Category Archives: Norðurland

Píanótónleikar í Siglufjarðarkirkju

Tveir ungir píanóleikarar frá Akureyri, Alexander Edelstein og Björn Helgi Björnsson, leika á píanó verk eftir nokkur fremstu klassísku tónskáldin, Bach, Beethoven, Brahms, Chopin, Schubert og Rachmaninoff.

Alexander er tvítugur nýstúdent frá MA en hefur samhliða því stundað nám í píanóleik hjá Peter Maté við Listaháskóla Íslands. Hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar og verðlaun fyrir píanóleik sinn, meðal annars í EPTA- keppinni (Evrópusamband píanókennara) og haldið allmarga einleikstónleika og leikið með hljómsveitum. Síðast hélt hann einleikstónleika fyrir fullum sal í Hömrum á Akureyri í maí síðastliðnum við afar góðar undirtektir.

Björn Helgi er sautján ára nemandi við MA og Tónlistarskóla Akureyrar og er á efsta stigi í píanóleik. Hann hefur tekið þátt í píanókeppni EPTA og gengið vel, og er nú að búa sig undir EPTA-keppni sem verður í Hörpu í nóvember næstkomadi. Hann hefur kommið fram víða á tónleikum að undanförnu. Björn Helgi á ættir að rekja til Siglufjarðar.

Viðgerð hafin á flugbrautinni á Siglufirði

Viðgerðarvinna er hafin á flugbrautinni á Siglufjarðarflugvelli. Búið er að koma fyrir nokkrum tonnum af efni sem setja á í flugbrautina þar sem malbikið er hvað verst. Stórvirkar vinnuvélar eru nú þegar komnar á svæðið og er efnið tilbúið fyrir utan gamla flugskýlið, og var því reyndar komið fyrir þar sem hurðin er og getur eigandinn því ekki vitjað eigna sinna eins og staðan er núna. Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð hafa barist fyrir því að láta opna Siglufjarðarflugvöll sem lendingarstað á ný, en vellinum var lokað árið 2014. Bæjarstjóri Fjallabyggðar vildi í vor kanna möguleikann á því að opna völlinn sem lendingarstað í sumar fyrir sjúkraflug og eins hafa félög í ferðaþjónustu sýnt áhuga að lenda þarna til að koma með ferðamenn á svæðið. Baráttan virðist vera skila sér og vonandi verður völlurinn formlega opnaður á ný sem fyrst.

 

KF mætir KFG á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

KF mætir KFG á Ólafsfjarðarvelli laugardaginn 14. júlí kl. 15:00. Búast má við erfiðum leik en KFG er í öðru sæti deildarinnar með 18 stig. Liðið hefur unnið 6 leiki og tapað þremur. KFG hefur skorað flest mörk í deildinni, eða 23 mörk í 9 leikjum, en fengið á sig 13 mörk. Liðið á þrjá af markahæstu mönnum deildarinnar sem eru á topp 10 listanum. Helst bera að nefna fyrrum landsliðsmanninn Veigar Pál Gunnarsson, en hann hefur gert 5 mörk í sex leikjum fyrir liðið. Markahæstur er þó Jóhann Ólafur Jóhannsson með 6 mörk í 9 leikjum, en þessi drengur er 22 ára og hefur reynslu úr neðri deildum. Þá má einnig nefna Magnús Björgvinsson sem hefur gert 5 mörk í 7 leikjum í deildinni, og eitt mark í tveimur bikarleikjum. Hann er 31 árs og reynslumikill leikmaður sem hefur lengst af leikið í efstu deildum á Íslandi með Grindavík og Stjörnunni. Þetta eru því þeir menn sem þarf að dekka vel inn í teig og í föstum leikatriðum. Garðar Jóhannsson leikur einnig með liðinu, en hann hefur aðeins leikið 3 leiki í sumar, en hann er  líklegur til að koma inná sem varamaður verði hann í hópnum. Garðar lék lengi í efstudeild á Íslandi með liðum eins og KR, Fylki, Stjörnunni og Val. Hann á t.d. 240 leiki í meistaraflokki og gert 86 mörk.

Liðin hafa mæst þrisvar sinnum áður og hefur KFG unnið alla leikina. Í fyrstu umferð í maí mættust liðin og vann KFG 1-0 á heimavelli, og var KF óheppið að ná ekki stigi úr þeim leik. Í fyrra mættust liðin einnig í deildinni og vann KFG þá heimaleikinn 5-1 og 1-2 á Ólafsfjarðarvelli.

KF er þremur stigum frá fallsæti eftir 9 umferðir og þarf nauðsynlega á stigum að halda til að koma sér ofar í töflunni. Aðeins sex stig eru á milli liða í 3. sæti til 8. sætis. Mesta áhyggjuefni hjá KF er markaskorun liðsins, en liðið hefur aðeins skorað 7 mörk í 9 leikjum, eða minna en 1 mark í leik. Vörnin hefur þó verið sterk og hefur liðið aðeins fengið á sig 13 mörk sem er með því minna í deildinni. Þá hefur Halldór Ingvar markmaður varið tvær vítaspyrnur í sumar, en hann hefur leikið 158 leiki fyrir KF og skorað 1 mark.

Í heildina má búast við mjög erfiðum leik, en ef vörnin verður sterk og ef liðið nýtir þau færi sem koma getur allt gerst.

Leggja til að þyrla Viking Heliskiing lendi á Siglufjarðarflugvelli

Ferðaþjónustufyrirtækið Viking Heliskiing óskaði er eftir leyfi Fjallabyggðar til að lenda þyrlum á malarplani sunnan við Hótel Sigló. Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar telur að staðsetning lendingarsvæðis þyrlu á umræddu svæði ekki vera heppileg með tillit til hávaðamengunar, nálægðar við íbúabyggð, þjóðveg í þéttbýli og ferðamannasvæði. Ákjósanlegur lendingarstaður gæti verið á Siglufjarðarflugvelli.

Vilja gera útivistarsvæði og skrúðgarð í Ólafsfirði

Garðyrkjufélag Tröllaskaga norður og Skógræktunarfélag Ólafsfjarðar hefur óskað eftir landsvæði til að rækta upp og gera að útivistarsvæði/skrúðgarði í Ólafsfirði. Svæðið sem um ræðir er á milli Grunnskóla Fjallabyggðar og Sigurhæðar og frá tjaldsvæði út að Menntaskólanum í Tröllaskaga. Einnig er óskað eftir grænu svæði norðan við bílaplan Menntaskólans í Tröllaskaga.  Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar fór yfir málið og hefur óskað eftir frekari upplýsingum.

Von á fjórum skemmtiferðaskipum til Siglufjarðar á morgun

Það má reikna með fjölda erlendra ferðamanna í miðbæ Siglufjarðar á morgun, fimmtudaginn 12. júlí,  en áætlað er að fjögur erlend skemmtiferðaskip heimsæki fjörðinn. Alls verða þetta um 574 farþegar sem koma frá skipunum Pan Orama, Hebridean Sky, National Geographic Explorer og Le Soleal. Þrjú þeirra stoppa fyrir hádegið, en National Geographic Explorer kemur til hafnar kl. 13:00. Þetta mun vera met á Siglufirði í fjölda skemmtiferðaskipa á einum degi. Í nokkur skipti hafa þó komið tvö skip og hefur það gengið vel.

Le Soleal er glæsilegt skip sem kom einnig í fyrra í eina heimsókn til Siglufjarðar og verður þetta eina heimsóknin í ár.  Skipið er franskt og var smíðað árið 2013. Skipið tekur alls 265 farþega og er með 160 manns í áhöfn. Skipið Hebridean Sky er að koma í fyrsta skiptið til Siglufjarðar undir þessu nafni en það mun alls koma í fjórar heimsóknir í sumar. Skip hét áður Sea Explorer og kom til Siglufjarðar árin 2015 og 2017. Skipið tekur um 110 farþega og er með 72 áhafnarmeðlimi en það er gert út frá London.

Minnsta skip sumarsins er Pan Orama en það tekur aðeins 49 farþega, er með 16-18 manna áhöfn og 24 herbergi.

Landsmótið á Sauðárkróki

Landsmótið er íþróttaveisla sem fram fer á Sauðárkróki dagana 12. – 15. júlí 2018. Íþróttir og hreyfing verða í aðalhlutverki á daginn. Á kvöldin verður skemmtun og samvera í góðum félagsskap allsráðandi.  Allir 18 ára og eldri geta skráð sig, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki. Að sjálfsögðu verður margt í boði fyrir mótsgesti yngri en 18 ára. Landsmótið er því frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna. Landsmótið er tilvalinn vettvangur fyrir vinahópa, starfsmannahópa, stórfjölskylduna eða endurfundi af ýmsu tagi. Á Landsmótinu er tilvalið að styrkja tengslin við vini og vandamenn í góðum félagsskap, hreyfa sig, njóta samverunnar og gleðjast saman.

Þátttakendur mótsins geta keppt í eða prófað fjölda íþróttgreina í bland við götu- og tónlistarveislu. Saman munu gestir Landsmótsins skapa töfrandi minningar. Það verður rífandi fjör og gleði alla daga mótsins.  Þeir sem skrá sig til leiks búa til sína eigin dagskrá.

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á sama stað og á sama tíma. Mótið verður með svipuðu fyrirkomulagi og undanfarin ár. Helstu keppnisgreinar verða á sínum stað og verða margfalt fleiri keppnisgreinar, viðburðir og önnur afþreying í boði en verið hefur áður.

Á föstudagskvöldið verður götupartí og tónlistarveisla í Aðalgötunni kl. 19:00 – 23:00. Auddi og Steindi, hljómsveitin Albatross og Sverrir Bergmann ásamt gestum sjá um frábæra skemmtun. Aðgangur er ókeypis.

Á laugardagskvöldið verður mikil skemmtanaveisla.

Kl. 19:30-23:00 verður matarveisla, skemmtun og dans í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Boðið verður upp á veisluhlaðborð úr Matarkistu Skagafjarðar. Veislustjórar verða Gunnar Sandholt og María Björk Ingvadóttir. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar leikur fyrir dansi. Miðaverð 5.900 kr. eða 4.900 kr. fyrir landsmóts þátttakendur.

Seinna á laugardagskvöldinu verður svo ball ársins, en Páll Óskar kemur í íþróttahúsið og sér um fjörið. Húsið opnar á miðnætti og aldurstakmarkið er 18 ár. Miðaverð er 3.900 kr. eða 3.000 kr. fyrir þátttakendur á landsmótinu.

Hægt er að skrá sig á landsmót og kaupa aðgang að öllum viðburðum landsmótsins á https://www.landsmot.is

Heimild: skagafjordur.is

Myndir: Magnús Rúnar Magnússon

Skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar segir upp starfi sínu

Jónína Magnúsdóttir skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar hefur sagt starfi sínu lausu frá og með 1. ágúst 2018. Jónína hefur starfað sem skólastjóri í skólanum undanfarin ár. Fjallabyggð mun auglýsa starfið á næstu vikum.

Jónína Magnúsdóttir tekur við starfi aðstoðarskólastjóra Grunnskólans í Þorlákshöfn.

Jónína hefur hún verið í skólastjórnun frá árinu 1998 en hún var áður skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Siglufjarðar. Þá var hún einnig skólafulltrúi Siglufjarðarbæjar í tvö skólaár. Hún er að auki með góða kennslureynslu en hún hóf störf við kennslu haustið 1987 og starfaði sem kennari við Snælandsskóla í Kópavogi og við Grunnskóla Siglufjarðar.

Kynning á sýnendum Handverkshátíðar

Handverkshátíð í Eyjafirði verður haldin dagana 9.-12. ágúst í Hrafnagilsskóla. Fjöldi sýnenda verður á svæðinu þessa daga og hér má kynnast nokkrum þeirra.

Hjartans list – Vörur handunnar úr tré. Má þar nefna margs konar jólaskraut unnið úr krossvið og málað, skrautið er sagðað út með tifsög. Kertastjakar renndir úr ýmsum viðartegundum. Snældur renndar úr ýmsum viðartegundum, snældurnar eru ætlaðar prjónafólki en garndokkurnar eru hafðar á snældunni sem sníst. Lampafætur sem eru renndir úr tré. Trébakkar sem hægt er að nota undir brauð og fleira. – Endilega fylgist með Hjartans list á facebook: https://www.facebook.com/Hjartans-list-364595336919064/

Flottar Flíkur – Þórunn Pálma er saumakona af gamla skólanum og hefur haft saumaskap sem atvinnu til fjölda ára. Hennar fatnaður er vandaður kvenfatnaður og þæginlegur barnafatnaður úr góðum efnum, með fallegum frágangi. Efnin sem hún notar eru að mestu leiti keypt hér heima á Akureyr. Þórunn saumar allar sínar vörur sjálf. Innblástur fær hún úr öllum áttum í tíma og ótíma. – Endilega fylgist með Flottar flíkur á facebook: https://www.facebook.com/Flottar-fl%C3%ADkur-679908198756006/

Urtasmiðjan – Urtasmiðjan framleiðir lífrænar húðvörur. Helstu jurtir í framleiðslinni vaxa hér í sínu norðlenska náttúrulega og ómengaða umhverfi. Allar vörutegundir eru þróaðar og framleiddar frá grunni í Urtasmiðjunni og eru án allra kemískra aukaefna, uppistaðan er íslenskar jurtir og lífrænt vottað hráefni. Urtasmiðjan hefur nú á þessu ári starfað í 27 ár og var á sínum tíma frumkvöðull á sínu sviði í framleiðslu á íslenskum snyrtivörum úr íslenskum jurtum og lífrænu hráefni. – Endilega fylgist með Urtasmiðjunni á facebook: https://www.facebook.com/Urtasmidjan/

Systrabönd –  Garn litað með sýrulitum og náttúrulitum. Garnið er erlent, pantað að utan ólitað, nokkrir grófleikar og tegundir eru í boði. Aðalega fínt Merino ullar garn sem er vinsælt í sjöl. Stoltar bjóða þær upp á ástralska merino ull með vottun NewMerino verkefnisins, ullin er merkt sjálfbær. Náttúrulitina panta þær að utan eða fá í nágrenninu t.d. bláber, avókado og humall. Þær fá útrás fyrir sköpun með að blanda og raða saman litum og skapa garn þar sem engar tvær hespur eru eins. – Endilega fylgist með Systrabönd á facebook: https://www.facebook.com/systrabondhandlitun/

Leitin að hvítabirninum lokið

Leitin af hvítabirninum á Melrakkasléttu lauk um klukkan 16:30 í dag samkvæmt tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra. Þyrla landhelgisgæslunnar ásamt lögreglu flaug yfir svæðið frá þeim punkti þar sem talið var að sést hafi til hvítabjarnarins. Leitað var vel yfir svæðið, austur og vestur yfir Melrakkasléttuna, inn í land og meðfram ströndinni en ekkert hefur sést til hvítabjarnarins. Leit er því lokið að sinni.

KF stelpur byrja Íslandsmótið af krafti – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Stelpurnar í 5. flokki B-liða í Knattspyrnufélagi Fjallabyggðar hafa byrjað Íslandsmótið af krafti og unnið fyrstu 6 leikina í sumar. Þær eru með markatöluna 19-5 eftir fyrstu 6 leiki sem skráðir hafa verið, eða skorað 19 mörk og fengið á sig 5. Þær eru meðal annars í riðli með KA, Þór, Tindastóli, Dalvík, Kormákur/Hvöt og fleiri aukaliðum. Stelpurnar unnu KA-3 í byrjun sumars 0-5 á KA-velli. Í byrjun júní unnu þær KA-2 á KA-velli 1-4. Þann 11. júní unnu þær Kormák/Hvöt í hörkuleik á Ólafsfjarðarvelli, en lokatölur þar voru 3-2. Í lok júní lék þær loks við Þór á Þórsvelli á Akureyri og unnu góðan sigur 0-3. Í júlí léku þær við KA stelpurnar á Ólafsfjarðarvelli og vann KF 2-1 sigur.

Í gær fór svo fram leikur á Húsavíkurvelli þar sem KF stelpur mættu Völsungi. Stelpurnar úr Fjallabyggð unnu leikinn 1-2.

Fjölmargir leikir eru framundan hjá þessum efnilegu stelpum og lýkur Íslandsmótinu í lok ágústmánaðar. Flestar stelpurnar eru fæddar árið 2006-2007 og fyrirliði liðsins er Ísabella Ósk Stefánsdóttir, og er hún markvörður liðsins.

Ljósmynd með frétt: Eva Björk Ómarsdóttir.

Athuga að úrslit miðast við opinberar tölur sem eru á vef KSÍ.

 

Tónleikar í Þjóðlagasetrinu

Laugardagskvöldið 14. júlí í Bjarnastofu Þjóðlagasetursins munu hinar nafntoguðu tónlistarkonur Sophie Ramsay frá Skotlandi og Sarah Smout frá Englandi flytja ný og gömul þjóðlög frá ýmsum löndum. Tónleikarnir í Þjóðlagasetrinu eru hluti af tónleikaferðalagi þeirra um Orkneyjar, Færeyjar og Ísland. 
Tónleikarnir hefjast klukkkan 20:00, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!Strandarmótið 25 ára

Í ár verður haldið uppá 25 ára afmæli Strandarmótsins í knattspyrnu. Mótið verður haldið á Árskógsvelli á Árskógsströnd og fer það fram helgina 21.–22. júlí.

