Category Archives: Norðurland

Blakfélag Fjallabyggðar mætti Aftureldingu

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Aftureldingu-B í 1. deild kvenna, Benectadeildinni í dag á Siglufirði. Afturelding er toppliðið í deildinni, skipað ungum og öflugum stelpum. Afturelding hafði aðeins tapað einum leik en unnið tólf fyrir þennan leik á meðan BF hafði unnið 8 og tapað 7. Búist var við hörkuleik á milli þessara liða en þau mættust í Mosfellsbæ 25. janúar síðastliðinn og vann þá Afturelding 3-1.

Fyrsta hrina var æsispennandi en Afurelding hafði forystuna framan af og náði upp góðu forskoti áður en BF komst betur inn í leikinn. Afturelding komst í 2-6, 4-9 og 6-12.  Í stöðunni 9-15 tók BF gott leikhlé og komu sterkari til leiks eftir það. BF skoraði hérna 7 stig í röð og komst yfir í fyrsta sinn í hrinunni, 16-15 og tóku nú gestirnir leikhlé. Lokakaflinn var spennandi og jafn, staðan var 19-19  og 19-22 fyrir Aftureldingu. BF komst aftur inn í leikinn og jafnaði 23-23. Afturelding náði síðustu tveimur stigunum og unnu hrinuna 23-25, og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var kaflaskipt, BF byrjaði vel en Afturelding komst fljótt inn í leikinn og voru sterkari á endasprettinum. BF komst í 5-1 og tóku gestirnir strax leikhlé til að stöðva þessa hrinu. BF komst í 7-4 en þá kom góður kafli hjá Aftureldingu sem skoraði nú 7 stig í röð og komst yfir 7-11 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Afturelding hafði yfirhöndina út hrinuna og hleyptu ekki BF nærri sér. Staðan var 10-15, 15-19 og 16-22 en BF náði ekki upp sínu besta spili í lok hrinunnar. Afturelding vann nokkuð örugglega 18-25 og var komið í 0-2.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi en Afturelding komst í 0-4 en BF jafnaði 5-5 og komst yfir í 8-5. Afturelding skoraði aftur 7 stig í röð og tóku forystuna í stöðunni 8-12. BF náði með góðum sóknum að jafna 13-13 og komst svo yfir 17-15 og tóku gestirnir hérna dýrmætt leikhlé. Afturelding jafnaði 18-18 og komst yfir 19-21. BF minnkaði hérna muninn í eitt stig, en það var ekki nóg, gestirnir tóku síðustu fjögur stigin og unnu hrinuna 20-25.

BF stelpurnar voru óheppnar að fá ekki meira út úr þessum leik eftir mikla baráttu.

 

Endurbæta lyftuna í Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar fyrir 4 milljónir

Ráðast þarf í endurbætur á lyftunni Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar vegna viðvarandi bilana. Á móti hefur verið samþykkt að fresta framkvæmdum á lóð hússins næstu tveggja ára til að mæta kostnaði.
Hlutdeild Dalvíkurbyggðar í endurbótunum eru tæpar 4 milljónir króna. Gert var ráð fyrir lóðaframkvæmdum uppá 1,5 milljónir króna en fjármagnið verður nýtt í viðgerðina á lyftunni.

Hver eru einkenni kórónaveiru?

Samkvæmt Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er orsök þessa faraldurs ný tegund kórónaveiru, sem hefur ekki áður greinst í mönnum. Enn er ekki vitað hversu smitandi veiran er, hversu alvarlegum veikindum veiran veldur eða hverjar smitleiðirnar eru. Faraldsfræðilegar upplýsingar eru enn takmarkaðar og því er margt óljóst varðandi útbreiðslu sjúkdómsins. Uppruni veirunnar virðist einkum vera í Wuhan borg í Kína og aðallega tengt ákveðnum matarmarkaði í borginni, en verið er að rannsaka frekari útbreiðslu veirunnar í Kína.

Hver eru einkenni kórónaveiru?

Einkenni líkjast helst inflúensusýkingu, hósti, hiti, bein- og vöðvaverkir, þreyta o.s.frv. 2019-nCoV getur einnig valdið alvarlegum veikindum með neðri öndunarfærasýkingum og lungnabólgu, sem koma oft fram sem öndunarerfiðleikar á 4-8 degi veikinda.

Ef einstaklingar finna fyrir veikindum er þeim bent á að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmar +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

Þessir einstaklingar eru sérstaklega beðnir um að mæta ekki á bráðamóttöku sjúkrahúsa eða á heilsugæslustöðvar nema að fengnum ráðleggingum í síma. Einstaklingar með grunsamlega eða staðfesta sýkingu verða settir í einangrun skv. nánari leiðbeiningum. Einkennalausir einstaklingar sem hafa verið í samneyti við einstaklinga með staðfesta eða líklega sýkingu verða settir í sóttkví skv. nánari leiðbeiningum.

Sóttvarnalæknir vill hvetja einstaklinga á ferðalögum erlendis, sérstaklega í Kína að:

  • Gæta vel að almennu hreinlæti, sérstaklega handþvotti.
  • Forðast náið samneyti við einstaklinga sem eru með hósta og almenn kvefeinkenni.
  • Forðast samneyti við villt dýr eða dýr á almennum mörkuðum.
  • Nota pappír/klút fyrir vit við hnerra þegar um kvefeinkenni er að ræða og þvo hendur reglulega.
  • Láta heilbrigðisstarfsmenn vita um ferðir sínar ef einstaklingar þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins hér á landi.

