Category Archives: Norðurland

Fjallabyggð býður íbúum á ókeypis dansnámskeið

Stýrihópur um Heilsueflandi samfélag í Fjallabyggð hefur hug á að bjóða íbúum upp á opið dansnámskeið sem haldið verður í Menningarhúsinu Tjarnarborg. Námskeiðið verður haldið í sex skipti á sunnudagskvöldum kl. 20.00, og verður í klukkustund í senn.  Áætlað er að fyrsta námskeiðið hefjist sunnudaginn 3. febrúar nk.
Danskennari er Ingunn Hallgrímsdóttir og er þátttaka án endurgjalds.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Kirkjurnar á Akureyri fá hjartastuðtæki

Annað árið í röð sáu Slysavarnadeildin á Akureyri og kvenfélag Akureyrarkirkju um sölu á friðarkertum á Akureyrarvöku síðastliðið sumar og keyptu tvö hjartastuðtæki fyrir ágóðann. Tækin voru að þessu sinni gefin Akureyrarkirkju og Glerárkirkju en í fyrra voru tæki gefin til notkunar í Íþróttahöllinni á Akureyri og í Glerárlaug.

Hjartastuðtækin eru mikilvæg öryggistæki sem hægt er að grípa til á neyðarstundu en auðvitað óskar þess enginn að þeirra verði nokkru sinni þörf.

Séra Svavar Alfreð Jónsson sóknarprestur í Akureyrarkirkju veitti gjöfinni móttöku.

Heimild: akureyri.is

Bretar fyrstu gestir Ljóðasetursins í ár

Forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði hefur greint frá því að fyrstu gestir setursins í ár væru Bretar á vegum ferðaskrifstofunnar Super Break, en þeir komu með beinu flugi frá Bretlandi til Akureyrar. Ferðaskrifstofa Akureyrar býður uppá ferðir til Siglufjarðar fyrir þessa ferðamenn í samstarfi við Super Break ferðaskrifstofuna og munu þeir gista á Sigló Hótel.  Á næstu vikum munu ellefu hópar af breskum ferðamönnum heimsækja Ljóðasetrið á Siglufirði og eflaust fleiri söfn í Fjallabyggð.

 

Útgáfuhóf í tilefni af 100 ára afmæli Kristmundar Bjarnasonar

Í dag 10. janúar eru 100 ár liðin frá fæðingu Kristmundar Bjarnasonar rithöfundar og fræðimanns á Sjávarborg en hann dvelur nú á dvalarheimilinu á Sauðárkróki. Kristmundur er heiðursfélagi Sögufélags Skagfirðinga og í tilefni þessara tímamóta gefur félagið úr bernskuminningar hans frá Mælifelli, þar sem hann ólst upp.

Bókin ber heitið Í barnsminni og ritaði Kristmundur hana á árunum 2005-2006, nærri 240 blaðsíður, prýdda fjölda mynda ásamt nafnaskrá. Kristmundur á langan og góðan feril að baki sem rithöfundur og fræðimaður og í tilkynningu Sögufélagsins segir að hann sé óskoraður meistari í meðferð íslensk máls og texta enda óhætt að fullyrða að þessi bók er bráðskemmtileg aflestrar.

Laugardaginn 12. janúar verður bókarkynning og útgáfuhóf í Safnahúsinu á Sauðárkróki kl 16 sem Sólborg Una Pálsdóttir héraðsskjalavörður stýrir. Þar mun Hjalti Pálsson segja lítillega frá æviferli Kristmundar og kynnum sínum af honum og Unnar Ingvarsson segir frá kynnum sínum og samskiptum við Kristmund. Kristján B. Jónasson talar um bókmennta- og fræðistörf Kristmundar og Sölvi Sveinsson kynnir bókina og les upp úr henni.

Boðið verður upp á veitingar og bókin seld á tilboðsverði og eru allir velkomnir.

