Category Archives: Skagafjörður

Sæluvikan 2012 er hafin í Skagafirði

Sæluvikan í Skagafirði er hafin. Dagskráin er fjölbreytt að vanda. Hægt er að sjá alla dagskránna í bæklingi hérna fyrir alla dagana.

Dagskráin í dag 1. maí.

Talnaspeki :: SUNDLAUG SAUÐÁRKRÓKS
Benedikt Lafleur býður upp á talnagreiningu.

Nudd og dekur :: SUNDLAUG SAUÐÁRKRÓKS
Þorgerður Eva Þórhallsdóttir býður upp á nudd og dekur í vatni.

13-16.00 Opinn dagur hjá Skotfélaginu Ósmann :: SKOTSVÆÐI ÓSMANNS Á REYKJASTRÖND
13-17.00 Stefnumót á Krók

:: SAFNAHÚSIÐ
Myndlistarsýning Sossu og Tolla er opin í Safnahúsinu frá kl. 13–17 alla daga.
14.00 Vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar

:: MENNINGARHÚSIÐ MIÐGARÐUR
Almennir tónleikar kl. 14:00 og 14:30.
o15.00 Hátíðarhöld 1. maí

:: BÓKNÁMSHÚS FNV
Stéttarfélögin í Skagafirði bjóða félagsmönnum sínum
til hátíðardagskrár í tilefni dagsins.
16-19.00

Litbrigði samfélags :: GÚTTÓ, SAUÐÁRKRÓKUR
Samsýning listamanna í Myndlistarfélaginu Sólon úr Skagafirði og nágrenni.
16-18.00

Opið hús :: GISTIHEIMILIÐ MIKLIGARÐUR
17.00 Vortónleikar Tónlistarskóla Skagafjarðar

:: MENNINGARHÚSIÐ MIÐGARÐUR Tónleikar strengjadeildar.
20.30 Tveir tvöfaldir :: BIFRÖST
Leikfélag Sauðárkróks sýnir leikrit eftir Ray Cooney. Leikstjóri: Ingrid Jónsdóttir.
Miðapantanir í síma 849 9434.

Sveitarfélagið Skagafjörður í mál við Lánasjóð Sveitarfélaga?

Á fundi byggðarráðs í morgun var fjallað um lögmæti lánssamnings við Lánasjóð sveitarfélaga frá árinu 2007. Um er að ræða lán sem tekið vegna framkvæmda hjá Skagafjarðarveitum að upphæð 115 milljón kr. sem síðan u.þ.b. tvöfaldaðist í hruninu. Um verulegar upphæðir er því að tefla fyrir sveitarfélagið.

Í bréfi sem Ergo lögmenn f.h. Sveitarfélagsins Skagafjarðar rituðu Lánasjóði sveitarfélaga var farið fram á að sjóðurinn endurreiknaði lánið í samræmi við dóm Hæstaréttar nr.600/2011 og óskað eftir afstöðu sjóðsins varðandi það sem ofgreitt hefur verið. Fram kom að Lánasjóður Sveitarfélaga getur ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins og fól Byggðarráð sveitarstjóra að sækja rétt sveitarfélagsins í málinu.

 

Heimild: skagfirdingur.wordpress.com

Texti: Sigurður Árnason

Kennara vantar í Varmahlíðarskóla

Við Varmahlíðarskóla eru eftirtaldar kennarastöður lausar til umsóknar:

 • Starf textílkennara fyrir næsta skólaár. Um er að ræða 80% starf. Gerð er krafa um háskólamenntun í faginu sem og kennslureynslu.
 • Starf vélsmíðakennara fyrir næsta skólaár. Um er að ræða 40% starf. Gerð er krafa um menntun í vélsmíði sem og kennslureynslu.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi KÍ og Launanefndar sveitarfélaga. Nánari upplýsingar um störfin gefur Ágúst Ólason skólastjóri í síma 455-6020. Umsóknir sendist á netfangið agust@varmahlidarskoli.is ásamt ferilskrá og mynd. Umóknarfrestur er til 9. maí.