Uppselt í Fjarðargönguna í Ólafsfirði

Fjarðargangan fer fram á Ólafsfirði laugardaginn 8. febrúar 2020 á vegum Skíðafélags Ólafsfjarðar. Uppselt er orðið í gönguna og hafa 240 skráð sig, en hægt er að skrá sig á biðlista. Í boði verða 30 km. ganga fyrir 17 ára og eldri, 15 km. fyrir 12 ára og eldri og 5 km. fyrir alla aldurshópa. Allir þátttakendur fá verðlaunapening og halda sínu keppnisnúmeri. Gangan hefst kl. 11:00 og verður veisla í Tjarnarborg kl. 15:00.

Drög að dagskrá 7.-8. febrúar 2020
Föstudaginn 7. febrúar:
Afhending gagna og brautarlýsing
Laugardag 8. febrúar
11:00: Fjarðargangan – allir flokkar ræstir
15:00: Veisla í Tjarnarborg, verðlaun, útdráttarverðlaun, kaffihlaðborð.

Mynd frá Visit Olafsfjordur.

Pop-up útivistarverslun í Ólafsfirði

Pop-up útivistarverslunin Gangleri Outfitters opnar í húsi Björgunarsveitarinnar Tinds á Ólafsfirði, föstudaginn 31. janúar kl. 12:00-17:00.  Útivistarverslunin Gangleri Outfitters sem hefur legið í dvala í næstum tvö ár hefur nú byrjað starfsemi sýna á ný sem farandsverslun og vefverslun.

Til sölu verður útivistarfatnaður, dúnúlpur, ullarnærföt og fleira sem er tilvalið fyrir veturinn ásamt blönduðum vörum (fatnað, gönguskór, bakpokar) á góðu verði. Fólk er beðið um að koma með poka með sér, þar sem þeir verða ekki til sölu og vörur nánast umbúðalausar.

10% af sölunni mun renna til styrktar Björgunarsveitarinnar Tinds.

Ókeypis dansnámskeið í Fjallabyggð

Stýrihópur um Heilsueflandi samfélag býður íbúum Fjallabyggðar á opið dansnámskeið sem haldið verður í Menningarhúsinu Tjarnarborg í febrúar og mars. Námskeiðið verður í sex skipti á sunnudagskvöldum frá kl. 20:00 – 21:30. Fyrsti tíminn verður sunnudaginn 9. febrúar. Danskennari verður Ingunn Hallgrímsdóttir. Þátttaka er ókeypis og eru allir velkomnir, ekki er nauðsynlegt að hafa dansfélaga til að mæta.

Dansnámskeiðið er byggt upp á stökum kvöldum þar sem ákveðið þema er hvert kvöld.

Skipulag dansnámskeiðsins verður eftirfarandi:

9. febrúar: Gömlu dansarnir
16. febrúar:  Samkvæmisdansar (jive, cha cha cha og tjútt)
1. mars: Línudans
15. mars: Salsa
22. mars: Óákveðið, mögulega Zumba
29. mars: Óákveðið

Ekki er krafist skráningu á námskeiðið en búnir verða til viðburðir á Facebooksíðu Fjallabyggðar fyrir hvert kvöld fyrir sig.

Stýrihópur áskilur sér rétt til að færa til einstök kvöld ef aðstæður gera það óhjákvæmilegt.

Allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Woman And Man Dancing Under Light

Erlendir háskólanemar heimsækja MTR

Háskólanemar frá Gustavus Adolphus College í Minnesota í Bandaríkjunum heimsóttu Menntaskólann á Tröllaskaga í vikunni. Þetta var tuttugu manna hópur á aldrinum 18-21 árs ásamt kennurum sínum.

Nemendurnir taka í janúarmánuði námskeið sem er ferðalag. Gjarnan er farið á framandi slóðir og námið hugsað til undirbúnings nemenda fyrir starfsferil þeirra. Áhersla er á samþættingu greina á borð við bókmenntir, hagfræði, hjúkrun, landfræði og lýðheilsu.

Hópurinn verður þrjár vikur á Íslandi og kynnir sér sérstaklega atvinnulíf, mannlíf og menningu í bæjum á Tröllaskaga. Lára Stefánsdóttir og Inga Eiríksdóttir tóku á móti hópnum í Menntaskólanum á Tröllaskaga og sögðu frá skólastarfinu.  Frá þessu er greint á vef mtr.is.

Hægt er að lesa um ferð nemendanna á heimasíðu þeirra skóla, textinn er á ensku.

Mynd: MTR.is/GK

Björgunarsveitin vill samstarf við Fjallabyggð með stjórnstöð almannavarna

Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði hefur kannað vilja Fjallabyggðar til samstarfs um uppbyggingu og rekstri á sameiginlegri stjórnstöð vettvangsstjórnar almannavarna Fjallabyggðar og björgunarsveitarinnar.

Fjallabyggð mun skoða þann möguleika að stjórnstöð almannavarna verði færð úr Ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra og í framhaldi af því að meta kostnað sveitarfélagsins við slíka aðgerð.

