Category Archives: Norðurland

Hljóðupptökur Fræðifélags Vestur-Húnvetninga

Þann 8. júní var opnaður nýr vefur ismus.is þar sem verður hægt að hlusta á hljóðupptökur í eigu Fræðafélags Vestur-Húnvetninga sem hafa verið í geymslu Héraðsskjalasafnsins á Hvammstanga. Upptökurnar eru meðal annars viðtöl með lífsferilssögum 42 sveitunga frá 7.-10. áratug síðustu aldar, ásamt upptökum af mannamótum, skemmtunum og pólitískum fundum.Vefurinn með húnvetnsku upptökunum er undir heitinu “Fræðafélag”

Afritun og skráning heimildanna er verkefni unnið að frumkvæði Rannsóknarseturs HÍ á Norðurlandi vestra á Skagaströnd í samvinnu við Tónlistarsafn Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Miðstöð munnlegrar sögu og Forsvars ehf. á Hvammstanga sem sá um skráninguna,.

 Vaxtarsamningur Norðurlands vestra, Menningarsamningur Norðurlands vestra, Húnaþing vestra og Þjóðhátíðarsjóður styrktu verkefnið.

Heimild: Skagastrond.is

Malarvegum illa viðhaldið

Viðhald á þjóðvegum landsins er í algeru lágmarki vegna niðurskurðar undanfarin ár. Ástandið er verst á malarvegum og óttast menn að sá hluti vegakerfisins sé að grotna niður.

Þeir sem aka reglulega um malarvegi þekkja vel hve mikilvægt það er að bera reglulega ofan í þá og hefla.  En malarvegir hafa orðið illa úti vegna niðurskurðar á peningum til viðhalds undanfarin ár. Og það er ekki útlit fyrir aukið fé á þessu ári.

Á veginum um Bárðardal, svo dæmis séu tekin, stendur stórgrýti upp úr veginum og erfitt er að ímynda sér að þetta sé þjóðvegur í byggð. En svona er þetta víða, misslæmt auðvitað, en mikið vantar upp á að þetta sé í lagi.

En þegar fjármagn skortir þarf að forgangsraða og þá er áherslan lögð á að viðhalda dýrasta hluta vegakerfisins, vegum með bundnu slitlagi.

Landstólpinn 2012 afhentur

Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði  þann 1. júní var Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði afhentur Landstólpinn árið 2012.

Auglýst var eftir tilnefningum bæði í blöðum og á heimasíðunni. Dómnefnd valdi síðan úr, því hér var ekki um kosningu að ræða, eins og tekið var fram í auglýsingunni. Hins vegar voru tekin fram nokkur atriði sem vert væri að hafa í huga við val á viðurkenningarhafa, en þau voru:

Hefur verkefnið/starfsemin/umfjöllunin:

 • Dregið fram jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði?
 • Aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu?
 • Orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til?
 • Dregið að gesti?

Ákveðið var að viðurkenningin yrði listmunur sem listafólk eða handverksfólk á því svæði þar sem fundurinn er haldinn hverju sinni hannar. Þar sem fundurinn er að þessu sinni haldinn á Sauðárkróki var ákveðið að finna skagfirskan listamann til að hanna grip. Sá heitir Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson og er myndlistamaður, myndlistakennari og sjálfstætt starfandi ljósa- og sviðshönnuður, búsettur á Sauðárkróki. Hann er menntaður myndhöggvari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1994 og er einnig menntaður rafvirki frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og kennari frá Háskólanum á Akureyri.

Ábendingar bárust víðsvegar að af landinu og alls voru 13 aðilar tilnefndir og sumir fengu fleiri en eina tilnefningu. Niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði Landstólpann árið 2012.

Dómnefnd telur að Örlygur hafi með störfum sínum undanfarin ár vakið athygli á Siglufirði á jákvæðan hátt. Segja má að árangurinn sem náðst hefur á Siglufirði byggi að miklu leyti á því frumkvöðlastarfi sem Örlygur hefur unnið gegnum tíðina.  Hann er einn af frumkvöðlunum að Síldarminjasafni Íslands, sem hefur hlotið viðurkenningar bæði  innanlands og erlendis.  Örlygur  hefur einnig staðið að uppbyggingu Herhússins og þeirri starfssemi sem þar fer fram.   Örlygur hefur verið ötull í að gera upp gömul hús á Siglufirði sem hafa breytt ásýnd bæjarins verulega.   Þau verkefni sem Örlygur hefur komið að á Siglufirði hafa breytt ásýnd og ímynd staðarins.  Hann hefur virkjað heimafólk til þátttöku í verkefnunum áhugi hans á gömlum húsum hefur smitað út frá sér og má sjá það á fjölda gamalla uppgerðra húsa á Siglufirði. Örlygur er  frumkvöðull í menningarferðaþjónustu á Siglufirði.  Fleiri hafa komið í kjölfarið,  s.s.  Þjóðlagasetrið, Herhúsið, Rauðka, Þjóðlagahátíð, Síldardagar og fl. Frá því að uppbyggingin Síldarminjasafnsins hófst hefur fjöldi gesta komið á Siglufjörð.  Eftir að Héðinsfjarðagöngin voru opnuð fjölgaði gestum Síldarminjasafnsins verulega, frá tæplega 12 þús. gestum árið 2010 í 20 þúsund árið 2011.  Því er ljóst að safnið hefur veruleg áhrif á samfélagið. Í nýrri rannsókn um áhrif atvinnuuppbyggingar á sviði menningar og lista kemur fram að uppbyggingin á Siglufirði hefur haft áhrif á samfélagið.  Jákvæð ímynd, sterkari sjálfsmynd íbúa, meiri jákvæðni í samfélaginu eru atriði sem nefnd eru.  Þetta hefur síðan áhrif á aðdráttarafl samfélagsins, bæði til búsetu og heimsóknar. Efnahagsleg áhrif eru af uppbyggingunni.

