Category Archives: Norðurland

Bruggverksmiðjan Kaldi styrkti Krabbameinsfélag Akureyrar um 2,5 milljónir

Undanfarin tvö ár hefur starfsfólk Bruggsmiðjunnar Kalda á Árskógssandi staðið að styrktarverkefninu Vertu kaldur sem hugsað er til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis.

Í vikunni færði starfsfólk Kalda, Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis styrk að verðmæti 2.500.000 kr. en þessi upphæð safnaðist með ágóða af verkefninu sem samanstendur af sölu á Vertu kaldur léttbjórnum frá Bruggsmiðjunni auk fallegra armbanda sem starfsfólkið hannaði og lét framleiða fyrir sig. Þess má geta að árið 2018 skilaði verkefnið styrk að verðmæti 1.800.000 kr.

Frá þessu er greint á vef Facebooksíðu Kalda og Dalvíkurbyggðar.

Mynd: Facebooksíða Kalda.

Leikskólinn Árholt tekinn til starfa á Akureyri

Leikskólinn Árholt er tekinn til starfa á Akureyri eftir um sextán ára hlé. Miklar breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu og er aðstaðan öll hin glæsilegasta. Níu börn mættu til leiks og aðlögunar ásamt foreldrum sínum í vikunni. Fyrsta árið er gert ráð fyrir 12 til 14 börnum, niður í 17 mánaða gömul, en í framhaldinu er stefnt að tveimur deildum fyrir 24 börn. Árholt, sem er staðsett við hlið Glerárskóla, er í raun starfrækt og rekið sem deild við leikskólann Tröllaborgir og er skólastjórinn Jakobína Elín Áskelsdóttir.

Löng og rík hefð fyrir skólahaldi

Í Árholti var um árabil starfræktur leikskóli en honum var lokað 2003. Fyrr á þessu ári var ákveðið að ráðast í endurbætur á húsnæðinu með það fyrir augum að taka við yngsta aldursári leikskólabarna. Er þetta liður í áætlun yfirvalda um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Saga skólahalds í húsnæðinu nær aftur til ársins 1937. Glerárskóli var starfræktur í húsnæðinu til ársins 1972. Leikskólahald hófst árið 1974 í tvískiptum skóla sem rúmaði allt að 45 börn í einu. Leikskóli var rekinn í Árholti til ársins 2003 en þá var reksturinn færður í nýjan leikskóla í Naustahverfi.

Eftir að skólahaldi lauk í Árholti var húsnæðið notað sem skólavistun og frístund fyrir grunnskólabörn með fötlun og síðar skammtímavistun. Nú síðast var Akureyrarakademían með aðsetur þar.

Góð aðstaða fyrir nemendur og starfsfólk

Í sumar hafa verið gerðar endurbætur á húsinu svo það henti börnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í leikskóla. Starfsmannaaðstaða hefur verið útbúin, samtalsherbergi, eldhús og fleira, auk þess sem unnið er í að klára útisvæðið.

Heimild: akureyri.is

Forstofan í Ãrholti

Ljósmynd: Akureyri.is

Húsnæði fundið fyrir félagsmiðstöðina Neon í Fjallabyggð

Fjallabyggð hefur fundið leiguhúsnæði fyrir Félagsmiðstöðina Neon fyrir næsta skólaár.  Húsnæðið við Lækjargötu 8 á Siglufirði sem er nú í eigu Siglunes Gesthouse hentar vel undir starfsemina, sem hefur áður verið í húsnæðinu. Drög að samningi milli Sigluness og Fjallabyggðar liggja nú fyrir og hefur bæjarstjóra verið falið að undrita samninginn.

Atvinna á Hornbrekku í Ólafsfirði

Hjúkrunar- og dvalarheimilið Hornbrekka í Ólafsfirði óskar eftir að ráða iðjuþjálfa í 80% stöðu frá 1. nóvember 2019. Umsóknarfrestur er til 10. október 2019.

Hornbrekka óskar einnig eftir að ráða hjúkrunarfræðing í 60% starf frá 1. október 2019, starfið er tímabundið en möguleiki er á langtímaráðningu. Umsóknarfrestur er til 20. september  2019.

Nánari upplýsingar veitir Birna Sigurveig Björnsdóttir forstöðumaður og hjúkrunarforstjóri í síma 466-4066 / 6635299 eða í gegnum birna@hornbrekka.is.

Bandarískur ferðamaður lést í köfunarslysi í Eyjafirði

Maðurinn sem lést í köfunarslysi í Eyjafirði í gær var bandarískur ferðamaður á 64. aldursári. Var hann í hópi ferðamanna sem voru að stunda kafanir á Íslandi. Þegar slysið átti sér stað í gær var verið að ljúka köfun að hverastrýtunum sem eru staðsettar í Eyjafirði. Maðurinn var vanur kafari og stendur rannsókn á tildrögum slyssins yfir.  Hinn látni skilur eftir sig eiginkonu. Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi fyrst frá þessu í dag.