Landsmót / Landsbjörg: 22 unglingasveitir björgunarsveita frá flestum landshlutum hafa verið við fjölbreyttar æfingar og þjálfun, undir stjórn eldri og reyndari félaga. Alls munu þátttakendur verið um 300 talsins

Óvissustigi lýst yfir vegna kórónaveiru

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV). Ekkert smit hefur verið staðfest á Íslandi.

Eftirfarandi er tilkynning Ríkislögreglustjóra:

Í lok desember 2019 bárust fregnir af alvarlegum lungnasýkingum í Wuhan-borg í Kína. Í kjölfarið var staðfest að um áður óþekkt kórónaveiruafbrigði er að ræða, sem nú kallast 2019-nCoV. Staðfest er að veiran smitast á milli manna og að hún getur valdið alvarlegum veikindum. Faraldurinn breiðist hratt út en enn sem komið er hafa flest tilfellin greinst í Kína.

Í ljósi þessa, og á grundvelli áhættumats Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og Sóttvarnarstofnunar ESB, hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (2019-nCoV).

Óvissustigi er lýst þegar grunur vaknar um að yfirvofandi sé atburður sem hefur áhrif á lýðheilsu. Í kjölfarið er samstarf stofnana aukið, sem og upplýsingamiðlun. Vöktun er efld, áhættumat endurskoðað svo oft sem þurfa þykir og birgðastaða nauðsynlegra bjarga er könnuð og skráð. Farið er yfir viðbragðsáætlanir og fyrirliggjandi verkferla.

Gunnar Birgisson orðinn sveitarstjóri í Skaftárhreppi

Gunnar Ingi Birgisson fyrrverandi bæjarstjóri Fjallabyggðar hefur tekið við tímabundið sem sveitarstjóri hjá Skaftárhreppi. Gunnar mun starfa og sinna störfum sveitarstjóra frá febrúar til loka mars mánaðar. Sveitarstjórinn hefur verið í veikindaleyfi og hefur oddviti hreppsins sinnt málunum frá því í janúar, en eins og áður sagði þá tekur Gunnar Birgisson tímabundið við.

 

Sólardagur á Siglufirði

Áralöng hefð er fyrir því að halda uppá fyrsta sólardag í Fjallabyggð en sólin hverfur bakvið fjöllin í rúmar 10 vikur og birtist á Siglufirði 28. janúar og 25. janúar í Ólafsfirði. Nemendur í Grunnskóla Fjallabyggðar og Leikskóla Fjallabyggðar hafa fyrir sið að fjölmenna eftir hádegi á kirkjutröppurnar á Siglufirði og syngja lög til sólarinnar.

Heimamönnum finnst vert að halda upp á sólardaginn og gera það m.a. með því að gæða sér á “sólarpönnukökum”.
Sjálfsbjörg á Siglufirði hefur undanfarin ár haft það sem fjáröflun að baka “sólarpönnukökur” og selja. Hefð er fyrir því að fyrirtækjaeigendur kaupi pönnukökurnar og bjóði starfsfólki sínu upp á þær með kaffinu.

Mynd: Fjallabyggð.is

Millilandafarþegum um Akureyrarflugvöll fjölgar stöðugt

Fjölgun millilandafarþega um Akureyrarflugvöll hefur verið mikil undanfarin ár. Samkvæmt tölum Isavia þá nam fjölgunin árið 2017 24% frá fyrra ári, árið 2018 var fjölgunin enn meiri eða 70% miðað við fyrra ár og árið 2019 nam fjölgunin 38% miðað við árið á undan. Nú styttist í að ferðamenn á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel komi í fyrstu vetrarferð ársins til Norðurlands, en alls verða ferðirnar 8 talsins frá 14. febrúar til 9. mars. Sem fyrr er það flugfélagið Transavia sem annast flugið.

Fjölgun í heimsóknum erlendra ferðamanna yfir vetrartímann er kærkomin innspýting fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Þá er þessi stöðugi og mikli vöxtur merki um þann árangur sem hefur náðst í markaðssetningu áfangastaðarins Norðurlands og undirstrikar mikilvægi þess að ráðist verði í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til framtíðar.

Auk þess eru flugferðir Voigt Travel frábært tækifæri fyrir íbúa Norðurlands að skreppa til Amsterdam. Ferðaskrifstofa Akureyrar annast sölu á ferðum frá Akureyri til Amsterdam og hefur þessu framtaki verið vel tekið af heimafólki.

Image preview
Mynd: Auðunn Níelsson /Aðsend fréttatilkynning.

Nemendur úr Grunnskóla Fjallabyggðar hlutskarpastir

Úrslit í vísnasamkeppni grunnskólanema, Vísubotn 2019, liggja nú fyrir. Menntamálastofnun, í samstarfi við KrakkaRúv, efnir til keppninnar ár hvert í tilefni af degi íslenskrar tungu. Í keppninni spreyttu nemendur sig á því að botna fyrriparta eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Að þessu sinni bárust samtals 535 vísubotnar frá 21 skóla víðs vegar að á landinu og greinilegt að áhugi fyrir vísnagerð er fyrir hendi í mörgum grunnskólum. Frá yngsta stigi bárust samtals 256 vísubotnar, 182 frá miðstigi og 97 botnar frá unglingastigi. Einum nemanda á hverju stigi voru veitt bókaverðlaun og viðurkenningarskjal fyrir besta vísubotninn. Á mið- og unglingastigi var gerð krafa um ljóðstafi og rím en á yngsta stigi var fyrst og fremst hugað að rími og innihaldi.

