Category Archives: Norðurland

Sjómannadagurinn í Fjallabyggð 3. júní 2018

Sjómannafélag Ólafsfjarðar og Sjómannadagsráð halda að venju úti glæsilegri og metnaðarfullri dagskrá fyrir alla fjölskylduna um komandi sjómannadagshelgina 1.-3. júní.

Dagskrá helgarinnar verður ekki kynnt í þessu stutta bréfi, heldur viljum við vekja athygli á að árshátíð sjómanna í íþróttahúsinu á sunnudagskvöldinu er öllum opinn, og vonumst við til að fyrirtæki, félagasamtök og bara vinahópar taki sig saman og skemmti sér með okkur á þessari flottustu skemmtun ársinns í Fjallabyggð.

Texti: aðsent/fréttatilkynning

Staða Safnstjóra Byggðasafns Skagafirðinga

Staða Safnstjóra Byggðasafns Skagafirðinga er laus til umsóknar. Ráðið verður í starfið frá 1. júlí og er um að ræða 100% starfshlutfall. Umsóknarfrestur er til og með 27. maí 2018

 

Starfssvið: Safnstjóri er í forsvari fyrir Byggðasafn Skagfirðinga. Helstuverkefni safnstjóra eru að annast daglegan rekstur safnsins, starfsmannamál, verkstýring starfsmanna, stefnumörkun safnsins og eftirfylgni, fjármögnun verkefna, fjárumsýslu vegna sýningahalds, vinnur fjárhagsáætlun, skýrslugerð, kynningar, markaðssetning, veitir safngestum ráðgjöf og leiðsögn, fræðslu og safnkennslu, ritstýrir og setur upp rit ásamt því annast útgáfu þeirra o.s.frv.

Menntunarkröfur: Háskólamenntun í menningarfræðum eða skyldum greinum.

Hæfniskröfur: Víðtæk reynsla af störfum á safni er skilyrði ásamt reynslu af stjórnun, rekstri og stefnumótun. Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og a.m.k. ensku. Góð kunnátta á helstu tölvuforrit, s.s. word, excel og myndvinnslu.

Leitað er að einstaklingi með framúrskarandi leiðtoga- og samskiptahæfni.  Umsækjandi þarf jafnframt að hafa góða vitund fyrir sjálfum sér, ríka ábyrgðartilfinningu, vera tilbúinn til að tileinka sér nýjar hugmyndir, hafa metnað í starfi, jákvæður og sýna af sér sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð og frumkvæði.

Launakjör: Laun eru samkvæmt gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga við hlutaðeigandi stéttarfélag.

 

Nánari upplýsingar: Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri, í síma 455 6000 eða með því að senda fyrirspurn á astap@skagafjordur.is

Umsóknir: Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið. Afrit af prófskírteini þarf að fylgja umsókn.

Umsóknum ásamt fylgiskjölum skal skilað í gegnum íbúagátt sem finna má á heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is (laus störf). Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Karlar, sem og konur, eru hvött til að sækja um.

 

Byggðasafn Skagfirðinga er rekið af Sveitarfélaginu Skagafirði og er rannsókna-, þekkingar- og þjónustustofnun.

Safnið starfar samkvæmt gildandi lögum um söfn, minjar og menningarverðmæti og hefur siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM) að leiðarljósi. Hlutverk Byggðasafns Skagfirðinga er að safna, varðveita og rannsaka muni og minjar úr Skagafjarðarhéraði og miðla þeim til almennings. Áhersla er lögð á rannsóknir og miðlun upplýsinga um áþreifanlegar og óáþreifanlegar heimildir um menningararf héraðsins, einkum byggingaarf og mikilsverðar lífsháttabreytingar.

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 1. sæti X-H

Jón Valgeir Baldursson skipar 1. sæti  H-listans í Fjallabyggð.

“Ég er  45 ára, fæddist í Ólafsfirði og hef búið hér alla mína tíð. Eiginkona mín er Hrönn Gylfadóttir sjúkraliði saman eigum við 3 börn, Ágúst Örn 22 ára, Ívan Darri 19 ára og Sunna Karen 16 ára og búum við í Ólafsfirði ásamt heimilishundinum Ringo.

Við fjölskyldan eigum nokkrar kindur og hænur og uni ég mér mjög vel í sveitinni.  Ég hef mikinn áhuga á útiveru, ferðalögum og notum við hjónin hvert tækifæri sem við fáum til að fara af stað með hjólhýsið okkar. Samvera með fjölskyldunni og vinum skipar mjög stóran sess í mínu lífi.

Ég er pípulagningameistari, er með verslunarpróf og EMT-Basic  í sjúkraflutningum. Ég á og rek fyrirtækið JVB-Pípulagnir ehf. hérna í Fjallabyggð og er Ágúst Örn sonur minn að vinna og læra hjá mér pípulagnir. Ég er í slökkviliði Fjallabyggðar, starfaði í nokkur ár sem sjúkraflutningamaður, hef verið í björgunarsveitinni Tind til margra ára og var þar með umsjón með flugeldasölunni á löngu tímabili.

