Unglingar á Hvammstanga sjá nú fram á að geta búið lengur heima hjá foreldrum sínum. Unnið er að því að opna framhaldsskóladeild í þorpinu þar sem kennt yrði í gegnum fjarfundarbúnað frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.

Til þessa hafa unglingar á svæðinu ekki átt annan kost en að flytja að heiman 16 ára hyggi þau á framhaldsskólanám. Margir fara til Sauðárkróks, aðrir til Akureyrar og enn aðrir suður, oft eftir því hvar fólk á ættmenni til að búa hjá. Nú vonast íbúar á Hvammstanga og í sveitunum í kring, til þess að geta haldið lengur í unglingana sína því unnið er að því að setja upp svokallað dreifnám á Hvammstanga

„Útgangspunkturinn á dreifnáminu er að auka möguleika til menntunar í heimabyggð,“ segir Eydís Aðalbjörnsdóttir, fræðslu- og félagsmálastjóri í Húnaþingi vestra. „Það var strax árið 2004 sem sveitarfélagið tók frumkvæði að því að opna fjarnámsstofu hér og núna eru tekin um 100 próf í fjarnámi bæði á framhalds- og háskólastigi þannig að næsta skref var eiginlega að opna framhaldsskóladeild.“

Kennt yrði í gegnum fjarfundarbúnað í félagsheimilinu á Hvammstanga. Af þessu verður þó ekki nema þátttakan verði næg. Unglingar á staðnum hafa fengið að taka þátt í undirbúningsvinnunni og eru flest jákvæð fyrir dreifnáminu þó mörgum þyki líka spennandi að flytja í burt og fara á heimavist.