Í fyrsta sinn í níu ára sögu keppninnar koma tveir vinningshafar frá sama skóla, Grunnskólanum í Fjallabyggð, og greinilegt að þar á bæ hefur verið lögð mikil áhersla á kveðskaparlistina. Vinningshafi á miðstigi kemur úr Hofsstaðaskóla í Garðabæ sem leggur einnig mikla rækt við vísnagerð og átti skólinn m.a. vinningshafa á yngsta stigi fyrir tveimur árum.

Vinningshafarnir í ár eru eftirfarandi:

Á yngsta stigi var Aron Óli Ödduson hlutskarpastur en hann er nemandi í 4. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar. Vísubotn hans er hér feitletraður:

Heim ég fer með létta lund,
leik mér eftir skóla.
Fæ mér drykk og fer í sund,
fer svo út að hjóla.

 

Á miðstigi hlaut Andrea Hvannberg, nemandi í 6. bekk Hofsstaðaskóla í Garðabæ, verðlaun fyrir besta botninn í sínum aldursflokki:

Kuldinn bítur, komum út,
klæðum okkur betur.
Á kuldaskóna hnýti ég hnút
og hnerrann kveð í vetur.

 

Á unglingastigi fékk Helena Reykjalín Jónsdóttir, nemandi í 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar, verðlaun fyrir sinn vísubotn:

Manna verk er mengun öll,
margt sem þarf að laga.
Stöndum upp og stöðvum spjöll,
stefnum á betri daga.

Texti: mms.is

Menntaskólanemendur mættu á bókasafnið í ófærðinni

Fyrstu vikurnar í janúar hafa fallið úr sex kennsludagar í Menntaskólanum á Tröllaskaga vegna ófærðar og veðurs. Nemendur hafa þó ekki látið þetta stoppa námið og hafa meðal annars nýtt sér bókasöfnin í heimabyggð til náms.  Kennsla fer mikið til yfir netið í dag og nýttu nemendur MTR tæknina þar sem íslenskukennarinn var veðurtepptur á Dalvík en nemendurnir höfðu góða aðstöðu í þetta skipti á Bókasafninu á Siglufirði.

Mynd: Bókasafn Fjallabyggðar.

 

Hans Klaufi sýndur í Tjarnarborg

Leikhópurinn Lotta ætlar að sýna Hans Klaufa í Tjarnarborg í Ólafsfirði, fimmtudaginn 30. janúar kl. 17:30. Það er því um að gera að taka alla fjölskylduna með á hágæða fjölskyldusöngleik hlaðinn húmor og gleði fyrir allan aldur.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Lotta, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú þriðja veturinn í röð komin inn í hlýjuna um allt land. Hópurinn setti Hans Klaufa fyrst upp árið 2010, en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.

Verkið hefur verið endurskrifað að stórum hluta og þó að sömu skemmtilegu persónurnar prýði það eins og fyrir tíu árum síðan, hefur nýjum ævintýrum og glænýjum lögum verið bætt við söguna.

Þessi útgáfa af Hans klaufa er í raun alveg ný saga sem ekki er hægt að finna í gömlu ævintýrunum, þó vissulega beri hún þekkt nafn. Verkið er sannkölluð ævintýrablanda sem sækir mikið af efniviði sínum í sígildu ævintýrin okkar. Þannig munum við kynnast Öskubusku, stjúpsystrum hennar og prinsi sem breytt verður í frosk. Við munum stinga okkur á snældu, reyna að sofna með eina litla baun undir 100 ábreiðum og standa í háum turni og láta okkur vaxa hár sem nær alla leið niður á jörðina. Síðast en ekki síst munum við fylgjast með ævintýrum hins klaufalega Hans, Hans Klaufa.

Hans Klaufi er í leikgerð Leikhópsins Lottu.
Leikstjórar: Anna Bergljót Thorarensen og Þórunn Lárusdóttir.
Höfundar laga og texta: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Snæbjörn Ragnarsson.
Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir.

Hans Klaufi í Tjarnarborg 30. janúar - Leikhópurinn Lotta

BF átti ekki svar gegn Fylki

Blakfélag Fjallabyggðar og Fylkir mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í dag en liðin leika í 1. deild karla, Benecta deildinni. BF hafði ekki leikið í deildinni síðan 23. nóvember, en Fylkir átti leik um miðjan janúar. BF hefur gengið erfiðlega í vetur að sækja sigra og stig en liðið hafði aðeins 5 stig og 2 sigra fyrir þennan leik.

Fylkir byrjaði fyrstu hrinuna ágætlega á meðan BF elti. Fylkir komst í 1-4 og 4-8 og kom þá góður kafli hjá BF sem skoraði 5 stig í röð og komst yfir í fyrsta sinn í leiknum, 9-8. Fylkir átti þá virkilega góðan kafla og breyttu stöðunni skyndilega í 11-18 með 7 stigum í röð. BF reyndi að vinna upp muninn og komust í 16-20 og 17-22. Fylkir kláraði hrinuna nokkuð örugglega 18-25 og komust í 0-1.

BF strákarnir byrjuðu aðra hrinu vel og komust í 3-0 og 6-3. En Fylkir jafnaði leikinn í 6-6, 8-8 og 11-11. BF tók gott leikhlé í stöðunni 13-14 og komust yfir 16-14. Fylkir komst betur inn í leikinn á þessum tímapunkti og náðu forystu 18-21 og 20-23 og var nokkur spenna síðustu mínúturnar. Fylkir vann þó hrinuna 21-25 eftir mikla baráttu.

Þriðja hrina var svipuð, BF leiddu með litlum mun fyrstu 10 mínúturnar, staðan var 4-2 og 10-8 og var hérna jafnræði með liðunum. Fylkir náði hinsvegar góðu forskoti og komust í 12-16 og skoruðu hér 5 stig í röð. BF tók hér leikhlé en náðu ekki að komast almennilega inn í leikinn og ógna Fylki. Gestirnir komust í 15-21 en BF minnkaði muninn í 17-21, en Fylkir skoraði síðustu fjögur stigin og unnu hrinuna 17-25 og leikinn nokkuð örugglega 0-3.

Frá fyrri leik liðanna í Fylkishöllinni.

KF vann Kormák/Hvöt

KF eru ósigraðir eftir fjóra leiki í Kjarnafæðismótinu en liðið spilar í B-deildinni. Í gær lék KF við Kormák/Hvöt sem kom inn í mótið fyrir Tindastól sem dró sig úr keppni.

KF hefur haldið markinu hreinu í fyrstu leikjunum og varð engin breyting á því í þessari viðureign. Liðið var áfram blandað strákum úr heimabyggð og lánsmönnum frá öðrum liðum.

Grétar Áki fyrirliði braut ísinn og skoraði fyrsta mark leiksins á 29. mínútu. KF leiddi 1-0 í hálfleik og gerði eina skiptingu þegar Jakob Auðun kom inná fyrir Kristófer Mána.

KF komst í 2-0 á 58. mínútu þegar Ingi Freyr skoraði, en hann er á láni hjá félaginu en er leikmaður Þórs. KF gerði aðra skiptingu á 63. mínútu þegar Óliver kom inná fyrir Aron Elí, en hann er ungur leikmaður KA á láni.

Grétar Áki skoraði sitt annað mark og þriðja mark KF á 69. mínútu. Þorsteinn Már Þorvaldsson bætti við fjórða markinu á 75. mínútu og gulltryggði hann sigurinn. Nokkrum mínútum síðar var leikurinn stöðvaður þegar Aksentije Milisic leikmaður KF meiddist illa á hné og var fluttur á sjúkrahús. Leiknum var ekki haldið áfram og lauk með öruggum sigri KF, 4-0.

KF hefur sigrað tvo leiki og gert tvö jafntefli á mótinu.

Yfir 100 þúsund heimsóttu Amtbókasafnið árið 2019

Gestir Amtsbókasafnsins á Akureyri á árinu 2019 voru 103.402 og fjölgaði um 3% frá árinu 2018. Þetta er annað árið í röð sem gestum fjölgar á safninu. Heildarútlán ársins 2019 voru 152.930 og er það einnig aukning um 3% á milli ára.

Útlán á borðspilum jukust um 137% frá árinu á 2018. Í fyrra var gjaldtöku fyrir dvd-diska hætt og við það jukust útlán á mynddiskum um 76%.

Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Viðræður við KEA vegna útleigu á Sigurhæðum

Stjórn Akureyrarstofu hefur samþykkt að ganga til viðræðna við Hótel Akureyri um leigu á Sigurhæðum. Auglýst var eftir áhugasömum leigjendum í nóvember. Alls bárust fjögur tilboð.

Við yfirferð á framlögðum tilboðum og hugmyndum um fyrirhugaða starfsemi gilti menningarlegt vægi 50% af mati og leigufjárhæð 50%.

Með hliðsjón af því hefur stjórn Akureyrarstofu samþykkt að gengið yrði til viðræðna við Hótel Akureyri um leigu á Sigurhæðum.

Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Mynd: Akureyri.is

Viðræður vegna útleigu á Sigurhæðum

Stjórn Akureyrarstofu hefur samþykkt að ganga til viðræðna við Hótel Akureyri um leigu á Sigurhæðum. Auglýst var eftir áhugasömum leigjendum í nóvember. Alls bárust fjögur tilboð.

Við yfirferð á framlögðum tilboðum og hugmyndum um fyrirhugaða starfsemi gilti menningarlegt vægi 50% af mati og leigufjárhæð 50%.

Með hliðsjón af því hefur stjórn Akureyrarstofu samþykkt að gengið yrði til viðræðna við Hótel Akureyri um leigu á Sigurhæðum.

Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Mynd: Akureyri.is

BF tapaði gegn toppliðinu

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar keppti við Aftureldingu-B í dag í Varmá í Mosfellsbæ. Afturelding hefur úr mörgum stelpum að velja en félagið hefur lið í Mizunodeild kvenna og tvö lið í Benecta deild kvenna. Flestar stelpurnar eru á aldrinum 17-20 ára hjá Aftureldingu í þessu liði. Liðið er nú þegar komið með ágætis forskot í efsta sætinu og var því búist við erfiðum leik í dag.

