Ferðamálastofa auglýsti í september eftir umsóknum um styrki til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn. Alls bárust 20 umsóknir sem flestar voru vandaðar og verkefnin áhugaverð.

Dómnefnd
Dómnefnd var skipuð til að fjalla um umsóknir en í henni sátu:

  • Ragnar Frank Kristjánsson f.h. Félags íslenskra landslagsarkitekta
  • Pétur Bolli Jóhannesson  f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Erna Hauksdóttir  f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar
  • Elías Bj. Gíslason  f.h. Ferðamálastofu

Niðurstaða dómnefndar er að 5 aðilar hljóti styrk.

Sjávarsmiðjan og Reykhólahreppur  kr. 2.900.000
THanna og þróa faglega heildarmynd fyrir svæðið og þá uppbyggingu sem þar á að fara fram og er ætluð ferðamönnum. Um er að ræða bætt aðgengi til sjóbaða, göngustíga, hleðslur í hringum hveri, aðgengi og verndun á gamalli torfsundlaug. Hanna  merkingar, bæði til að miðla upplýsingum um öryggi, aðgengi sem og í fræðslutilgangi um náttúru- og söguminjar svæðisins.

Útihvalasafn og göngustígar í Súðavík  kr. 2.500.000
Hanna og skipuleggja útihvalasafn í gömlu byggðinni í Súðavík sem og göngustíga við sjávarsíðuna þar sem saga hvalveiða og vinnslu við Álftarfjörð verður sögð í máli og myndum á  upplýsingaskiltum.

Hrútleiðinlegt safn í Hrútafirði   kr. 1.800.000
Endurhanna sýningarrými og inngang í byggðasafninu á Reykjum í Hrútafirði sem og endurskipuleggja útisvæði safnsins með það að markmiði að tengja það betur sögu héraðsins.

Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd kr. 1.700.000
Vinna hönnun og skipulag við Flókatóftir við Brjánslæk á Barðaströnd, friðlýstum fornleifum sem draga nafn sitt af Hrafna-Flóka. Verkefninu er ætlað að vekja athygli á merkri sögu svæðisins og hvernig, samkvæmt sögnum, hugmyndin um nafnið Ísland varð til á svæðinu.

Óbyggðasafn Íslands    kr. 1.100.000
Vinna hönnun og skipulag við Óbyggðasafn Íslands sem verður byggt upp á sveitabænum Egilsstöðum.  Bærinn er innsta byggða bólið í Norðurdal í Fljótsdal og er við þröskuld Vatnajökulsþjóðgarðs og við stærstu óbyggðir norður Evrópu.  Markmið Óbyggðasafnsins er að bjóða upp á hágæða menningarferðaþjónustu sem byggir á menningararfi og náttúru óbyggðanna og jaðarbyggða þeirra.

Auglýst aftur að ári
Áætlað er styrkir sem þessir verði aftur í boði á næsta ári og að auglýst verði eftir umsóknum haustið 2013.

Nánari upplýsingar veitir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður Akureyri elias@ferdamalastofa.is