Leikið verður með hefðbundnu sniði, styrkleikaskipt fyrir 6. – 8. flokk, bæði fyrir stelpur og stráka.

Á laugardeginum frá kl. 10:00-13:00 leikur 8. flokkur en 6. flokkur leikur frá 13:00-16:00.
Á sunnudeginum leikur 7. flokkur frá klukkan 10:00-15:00.

Að lokinni keppni fá keppendur grillaðar pylsur, svala og þátttökugjöf sem afhent verður á staðnum.

Skráning er nú í fullum gangi en mótsgjald er aðeins 2500 kr.
Skráning fer fram á netfanginu barnaogunglingarad@gmail.com.

Kynning á sýnendum Handverkshátíðar í Eyjafirði

Handverkshátíð í Eyjafirði verður haldin dagana 9.-12. ágúst í Hrafnagilsskóla. Fjöldi sýnenda verður á svæðinu þessa daga og hér má kynnast nokkrum þeirra.

DAYNEW – Postulín vörur. Kertastjakar úr hálfgegnsæju postulíni og blómavasar af mörgum gerðum. Innblástur sóttur til Sirkus mynstra og forma, rendur, tíglar og fánar. Pastel litir, bleikur, blár og ljósgrænir tónar og handteiknaðar línur. Nýj lína sem eru smá-blómavasar, sem kallast Smáfjöll. – Endilega fylgjst með DAYNEW á facebook: https://www.facebook.com/artistdaynew/

Yarm – Ullar vörur úr eingöngu sérvaldri íslenskri ull. Þykka garnið sem er sérkenni Yarm er handspunnið á rokk af natni og vandvirkni áður en það er handprjónað, hnýtt eða heklað með prjónalausum aðferðum. Mikið handverk liggur að baki hverrar vöru sem gefur vörunum sín sérkenni og karakter sem vert er að halda uppá, því hver vara er einstök og engar tvær eru eins. Íslensk hönnun og íslensk framleiðsla. – Endilega fylgist með Yarm á facebook: https://www.facebook.com/yarm.shop/

Meiður – Vörur úr við. Meiður trésmiðja er 4 ára gamalt fjölskyldufyrirtæki sem hannar og framleiðir allar vörur á eigin verkstæði í Hafnarfirði. Helst má nefna framreiðslubretti, skálar, kökukefli og skrautmuni ýmis konar. Meiður notar aðallega hnotu, eik og tekk í munina en einnig íslenskan við s.s. gullregn og birki. Allar þeirra vörur eru 100% náttúruvænar og eru allir afgangar sem falla til nýttir. – Endilega fylgist með Meiður á facebook: https://www.facebook.com/meidur/

Heimahagar – Textíl vörur. Heimahagar er textíllína sem er innblásin af Biðukollunni. Línan samanstendur af fjórum mynstrum sem prentuð eru á bæði bómul og hör og úr því eru saumaðir púðar, viskastykki og löberar. Nafnið á línunni og hugmyndin af mynstrunum kemur úr Aðaldalnum þar sem hönnuðurinn er alin upp. Hún leggur áherslu á gæði og persónulega hönnun og hannar sjálf allar umbúðir, bæklinga og auglýsingar sem tengjast línunni á einhvern hátt. Framleiðsla á öllu þessu efni fer fram á Akureyri, ásamt öllum saumaskap. – Endilega fylgist með Heimahögum á facebook: www.facebook.com/heimahagar

Eldur kom upp í kísilverinu á Bakka við Húsavík

Um kl. 20:00 í gærkvöld var lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynnt um eld í kísilveri á Bakka við Húsavík. Allt tiltækt slökkviliðs Norðurþings var kallað út ásamt slökkviliðið Þingeyjarsveitar. Eldur kom upp á milli 4. og 5. hæðar í ofnhúsi. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins og urðu engin slys á fólki. Slökkvilið Norðurþings um stóð vaktina í nótt ef ske kynni að eldur myndi kvikna á ný. Lögreglan mun rannsaka eldsupptök.

Töldu sig hafa séð hvítabjörn á Melrakkasléttu

Um kl. 19:00 í kvöld bárust Lögreglunni á Norðurlandi eystra upplýsingar um að síðdegis í dag hafi sést til hvítabjarnar nyrst á Melrakkasléttu eða suður af Hraunhafnarvatni. Á þessari stundu er ekki búið að staðfesta að um hvítabjörn sé að ræða en lögreglan er að vinna í frekari könnun á þessari tilkynningu og mun þyrla Landhelgisgæslunnar m.a. fljúgi þarna yfir. Hinsvegar er rétt að fólk á þessum slóðum hafi þetta í huga og hringi strax í 112 ef það telur sig sjá hvítabjörn, en reyni ekki að nálgast hann. Þetta kemur fram á facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra í kvöld.

Fornleifarannsóknir í Hrísey

Orri Vésteinsson prófessor við Háskóla Íslands hefur kynnt fyrir Akureyrarbæ fyrirhugaða forrannsókn vegna rannsóknar á eyðibýlinu Hvatastöðum á austurströnd Hríseyjar. Um er að ræða samstarfsverkefni Minjasafnsins á Akureyri og Háskóla Íslands. Ætlunin er að taka sýni, hreinsa snið þar sem brýtur af sjávarbakkanum og grafa tvo 1×1 metra könnunarskurði sem fyllt verður í aftur. Rannsóknin mun ekki skilja eftir sig nein varanleg ummerki á vettvangi.

 

Gistiheimilið Gullsól í Grímsey 20 ára

Gistiheimilið Gullsól í Grímsey er 20 ára en árið 1998 ákváðu 10 konur í Grímsey að opna lítið gallerí til þess að ferðafólk gæti fengið sér kaffi þegar það kæmi til eyjunnar. Á þeim tíma var lítil sem engin þjónusta í boði fyrir ferðamenn og því margt búið að gerast á þessum 20 árum.  Nú eru tvö gistiheimili í eyjunni, veitingastaður, tjaldsvæði, skipulagðar ferðir af ýmsu tagi, strætó, fimm ferjuferðir á viku yfir sumartímann og þrjár yfir veturinn auk áætlunarflugs og útsýnisflugs til Grímseyjar.

Í Gullsól er rekið gistiheimili, minjagripa- og gjafavöruverslun, meðal annars með handverki heimafólks, og lítið kaffihús. Húsið hefur verið gert upp að innan sem utan.  Gisting fyrir eins manns herbergi kostar frá 7500 kr. og fyrir tvöfalt rúm kostar frá 13.000 kr. nóttin.

Í dag koma níu konur að rekstrinum í Gullsól með einum eða öðrum hætti.

Hríseyjarhátíðin verður haldin dagana 13. – 14. júlí

Hríseyjarhátíðin 2018 verður haldin dagana 13. – 14. júlí. Hríseyjarhátíðin hefst á föstudegi með því að nokkrir Hríseyingar og sumarhúsaeigendur bjóða heimafólki og gestum í kaffisopa heim í görðunum sínum. Upplagt er að rölta á milli garðanna og njóta gestrisni og samvista við skemmtilegt fólk í fallegu umhverfi. Einnig verða óvissuferðir fyrir börn og fullorðna.  Fyrsta hátíðin var haldin árið 1997 og hefur hún verið árlegur viðburður síðan. Það er Ferðamálafélag Hríseyjar sem stendur að hátíðinni.

Hríseyjarhátíðin fer fram í júlí ár hvert og stendur yfir heila helgi. Boðið er upp á fjölskylduvæna dagskrá sem felst m.a. í óvissuferðum um eyjuna,  fjöruferð, kvöldvöku, varðeld og söng.

Aðaldagskráin er svo á laugardeginum þá er í boði dagskrá frá hádegi og fram á kvöld, sem felst í fjöruferð með Skralla trúð, dráttavélaferðum, boðið verður upp á aðgang að leiktækjum, tónlist, ratleik og fleira. Að venju endar hátíðin á kvöldvöku á sviðinu, varðeldi og brekkusöng. Hátíðin er fyrst og fremst fjölskylduhátíð þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Í Hrísey er öll almenn þjónusta til staðar s.s verslun, veitingahús, sundlaug, tjaldsvæði og gisting. Til Hríseyjar gengur ferjan Sævar og er boðið upp á allt að níu ferðir á dag. Siglingin tekur aðeins 15 mínútur frá Árskógssandi, sem er um 35 kílómetra frá Akureyri.

Aðgangur á hátíðina er ókeypis.

Fjöldi nýnema á háskólastigi hefur tvöfaldast á tuttugu árum

Nýnemar á háskólastigi og doktorsstigi voru 3.538 haustið 2017 sem er svipaður fjöldi og árið áður. Fjöldi nýnema hefur tæplega tvöfaldast frá árinu 1997 þegar þeir voru 1.979. Flestir voru nýnemar árið 2009, 4.375 talsins, en þá sóttu margir í háskólanám eftir efnahagshrunið. Karlar voru rúmlega 40% nýnema haustið 2017 en hæst fór hlutfall karla meðal nýnema í 43,6% árið 2010. Hagstofa Íslands greinir frá þessu.

Nýnemar 20 ára og yngri voru 27,6% nýnema árið 2010 en fækkaði í 24,3% árið 2014. Haustið 2017 voru nýnemar 20 ára og yngri aftur orðnir 27% allra nýnema. Haustið 1997 voru nýnemar á þessum aldri 18,7% nýnema á háskólastigi og því hefur nýnemum í yngstu aldurshópunum fjölgað umtalsvert frá þeim tíma.

Um 35% nýútskrifaðra stúdenta fara beint í háskóla
Skólaárið 2015–2016 brautskráðist 3.421 stúdent frá íslenskum framhaldsskólum en nýnemar í háskólum haustið 2016 voru 3.546. Nánari skoðun leiddi í ljós að 35% stúdenta skólaárið 2015–2016 innrituðust í háskólanám haustið 2016. Nýnemar eru nokkru fleiri en útskrifaðir stúdentar, m.a. vegna eldri stúdenta sem hefja háskólanám, vegna nemenda sem eru teknir inn í háskólanám án þess að hafa lokið stúdentsprófi og vegna erlendra nemenda sem stunda nám á Íslandi.

Konur í meirihluta meðal nýnema í doktorsnámi
Nýnemar í doktorsnámi voru 10 talsins haustið 1997 en 168 árið 2017. Bæði körlum og konum í doktorsnámi hefur fjölgað töluvert á þessum árum en frá hausti 2003 hafa konur verið í meirihluta nýnema. Haustið 2017 voru konur 57,7% nýnema á doktorsstigi.

Fjöldi nýnema í fræðilegu háskólanámi hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin þrjú ár, eða um 3.400 nemendur. Nýnemar í starfsmiðuðu háskólanámi voru 199 haustið 2017 en fjöldi þeirra hefur verið sveiflukenndur undanfarin ár. Mestur var fjöldinn árið 1997 (630) en síðan þá hefur margt starfsmiðað háskólanám breyst í fræðilegt háskólanám og nýnemum því fækkað. Til dæmis hefur margt listnám á háskólastigi verið fært úr sérhæfðum listaskólum yfir í Listaháskóla Íslands.