Heimild: Skagafjordur.is

Aukinn systkinaafsláttur í Fjallabyggð

Fjallabyggð hefur nú aukið afslátt fyrir foreldra með börn í leik- og grunnskóla og í lengdri viðveru, ekki er þó veittur afsláttur af fæðisgjaldi.  Systkinaafsláttur er veittur að því tilskildu að börn og forráðamenn eigi öll lögheimili í Fjallabyggð.  Einstæðir foreldrar fá 30% afslátt af leikskólagjaldi fyrsta barns. Í fyrsta sinn er nú tengdur afsláttur á milli leikskóla og lengdrar viðveru.  Yngsta barn greiðir fullt gjald.

Systkinaafsláttur er sem segir:

  • 50 % afsláttur vegna 2. barns
  • 75 % afsláttur vegna 3. barns
  • 100 % afláttur vegna 4. barns og þar umfram
  • Ekki er veittur afsláttur af fæðisgjaldi

 

Segja upp samningi um sjúkraflutninga í Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur sagt upp samningi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands um sjúkraflutninga á svæði stofnunarinnar, með árs fyrirvara.
Byggðarráð Skagafjarðar hefur staðfest uppsögn á framangreindum samningum og áréttar að sveitarfélagið er reiðbúið til viðræðna um gerð nýs samnings þar sem forsendur um verulega aukinn fjölda sjúkraflutninga er hafður til hliðsjónar.

Frítt fyrir 67 ára og eldri í sund og líkamsrækt í Fjallabyggð

Nú geta íbúar Fjallabyggðar sem eru 67 ára og eldri nýtt sér aðstöðu í líkamsræktarstöðvum og farið í sund í Fjallabyggð án endurgjalds.  Sama gildir um öryrkja búsetta í Fjallabyggð en þeir þurfa að framvísa örorkuskírteini eða staðfestingu á 75% örorku. Við fyrstu komu í íþróttamiðstöðina fá eldri borgarar útgefið kort sem þeir svo sýna við næstu komu í íþróttamiðstöðina.

Einsöngstónleikar í Menningarhúsinu Tjarnarborg

Einsöngstónleikar verða haldnir í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði, sunnudaginn 13. janúar kl. 20:00.

Maurice Rommers flytur ítölsk lög, Schubert og skandínavísk lög, þar á meðal Sibelius og íslensk lög við undirleik Tamir Chasson.

Kynnir er Jón Þorseinsson, sem býður til tónleikanna sem framlag sitt til Markaðsstofu Ólafsfjarðar.

Allir hjartanlega velkomnir.

Aðgangur ókeypis.

Kosning á íþróttamanni Dalvíkurbyggðar 2018

Íbúar Dalvíkurbyggðar sem eru 15 ára og eldri geta nú tekið þátt í kjöri á íþróttamanni ársins á vef Dalvíkurbyggðar. Hægt verður að kjósa um íþróttamann ársins til 14. janúar 2019.

Samanlögð kosning íbúa og fulltrúa í íþrótta- og æskulýðsráði mun svo ráða úrslitum um það hver verður kjörinn.

Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar verður lýst við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Bergi fimmtudaginn 17. janúar 2018 kl. 17:00.

Tilnefningar Íþróttagrein
Amanda Guðrún Bjarnadóttir  Golf
Andrea Björk Birkisdóttir Skíði
Ingvi Örn Friðriksson Kraftlyftingar
Snorri Eldjárn Hauksson Knattspyrna
Svavar Örn Hreiðarsson Hestar
Viktor Hugi Júlíusson Frjálsar

Menningar- og frístundastyrkir í Fjallabyggð

Fjallabyggð sendi út fyrir jól svarbréf til umsækjenda um menningar- eða frístundastyrki árið 2019. Aldrei hafa fleiri umsóknir borist Fjallabyggð og eru tilgreindar styrktarupphæðir hærri en áður. Fjöldi styrktarumsókna fyrir árið 2019 var 79 en fyrir árið 2018 bárust 63 umsóknir.