Ég byrjaði núverandi kjörtímabil sem varamaður í bæjarstjórn Fjallabyggðar en tók við sem aðalmaður fyrir ári síðan, var varamaður í bæjarráði og síðan áheyrnarfulltrúi í bæjarráði. Fyrstu 2 árin var ég aðalmaður í Umhverfis- og skipulagsnefnd, var um tíma áheyrnarfulltrúi í Fræðslu- og frístundanefnd, og er núna varaáheyrnarfulltrúi í Hafnarstjórn, varamaður í Stjórn Hornbrekku, aðalmaður í Starfshóp um málefni Menntaskólans á Tröllaskaga.”

Mínar áherslur er meðal annarra.

Umhverfismálin, að átak verði gert bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði í fegrum umhverfisins, flotta miðbæjarkarna beggja megin, að gera opin svæði í Fjallabyggð fjölskylduvænni, m.a. með því að fjölga bekkjum, borðum og leiktækjum. Koma á föstum samgöngum á milli byggðarkjarnanna

Uppbygging í atvinnumálum, m.a. með sjókvíaeldi, vinnslu á eldisfiski í sveitarfélaginu,  finna hvatningu fyrir því að einstaklingar og fyrirtæki sjái hag í að fara að byggja hér húsnæði. Styðja við atvinnulífið í Fjallabyggð.

Uppbygging á íþróttamannvirkjum í Fjallabyggð víða komin þörf á því.
Auka stuðninginn við  íþrótta-og tómstundastarf í Fjallabyggð.

Auka jöfnuð fólks í Fjallabyggð að stjórnsýslu sveitarfélagsins m.a. með því að tryggja viðveru deildarstjóra og starfsmanna í báðum byggðarkjörnunum.

Skapa sátt og samhug um fræðslumálin í Fjallabyggð, huga vel að málefnum eldri borgara, öryrkja og fatlaðra í Fjallabyggð.  Markaðssetja Fjallabyggð sem fjölskylduvænt samfélag.

Ég hef háð baráttu fyrir tilvist sjúkrabíls í Ólafsfirði og er ekki alveg tilbúinn til að gefa eftir í þeim efnum og hef verið að nota og mun nota hvert tækifæri sem ég fæ til að angra þingheiminn og aðra viðeigandi aðila með það mál.

Kjördeildir í Skagafirði

Við kosningar til sveitarstjórnar Skagafjarðar sem fram fara  laugardaginn 26. maí n.k. er skipan í kjördeildir í Skagafirði sem hér segir:

Kjördeild í Félagsheimilinu Skagaseli,

þar kjósa íbúar fyrrum Skefilstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Bóknámshúsi FNV,

þar kjósa íbúar Sauðárkróks og fyrrum Skarðs- og Rípurhrepps

– kjörfundur hefst kl. 09:00

Kjördeild í Félagsheimilinu Árgarði 

þar kjósa íbúar fyrrum Lýtingsstaðahrepps – kjörfundur hefst kl. 12:00

Kjördeild í Grunnskólanum að Hólum,

þar kjósa íbúar fyrrum Hóla- og Viðvíkurhrepps – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Höfðaborg Hofsósi,

þar kjósa íbúar fyrrum Hofshrepps – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Grunnskólanum á Sólgörðum,

þar kjósa íbúar fyrrum Fljótahrepps – kjörfundur hefst kl 12:00

Kjördeild í Varmahlíðarskóla,

þar kjósa íbúar fyrrum Staðar – og Seyluhrepps  – kjörfundur hefst kl. 10:00

Kjördeild í Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki,

kjörfundur hefst kl. 13:00

Kjörfundi má slíta 8 klst. eftir að kjörfundur hefst, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram, og hvenær sem er ef allir sem á kjörskrá standa hafa greitt atkvæði.

Kjörfundi má einnig slíta fimm klukkustundum eftir opnun ef öll kjörstjórnin er sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram.

Kjörfundi skal slitið eigi síðar en kl. 22:00

Unnt er að kjósa utan kjörfundar hjá sýslumanni Norðurlands vestra á Sauðárkróki til kl. 15:00 virka daga fram að kjördag og kl. 16:00-18:00 á kjördag þ. 26. maí 2018.  Opið verður til kl. 19:00 á sýsluskrifstofunni á Sauðárkróki fimmtudagana 17. og 24. maí

Yfirkjörstjórn verður með aðstöðu í Bóknámshúsi FNV.

Eitt tilboð barst í viðgerð á þaki tónskólans

Aðeins eitt tilboð barst í endurnýjun á þaki tónskólans á Siglufirði við Aðalgötu. L7 ehf. bauð 8.987.500 kr. í verkið en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 5.125.000 kr. Fjallabyggð hyggst semja við lægstbjóðenda um lækkun á tilboðinu áður en því verður tekið. Mismunur á kostnaðaráætlun og tilboði eru rúmar 3.8 milljónir kr.

L7 ehf. er verktakafyrirtæki sem sinnir alhliða smíðavinnu, almennu viðhaldi, múrverki, flísalögn o.fl. Fyrirtækið hefur höfuðsstöðvar á Siglufirði.

