SSNV (Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra) stendur fyrir samfélagsmiðladeginum #landsbyggðafyrirtæki (e. #ruralbusiness day) í samstarfi við Digi2Market þann 19. janúar næstkomandi.
Markmiðið er að vekja athygli á því frábæra fólki, þjónustu og vörum fyrirtækja í landsbyggðunum, sem eiga stóran þátt í að styðja við og byggja upp samfélögin í hinum dreifðari byggðum. Með því að taka þátt í deginum fá fyrirtæki í landsbyggðunum aukinn sýnilega, fá tækifæri til að vaxa, styrkir viðskiptatengsl þeirra út um Evrópu.
Á samfélagsmiðladeginum eru notendur hvattir til að segja frá uppáhalds fyrirtækinu sínu í heimabyggð, deila sinni starfsemi með því að nota myllumerkið #landsbyggðafyrirtæki eða #ruralbusiness day. Það geta allir tekið þátt í deginum, s.s. fyrirtækjaeigendur, starfsfólk, vinir, fjölskylda, íþróttafélög, samtök, einstaklingar sem eiga viðskipti við fyrirtæki í landsbyggðunum, áhrifavaldar og í rauninni bara hver sem er, sem vill styðja við rekstur í landsbyggðunum.
,,Lítil og meðalstór fyrirtæki í landsbyggðunum eiga stóran þátt í að styðja við og byggja upp samfélögin í hinum dreifðari byggðum. En frumkvöðlarnir á bak við fyrirtækin upplifa sig oft einangraða og skynja erfiðleika við að komast inn á stærri markaði. Digi2Market tengir þau við tengslanet á netinu og hjálpar þeim við að auka markaðshlutdeild sína og vaxa. Þú getur hjálpað þeim með því að deila því sem þér finnst best við þau“ segir Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi hjá SSNV.
Digi2Market er samstarfsverkefni sex aðila frá Írlandi, Norður-Írlandi, Finnlandi og Íslandi, sem vinnur að bættum möguleikum fyrirtækja í hinum dreifðu byggðum landanna til að bæta aðgengi fyrir vörur sínar og þjónustu að mörkuðum utan upprunasvæðisins. SSNV er þátttökuaðili Íslands í verkefninu og hefur unnið með fyrirtækjum á Norðurlandi vestra í stafrænum markaðsmálum.
Hérna má finna nánari upplýsingar um hvernig efni þú gætir deilt.
Texti og myndir: Aðsend fréttatilkynning.