MTR þátttakandi í nýju samstarfsverkefni

Þú hefur líka rödd“ er titill samstarfsverkefnis sem hófst núna um mánaðamótin í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þátttakendur eru frá Grikklandi, Lettlandi og Tékklandi auk Íslands. Markmið verkefnisins er að þjálfa nemendur í virkri þátttöku og kenna þeim að axla ábyrgð í lýðræðisþjóðfélagi. Verkefnið er í fjórum hlutum og verður unnið á tveimur árum. Í fyrsta hluta verður fjallað um borgaralega ábyrgð, starf sjálfboðaliða og kosningar. Í öðrum hluta verður fjallað um jafnrétti í fjölmenningarlegu samfélagi. Tjáningarfrelsi er þemað í þriðja hluta. Þar lesa nemendur bækur sem hafa verið bannaðar og kynnast falsfréttum, áróðri og spuna í fjölmiðlum. Í síðasta hlutanum verður svo fjallað um lýðræðismenningu, mótmælaaðgerðir og borgaralega óhlýðni. Frá þessu er greint á vef mtr.is.

Lára Stefánsdóttir, skólameistari MTR og Ida Semey verkefnisstjóri erlendra samstarfsverkefna sátu í dag fund í Reykjavík þar sem þar sem afhentir voru samningar um verkefni til þeirra skóla sem hlutu Erasums+ styrki ásamt fræðslu til styrkhafa um vinnu við verkefnið.

Verkefnisstyrkurinn nemur í heild um átján milljónum króna en þar af verður um fimm milljónum varið til að kosta þátttöku MTR. Sérstakir umsjónarmenn skólans með verkefninu verða Karólína Baldvinsdóttir og Sigríður Ásta Hauksdóttir.

Heimild: mtr.is.

Jón Svanur og Ida mynd LS

40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Laugardaginn 21. september n.k. mun Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra halda upp á 40 ára afmæli skólans. Af því tilefni eru allir velunnarar skólans boðnir velkomnir til afmælisdagskrár sem hefst á sal Bóknámshúss skólans kl. 13:00. Að lokinni dagskrá verður boðið upp á opið hús í öllu húsnæði skólans kl. 14:00-15:30.

Fyrrum starfsmenn skólans eru boðnir velkomnir til borðhalds í Frímúrarahúsinu á Sauðárkróki sem hefst kl. 19:00. Þeir sem hyggjast taka þátt í borðhaldinu eru beðnir um að senda skilaboð þess efnis á netfangið fnv@fnv.is merkt „Afmæli FNV“ fyrir 15. september næstkomandi.

Segull 67 hlaut Bláskelina

Brugghúsið Segull 67 á Siglufirði hlaut nýverið Bláskelina, nýja viðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi plastlausa lausn. Umhverfisráðherra veitti viðurkenninguna um leið og hann setti átaksverkefnið Plastlausan september í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Niðurstaða dómnefndar er að sú lausn Seguls 67 að nýta bjórkippuhringi úr lífrænum efnum í stað plasts sé framúrskarandi. Í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að hún hefði lagt áherslu á að lausnin hefði möguleika á að komast í almenna notkun og að nýnæmi lausnarinnar hér á landi hefði vegið þungt. Ef fleiri framleiðendur myndu nota lífræna kippuhringi í stað plasts myndi það ekki einungis skila sér í minni plastnotkun og -mengun heldur einnig auka meðvitund í samfélaginu um óþarfa plastnotkun. Á síðasta ári voru 15 milljónir lítra af bjór í áldósum seldir hérlendis og 75% þeirra eru íslensk framleiðsla.

Fimm aðilar komust í úrslitahóp dómnefndar auk Seguls 67, en það voru Bioborgarar, Efnalaugin Björg, Farfuglar á Íslandi og Kaja Organics. Bioborgarar er lífrænn hamborgarastaður sem m.a. framreiðir matinn í margnota búnaði á staðnum og í pappaumbúðum fyrir þau sem taka hann með, Efnalaugin Björg býður upp á fjölnota fatapoka, Farfuglar á Íslandi hafa dregið verulega úr plastúrgangi og tekið út einnota plast í rekstri farfuglaheimila sinna og Kaja Organics rekur meðal annars umbúðalausa verslun, lífrænt kaffihús, heildsölu og framleiðslu vottaða af Tún lífrænni vottun.