 

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 4. sæti X-I

Hrafnhildur Ýr Denke Vilbertsdóttir skipar 4. sæti I-lista Betri Fjallabyggðar.

„Mennta- og menningarmál eru mér mjög hugleikinn því öflugt menningarlíf eykur lífsgæði fólks og stuðlar að samfélagslegri og efnahagslegri velferð. Í skapandi hugsun og listum er fólgin kraftur sem nýtist við uppbyggingu hverskyns verkefna.“

Einnig leggur öflug menntastefna grunninn að kraftmiklu, framsæknu og öflugu atvinnulífi og er lykillinn að virkri þátttöku einstaklinga í atvinnulífinu sem og samfélaginu almennt.

Helstu áherslur Hrafnhildar Ýrar í bæjarmálum eru mennta- og menningarmál, umhverfismál, heilsueflandi samfélag með áherslu á andlegt, félagslegt sem líkamlegt heilbrigði. Að styðja við nýsköpun, allskyns skapandi greinar og vaxandi atvinnuuppbyggingu, ekki síst ferðaþjónustu. Að finna framtíðar lausn á frístunda- og félagsstarfi ungs fólks.

Hrafnhildur Ýr er fædd 2. október í Reykjavík árið 1965. Hún ólst upp í Reykjavík en á m.a. rætur að rekja til Akureyrar. Frá árinu 2009, hefur Hrafnhildur Ýr verið búsett í Ólafsfirði. Hrafnhildur Ýr er gift Vali Þór Hilmarssyni og eiga þau þrjár dætur Selmu Klöru 32 ára, Sunnu Björg 29 ára og Elísabetu Örnu 25 ára, auk þess eiga þau þrjú barnabörn.

Hrafnhildur Ýr er menntuð sem sminka og myndlistarkona. Hún er með B.A. gráðu í sálfræði og er að auki sérfræðingur í atvinnutengdri starfsendurhæfingu með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi.

Hrafnhildur Ýr hefur m.a. starfað á leikskólum, sinnt stundakennslu í grunnskóla, starfað sem sminka í leikhúsi og við sjónvarp og sem myndlistarkona, hún hefur  starfað sem ráðgjafi fyrir þolendur ofbeldis og á síðustu árum samhliða námi tekið þátt í Evrópsku þróunarverkefni.

Síðastliðið kjörtímabil hefur Hrafnhildur setið í félagsmálanefnd og fræðslu- og frístundanefnd Fjallabyggðar.

Hrafnhildur hefur einstakan áhuga á mannlegu atferli og því sem þarf til að skapa gott samfélag þar sem allir ná að blómstra á eigin forsendum og þar sem andleg velferð er höfð að leiðarljósi.

Óskað eftir tilboðum í skólaakstur í Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur óskað eftir tilboðum í skólaakstur í Skagafirði fyrir árin 2018-2023. Helstu magntölur eru: Akstursleiðir í dreifbýli, lengd 323 km og um 110 farþegar.

Útboðsgögn eru til afhendingar án endurgjalds í afgreiðslu sveitarfélagsins í Ráðhúsinu við Skagfirðingabraut 21 á Sauðárkróki. Frestur til að skila inn tilboðum er til kl. 13:30 þriðjudaginn 29. maí næstkomandi og eru áætluð verklok vorið 2023.

Dalvíkingar fá upphitaðan gervigrasvöll

Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt samning um uppbyggingu íþróttasvæðis á Dalvík en samningurinn þess efnis var undirritaður mánudaginn 14. maí síðastliðinn. Dalvíkurbyggð greindi fyrst frá þessu.

Um nokkurra ára skeið hefur verið unnið að gerð deiliskipulags fyrir íþróttasvæðið á Dalvík. Tillaga þess efnis hefur verið samþykkt og staðfest í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar.  Í þeirri tillögu er gert ráð fyrir uppbyggingu á upphituðum gervigrasvelli á íþróttasvæðinu á Dalvík.

Dalvíkurbyggð og UMFS hafa skipað sameiginlega nefnd sem verður ráðgefandi og eftirlitsaðili með framkvæmdinni. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við völlinn hefjist í haust, en þá verður keppnisvöllurinn rifinn upp og hafist handa við jarðvinnu. Gert er svo ráð fyrir að gervigrasið verði lagt vorið 2019.

Vildi mála ljósastaura og klæða þá í Morgunblaðið og mála fótspor á gangstétt

Það koma oft skemmtilegar beiðnir á borðið hjá Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar, ein slík kom á borðið 27. apríl frá listakonunni Fríðu á Siglufirði. Sótt var um að mála neðri hluta ljósastaura við Túngötu á Siglufirði með gulum, rauðum, grænum og bláum litum og klæða þá með Morgunblaðinu. Erindinu var hafnað þar sem ljósastaurarnir eru í eigu Vegagerðarinnar.

Einnig sótti Fríða um að mála hvít fótspor á gangstéttina frá Túngötu 26 til Túngötu 40a. Nefndin heimilaði málun fótspora á gangstéttina fyrir framan Túngötu 40a, en ekki fyrir framan önnur hús.