Úthlutaðir styrkir til menningarmála fyrir árið 2019 hækkuðu um 8,7%, úr 7.500.000 í 8.150.000, styrkir til frístundamála hækkuðu um 12,8% úr 5.596.750 í 6.314.000 og styrkir vegna ýmissa mála hækkuðu um 20,2%, úr 2.100.000 kr. í 2.525.000 kr. Þá veitir Fjallabyggð árlega aðra styrki s.s. í formi frístundaávísana, afnota af íþróttamiðstöðvum og til ÚÍF vegna barna- og unglingastarfs. Heildarupphæð þessara styrkja hækkaði um 23% eða úr 31.314.240 í 38.532.600. Samtals hefur Fjallabyggð aukið fjármagn til styrkja um 19% á milli ára.

Fjallabyggð gerir einnig samstarfssamninga um rekstur íþróttasvæða við Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Golfklúbb Fjallabyggðar og Skíðafélag Ólafsfjarðar. Auk þess að leggja til fjármagn vegna reksturs skíðasvæðisins í Skarðsdal. Samtals eru 46.839.926 kr. áætlaðar á fjárhagsárinu 2019 vegna áðurnefndra samstarfssamninga.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjallabyggð.

Íþróttamaður UMSE kosinn

Kjöri íþróttamanns UMSE verður lýst í Safnaðarheimili Dalvíkurkirkju miðvikudaginn 9. janúar næstkomandi. kl. 18:00.  Þar verða einnig veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur í íþróttum á árinu 2018.  Viðburðurinn er opinn öllum.

Tilnefndir eru:

Skíðamaður ársins – Andrea Björk Birkisdóttir

Borðtennismaður ársins – Ingvi Vaclav Alfreðsson

Hestaíþróttamaður ársins – Svavar Örn Hreiðarsson

Sundmaður ársins – Elín Björk Unnarsdóttir

Golfmaður ársins – Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Bandýmaður ársins – Jónas Hjartarson

Frisbýgolfari ársins – Mikael Máni Freysson

Knattspyrnumaður ársins – Snorri Eldjárn Hauksson

Frjálsíþróttamaður ársins – Guðmundur Smári Daníelsson

Badmintonmaður ársins – Ólafur Ingi Sigurðsson

 

Heimild: umse.is

Engar hópuppsagnir á Norðurlandi árið 2018

Á árinu 2018 bárust Vinnumálastofnun 15 tilkynningar um hópuppsagnir, þar sem 864 manns var sagt upp störfum. Flestir hafa misst vinnuna í flutningum, 393 eða um 45% allra hópuppsagna, í iðnaðarframleiðslu 266, eða um 31% og 151 í fiskvinnslu eða um 17%.

Um 51% tilkynntra hópuppsagna á árinu 2018 voru á höfuðborgarsvæðinu, um 34% á Suðurnesjum, um 11% á Suðurlandi, um 3% á Vesturlandi og um 1% Vestfjörðum. Engar tilkynningar bárust frá Norðurlandi.

Samtals hefur 11.514 manns verið sagt upp í hópuppsögnum á 11 árum. Flestir misstu vinnuna á þriggja
mánaða tímabili frá desember 2008 til febrúar 2009 og svo næstu 3 mánuði þar á eftir.

Myndir og heimild: Vinnumálastofnun.

Lestrarátak Ævars fyrir alla fjölskylduna

Ævar Þór Benediktsson rithöfundur og vísindamaður með meiru heimsótti mennta- og menningarmálaráðuneytið í byrjun janúar og kom færandi hendi með veggspjöld lestrarátaks síns sem nú er nýhafið. Allir nemendur í 1-10. bekk grunnskólanna geta tekið þátt í átakinu sem nú fer fram í fimmta og síðasta sinn. Nýbreytni er að foreldrar og forráðamenn geta einnig verið með og sent inn sína lestrarmiða fyrir bækur sem þau lesa.

Veggspjöldin munu berast grunnskólum um land allt á næstu dögum en upplýsingar fyrirkomulag átaksins og lestrarmiða má finna á heimasíðu Ævars, www.visindamadur.com. Þátttakendur í lestrarátaki Ævars hafa samtals lesið yfir 230.000 bækur á síðustu fjórum árum.

„Læsi skiptir sköpum, það er lykill að lífsgæðum okkar til framtíðar og ég fagna þessu framtaki Ævars sem hvatt hefur þúsundir krakka til þess að lesa meira,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Mér finnst líka frábært að nú geti fjölskyldan tekið virkan þátt. Foreldrar eru bestu lestrarfyrirmyndir barna sinna og þetta er góð hvatning fyrir lesendur á öllum aldri til að vera dugleg að lesa á nýju ári.“

Heimild: stjornarrad.is

Taktu þátt í að skrásetja íslenskar hefðir

Almenningi gefst nú kostur á að taka þátt í að kortleggja íslenskar hefðir og siði. Hafin er formleg söfnun upplýsinga um lifandi hefðir, eða menningarerfðir, í gegnum vefsíðuna lifandihefdir.is en slíkar hefðir eru ekki síður mikilvægar en áþreifanlegur menningararfur þjóða.

Með lifandi hefðum er átt við allskonar venjur, hefðir, hátíðahöld, framsetningu, tjáningu og tungumál, þekkingu og færni sem samfélög eða hópar búa yfir. Hefðir geta verið lifandi í samfélögum og hópum eða átt undir högg að sækja þannig að þær þarfnist sérstakrar athygli eða verndar. Þær eru afar fjölbreyttar og geta átt rætur sínar í fortíðinni, þeim verið miðlað mann fram af manni eða verið nýtilkomnar.

„Lifandi hefðir skipa mikilvægan sess í hugum okkar flestra þó við leiðum oft ekki hugann að þeim dagsdaglega – þær virka stundum eins og sjálfsagðar en að baki þeim býr oft forvitnileg og mikilvæg saga. Þeim viljum við safna og halda á lofti með þessu skemmtilega verkefni, sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og nefndi laufabrauðsgerð sem dæmi um lifandi hefð. „Meðal nýrri hefða sem vakið hafa talsverða athygli er hið landskunna HÚH! – hvatningarklapp Tólfunnar en mig langar af þessu tilefni að skora á stuðningsmannafélag íslensku landsliðanna í fótbolta að senda inn skráningu á síðuna um þá frábæru hefð.“

Meðal skráninga sem þegar má finna á síðunni eru upplýsingar hefðir tengdar íslensku jólasveinunum, hlaupahópum, hestamennsku, sláturgerð og torfhleðslu.

Framtak þetta er liður í samningi Íslands við Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna – UNESCO um varðveislu menningarerfða en markmið hans er m.a. að varðveita þær og efla vitund almennings á mikilvægi þeirra.

Heimild: stjornarrad.is

Stórbætt aðgengi að íslenskri listasögu

Vinnuhópur á vegum Listasafns Íslands hefur ásamt Myndstefi, höfundaréttarsamtökum myndhöfunda, unnið að gerð rammasamnings um myndbirtingu höfundarréttarvarinna verka. Við undirritun hans munu söfn fá leyfi til að birta ljósmyndir á veflægri skráningarsíðu sinni (safnmunaskrá), af verkum í höfundarrétti. Með þessu stóreykst aðgengi almennings og skóla að upplýsingum úr safnmunaskrám.

Harpa Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Íslands og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður skrifuðu undir rammasamninga við Ragnar Th. Sigurðsson, formann Myndstefs, í Listasafni Íslands á dögunum að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

„Ég fagna þessu mikilvæga skrefi sem bæta mun mjög aðgengi almennings að upplýsingum um íslenska menningar- og listasögu. Oft er sagt að myndir segi meira en þúsund orð og það mun mögulega sannast vel í þessu samhengi. Ég hlakka til að fylgjast með þróun þessara mála og þeim tækifærum sem geta opnast, til dæmis fyrir áhugasama nemendur í myndlist og listasögu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir af þessu tilefni.

Aðgengi skóla og almennings að upplýsingum úr safnmunaskrám listasafna á netinu hefur til þessa nær eingöngu einskorðast við textaupplýsingar en nú verður mögulegt að birta ljósmynd (afrit) af verkum ásamt textaupplýsingum (skráningartexta). Með þessum nýja samningi verður því íslensk sjónlist gerð mun aðgengilegri til kennslu og fyrir almenning.

