Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti Menntaskólann á Akureyri í síðustu viku. Dagskrá var í sal skólans að þessu tilefni. Nemendur hófu leikinn á því að syngja Hesta-Jóa, sem er einkennislag þeirra, en síðan ávarpaði Ívan Árni Róbertsson stjórnarmaður í skólafélaginu Hugin forsetann fyrir hönd nemenda og fjallaði meðal annars um stöðu skólafólks og framtíðarsýn. Björn Kristinn Jónsson formaður Hugins færði forsetanum að gjöf Sögu Menntaskólans á Akureyri. Sigurlaug Anna Gunnarsdóttir aðstoðarskólameistari ávarpaði forsetann og sæmdi hann gulluglu, heiðursmerki skólans og gat þess að gamall nemandi skólans, Kristján Eldjárn forseti, hefði fyrstur hlotið hana.
Guðni forseti ávarpaði nemendur og starfsfólk og sagðist hafa búið sig undir heimsóknina með því að spyrjast fyrir um skólann hjá fjölmörgum vinum og félögum, sem væru stúdentar úr MA. Þannig dró hann upp skemmtilega mynd af skólanum eins og honum birtist hún samkvæmt þessum heimildum. Það var léttur og mildur tónn í þessu ávarpi eins og reyndar í allri þessari heimsókn.
Að loknu ávarpi forsetans fengu ansi margir myndir af sér með honum, en síðan var farið í stutta kynnisferð um skólahúsin, þar sem Sverrir Páll sagði frá einu og öðru úr sögu skólans og skólahúsanna. Litið var inn í sögutíma hjá Kristni Berg Gunnarssyni og 1. bekk A og farið á Bókasafn MA, þar sem Ragnheiður Sigurðardóttir yfirbókavörður sagði meðal annars frá safni ljóðabóka í Ljóðhúsi. Að því loknu þáði Guðni kaffi og pönnukökur á kennarastofunni og spjallaði við kennara uns hann hvarf á braut ásamt forsetaritara, Örnólfi Thorssyni.
Heimid: ma.is