 

Listakonan Fríða hefur talsvert notað Morgunblaðið, en veggir og fleira eru skreyttir fallega með því á Súkkulaðikaffihúsinu við Túngötu 40a á Siglufirði.

 

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 4. sæti X-H

Þorgeir Bjarnason skipar 4. sæti H-listans, Fyrir Heildina í Fjallabyggð. Þorgeir hefur reynslu af sveitarstjórnarmálum og hefur verið í ýmsum nefndum og ráðum í Fjallabyggð.

“Þorgeir Bjarnason heiti ég og skipa 4. sæti  H-listans í Fjallabyggð.  Ég hef verið í sambúð með Guðný Huld Árnadóttur leikskólakennara síðan 1999  og eigum við saman þrjú börn; Árna Hauk 17 ára, Laufey Petru 12 ára og Mundínu Ósk 7 ára.  Ég er fæddur í Siglufirði 30. mars 1971  og hef ég alla tíð búið hér.

Ég hef starfað sem málari síðan ég var 18 ára, kláraði sveinspróf í málaraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík 1996 og lauk Meistaraprófi 1998.  Ég vann hjá föður mínum Bjarna Þorgeirssyni málarameistara til 2009, þá stofnaði ég fyrirtækið Málaraverkstæðið ehf ásamt samstarfsmanni mínum Mark Duffield. Ég hef einnig starfað sem sjúkraflutningamaður síðan 2006 og hef ég lokið menntun sem neyðarflutningarmaður frá Sjúkraflutningaskólanum.

Ég hef verið í stjórnmálum frá því um tvítugt þá aðallega í sveitastjórnarmálum og hef ég starfað í nokkrum nefndum og ráðum, oftast í Umhverfis- og Skipulagsnefnd.  Íþrótta- og félagsmál hafa alla tíð verið mér hugleikin og hef ég setið í stjórnum allmargra félaga hér í sveitafélaginu. Það má af því leiða að íþrótta-, tómstunda- og menningarmál verði sett á forgangslista hjá mér næsta kjörtímabil ásamt ýmsum öðru málum sem ég hef áhuga á til þess að gera sveitafélagið enn meira aðlaðandi fyrir okkur sem búum hér og einnig að fá fleiri einstaklinga til þess að setjast hér að.”

Kveðja, Þorgeir Bjarnason

Byggingarleyfi fyrir Golfskála á Siglufirði

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir nýjum golfskála á Siglufirði. Lóð og byggingareitur golfskálans færist til um 70 metra á nýrri tillögu að breyttu deiliskipulagi í Hólsdal. Golfæfingasvæðið hliðrast einnig um 20 metra og bílastæði og stígar færast einnig til.  Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur lagt til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan verði samþykkt og að fallið sé frá grenndarkynningu þar sem breytingin varðar ekki hagsmuni annarra en Fjallabyggðar og umsækjanda.

Það er Landslag ehf. sem hefur unnið þessa breytingartillögu fyrir Selvík ehf.

Ljósmynd: Héðinsfjörður.is

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 4. sæti X-D

Ólafur Stefánsson skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Fjallabyggð. Ólafur er 33 ára, fæddur í Reykjavík en fluttist í Fjallabyggð árið 2015. Ólafur er kvæntur Eddu Björk Jónsdóttur.
Ólafur er með B.A gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og starfar sem fjármálastjóri hjá Primex.
Helstu áhugamál Ólafs eru ferðalög, íþróttir, gönguskíði og útivera einnig þegar tími gefst þá dundar hann sér við að gera dúkristur.
Félags-, tómstunda- og íþróttamál eru Ólafi ofarlega í huga en einnig atvinnu og umhverfismál.
Ólafur vill taka þátt í að gera Fjallabyggð að sterkari heild og halda áfram að efla það góða samfélag sem við búum í.

Kökubasar Leikskála á Siglufirði

Hinn árlegi kökubasar Leikskála á Siglufirði verður haldinn fimmtudaginn 17. maí kl. 8:30 í Kiwanishúsinu.

Tilvalið að kaupa sér gómsætar tertur og brauð með kaffinu fyrir heimilið eða kaffistofur.

Foreldrafélag Leikskála stendur fyrir basarnum og er allur ágóði nýttur í þágu leikskólabarna á Siglufirði.

Stjórnin spilar á Rauðku

Rauðkumenn halda áfram að bjóða uppá frábæra tónleika og nú er komið á Stjórninni.  Í tilefni af 30 ára afmæli leggur Stjórnin land undir fót og fagnar sumri með tónleikum á Rauðku laugardagskvöldið 19. maí kl. 22:00. Forsala aðgöngumiða er hafin á Sigló Hótel.

Stjórnin leikur öll sín vinsælustu lög eins og: Eitt lag enn, Við eigum samleið, Ég lifi í voninni, Láttu þér líða vel, Ég gefst ekki upp, Utan úr geimnum, Hamingjumyndir, þessi augu, Til í allt, Ég elska alla, Ég vil að þú komir, Nei eða já, Allt í einu, Allt eða ekkert, Ekki segja aldrei, Stór orð og Ein. Stjórnina skipa Sigríður Beinteinsdóttir, Grétar Örvarsson, Friðrik Karlsson, Jóhann Ásmundsson og Sigfús Óttarsson.

Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.
Húsið opnað klukkan 21:30
Miðaverð 4.900kr

Ocean Diamond á Siglufirði

Ocean Diamond kom til Siglufjarðar í dag með um 190 farþega. Skemmtiferðaskipið mun koma alls í 9 skipti til hafnar á Siglufirði í ár samkvæmt áætlun. Skipið sigldi til Grímseyjar og verður komið til Akureyrar í nótt, eða skömmu eftir miðnætti. Von er á 42 skipakomum í ár þar sem skemmtiferðaskip af allskonar stærðum munu koma og njóta dagsins á Siglufirði og sækja sér afþreyingu.

Síldarminjasafnið er vinsælasta afþreying gestanna, enda hefur það lengsta sögu og verið mest kynnt. Önnur afþreying sem í boði er meðal annars heimsókn á Þjóðlagasetrið, Segull 67, Súkkulaðikaffihús Fríðu, reiðtúrar með Fjallahestum á Sauðanesi og göngur, kajakaferðir og annað slíkt með Top Mountaineering. “Mikill áhugi er á Siglufirði meðal skipafélaga og mikil ánægja með þá fjölbreyttu afþreyingu sem hér er í boði”. – sagði Anita Elefsen í samtali við Héðinsfjörð.is.

Ocean Diamond er með 107 klefa og rúmlega 100 starfsmenn um borð. Skipið siglir hring í kringum Ísland og stoppar á nokkrum stöðum. Skipið siglir í 10 daga í senn í kringum Ísland og er algengt verð hjá þeim um 370.000 kr. á hvern farþega. Ferðin byrjar og endar í Reykjavík, stoppað er meðal annars á Ísafirði, Siglufirði, Grímsey, Akureyri, Húsavík, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.

Hér á vefnum verður reglulega fjallað um skipakomur til Siglufjarðar eins og síðustu sumar. Einnig má finna allar skipakomur til Siglufjarðarhafnar hér á vefnum.

Fjölnota hjólabraut tekin í notkun á Dalvík

Fjölnota hjólabraut hefur verið opnuð fyrir neðan sparkvöllinn við Dalvíkurskóla. Brautin er opin öllum en lögð er áhersla á það að þeir sem nýta brautina taki tillit til annarra, ekki séu of margir í einu og hraði sé miðaður við aðra þátttakendur. Þá er skylda að hafa hjálm þegar brautin er notuð. Ungt fólk í Dalvíkurbyggð hefur lengi kallað eftir aðstöðu fyrir bretta- og hjólaáhugafólk, en Ungmennráð Dalvíkurbyggð kom málinu áfram til sveitastjórnar sem samþykkti kostnað við þessa framkvæmd.

 

Mynd: Dalvík.is

Sunnudagskaffi með skapandi fólki í Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Sunnudaginn 20. maí kl. 13:00 – 14:00 mun Ómar Hauksson spjalla um gamla tíma á Siglufirði.  Tilefnið er 100 ára kaupstaðarafmæli Siglufjarðar og vert að líta um öxl og rifja upp söguna.
Ómar hefur til fjölda ára gengið með gesti um Siglufjörð og sagt sögur af húsum og fólki sem þar hefur búið og starfað. Hann mun því taka okkur í ferðalag aftur í tímann og eru gestir velkomnir að leggja orð í belg.

Eins og venjulega verður boðið uppá veitingar og mun það vera súpa og brauð í þetta skiptið. Allir eru velkomnir.

 

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 3. sæti X-H

Helgi Jóhannsson skipar 3. sæti H-Listans, Fyrir heildina í Fjallabyggð.  Helgi Jóhannsson er þjónustustjóri í Arion banka í Fjallabyggð.

“Ég er giftur Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, þingmanni, og eigum við þrjú börn, Tímon Davíð 35 ára, Klöru Mist 30 ára og Jódísi Jönu 19 ára og ekki má gleyma hundinum á heimilinu, tíkinni Mirru. Við búum að Hlíðarvegi 71 í Ólafsfirði. Ég er 53 ára og hef búið alla mína ævi í firðinum fagra fyrir utan 9 mánuði í Kópavogi. Ég starfaði hjá Sparisjóði Ólafsfjarðar frá árinu 1983 og síðar Arion banka þegar þessar tvær fjármálastofnanir sameinuðust.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á bæjarmálum og þá helst umhverfismálum og var formaður umhverfisnefndar í Ólafsfirði 2002-2005 og varabæjarfulltrúi.

Ég hef alltaf þurft að hafa eitthvað fyrir stafni, það getur verið stutt á milli ofvirkni og að vera duglegur. En ég hef komið að uppbyggingu á tveimur veitingastöðum og gistihúsi, Höllinni, Kaffi Klöru og Gistihúsi Jóa í hjáverkum. Mér finnst mikilvægt að maður reyni að láta gott af sér leiða því samfélagi sem maður býr, mér finnst ég hafa reynt að gera það.

