Á Norðurlandi er að finna rúm níu prósent fyrirtækja sem sæti eiga á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki, alls 78 fyrirtæki. 60 eru á Norðurlandi eystra og 18 á Norðurlandi vestra. Alls er 853 fyrirtæki að finna á listanum öllum, eða um tvö prósent virkra fyrirtækja. Sé horft til Norðurlands í heild er það í fjórða sæti yfir svæði þar sem flest fyrirtæki er að finna, á eftir Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík.

 Níu fyrirtæki á Norðurlandi hafa verið óslitið á lista Framúrskarandi fyrirtækja allt frá upphafi. Þetta eru fyrirtækin Steinull á Sauðárkróki, Kælismiðjan Frost, Trétak, Fóðurverksmiðjan Laxá, Dekkjahöllin og  Rafeyri á Akureyri eða nágrenni,  Garðræktarfélag Reykhverfinga á Hveravöllum, Sæplast Iceland á Dalvík og Trésmiðjan Rein á Húsavík. Þá koma 12 fyrirtæki ný inn á listann á Norðurlandi, öll í flokki lítilla eða meðalstóra fyrirtækja, fjögur á Norðurlandi vestra og átta á Norðurlandi eystra.

 Fimm efstu sætin á Norðurlandi eru öll tiltölulega ofarlega á heildarlista Framúrskarandi fyrirtækja, en þau skipa Samherji á Akureyri sem er í 4. sæti á heildarlistanum, Kaupfélag Skagfirðinga á Sauðárkróki (í 10. sæti), Samherji Ísland á Akureyri (11. sæti), Útgerðarfélag Akureyringa (14. sæti) og FISK-Seafood á Sauðárkróki (24. sæti).

 Sé horft til fimm efstu sætanna á Norðurlandi vestra þá skipa þau Kaupfélag Skagfirðinga (sem er í 10. sæti á heildarlistanum), FISK-Seafood (24. sæti), Steypustöð Skagafjarðar (129. sæti), Steinull (156. sæti) og Vörumiðlun (190. sæti). Öll eru fyrirtækin staðsett á Sauðárkróki.

 Fimm efstu á Norðurlandi eystra eru svo Samherji (í 4. sæti á heildarlistanum), Samherji Ísland (í 11. sæti), Útgerðarfélag Akureyringa (14. sæti), Rammi (28. sæti), og Kælismiðjan Frost (136. sæti). Öll eru þau á Akureyri, nema Rammi sem er á Siglufirði.

Texti og myndir: Aðsend tilkynning.