Akureyri er mikill íþróttabær og fjöldi íþróttamóta er haldinn í bænum allt árið um kring. Um helgina fara fram tvö af stærstu mótum ársins; N1-mót KA og Pollamót Þórs og Icelandair. N1-mót KA hófst á miðvikudaginn og lýkur með lokahófi í KA-heimilinu á morgun, laugardag. Frá fyrsta mótsdegi hefur verið mikið fjör á svæðinu og óhætt að segja að veðurguðirnir hafi leikið við mótsgesti.
Í ár taka þátt 152 lið frá 38 félögum og er fjöldi keppenda um 1.350 auk þjálfara, fararstjóra, foreldra og annarra aðstandenda. Í það heila eru spilaðir á sjötta hundrað leikir á KA-svæðinu um helgina. Á mótinu er spilað í sex deildum og verða undanúrslitaleikir spilaðir síðdegis í dag en leikir um sæti spilaðir á morgun. N1-mótið er haldið með samstilltu átaki gríðarlegs fjölda sjálfboðaliða og knattspyrnuiðkenda hjá KA og er talið að um 300 sjálfboðaliðar komi að framkvæmd mótsins.
Pollamót Þórs og Icelandair, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 25. skipti á Þórssvæðinu um helgina. Mikið verður um dýrðir á mótssvæðinu við Hamar og boðið upp á grillveislur gegn vægu gjaldi í kvöld og annað kvöld auk þess sem Jónsi í Svörtum fötum og Ingó veðurguð munu stíga á stokk og skemmta gestum og gangandi. Einnig mun Kristján Kristjánsson, listflugmaður, sýna ævintýralegar listir sínar yfir Þórsvellinum. Um sannkallaða fjölskyldustemningu er að ræða á mótinu og verður boðið upp á leiktæki fyrir börn á öllum aldri alla helgina.
Keppt verður í tveimur flokkum kvenna: 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild og 30 ára og eldri í Ljónynjudeild. Karlaflokkarnir eru þrír: 30 ára og eldri taka þátt í Polladeild, 40 ára og eldri í Lávarðadeild og 45 ára og eldri reyna með sér í Öldungadeild.
Mörg lið hafa skráð nafn sitt í sögubækur mótsins með frækinni frammistöðu innan vallar sem utan og ber þar helst að nefna hið víðfræga lið Ginola. Að sögn Rúnars Þórs Jónssonar, fyrirliða Ginola, hafa liðssmenn verið að týnast í bæinn á síðustu dögum einn af öðrum. “Mikil tilhlökkun ríkir í okkar herbúðum enda hefur undirbúningur staðið yfir í nokkurn tíma. Pollamótið er orðið stór hluti af sumarfríi liðsmanna Ginola enda eru margir brottfluttir Akureyringar í liðinu. Það er því frábær tilfinning að koma til Akureyrar um hásumar til þess að spila fótbolta með félögunum. Án nokkurs vafa munum við skemmta okkur og andstæðingum okkar með skemmtilegum leik,” segir Rúnar og hlær.