Sundlaugin á Hofsósi opin næstu helgar

Mikið verður um að vera í Skagafirði um næstu helgi, í upphafi Sæluviku og viðburðir í gangi alla vikuna, allt fram til sunnudagsins 6.maí. Reiknað er með að fjölmargir gestir heimsæki fjörðinn  og þá er tilvalið að fara í einhverja af sundlaugunum okkar.

Sundlaugin á Hofsósi er mjög eftirsótt og verður afgreiðslutími laugarinnar aukinn bæði í upphafi og lok Sæluviku. Þannig verður opið frá klukkan 10-17 bæði laugardaginn 28.apríl  og sunnudaginn 29.apríl og svo 5. og 6. maí.

Fyrir þá sem kjósa að fara í Sundlaugina á Sauðárkróki, kíkja í hina frægu “heitu potta”, skella sér í gufu eða prófa Infra-rauða undraklefann , þá er opið laugardaga og sunnudaga frá kl. 10-16 og virka daga frá kl. 6.50-20.45 .

Sundlaugin í Varmahlíð, þar sem börnin geta farið í rennibraut og hægt að teygja úr sér í heitum potti, nú eða taka góðan sundsprett, þá  er opið á laugardögum frá kl. 10-15. Við bjóðum alla hjartanlega velkomna í sund í Skagafirði.

Ef hópar vilja komast í laugarnar utan afgreiðslutíma er þeim bent á að hafa samband við Ótthar, umsjónarmann íþróttamannvirkja á netfangið  otthar@skagafjordur.is

Kristján Björnsson býður sig fram til vígslubiskups á Hólum

Tilkynning frá Kristjáni er svo hjóðandi:

Ég býð mig fram til vígslubiskups á Hólum vegna þess að ég hef áhuga á að vinna með öllu því góða fólki sem starfar í kirkjunni í umdæminu. Ég legg áherslu á stuðning vígslubiskups við þjónustu kirkjunnar og boðun hennar á hverjum stað, gott samfélag og trúmennsku.

Ég vígðist í Hóladómkirkju 1989 og þjónaði í Vestur Húnavatnssýslu fyrstu níu árin, en hef verið sóknarprestur í Vestmannaeyjum frá 1998. Það er von mín að reynslan af prestsþjónustunni og ýmsum trúnaðarstörfum í þágu kirkjunnar geti nýst vel í embætti vígslubiskups.

Það virkar vel á mig að embætti biskupanna eru í deiglu innan kirkjunnar og það þarf að taka stöðu þeirra og hlutverk til umræðu.

Eiginkona mín er Guðrún Helga Bjarnadóttir, leikskólakennari og leiðbeinandi hjá Blátt áfram.

Nemandi úr Varmahlíðarskóla vann Stærðfræðikeppnina

Föstudaginn 20. apríl fór fram stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og 9. bekkjar, en keppnin hefur nú verið haldin árlega í fimmtán ár.

Í fyrsta sæti var Hákon Ingi Stefánsson, Varmahlíðarskóla, í öðru sæti var Valdimar Daðason, Dalvíkurskóla og í þriðja sæti var Ásdís Birta Árnadóttir, Höfðaskóla.  Undankeppni stærðfræðikeppninnar fór fram í 15. mars og tóku 115 nemendur frá Norðurlandi vestra,  Fjallabyggð og Dalvíkurskóla þátt í henni. Að þessu sinni komust 14 nemendur í úrslitakeppnina.

Af þeim voru 2 frá Árskóla, 3 frá Varmahlíðarskóla, 1 frá Höfðaskóla, 3 frá Blönduskóla, 2 frá Grunnskóla Húnaþings vestra, 2 frá Grunnskóla Fjallabyggðar og 1 frá Dalvíkurskóla.

Stærðfræðikeppnin er samstarfsverkefni FNV, grunnskóla, stofnana og fyrirtækja á Norðurlandi vestra auk þess sem fyrirtæki utan kjördæmisins koma að verkefninu. Kennarar í stærðfræði við FNV báru hitann og þungann af gerð og yfirferð keppnisgagna, en grunnskólarnir sáu um fyrirlögn dæmanna í undankeppninni.