Ég er í stjórn Fjallasala ses. en það félag stendur að Pálshúsi í Ólafsfirði en þar hefur verið komið upp náttúrugripasafni og þá aðallega fuglasafni og stór hluti framkvæmda unnin í sjálfboðavinnu. Ég sat í stjórn MTR frá stofnun hans 2010 og fram til ársins 2017 og gengdi formennsku í þrjú ár.

Frá því í fyrrasumar hef ég verið að vinna í að gera upp gamlan trébát, Freymund ÓF, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður, og búinn að læra heilmikið á því, en hann verður vonandi fyrsti vísir af sögu smábátaútgerðar hér í Ólafsfirði og til stendur að setja hann upp til sýnis í miðbænum á Ólafsfirði til að byrja með.

Helstu áhugamálin eru umhverfismál og náttúran og í okkar samfélagi getum við gert svo miklu betur í þeim efnum. Einnig er knattspyrna mér ofarlega í huga, í ensku knattspyrnunni er Liverpool liðið. Draumurinn er svo að koma upp kláferju uppá Múlakollu, stórt verkefni og spennandi. Náði þeim áfanga að koma kláfnum inná aðalskipulag fyrir Fjallabyggð, fyrsta skrefið í langri göngu.

Það líður ekki dagur svo ég ekki fái einhverja hugmynd um hvað væri hægt að gera í Ólafsfirði og Fjallabyggð. Nú vil reyna að leggja mitt að mörkum og láta þessar og aðrar hugmyndir verða að veruleika í sveitarfélaginu okkar, þess vegna býð ég mig fram við þessar sveitarstjórnakosningar.”

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 3. sæti X-D

Tómas Einarsson skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokks í Fjallabyggð. Tómas er 47 ára fæddur í Reykjavík en fluttist til Ólafsfjarðar 1995. Tómas er kvæntur Þuríði Guðbjörnsdóttur þau eiga þrjú börn, Atla 28 ára, Ólöf Þóru 22. ára og Einar Breka 18 ára barnabörnin eru tvö þeir Oliver Ares og Hrólfur Tómas.
Tómas er menntaður Steinsmiður með stúdentspróf frá MTR, hann er einnig framkvæmdarstjóri og eigandi Skiltagerðar Norðurlands ásamt því að sinna ýmsum öðrum störfum. Helstu áhugamál Tómasar eru afadrengirnir og fjölskyldan sem og skíði, fjallahjól og almenn útivist sem skipa stóran sess.
Það er Tómasi hugleikið að gera Fjallabyggð að fyrirmyndarsamfélagi fjölskyldufólks, bæta námsumhverfi og hvetja alla til allra góðra verka sem bæta og auðga okkar samfélag. Skapa sátt og samhug meðal íbúa Fjallabyggðar.

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 3. sæti X-I

Konráð Karl Baldvinsson skipar 3. sæti á I-lista Betri Fjallabyggðar.

“Mér finnst mikilvægt að standa vörð um þá góðu heilbrigðisþjónustu sem við höfum hér í Fjallabyggð en auka jafnfram þjónustu við aldraða og þá sér í lagi heimaþjónustu með því að bæta samstarf sveitarfélagsins og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Einnig finnst mér brýnt að aldraðir fái bætta hreyfingu með fríum aðgangi að líkamsrækt og sundi. Þá þarf að bæta verulega aðstöðu skjólstæðinga og starfsfólks Hornbrekku.“ Konráði finnst einnig að sveitarfélagið ætti að hvetja til byggingu ódýrs og hagkvæms húsnæðis og koma til móts við húsbyggjendur með því  t.d. að dreifa gatnagerðargjöldum yfir viðráðanlegan tíma.

Konráð  er fæddur 15. apríl 1946 á Siglufirði. Hann á ættir að rekja til Skagafjarðar og Svarfaðardals.  Hann er kvæntur Erlu Hafdísi Ingimarsdóttur og eiga þau Elsu Ingu 51 árs, Baldvin Örn 48 ára og einnig þrjú barnabörn.

Konráð er lærður húsasmíðameistari og rak byggingafyrirtæki og verslun í Siglufirði áður en hann fór  í nám í iðn- og byggingarekstrarfræði í Tækniskóla Íslands. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri rekstrarfélags Mjóddar í Reykjavík áður en hann kom aftur norður og varð forstjóri Heilbrigðisstofnunar Siglufjarðar (síðar Fjallabyggðar). Einnig starfaði hann sem forstjóri Heilsugæslu Dalvíkur um tíma. Síðustu ár hefur Konráð starfað að ýmsum verkefnum í byggingaiðnaði s.s. sem byggingastjóri Sigló Hótels.

Árin 1982-1986 var Konráð varabæjarfulltrúi og sat í ýmsum nefndum fyrir bæinn.