Kallað var í sumarbyrjun eftir tilnefningum frá almenningi um fyrirtæki, stofnanir, einstaklinga eða aðra sem hafa nýtt framúrskarandi lausnir við að stuðla að minni plastnotkun og minni plastúrgangi í samfélaginu. Fjögurra manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Plastlausum september fór yfir tilnefningarnar og valdi verðlaunahafa.

Stofnað var til Bláskeljarinnar í því skyni að hvetja til plastlausra lausna í íslensku samfélagi og er viðurkenningin liður í aðgerðum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til að draga úr plastmengun.

Heimild: https://www.ust.is

Mynd: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon

 

Köfunarslys úti á Eyjafirði

Í dag um klukkan 14:00 var tilkynnt um slys úti á Eyjafirði, á móts við Hjalteyri og komu upplýsingar um að verið væri að flytja slasaðan einstakling í land eftir köfunarslys. Lögregla og slökkvilið voru strax boðuð út og einnig björgunarsveitir af svæðinu. Varðskipið Týr var einnig skammt frá er slysið varð og fór það einnig til aðstoðar.

Einn maður var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri en hann var síðan úrskurðaður látinn. Lögregla, björgunarsveitir og landhelgisgæslan eru ennþá við vinnu á vettvangi og úti á Eyjafirði. Sú vinna er meðal annars endurheimt á búnaði sem maðurinn var með. Áfallateymi Rauða Krossins var kallað út til aðstoðar fyrir samferðafólk mannsins. Ekki eru veittar frekari upplýsingar að svo stöddu en rannsókn málsins er á frumstigi.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi fyrst frá þessu.

Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Úrslit í Opna kvennamóti GFB & Nivea

Opna kvennamót GFB & Nivea fór fram laugardaginn 31. ágúst á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Alls voru 24 kylfingar mættir til leiks.
Fyrirkomulagið var punktakeppni með forgjöf. Veitt voru verðlaun fyrir lægsta skor og lengsta teighögg.

Úrslit:

Í kvennaflokki forgjöf 0-22
1.sæti Rósa Jónsdóttir GFB 34 punktar
2.sæti Brynja Sigurðardóttir GFB 32 punktar
3.sæti Dagný Finnsdóttir GFB 31 punktar

Í kvennaflokki forgjöf 22,1 og hærri 
1.sæti Gígja Kristín Kristbjörnsdóttir GFB 29 punktar
2.sæti Hrefna Magnúsdóttir GA 28 punktar
3.sæti Guðrún Katrín Konráðsdóttir GHD 27 punktar

Einnig var veitt verðlaun fyrir lægsta skor og það hlaut Brynja Sigurðardóttir GFB sem lék á 79 höggum.

Lengsta teighögg á sjöttu holu áttu Sara Sigurbjörnsdóttir GFB og Hrefna Magnúsdóttir GA.

Mynd frá Golfklúbbur Fjallabyggðar.

Mynd frá Golfklúbbur Fjallabyggðar.

Dalvíkingar sæmdir gullmerki KSÍ

Laugardaginn 31. ágúst síðastliðinn var merkilegur dagur í íþróttasögu í Dalvíkurbyggð þegar nýr gervigrasvöllur var formlega vígður við hátíðlega athöfn.  Fjöldi fólks var viðstaddur vígsluna og dagskráin var fjölbreytt.  Knattspyrnuleikur yngri iðkenda Dalvíkur/Reynis gegn foreldrum ogforráðamönnum, hamborgaragrill, heimaleikur Dalvíkur/Reynis gegn Vestra, hátíðarkaffi í hálfleik og svo voru bræðurnir Björgvin og Gunnlaugur Gunnlaugssynir sæmdir gullmerki KSÍ, en þeir eru afar vel að þeim heiðri komnir.  Þeir bræður hafa m.a. afrekað það að taka virkan þátt sem sjálfboðaliðar í uppbyggingu á fimm knattspyrnuvöllum í Dalvíkurbyggð í gegnum árin.  Guðni Bergsson formaður KSÍ var mættur á svæðið til að afhenda gullmerkin til bræðranna.

Björn Friðþjófsson var síðan sæmdur gullmerki UMSE fyrir starf sitt í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála.

Heimild: dalvik.is / dalviksport.is

Myndir: dalviksport.is/ Haukur Snorrason
Myndir: dalviksport.is/ Haukur Snorrason

Myndir frá Akureyrarvöku

Akureyrarvöku á 157. ára afmæli Akureyrarbæjar lauk á miðnætti í gærkvöld, 31. ágúst, með miðnætursiglingu eikarbátsins Húna II um Pollinn eftir magnaða stórtónleika í Listagilinu þar sem einvala lið tónlistarmanna steig á stokk. Allar veðurspár brugðust góðu heilli og var veður stillt og sólríkt fyrr um daginn en stjörnubjart þegar leið á kvöldið. Vel var mætt á tónleikana í gærkvöld og allt fór vel fram.

