Dalvík/Reynir og Höttur/Huginn mættust í Lengjubikarnum í gær, en liðin leika þar í B-deild, riðli 4. Leikurinn fór fram í Boganum á Akureyri og voru um 50 áhorfendur á leiknum. Höttur/Huginn var taplaust eftir fyrstu 3 leikina, en Dalvík hafði unnið einn og tapað einum.
Dalvík/Reynir byrjaði leikinn vel og skoraði tvö mörk á fyrstu fimmtán mínútunum. Borja Lopez Laguna kom D/R yfir strax á 6. mínútu leiksins, en markið kom eftir hornspyrnu, staðan 1-0. Fannar Gíslason bætti svo við marki á 15. mínútu og kom D/R í 2-0.
Staðan var 2-0 í hálfleik, en í síðari hálfleik gerðist fátt markvert, en D/R voru þó sterkari liðið í leiknum. Lokatölur voru 2-0 fyrir Dalvík/Reyni og góður sigur á annars sterku liði Austfirðinganna.
Leikskýrslu KSÍ má lesa hér.