Afmælisganga á Nonnaslóð á Akureyri

Hefur þú séð Nonnasteininn? Hefur þú gengið í fótspor hins ástsæla barnabókarithöfundar Nonna? Ef ekki þá er tilvalið fyrir alla fjölskylduna að gera sér glaðan dag og ganga í fylgd kunnugra um Nonnaslóð fimmtudaginn 7. júní kl. 20.

Haraldur Þór Egilsson, sagnfræðingur og safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, leiðir gönguna sem tekur rúmlega klukkustund og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Þetta er létt og þægileg ganga þar sem farið verður stuttlega yfir lífshlaup Nonna, lesið upp úr bókum hans og staðir skoðaðir sem tengjast lífi hans og sögum.

Lagt verður af stað frá Nonnahúsi kl. 20.

Það eru afmælisnefnd Akureyrarbæjar og Minjasafnið á Akureyri sem bjóða upp á þessar forvitnilegu gönguferðir um bæinn í tilefni stórafmælisins.

Tengilflug Icelandair frá Akureyri hefst

Á morgun, fimmtudaginn 7. júní, hefst beint tengiflug Icelandair frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll við helstu áfangastaði félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Áætlað er að fyrsta vélin lendi kl. 17.30 á morgun og verður tengiflugið alla jafna í boði á sunnudögum, mánudögum, fimmtudögum og föstudögum.

Tímasetningar á fluginu í sumar verða miðaðar við það að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggi sem best við þessu tengiflugi, til dæmis New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Bandaríkjunum og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Osló í Evrópu. Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10. Þannig skapast góð tenging við komutíma frá helstu áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50 flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.

Vorvaka í Húnaveri

Vorvaka í minningu Gísla Ólafssonar skálds frá Eiríksstöðum verður haldin í Húnaveri laugardaginn 9. júní næstkomandi og hefst klukkan 14:00. Kristján Eiríksson, íslenskufræðingur hjá Árnastofnun, mun fjalla um Gísla og verk hans. Friðrún Guðmundsdóttir les ljóð eftir Gísla.

Kvæðamennirnir, Ingimar Halldórsson og Arnþór Helgason, kveða vísur Gísla m.a. Lækjarvísurnar. Sigurður Torfi Guðmundsson syngur nokkur lög við ljóð Gísla við undirleik Inga Heiðmars Jónssonar.

Kirkjukór Hraungerðis- og Villingaholtskirkna í Árnessýslu syngur við undirleik Inga Heiðmars, organista síns, sem einnig stýrir almennum söng. Kynnir er Ólafur Hallgrímsson.

Aðgangseyrir er1.500 krónur og frítt fyrir 12 ára og yngri.

(Athugið kort ekki tekin). Kaffi verður selt í hléi.

Netkerfi og tölvur ehf. deila íslenskri tónlist út á netið

Norðlenska fyrirtækið Netkerfi og tölvur ehf (www.netkerfi.is) deila nú út á netið ógrynni af tónlist, innlendri og erlendri í mp3 formi. Fari maður á slóðina www.netkerfi.is/log þá birtist þar mörg hundruð titlar af geisladiskum og einstökum lögum.

Má þarna meðal annars finna geisladisk með Geirmundi Valtýs sé eitthvað nefnt.  Hér hefur greinilega einhver opnað fyrir svokallað “share” og nú getur alþjóð sótt þessi lög, en slíkt er vitaskuld ekki leyfilegt samkvæmt lögum.

Já… Netkerfi og tölvur ehf.. Norðurlenskur valkostur í umsjón tölvukerfa.

Vilja opna Fjallavegi fyrr

Starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs segir að þurfi jafnmarga þjónustuaðila á hálendinu til að sinna tíu ferðamönnum og hundrað. Það þurfi samstillt átak margra eigi hálendisvegir að opna fyrr á sumrin.

