgir Ísfirðingurinn Guðmundur Gíslason með fjóra og hálfan vinning. Guðmundur hefur þegar lagt tvo stórmeistara að velli og stendur nú vel að vígi í þeirri baráttu sem stendur milli íslensku keppendanna um titil Skákmeistara Íslands. Næstir honum með fjóra vinninga koma stórmeistararnir Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Þröstur Þórhallsson, auk alþjóðameistarans Guðmundar Kjartanssonar, en allir hafa þessir meistarar áður hampað Íslandsmeistaratitli. Í kvennaflokki hefur núverandi Íslandsmeistari kvenna, Lenka Ptacnikova, forystu.

Keppendur á mótinu er alls 59 talsins. Þeir eru á ýmsum aldri, sá elsti er bandaríkjamaðurinn Viktos Pupols, fæddur árið 1934. Hann hefur það m.a. á afrekaskrá sinni að hafa lagt Bobby Fischer að velli. Lítil ellimörk eru á Pupols sem hefur þrjá vinninga eftir fimm umferðir. Yngsti keppandinn er hinn átta ára gamli Jósef Ómarsson, en nokkur börn og unglingar eru meðal keppenda.

Sjötta umferð mótsins hófst kl. 15:00 í dag; sjöunda og áttunda umferð á sama tíma næstu daga, en lokaumferðin hefst kl. 11:00 á laugardag. Þá ráðast m.a. úrslit í baráttunni um þá þrjá Íslandsmeistaratitla sem teflt er um að þessu sinni.  Í sjöttu umferð leiða m.a. saman hesta sína þeir Guðmundur Gíslason og Sokolov, Guðmundur Kjartansson og Hannes, Héðinn og Þröstur. Efsti heimamaðurinn, Mikael Jóhann Karlsson teflir við stórmeistarann Braga Þorfinnsson. Teflt er í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og er öllum velkomið að fylgjast með skákunum á staðnum.

Texti: Aðsend fréttatilkynning.

Tóku upp sex útvarpsmessur í Húsavíkurkirkju á tveimur dögum

Dagana 25.-26. maí voru hljóðritaðar sex messur í Húsavíkurkirkju. Þetta er fimmta sumarið sem Ríkisútvarpið hljóðritar messur safnaða á landsbyggðinni og hefur þetta verkefni mælst vel fyrir bæði hjá útvarpshlustendum og þátttakendum sem voru í þetta sinn um eitt hundrað talsins.

Húsavíkurkirkja varð fyrir valinu sem upptökustaður og var öllum boðið að sækja messu tvisvar á laugardag og fjórum sinnum á sunnudag. Fjölmennur hópur presta, organista, lesara og kirkjukóra lagði á sig mikla vinnu við undirbúning og ánægjuleg samvinna smærri kirkjukóra hefur skapað stærri heild og möguleika til að flytja metnaðarfyllri tónlist.

Upptökurnar verða sendar út á Rás1 í júní, júlí og ágúst.

 

Bæjar- og menningarvefur