Ljósasýning Almars Freys, Tálsýnar, á byggingum beggja vegna sviðsins í Listagilinu og seinna sjálfri Akureyrarkirkju glöddu augu viðstaddra á meðan Bríet, Eik Haralds, Eyþór Ingi, Friðrik Dór og Helgi Björns sungu sín vinsælustu lög við undirleik hljómsveitarinnar Vaðlaheiðarinnar.

Dagskráin hófst kl. 10:00 á föstudagsmorgun og hefur hver viðburðurinn rekið annan. Sjá nánar á www.akureyrarvaka.is.

Myndir með frétt tóku Helga Gunnlaugsdóttir og Lilja Guðmundsdóttir, birtar með leyfi Akureyrarstofu.

Dalvík/Reynir tapaði fyrir toppliðinu

Dalvík/Reynir og Vestri mættust á Dalvíkurvelli í gær í 2. deild karla í knattspyrnu. Um var að ræða leik í 19. umferð Íslandsmótsins. Vestri var í efsta sætinu fyrir leikinn og Dalvík/Reynir í 6. sæti. Liðin voru búin að skora jafn mörg mörk fyrir þennan leik og bæði lið höfðu tapað 6 leikjum, Vestri voru þó búnir að fá á sig aðeins 21 mark í deildinni og vinna 12 leiki af 18.

Leikurinn byrjaði fjörlega og Pétur Bjarnason skoraði fyrir Vestra strax á 7. mínútu. Viktor Daði svaraði fyrir D/R á 21. mínútu og jafnaði leikinn í 1-1, og þannig var staðan í hálfleik.

Aftur skoraði Pétur Bjarnason fyrir Vestra eftir 7 mínútur í síðari hálfleiks og kom gestunum í 1-2. D/R gerðu hvað þeir gátu til þess að jafna leikinn og kom Pálmi Heiðmann og Númi Kárason inná fyrir Jiminez og Gunnlaug. Undir lok leiksins gerði þjálfari D/R aðra skiptingu þegar Rúnar Helgi og Ottó Björn komu inná fyrir Steinar Loga og Viktor Daða. Á 86. mínútu fékk Atli Fannar rautt spjald og léku heimamenn því einum færri síðustu mínútur leiksins.

Vestri sigraði leikinn 1-2 og eru áfram efstir í deildinni og D/R er í 6. sætinu og er nú þremur stigum frá Þrótti Vogum sem eru í 5. sætinu og með einu stigi meira með ÍR sem er í 7. sæti.

D/R á núna þrjá leiki eftir í deildinni og er næsti leikur gegn Fjarðabyggð á útivelli, svo gegn ÍR á Dalvíkurvelli og í lokaumferðinni gegn Víði í Garði.

Fjallabyggð afhenti lóð undir púttvöll eldri borgara

Fyrsta skólfustungan að púttvelli Félags eldri borgara á Siglufirði var gerð 28. ágúst síðastliðinn. Málið hefur tekið nokkur ár að koma í gegnum stjórnsýslukerfið hjá Fjallabyggð en er nú loksins komið að tímamótum í málinu. Félag eldri borgara á Siglufirði óskaði fyrst eftir aðstöðu fyrir púttvöll á Siglufirði árið 2016 en var þeirri beiðni hafnað hjá Fjallabyggð, voru eldri borgarar þá hvattir til að nýta sér þá aðstöðu sem var þegar fyrir í Fjallabyggð.

Málið var aftur tekið fyrir hjá Fjallabyggð árið 2017 og nú komu jákvæð svör og vildi Fjallabyggð útvega lóðina á Hvanneyrarbraut til móts við hús 30-36 og að runnar yrðu gróðursettir til að auka skjól á svæðinu. Málið endaði hjá skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar sem samþykkti umsóknina um lóðina með þremur atkvæðum gegn tveimur, með þeim fyrirvara að skoðað yrði að staðsetning á púttvellinum miðaðist við að hægt yrði að nýta byggingarlóðir við Hlíðarveg og Hvanneyrarbraut austan og vestanmegin við púttvöllinn.

Í lok árs 2017 ákvað Félag eldri borga á Siglufirði að afþakka þessa lóð við Hvanneyrarbraut. Aftur sótti Félag eldri borgara á Siglufirði um lóð hjá Fjallabyggð árið 2018 og var sú umsókn samþykkt hjá Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar með með þremur atkvæðum (Konráð K. Baldvinsson og Ingibjörg G. Jónsdóttir og Helgi Jóhannsson) gegn tveimur (Brynja Hafsteinsdóttir og Hjördís H. Hjörleifsdóttir). Enn var fyrirvari að byggingalóðir í kring myndu nýtast.

Félag eldri borga á Siglufirði fékk úthlutaðan styrk frá Samfélags- og menningarsjóði Siglufjarðar að upphæð 2.340.000 árið 2017 og var framlengdur til ársins 2019 þar sem tafir urðu á málinu.

Eins og áður sagði þá hefur Félag eldri borgara á Siglufirði fengið úthlutaða lóð við Hvanneyrarbrautina undir púttvöll sem á eftir að nýtast vel í þeirra starfi.

Vefurinn greindi fyrst frá þessu málið árið 2017.

KF tapaði toppslagnum á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Aðalbakarís og Arion banka

Aðalbakarí Siglufirði og Arion banki í Fjallabyggð styðja við umfjöllun um leiki KF í sumar. Aðalbakarí er aðalstyrktaraðili og Arion banki er styrktaraðili allra frétta um KF í sumar.

KF mætti Kórdrengjum á Ólafsfjarðarvelli í dag þar sem mikið var undir og gat sigurvegarinn tryggt sér sæti í 2. deildinni að ári. Leikurinn var í 19. umferð á Íslandsmótinu en leiknar verða 22. umferðir. Kórdrengir voru taplausir á útivelli í deildinni og KF aðeins eina liðið sem hafði unnið þá í deildinni fram að þessum leik.

KF var með sitt sterkasta lið fyrir utan að Ljubomir Delic var frá vegna meiðsla og Jordan var kominn aftur eftir leikbann. Þjálfari KF gerði þrjár breytingar frá síðasta leik en Jordan kom inn í byrjunarliðið en Óliver fór á bekkinn, Aksentije Milisic var kominn í byrjunarliðið en Vitor fór á bekkinn og þá var Tómas Veigar kominn í byrjunarliðið og Stefán Bjarki fór á bekkinn.

Gestirnir byrjuðu leikinn vel og komust yfir á upphafsmínútum leiksins eftir að Halldór markmaður náði ekki fyrirgjöf og skoraði Alexander Magnússon úr þröngu færi.  Kórdrengir skoruðu aftur þegar rúmar 30 mínútur voru liðnar af leiknum og var það fyrirliðinn Einar Einarsson sem skoraði, en hann hefur átt mjög gott tímabil fyrir liðið og skorað 8 mörk í deildinni.

KF kom til baka og markahrókurinn Alexandar Már skoraði gott mark skömmu fyrir leikhlé eftir góða sendingu frá Jakobi Sindrasyni og minnkaði muninn í 1-2.

Bæði lið fengu færi í síðari hálfleik og var talsverð harka og pirringur í leikmönnum. Þegar síðari hálfleikur var tæplega hálfnaður þá gerði þjálfari KF tvöfalda skiptingu og sendi Vitor og Óliver inná fyrir Stefán Bjarka og Jakob. KF lagði allt í sölurnar að jafna leikinn og nokkrum mínútum fyrir leikslok kom önnur tvöföld skipting þegar Þorsteinn Már og Tómas Veigar komu inná fyrir Jordan og Aksentije. KF vildi svo fá víti í uppbótartíma þegar Grétar Áki féll niður í teignum, en dómarinn dæmdi ekkert.  Í blálokin fékk KF tvær hornspyrnur og fór Halldór markvörður fram til að freista þess að skora og jafna leikinn.

Gestirnir héldu út þrátt fyrir ágætis pressu frá KF, en lokatölur urðu 1-2 og hafa Kórdrengir tryggt sér sæti í 2. deildinni og hafa nú 4 stiga forskot á KF sem eru í 2. sæti. KF hefur 6 stiga forskot á KV þegar þrír leikir eru eftir og 9 stig í pottinum.

Mynd frá Guðný Ãgústsdóttir.

Mynd frá Guðný Ãgústsdóttir.

Stórfundur fyrir íbúa Norðurlands vestra í Miðgarði

Þriðjudaginn 3. september næstkomandi kl. 13-17 fer fram stórfundur fyrir íbúa Norðurlands vestra í Menningarhúsinu Miðgarði. Þar verður haldið áfram að vinna að mótun framtíðarsýnar Norðurlands vestra í tengslum við gerð sóknaráætlunar áranna 2020-2024. Á sama tíma er unnið að sviðsmyndagreiningu fyrir atvinnulífið til ársins 2040.

Íbúar Norðurlands vestra eru hvattir til að mæta og koma sínum hugmyndum á framfæri. Yfirgripsmesta þekkingin á landshlutanum býr hjá íbúunum og því er afar mikilvægt að sem flestir taki þátt í vinnunni.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn. Skráning fer fram hér https://bit.ly/2MBy8D0

Sóknaráætlanir eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum.