Ferðaþjónustufólk á Norðurlandi hefur bent á að hægt sé að opna suma hálendisvegi miklu fyrr en gert er. Norðan Vatnajökuls eru sumir vegir sem ekki liggja um friðlönd með viðkvæmu lífríki orðnir auðir. Hægt væri að hleypa ferðafólki að hálendisperlum eins og Öskju og Kverkfjöllum. „Við erum mjög náttúrutengd og viljum láta náttúruna njóta vafans í öllum en  eins og núna er klárt að það má opna inn á hálendið, hálendið er tilbúið til að opna,“ segir Vilhjálmur Vernharðsson, ferðaþjónustubóndi á Möðruvöllum

Fjöldi ferðafólks kemur hingað á þjónustusvæði ferðafélags Akureyrar í Dreka á leið í Ösku á sumri hverju. Skálarnir eru þó allajafna ekki opnaðir fyrr en eftir miðjan júní – enda er vegurinn lokaður
„Það þurfa margir aðilar að vera samstíga, ekki bara þjóðgarðurinn, ekki bara vegagerðin, heldur líka rekstraraðilar þjónustunnar eins og er hér bakvið mig, það þarf hreinlætisaðstöðu, það þarf að þrífa hana, það þarf að veita upplýsingar, það þarf að tryggja öryggi fólks. Fram hjá þessu verður ekkert litið og vegagerðin ein getur ekki sagt og ákveðið nú bara opnum við veginn hérna þvert á allt svona, það bara gengur ekki,“ segir Kári Kristjánsson, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðar, og bætir því við að tíu til fimmtán ferðamenn á dag þýði svipaðan mannafla og aðbúnað fyrir þessa ferðamenn eins og þeir væru hundrað og fimmtíu.

Heimild veitt til að stugga við seli í ósi Blöndu

Bæjarráð Blönduósbæjar hefur veitt Vigni Björnssyni heimild til að stugga við sel í ósi Blöndu með skotvopni. Það var veiðifélag Blöndu og Svartár sem óskaði eftir því að leyfið yrði veitt en algengt er á hverju sumri að selir gangi upp í Blöndu á eftir feitum og gómsætum löxum.

Í sumum tilfellum hafa selir gengið upp á Breiðina og í Damminn, sem eru fengsælustu veiðistaðirnir í Blöndu.

Í samþykkt bæjarráðs kemur fram að áhersla er lögð á að aðgerð sem þessi valdi bæjarbúum og ferðamönnum ekki ónæði.

Heimild: Húni.is

Árleg kvennareið frá Blönduósi 9. júní

Hin árlega kvennareið verður farin laugardaginn 9. júní næstkomandi kl. 15:00. Farið verður frá Reiðhöllinni á Blönduósi. Nefndin hefur valið góða og skemmtilega reiðleið sem endar svo í Reiðhöllinni í grilli og gríni. Gaman væri ef konur skreyttu sig og hesta sína, frjálst þema.

Skráning þarf að berast fyrir þriðjudaginn 5. júní svo að við getum gert ráðstafanir varðandi matinn.

Konur! Fjölmennum nú og eigum góðan dag saman. Skráning og nánari upplýsingar hjá Guðrúnu í síma 894-7543, Gullu í síma 848-9447, Eddu í síma 660-3253 og Evu í síma 844-5624.

Mývatnsmaraþon 2012

Mývatns Maraþon verður haldið 2. júní 2012 og er að venju hlaupið í kringum vatnið. Hlaupið í ár verður með sama fyrirkomulagi og síðustu þrjú ár þ.e. er ræst og endað við Jarðböðin.

Staðsetning og tími
Keppni í öllum vegalengdum fer fram á sama degi, laugardeginum 2. júní. Tímasetningar eru eftirfarandi:

 • 12:00 Maraþon hefst (mæting kl. 10)
 • 13:00 ½ maraþon hefst (mæting kl. 11)
 • 14:00 10 km hlaup hefst (mæting kl. 12)
 • 14:00 3 km hlaup hefst (mæting kl. 13)
 • 18:00 Verðlaunaafhending hefst

Mæting allar hlaupa við Jarðböðin 2 tímum fyrir hlaup, nema 3 km hlaup, 1 klst fyrir hlaup.

Brautin
Flatur hringur kringum Mývatn, sem er þekkt fyrir náttúrulega fegurð, yfirborð vegarins er malbikað.
Flokkaskipting

Maraþon

 • Konur og karlar 18-39 ára
 • Konur og karlar 40-49 ára
 • Konur og karlar 50-59 ára
 • Konur og karlar 60 ára og eldri

Hálfmaraþon

 • Konur og karlar 16-39 ára
 • Konur og karlar 40-49 ára
 • Konur og karlar 50-59 ára
 • Konur og karlar 60 ára og eldri

10 km

 • Konur og karlar 12-17 ára
 • Konur og karlar 18-39 ára
 • Konur og karlar 40-49 ára
 • Konur og karlar 50-59 ára
 • Konur og karlar 60 ára og eldri

3 km

 • Konur og karlar 15 ára og yngri
 • Konur og karlar 16 ára og eldri

Skráning og skráningargjöld

 • Maraþon 5.900 kr
 • Hálfmaraþon 4.900 kr
 • 10 km 3.900 kr
 • 3 km 2.000 kr fyrir 16 ára og eldri
 • 3 km 1.000 kr fyrir 15 ára og yngri

Forskráningu lýkur föstudagskvöldið 1. júní kl. 18:00.

Forskráning er á hlaup.is.

Sveitakeppni
Sveitakeppni í öllum vegalengdum nema 3 km. Sveitakeppnin er opinn flokkur og er hámark 5 í hverjum flokki en 3 bestu tímarnir gilda.

Verðlaun og annað
Allir sem ljúka keppni fá verðlaunapening, stuttermabol merktan hlaupinu, grillveislu og ókeypis í jarðböðin við Mývatn. Einnig verða veitt sérstök útdráttarverðlaun.

Upplýsingar
Upplýsingar í síma 464 4390. Tengiliður: Karl Ingólfsson, e-mail: info@visitmyvatn.is

Samstarf Arion banka og Hvatar

Knattspyrnudeild Hvatar og Arion banki hafa gert með sér samstarfssamning til eins árs um að Smábæjaleikarnir árið 2012 beri nafn bankans og verði Smábæjaleikar Arion banka. Um leið gerist bankinn einn af aðalstyrktaraðilum mótsins en undanfarin ár hafa SAH afurðir og Kjarnafæði styrkt mótið með myndarlegum hætti.

Þá eru samningsaðilar sammála um að setjast niður að mótinu loknu með áframhaldandi samstarf í huga, enda líta aðilar svo á að þessi samningur sé einungis til reynslu og vonandi byrjunin á góðu samstarfi knattspyrnudeildar Hvatar og Arion banka. Sönghópurinn Blár Ópal mun sjá um að skemmta á Smábæjaleikum Arion banka árið 2012.

Þetta kemur fram á arionbanki.is.

 

Slökkviliðsmenn Grýtubakkahrepps í fjarnámi

Eftir áramót hófu 12 slökkviliðsmenn í slökkviliði Grýtubakkahrepps fjarnám í slökkvistarfi í Háskóla Íslands á vegum Brunamálaskólans. Fjarnámið fór fram í tölvuveri Grenivíkurskóla.

Allur hópurinn var saman í náminu svo og í prófinu að undanskyldum einum sem tók prófið út á sjó. Guðni Sigþórsson slökkviliðsstjóri telur þetta mjög gagnlegt að geta boðið upp á slíkt nám í fjarkennslu. Í framhaldi verður  verklegt próf í haust og útskrifast hópurinn sem fullgildir slökkviliðsmenn á haust dögum.

Hænsnakofi brann á Laugarbakka

Betur fór en á horfðist þegar hænsnakofi við Grunnskóla Húnaþings vestra á Laugarbakka brann í vikunni. Kofinn stóð við íþróttavöllinn á Laugarbakka og hefur hann gegnt ýmsum hlutverkum í gegnum tíðina, m.a. sem hesthús, áhaldahús og hænsnakofi.

Það var á fimmta tímanum á fimmtudagsmorgun sem slökkviliðinu barst tilkynning um brunann. Sigurvin Dúi Bjarkason og Sveinn Guðmannsson voru fyrstir á vettvang og hringdu í neyðarlínuna, en Indriði Benediktsson á Syðri-Reykjum hafði einnig orðið eldsins var. Indriði sótti töng til að hægt væri að klippa gat á hænsnanetið og hleypa hænunum út en þær höfðu safnast saman í eitt hornið innan hænsnagirðingarinnar.

 

Óskað er eftir umsjónarmanni dreifnáms á Hvammstanga

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki óskar eftir að ráða umsjónarmann dreifnáms á Hvammstanga.

Umsóknarfrestur er til 14. júní 2012.

Ekki þarf að sækja um á sérstöku umsóknareyðublaði en umsókn þarf að fylgja afrit af prófskírteini auk yfirlits um fyrri störf. Umsókn skal senda til skólameistara (ingileif@fnv.is).

Helstu verkefni og ábyrgð
Í starfinu felst m.a. dagleg umsjón með nemendum og líðan þeirra í námsveri á Hvammstanga, eftirlit með skólasókn, aðstoð við nemendur í kennslustundum, samskipti við kennara FNV,  seta í kennslustundum í námsveri og í námslotum á Sauðárkróki, agastjórnun og dagleg umsjón með námsveri og tækjabúnaði námsvers.

Hæfnikröfur
Við leitum að  fjölhæfum umsækjanda sem á gott með að umgangast ungt fólk og er tilbúinn til að taka þátt í mótun á fyrirkomulagi dreifnáms í Húnaþingi vestra. Æskilegt er að umsækjandi hafi háskólapróf á uppeldissviði..

Frekari upplýsingar um starfið
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og viðkomandi stéttarfélags.

Starfshlutfall er 100%

Umsóknarfrestur er til og með 14.06.2012

Nánari upplýsingar veita
Ingileif Oddsdóttir – ingileif@fnv.is – 455-8000
Þorkell V. Þorsteinsson – keli@fnv.is – 455-8000

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra
v. Sæmundarhlíð
550 Sauðárkróki

Atvinna í Húnaþingi vestra

Grunnskóli Húnaþings vestra:

Grunnskólakennara í 100% starf frá 1. ágúst(afleysing til eins árs). Kennslugreinar danska og náttúrufræði.

Tvo stuðningsfulltrúa á miðstigi og skólaliða frá 15. ágúst. Möguleiki á samþættingu starfa þannig að úr verði tvö heil stöðugildi (tímabundið til eins árs með möguleika á framtíðarráðningu).

Umsækjendur þurfa að hafa eftirfarandi þætti til að bera:

 • Grunnskólakennaramenntun er æskileg.
 • Áhuga á þverfaglegri teymisvinnu með nemandann að leiðarljósi.
 • Frumkvæði og sjálfstæði
 • Góða samstarfs-og skipulagshæfileika

Framundan er spennandi þróunarvinna þar sem mikil áhersla er á þverfaglegri  teymisvinnu með nemandann  að leiðarljósi.

Upplýsingar um skólastarfið má finna á www.skolatorg.is/kerfi/hunathingvestra/skoli/Frekari upplýsingar veitir Sigurður Þór Ágústsson skólastjóri í símum 4552911 og 8625466

Sumarstörf á Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd auglýsir sumarstörf námsmanna í samstarfi við Vinnumálastofnun. Störfin eru við ýmis verkefni á vegum sveitarfélagsins m.a. við skógrækt, umhverfismál og umsjón með golfvelli.  

Umsóknareyðublöð má fá á skrifstofu sveitarfélagsins. Umsóknarfrestur vegna sumarstarfa námsmanna er til föstudagsins 1. júní 2012.

Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofunni í síma 455 2700. 

 


Ari Trausti var á Sauðárkróki

Ari Trausti hefur lokið undirskriftarsöfnun vegna meðmæla með framboði sínu til embættis forseta Íslands. Það var gert í ferð til Mið-Norðurlands dagana 11. og 12. maí. Með síðustu undirskriftanna voru þær sem fengust á stuttum en skemmtilegum fundi að kvöldi föstudagsins 11. maí í Grímsey. Flogið var til eyjarinnar á lítilli og nýuppgerðri tveggja hreyfla Piper Apache-vél og skundað í félagsheimilið þar sem heitt kaffi beið á könnu og hressir Grímseyingar tóku á móti gestunum.

“Ég hef hlotið góðar móttökur í öllum landsfjórðungum og heimsótt yfir 80 fyrirtæki og stofnanir. Þetta er skemmtileg iðja og margt sem lærist. Ég    þakka öllum sem hafa lagt hönd á plóginn”, segir Ari Trausti.

Skil á undirskriftalistum fer fram í öllum kjördæmum landsins á tímabilinu 15. til 22. maí. en framboðsfrestur rennur út 25. maí.

Heimild: www.aritrausti.is

Ljósmyndasamkeppnin Fugl fyrir milljón

LJÓSMYNDASAMKEPPNI:

Áhugasamir ljósmyndarar geta skráð sig til þátttöku í ljósmyndasamkeppni um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaganum, Hrísey, Grímsey, Drangey eða Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012. Auk ýmissa veglegra verðlauna, verður besta myndin verðlaunuð með 1.000.000 króna í reiðufé. Hægt er að skrá sig hjá Brimnes hóteli og Rauðku í Fjallabyggð (Senda má tölvupósta á hotel@brimnes.is og/eða raudka@raudka.is)

TILGANGUR:

Að kynna Tröllaskagann og nærliggjandi eyjar, Hrísey, Grímsey, Málmey og Drangey fyrir náttúruunnendum og stuðla að aukinni fuglaskoðun og fuglaljósmyndun á svæðinu.

 

SKILMÁLAR:

Ljósmynd af lifandi fugli, tekin annaðhvort á Tröllaskaganum, í Hrísey, Grímsey, Drangey eða Málmey á tímabilinu 14. maí 2012 til 31. ágúst 2012.

Sjá nánar á www.fuglfyrirmilljon.com

Hafnarvörður óskast á Skagaströnd

SKAGASTRANDARHÖFN

AUGLÝSIR STARF HAFNARVARÐAR LAUST TIL UMSÓKNAR

 

Starfssvið:

Vigtun og skráning í aflaskráningarkerfi Fiskistofu, gerð reikninga fyrir höfnina, almenn hafnarvarsla, viðhaldsvinna, og tilfallandi störf.

