Er Fjallabyggð góður kostur fyrir fjölskyldufólk?

Aðsend grein eftir Sigríði Vigdísi Vigfúsdóttur, íbúa í Fjallabyggð.

————————————————————————————

Er Fjallabyggð góður kostur fyrir fjölskyldufólk?

 Það er vægt til orða tekið að stór hluti foreldra og íbúa í Fjallabyggð er ósáttur við nýja fræðslustefnu bæjarins og framgangs bæjaryfirvalda sem hafa valið að hunsað vilja stórs hluta bæjarbúa í þessu máli. Í öll þau ár sem ég hef búið hér þá man ég ekki eftir að bæjaryfirvöld hafi sýnt okkur íbúunum jafn mikið virðingarleysi og bæjarstjórn hefur gert í þessu máli. Held reyndar að það þurfi að fara langt aftur í tímann til að finna slík dæmi, þessi valdníðsla minnir helst á þá tíma þegar sýslumenn og aðrir embættismenn gátu komið fram við lýðinn að eigin geðþótta.

 

Virðingarleysi bæjarstjórnar gagnvart skoðunum og óskum íbúanna

Staðan í skólamálum í Fjallabyggð er dapurleg og engin leið að skilja hvað vakir fyrir þeim sem tóku þessa ákvörðun. Það hefur ríkt sátt um núverandi fyrirkomulag, þó svo að enginn óski þess að skólaakstur þurfi yfir höfuð að eiga sér stað, og þá síst hjá yngstu börnunum. Afhverju er verið að skerða lífsgæði barna í sveitarfélaginu með þessum auknu flutningum á milli bæjarhluta?

 

Aukin akstur skerðir lífsgæði grunnskólabarna

Það hefur kannski gleymst að hugsa út í það að börn Siglufjarðarmegin gætu verið búin að fá nóg af rútuferðalögum þegar kemur að því að fara í menntaskóla og velja því frekar heimavist á Akureyri eða aðra kosti.

 

Hvað gengur bæjarstjórn til með að gera Fjallabyggð og ekki síst Ólafsfjörð að lakari kosti en nú er, þegar barnafjölskyldur eru að velja sér hreiður? Hvers vegna að bjóða litlum börnum upp á fimmtíu mínutna rútuferð á dag þegar aðrar lausnir hafa verið og eru í boði. Fegurðin við að búa í litlum samfélögum er nálægðin, sá kostur sem vegur þungt þegar valið er um búsetu.

 

Nemendur í samkennslu hafa komið betur út í samræmdum prófum

Slæmur námsárangur í Grunnskóla Fjallabyggðar er mál sem foreldrar og aðrir íbúar hafa virkilegar áhyggjur af. Því skyldi ætla að bæjarstjórn hefði það einnig og því lagt metnað sinn í að finna leiðir og kynna fyrir íbúum áætlun um hvernig á að bæta úr því. Þeir nemendur sem voru í samkennslu (4. bekkur) komu þó best út í samræmdu prófunum, þannig að ekki kallaði slakur námsárangur þar á þær breytingar sem nú er verið að gera.

 

Eins og staðan er, þá er það allavega er nokkuð ljóst að það eru ekki allir nemendur í 10. bekk sem geta sleppt til dæmis íslenskutíma í heila önn til að stunda enskutíma í MTR, og þar af leiðandi er varla tímabært að hvetja nemendur grunnskólans til að velja sér fög til að stunda framhaldsnám samhliða grunnskólanámi.

 

Hagsmunir örfárra nemenda í fjarnámi í MTR kveikjan að breytingunum

Það er út í hött að setja ímyndaða hagsmuni þeirra örfáu nemenda sem eru í fjarnámi í MTR í forgang, en á feisbókarsíðu vinnuhópsins sem mótaði nýju fræðslustefnuna kemur glöggt fram að upphaflega hugmyndin að þessari breytingu tengdist þeim.

 

Við munum flest að þegar sameining skólanna átti sér stað, stóð til að yngstu börnunum yrði ekið á milli bæjarhluta, en vegna mikilla óánægju íbúanna var horfið frá því. Þá bar bæjarstjórn gæfu til að virða vilja þeirra, jafnvel þó engu hafi verið lofað um íbúalýðræði í þá daga. Við foreldrar vitum of hvað er börnum okkar fyrir bestu og ekki ástæða til þess að tala niður til okkar þegar við tjáum skoðanir okkar líkt og forystumenn hafa nú gert.

 

Ekki of seint a snúa til baka

Það er einlæg von mín að bæjaryfirvöld endurskoði hug sinn varðandi jafn veigamikið og viðkvæm mál sem skólamál eru. Það er ekki gott fyrir okkar samfélag og alls ekki góð byggðastefna að setja fræðslumál í upplausn eins gerst hefur. Það er ekki of seint að snúa við og gera samfélagið okkar þannig að sátt verði um skólamálin. Með því setjum við menntun og líðan barnanna okkar í öndvegi.

 

Með vinsemd og virðingu,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir