Category Archives: Norðurland

Selir taldir í Húnaþingi vestra

Selir verða taldir á Vatnsnesi og Heggstaðarnesi í Húnaþingi vestra um helgina. Í fyrra voru taldir liðlega eittþúsund selir á þessum slóðum.

Talningin fer þannig fram að allir sjáanlegir selir eru taldir samtímis á stórstreymisfjöru, á um það bil eitthundrað kílómetra strandlengju. Talningin byggir algjörlega á þátttöku sjálfboðaliða sem vilja taka þátt í rannsóknarstörfum, og segir Sandra M. Granquist dýraatferlisfræðingur hjá Selasetri Íslands á Hvammstanga að talningin nýtist Selasetri Íslands við ýmsar rannsóknir sem þar eru stundaðar. Ýmsir koma að talningunni.

„Þetta eru bæði heimamenn, sem hafa áhuga á þessu, og síðan erum við líka með fólk sem er á ferðinni, erlendir og íslenskir ferðamenn sem eru að koma. Margir koma sérstaklega vegna þessarar talningar,” sagði Sandra.

Áætlað er að um 1000 selir séu við Vatnsnesið og á Heggstaðarnesi og hafa talningar verið gerðar á svæðinu síðan árið 2007.

Texti: Rúv.is

Húnavaka hafin

Húnavaka, hin árlega fjölskyldu- og menningarhátíð Blönduósinga hefst í gær. Hátíðin var sett fyrir framan Hafíssetrið og svo var blásið til heljarinnar grillveislu og eftirréttarhlaðborðs í gamla bænum.

Að því loknu voru Umhverfisverðlaun Blönduósbæjar afhent en að þessu sinni var Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi verðlaunuð fyrir snyrtilegt umhverfi og Hlíðarbraut 19 fyrir fegursta garðinn en þar búa Njáll Runólfsson, Ásta Þórisdóttir og synir.

 

Fótboltamót á Akureyri

Akureyri er mikill íþróttabær og fjöldi íþróttamóta er haldinn í bænum allt árið um kring. Um helgina fara fram tvö af stærstu mótum ársins; N1-mót KA og Pollamót Þórs og Icelandair. N1-mót KA hófst á miðvikudaginn og lýkur með lokahófi í KA-heimilinu á morgun, laugardag. Frá fyrsta mótsdegi hefur verið mikið fjör á svæðinu og óhætt að segja að veðurguðirnir hafi leikið við mótsgesti.

Í ár taka þátt 152 lið frá 38 félögum og er fjöldi keppenda um 1.350 auk þjálfara, fararstjóra, foreldra og annarra aðstandenda. Í það heila eru spilaðir á sjötta hundrað leikir á KA-svæðinu um helgina. Á mótinu er spilað í sex deildum og verða undanúrslitaleikir spilaðir síðdegis í dag en leikir um sæti spilaðir á morgun. N1-mótið er haldið með samstilltu átaki gríðarlegs fjölda sjálfboðaliða og knattspyrnuiðkenda hjá KA og er talið að um 300 sjálfboðaliðar komi að framkvæmd mótsins.

Pollamót Þórs og Icelandair, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 25. skipti á Þórssvæðinu um helgina. Mikið verður um dýrðir á mótssvæðinu við Hamar og boðið upp á grillveislur gegn vægu gjaldi í kvöld og annað kvöld auk þess sem Jónsi í Svörtum fötum og Ingó veðurguð munu stíga á stokk og skemmta gestum og gangandi. Einnig mun Kristján Kristjánsson, listflugmaður, sýna ævintýralegar listir sínar yfir Þórsvellinum. Um sannkallaða fjölskyldustemningu er að ræða á mótinu og verður boðið upp á leiktæki fyrir börn á öllum aldri alla helgina.

Keppt verður í tveimur flokkum kvenna: 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild og 30 ára og eldri í Ljónynjudeild. Karlaflokkarnir eru þrír: 30 ára og eldri taka þátt í Polladeild, 40 ára og eldri í Lávarðadeild og 45 ára og eldri reyna með sér í Öldungadeild.

Mörg lið hafa skráð nafn sitt í sögubækur mótsins með frækinni frammistöðu innan vallar sem utan og ber þar helst að nefna hið víðfræga lið Ginola. Að sögn Rúnars Þórs Jónssonar, fyrirliða Ginola, hafa liðssmenn verið að týnast í bæinn á síðustu dögum einn af öðrum. “Mikil tilhlökkun ríkir í okkar herbúðum enda hefur undirbúningur staðið yfir í nokkurn tíma. Pollamótið er orðið stór hluti af sumarfríi liðsmanna Ginola enda eru margir brottfluttir Akureyringar í liðinu. Það er því frábær tilfinning að koma til Akureyrar um hásumar til þess að spila fótbolta með félögunum. Án nokkurs vafa munum við skemmta okkur og andstæðingum okkar með skemmtilegum leik,” segir Rúnar og hlær.

Ísbirnir auka ferðamennsku

Leitin að hvítabirninum hefur jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Norðurlandi vestra, segir starfsmaður samtaka sveitarfélaga á svæðinu. Eldri borgarar sem skoðuðu Vatnsnesið í gær sýndu engin merki um hræðslu við hvítabjörn.

Kastljósi fjölmiðlanna hefur verið beint að Húnaþingi, eftir að leitin að hvítabirninum hófst. Vertíðin hjá ferðaþjónustufyrirtækjum stendur sem hæst og segir Gudrun Kloes hjá Samtökum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra að þessi mikla athygli skaði síður en svo ferðaþjónustuna á svæðinu.

„Ég ég held að hún hafi bara jákvæð áhrif, við sáum það strax í gær, þá streymdu menn að og voru mjög opnir fyrir því að skoða sig um og svipast eftir dýrinu. Þetta er ekki ólíkt náttúruhamförum, sem hafa svo jákvæð áhrif þegar þeim lýkur og við vonum bara að það gerist ekkert hræðilegt á meðan, þá er þessi björn bara algjör gullmoli fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu,” sagði Gudrun. Hún segir að ekki hafi nokkur hræðslumerki verið að sjá á ferðamönnum sem komu í gær.
„Við sáum það í gær, þá fór hópur eldri borgara í Reykjavík um svæðið. Þeir voru bara rólegir,” sagði Gudrun Klaes hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi.

Heimild: Rúv.is

Ísbjörn týndur á Húnaflóasvæðinu

Lögreglan á Blönduósi telur nú að hvítabjörn sé einhvers staðar á Húnaflóasvæðinu. Veginum út á Vatnsnes var lokað fyrr í kvöld.

Þyrla Landhelgissælsunnar fann fyrir skömmu spor í fjörunni fyrir neðan Geitafell á vestanverðu Vatnsnesi og eru sporin að öllum líkindum eftir hvítabjörn. Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, segir að björn sé á svæðinu og biður fólk við allan Húnaflóa um að hafa varann á uns búið er að finna dýrið.

Ítalskir ferðalangar töldu sig hafa séð björn á Húnaflóa í dag og var  þyrla Landhelgisgæslunnar send til leitar. Eftir að fréttir voru fluttar um leitina í kvöld hafði ung kona samband við lögreglu og sagðist hafa séð ljósgulan blett út á hafi snemma í morgun. Hún hefði talið að hugsanlega gæti verið um hvítabjörn að ræða en þótt það svo ólíklegt að hún sagði ekki frá því fyrr en aðrar fréttir bárust um hugsanlegar hvítabjarnarferðir.

Ítölsku ferðamennirnir voru í fjörunni fyrir neðan Geitafell þegar þau töldu sig sjá hvítabjörn. Þeir sýndu heimilisfólki á Geitafelli myndir og myndskeið. Heimilisfólkið var ekki visst um að um hvítabjörn væri að ræða, en lét lögregluna engu að síður vita og í kjölfarið fóru lögreglumenn að svipast um. EFtir að Ítalarnir fórú frá Geitafelli
Lögreglan vill ná sambandi við ítölsku ferðamennina, um er að ræða miðaldra ítölsk hjón með tvo drengi á gráum jepplingi. Lögreglan biður því ferðaþjónustufólk að hafa samband ef það veit um ferðir þeirra.

Heimild: Rúv.is

Norðurorka veitti styrki til samfélagsverkefna

Styrkjum Norðurorku hf. til samfélagsverkefna var úthlutað fimmtudaginn 21. júní við athöfn í sal fyrirtækisins að Rangárvöllum á Akureyri.
Haustið 2011 ákvað stjórn Norðurorku hf. að fara í endurskoðun á ýmsum þáttum í stefnumótun félagsins og var einn þeirra styrkveitingar til samfélagsverkefna.
Samþykkt var stefna félagsins í styrkveitingum og þar með þau grundvallarsjónarmið sem líta skal til við styrkveitingar. Þáttur í nýju ferli var að auglýsa eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna og leitast við að gera ferlið opnara og gegnsærra þannig að öllum gæfist kostur á að koma óskum sínum á framfæri við félagið.
Í kjölfar þessarar vinnu voru síðan birtar auglýsingar um styrki Norðurorku til samfélagsverkefna. Um þetta sagði í frétt á heimasíðu félagsins að þessu tilefni:
„Veittir eru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Markmið með styrkjum Norðurorku hf. er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.“
Í framhaldi af þessu skipaði framkvæmdaráð Norðurorku hf. vinnuhóp starfsmanna til þess að fara yfir þær rúmlega eitthundrað og fimmtíu umsóknir sem bárust. Vinnuhópurinn skilaði tillögum sínum til stjórnar Norðurorku hf. sem afgreiddi þær óbreyttar á fundi sínum þann 31. maí s.l.
Fram kom hjá hópnum að verkefnið var erfitt enda gífurlega mörg góð verkefni sem sótt var um styrk til. Sýna umsóknirnar þá miklu grósku sem er á öllum sviðum samfélagsins og styrkja okkur í þeirri niðurstöðu að ástæða hafi verið til að opna vinnuferli okkar og gera það gegnsærra.

Eftirtaldir aðilar hljóta styrk að þessu sinni:

Nafn styrkþega verkefnið fjárhæð
Aflið – Samtök gegn kynferðis og heimilisofbeldi á Nl. rekstrarstyrkur 100.000
Leikfélagið Adrenalín leiklist eflir lífsleikni 150.000
Æskulýðssamtök Laufásprestakalls æskulýðsstarf 100.000
Hjólabrettafélag Akureyrar bætt aðstaða 100.000
Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir afreksstyrkur – landsliðið á skautum 75.000
Norræna félagið Ólafsfirði norrænar sumarbúðir 200.000
Kvennahandbolti KA og Þór – 8. til 4. flokkur keppnistreyjur kvfl. KA/Þór 400.000
Safnasafnið úrbætur á aðgengi að safninu 200.000
Textílbomban – 19 textíllistamenn samsýning – Listasumar 300.000
Öldrunarheimilin á Akureyri garður og hænsnahús 200.000
Karatefélag Akureyrar félagsstarfið 100.000
Multicultural Council fjölmenning viðburðir o.fl. 100.000
Fimleikafélag Akureyrar æfingabúðir – koma erl. þjálfara 150.000
Gamli barnaskólinn Skógum Fnjóskadal uppbygging safns 100.000
Sundfélagið Óðinn startbúnaður 100.000
Skíðafélag Akureyrar bætt aðstaða við gönguhús 100.000
Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi lyftukaup – sundlaugin að Hrafnagili 100.000
Birna Guðrún Baldursdóttir tilr. verkefni klúbbur einhverfa unglinga 75.000
Ungmennafélagið Smárinn – Hörgársveit fótboltamörk við Þelamerkurskóla 250.000
Leikklúbburinn Krafla – Hrísey leiklistarnámskeið fyrir börn 100.000
Sumarbúðir KFUM og KFUK Hólavatni viðbygging við félagsmiðstöð 250.000
Skátafélagið Klakkur námskeið fyrir foringja 100.000
Klakarnir – útivistarklúbbur fatlaðra barna námskeið fyrir þjálfara 150.000
Alberto Porro Carmona tónlistarkennsla – barnabók 100.000
Hafdís Sigurðardóttir afreksstyrkur – frjálsar íþróttir 75.000
Akureyrarkirkja sumaropnun 200.000
Foreldrafélag strengjadeildar Tónlistarskólans félagsstarf – strengjamót í Hörpu 150.000

Tom Cruise lentur á Norðurlandi

Kvikmyndastjarnan Tom Cruise kom síðdegis þann 18. júní með á þyrlu og lenti við
Hrafnabjörg í Vaðlaheiði á Norðurlandi. En eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er
leikarinn staddur hér á landi við tökur á kvikmynd sinni Oblivion og mun
hann dvelja í Hrafnabjörgum á meðan tökur fara fram á Íslandi eða í um tvær
vikur. Tökuliðið kom flest til Akureyrar með fokker flugvélum fyrir hádegi í
dag og ók rakleiðis í Hrossaborg í Mývatnssveit þar sem tökur hófust í
dag.

Frá þessu greindi vefurinn Akureyri.net.

Laxasetur Íslands á Blönduósi opnað

Laxasetur Íslands var opnað á Blönduósi 16.júní . Valgarður Hilmarsson, framkvæmdastjóri setursins, segir að Blönduós sé tilvalinn staður fyrir það, enda er helsta laxveiðiá landsins skammt frá.