 

Hæfniskröfur:

Almenn tölvukunnátta, skipstjórnarréttindi æskileg, löggilding sem vigtunarmaður er kostur.

Laun samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kjalar.

Umsóknareyðublöð liggja frammi á skrifstofu Sveitarfélagsins Skagastrandar og hægt að sækja þau á vef sveitarfélagsins www.skagastrond.is

Umsóknarfrestur er til og með 21. maí 2012.

Nánari upplýsingar veitir:
Magnús B. Jónsson
Sími: 455 2700.
Netfang: magnus@skagastrond.is

Flugvirkjanám á Akureyri

Flugsafn Íslands, Akureyrarflugvelli og Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins/Flugskóli Íslands Reykjavík, undirrituðu í dag samstarfssamning um víðtækt samstarf í menntun flugvirkja á Íslandi. Samningurinn er jafnframt gerður í samstarfi við Lufthansa Resource Technical Training og með góðum stuðningi íslenskra flugrekenda og hagsmunaaðila í flugrekstri. Til þessa hefur flugvirkjanám ekki verið í boði á Íslandi, en s.l. haust hófst kennsla í flugvirkjun í Tækniskólanum/Flugskóla Íslands.

Flugsafn Íslands hyggst efla aðgengi og auka vitund um Flugsafnið með því að taka þátt í menntasamstarfi og gera safnið að lifandi vettvangi fyrir leikna og lærða og verða áfram mikilvægur þáttur í flugsögu Íslands á lifandi hátt. Safnið mun leggja til safnmuni er tengjast vélbúnaði flugvéla til menntunar verðandi flugvirkjum, en safnið er gríðarlega vel búið flugvélum og flugvélahlutum sem henta til verklegrar kennslu. Þá mun safnið hlutast til um viðunandi aðstöðu til bók- og verknáms á Akureyrarflugvelli fyrir þá þætti námsins sem fram fara á Akureyri.

Tækniskólinn/Flugskóli Íslands er leiðandi í starfþjálfun og –menntun einstaklinga á sviði flugmála, sem og annarra greina. Samstarfssamingurinn er liður í að efla tengingu skólans við atvinnulífið og hagsmunaaðila sem tengjast námsgreinum sem í boði eru í skólanum. Tækniskólinn er einkarekinn skóli og er rekstrarfélagið í eigu aðila atvinnulífsins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka iðnaðarins, Samorku, Samtaka íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík, segir í frétt frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar.

Ferðamönnum fjölgaði um 20,4% á fyrsta ársþriðjungi

Um 37 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Leifsstöð í nýliðnum aprílmánuði eða um fimm þúsund fleiri
en í apríl 2011.

Aukningin 16,5% milli ára
Ferðamenn nú í apríl voru 16,5% fleiri en í apríl í fyrra en á því ellefu ára tímabili sem Ferðamálastofa hefur talið ferðamenn í Leifsstöð hefur aukningin verið að jafnaði 8,2% milli ára í mánuðinum, eins og sjá má í töflunni hér til hliðar.

81% ferðamanna af tíu þjóðernum
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í apríl frá Bretlandi eða 22,4% af heildarfjölda. Næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn, 11,8% og Norðmenn, 10,3%. Síðan komu Danir (7,6%), Svíar (7,0%), Þjóðverjar (6,8%), Frakkar (5,9%), Kanadamenn (3,4%), Hollendingar (3,1%) og Finnar (2,9%). Samtals voru þessar tíu þjóðir 81,2% af heildarfjölda ferðamanna í apríl.

Norður-Ameríkubúar og Bretar báru uppi fjölgun í apríl
Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega fjölgun Norður-Ameríkubúa og Breta frá því í apríl í fyrra. Þannig fjölgaði Norður-Ameríkubúum um 33,7% og Bretum um 25,5%. Norðurlandabúum fjölgaði nokkuð eða um 10,4% og sama má segja um Breta sem fjölgaði um 7,1%. Ferðamönnum frá löndum sem flokkuð eru undir annað fjölgaði um 13,8% milli ára.

Ferðamönnum hefur fjölgað um 20,4% frá áramótum
Frá áramótum hafa 125.333 erlendir ferðamenn farið frá landinu sem er 20,4% aukning frá árinu áður. Tæplega helmingsaukning (45,9%) hefur verið í brottförum Breta, ríflega fjórðungsaukning (27,7%) í brottförum N-Ameríkana og um fimmtungsaukning (21,8%) frá löndum sem flokkast undir ,,Annað”. Brottförum Norðurlandabúa hefur fjölgað um 8,0% en fjöldi Mið- og S-Evrópubúa hefur hins vegar staðið í stað.

Utanferðir Íslendinga
Svipaður fjöldi Íslendinga fór utan í nýliðnum apríl og í fyrra eða um 29 þúsund. Frá áramótum hafa 100 þúsund Íslendingar farið utan, sex þúsund fleiri en árið 2012. Aukningin nemur 6,4% milli ára.
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð.

Lausar stöður hjá Húnaþingi vestra í sumar

Flokkstjóri í Vinnuskóla
Í starfinu felst skipulagning og stýring á vinnuhópum unglinga á aldrinum 13 til 16 ára við ýmis garðyrkjustörf o.fl. einnig leiðsögn, hópefli og hvatning til góðra verka. Hæfniskröfur: Æskilegur aldur 20 ár eða eldri, menntun og reynsla í störfum tengdum ungu fólki.
Mikilvægt er að umsækjendur séu stundvísir, samviskusamir og góðar fyrirmyndir unglingana. Hafi góða þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum.

Almenn verkamannastörf í Áhaldahúsi:
Meðal starfa eru  ýmis viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins, s.s veitur og fl. Reynsla og hæfniskröfur: Umsækjendur skulu vera fæddir 1994 eða fyrr og nauðsynlegt er að þeir hafi bílpróf og dráttarvélapróf, reynsla af sambærilegu starfi er kostur, Samviskusemi og stundvísi.

Vegna þessara starfa skal skila inn Skriflegri umsókn til skrifstofu Húnaþings vestra fyrir 9. maí næstkomandi. Í umsókninni þarf að koma fram; Almennar upplýsingar, menntun, fyrri störf og annað sem umsækjandi telur viðeigandi. Frekari upplýsingar og upplýsingar um launakjör eru veittar á skrifstofu Húnaþings vestra í síma 455-2400

Styrkir til rannsókna á sviði ferðamála

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu. RMF auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna á sviði ferðamála, en styrkjunum er fyrst og fremst ætlað að standa undir launakostnaði. Styrkirnir verða veittir kennurum eða starfsfólki þeirra skóla sem standa að RMF og geta numið allt að 5 milljónum króna á ári í allt að þrjú ár.
Umsókn með stuttri lýsingu á rannsóknaverkefninu (3-5 bls. 1.500 orð að hámarki) skal m.a. taka á eftirfarandi atriðum:

 •  Stutt lýsing á aðalatriðum rannsóknaverkefnisins (útdráttur með titli).
 •  Hvernig tengist rannsóknarverkefnið einu, eða fleirum, af þremur áherslusviðum RMF, svonefndum rannsóknaáætlunum, en um þau má lesa á heimasíðu RMF (www.rmf.is) undir: Rannsóknir.
 •  Hvernig tengist rannsóknarverkefnið forgangsröðun verkefna RMF og niðurstöðu stefnumótunarvinnu um rannsóknir í ferðamálum sem mótuð var á hótel Reykjavík Natura dagana 10.-11. febrúar 2012, en um stefnuna er nánar fjallað á heimasíðu RMF (www.rmf.is) undir: Stefnumótun.
 •  Hvert er hagnýtt gildi rannsóknarverkefnisins og hvernig mun það nýtast ferðaþjónustunni, fræðasamfélaginu, stjórnvöldum eða öðrum hagsmunaaðilum?
 •  Er um að ræða beint samstarf við aðila í ferðaþjónustu eða aðra hagsmunaaðila? Hverja þá?
 •  Upplýsingar um aðra fjármögnun rannsóknaverkefnisins.
 •  Ef rannsóknaverkefnið felur í sér þátttöku framhaldsnema (meistara- eða doktorsnema) skal gera grein fyrir hlutverki þeirra í verkefninu og hag þeirra af því.
 •  Tímaáætlun (GANT rit) með skilgreindum áföngum.
 •  Kostnaðaráætlun.

Rannsóknaverkefnið skal hefjast eigi síðar en haustið 2012 og ljúka eigi síðar en í lok árs 2014 og skila skal skýrslu eftir hvern áfanga. Þar sem við á verður ákvörðun um framhald styrks tekin árlega á grundvelli framvindu. Styrkurinn verður greiddur við hver skil áfangaskýrslu og í lok verkefnis.
Skilafrestur er til 15. maí 2012 og umsóknum skal skila rafrænt til forstöðumanns RMF; Edward H. Huijbens (edward@unak.is). Stjórn RMF mun taka ákvörðun um hvaða verkefni verða styrkt fyrir 15. júní. Öllum umsóknum verður svarað. Stjórnin áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

