Dalvík/Reynir og Leiknir F. mættust í Lengjubikarnum í dag í Boganum á Akureyri. Bæði lið höfðu leikið einn leik í riðlinum fyrir þennan leik og var Leiknir með 1 stig en Dalvík 0 stig.
Á 21. varð Leiknir fyrir því óláni að skora sjálfsmark og komst Dalvík því yfir 1-0. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Númi Kárason sitt fyrsta mark og kom Dalvík í 2-0. Pálmi Birgisson kom svo Dalvík í 3-0 á 27. mínútu og var staðan því 3-0 í hálfleik. Númi Kárason skoraði sitt annað mark á 51. mínútu og var nú staðan orðin 4-0. Povilas Krasnovskis skoraði svo mark úr víti fyrir Leikni á 63. mínútu og minnkaði muninn í 4-1. Númi skoraði fjórum mínútum síðar sitt þriðja mark og breytti stöðunni í 5-1 og var svo fljótlega skipt út af eftir markið. Dalvíkingar voru ekki hættir, á 69. mínútu skoraði Pálmi sitt annað mark og staðan orðin 6-1. Jóhann Heiðar innsiglaði svo stórsigur Dalvíkur á 78. mínútu, staðan orðin 7-1 en fleiri urðu mörkin ekki. Frábær leikur hjá Dalvík/Reyni í dag.