Fréttatilkynning frá Sigríði Vigfúsdóttur

Þá er það ljóst að óþekkar stelpur eiga ekki upp á pallborðið hjá þeim stjórna hjá Sjálfstæðisflokknum í Fjallabyggð. Síðustu vikur hafa verið lærdómsríkar og þakka ég af heilum hug þeim fjölmörgu sem höfðu samband við mig með símtölum og á samfélagsmiðlum og lýstu yfir trausti og ánægju með að ég hafi boðið fram krafta mína.

Á kjörtímabilinu sem er að líða undir lok voru breytingar á fræðslustefnu keyrðar í gegn í mikilli andstöðu við stóran hluta bæjarbúa. Sitjandi bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir vinnubrögð sín í því máli. Í andstöðu við breytingarnar söfnuðust yfir 600 undirskriftir og því verður að kjósa sérstaklega um málið. Sú kosning hefur enn ekki farið fram. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar.

Ég gagnrýndi þessa stefnu og vildi af heilum hug vinna að því að börnunum okkar líði sem best og að þau gætu notið þeirra forréttinda að stunda nám í sínum heimabæ fyrstu árin. Þessi uppbyggilega gagnrýni virðist hafa farið mjög fyrir brjóstið á ráðamönnum í flokknum hér í bæ.

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti eftir fólki til að taka sæti á lista gaf ég kost á mér í 1.-3. sæti fyrir flokkinn í Fjallabyggð. Þrátt fyrir það var ég ekki svo mikið sem boðuð í viðtal eða spurð á nokkurn hátt hvaða málefni væru mér hugleikin.

Ég fór þá leið að hafa það fyrir opnum tjöldum að ég vildi í framboð og komu fréttir þess efnis á mbl.is og hedinsfjordur.is. Í kjölfarið fékk ég símtal þar sem ég var tekin á beinið fyrir að auglýsa að ég gæfi kost á mér. Mér fannst það heiðarlegt að fara þessa leið og taldi kjósendur eiga fullan rétt á að vera upplýstir. Í tímanna rás hefur orðið sú breyting á að kjósendur velja sér frekar fólk með hugsjón þegar í kjörklefann er komið frekar en flokka. Það finnst mér jákvætt og í því felst lýðræðið.

Ég ítreka að samvinna við íbúa er það sem gott samfélag byggir á. Því miður var það ekki raunin á kjörtímabilinu þegar breytingar skólamála voru keyrðar í gegn í mikilli andstöðu við fjölmarga íbúa, foreldra og nemendur. Það er miður og þess háttar vinnubrögð eru ekki til þess fallinn að stuðla að góðri sátt í bænum okkar. Bæjaryfirvöld eiga að byggja brýr frekar en brenna þær.

 

Bestu kveðjur og þakkir,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir