Category Archives: Norðurland

Gamli bærinn á Sauðárkróki verði verndarsvæði

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti á fundi sínum þann 17. október síðastliðinn að leggja fram tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verndarsvæði í byggð innan þéttbýlis á Sauðárkróki. Svæðið sem um ræðir er norðurhluti gamla bæjarins sem er elsti hluti byggðarinnar og afmarkast að norðan af nyrsta íbúðarhúsi Sauðárkróks, að austan af Strandvegi, að sunnan af Kirkjutorgi og Kirkjuklauf (Hlíðarstíg) og að vestan af Nöfum.

Markmið þess að gera gamla bæinn að sérstöku verndarsvæði er að viðhalda og styrkja byggðina á svæðinu þannig að verndun, uppbygging og framþróun haldist í hendur. Með þessu vill sveitarfélagið staðfesta menningarsögulegt gildi gamla bæjarins á Sauðárkróki.

Tillagan ásamt greinargerð liggur frammi í ráðhúsi sveitarfélagsins að Skagfirðingabraut 21 til og með föstudagsins 7. desember 2018. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eða þeim sem vilja koma sjónarmiðum sínum á framfæri er bent á að senda skriflegar athugasemdir til skipulags- og byggingarfulltrúa eða á netfangið jobygg@skagafjordur.is fyrir þann tíma.

Jólakvöld í Ólafsfirði í desember

Föstudagskvöldið 7. desember 2018 verður hið árlega jólakvöld haldið í miðbæ Ólafsfjarðar. Hefst það kl. 19:30 og stendur fram eftir kvöldi. Þá verður miðbærinn lokaður fyrir umferð ökutækja og hluti Aðalgötunnar gerður af göngugötu.

Ýmis konar varningur verður til sölu í jólahúsunum. Tónlistarfólk kemur fram á svæðinu og einnig verður lifandi jólatónlist og margt margt fleira. Nánari dagskrá verður birt þegar nær dregur.

Jónas Skúlason nýr formaður Siglfirðingafélagsins

Ágætis mæting var á aðalfund Siglfirðingafélagsins í gærkvöld sem haldinn var í Safnaðarheimili Bústaðakirkju í Reykjavík. Fram kom í skýrslu stjórnar að félagið stæði á ákveðnum tímamótum. Illa hefur gengið að virkja inn nýtt ungt fólk í félagið síðustu árin. Rætt var um það væru tveir kostir fyrir félagið í framtíðinni: Halda áfram með Siglfirðingafélagið og hætta tilraunum að fá ungt fólk inn í félagið, sem þekkir Siglufjörð núna sem hluta af Fjallabyggð. Hinn kosturinn væri að breyta nafninu í Fjallabyggðarfélagið. Um þetta var rætt undir liðinum “önnur mál” á aðalfundinum.

Jónas Skúlason, fyrrverandi varaformaður félagsins, var kosinn formaður og tók við af Rakel Fleckenstein Björnsdóttur, sem lét af embætti eftir 8 ára setu á formannsstóli. Ný í stjórn voru kosin Birgir Gunnarsson, Gunnhildur Gígja Þórisdóttir og Hlöðver Sigurðsson en þau tóku sæti Halldóru Jónasdóttur, Jónasar Skúlasonar og Söndru Hjálmarsdóttur.

Stjórn Siglfirðingafélagsins fyrir starfsárið 2018-2019 er því þannig skipuð: Jónas Skúlason, formaður, Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir, Gunnar Trausti Guðbjörnsson, Margrét Birgisdóttir, Birgir Gunnarsson, Guðrún Gígja Þórisdóttir og Hlöðver Sigurðsson.

 

Gildagurinn á Akureyri

Annar Gildagur vetrarins í Listagilinu á Akureyri verður laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Opnanir sýninga, vinnustofur, tilboð í verslunum, lifandi tónlist og margt fleira. Kaupvangsstræti/Listagilið verður lokað að hluta milli kl. 14:00-17:00

Dagskrá dagsins 

kl. 9 – 23 Gildagur 3. nóvember – Gil kaffihús
Gil kaffihús verður með tilboð á tertum og kaffidrykkjum, tesmakk og langan happy hour,16-21 þennan skemmtilega dag! DJ Kveldúlfur verður svo að spila kl.21- ekki láta ykkur vanta!

Kl. 8:30 – 15 Verslun opin – Flóra – verslun, vinnustofur, viðburðir
Til sölu og sýnis verk og vörur eftir nefnda jafnt sem ónefnda listamenn, hönnuði, heimaframleiðendur, bændur og aðra frumskapendur.

kl. 13 – 17 Gildagur í Sjoppunni 3.11 – Sjoppan vöruhús
Í tilefni Gildagsins í Listagilinu verður Jón í lit á sérstöku Gildagsverði. Einnig verða tilboð á völdum vörum, smakk á jólalakkrís frá Johan Bulow og blöðrur fyrir börnin á meðan birgðir endast. Gestir geta skráð sig í Gildagsleik Sjoppunnar. Dregið verður í lok dags og hlýtur einn heppinn viðskiptavinur lakkrísdagatal frá Lakrids.

kl. 14 – 17 Opin verslun á Gildeginum – Vörur eftir hönnuði hússins – Gilið vinnustofur
Grafíkverk, Textíl vörur, kort, furðudýr og fleira. Kíkið við í litlu verslunina okkar og gerið góð kaup.

kl. 14 – 17 Hauströkkur – Ragnar Hólm – Ragnar Hólm
(Sýningin stendur til og með 4. nóv)
Ragnar Hólm sýnir nýjar vatnslitamyndir og nokkur olíumálverk. Hann hélt fyrstu sýningu sína í Populus tremula vorið 2010 en síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Tónlistarmennirnir Pálmi Gunnarsson og Kristján Edelstein leika af fingrum fram við opnun á laugardag.

kl. 14 – 17 Flóamarkaður í RÖSK RÝMI! – Rösk
Flóamarkaður að hætti RÖSK! Spennandi allskonar til sölu!

kl. 14 – 17 Myndir-Sölusýning! – Thora Karlsdottir
Thora Karlsdottir myndlistamaður opnar sýninguna “Myndir-Sölusýning” í RÖSK RÝMI, forstofu gallerí.

kl. 14 – 17 Hand- og sjónverk – Björg EiríksdóttirMjólkurbúðin – Salur Myndlistarfélagsins (Sýningin stendur til og með 11. nóv)
Á sýningunni verða útsaumsverk og málverk sem unnin eru á þessu ári og því síðasta. Munstur, lagskipting og samskiptin við verkin í vinnuferlinu eru í fyrirrúmi. Munstrin eru unnin út frá teikningum, hekluðum dúkum og gróðri og eru þrykkt, saumuð út og máluð í mörgum lögum. Verkin fela í sér langan tíma.

kl. 14 – 18 Triin Kukk – Merry Melancholy – Kaktus
Myndlistasýningin MERRY MELANCHOLY eftir Triin Kukk.
(Opnun er 2. nóv kl. 20. Sýningin stendur til og með 4. nóv)

kl. 15 -17 Örn Ingi Gíslason: Lífið er LEIK-fimi / Life´s PLAY-fullness – Listasafnið á Akureyri / Akureyri Art Museum (Sýningin stendur til og með 27. janúar 2019)
Opnun yfirlitssýningar á verkum Arnar Inga Gíslasonar. Sýningin er í raun skipulagður gjörningur sem stendur yfir í 3 mánuði, þar sem nýir fletir á verkum listamannsins verða sýndir á hverjum degi. Gjörningnum lýkur með kynningu á bókinni Lífið er LEIK-fimi. Léttar veitingar á opnunardegi.

Breytingar í gjaldskrá Fjallabyggðar árið 2019

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að leggja fram tillögur um breytta gjaldskrá og útsvar fyrir árið 2019 fyrir bæjarstjórn Fjallabyggðar. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að aukinn verði systkinaafsláttur í leikskóla Fjallabyggðar, 30% afsláttur vegna 2. barns verði 50% afsláttur og 50 % afsláttur vegna 3. barns verði 75% afsláttur.  Gert er ráð fyrir að Húsaleiga í félagslegu húsnæði í Fjallabyggð hækki um 10% þann 01.01.2019.

Þá er lagt til að Sorphirðugjöld í Fjallabyggð hækki í 44.000 kr. úr 42.000 kr.

Einnig er tillaga um að frá 1. janúar 2019 verði gjaldfrjálst fyrir öryrkja og eldri borgara 67 ára og eldri, íbúa Fjallabyggðar í sund og líkamsrækt. Þá er gert ráð fyrir að gjald fyrir skólamáltíðir í Grunnskóla Fjallabyggðar haldist óbreytt í krónum talið á milli ára.

Aðrar tillögur af breytingum verða:

Reiknað er með vísitöluhækkun upp á 3% á milli ára.
Útsvarsprósenta verði óbreytt 14,48%
Fasteignaskattsprósenta verði óbreytt, (A 0,49%, B 1,32% og C 1,65%)
Lóðarleiguprósenta verði óbreytt (A 1,90% og C 3,50%)
Sorphirðugjöld hækki í 44.000 kr. úr 42.000 kr.
Holræsa-/fráveitugjaldaprósenta lækki í 0,33% úr 0,36%.
Vatnsskattsprósenta fasteignagjalda lækki í 0,32% úr 0,35%.

Afsláttur af fasteignaskatti hjá tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum verður að hámarki kr. 70.000 í stað kr. 65.000,-.

Ólafsfjörður. Ljósmynd: Héðinsfjörður.is /Ragnar Magnússon

Opinn félagsfundur Markaðsstofu Ólafsfjarðar

Opinn félagsfundur Markaðsstofu Ólafsfjarðar verður haldin í Menntaskólanum á Tröllaskaga fimmtudaginn 1. nóvember n.k. Fundur hefst kl. 19.30.

Dagskrá: 

1. Hvað höfum við verið að gera frá því í vor.
2. Umsóknir til Fjallabyggðar.
3. Vestnorden – Bjarney Lea fer yfir niðurstöður og verkefni sem bíða.
Kaffihlé
4. Umræður í hópum og rafrænt þankahríð.
5. Önnur mál

Allir stofnaðilar og íbúar eru hvattir til að mæta.

Laus staða umsjónarkennara í Grunnskóla Fjallabyggðar

Grunnskóli Fjallabyggðar auglýsir stöðu umsjónarkennara á yngsta stigi.  Um er að ræða 100% stöðu. Kennslugreinar eru almenn kennsla og umsjón á yngsta stigi.

Menntunar- og hæfniskröfur:

Kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla skilyrði.
Frumkvæði í starfi og faglegur metnaður.
Jákvæðni og sveigjanleiki í samskiptum.
Góðir skipulagshæfileikar.
Ábyrgð og stundvísi.

Grunnskóli Fjallabyggðar er heildstæður grunnskóli með rúmlega 200 nemendur. Starfstöðvar eru tvær, í Ólafsfirði og á Siglufirði. Skólinn starfar samkvæmt Uppeldi til ábyrgðar og Olweusarstefnu gegn einelti.