BF byrjaði fyrstu hrinu ágætlega en leikurinn átti eftir að vera kaflaskiptur. BF komst í 1-4 en Afturelding tók strax við sér og breytti stöðunni í 6-4 og 11-7. Afturelding áttu svo góða kafla og komst í 16-8 og kom þá frábær kafli hjá BF sem breyttu stöðunni í 17-16. Afturelding komst í 21-17 en gestirnir úr Fjallabyggð gáfust ekki upp og áttu frábæran lokakafla, Afturelding var komið í 23-19 en BF minnkaði muninn í 23-22 og jafnaði 24-24.  BF kláraði svo hrinuna sem fór í upphækkun, 24-26 og voru komnar í 0-1.

Önnur hrina var líka frekar kaflaskipt en Afturelding leiddi þó hrinuna og náðu á köflum góðu forskoti. Afturelding komst í 9-4 og tók þá BF leikhlé og komu sterkar til baka og minnkuðu muninn í 10-8. Afturelding komst þá í 19-11, en BF náði að skora fjögur stig í röð og minnka muninn í 19-15. Afturelding var samt sterkara liðið og vann hrinuna 25-18 og var staðan orðin 1-1.

BF byrjaði þriðju hrinuna af krafti en Afturelding komst svo fljótt inn í leikinn og náðu afgerandi forystu. BF komst í 1-6, en jafnt var á tölunum 7-7 og 9-9. Afturelding tók að síga framúr og komst í 17-11 og 21-13. BF náði sér ekki á strik í þessari hrinu og vann Afturelding 25-15.

Fjórða hrinan var líka jöfn og spennandi og skiptust liðin á að leiða. Afturelding komst í 6-3 en þá skoraði BF 5 stig í röð og var staðan orðin 6-8 og skömmu síðar 8-12. Í stöðunni 12-15 tók Afturelding leikhlé og komu þær sterkar til baka eftir það stutta hlé og var staðan fljótlega orðin 18-16. Jafnt var í 19-19 og 21-21 og leikurinn í járnum, en Afturelding voru sterkari síðustu mínúturnar og unnu hrinuna 25-22, og leikinn 3-1.

Frábær barátta hjá BF gegn toppliðinu í deildinni og vantaði herslumuninn að vinna aðra hrinu.

Skíðalyftan komin í lag í Ólafsfirði

Skíðafélag Ólafsfjarðar hefur náð að gera við skíðalyftuna í Tindaöxl, en hún skemmdist í óveðrinu í desember og hefur verið óvirk síðan. Á morgun stefnir félagið að því að halda Alþjóðlega snjódaginn, sunnudaginn 26. janúar.

Dagskrá:
Alpagreinaæfing kl 11:00 – 12:10
Kakópása kl 12:10 – 12:30
Alpagreinaæfing kl 12:30 – 13:45
Skíðagönguæfing kl 12:30 – 13:45
Klukkan 13:45, kakó og léttar veitingar í skíðaskálanum.
Foreldrar eru sérstakelga hvattir til að mæta á skíði með krökkunum og taka þátt í æfingunum.
Auðvitað eru allir velkomnir, foreldrar, afar og ömmur, velunnarar o.s.frv.

BF vann Völsung

Blakfélag Fjallabyggðar og Völsungur frá Húsavík mættust í 1. deild kvenna í blaki á Siglufirði í vikunni. BF var að spila sinn annan leik á nýju ári og hefur liðið verið að færast nær toppliðunum.

Bæði lið hafa einn erlendan leikmann í bland við unga og leikreyndari leikmenn. Þjálfari Völsungs er Guðbergur Eyjólfsson – Beggi, fyrrum leikmaður HK, en hann var í gullaldarliði HK á árunum 1995-2000. Hann hefur einnig þjálfað mörg lið í Mizunodeild karla.

Leikurinn fór jafnt af stað en BF seig hægt og örugglega framúr og komst í 9-4 en Völsungur minnkaði muninn í 10-9. BF skoraði þá fimm stig í röð og breyttu stöðunni í 15-9 og tóku gestirnir leikhlé í þessum kafla. Völsungur kom aftur til baka og minnkaði muninn í 17-14, en BF stelpurnar sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 25-17.

Í annari hrinu fór leikurinn aftur jafnt af stað og var jafnt 8-8, en kom þá sterkur kafli hjá BF sem komst í 14-8 og 19-9. Eftirleikurinn var auðveldur og vann BF hrinuna örugglega 25-15.

BF hafði algera yfirburði í þriðju hrinunni og komst í 9-2 og 11-6 og tók þá við frábær kafli hjá BF sem skoraði 9 stig í röð og breytti stöðunni í 20-6. BF kláraði svo hrinuna glæsilega 25-9 og unnu frábæran sigur á Völsungi, 3-0.

BF er núna með 25 stig eftir 14 leiki og á leik í dag gegn Aftureldingu-B í Mosfellsbæ kl. 13:15.

Útboð í snjómokstur í Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð auglýsir útboð í snjómokstur og hálkuvarnir í Dalvíkurbyggð fyrir árin 2020-2023.