Í laxasetrinu eru lifandi laxfiskar í aðalhlutverki. Sýningunni er skipt í þrjá meginkafla; líffræði, sögu og veiðar. Sérstaklega er fjallað um helstu laxfiska, umhverfi þeirra og helstu laxveiðiár. Valgarður segir að markmiðið sé að sýningin höfði til sem flestra, náttúrlega laxveiðimanna, einnig almennra ferðamanna og ekki síst barna.

Blanda er næsta laxveiðiá við Laxasetur Íslands og hún fær að renna gegnum sýninguna, þó einungis sem máluð á. Valgarður á von á fjölda gesta í sumar. Ferðamönnum fjölgi sífellt og vonandi njóti Laxasetrið góðs af því.

Heimild: rúv.is

Herflugvélar á Akureyrarflugvelli

Tvær óvenju stórar flugvélar mátti sjá á Akureyrarflugvelli í vikunni. Annars var um að ræða Boeing C17 Globemaster III herflugvél en hins vegar vél af gerðinni Antonov An-12.

Herflugvélin lenti hér til að sækja tækjabúnaðinn sem flugsveit bandaríska flughersins hefur notað æfingarnar undanfarnar vikur, m.a. svokallaðar þotugildrur og stefnuvita.

Antonov vélin, sem kemur frá Úkraínu, hefur hins vegar haldið hér til í nokkra daga og verið að fljúga til Meistaravíkur á Grænlandi með búnað til námuvinnslu sem er þar í undirbúningi. Í dag fer vélin áttundu og síðustu ferðina í bili.

Myndir má sjá hér.

Heimild: akureyrivikublad.is

Vaðlaheiðargöng á dagskrá

Nú í vikunni lauk þriðju og síðustu umræðu og atkvæðagreiðslu um fjármögnun Vaðlaheiðarganga. Málið var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 13 og 5 sátu hjá.

Almenn gleði ríkir á Norð-austurlandi vegna þessa og er mál manna að framkvæmdin muni hafa jákvæð áhrif á margvíslegan hátt og ekki síst á bjartsýni fólks um að nú séu hin margumræddu hjól atvinnulífsins komin á ágætan skrið.

Nýjustu tölur frá Vinnumálastofnun sýna að atvinnuleysi er nú minna á Norð-austurlandi en verið hefur um langt skeið, eða 4,0% og hefur atvinnulausum einstaklingum fækkað um 170 frá sama mánuði 2011 en þá var atvinnuleysi á svæðinu 5,2%

17.júní á Akureyri

Hátíðarhöld á Akureyri þjóðhátíðardaginn 17. júní eru fjölbreytt að venju. Klukkan 12.45 byrjar Lúðrasveitin á Akureyri undir stjórn Alberto Carmona að spila í Lystigarðinum en þar hefst hefðbundin dagskrá klukkan 13 með fánahyllingu, hátíðarávarpi Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra og hugvekju sem Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni við Glerárkirkju flytur.

Karlakór Akureyrar – Geysir syngur undir stjórn Roars Kvam og grunnskólanemarnir Þóranna Lilja Steinke og Malik Stefán Turay flytja verðlaunaljóð sín úr ljóðasamkeppninni “Akureyri – brosandi bær” sem haldin var í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar. Dagskránni í Lystigarðinum lýkur klukkan 13.30 en þá verður skrúðganga þar sem leiðin liggur úr Lystigarðinum niður á Ráðhústorg.

Dagskráin á Ráðhústorgi er í umsjón Skátafélagsins Klakks og stendur frá klukkan 14-17 og svo aftur um kvöldið frá klukkan 21-01. Bæjarbúar og gestir geta reynt sig við ýmsar þrautir í hinu sívinsæla skátatívolíi. Kynnar í ár eru Gunnar Helgason og Felix Bergsson og meðal þeirra sem fram koma eru Marimbasveit Oddeyrarskóla, Dansfélagið Vefarinn, sönghópurinn Chorus, Lúðrasveitin á Akureyri, Leikhópurinn Lotta, Lilli Klifurmús, söngvarar frá Söngskóla Maríu Bjarkar, Jónsi, Ingó Hansen, atriði úr leikritinu Date, Svenni Þór og Regína Ósk. Að vanda marsera nýstúdentar úr Menntaskólanum á Akureyri á Ráðhústorg um miðnætti.

Auk dagskrárinnar á Ráðhústorgi verður árleg bílasýning Bílaklúbbs Akureyrar í Boganum frá klukkan 10-20, sögusigling með eikarbátnum Húna II kl. 17 þar sem fræðst verður um gömlu húsin við Strandgötuna og Oddeyrina og Leikhópurinn Lotta sýnir barnaleikritið Stígvélaði kötturinn í Lystigarðinum kl. 11 og aftur kl. 17.

Lottóvinningshafinn á Akureyri ófundinn

Lottóvinningshafinn sem vann 73 milljónir um síðustu helgi hefur ekki enn gefið sig fram. Miðinn var keyptur í Leirunesti á Akureyri fyrir síðustu helgi og var greitt fyrir hann með reiðufé. „Við bíðum bara spennt eftir að vinningshafinn gefi sig fram. Það getur tekið fólk allt að þrjá daga að jafna sig af svona tíðindum en þetta er orðið óvenju langur tími,“ sagði starfsmaður hjá Íslenskri getspá við vefmiðillinn Vikudag.is.

Starfsfólk Íslenskrar getspáar hvetja alla til þess að fara vel yfir miðana sína sem keyptu miða í Leirunesti fyrir sl. helgi, greidda með reiðufé. Vinningstölurnar voru 14, 17, 21, 28, 33 og bónustalan var 1.

Pollamót Þórs á Akureyri í júlí

Pollamót Þórs og Icelandair, fyrir eldri knattspyrnupilta- og stúlkur, verður haldið í 25. skipti á Þórssvæðinu á Akureyri 6. og 7. júlí næstkomandi. Mikið verður um dýrðir og flott skemmtiatriði á mótssvæðinu við Hamar bæði að kvöldi föstudags og laugardags í tilefni afmælisins, og 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar. Leikið er á föstudag og laugardag.

Stefnt er að því að mótið verði sannkölluð fjölskylduhátíð, leiktæki verða á svæðinu fyrir börn allan tímann og á föstudagskvöldið verður grillveisla þar sem hægt verður að kaupa veitingar gegn vægu gjaldi. Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, treður m.a. upp á föstudagskvöldið og við verðlaunaafhendingu á laugardagskvöldinu verður Ingó Veðurguð með tónleika. Þá verður einnig grillveisla við Hamar.

Ókeypis tjaldstæði eru í boði á svæðinu fyrir þátttakendur og fjölskyldur þeirra. Keppt er í tveimur flokkum kvenna: 20 ára og eldri etja kappi í Skvísudeild og 30 ára og eldri í Ljónynjudeild. Karlaflokkarnir eru þrír: 30 ára og eldri taka þátt í Polladeild, 40 ára og eldri í Lávarðadeild og 45 ára og eldri reyna með sér í Öldungadeild

Heimild: vikudagur.is

Umhverfis- og auðlindabraut kennd í Fjallabyggð í fjarnámi

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið Framhaldsskólanum í Austur Skaftafellssýslu, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Menntaskólanum á Egilsstöðum og Menntaskólanum á Tröllaskaga heimild til að kenna námsbraut í umhverfis- og auðlindafræðum í fjarnámi næsta vetur. Þetta þýðir að í boði verða áfangar bæði úr kjarna ásamt sérgreinaáföngum næsta haust. Verður spennandi að sjá hverjar viðtökurnar verða.

Hægt er að sækja um á www.fjarmenntaskolinn.is

Smábæjarleikarnir á Blönduósi

Smábæjarleikarnir fara fram á Blönduósi helgina 23 – 24 júní. Þetta er tveggja daga mót í sjö manna fótbolta þar sem keppt er á laugardegi og sunnudegi. Mótið er ætlað, 4 – 6 flokki. drengja og stúlkna og í 7. flokki er keppt í blönduðum liðum. Það er nóg að vera komin á mótsstað á milli 07:00 og 09:00 á laugardeginum en þá er móttaka liða. Þeir sem vilja fara á föstudeginum geta það einnig en móttaka liða er frá klukkan 18:00 – 22:00 þann dag.

Hljóðupptökur Fræðifélags Vestur-Húnvetninga

Þann 8. júní var opnaður nýr vefur ismus.is þar sem verður hægt að hlusta á hljóðupptökur í eigu Fræðafélags Vestur-Húnvetninga sem hafa verið í geymslu Héraðsskjalasafnsins á Hvammstanga. Upptökurnar eru meðal annars viðtöl með lífsferilssögum 42 sveitunga frá 7.-10. áratug síðustu aldar, ásamt upptökum af mannamótum, skemmtunum og pólitískum fundum.Vefurinn með húnvetnsku upptökunum er undir heitinu “Fræðafélag”

Afritun og skráning heimildanna er verkefni unnið að frumkvæði Rannsóknarseturs HÍ á Norðurlandi vestra á Skagaströnd í samvinnu við Tónlistarsafn Íslands, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Miðstöð munnlegrar sögu og Forsvars ehf. á Hvammstanga sem sá um skráninguna,.

 Vaxtarsamningur Norðurlands vestra, Menningarsamningur Norðurlands vestra, Húnaþing vestra og Þjóðhátíðarsjóður styrktu verkefnið.

Heimild: Skagastrond.is

Malarvegum illa viðhaldið

Viðhald á þjóðvegum landsins er í algeru lágmarki vegna niðurskurðar undanfarin ár. Ástandið er verst á malarvegum og óttast menn að sá hluti vegakerfisins sé að grotna niður.

Þeir sem aka reglulega um malarvegi þekkja vel hve mikilvægt það er að bera reglulega ofan í þá og hefla.  En malarvegir hafa orðið illa úti vegna niðurskurðar á peningum til viðhalds undanfarin ár. Og það er ekki útlit fyrir aukið fé á þessu ári.

Á veginum um Bárðardal, svo dæmis séu tekin, stendur stórgrýti upp úr veginum og erfitt er að ímynda sér að þetta sé þjóðvegur í byggð. En svona er þetta víða, misslæmt auðvitað, en mikið vantar upp á að þetta sé í lagi.

En þegar fjármagn skortir þarf að forgangsraða og þá er áherslan lögð á að viðhalda dýrasta hluta vegakerfisins, vegum með bundnu slitlagi.

Landstólpinn 2012 afhentur

Á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Menningarhúsinu Miðgarði í Skagafirði  þann 1. júní var Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði afhentur Landstólpinn árið 2012.

Auglýst var eftir tilnefningum bæði í blöðum og á heimasíðunni. Dómnefnd valdi síðan úr, því hér var ekki um kosningu að ræða, eins og tekið var fram í auglýsingunni. Hins vegar voru tekin fram nokkur atriði sem vert væri að hafa í huga við val á viðurkenningarhafa, en þau voru:

Hefur verkefnið/starfsemin/umfjöllunin:

  • Dregið fram jákvæða mynd af landsbyggðinni eða viðkomandi svæði?
  • Aukið virkni íbúa eða fengið þá til beinnar þátttöku í verkefninu?
  • Orðið til þess að fleiri verkefni/ný starfsemi verði til?
  • Dregið að gesti?

Ákveðið var að viðurkenningin yrði listmunur sem listafólk eða handverksfólk á því svæði þar sem fundurinn er haldinn hverju sinni hannar. Þar sem fundurinn er að þessu sinni haldinn á Sauðárkróki var ákveðið að finna skagfirskan listamann til að hanna grip. Sá heitir Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson og er myndlistamaður, myndlistakennari og sjálfstætt starfandi ljósa- og sviðshönnuður, búsettur á Sauðárkróki. Hann er menntaður myndhöggvari frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1994 og er einnig menntaður rafvirki frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og kennari frá Háskólanum á Akureyri.

Ábendingar bárust víðsvegar að af landinu og alls voru 13 aðilar tilnefndir og sumir fengu fleiri en eina tilnefningu. Niðurstaða dómnefndar varð sú að veita Örlygi Kristfinnssyni forstöðumanni Síldarminjasafnsins á Siglufirði Landstólpann árið 2012.