Nýnemum með erlent ríkisfang fjölgar
Fjöldi nýnema á háskólastigi og doktorsstigi sem hafa erlent ríkisfang hefur meira en sexfaldast frá árinu 1997. Þá var 101 nýnemi með erlent ríkisfang en þeir voru 666 haustið 2017. Hæst fór fjöldi erlendra nýnema í 797 árið 2014. Erlendir nýnemar voru tæplega 19% af öllum nýnemum á háskólastigi og doktorsstigi haustið 2017.

Nánast stöðug fjölgun hefur verið meðal erlendra nýnema á doktorsstigi og voru þeir 69 haustið 2017 eða rúm 41% allra nýnema á doktorsstigi.

Færri nýnemar á sviði menntunar
Haustið 2017 hófu langflestir nýnemar nám á sviði félagsvísinda, viðskipta og lögfræði, 1.126, eða tæplega þriðjungur allra nýnema. Næstflestir nýnemar hófu nám á sviði hugvísinda og lista, 520 nemendur. Nýnemum á sviði menntunar hefur fækkað hlutfallslega mest frá árinu 1997 þegar þeir voru tæplega 20% allra nýnema (387), niður í tæplega 9% nýnema haustið 2017 (310). Á sama tíma hefur nýnemum fjölgað hlutfallslega mest á sviði verkfræði, framleiðslu og mannvirkjagerðar, úr 5,4% árið 1997 (107) í 12,5% haustið 2017 (441).

Heimild: hagstofa.is

Nýr framkvæmdastjóri fjármála- og rekstararsvið

Staða framkvæmdastjóra fjármála- og rekstararsvið Sjúkrahússins á Akureyri var auglýst fyrir skömmu og bárust  tíu umsóknir um stöðuna. Unnið  hefur verið úr þeim umsóknum og hefur Guðmundur Magnússon verið ráðinn í starfið.

Guðmundur lauk B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði og M.Sc. gráðu í rekstrar- og stjórnunarverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku. Síðan þá hefur hann unnið við margvísleg störf tengdum fjármálastjórn og stjórnun almennt. Nú starfar Guðmundur sem framkvæmdastjóri fjármála og stoðþjónustu hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands þar sem hann hefur yfirumsjón með m.a. fjárheimildum, áætlanagerð, bókhaldsþjónustu og greiningum. Áður var hann framkvæmdastjóri Lundar Rekstrarfélags þar sem hann stýrði starfsemi nemendagarða.

Hann tekur við stöðunni af Auði Elvu Jónsdóttur.

Veiðileyfi í Svarfaðardalsá

Stangveiðifélag Akureyrar hefur úthlutað veiðileyfum til Dalvíkurbyggðar í Svarfaðardalsá á svæði 1. Um er að ræða 10 stangir á tímabilinu frá 9. júlí 2018 til og með 8. september 2018.  Byggðaráð Dalvíkurbyggðar hefur samþykkt að auglýsa leyfin til umsóknar fyrir íbúa Dalvíkurbyggðar 67 ára og eldri og fyrir ungmenni 18 ára og yngri.  Umsóknarfrestur er til og með 12. júlí næstkomandi.

Dregið verður úr umsóknum fyrir hvern veiðidag. Athugið að í umsókninni er hægt að velja fleiri en einn veiðidag. Hver og einn umsækjandi fær þó aðeins úthlutað einum degi. Ef fleiri en einn umsækjandi er um einstaka veiðidaga áskilur Dalvíkurbyggð sér rétt til þess að úthluta hálfum veiðidögum.

Hægt er að sækja um á vef Dalvíkurbyggðar.

Þjóðlagahátíð á Siglufirði – sunnudagur

Lokadagur Þjóðlagahátíðar á Siglufirði er í dag. Viðburðir verða í Siglufjarðarkirkju og í Olíutanki Síldarminjasafnsins.

SUNNUDAGUR 8. JÚLÍ 2018

14:00 SIGLUFJARÐARKIRKJA – BRENNIÐ ÞIÐ VITAR

Sinfóníuhljómsveit unga fólksins

 • Ernest Bloch: Fiðlukonsert. Frumflutningur á Íslandi
 • Gunnsteinn Ólafsson: Þýtur í stráum. Svíta byggð á íslenskum þjóðlögum
 • Aaron Copland: Rodeo. Balletsvíta
 • Páll Ísólfsson: Brennið þið vitar

Stjórnandi: Hallfríður Ólafsdóttir

Einleikari: Chrissie Telma Guðmundsdóttir, fiðla

Karlakórinn Fóstbræður, Karlakórinn í Fjallabyggð, Karlakór Dalvíkur

Tónleikarnir verða endurteknir í Langholtskirkju  mánudaginn 9. júlí 2018 kl. 20.00

16:00 AUKATÓNLEIKAR Í TANKANUM, SÍLDARMINJASAFNINU

Tríóið Umbrá leikur eigin tónlist – Ókeypis aðgangur

Umbrá tók þátt í úrslitum Músíktilrauna 2018

26 sóttu um starf skrifstofustjóra á skrifstofu landbúnaðar og matvæla

Alls bárust 26 umsóknir um starf skrifstofustjóra á skrifstofu landbúnaðar og matvæla í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en skrifstofan er ein þriggja fagskrifstofa sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Sérstök hæfnisnefnd, skipuð þremur einstaklingum, mun meta hæfni umsækjenda og skila greinargerð til ráðherra. Nefndin starfar samkvæmt reglum nr. 393/2012, um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands.