Byggðarráð Skagafjarðar varar við kvótafrumvörpum

Byggðarráð Skagafjarðar hefur samþykkt eftirfarandi ályktun:

Við undirrituð vörum Alþingi sterklega við því að samþykkja fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og veiðigjöld. Greinargerð óháðra sérfræðinga, sem fylgir frumvörpunum og sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðuneytisins, ætti að hvetja löggjafann að staldra við og ígrunda gaumgæfilega áhrif lagasetningarinnar á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og á sjávarbyggðir landsins. Sérfræðingarnir búast við ”umhleypingum á næstu árum meðan útgerðin lagar sig að breyttum aðstæðum“ og segja að áformuð lagasetning muni verða ”mjög íþyngjandi fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja“. Enn fremur að hækkun veiðigjalds muni án efa ”kippa stoðum undan skuldsettari útgerðarfyrirtækjum.“ Þá benda sérfræðingarnir á að byggðaaðgerðir frumvarpsins séu ”ólíklegar til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að“, enda skorti enn þann ”langtímastöðugleika sem getur skapað grundvöll fyrir uppbyggingu atvinnulífs í sjávarbyggðum“. Undirritaðir telja að þessi varnaðarorð, sem fylgja frumvörpunum, séu meira en næg ástæða fyrir alþingismenn til að leggja málin til hliðar frekar en að stuðla að því að lögfesta þau og stuðla þannig að ”umhleypingum“ með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki í sjávarbyggðum landsins, m.a. mögulegri lækkun launa sjómanna og fiskverkafólks, lækkunar útsvarstekna sveitarfélaga, minni fjárfestingagetu sjávarútvegsfyrirtækja á landsbyggðinni og þar með en minni atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni en nú er. Við slíkt verður ekki unað.

Stefán Vagn Stefánsson, Bjarni Jónsson, Jón Magnússon og Þorsteinn T. Broddason.

Hlaupa 65 km til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar

Á morgun miðvikudaginn 17. apríl  munu nemendur 7. og 8. bekkjar Varmahlíðarskóla hlaupa áheitahlaup til styrktar Krabbameinsfélagi Skagafjarðar, en undanfarna daga hafa þeir verið að safna áheitum til málefnisins. Stefnt er að hlaupa 65 km hring: Frá Varmahlíð út á Sauðárkrók, yfir Hegranesið, fram úthlíð Blönduhlíðar og aftur í Varmahlíð meðfram þjóðvegi 1.

Hefja fyrstu menn hlaupið klukkan 10 og áætlað er að þeir síðustu mæti um kvöldmatarleytið aftur í Varmahlíð. Í dag er síðasti dagur nemenda til að safna áheitum og vonast er til að tekið verði vel á móti þeim.

Á morgun, miðvikudaginn 17. apríl klukkan 12:40 verða svo sömu bekkir með fræðslu og skemmtun um tóbak og notkun þess, en bæði fræðslan og áheitahlaupið eru framlag verkefnisins Tóbakslaus bekkur sem Landlæknisembættið heldur utan um.

Heimild: Feykir.is

Námskeið í Fyrstu hjálp 1 á vegum Skagfirðingasveitar

Námskeið í Fyrstu hjálp 1 verður haldið í Sveinsbúð á vegum Björgunarsveitarinnar Skagfirðingasveitar.

Námskeiðin verða dagana:

 • Mánudaginn 16. apríl kl 18-22
 • Þriðjudaginn 17. apríl kl 18-22
 • Sunnudaginn 22. apríl kl 10-17
 • Mánudaginn 23. apríl kl 18-22

Skráning með því að senda sms í síma 892-6073 (Ásta Birna Jónsdóttir).

Heimasíða sveitarinnar er www.bjargari.is

Jarðstrengur of dýr um Skagafjörð

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir að ekki komi til greina miðað við núverandi aðstæður að leggja nýja Blöndulínu í jarðstreng um Skagafjörð. Landeigendur þar segjast ekki munu leyfa lagningu loftlínu yfir þeirra lönd.