Dómnefnd telur að Örlygur hafi með störfum sínum undanfarin ár vakið athygli á Siglufirði á jákvæðan hátt. Segja má að árangurinn sem náðst hefur á Siglufirði byggi að miklu leyti á því frumkvöðlastarfi sem Örlygur hefur unnið gegnum tíðina.  Hann er einn af frumkvöðlunum að Síldarminjasafni Íslands, sem hefur hlotið viðurkenningar bæði  innanlands og erlendis.  Örlygur  hefur einnig staðið að uppbyggingu Herhússins og þeirri starfssemi sem þar fer fram.   Örlygur hefur verið ötull í að gera upp gömul hús á Siglufirði sem hafa breytt ásýnd bæjarins verulega.   Þau verkefni sem Örlygur hefur komið að á Siglufirði hafa breytt ásýnd og ímynd staðarins.  Hann hefur virkjað heimafólk til þátttöku í verkefnunum áhugi hans á gömlum húsum hefur smitað út frá sér og má sjá það á fjölda gamalla uppgerðra húsa á Siglufirði. Örlygur er  frumkvöðull í menningarferðaþjónustu á Siglufirði.  Fleiri hafa komið í kjölfarið,  s.s.  Þjóðlagasetrið, Herhúsið, Rauðka, Þjóðlagahátíð, Síldardagar og fl. Frá því að uppbyggingin Síldarminjasafnsins hófst hefur fjöldi gesta komið á Siglufjörð.  Eftir að Héðinsfjarðagöngin voru opnuð fjölgaði gestum Síldarminjasafnsins verulega, frá tæplega 12 þús. gestum árið 2010 í 20 þúsund árið 2011.  Því er ljóst að safnið hefur veruleg áhrif á samfélagið. Í nýrri rannsókn um áhrif atvinnuuppbyggingar á sviði menningar og lista kemur fram að uppbyggingin á Siglufirði hefur haft áhrif á samfélagið.  Jákvæð ímynd, sterkari sjálfsmynd íbúa, meiri jákvæðni í samfélaginu eru atriði sem nefnd eru.  Þetta hefur síðan áhrif á aðdráttarafl samfélagsins, bæði til búsetu og heimsóknar. Efnahagsleg áhrif eru af uppbyggingunni.

Afmælisganga á Nonnaslóð á Akureyri

Hefur þú séð Nonnasteininn? Hefur þú gengið í fótspor hins ástsæla barnabókarithöfundar Nonna? Ef ekki þá er tilvalið fyrir alla fjölskylduna að gera sér glaðan dag og ganga í fylgd kunnugra um Nonnaslóð fimmtudaginn 7. júní kl. 20.

Haraldur Þór Egilsson, sagnfræðingur og safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, leiðir gönguna sem tekur rúmlega klukkustund og er þátttakendum að kostnaðarlausu. Þetta er létt og þægileg ganga þar sem farið verður stuttlega yfir lífshlaup Nonna, lesið upp úr bókum hans og staðir skoðaðir sem tengjast lífi hans og sögum.

Lagt verður af stað frá Nonnahúsi kl. 20.

Það eru afmælisnefnd Akureyrarbæjar og Minjasafnið á Akureyri sem bjóða upp á þessar forvitnilegu gönguferðir um bæinn í tilefni stórafmælisins.

Tengilflug Icelandair frá Akureyri hefst

Á morgun, fimmtudaginn 7. júní, hefst beint tengiflug Icelandair frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll við helstu áfangastaði félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum. Áætlað er að fyrsta vélin lendi kl. 17.30 á morgun og verður tengiflugið alla jafna í boði á sunnudögum, mánudögum, fimmtudögum og föstudögum.

Tímasetningar á fluginu í sumar verða miðaðar við það að fjölmargir áfangastaðir Icelandair liggi sem best við þessu tengiflugi, til dæmis New York, Boston, Washington, Orlando, Seattle og Halifax í Bandaríkjunum og London, Kaupmannahöfn, Frankfurt, Amsterdam, Brussel og Osló í Evrópu. Brottför frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar er klukkan 16.20 og lending á Akureyri kl. 17.10. Þannig skapast góð tenging við komutíma frá helstu áfangastöðum Icelandair í Evrópu. Akureyrarflugið er bókanlegt sem hluti af flugi Icelandair til og frá Íslandi og mun félagið leigja Fokker 50 flugvél af systurfyrirtækinu Flugfélagi Íslands til þess.

Vorvaka í Húnaveri

Vorvaka í minningu Gísla Ólafssonar skálds frá Eiríksstöðum verður haldin í Húnaveri laugardaginn 9. júní næstkomandi og hefst klukkan 14:00. Kristján Eiríksson, íslenskufræðingur hjá Árnastofnun, mun fjalla um Gísla og verk hans. Friðrún Guðmundsdóttir les ljóð eftir Gísla.

Kvæðamennirnir, Ingimar Halldórsson og Arnþór Helgason, kveða vísur Gísla m.a. Lækjarvísurnar. Sigurður Torfi Guðmundsson syngur nokkur lög við ljóð Gísla við undirleik Inga Heiðmars Jónssonar.

Kirkjukór Hraungerðis- og Villingaholtskirkna í Árnessýslu syngur við undirleik Inga Heiðmars, organista síns, sem einnig stýrir almennum söng. Kynnir er Ólafur Hallgrímsson.

Aðgangseyrir er1.500 krónur og frítt fyrir 12 ára og yngri.