Slökkviliðsæfing í Ólafsfirði

Slökkviliðið í Ólafsfirði hélt æfingu í morgun á gamla flugvellinum í Ólafsfirði þar sem ónýtar vinnubúðir sem notaðar voru í Héðinsfjarðargöngum voru bornar eldi. Reykkafarar fóru inn í húsið áður en kveikt var í en búið var að blinda grímurnar hjá þeim til að gera æfinguna raunverulegri. Húsnæðið var ónýtt og ónothæft áður en kveikt var í en slökkviliðið slökkti svo í glóðunum.

Slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar er Ámundi Gunnarsson og hefur hann aðsetur á Siglufirði.  Varaslökkviliðstjóri Fjallabyggðar er Þormóður Sigurðsson og hefur hann aðsetur í Ólafsfirði.

Ljósmyndir með fréttinni tók Jón Valgeir Baldursson.

Ljósmyndir: Jón Valgeir Baldursson
Ljósmyndir: Jón Valgeir Baldursson
Ljósmyndir: Jón Valgeir Baldursson

Ljósmyndir: Jón Valgeir Baldursson

Toppslagur á Ólafsfjarðarvelli

Toppliðin í 3. deild karla í knattspyrnu mætast á Ólafsfjarðarvelli í dag kl. 16:00. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar tekur á móti Kórdrengjum sem eru í efsta sæti fyrir þennan leik með eins stigs forystu á KF. Bæði liðin hafa átt mjög gott tímabil og eru við það að tryggja sér sæti í 2. deildinni að ári. Fyrri leikur liðanna fór fram á Framvellinum í júní í sumar og var það mjög köflóttur leikur sem KF vann 1-2. Kórdrengir sköpuðu sér mikið að færum í þeim leik en Halldór markmaður KF átti frábæran leik og hélt þeim algerlega á lífi.  Það má því búast við jöfnum og spennandi leik í dag og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna á leikinn.

Upphitun fyrir leikinn hefst kl. 13:00 á Brimnes hótel fyrir stuðningsmenn KF og verða grillaðir hamborgarar og boðið upp á andlitsmálun.

KF getur með sigri komist í efsta sæti deildarinnar en jafntefli gæti einnig komið þeim á toppinn þar sem markatalan er betri hjá KF. Kórdrengir geta með sigri náð 4 stiga forystu í deildinni og gæti verið erfitt fyrir KF að vinna það upp í síðustu umferðunum. Liðin hafa mjög sambærilegan árangur í sumar, hafa unnið 14 leiki af 18 og hafa fengið á sig lítið af mörkum. Mikið þarf að gerst ef þessi tvö lið verða ekki í 2. deildinni á næsta ári þegar aðeins fjórir umferðir eru eftir af mótinu.

Kórdrengir eru taplausir á útivelli í sumar, hafa unnið 7 leiki og gert 2 jafntefli. KF hefur hinsvegar aðeins tapað einum heimaleik í sumar, unnið 7 leiki og gert eitt jafntefli.

Nánar verður greint frá leiknum hér á vefnum þegar úrslit liggja fyrir.

Kórdrengir-KF
Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon
Kórdrengir-KF
Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Sunddagurinn mikli í Dalvíkurbyggð

Í dag, laugardaginn 31. ágúst verður Sunddagurinn mikli haldinn í Dalvíkurbyggð.  Í tilefni dagsins verður frítt í sund í Íþróttamiðstöð Dalvíkurbyggðar og opið er í lauginni á milli kl. 9 – 17. Veittar verða viðurkenningar fyrir 200 m eða lengri sund milli kl. 10.00 – 14.00. Leiðbeiningar í sundi verða í lauginni milli 9.00 – 9.40.  Tekið verður á móti skráningum á sundæfingar hjá Sundfélaginu Rán fyrir haustið 2019.

Æfingar verða hjá Sundfélaginu Rán í vetur alla mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 17:00.

Sundlaugin á Dalvík
Ljósmynd: Héðinsfjörður.is /Magnús Rúnar Magnússon

Þrjú golfmót í Fjallabyggð um helgina

Kylfingar í Fjallabyggð verða á fullu þessa helgina, en alls verða þrjú golfmót í boði. Hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar verða tvö mót um helgina en í dag fer fram Kvennamót GFB & Nivea og á morgun fer fram Opna Ramma mótið. 25 konur eru skráðar í Kvennamótið í dag og 23 kylfingar á Opna Ramma mótið á morgun. Hjá Golfklúbbi Siglufjarðar fer fram Siglfirðingamótið í dag en mótinu var frestað fyrr í sumar vegna rigninga. Ræst verður út á öllum teigum kl. 10:00 á Sigló golf.