Landsnet undirbýr nú lagningu nýrrar 220 kílóvolta háspennulínu frá Blönduvirkjun til Akureyrar, Blöndulínu 3. Með henni á að styrkja flutningskerfið því núverandi byggðalína uppfyllir ekki lengur kröfur um flutningsgetu. Tvær tillögur eru um lagningu línunnar um Skagafjörð og gerir önnur ráð fyrir svokallaðri Efribyggðarleið. Landeigendur þar hafa lýst því yfir að þeir muni alfarið hafna lagningu loftlínu og benda þess í stað á lagningu jarðstrengs.

Þórður segist þeirrar skoðunar að Landsnet geti ekki með góðu móti hafið þá vegferð að leggja jarðstrengi á alhæstu spennum vegna þess mikla kostnaðarmunar sem sé á milli línulagningar og jarðstrengs.

Þórður bendir á að nær allar nýjar lagnir fyrir lægri spennu séu í formi jarðstrengja. Blöndulína 3 verði hinsvegar ekki byggð fyrir lægri spennu en 220 kílóvolt og miðað við núverandi aðstæður muni kostnaður við slíkan jarðstreng hafa veruleg áhrif á flutningsverð raforku til lengri tíma litið. Hinsvegar liggi fyrir Alþingi þingsárlyktunartillaga um frekari jarðstrengjavæðingu, niðurstöðu þar sé að vænta næsta haust.

Þórður segir að ekkert sé þannig í pípunum að rjúka þurfi af stað í þetta verkefni að leggja Blöndulínu 3. Landsnet vilji gera það sem allra fyrst en geti alveg beðið í einhverja mánuði í viðbót eftir því að taka skynsamlega ákvörðun.

Heimild: Rúv.is

Stebbi og Eyfi með tónleika í Skagafirði í apríl

Tveir af mestu lagahöfundum Íslands, þeir  Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson, Stebbi og Eyfi, verða með tónleika í Sauðárkrókskirkju miðvikudaginn 25. apríl kl. 20:30. Kapparnir eru á tónleikaferð um landið og flytja nokkrar notalegar ábreiður í bland við annað efni sem þeir hafa flutt í gegnum tíðina.

Þeir verða einnig með tónleika í Hofsósskirkju fimmtudaginn 26. apríl kl. 20:30.

Stefán og Eyjólfur hafa starfað saman í áratugi og komu meðal annars fram í Eurovison fyrir Íslands hönd árið 1991 með lagið Nína. Þá hafa þeir gefið undanfarin ár út plöturnar “Nokkrar notalegar ábreiður” og “Fleiri notalegar ábreiður”

Landeigendur í Skagafirði vilja Blöndulínu í jörðina

Mikil óánægja er meðal landeigenda í Skagafirði með að leggja eigi tvö hundruð og tuttugu kílóvolta loftlínu frá Blöndustöð að Akureyri. Landeigendur munu ekki leyfa að línan verði lögð yfir þeirra lönd, segir fulltrúi þeirra.

Landsnet hyggst leggja 200 kílóvolta loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar, svokallaða Blöndulínu, sem yrði samtals 107 kílómetra löng. Línan á meðal annars að liggja um svokallaða Efribyggðarleið í Skagafirði, en samkvæmt frummatsskýrslu er gert ráð fyrir talsvert neikvæðum áhrifum á nokkrum bæjum þar, frá Kolgröf að Brúnastöðum, vegna nálægðar við línuna.

Helga Rós Indriðadóttir, fulltrúi landeigenda, segir kröfu þeirra þá að línan verði lögð í jörð.

„Hins vegar er það ljóst að 220 kílóvolta lína er ansi hreint ríflegt til að sinna raforkuþörf almennings. Hér er um að ræða línu sem mun þjóna hagsmunum stóriðju.“

Landsnet segir hins vegar að tilgangurinn sé að styrkja flutningskerfið. Núverandi byggðalína fullnægi ekki þeim kröfum sem séu gerðar. Helga Rós segir að athugasemdir verði sendar við þessar áætlanir.

