Dalvík/Reynir heimsótti Þrótt í Vogum í dag í fyrstu umferð í 2. deild karla í knattspyrnu. Þróttarar hafa sterkt lið og reynslumikla einstaklinga í sínu liði og er spáð í efri hluta deildarinnar. Því var búist við erfiðum leik í dag fyrir D/R sem eru nýliðar í deildinni. Fyrri hálfleikur fór fjörlega af stað en heimamenn fengu vítaspyrnu á 11. mínútu og úr henni skoraði Pape Mamadou Faye og kom Þrótti í 1-0. Aðeins rúmum tíu mínútum síðar fengu D/R vítaspyrnu og úr henni skoraði Borja Lopez Laguna. Staðan var því 1-1 í hálfleik og gerðu heimamenn strax skiptingu á 46. mínútu þegar Brynjar Kristmundsson kom inná fyrir Miroslav Babic, sem var kominn á gult spjald.
Dalvík/Reynir gerði þrjár skiptingar í síðari hálfleik, en allt virtist stefna í jafntefli, en síðustu mínútur leiksins voru fjörugar. Jóhann Örn skoraði á 88. mínútu fyrir D/R og kom þeim í 1-2. En aðeins þremur mínútum síðar skoraði Þróttur jöfnunarmark og var það varamaðurinn Brynjar Kristmundsson sem það gerði og tryggði heimamönnum stig í leiknum. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-2 á Vogaídýfuvelli. Fyrsta stigið komið í hús hjá D/R og næsti leikur er gegn KFG á útivelli 11. maí kl. 16:00.