Endurskoðun hefur verið gerð á  húsaleigu fasteigna sveitarfélagsins Skagafjarðar.  Undanfarin misseri  hafa leigusamningar einungis verið gerðir til sex mánaða í senn, svo réttur leigjenda til húsaleigubóta tapaðist ekki.  Sveitarstjórn samþykkt 28. mars 2012 nýjar reglur um húsnæðismál. Frá og með 1. apríl 2012 verður farið eftir þessum nýju reglum við endurnýjun eldir leigusamninga og við gerð nýrra.

Með þessum aðgerðum er verið að færa leiguverð íbúða sveitarfélagsins Skagafjarðar nær því sem gerist á almennum markaði í sveitarfélaginu.  Telja má að í einhverjum tilfellum verði hækkunin töluverð, en á móti kemur að réttur þeirra sem leigja á s.k. félagslegum forsendum verður skýrari og hafa ber í huga að húsaleigubætur hækka á móti hjá þeim sem þann rétt eiga.  Greint er á milli almennrar leigu og félagslegrar leigu.

Í reglunum er almenn húsaleiga fyrir hvern fermetra  ákvörðuð kr. 950 frá og með 1. apríl 2012 (eða síðar við endurnýjun gildandi leigusamninga).  Hámark almennrar mánaðarleigu er kr. 112.500.

Þeir leigjendur sem uppfylla skilyrði sem þarf til félagslegrar leigu, leigja fermetrann á 20% lægra verði, kr. 760.  Hámark þeirrar leigu er kr. 90.000 á mánuði. Athugið að leiguupphæð fylgir  íbúðarstærð (fjölda fermetra).

Ef leigjandi telur eða vill láta á reyna hvort hann eigi rétt á félagslegri leigu, skal hann panta viðtal hjá félagsráðgjafa sveitarfélagsins.

Reglurnar eru aðgengilegar hér á heimasíðu sveitarfélagsins.  Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta óskað eftir því að fá þær sendar bréfleiðis. Félagsmálastjóri veitir frekari upplýsingar í síma 455 6000.