„Landeigendur hér munu hafna þessu. Þeir munu ekki leyfa það að loftlína verði lögð í gegnum þeirra lönd.“

Heimild: Rúv.is

Torfhleðslu- og grindarnámskeið

Fyrirhugað er að halda torfhleðslu- og grindarnámskeið á Tyrfingsstöðum á Kjálka, á vegum Fornverkaskólans, dagana 7. til 10. júní 2012 í samstarfi við heimamenn og Byggðasafn Skagfirðinga.

Kennarar á námskeiðinu verða Helgi Sigurðsson hjá Fornverki ehf. og Bragi Skúlason húsasmíðameistari. Verkefni námskeiðsins verður m.a. að hlaða torfveggi baðstofunnar og smíða einfalda húsgrind, úr timbri.

Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu Fornverkaskólans og hægt er að skrá sig á námskeiðið hjá Bryndísi í síma 453 5097 eða á netfangið bryndisz@skagafjordur.is .

Meistarakeppni Norðurlands

Bjarni Jónasson fagnaði sigri á lokakvöldi Meistaradeildar Norðurlands sem fram fór í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki í vikunni en keppt var í slaktaumatölti og skeiði.

Keppnin var æsispennandi og á endanum voru það fimm sekúndubrot sem réðu úrslitum. Mesta baráttan stóð á milli Bjarna Jónassonar sem hafði fyrir lokakvöldið 22 stig og Sölva Sigurðarsonar sem var með einu stigi minna. Sölvi endaði svo einu sæti ofar en Bjarni í fyrri keppnisgrein kvöldsins, slaktaumatölti, og þeir voru jafnir fyrir lokagreinina sem var skeið.

Mette Mannseth á Þúsöld frá Hólum rann skeið sprettinn á fimm sekúndum sléttum. Hestur Sölva, Steinn frá Bakkakoti, lá ekki í fyrri ferð en Bjarni og Hrappur frá Sauðárkróki náðu frábærum tíma 5,09 og settu pressu á Sölva fyrir seinni umferðina. Mette bætti tímann í 4,96 en Sölvi jafnaði tíma Bjarna og Hrapps og spennan í loftinu var mikil. Seinni sprettur Bjarna og Hrapps var magnaður og tíminn 5,04 sem tryggði honum sigur í heildarstigakeppni Meistaradeildar Norðurlands þetta árið.

Atvinnumál kvenna úthlutar styrkjum

Kanína ehf, fyrirtæki Birgit Kositzke á Hvammstanga, fékk 1,5 milljón króna styrk úr úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna sem fram fór í vikunni en alls hlutu 36 verkefni styrk að upphæð alls 26 milljónum króna. Þá hlaut Guðbjörg Guðmundsdóttir frá Sauðárkróki 850 þúsund króna styrk fyrir verkefnið “Járnviðja – færanlegur skjólveggur”. Einnig hlaut Hildur Þóra Magnúsdóttir frá Skagafirði 400 þús. kr. styrk fyrir verkefnið “Culture tasting”.

Alls fóru 22 styrkir fóru til kvenna á höfuðborgarsvæðinu en 14 til kvenna á landsbyggðinni og eru styrkirnir veittir til markaðssetningar, vöruþróunar, launakostnaðar og ennfremur til gerðar viðskiptaáætlana.

Hæstu styrkina hlutu Icelandic Cinema online, 2.000.000 vegna vöruþróunar verkefnisins Icelandic film locations og Tungumál og menning, 1.600.000 vegna verkefnisins Lifandi tungumálakennsla. Þriðja hæsta styrkinn hlaut Birgit Kositzke á Hvammstanga vegna uppbyggingar kanínuræktar.

Styrkir voru til fjölbreyttra verkefna og má þar nefna styrk til þarabaða á Reykhólum, vegna baðvörulínu, bílabingós, framleiðslu á duftkerum, til framleiðslu jurtakryddsalts úr íslensku salti, handtuftaðra motta, markaðssetningu prjónaferða, snúningslaka, færanlegs skjólveggur, heilsukodda og ostagerðar.

Sjá má lista yfir styrkhafa ársins 2012 með því að smella hér.

Sumarstörf í Skagafirði

Starfsmaður við persónulega þjónustu ótg.

