Í dag, sunnudaginn 1. desember kl. 15.00 verður dagskrá á Ljóðasetrinu á Siglufirði tileinkuð Davíð Stefánssyni frá Fagraskógi í tilefni þess að í ár eru liðin 100 ár frá því að fyrsta ljóðabók hans, Svartar fjaðrir, kom út. Bókin vakti mikla athygli, vægast sagt, og nýtt þjóðskáld var fætt.

Í dagskránni verður fjallað um lífshlaup Davíðs, verk og ljóð hans verða lesin og sungin.

Auk þess hefur verið sett upp sérsýning með bókum hans og fleiru honum tengt og fyrir þá sem vilja eignast ljóðabækur Davíðs þá verða þau aukaeintök af bókum hans á sérstöku tilboðsverði.

Þessi dagskrá er liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem styrkt er af Fjallabyggð og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Enginn aðgangseyrir, allir velkomnir.