Heilsurækt sem eykur þol og styrk s.s. fjallgöngur, hjólreiðar og sund er Konráði hugleikin og leggur hann mikla áherslu á að leggja inn í heilsubankann þegar aldurinn færist yfir.

Samfélags- og menningarsjóður Siglufjarðar auglýsir eftir umsóknum

Samfélags- og menningarsjóður Siglufjarðar auglýsir eftir umsóknum um styrki til samfélags- og/eða menningarmála á Siglufirði. Umsóknarfrestur rennur út 15.maí n.k. en aðeins er tekið við umsóknum sem uppfylla skilyrði sjóðsins.

 

Úthlutunarreglur:

Stjórn sjóðsins mun veita styrki til samfélags- og/eða menningarmála á Siglufirði. Umsækjendur skulu vera lögráða einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki eða stofnanir á Siglufirði.

Óska þarf eftir umsóknareyðublaði með því að senda póst á oddgeir.reynisson@arionbanki.is.

Í umsókn skal koma fram ýtarleg greinargerð þar sem kemur fram:

  • upplýsingar um umsækjanda/umsækjendur.
    • Nafn umsækjanda, nafn forsvarsmanns félags, kennitala, símanúmer og netfang.
  • í hvað styrknum verður varið.
  • hvernig sú ráðstöfun bætir samfélagið og/eða menningarmál Siglufjarðar.
  • verk- og tímaáætlun og ýtarleg fjárhagsáætlun sundurliðuð niður á kostnaðarliði og einingarverð.
  • upplýsa skal hvort umsækjandi hafi fengið styrk(i) vegna verkefnisins úr öðrum sjóðum.

Úthlutunarnefnd getur beðið umsækjendur um viðbótarupplýsingar varðandi styrkbeiðnina.

Styrkir geta verið veittir í einni upphæð við upphaf verkefnis eða eftir framgangi verks. Ef greitt er eftir framgangi verks hefur stjórnin heimild til að kalla eftir áfangaskýrslu og öðrum gögnum.

Úthlutunarnefnd mun forgangsraða styrktarbeiðnum og getur samþykkt eða hafnað umsóknum á þeim forsendum.

Umsækjendur skili inn greinargerð með upplýsingum um verkið eftir að því er lokið.

Styrkbeiðni sendist til Samfélags- og menningarsjóðs Siglufjarðar, Túngötu 3, 580 Siglufirði eða á póstfangið oddgeir.reynisson@arionbanki.is merkt:
„Samfélags- og menningarsjóður – styrkumsókn“. 

Hægt er að sækja umsóknareyðublað hér á síðunni.

Fuglaskoðun á Siglufirði

Krakkarnir í fimmta bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar fóru nýlega í stutta skoðunarferð til að skoða vorfuglana á Siglufirði.  Krakkarnir mættu með kíki til að skoða fuglana við Langeyrartjörn á Siglufirði.  Líflegt var í firðinum, lóuþrælar, tjaldar, skúfendur, toppendur, stokkendur, lóur og síðast en ekki síst var jaðrakaninn áberandi. Einn sást sem var með litamerki og var það mikill fengur fyrir krakkana, því að bekkurinn hefur verið að læra um þá og ferðir þeirra frá Írlandi til varpstöðva á Íslandi.

 

Fréttatilkynning vegna ársreiknings Fjallabyggðar 2017

Fjallabyggð hefur lagt fram ársreikning 2017 til fyrri umræðu. Jákvæð rekstrarniðurstaða um 160 milljónir króna. Eigið fé bæjarsjóðs er 2.929 milljónir króna. Fjárfestingar á árinu 2017 voru 441 milljónir króna.

Fréttatilkynning vegna ársreiknings Fjallabyggðar 2017.

Rekstrarniðurstaða jákvæð um 160 mkr.

Ársreikningur Fjallabyggðar var lagður fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi 2. maí 2018.

Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

1. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs Fjallabyggðar (A+B hluti) var jákvæð um 160 mkr. fyrir árið 2017, en var jákvæð um 199 mkr. árið 2016, þrátt fyrir gjaldfærslu vegna Lífeyrissjóðsins Brúar upp á 75 millj.kr..

2. Rekstrartekjur A og B hluta námu 2.653 mkr. á árinu 2017, en voru 2.319 fyrir árið 2016. Mestu munar um að Hornbrekka var tekin inn í samstæðu Fjallabyggðar sem B-hluta fyrirtæki.

3. Rekstrargjöld ársins 2017 námu 2.483 mkr. en voru 2.108 mkr. fyrir árið 2016. Mestu munar um að Hornbrekka var tekin inn í samstæðu Fjallabyggðar sem B-hluta fyrirtæki.