Málefni fatlaðra- Sumarstörf í Skagafirði

Fyrirtæki/stofnun: Sveitarfélagið Skagafjörður

Óskað er eftir starfsfólki af báðum kynjum, 20 ára og eldri í sumarafleysingar 2012.

Reynsla af starfi með fötluðu fólki æskileg. Starfstími er frá júníbyrjun til loka ágúst. Eftirfarandi starfsstöðvar óska eftir sumarafleysingum:

Frekari liðveisla:

Um það bil 50% starfshlutfall, vaktavinna og dagvinna.

Upplýsingar gefur Steinunn í síma 899 2003 eða á steinunnr@skagafjordur.is

Iðja- Hæfing:

Starfshlufall samkomulag, dagvinna.

Upplýsingar gefur Jónína í síma 453 6853 eða á idja@skagafjordur.is

Sambýlið Fellstúni:

Starfshlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Edda í síma 453 6692 eða á fellstun@skagafjordur.is

Skammtímavistun:

Starfhlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Dóra Heiða í síma 692 7511 eða á doraheida@skagafjordur.is

Þjónustuíbúðir Kleifatúni:

Starfshlutfall samkomulag, vaktavinna.

Upplýsingar gefur Steinunn í síma 899 2003 eða á steinunnr@skagafjordur.is

Umsóknarfrestur er til 1. apríl. Launakjör miðast við kjarasamninga Öldunar stéttarfélags, starfsmannafélags Skagafjarðar við Sveitarfélagið Skagafjörð.

Umsækjendur eru hvattir til að nýta umsóknareyðublað í íbúagátt sveitarfélagsins, rafræn umsóknareyðublöð eru einnig á vef sveitarfélagsins – www.skagafjordur.is

Starfsmaður óskast á minnkabú

Landbúnaðarverkamaður, ósérhæfður

Minnkabú – Skagafjörður.

Fyrirtæki/stofnun: Vinnumálastofnun Norðurl vestra

Starfsmaður óskast í fullt starf á minnkabú í Skagafirði. Um framtíðarstarf er að ræða. Vinnutími er frá 8:00-17:00 virka daga. Áhugasamir beðnir að hafa samband við Vinnumálastofnun Norðurlandi vestra í síma 455-4200 eða á netfangið: nordurland.vestra@vmst.is

Íslenska fánasaumastofan á Hofsósi leitar að starfsmanni

Saumakona/-maður og útsaumari

Saumastofa- “Vinnandi Vegur” Hofsós.

Fyrirtæki/stofnun: Íslenska fánasaumastofan

Íslenska fánasaumastofan á Hofsósi leitar að starfsmanni í fullt starf.

Starfið er hluti af átakinu “Vinnandi vegur”.

Nánari upplýsingar veitir Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra á netfanginu : nordurland.vestra@vmst.is eða í síma 455-4200.

Sumarstarf í ferðaþjónustu á Hofsósi

Ráðgjafi eða sölumaður í ferðaþjónustu Ferðaþjónusta – “Vinnandi vegur ” Hofsós.

Fyrirtæki/stofnun: Vesturfarasetrið ses

Vesturfarasetrið leitar að starsfólki í ferðaþjónustutengd störf í sumar. Störfin eru hluti af átakinu “Vinnandi vegur”. Nánari upplýsingar veitir Vinnumálastofnun á Norðurlandi vestra á netfanginu : nordurland.vestra@vmst.is eða í síma 455-4200.

Auglýst eftir viðburðum í Sæluviku í Skagafirði

Setning Sæluvikunnar fer að þessu sinni fram á atvinnulífssýningunni Skagafjörður – Lífsins gæði og gleði, í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki 29. apríl.
Þeir sem hafa hug á að setja upp viðburð í Sæluvikunni er bent á að hafa samband við Áskel Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóra Markaðs- og þróunarsviðs; heidar@skagafjordur.is eða í síma 455 6000 fyrir 1. apríl nk.