(Athugið kort ekki tekin). Kaffi verður selt í hléi.

Netkerfi og tölvur ehf. deila íslenskri tónlist út á netið

Norðlenska fyrirtækið Netkerfi og tölvur ehf (www.netkerfi.is) deila nú út á netið ógrynni af tónlist, innlendri og erlendri í mp3 formi. Fari maður á slóðina www.netkerfi.is/log þá birtist þar mörg hundruð titlar af geisladiskum og einstökum lögum.

Má þarna meðal annars finna geisladisk með Geirmundi Valtýs sé eitthvað nefnt.  Hér hefur greinilega einhver opnað fyrir svokallað “share” og nú getur alþjóð sótt þessi lög, en slíkt er vitaskuld ekki leyfilegt samkvæmt lögum.

Já… Netkerfi og tölvur ehf.. Norðurlenskur valkostur í umsjón tölvukerfa.

Vilja opna Fjallavegi fyrr

Starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs segir að þurfi jafnmarga þjónustuaðila á hálendinu til að sinna tíu ferðamönnum og hundrað. Það þurfi samstillt átak margra eigi hálendisvegir að opna fyrr á sumrin.

Ferðaþjónustufólk á Norðurlandi hefur bent á að hægt sé að opna suma hálendisvegi miklu fyrr en gert er. Norðan Vatnajökuls eru sumir vegir sem ekki liggja um friðlönd með viðkvæmu lífríki orðnir auðir. Hægt væri að hleypa ferðafólki að hálendisperlum eins og Öskju og Kverkfjöllum. „Við erum mjög náttúrutengd og viljum láta náttúruna njóta vafans í öllum en  eins og núna er klárt að það má opna inn á hálendið, hálendið er tilbúið til að opna,“ segir Vilhjálmur Vernharðsson, ferðaþjónustubóndi á Möðruvöllum

Fjöldi ferðafólks kemur hingað á þjónustusvæði ferðafélags Akureyrar í Dreka á leið í Ösku á sumri hverju. Skálarnir eru þó allajafna ekki opnaðir fyrr en eftir miðjan júní – enda er vegurinn lokaður
„Það þurfa margir aðilar að vera samstíga, ekki bara þjóðgarðurinn, ekki bara vegagerðin, heldur líka rekstraraðilar þjónustunnar eins og er hér bakvið mig, það þarf hreinlætisaðstöðu, það þarf að þrífa hana, það þarf að veita upplýsingar, það þarf að tryggja öryggi fólks. Fram hjá þessu verður ekkert litið og vegagerðin ein getur ekki sagt og ákveðið nú bara opnum við veginn hérna þvert á allt svona, það bara gengur ekki,“ segir Kári Kristjánsson, starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðar, og bætir því við að tíu til fimmtán ferðamenn á dag þýði svipaðan mannafla og aðbúnað fyrir þessa ferðamenn eins og þeir væru hundrað og fimmtíu.

Heimild veitt til að stugga við seli í ósi Blöndu

Bæjarráð Blönduósbæjar hefur veitt Vigni Björnssyni heimild til að stugga við sel í ósi Blöndu með skotvopni. Það var veiðifélag Blöndu og Svartár sem óskaði eftir því að leyfið yrði veitt en algengt er á hverju sumri að selir gangi upp í Blöndu á eftir feitum og gómsætum löxum.

Í sumum tilfellum hafa selir gengið upp á Breiðina og í Damminn, sem eru fengsælustu veiðistaðirnir í Blöndu.

Í samþykkt bæjarráðs kemur fram að áhersla er lögð á að aðgerð sem þessi valdi bæjarbúum og ferðamönnum ekki ónæði.

Heimild: Húni.is

Árleg kvennareið frá Blönduósi 9. júní

Hin árlega kvennareið verður farin laugardaginn 9. júní næstkomandi kl. 15:00. Farið verður frá Reiðhöllinni á Blönduósi. Nefndin hefur valið góða og skemmtilega reiðleið sem endar svo í Reiðhöllinni í grilli og gríni. Gaman væri ef konur skreyttu sig og hesta sína, frjálst þema.

Skráning þarf að berast fyrir þriðjudaginn 5. júní svo að við getum gert ráðstafanir varðandi matinn.

Konur! Fjölmennum nú og eigum góðan dag saman. Skráning og nánari upplýsingar hjá Guðrúnu í síma 894-7543, Gullu í síma 848-9447, Eddu í síma 660-3253 og Evu í síma 844-5624.