Umsækjendur eru eftirtaldir:

 • Aðalsteinn Þorsteinsson
 • Arnljótur Bjarki Bergsson
 • Arnór Snæbjörnsson
 • Auður Finnbogadóttir
 • Benedikt S. Benediktsson
 • Bjarni Ragnar Brynjólfsson
 • Elvar Árni Lund
 • Erna Bjarnadóttir
 • Gísli Rúnar Gíslason
 • Gunnar Rúnar Kristjánsson
 • Gústaf Adolf Skúlason
 • Jón Baldur Lorange
 • Jón Óskar Pétursson
 • Jóna Sólveig Elínardóttir
 • Kjartan Hreinsson
 • Margrét Katrín Guðnadóttir
 • Maríanna Helgadóttir
 • Ragnar Egilsson
 • Rebekka Hilmarsdóttir
 • Sigríður Hjaltadóttir
 • Sigurður Torfi Sigurðsson
 • Skúli Þórðarson
 • Steinunn Grétarsdóttir
 • Unnar Hermannsson
 • Zita Zadory
 • Þórdís Anna Gylfadóttir

Heimild: stjornarrad.is

Styrkir Söguhring kvenna um fimm milljónir króna

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra undirritaði í vikunni samkomulag sem felur í sér fimm milljóna króna styrk velferðarráðuneytisins til Söguhrings kvenna, sem er samstarfsverkefni Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og Borgarbókasafnsins. Shelagh Smith, undirritaði samkomulagið fyrir hönd Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Ísland og Guðrún Dís Jónatansdóttir, fyrir hönd Borgarbókasafnsins.

Söguhringur kvenna er tíu ára gamalt verkefni sem hefur það markmið meðal annars að styrkja tengslanet erlendra kvenna á Íslandi og skapa þeim öruggan vettvang til að deila reynslu sinni, leita stuðnings og stuðla að félagslegum tengslum í gegnum skapandi verkefni.

Með samkomulaginu verður starfsemi Söguhringsins styrkt verulega sem gerir kleift að nýta verkefnið til að bjóða aukna fræðslu um innviði íslensks samfélags og veita upplýsingar um þau úrræði sem eru fyrir hendi til að hjálpa þeim konum sem hafa verið beittar ofbeldi eða orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Hluti samkomulagsins felur í sér að aðferðafræði Söguhringsins verður kynnt fyrir fleiri bókasöfnum víðs vegar um landið.

Samkomulagið sem var undirritað í vikunni kemur í kjölfar frásagna kvenna af erlendum uppruna af ofbeldi, misbeitingu og kúgunar sem birtar voru undir formerkjum #metoo byltingarinnar og áskorunar 97 kvenna til íslensks samfélags í tengslum við þær frásagnir.

Umferðartölur úr Héðinsfjarðargöngum

Talsverð umferð hefur verið í gegnum Héðinsfjarðargöng síðustu daga, enda eru stórar hátíðir í gangi í Fjallabyggð. Á miðvikudag fóru 1285 bílar í gegnum göngin, 1275 á fimmtudag og rúmlega 1542 á föstudag.

Sáralítil umferð hefur verið yfir hánóttina, en upp úr kl. 7:00 byrjar stöðug umferð sem er nokkuð jöfn yfir daginn.

Um Ólafsfjarðarmúla fóru 1116 bílar á fimmtudag og 1295 á föstudag. Um Siglufjarðarveg fóru 550 bílar á fimmtudag og 714 á föstudag.

Tónlistarfólk á Norðurlandi hlýtur styrki úr Tónlistarsjóði

Tilkynnt hefur verið um úthlutanir úr tónlistarsjóði fyrir seinni hluta ársins 2018. Hlutverk sjóðsins er að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Að þessu sinni bárust 126 umsóknir til sjóðsins en samþykkt var að veita 53 verkefnum styrki að þessu sinni, heildarupphæð styrkjanna nemur 19,2 milljónum kr. Verkefnin eru af ýmsum toga og endurspegla fjölbreytta flóru íslensks tónlistarlífs. Hæstu styrkina, að upphæð einni milljón kr. hljóta Pera óperukollektíf vegna Óperudaga í Reykjavík og Tónlistarfélag Ísafjarðar vegna uppfærslu á barnaóperunni Kalli og sælgætisgerðin eftir Hjálmar H. Ragnarsson.

Tónlistarhátíðin Berjadagar í Ólafsfirði hlutu styrk kr. 400.000.  Menningarfélagið Berg á Dalvík hlaut styrk fyrir Klassík í Bergi. Tónlistarfélag Akureyrar hlaut styrk fyrir Sumartónleika í Akureyrarkirkju.

Níu tónlistarhátíðir og tónleikaraðir á landsbyggðinni hljóta styrk að þessu sinni: á Seyðisfirði (LungA og Bláa kirkjan), Akureyri (Tónlistarfélag Akureyrar og Sumartónleikar í Akureyrarkirkju), Kvoslæk, Ólafsfirði (Berjadagar), í Stykkishólmi (Listvinafélag Stykkishólmskirkju), Dalvíkurbyggð (Menningarfélagið Berg) og Karlsstöðum í Berufirði (Sumar í Havarí).

Af tónlistarhátíðum og tónleikaröðum á höfuðborgarsvæðinu hljóta styrk ErkiTíð, Listvinafélag Hallgrímskirkju, 15:15 tónleikasyrpan, Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni, tónleikaröð jazzklúbbsins Múlans, Listahátíðin Cycle, Extreme Chill Festival og Synth Babe Fest. Einnig hljóta styrki stök verkefni á vegum tónlistarhópa og einstaklinga, m.a. Skagfirski kammerkórinn, Kammerkór Suðurlands, Söngsveitin Ægisif, Kammersveitin Elja, Stirni Ensemble og Íslenski flautukórinn.

Af verkefnum fyrir börn og ungmenni má nefna barnaóperurnar Allt í plasti og Kalli og sælgætisgerðin, auk barnatónleikanna Ferðast um fullveldið (tónlist eftir Elínu Gunnlaugsdóttur) og Hver huggar krílið (tónlist eftir Olivier Manoury). Þá fær Hamrahlíðarkórinn styrk til að kynna íslenska kórtónlist í Eistlandi og þjóðlagasveitin Þula til að flytja íslenska þjóðlagatónlist í Kína.