Gvendardagur á Hólum

Gvendardagur verður haldinn á Hólum föstudaginn 16. mars. Dagskráin hefst með veitingum í Auðunarstofu kl. 16:00. Að málþingi loknu verða síðan tónleikar í Hóladómkirkju.

Magnea Tómasdóttir sópransöngkona og Guðmundur Sigurðsson organisti
flytja sálmalög í útsetningu Smára Ólasonar.
Aðgangur í boði Hóladómkirkju.

Reiðnámskeið Háskólans á Hólum

Reiðkennarabraut Háskólans á Hólum heldur reiðnámskeið fyrir hinn almenna hestamann (16 ára og eldri), dagana 22. – 25. mars.

Lögð verður áhersla á ásetu og stjórnun, samspil knapa og hests og að bæta jafnvægi á gangtegundum. Nemandi verður að mæta með taminn hest og búnað.

Hægt er að fá stíu og fóður fyrir hestinn meðan á námskeiðinu stendur og er verð þá 1000 kr. sólarhringurinn á hest.

Annars er kennsla nemendum að kostnaðarlausu.

Hægt verður að kaupa hádegismat á staðnum um helgina.

Dagskrá:

22. mars, fimmtudagur: kl 17:00 – 21:00
23. mars, föstudagur: kl 17:00 – 21:00
24. mars, laugardagur: kl 9:00 – 17:00
25. mars, sunnudagur: kl 9:00 – 16:00

Skráning fyrir 18. mars, hér

Nánari upplýsingar veita:
Anna Rebecka – 856-5882
Bergþóra – 895-7906

Flass FM 93,7 næst nú í Skagafirði

Útvarpsstöðin Flass 104,5 hefur hafið útsendingar í Skagafirði á tíðninni FM 93.7. Útsendingarsvæði stöðvarinnar er nú á Höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og nú í Skagafirði en ráðgert er að stækka útsendingarsvæðið enn frekar.

„Starfsfólk Flass óskar Skagfirðingum nær og fjær til hamingju með nýja og ferska tóna“ segir í fréttatilkynningu en þar kemur einnig fram að Flass hefur verið leiðandi í nýrri og ferskri tónlist fyrir ungt fólk á Íslandi í rúm 6 ár. Á stöðinni starfa þekktir útvarpsmenn og má þar nefna Þröst 3000, Yngva Eysteins og Sigga Gunnars.

Árshátíð Léttfeta

Árshátíð hestamannafélagsins Léttfeta verður föstudagskvöldið 2. mars nk. þar sem boðið verður upp á enn eina magnaða skemmtun.
Maturinn sem verður sem fyrr eldaður af félagsmönnum og rennur allur afrakstur til kaupa á eldhústækjum í Tjarnarbæ.
Dulmögnuð skemmtiatriði verða á dagskrá og í veislustjórn var narraður Guðmundur Sveinsson. Geiri og Jói munu svo halda fólkinu í skagfirskri sveiflu fram á nótt.
Einungis 100 miðar eru í boði og stendur forsalan fram til kl. 20:00 þriðjudagskvöld 28. feb hjá Steinunni í síma 865-0945 og Camillu í síma 869-6056.

Miðaverð er hlægilega lágt eða aðeins kr. 4000.
Húsið opnar kl. 19:30 og dagskrá hefst stundvíslega kl. 20:00.

Meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði lagt niður?

Til greina kemur að leggja meðferðarheimilið Háholt í Skagafirði niður og flytja starfsemina til höfuðborgarinnar. Barnaverndarstofa er nú með málefni heimilisins til skoðunar.

Háholt er eitt þriggja meðferðarheimila úti á landsbyggðinni á vegum Barnaverndarstofu en þar eru vistaðir unglingar á aldrinum 15-18 ára. Á undanförnu ári hafa starfsmenn heimilisins orðið fyrir alvarlegum árásum af hendi unglinganna og brotthlaup verið tíð með tilheyrandi leitarkostnaði. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Sauðárkróki er fólk á nærliggjandi bæjum orðið órólegt vegna hinna tíðu stroka og hrætt um sig og eigur sínar.

