Í  framkvæmda- og fjárfestingaáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2020 eru alls rúmlega 350 miljónir króna. Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt eftirfarandi breytingar á framkvæmda- og fjárfestingaáætlun 2020:

Fjárfesting í nýjum slökkvibíl sem átti að kaupa árin 2020 og 2021 verði frestað og verði einungis á árinu 2021. Þetta er gert vegna óhagstæðs gengis og vegna þess að þetta fjármagn fer beint út úr byggðarlaginu. Með þessari aðgerð verður hægt að nýta þær 27 miljónir sem ætlaðar voru til kaupa slökkvibíls árið 2020 til atvinnuskapandi verkefna á árinu 2020. Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar telur öryggi brunavarna sveitarfélagsins ekki ógnað þó þessi fjárfesting frestist enda með öflugan búnað og slökkvilið til að mæta verkefnum nú sem fyrr.

Af þessum 27 miljónum verði 15 miljónir nýttar til að flýta framkvæmdum við lóð Dalvíkurskóla og ljúka þeim á árinu 2020.

Eftirstöðvarnar, alls 12 miljónir, fari í atvinnuskapandi verkefni og átaksverkefni svo sem:

  • Átak/hreinsun/grisjun í skógreitum og tiltekt eftir óveðrið í desember
  • viðgerð á girðingum eftir óveðrið í desember
  • fegrun opinna svæða í öllum þéttbýliskjörnum (t.d. þvottaplön o.fl.)
  • göngustíga og aðgengi að útivistarsvæðum
  • viðhaldsverkefni eignasjóðs
  • markaðssetningu á sveitarfélaginu upp úr öldudalnum.