Danssýningin Fubar sýnd á Sauðárkróki og viðtal danshöfund

Danssýningin Fubar verður sýnd á Sauðárkróki fimmtudaginn 1. nóvember kl. 18:00 í Félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. Við fengum danshöfundinn og dansarann Siggu Soffíu í viðtal hér á vefnum.
Sigríður Soffía og Jónas Sen eru ný komin heim fra Grænlandi en þau sýndu verkið FUBAR í Nuuk í þar síðustu viku.  Verkið var sýnt á vegum Outervision danshátíðarinnar í Nuuk en tveir íslenskir hópar sýna á festivalinu. Verk eftir tvo íslenska danshöfunda voru sýnd,  FUBAR eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur og Cloak eftir Sögu Sigurðardóttur.
Kennir í skólum fyrir norðan
FUBAR fer norður á vegum verkefnisins List fyrir alla. List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Hér má lesa meira um List fyrir alla https://listfyriralla.is/um-verkefnid/
Sigga Soffía mun kenna danssmiðjur í Skólanum í Varmahlíð, Grunnskóla Austan Vatna, Hofsós og Hólum og á Sauðárkrók þessari viku en List fyrir alla býður 8.-10. bekk grunnskólanna svo að sjá danssýninguna FUBAR í lok vikunnar.
Tvær sýningar verða því á verkinu, einkasýning fyrir nemendur skólanna og opin sýning fyrir almenning þann 1. nóvember kl. 18:00 í félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki.
Sigga Soffía kenndi einnig smiðjur á vegum List fyrir alla á Norðausturlandi síðasta vetur þar sem hún heimsótti marga skóla og sýndi FUBAR á félagheimilinu Hnitbjörg á Raufarhöfn og Ýdölum við Hafralækjarskóla.
Dansandi tónlistargagnrýnandi
Auk Siggu Soffíu dansara kemur Jónas Sen tónskáld og gagnrýnandi fram í verkinu sem dansari. Hann opnar verkið FUBAR með tai chi líkum dansi auk þess að semja tónlistina og spila á flygil í verkinu.
————————————————

Viðtal við Siggu Soffíu

Hvað getur þú sagt Skagfirðingum um sýninguna Fubar?

Þetta var 27 sýninginá FUBAR en verkið hefur verið sýnt víða um ísland á síðustu 2 árum en næstu sýningar eru áætlaðar á Sauðárkróki í lok oktober og Vestmannaeyjum á nýju ári. Verkið hlaut 2 grímutilnefningar 2016 þegar verkið var frumsýnt en það hefur ferðast um landsbyggðina á síðustu árum. Framundan eru áframhaldandi sýningar hérlendis og erlendis.

Hvað koma margir að sýningunni Fubar?

Listræna teymi sýningarinnar samanstendur af Sigríði Soffíu listrænn stjórnandi og flytur einnig verkið ásamt Jónasi Sen sem semur tónlistina í verkinu auk þess að spila á flygil og raftónlist. Leikmynd verksins er eftir myndlistarmanninn Helga Má og búningur eftir Hildi Yeoman.
Hvað munu grunnskólabörnin í Skagafirði læra í “list fyrir alla” ?
Ég mun bjóða krökkunum uppá vinnustofu í dansi þar fá þau að kynnast grunnatriðum í samtímadansi og nasaþef af því hvernig það er að starfa sem listamaður. Það er mikið af virkilega hæfileikaríkum dönsurum og íþróttamönnum útá landsbyggðinni sem hafa takmarkað aðgegi að t.d. danstímum. Ég er þvi bæði að kynna og opna fyrir möguleika þeirra um að starfsvettvang í listum. Margir krakkar hafa nefnt það við mig að þeim langi að dansa en ekki sé boðið uppá kennslu í þeirra bæjarfélagi. Í þeim tilfellum hef ég sýnt þeim leiðir hvernig þau geti ræktað hæfileikana með hjálp internetsins og hvað þeirra ástríða og áhugi getur komið þeim langt. Þau fá að prófa mismunandi gerðir af dansi en ég sníð vinnustofurnar að þeirra áhugasviði.
Nánar um List fyrir alla:
List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.
Stefnt er að því að á tíu ára grunnskólagöngu veiti verkefnið börnum góða yfirsýn yfir vettvang lista. Nemendur kynnast fjölbreytni listanna, íslenskum menningararfi og list frá ólíkum menningarheimum.
Á þennan hátt er menningarframboð aukið enn frekar og stuðlað að samstarfi listamanna og listahópa með börnum og ungmennum landsins þar sem gæði og fagmennska eru höfð að leiðarljósi.
Listviðburðirnir eru  unnir af fagfólki og bestu mögulegu gæðum. Leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.
List fyrir alla er  á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis
Hvað hefur þú starfað lengi sem dansari og danshöfundur ?
Ég hef starfað sem danshöfundur og dansari í 10 ár. Útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu í Samtímadansi og var fyrsti útskriftarárgangurinn á íslandi. Áður fyrr hafa allir dansarar þurft að flytja af landi brott til að fá framhaldsmenntun í dansi. Ég fór í skiptinám í sirkusskólan ESAQ í Brussel og starfaði í framhaldi mikið í Brussel og Frakklandi fyrstu 5 árin eftir útskrift. 
Hafa tekjur af dansi dugað til að framfleyta þér eða hefur þú starfað við aðra atvinnu meðfram listinni?
Já, ég starfa einungis við dans. En dans/hreyfing tekur á sig margar ólíkar myndir allt frá því að gera flugeldasýningar í að semja dans á fljúgandi mann í fallhífastökkshermi fyrir erlent fyrirtæki. Ég hef unnið sem sjálfstætt starfandi dansari frá útskrift og dansaði með mismunandi flokkum. Mest með Shalala flokki Ernu Ómarsdóttur sem var þá staðsett í Brussel.  Ég hef samið dansverk fyrir Íslenska dansflokkinn, samdi verk fyrir Pólskann dansflokk, dansaði og söng í Óperu í Frakklandi.  Vinn með hreyfingu í öllum sínum formum. Ég gerði dansverk fyrir flugelda (flugeldasýningar menningarnætur frá 2013-2015)  og hef mikið unnið með flugeldasýningar síðustu ár og gerði m.a. opnunarflugeldasýningu La Mercé hátíðarinnar í Barcelona í fyrra. 
Hvernig voru móttökur í Grænlandi með sýninguna Fubar?
Þær voru frábærar, ótrúlega skemmtilegt að sýna í samfélagi sem er svona ólíkt á margan hátt en líkt á annan. Grænlendingar eru opnir fyrir sterkum kvenímyndum og eru með dans sem heitir Greenaland mask dance sem gengur útá mjög grótesk performance. Mér fannst hlutar úr sýningunni minni vera í anda þessarar tækni (sem er tilviljun því ég hafði ekki kynnt mér þessa danstækni áður) en veran í Nuuk dró fram aðra þætti í sýningunni sem urðu fyrirferðarmeiri  og ýktari fyrir vikið. Það þótti mér skemmtilegt. 
Ætlar þú að skoða eitthvað sérstakt í Skagafirði í þessari heimsókn?
Stóra planið er að drekka kaffi með ættingjum mínum á Sauðárkróki og svo er ég að vonast til að komast í sjósund á einhverjum góðum stað.
Langamma og afi, Jónanna og Jósafatbjuggu á Hólavegi 14, og áttu þar 4 börn. Braga, Guðrúnu, Jón og Ingibjörgu og hún Gunna Jós er amma mín.