6400 gistinætur á Norðurlandi í mars

Samkvæmt frétt frá Hagstofu Íslands voru gistinætur á hótelum í mars 134.000 samanborið við 97.300 í mars 2011. Gistinætur erlendra gesta voru um 77% af heildarfjölda gistinátta í mars en gistinóttum þeirra fjölgaði um 45% samanborið við mars 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um ríflega 17%. Athygli er vakin á að hér er aðeins átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið en til þess flokks gistististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum, á höfuðborgarsvæðinu voru ríflega 104.300 gistinætur í mars sem er fjölgun um tæp 40% frá fyrra ári. Gistinætur á Suðurlandi voru 13.100 og fjölgaði um 42%. Á Norðurlandi voru tæplega 6.400 gistinætur á hótelum í mars sem er um 25% aukning samanborið við mars 2011. Gistinætur á Suðurnesjum voru um 5.100 sem jafngildir ríflega 15% aukningu frá fyrra ári. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru gistinætur á hótelum 3.100 í mars og fjölgaði um 61%. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 5%, voru 2.050 samanborið við 1.950 í mars 2011.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2012 fjölgaði gistinóttum um tæp 34%. Gistinætur á hótelum í janúar, febrúar og mars samanlögðum voru 309.300 en voru 230.800 fyrir sama tímabil árið 2011. Gistinóttum erlendra gesta hefur fjölgað um 39% samanborið við fyrsta ársfjórðung árið 2011 á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 18%.

Tónleikar í Blönduóskirkju á laugardaginn

Vörðukórinn heldur tónleika í Blönduóskirkju klukkan 17, laugardaginn 5. maí næstkomandi. Vorið og vorkoman er að þessu sinni viðfangsefni Vörðukórsins. Fjölbreytt tónlist, íslensk og erlend.

Vörðukórinn er skipaður söngfólki af Suðurlandi, aðallega úr uppsveitum Árnessýslu. Kórinn hefur starfað af krafti frá stofnun árið 1995 og hefur gegnum árin flutt fjölbreytta tónlist við ýmis tækifæri.

Stjórnandi er Eyrún Jónasdóttir.

Kormákur/Hvöt áfram í bikarkeppni KSÍ

Þann 1. maí léku Kormákur/Hvöt gegn Hömrunum á Hvammstangavelli. Þetta var fyrsti leikur þessa sumarsins og var hann í forkeppni bikarkeppni KSÍ.

Sameiginlegt lið Kormáks og Hvatar fengu mörg marktækifæri og voru lokatölur 1-0 Kormáki/Hvöt í vil. Það var hann Sveinbjörn Guðlaugsson sem skoraði á 48. mínútu eftir stoðsendingu frá Herði Gylfasyni. Lið Kormáks/Hvatar leikur ekki í deildakeppni í ár, en tekur þátt í bikarkeppninni.

Lið Kormáks/Hvatar er því komið í gegnum forkeppni bikarkeppni KSÍ og er næsti leikur við Magna frá Grenivík. Sá leikur fer fram á Grenivíkurvelli sunnudaginn 6. maí n.k. kl. 14:00.

Nubo fær Grímsstaði á fjöllum á leigu

Huang Nubo fær Grímstaði á Fjöllum á leigu til 40 ára samkvæmt samningi sem lagður verður fyrir ríkisstjórn á morgun. Sveitarfélög á Norður og austurlandi kaupa jörðina. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Atvinnuþróunarfélögin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu hafa skilað útfærslu á því með hvaða hætti sveitarfélög á Norður- og Austurlandi geti eignast land á Grímsstöðum á Fjöllum, í því skyni að leigja það kínverska fjárfestinum Huang Nubo.

Í frétt RÚV kom fram að það sé lagt til að sveitarfélögin stofni hlutafélag sem kaupi ríflega 70 prósenta hlut jarðarinnar. Lagt er til að íslenskt félag Huang Nubos leigi landið til 40 ára og greiði leigufé fyrirfram. Kaup sveitarfélaganna á landinu verði þannig fjármögnuð með fyrirframgreiddri leigu. Ekki er gert ráð fyrir skuldsetningu sveitarfélaganna vegna þessa.

Heimild: mbl.is

Sumarstarfsmaður óskast á Hafíssetrið

Blönduósbær óskar eftir að ráða sumarstarfsmann í starf við Hafíssetrið frá 1. júní til 31.
ágúst 2012. Um er að ræða vinnu á opnunartímum Hafíssetursins, frá kl. 11 – 17 alla daga
og aðra hverja helgi.

Umsóknarfrestur er til 15. maí.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Katharina A. Schneider, forstöðumaður Hafíssetursins í
síma 8999271.

Óskað er eftir tilboðum í jarðvegsskipti á lóð Kvennaskólans á Blönduósi

Stoð, verkfræðistofa, f.h. Byggðasamlag um atvinnu og menningarmál í A-Húnavatnssýslu
óskar eftir tilboðum í jarðvegsskipti á lóð Kvennaskólans á Blönduósi.

Helstu magntölur eru:

1.1.    Gröftur á burðarhæfu efni, endurnýtt í fyllingu           750 mᶟ
1.2.    Gröftur á óburðarhæfu efni, flutt á losunarstað       1.325 mᶟ
1.3.    Fylling með burðarhæfu efni úr námu                             590 mᶟ

Útboðsgögn fást afhent á bæjarskrifstofu Blönduósbæjar. Tilboðum skal skila þann 7. maí
2012 kl. 13:00 á bæjarskrifstofunni á Blönduósi og verða opnuð að viðstöddum þeim sem
þess óska.