Miðvikudagsmótaröðinni hjá Golfklúbbi Fjallabyggðar lauk í vikunni en alls voru mótin 12 í sumar. Alls tóku 14 kylfingar þátt í þessu lokamóti en 5 bestu umferðirnar gilda til heildarsigurs í keppninni. Í lokamótinu í opnum flokki var mjög jafnt á toppnum en Fylkir Þór Guðmundsson var með 19 punkta í efsta sæti, Sara Sigurbjörnsdóttir með 18 punkta í 2. sæti og Rósa Jónsdóttir með 16 punkta í 3. sæti. Róbert Pálsson var eini keppandinn í áskorendaflokki í þessu lokamót og var hann með 23 punkta. 

Siglógolf á Siglufirði, fyrr í sumar.
Skeggjabrekkuvöllur í Ólafsfirði.

Akureyrarvaka hafin

Fáni Akureyrarvöku var dreginn að húni í Listagilinu á Akureyri kl. 10:00 í morgun en bæjarhátíðin Akureyrarvaka verður formlega sett kl. 20:00 í kvöld í Lystigarðinum. Þar verður þá haldin svokölluð Rökkurró með alls kyns uppákomum um allan garð fram eftir kvöldi. Af öðrum viðburðum kvöldsins má nefna Fjölskyldufjör í Íþróttahöllinni þar sem Húlladúllan bregður á leik með gestum og gangandi, allir velkomnir, og klukkan 22.30 halda Högni Egilsson og Sinfonia Nord Kvartett stutta stofutónleika í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi.

Dagskrá laugardagsins er þéttskipuð frá kl. 10:00 að morgni og fram yfir miðnætti. Á stórtónleikum í Listagilinu annað kvöld koma fram Bríet, Eik Haralds, Eyþór Ingi, Friðrik Dór og Helgi Björns. Hljómsveitin Vaðlaheiðin sér um undirleik. Meðan á tónleikunum stendur verða nærliggjandi byggingar skreyttar með litríkum vídeóverkum og kveikt verður á kertaflóði í kirkjutröppunum á Friðarvöku bæjarbúa sem hefur síðustu sjö árin leyst loftmengandi flugeldasýningu af hólmi. Sjáumst á Akureyrarvöku!

Dagskráin er á www.akureyrarvaka.is.

Heitur skyndibiti hjá Videoval á Siglufirði

Videoval á Siglufirði er gamalt og gróið fyrirtæki sem hefur haft nokkra eigendur í gegnum tíðina. Fyrirtækið hefur verið í nokkrum húsnæðum á Siglufirði en er í dag við Túngötu 11. Videoval var lengi vel talin vera með síðustu videóleigum landsins en í vor flutti fyrirtækið í nýtt húsi við Túngötuna og var DVD leigan ekki sett upp þar eins og var á Suðurgötunni og er óákveðið hvað verður um myndirnar að sögn eigenda staðarins.

Ritstjóri vefisins leit við í sumar og var staðurinn nýbyrjaður að bjóða upp á heitan skyndibita sem þeir kalla Subs sem er grilluð loka líkt og Subway hefur boðið upp á í mörg ár. Hægt er að velja á milli Nauta- kjúklinga- eða pepperónisub, og einnig er val um sósur með, sinnepssósu, hvítlaukssósu eða Bernaisesósu.  Óhætt er að mæla með þessari nýjung hjá Videoval á Siglufirði.

Videoval selur einnig hrikalega góðan Emmess ís sem er klárlega besti ísinn á Siglufirði, en það voru ófáar heimsóknirnar í ísinn í sumar hjá ritstjóra vefsins.  Videoval selur einnig fjölbreytt sælgæti og er nammibarinn þar mjög vinsæll.

Gróska í helgarnámi Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra

Mikil gróska er í helgarnámi fyrir iðnaðarmenn við Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra. Þrír hópar stunda nú nám í húsasmíði og á þessari önn bættist við hópur nemenda í rafvirkjun.
Mikil eftirspurn var eftir námi í rafvirkjun og komust ekki allir að sem vildu. Til þess að komast í helgarnámið þurfa nemendur að hafa náð 23ja ára aldri. Þeir mæta um sex helgar á önn og leggja stund á heimanám þess á milli.
Óhætt er að segja að þessi valkostur hafi hitt í mark og mælist vel fyrir hjá fullorðnum einstaklingum sem kjósa að stunda nám með vinnu.

Mynd: fnv.is

Íslensku konurnar og orgelið í Ólafsfjarðarkirkju

Sunnudaginn 1. september kl. 17.00 leikur Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, organisti í Akureyrarkirkju, á orgel Ólafsfjarðarkirkju og bera tónleikarnir heitið Íslensku konurnar og orgelið.