Svavar Örn Íþróttamaður Hrings 2018

Uppskeruhátíð Hestamannafélagsins Hrings var haldin í gær á veitingahúsinu Norður í Dalvíkurbyggð.

Eftirfarandi viðurkenningar voru veittar:

  • Íþróttamaður Hrings 2018 er Svavar Örn Hreiðarsson
  • Knapi ársins er Steinunn Birta Ólafsdóttir
  • Hringsfélagi ársins er  Dagbjört Ásgeirsdóttir
  • Handhafar Gullpálma Hrings 2018: Hjörleifur og Svavar fyrir leik, leikstjórn og myndatöku, Ólöf fyrir klippingu

Vilja markvissa heilsueflingu eldri borgara á Akureyri

Stjórn Öldungaráðs Akureyrarbæjar hefur lagt fram tillögur um að farið verði markvisst í heilsueflingu eldri borgara á Akureyri.
Einnig hefur öldungaráðið lagt fram tillögu um að frístundastyrkir verði greiddir til eldri borgara til eflingar á líkamlegri og andlegri færni þeirra og að ókeypis verði í sund fyrir eldri borgara í Sundlaugar á Akureyri.

Bæjarráð Akureyrar hefur vísað beiðninni til vinnslu í fjárhagsáætlun.

Barnastarf og guðsþjónusta í Ólafsfjarðarkirkju

Sunnudagurinn 28. október verður barnastarf kl. 11:00 í Ólafsfjarðarkirkju og helgistund á Hornbrekku kl. 14:30.  Guðsþjónusta verður kl. 20:00 þar sem látinna er minnst.

Lísa Hauks syngur ásamt Kirkjukór Ólafsfjarðar við undirleik Ave Köru Sillaots. Kerti frá Iðju dagvist á Siglufirði verða seld í kirkjugarðinum að lokinni guðsþjónustunni á 500 kr. stykkið.

Tónleikar til heiðurs bæjarlistamanni Fjallabyggðar 2018

Tónleikar til heiðurs bæjarlistamanni Fjallabyggðar 2018, Sturlaugi Kristjánssyni, verða haldnir í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði, laugardaginn 3. nóvember næstkomandi. Tónleikarnir hefjast kl.  21:00.

Sturlaugur Kristjánsson mun koma fram ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Landabandinu og leika lög unga fólksins sem voru vinsæl milli  áranna 1960 og 1970.  Auk Sturlaugs sem leikur á bassa, skipa hljómsveitina þeir Guðmann Sveinsson, gítar,  Rodrigo Lopes, trommur og Daníel Pétur Daníelsson, söngur.

Sérstakir gestasöngvarar, þau Sævar Sverrisson, Lísebet Hauksdóttir og félagar úr sönghópnum Gómunum, koma einnig fram á tónleikunum.

Að tónleikum loknum verður stiginn dans fram til kl. 01:00

Miðasala verður við innganginn.

Staða stuðningsfulltrúa laus við Grunnskóla Fjallabyggðar

75% staða stuðningsfulltrúa við Grunnskóla Fjallabyggðar er laus til umsóknar.  Stuðningsfulltrúastarf felur í sér aðstoð við nemanda/nemendur og gæslu. Vinnutími kl. 8.00-14.30.

Upplýsingar veitir Erla Gunnlaugsdóttir skólastjóri í síma 4649150/8652030 eða í gegnum netfangið erlag@fjallaskolar.is

Umsókn ásamt ferilskrá sendist á erlag@fjallaskolar.is: umsóknarfrestur er til og með 7. nóvember.

Grunnskóli Fjallabyggðar var stofnaður haustið 2010. Gildi skólasamfélagsins í Fjallabyggð eru: Kraftur – Sköpun – Lífsgleði

Starfstöðvar eru tvær, í Ólafsfirði og á Siglufirði. Skólinn starfar samkvæmt Uppeldi til ábyrgðar og Olweusarstefnu gegn einelti.

Slobodan framlengir við KF næstu 2 árin

Slobodan Milisic hefur skrifað undir nýjan 2ja ára samning við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, en hann var samningslaus núna eftir tímabilið. Slobodan hefur verið þjálfari KF síðustu tvö tímabil og hefur verið uppgangur í liðinu á milli tímabila. Hann hefur unnið að því að setja sitt handbragð á liðið og fengið til liðsins lánsmenn og erlenda leikmenn til að styrkja ungan hóp heimamanna. Slobodan hefur meðal annars þjálfað lið KA og BÍ/Bolungarvík.

Liðið endaði í 3. sæti 3. deildar í ár og verður því byggt ofan á þann árangur. Búast má við að leikmannahópurinn breytist eitthvað á milli ára, en nokkrir ungir lánsmenn voru fastamenn með liðinu í sumar auk erlendra leikmanna.

Ráðinn þjálfari Dalvíkur/Reynis

Óskar Bragason hefur verið ráðinn nýr þjálfari Dalvíkur/Reynis fyrir komandi tímabil í 2.deild karla. Óskar hefur skrifað undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis.
Óskar er með UEFA-A þjálfaragráðu og er þaulreyndur þjálfari en undanfarin þrjú tímabil hefur hann starfað sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks KA. Dalviksport.is greindi fyrst frá þessu.

Óskar Bragason, sem er fæddur 1977, var leikmaður sjálfur og á 67 leiki í meistaraflokki en hann lék m.a. með KA, Vask, Nökkva og Magna á sínum ferli. Óskar á að baki 10 landsleiki fyrir u-17 Landslið Íslands.
Hann hefur lengi verið viðloðandi knattspyrnu og starfaði sem yngriflokkaþjálfari áður en hann færði sig yfir í meistaraflokk karla.

„Við erum gífurlega ánægðir með ráðninguna á Óskari Bragasyni. Óskar tikkar í öll þau box sem við fórum af stað með í þjálfaraleitina. Hann er hress og skemmtilegur karakter en fyrst og fremst veit hann haug um fótbolta og með skýra sýn á verkefnið. Við teljum hann rétta manninn í að halda áfram því góða starfi sem unnið er í kringum fótboltann í Dalvíkurbyggð“ sagði Stefán Garðar Níelsson, formaður knattspyrnudeildar.

 

Ritlistasmiðjan Ungskáld 2018

Ritlistasmiðjan Ungskáld 2018 fer fram í Verkmenntaskólanum á Akureyri laugardaginn 27. október frá kl. 9-16. Markmiðið er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára því að kostnaðarlausu. Verkefnið Ungskáld hefur verið við lýði á Akureyri í nokkur ár og er það eina sinnar tegundar á landinu. Að verkefninu standa Akureyrarstofa, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Ungmennahúsið í Rósenborg og Amtbókasafnið.

Fyrri hluta dags leiðir rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir vinnuna en eftir hádegið verður unnið undir leiðsögn Snæbjörns Ragnarssonar sem er betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld. Þátttakendum verður boðið upp á létt hádegissnarl frá kl. 12-13.

Samhliða er efnt til ritlistakeppni sem er opin öllum ungmennum á aldrinum 16-25 ára. Þar verða veitt peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku. Ritlistakeppnin verður nánar auglýst síðar.

Ritlistasmiðjan laugardaginn 27. október er sem áður segir ókeypis fyrir þátttakendur og þeim ber að sjálfsögðu engin skylda til að skila inn textum í ritlistakeppnina.

Dagskrá:

Kl. 9:00 – 9:10 Mæting í Verkmenntaskólann
Kl. 9:10 – 12:00 Guðrún Eva Mínervudóttir, smiðja og vinnustofa
Kl. 12:00-13:00 Hádegishlé, saðsamur hádegismatur í boði Ungskálda
Kl. 13:00-16:00 Snæbjörn Ragnarsson, smiðja og vinnustofa
Kl. 16:00 Ritlistasmiðju lýkur

Skráning í Ritlistasmiðjuna fer fram á www.ungskald.is.

Kabarett sýndur á Akureyri

Söngleikurinn Kabarett eftir Joe Masteroff verður frumsýndur í Samkomuhúsinu á Akureyri á morgun, föstudaginn 26. október. Uppselt er á frumsýninguna og einnig sýningu nr. 3.

Leikstjóri Kabaretts er Marta Nordal en með aðalhlutverk fara Andrea Gylfadóttir, Birna Pétursdóttir, Hákon Jóhannesson, Hjalti Rúnar Jónsson, Jóhann Axel Ingólfsson, Ólöf Jara Skagfjörð og Karl Ágúst Úlfsson.

Söngleikurinn Kabarett var frumfluttur á Broadway árið 1966 og naut strax mikillar hylli. Síðar sló kvikmynd Bob Fosse með Lizu Minelli í aðalhlutverki, umsvifalaust í gegn og hlaut átta Óskarsverðlaun árið 1973.

Kabarett er beittur og tælandi söngleikur sem á brýnt erindi við samtíma okkar.  Miðaverð er 7900 kr og er hægt að nálgast miða á mak.is.

Dagsetningar og tími:
26.10.2018 – kl. 20:00
27.10.2018 – kl. 20:00
01.11.2018 – kl. 20:00
03.11.2018 – kl. 20:00
08.11.2018 – kl. 20:00
09.11.2018 – kl. 20:00

Dregið í happdrætti Skíðafélags Siglufjarðar

Þann 23. október síðastliðinn var útdráttur í árlegu happdrætti Skíðafélags Siglufjarðar Skíðaborg en dregið var á skrifstofu sýslumanns á Siglufirði af fulltrúa sýslumannsins Brynju Hafsteinsdóttur.  Viðstöð voru fyrir hönd SSS: Jón Garðar Steingrímsson, formaður og Anna María Björnsdóttir, gjaldkeri.

Fjöldi útprentaðra miða var 800 stk. og seldir voru 537 stk. Dregið var úr seldum miðum samkvæmt framlagðri vinningskrá, þó seldust miðar í hærri númerum en 537.

Vinningur: Verðmæti: Vinningsnúmer:
1.vinningur Gisting í Sæluhúsum 65.000.- 247
2.vinningur Sex mánaða skammtur af Benecta 35.000.- 262
3.vinningur Eitt árskort á Skíðasvæði Siglufjarðar 25.000.- 576
4.vinningur Eitt árskort á Skíðasvæði Siglufjarðar 25.000.- 232
5.vinningur Ullarföt frá Olís 23.000.- 042
6.vinningur Atomic skíðapoki frá Fjalari 20.000.- 101
7.vinningur Gjafabréf frá Úrval Útsýn 20.000.- 349
8.vinningur Gjafabréf frá Úrval Útsýn 20.000.- 043
9.vinningur Gjafakort frá Byggingarfélagi Berg 15.000.- 419
10.vinningur Snyrtitaska frá Snyrtistofu Hönnu Siggu 12.500.- 207
11.vinningur Gjafabréf frá Top Mountaineering 11.000.- 037
12.vinningur Bílavörur frá Múlatind 10.000.- 425
13.vinningur Gjafabréf frá Harbour House Cafe 10.000.- 332
14.vinningur Reiðtúr fyrir tvo frá Herdísi á Sauðanesi 10.000.- 290
15.vinningur Vörur frá Primex 10.000.- 323
16.vinningur Vörur frá Cintamani 10.000.- 393
17.vinningur Vörur frá Cintamani 10.000.- 429
18.vinningur Headphones frá Símanum 10.000.- 004
19.vinningur Gjafabréf frá SiglóSport 10.000.- 535
20.vinningur Vörur frá Efnalauginni Lind 7.000.- 595
21.vinningur Vörur frá SiglufjarðarApóteki 6.000.- 652
22.vinningur Vörur frá SR 6.000.- 684
23.vinningur Gjafakassi frá Hárgreiðslustofu Sillu 6.000.- 111
24.vinningur Snyrtitöskur frá Moroccanoil 6.500.- 517
25.vinningur Snyrtitöskur frá Moroccanoil 6.500.- 218
26.vinningur Dömuklipping Hárgreiðslustofu Sirrýjar 5.500.- 039
27.vinningur Sundkort frá Fjallabyggð 5.300.- 284
28.vinningur Gjafabréf frá Everest 5.000.- 196
29.vinningur Vörur frá Vídeóval 5.000.- 390
30.vinningur Vörur frá Vídeóval 5.000.- 011
31.vinningur Gjafabréf frá Torginu 5.000.- 274
32.vinningur Gjafabréf frá Torginu 5.000.- 186
33.vinningur Gjafabréf frá Hjarta Bæjarins 5.000.- 391
34.vinningur Gjafabréf frá Hjarta Bæjarins 5.000.- 404
35.vinningur Vörur frá Pósthúsinu 5.000.- 279
36.vinningur Gjafabréf frá Fiskbúð Fjallabyggðar 4.000.- 045
37.vinningur Molar frá Frida Súkkulaðikaffihús 3.000.- 160

(birt með fyrirvara um innsláttarvillur)

Aðalfundur hverfisráðs Hríseyjar

Aðalfundur hverfisráðs Hríseyjar verður haldinn fimmtudaginn 15. nóvember kl. 16.00 í Hlein.  Á dagskrá eru -venjuleg aðalfundarstörf.  Á fundinum verða ýmis málefni Hríseyjar rædd. Bæjarstjóri og fulltrúar frá Akureyrarbæ mæta á fundinn. Íbúar eru hvattir til að fjölmenna á fundinn.

Dagskrá:
1.   Kosning fundarritara og fundarstjóra.
2.   Skýrsla stjórnar hverfisráðs fyrir
liðið starfsár.
3.   Kosning til hverfisráðs.
4.   Önnur mál.

Þeir sem vilja gefa kost á sér til setu í ráðinu tilkynni það á skrifstofuna í Hrísey sími: 466-1762 fyrir hádegi  miðvikudaginn 14. nóvember, með tölvupósti á lindamaria@akureyri.is eða til Lindu Maríu í síma 891-7293.

Framlög frá UEFA og KSÍ til barna- og unglingastarfs aðildarfélaga KSÍ

UEFA hefur ákveðið, líkt og áður, að hluti af þeim tekjum sem sambandið hafði af Meistaradeild UEFA (Champions League) 2017/2018 skuli renna til félaga í öllum aðildarlöndum UEFA til eflingar knattspyrnu barna- og unglinga. Uppgjör vegna Meistaradeildarinnar sem lauk vorið 2018 hefur nú farið fram og fá íslensk félög um 60 milljónir króna (miðað við gengi 23. október 2018) í sinn hlut til barna- og unglingastarfs.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar fær 1 milljón króna í sinn hlut til  barna – og unglingastarfs.

Samkvæmt ákvörðun UEFA skulu öll framlög vegna Meistaradeildar UEFA til barna – og unglingastarfs renna til félaga í efstu deild. Framlag UEFA skiptist því á milli félaga í Pepsi-deild karla.

Stjórn KSÍ hefur samþykkt að leggja til um 58 milljónir króna til viðbótar til barna-og unglingastarfs sem skiptist á milli aðildarfélaga í öðrum deildum og utan deilda. Samþykkt stjórnar KSÍ byggir á samráði við aðildarfélögin og almennri sátt um skiptingu fjármunanna.

Greiðslan til félaganna skal renna óskipt til eflingar knattspyrnu barna og unglinga frá yngstu iðkendum til og með 2. aldursflokks karla og kvenna. Samtals er því framlag til barna- og unglingastarfs fyrir árið 2018 áætlað um 118 milljónir króna.

Framlag KSÍ til eflingar knattspyrnu barna og unglinga að upphæð um 58 milljónum króna rennur til félaga í 1. deild karla, 2. deild karla, 3. deild karla, 4. deild karla og aðildarfélaga KSÍ utan deilda 2018. Hvert félag í Inkasso-deildum fær kr. 2.400.000, félag í 2. deild karla fær kr. 1.500.000 önnur félög í deildarkeppnum og félög utan deildarkeppni kr. 1.000.000. Úthlutun er háð því að félög haldi úti starfsemi í yngri flokkum beggja kynja og skulu félög sem eru utan deildarkeppni (eða eru ekki með starfsemi hjá báðum kynjum) framvegis sækja um styrk til barna- og unglingastarfs og sýna fram á starfsemi sína.

Greiðslan til félaganna skal renna óskipt til eflingar knattspyrnu barna og unglinga frá yngstu iðkendum til og með 2. aldursflokks karla og kvenna.

Dæmi um kostnaðarliði í þessu starfi eru laun þjálfara, ferðakostnaður vegna þátttöku í keppni, aðstöðuleiga, kaup á tækjum og áhöldum.

Liðin á Norðurlandi sem fá framlög eru:

KA | 5.299.290

Magni | 2.400.000

Þór | 2.400.000

Tindastóll | 1.500.000

Völsungur | 1.500.000

Dalvík/Reynir | 1.000.000

KF |  1.000.000 

Hvöt | 1.000.000

Kormákur | 1.000.000

Raddir unga fólksins við Hringborð Norðurslóða

Alþjóðaþing Arctic Circle (Hringborðs Norðurslóða) var haldið um síðustu helgi í Hörpu í Reykjavík. Hópur ungmenna frá Ungmennahúsi Akureyrarbæjar sótti þingið og á sérstakri málstofu sem nefnist Raddir unga fólksins (The Voices of Youth) fluttu þrir Akureyringar erindi um brýn hagsmunamál ungs fólks: Omar Khattab Almohammad sagði frá reynslu sinni af menntakerfinu eftir að hann flutti til Akureyrar frá Sýrlandi, Páll Rúnar Bjarnason talaði um reynslu unglinga af þeirri geðheilbrigðisþjónustu sem er í boði á Akureyri og Ari Orrason fjallað um sjálfsmorð ungmenna í bænum. Að auki tók Ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna þátt í málstofunni og kynnti markmið sín. Þar tóku til máls Matthías Bragi, Auður Bjarnadóttir og Ástþór Björnsson. Fundarstjóri Jörundur Guðni Sigurbjörnsson. Skipuleggjandi málstofunnar Raddir unga fólksins (The Voices of Youth) var Guðrún Þórsdóttir verkefnastýra hjá Ungmennahúsinu á Akureyri.

Margt dreif á daga ungmennanna fyrir sunnan og má þar nefna að hópurinn var boðinn í sendiráð Bandaríkjanna þar sem Byron Nicolai sýndi heimildarmynd um sjálfan sig og líf sitt í Alaska. Byron er ungur strákur sem býr í litlu þorpi í Alaska og stundar körfubolta en engar samgöngur eru við bæinn nema loftleiðis. Byron kom til Akureyrar stuttu fyrir Arctic Circle ráðstefnuna og söng fyrir nemendur VMA. Hann söng einnig á opnun Arctic Circle í Reykjavík og kom fram þar nokkrum sinnum yfir helgina. Byron syngur þjóðlög og blandar saman eldri og nýrri tónlist.

Segoline Royal, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Frakklands, hitti hópinn á laugardag og kynnti þar störf sín í þágu umhverfismála, femínisma og baráttu gegn loftlagsbreytingum. Að kynningu lokinni voru málin rædd vítt og breitt og ungmennin létu óspart í ljós sínar skoðanir á málaflokkunum. Segoline Royal er úr franska Sósíalistaflokknum og var frambjóðandi flokksins til embættis forseta Frakklands árið 2007.

Ungmennin frá Akureyri voru virkir þátttakendur í Hringborði Norðurslóða og sóttu hinar ýmsu málstofur meðan á ráðstefnunni stóð. Margvísleg tengsl voru mynduð við ungt fólk sem starfar að umhverfismálum og bættum heimi á alþjóðavísu.

Guðrún Þórsdóttir verkefnastjóri hjá Ungmennahúsinu á Akureyri er bjartsýn á að ferðin suður beri góðan ávöxt: „Eftirfylgnin mun taka sinn tíma en við komum til dæmis á tengingu við frönsk ungmenni í gegnum Segoline Royal og einnig náðum við góðu sambandi við Students on Ice sem er samtök sem ferðast með ungmenni um heiminn og skoða með eigin augum ummerki um loftlagsbreytingar. Þar að auki vinnum við áfram með félaginu Ungir umhverfissinnar að verkefninu The Arctic Youth Network og erum strax farin að undirbúa þátttöku á næsta Hringborði Norðurslóða eða Arctic Circle þar sem við verðum vonandi enn fjölmennari og látum jafnvel ennþá meira til okkar taka.“

Aðkoma Ungmennahússins að Arctic Circle var styrkt af Erasmus plus.

Nánari upplýsingar: Guðrún Þórsdóttir, sími 663 2848.

Texti og mynd: Fréttatilkynning frá Akureyrarbæ.

Opinn fundur um samgöngumál í Fjallabyggð

Sjálfstæðisflokkurinn í Fjallabyggð stendur fyrir opnum fundi um samgöngumál laugardaginn 27. október nk. í Ráðhúsinu á Siglufirði kl. 10:00.

Ræðumaður verður Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og ber fundurinn yfirskriftina “það er til önnur leið”.

Fundarstjóri verður Helga Helgadóttir formaður bæjarráðs Fjallabyggðar.

Boðið verður upp á kaffi og kleinur og eru allir hjartanlega velkomnir.

 

Góð aðsókn á málþing í Sundlaug Akureyrar

Blautasta málþing allra tíma, Á kafi í fullveldi, var haldið í Sundlaug Akureyrar síðasta laugardag, 20. október. Tilefnið var 100 ára afmæli fullveldisins Íslands. Prýðileg aðsókn var að viðburðinum sem stóð sleitulaust frá kl. 13-16 og var frítt í sund á meðan.

Tíu fræðimenn frá Háskólanum á Akureyri fluttu stutta framsögu um ýmsar hliðar fullveldisins í heitu pottunum á sundlaugarsvæðinu og fengu síðan sundlaugargesti til að tjá sig um málefnið. Skáldið Gerður Kristný flutti ljóð sín með kraftmiklum hætti og Vandræðaskáldin fluttu bálkinn Sullveldi. Um annan tónlistarflutning á svæðinu sáu Ivan Mendes og systurnar Una og Eik. Listakonan Jónborg Sigurðardóttir dreifði plastbrúsum með áríðandi skilaboðum í einn heita pottinn og fjallaði um plastógnina. Í karlaklefanum talaði Hjalti Ómar Ágústsson um ábyrgð pungsins og í kvennaklefanum ræddi Sigga Dögg um fullveldi píkunnar.

Háskólakennararnir sem lögðu sitt af mörkum voru Anna Soffía Víkingsdóttir, Finnur Friðriksson, Börkur Már Hersteinsson, Grétar Þór Eyþórsson, Arndís Bergsdóttir, Guðmundur Ævar Oddsson, Nanna Ýr Arnardóttir, Hjalti Ómar Ágústsson, Bigir Guðmundsson og Brynhildur Bjarnadóttir. Kynnir á viðburðinum var María Pálsdóttir.

Á kafi í fullveldi var hluti af dagskrá 100 ára fullveldisafmæli Íslands, styrkt af Fullveldissjóði og unnið í samstarfi við Akureyrarbæ, Sundlaug Akureyrar, Háskólann á Akureyri, Akureyrarstofu, Amtsbókasafnið á Akureyri og Aflið.

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson / Akureyrarstofa

Sýningin Sköpun og verk í Menningarhúsinu Tjarnarborg

Sýningin Sköpun og verk verður haldin í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði fyrsta vetrardag, laugardaginn 27. október. Sýningin er tileinkuð handverki, sköpun og hönnun í Fjallabyggð og verður opin frá kl.13.00 – 17.00.

 

Á sýningunni verða:

Sjálfsbjörg Siglufirði.

Þar mæta félagar með hina ýmsu muni til sýnis og sölu sem gerðir eru á vinnustofu Sjálfsbjargar sem staðsett er að Lækjargötu 2, Siglufirði. Sjálfsbjargarfélagið á Siglufirði var stofnað 9. júni 1958 og er elsta félag Sjálfsbjargar á Íslandi.

Kolbrún Símonardóttir frá Siglufirði 

Kolbrún Símonardóttir verður með bútasaumsverk sem hún hannaði og saumaði. Verkið kallar hún Arfleiðin og er óður til íslensks handverks. Kolbrún jurtalitar íslenska ull og vinnur úr og einnig málar hún og saumar.

Ólafur Símon Ólafsson 

Ólafur Símon Ólafsson er Siglfirðingur og starfar sem kokkur á Sigló Hótel, en í frístundum sínum leggur hann hönd á gerð mini skúlptúra af ýmsum gerðum. Margir mini skúlptúrar Ólafs Símonar eru í anda Warhammer sem er herkænskuspil og hefur sköpun Ólafs Símonar vakið athygli út um allan heim. Hann Óli Símon er alveg að verða heimsfrægur listamaður.

Kristjana Valdey Valgeirsdóttir frá Ólafsfirði

Kristjana Valdey er mikil handverkskona. Hannar skart úr hreindýrahornum, brennir myndir á við ásamt því að vinna muni úr kindahornum og íslenskri ull. Kristjana tínir einnig jurtir úr íslenskri náttúru í krydd til matargerðar.

Hlutu heiðursviðurkenningar á hátíðarfundi Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar

Tveir félagar Rótarýklúbbs Ólafsfjarðar voru heiðraðir á hátíðarfundi þann 18. október síðastliðinn, þetta eru þeir Svavar Berg Magnússon og Óskar Þór Sigurbjörnsson.

Svavar Berg gekk í Rótarýklúbb Ólafsfjarðar í desember 1963. Hann hefur tvisvar verið forseti klúbbsins, í fyrra skiptið starfsárið 1972-1973.  Seinna forsetatímabil Svavars var árið 1995-1996.

Óskar Þór er einn af fáum sem hefur verið forseti þrjú starfsár, það fyrsta 1977-1978, annað 1999-2000 og hið þriðja 2007-2008.
Óskar Þór var um árabil formaður skiptinemanefndar klúbbsins og bar hitann og þungan af því starfi um langt árabil. Hann hefur séð um innheimtu fyrir leiðiskrossana í fjölmörg undanfarin ár og gerir enn.

Það voru stór tímamót hjá Svavari vikunni áður, þar sem hann varð áttræður og tilnefningin því á skemmtilegum tíma. Svavar er og hefur lengi verið áhugaljósmyndari og á stórt og vel skipulagt safn ljósmynda á stafrænu formi. Í safni hans eru miklar heimildir um starf rótarýklúbbsins svo áratugum skiptir. Vefsíður klúbbsins og samkomur á hans vegum hafa fengið að njóta góðs af því í gegnum tíðina.

Klúbburinn hefur e.t.v. ekki verið nógu duglegur að tilnefna heiðursfélaga, en fyrir voru þó þrír gamalreyndir rótarýmenn í því liði, Þeir: Ármann Þórðarson, Gunnar Þór Magnússon og Magnús Stefánsson. Magnús er einn eftirlifandi þeirra kappa sem stofnuðu klúbbinn í apríl 1955.

Hausttónleikar Tónlistarskólans á Tröllaskaga

Hausttónleikar Tónlistarskólans á Tröllaskaga verða haldnir í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð dagana 23. október til 1. nóvember.

Dagskrá:

1. Hausttónleikar í salnum í Víkurröst

þriðjudaginn 23. október kl. 16.30. og kl. 17.30.

2. Hausttónleikar í Tjarnarborg

miðvikudaginn 24. október kl. 16.30.

3. Tónfundur á sjúkrahúsinu á Siglufirði

miðvikudaginn 24. október kl. 14.30.

4. Hausttónleikar á Hornbrekku í Ólafsfirði

fimmtudaginn 25. október kl. 14.30.

5. Hausttónleikar í salnum á Siglufirði

mánudaginn 29. október kl. 17.00.

6. Tónfundur á Dalbæ í Dalvíkurbyggð

fimmtudaginn 1. nóvember kl. 14.00.

Bókasafnið í Ólafsfirði lokað dagana 24. – 26. október

Bókasafnið í Ólafsfirði verður lokað dagana 24. – 26. október vegna Landsfundar Upplýsingar 2018.

Opið verður í bókasafninu á Siglufirði frá kl. 13.00-17:00 þessa sömu daga.  Lokað verður á héraðsskjalasafninu.

Landsfundur Upplýsingar er samstarfsvettvangur starfsfólks bókasafna um land allt.  Hann er haldin annað hvert ár og er að þessu sinni í Silfurbergi, Hörpu í Reykjavík.