4. Veltufé frá rekstri nam 471 mkr. eða 17.8% miðað við 445 mkr. árið 2016 (19.2%)

5. Skuldaviðmið er 59,0%, en var 60.7% árið 2016. Viðmið samkvæmt sveitastjórnalögum er 150%.

6. Eigið fé Bæjarsjóðs Fjallabyggðar er 2.929 mkr. eða 58.9%, en var 2.643 eða 58.2% árið 2016.

7. Ef veltufé frá rekstri væri eingöngu notað til greiðslu langtímaskulda tæki það 0,92 ár, miðað við 1 ár, árið 2016.

8. Fjárfestingar á árinu 2017 voru 441 mkr. Helstu framkvæmdir voru viðbygging við Menntaskólann á Tröllaskaga, ný líkamsrækt í Ólafsfirði , endurnýjun Bæjarbryggju, yfirlögn malbiks á götur, nýtt tjaldsvæði á Siglufirði, fráveitulagnir í báðum byggðakjörnum.

Ársreikningurinn sýnir að fjárhagsstaða bæjarsjóðs er sterk og rekstur sveitarfélagsins er í föstum skorðum.

Gunnar Ingi Birgisson
bæjarstjóri

KF tapaði naumlega gegn KFG í Garðabæ

Íslandsmót 3. deildar karla í knattspyrnu hófst í gær með einum leik ,en í dag keppti KF og KFG á Samsungvellinum í Garðabæ. Liðin mættust tvisvar í deildinni í fyrra og vann KFG báða leikina en liðið endaði í 3. sæti deildarinnar í fyrra en KF í 5. sæti. Í liði KFG eru tveir fyrrum landsliðsmenn Íslands og fyrrum atvinnumenn í fótbolta, þeir Veigar Páll Gunnarsson og Garðar Jóhannsson. Þeir eru báðir á 38. ári og koma með mikla reynslu inn í lið KFG, en meðalaldur byrjunarliðs þeirra var 29,1 ár en KF var 22,8 ár. KF mætti með 4 varamenn, en það má gera 5 skiptingar í 3. deildinni og var því bekkurinn ekki fullskipaður, en það má hafa 7 leikmenn á bekknum.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik, en hinn reynslumikli Garðar Jóhannsson kom inn á sem varamaður á 69. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði KFG fyrsta mark leiksins og var það Finn Axel Hansen sem gerði það. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn og um 17. mínútur eftir. Veigar Páll fékk svo skiptingu á 79. mínútu, og Halldór Logi fór útaf fyrir Jakob Auðun hjá KF á sömu mínútu. KFG nýtti allar sýnar 5 skiptingar og voru með ferska menn síðustu mínútur leiksins meðan KF gerði aðeins eina skiptingu í leiknum. KFG hélt út og landaði sigri í fyrstu umferðinni, en KF fara heim með ekkert stig eftir þennan baráttuleik.

 

Framboðskynningar í Fjallabyggð – 2. sæti X-I

Nanna  Árnadóttir skipar 2. sæti I-lista Betri Fjallabyggðar.

„Mín helstu áherslu- og áhugamál eru samgöngur milli bæjarkjarnanna.“ Nanna telur að nauðsynlegt að bæta ferðatilhögun til að stuðla að meiri og betri samþættingu milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Íbúar Fjallabyggðar og þá sérstaklega unga fólkið eiga skilið að geta sinnt áhugamálum og sótt þá þjónustu sem að í boði er óháð búsetu innan sveitarfélagsins. Atvinnumálin eru Nönnu einnig hugleikin en hún vill hlúa að þeim fyrirtækjum sem að til staðar eru og stuðla að nýjum tækifærum. Síðast en ekki síst vill hún að félagsmiðstöðinni Neon verði fundi varanlegur staður sem allra fyrst.

Nanna er fædd 2. júlí 1963 og er Ólafsfirðingur í húð og hár. Nanna rekur ættir sínar til Svarfaðardals, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Nanna er gift Sigurlaugi V. Ágústssyni og eiga þau Svanborgu Önnu 38 ára, Ágúst Kolbein 30 ára og Örnu Marín 26 ára, þau eiga einnig sjö barnabörn, hund og kött. Fyrir utan víðtæka starfsreynslu hefur Nanna sótt fjarnám við Verkmenntaskólann á Akureyri. Í dag starfar hún í banka, en hefur einnig unnið við fiskverkun, veitingarstörf, verslunarstörf og við afgreiðslustörf hjá Pósti og Síma (síðar Íslandspósti).

Nanna hefur setið sem varamaður í bæjarstjórn síðastliðið kjörtímabil, aðalmaður í félagsmálanefnd, fræðslu- og frístundanefnd ásamt skipulags- og umhverfisnefnd. Hún er einnig í stjórn Hornbrekku.

Nanna er fótboltaunnandi og vonast til þess að uppáhaldsliðið hennar Liverpool vinni eins og hún á kosningadaginn.

Opið í Skarðsdal

Nú er allra síðasti dagurinn til að renna sér á Skíðasvæðinu í Skarðsdal. Svæðið opnaði kl. 11:00 í morgun og verður opið til 17:00 eða skemur. Ofur-Trölli skíðamót fer fram í dag á Siglufirði og má búast við fjölda manns að fylgjast með því í dag.  Fjallaskíðastemning er í Skarðsdal í dag, engar brekkur troðnar enda ekki hægt að troða svo mjúkan snjó. Nú dugar ekkert annað en breið og góð fjallaskíði og bretti.