Barnaverndarstofa hefur nú málefni Háholts til skoðunar en samningur við núverandi rekstraraðila rennur út í sumar. Stofnunin hefur lagt til við Velferðarráðuneytið að opnuð verði ný stofnun í Reykjavík fyrir elstu og erfiðustu unglingana og myndi hún þá hugsanlega leysa Háholt af hólmi.

Halldór Hauksson, sviðsstjóri meðferðar- og fóstursviðs, segir að þótt margt mæli með því að hafa meðferðarheimili út á landi, þá sé líka margt sem mæli á móti því. Aðallega vegna þeirra hugmynda sem fólk hafi í dag um meðferð, því hún þurfi í auknum mæli að miða út frá félagahópi, fjölskyldu, skóla og atvinnuúrræðum.

Þótt reynt hafi verið að bæta öryggi á Háholti segir Halldór að aldrei verði hægt að koma í veg fyrir að unglingar strjúki af heimilinu enda hafi starfsfólkið ekki valdheimildir til þess að koma í veg fyrir brotthlaup. Þetta sé í rauninni opin eða hálfopin meðferð, sem þýði það að menn geti í rauninni farið með ýmsum ráðum.

Heimild: Rúv.is

Verkefnastyrkir frá Menningarráði Norðurlands

Menningarráð Norðurlands vestra auglýsir eftir umsóknum um verkefnastyrki á grundvelli menningarsamnings mennta- og menningarmálaráðuneytis og iðnaðarráðuneytis við SSNV.

Tilgangur styrkjanna er að efla menningarstarf og menningartengda ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Menningarráð Norðurlands vestra hefur ákveðið að hafa eina úthlutun á árinu 2012, með umsóknarfresti til og með 15. mars.
Menningarráð hefur ákveðið að þau verkefni hafi forgang sem uppfylla eitt eða fleiri eftirtalinna atriða:

 •  Fjölga atvinnutækifærum á sviði menningar og lista.
 •  Efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu.
 •  Stuðla að nýsköpun og þróun í menningu og menningartengdri ferðaþjónustu.
 •  Menningarstarfsemi styðji við ferðaþjónustu.
 •  Verkefni sem stuðla að þátttöku allra þjóðfélagshópa í menningarstarfi.
 •  Verkefni sem leiða til samstarfs við önnur lönd á sviði menningar og lista.
 •  Verkefni sem draga fram staðbundin eða svæðisbundin menningareinkenni eða menningararf.

Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög á Norðurlandi vestra. Umsækjendum er bent á að kynna sér nánar Úthlutunarreglur 2012 á www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð.

Umsóknir skulu vera á eyðublöðum Menningarráðs Norðurlands vestra sem hægt er að nálgast á heimasíðunni www.ssnv.is undir liðnum Menningarráð. Í umsókninni skal m.a. vera greinargóð lýsing á verkefninu með verkáætlun og tímasetningum, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun) og upplýsingar um aðstandendur.

Umsóknir skulu sendar Menningarfulltrúa Norðurlands vestra, Einbúastíg 2, 545 Skagaströnd, eigi síðar en 15. mars 2012. Þær má senda rafrænt á netfangið menning@ssnv.is. Séu þær sendar í pósti skulu þær póststimplaðar eigi síðar en síðasta umsóknardag.

Allar nánari upplýsingar og aðstoð veitir Ingibergur Guðmundsson menningarfulltrúi Norðurlands vestra, símar 452 2901 / 892 3080, netfang menning@ssnv.is.

Hægt er að sækja skjalið í heild sinni hér.

Vísnavefur Héraðsskjalasafns Skagfirðinga opinn aftur

Hinn frábæri upplýsingabrunnur um Vísnasafn Skagfirðinga hefur nú verið opnaður á nýjum stað.  Fjölmargar góðar vísur er þar að finna sem gaman er að kíkja á.  Nýja slóðin er:  http://www.bragi.arnastofnun.is/skag/

 

Hérna er ein góð í tilefni Öskudags sem senn líður að:

Allir hlæja á öskudaginn.
Ó, mér finnst svo gaman þá.
Hlaupa lítil börn um bæinn
og bera poka til og frá.

Höf: Ókunnugur.