Snjómokstur og hálkuvarnir – Dalvík 2020-2023
Snjómokstur og hálkuvarnir – Árskógssandur og Hauganes 2020-2023
Snjómokstur og hálkuvarnir – plön og stígar á Dalvík 2020-2023
Snjómokstur og hálkuvarnir – utan þéttbýlis 2020-2023

Útboðsgögn verða afhent á skrifstofu Dalvíkurbyggðarfrá og með mánudeginum 27. Janúar 2020.
Tilboðum skal skila á skrifstofu Dalvíkurbyggðar fyrir kl 11:00 föstudaginn 7. febrúar 2020, en þá verða þau opnuð að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Nánari upplýsingar gefur Steinþór Björnsson, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar Dalvíkurbyggðar, í s. 853-0220.

White and Black Tree Illustration

Veglegar styrkveitingar í Fjallabyggð

Fjallabyggð veitir ár hvert félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum styrki til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur, forgangsröðun og fjárhagsáætlun bæjarstjórnar.

Auglýst er eftir styrkumsóknum að hausti ár hvert og er styrkjum úthlutað í upphafi næst komandi árs.

Úthlutaðir styrkir til fræðslu- og menningarmála fyrir árið 2020 nema alls kr. 10.600.000.-  Þar af fara kr. 2.700.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 3.250.000.- til hátíðarhalda og kr. 2.750.000.- til reksturs safna og setra. Styrkur til fræðslumála nam kr. 100.000.- og framkvæmdastyrkur til Pálshúss nemur kr. 1.500.000.-

Að auki er árlegur styrkur til bæjarlistamanns Fjallabyggðar kr. 300.000.-

Fjórum umsóknum var hafnað.

Stærstu styrkirnir runnu til Pálshúss í Ólafsfirði. Félagið fékk 1,6 milljónir í rekstrarstyrk og 1,5 milljónir í framkvæmdastyrk. Sjómannahátíðin í Fjallabyggð fær 1 milljón króna, Þjóðlagahátíðin á Siglufirði fær 800.000 kr., Berjadagar í Ólafsfirði fær 800.000 kr. og Ljóðasetrið fær 350.000 kr. rekstrarstyrk. Þá fær Alþýðuhúsið á Siglufirði 350.000 kr. styrk vegna menningarmála. Markaðsstofa Ólafsfjarðar fékk 200.000 kr. vegna gerð söguskiltis.

Úthlutun menningarstyrkja í Fjallabyggð

Fjallabyggð veitir ár hvert menningartengda styrki til félagasamtaka, stofnana og einstaklinga til starfsemi og þjónustu sem fellur að hlutverki sveitarfélagsins eða telst á annan hátt í samræmi við stefnumörkun, áherslur, forgangsröðun og fjárhagsáætlun bæjarstjórnar.

Haustið 2019 voru gerðar breytingar á úthlutun styrkja hjá Fjallabyggð. Breytingarnar fólu í sér gerð nýrra úthlutunarreglna og einnig voru flokkar styrkja endurskoðaðir. Menningartengdum styrkjum er, eftir þessar breytingar,  úthlutað í eftirfarandi flokkum vegna ársins 2020:

  • Styrkir til menningarmála (einstök menningartengd verkefni)
  • Styrkir til hátíðarhalda
  • Styrkir til reksturs safna og setra

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hefur samþykkt að veita styrki til þessara þriggja flokka á árinu 2020 að upphæð kr. 8.700.000.- Þar af fara kr. 2.700.000.- til einstakra menningartengdra verkefna, kr. 3.250.000.- til hátíðarhalda og kr. 2.750.000.- til reksturs safna og setra.

Áfram verður veittur styrkur til uppbyggingar Pálshúss í Ólafsfirði og styrkur til bæjarlistamanns Fjallabyggðar og eru þeir óbreyttir frá fyrra ári.

Úthlutaðir styrkir til menningarmála á árinu 2019 námu kr. 6.650.000.- auk uppbyggingarstyrks til Pálshúss og styrks til bæjarlistamanns og hafa því framlög Fjallabyggðar til menningarmála hækkað um kr. 2.050.000.- milli ára.

Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til menningarmála, nema samtals kr. 2.700.000.-  Alls bárust 20 umsóknir að upphæð kr. 5.720.000.- þar af var fjórum umsóknum hafnað.

Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til reksturs safna og setra nema samtals kr. 2.750.000.-  Alls bárust fjórar umsóknir, samtals að upphæð kr. 4.500.000.-

Úthlutaðir styrkir í flokknum Styrkir til hátíðahalda nema samtals kr. 3.250.000.- en alls bárust átta umsóknir, samtals að upphæð kr. 6.201.815.-

Formleg athöfn um úthlutun styrkja verður haldin í Menningarhúsinu Tjarnarborg fimmtudaginn 6. febrúar kl. 18:00, samhliða útnefningu bæjarlistamanns Fjallabyggðar og eru allir velkomnir.

Texti: Fjallabyggð.is

Saga Fotografica á Siglufirði.

Sjúkraflutningar tryggðir næstu 5 árin í Skagafirði

Síðastliðinn föstudag var undirritaður nýr samningur um sjúkraflutninga á milli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Brunavarnir Skagafjarðar munu sjá um framkvæmd samningsins líkt og undanfarin ár. Samningurinn, sem gildir til næstu 5 ára, nær til sjúkraflutninga í Skagafirði, utan Fljóta sem njóta þjónustu frá Fjallabyggð.

