Í haust og vetur verður hægt að ferðast með flugi frá Akureyri um allan heim. Breska flugfélagið easyJet hefur flug til Akureyrar í lok október og Icelandair býður upp á beint flug á Keflavíkurflugvöll þaðan sem hægt er að tengja við flugáætlun félagsins bæði til Bandaríkjanna og Evrópu.
Með easyJet til London
Á undanförnum misserum hafa tækifærin til ferðalaga með flugi frá Akureyri aldrei verið fjölbreyttari. Síðasta vor tilkynnti easyJet um beint flug til Akureyrar í vetur, en félagið hefur flogið til Keflavíkur um árabil. Flogið verður frá Gatwick flugvellinum í London, en þaðan er hægt að taka tengiflug til að komast nánast hvert sem er í heiminum. Hægt er að kaupa flugferðir á heimasíðu easyJet og þar er hægt að bæta við tengiflugi með félaginu lengra út í heim. Einnig er hægt að nýta síður á borð við Dohop, til að kaupa tengiflug með öðrum flugfélögum.
Tengiflug til Keflavíkur með Icelandair
Icelandair tilkynnti í vor að boðið yrði upp á flugferðir á milli Akureyrar og Keflavíkur, í samhengi við flugáætlun félagsins frá Keflavík. Aðeins er hægt að nýta flugið ef flogið er áfram með Icelandair og þannig má því bóka flugferðir til allra áfangastaða Icelandair beint frá Akureyri og tilbaka. Markmiðið með tengifluginu er að auðvelda erlendum farþegum Icelandair að heimsækja Norðurland og sömuleiðis gefa innlendum farþegum þægilegri leið til að fljúga til erlendra áfangastaða. Breytingin felst einna helst í upplifun farþega, sem þurfa ekki að fara í öryggisleit í Keflavík eða koma farangri sjálfir áfram í tengiflugið. Ferlið miðast nú við að allt sé keypt á einum miða og Icelandair ber því ábyrgð á að koma farþegum og farangri á leiðarenda. Einnig verður áfram hægt að bóka flugmiða með Icelandair frá Akureyri til áfangastaða erlendis, þar sem flogið er með innanlandsflugi til Reykjavíkur og svo út í heim frá Keflavík.
Sumarflug Edelweiss heldur áfram á næsta ári
Í sumar flaug svissneska flugfélagið Edelweiss beint til Akureyrar frá Zurich. Árangurinn af þeim flugferðum var góður og nú þegar er hægt að panta ferðir til Zurich næsta sumar. Bóka þarf í gegnum heimasíðu Swiss: www.swiss.com/ch/en/homepage
Fljúga beint frá Rotterdam og Zurich til Akureyrar
Auk áætlunarflugs hafa tvær erlendar ferðaskrifstofur boðað komu sína til Akureyrar í vetur. Eftir jól mun Voigt Travel halda áfram með vetrarferðir frá Amsterdam. Þetta verður fjórði veturinn þar sem ferðaskrifstofan býður upp á ferðir til Norðurlands, en einnig hefur verið hægt að ferðast hingað með þeim á sumrin.
Svissneska ferðaskrifstofan Kontiki býður upp á ferðir til Norðurlands frá Zurich í febrúar og mars og því stefnir í að vetrartímabilið í ferðaþjónustu á Norðurlandi muni áfram njóta vaxtar í samræmi við áherslur ferðaþjónustu á Norðurlandi um að draga úr árstíðarsveiflu.
Í þessar flugferðir hafa Íslendingar getað bókað sér ferðir, til dæmis með Verdi travel, og á næstu vikum kemur í ljós hvernig framboðið á þeim verður. Smelltu hér til að skoða heimasíðu Verdi Travel.