Erlendir ferðamenn dvöldu að jafnaði 10,2 nætur á Íslandi sumarið 2011 og ferðuðust langflestir (79,6%) á eigin vegum. Tveir af hverjum þremur höfðu bókað ferðina innan fjögurra mánuða fyrir brottför og við ákvarðanatökuna höfðu langflestir (75,4%) aflað sér upplýsinga um Ísland á netinu. Bílaleigubíll var sá samgöngumáti sem flestir (46,0%) nýttu til ferða sinna um landið en vegakerfið er einn af þeim þáttum sem margir ferðamenn töldu að mætti bæta. Ferðin stóðst væntingar flestra og töldu langflestir (79,1%) líklegt að þeir myndu ferðast til Íslands aftur í framtíðinni og það að sumri til. Þetta er meðal niðurstaðna úr könnun sem Ferðamálastofa fékk MMR til að framkvæma meðal erlendra ferðamanna sumarið 2011.