Áralöng hefð er fyrir samstarfi Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Brunavarna Skagafjarðar vegna sjúkraflutninga og eru samningsaðilar því mjög ánægðir með að óbreytt fyrirkomulag vegna sjúkraflutninga í Skagafirði hafi verið tryggt næstu árin.

Sigfús Ingi Sigfússon sveitastjóri, Svavar Atli Birgisson slökkviliðsstjóri, Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN og Örn Ragnarsson framkvæmdastjóri læknina HSN við undirritun samningsins.

 

Mynd og heimild: Skagafjörður.is

KF gerði markalaust jafntefli

KF lék í gær við Hött/Huginn í B-deild í Kjarnafæðismótinu. Leikið var í Boganum á Akureyri en leiknum hafði verið frestað vegna ófærðar og var því um nýjan leiktíma að ræða.

Lið KF er fremur þunnskipað um þessar mundir og hafa nokkrir lykilmenn frá síðasta tímabili horfið á braut. Ungir leikmenn koma því inni í hópinn og eins lánsmenn frá öðrum liðum sem eru einnig á reynslu hjá félaginu.

Fimm lánsmenn voru í byrjunarliðinu í þessum leik, Birgir Hlynsson frá Þór, Elvar Baldvinsson frá Völsung, Hrannar Snær Magnússon frá KH, Páll Ingvason frá Þór og Halldór Jóhannesson frá KA.

Yngsti leikmaður vallarins var hins vegar hinn 15 ára gamli Þorlákur Breki Baxter í liði Hugins Hattar, og spilaði hann allan fyrri hálfleik.

Markalaust var í fyrri hálfleik og gerði KF sína fyrstu skiptingu á 72. mínútu þegar Kristófer Máni kom inná fyrir Birgi Hlynsson. Óliver kom svo inná fyrir Hákon Leó á 87. mínútu. KF nýtti aðeins þessar tvær skiptingar í leiknum en þeir voru með fjóra varamenn klára. Höttur/Huginn var hinsvegar með stóran hóp og nýtti allar sínar 7 skiptingar.

Leiknum leik með markalausu jafntefli og fengu lið sitthvort stigið úr þessum leik. KF hefur því haldið hreinu í fyrstu þremur leikjum mótsins og er með 5 stig eftir þrjá leik.

Liðið á næst leik gegn Kormák/Hvöt, laugardaginn 25. janúar.

Íþróttafólk ársins 2019 á Akureyri

Íþróttakona Akureyrar 2019 er Aldís Kara Bergsdóttir listhlaupakona úr Skautafélagi Akureyrar og Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar er íþróttakarl Akureyrar 2019. Kjörinu var lýst í Menningarhúsinu Hofi í vikunni. Þetta var í 41. skipti sem íþróttamaður Akureyrar er heiðraður.

Á árinu 2019 varð Aldís Kara Íslandsmeistari listhlaupi í Junior flokki auk þess að tvíbæta Íslandsmetið í Junior flokki og náði lágmörkum inn á heimsmeistaramót unglinga. Aldís Kara var kjörin íþróttakona Skautafélags Akureyrar árið 2019 og Skautakona ársins 2019 af Skautasambandi Íslands. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakonu ársins 2019 varð Sóley Margrét Jónsdóttir úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar. Hulda Elma Eysteinsdóttir blakkona úr Knattspyrnufélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Frjálsíþróttakonan Hafdís Sigurðardóttir úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í fjórða sæti og í fimmta sæti varð Hulda B. Waage úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar.

Íþróttakarl Akureyrar 2019, Viktor Samúelsson úr Kraftlyftingarfélagi Akureyrar, hlaut nú nafnbótina í fjórða skipti síðan 2015. Viktor varð Íslandsmeistari karla í kraftlyftingum 2019 auk þess að verða í 4. sæti í -120 kg. flokki á Evrópumótinu í kraftlyftingum á sl. ári. Viktor er jafnframt stigahæsti kraftlyftingamaður Íslands frá upphafi. Í öðru sæti í kjörinu um íþróttakarl ársins 2019 varð Miguel Mateo Castrillo blakmaður úr KA. Utanvegarhlauparinn Þorbergur Ingi Jónson úr Ungmennafélagi Akureyrar varð í þriðja sæti. Í fjórða sæti varð íshokkímaðurinn Hafþór Andri Sigrúnarson úr Skautafélagi Akureyrar og í 5. sæti varð Alexander Heiðarsson júdómaður úr KA.

Jóhannes Kárason hlaut heiðursviðurkenningu Frístundaráðs. Jóhannes, sem er gullmerkishafi Skíðasambands Íslands, hefur komið að uppbyggingu og útbreiðslu skíðagönguíþróttarinnar á Akureyri og víðar með ýmsum, miklum og óeigingjörnum hætti síðustu 35 ár.

Frístundaráð veitti viðurkenningar vegna 311 Íslandsmeistara til 13 aðildarfélaga Íþróttabandalags Akureyrar á síðasta ári.

Þá veitti Afrekssjóður átta afreksefnum úr röðum aðildarfélaga styrk að alls upphæð 1.600.000 kr.

Alls veitti Afrekssjóður Akureyrarbæjar styrki að upphæð 7.000.000 kr. árið 2019 til íþróttamanna innan aðildarfélaga ÍBA.

Mynd: akureyri.is