Gott samræmi reyndist í úrvali tónlistartegunda þeirra verkefna sem sóttu um styrki og þeirra sem hljóta styrk. Sömu sögu má segja um kynjahlutfall umsækjenda og styrkþega.
Mennta- og menningarmálaráðherra úthlutar úr sjóðnum að fengnum tillögum tónlistarráðs og er sjóðurinn í umsýslu hjá Rannsóknarmiðstöð Íslands.

Nafn umsækjanda Heiti verkefnis Vilyrði
Auður Viðarsdóttir Synth Babe Fest í Reykjavík 400.000
Á ljúfum nótum í Fríkirkju – tónleikaröð Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni – hádegistónleikar 200.000
Ása Fanney Gestsdóttir Allt í plasti – Barnaópera 800.000
Barokkbandið Brák Eftir nóttina 400.000
Berglind María Tómasdóttir Verpa eggjum 200.000
Berjadagar,fél um tónlistahátíð Berjadagar tónlistarhátíð í Ólafsfirði 2018 400.000
Bláa Kirkjan sumartónleikar Sumartónleikaröðin Bláa kirkjan – 20 ára afmæli 400.000
Camerarctica Kammertónleikar Camerarctica 2018 seinni hluti 300.000
Edda Erlendsdóttir Tónverkið  HVER HUGGAR KRÍLIÐ? eftir Olivier Manoury 400.000
ErkiTíð, íslensk tónlistarhátíð ErkiTíð – SpinOn Festival 400.000
Félag íslenskra tónlistarmanna Klassík í Vatnsmýrinni 200.000
Félag íslenskra tónlistarmanna Velkomin heim 150.000
Guðbjörg Sandholt Gísladóttir King Harold’s Saga 200.000
Guðný Þóra Guðmundsdóttir Listahátíðin Cycle – Óperufrumflutningur fyrir hringflautu og rödd 600.000
Guðríður S.Sigurðardóttir Jón Ásgeirsson 90 ára – heiðurstónleikar 200.000
Hafnarborg Hljóðön haustið 2018 – Romsa 100.000
Hallveig Rúnarsdóttir Speglasalur tilfinninganna – klassískur kabarett 200.000
Hamrahlíðarkórinn Hamrahlíðarkórinn – Europa Cantat XX í Tallinn 2018 800.000
Havarí ehf. Sumar í Havarí 2018 400.000
Hildigunnur Halldórsdóttir f.h. 15.15 tónleikasyrpunnar 15:15 tónleikasyrpan 400.000
Hlutmengi ehf. Mengi: Vettvangur nýsköpunar 200.000
Isnord, menningarfélag Fullveldi til fullveldis og Um víða veröld 200.000
Íslenski flautukórinn Andrými í litum og tónum, seinni hluti 2018 150.000
ítríó For all the wrong reasons 300.000
Kammerkór Suðurlands Ör-lög Suðurlands 100.000
Kári Kárason Þormar Brilliant Barokk 400.000
Listvinafélag Hallgrímskirkju Listvinafélag Hallgrímskirkju 600.000
Listvinafélag Stykkishólmskirkju Menningardagskrá Listvinafélags Stykkishólmskirkju 2018 400.000
LungA-Listahátíð ungs fólks,AL LungA – Tónlistarveisla og aðrir tónlistarviðburðir 2018 300.000
Menningarfélagið Berg ses Klassík í Bergi 2018 -2019 200.000
Minningarsjóður um Helgu Ingólfsdóttur Útgáfa sex geisladiska með semballeik Helgu Ingólfsdóttur í tengslum við bókina “Helguleikur” 200.000
Múlinn – jazzklúbbur Tónleikaröð Jazzklúbbsins Múlans í Hörpu 200.000
New Music for Strings á Íslandi New Music for Strings á Íslandi 200.000
Pan Thorarensen Extreme Chill Festival 2018 300.000
Pera Óperukollektíf, félag. Óperudagar í Reykjavík 1.000.000
Pétur Björnsson Sumartónleikar Elju 400.000
Rut Ingólfsdóttir Menningarstarf að Kvoslæk 400.000
Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna Concerto grosso – Viking barokk 350.000
Skagfirski kammerkórinnnn Í takt við tímann 400.000
Smekkleysa S.M. ehf. Heildarútgáfa af píanótónlist Magnúsar Blöndal Jóhannssonar 250.000
Smekkleysa S.M. ehf. Leiftur 200.000
Starfsmannafélag Tónlistarskóla f.h. Þjóðlagasveitarinnar Þulu Þjóðlagasveitin Þula á listahátíð í Kína 500.000
Stirni Ensemble Þrennir tónleikar Stirni ensemble í júlí – september 2018 300.000
Sumarópera unga fólksins, félag Óperuakademía unga fólksins í Hörpu 200.000
Sumartónleikar í Akureyrarkirkju Sumartónleikar í Akureyrarkirkju 2018 400.000
Symphonia angelica, félagasamtök Concerto Grosso – Viking barokk 800.000
Söngsveitin Ægisif Ægisif flytur rússneskar kórperlur 400.000
Tónlistarfélag Akureyrar Hausttónleikaröð Tónlistarfélags Akureyrar 400.000
Tónlistarfélag Ísafjarðar Barnaóperan Kalli og sælgætisgerðin 1.000.000
Töfrahurð sf. Ferðast um fullveldið – sögur af fullvalda börnum 400.000
Töframáttur tónlistar Töframáttur tónlistar 200.000
Umbra Umbra áfram 300.000
Ung nordisk musik Starf Íslandsdeildar Ung Nordisk Musik 2018 400.000
 Samtals 19.200.000

Heimild: rannís, stjornarrad.is