Eins og nafnið gefur til kynna er eingöngu tónlist íslenskra kvenna á efnisskránni. Konur hafa hingað til ekki fengið mikla athygli sem orgeltónskáld en efnisskráin spannar samt tónlist í ýmsum stílum, stór verk og lítil, hugljúf og ljóðræn, gáskafull og dansandi.

Tónleikarnir eru tæplega klukkustundar langir og aðgangur er ókeypis.

 

Um Sigrúnu:

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn.

Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Hún heldur reglulega tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna.

Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri.

Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager.

H&M opnar á Akureyri næsta haust

H&M og Eik fasteignafélag hf. kynna með gleði opnun H&M verslunar á Glerártorgi, Akureyri. Þetta er fjórða verslunin sem sænska verslunarkeðjan opnar hér á landi.

„H&M versl­un­in á Gler­ár­torgi verður um 1.300 fer­metr­ar að stærð, full af tísku og gæðum á hag­kvæm­asta verðinu, fram­leitt með sjálf­bær­um hætti. H&M versl­un­in á Gler­ár­torgi mun bjóða upp á breitt úr­val af nýj­ustu stíl­um ásamt klass­ískri tísku. Í versl­un­inni verður fá­an­leg­ur dömu- og herrafatnaður ásamt barnafatnaði og snyrti­vör­um. Áætluð opn­un er haustið 2020,“ seg­ir í frétta­til­kynn­ingu.

„Við erum ótrú­lega spennt að færa út kví­arn­ar og opna versl­un fyr­ir utan höfuðborg­ar­svæðið og geta þannig boðið viðskipta­vin­um okk­ar á Norður­landi tísku og gæði á hag­kvæm­asta verðinu, fram­leitt á sjálf­bær­an máta. Við erum virki­lega ánægð með veru okk­ar á land­inu og verður H&M á Gler­ár­torgi frá­bær viðbót við versl­an­ir okk­ar á Íslandi,“ seg­ir Dirk Roen­nefa­hrt, fram­kvæmda­stjóri H&M á Íslandi og í Nor­egi.

„Samn­ing­ur­inn við H&M er í sam­ræmi við stefnu Eik­ar fast­eigna­fé­lags um að styrkja Gler­ár­torg. Vin­sæl versl­un á við H&M mun laða að sér enn stærri hóp af gest­um, sem mun einnig hafa já­kvæð áhrif á aðrar versl­an­ir á Gler­ár­torgi. Við erum afar stolt af því að geta boðið íbú­um á Norðaust­ur­landi upp á H&M versl­un. Sterk­ara Gler­ár­torg mun einnig styðja við Ak­ur­eyri sem miðstöð versl­un­ar- og þjón­ustu á norðaust­ur­hluta lands­ins,“ seg­ir Garðar Hann­es Friðjóns­son, for­stjóri Eik­ar fast­eigna­fé­lags hf.

H&M Hammersmith, London

Um 360 nemendur skráðir í MTR

Tíunda starfsár Menntaskólans á Tröllaskaga er hafið.  Skráðir nemendur eru um 360 á haustönn. Fjarnemar eru þar í miklum meirihluta, eða um 260.  Starfsmenn eru 25 og mjög litlar breytingar á starfsmannahópnum frá fyrra ári. Foreldrafundur verður haldinn miðvikudaginn 28 ágúst kl. 17:00. Þar verður kynning á kennslufyrirkomulagi og kosið til trúnaðarstarfa í foreldraráði MTR.

Nýnemadagur MTR verður haldinn fimmtudaginn 29. ágúst. Þar verður boðið upp á Sápubolta og sund, gestir koma frá grunnskólunum, Húlladúllan mætir á svæðið, Tölvuklúbburinn mætir með læti og grillveisla.

Mynd: Bjarni Grétar Magnússon/ Héðinsfjörður.is

 

80 ára vígsluafmæli sundlaugarinnar í Varmahlíð

Fimmtudaginn 29. ágúst kl. 14:00-15:30 verður haldið upp á 80 ára vígsluafmæli sundlaugarinnar í Varmahlíð. Nemendur Varmahlíðarskóla eru þátttakendur í afmælishátíðinni og hafa síðustu daga komið að undirbúningi. Boðið verður upp á skemmtun fyrir augu og eyru. Einnig verða kaffiveitingar. Í framhaldi af afmælinu verður keppt í Grettissundi (500 metra sund með frjálsri aðferð), opið öllum Skagfirðingum búsettum í Skagafirði. Sundið er fyrir fólk á öllum aldri, synt verður í kvenna- og karlaflokki.

Dagskráin hefst kl. 14:00 með skrúðgöngu frá Varmahlíðarskóla, örstutt ræðuhöld, saga sundlaugarinnar, söngur og dans. Áætlað að Grettissund hefjist kl. 15:30.