Samningurinn er saminn með öll söfn í huga því almennt heyrir alltaf einhver hluti safnkosts undir höfundarrétt, hvort sem um ljósmynda-, byggða- eða hönnunarsöfn er að ræða. Öll söfn sem hafa öðlast viðurkenningu safnaráðs eða eru í eigu íslenska ríkisins og starfa eftir lögum geta gengið til samninga við Myndstef. Viðkomandi safn greiðir árlegt gjald til Myndstefs og skuldbindur sig til að gæta sæmdarréttar við skráningar og merkingar samkvæmt höfundalögum. Óheimilt verður að nota ljósmyndir sem birtast úr safnmunaskránum af höfundarréttarvörðu efni í ábataskyni. Myndir eru vatnsmerktar en nú sem áður og þarf að hafa samband við viðkomandi safn og kaupa leyfi til slíkra nota og greiða höfundalaun af notkun í samræmi við samninga.

Í safneign Listasafns Íslands eru nú um 13.000 verk en safnið fer sjálft með höfundarrétt nokkurra listamanna sem hafa ánafnað safninu eða þjóðinni þann rétt. Eins eru listamenn sem ekki eru lengur í höfundarrétti og eiga verk í safneign Listasafns Íslands. Listasafn Íslands mun á næstunni birta megnið af safnkosti sínum á vefsvæðinu www.sarpur.is, miðlægum skráningargrunni íslenskra safna. Markmiðið er að koma myndum af öllum safnkosti safnsins á vefinn í áföngum á næstu misserum.

Þjóðminjasafn Íslands varðveitir einnig fjölbreyttan listrænan safnkost en stærsta safnheild þess er Ljósmyndasafn Íslands þar sem nú eru um 6,7 milljón ljósmyndir. Stærstur hluti þess er í söfnum frá um 240 ljósmyndurum sem spanna tímann frá upphafi ljósmyndunar á Íslandi um 1860 og til dagsins í dag. Stór hluti ljósmyndaefnisins er í höfundarrétti og hefur safnið gert sérstaka samninga við handhafa höfundarréttar margra filmusafna, gengið frá kaupum á höfundarrétti nokkurra og líka fengið slíkan rétt í arf.

Safnmunir Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands eru skráðir á www.sarpur.is.

Heimild: stjornarrad.is

Rekstrarstyrkur Ljóðaseturs skorinn niður – óvissa um framhaldið

Forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands hefur tilkynnt að Fjallabyggð hafi skorið niður árlegan rekstrarstyrk til safnsins niður í 150.000 kr, en síðustu tvö ár hafi styrkurinn verið 350.000 kr, en þar á undan 200.000 kr. Ljóðasetur Íslands hefur starfað í tæplega 7 ár og fengið um 9.000 gesti og haldið um 220 viðburði, en ókeypis er inn á safnið og viðburði þess.  Þórarinn Hannesson er forstöðumaður setursins, og hann hefur skrifað á fésbókarsíðu setursins að hann vilji nú selja húsnæðið sem fyrst. Fjölmargir hafa kvittað við og vilja styðja Setrið svo það lifi áfram með framlögum eða söfnun.

 

10 vefmyndavélar við Dalvíkurhöfn

Settar hafa verið upp vefmyndavélar á hafnarsvæði Dalvíkurhafnar.  Um er að ræða 10 vélar sem sýna vel starfsemina á höfninni. Þetta er frábær viðbót við aðrar vefmyndavélar sem eru nú þegar í Dalvíkurbyggð.

Tenglar á vefmyndavélar Dalvíkurhafnar:

Dalvíkurhöfn 1

Dalvíkurhöfn 2

Dalvíkurhöfn 3

Dalvíkurhöfn 4

Dalvíkurhöfn 5

Dalvíkurhöfn 6

Dalvíkurhöfn 7

Dalvíkurhöfn 8

Dalvíkurhöfn 9

Dalvíkurhöfn 10

Samsýning og Sunnudagskaffi í Alþýðuhúsinu

Sunnudaginn 6. janúar kl. 14.00 opnar sýning í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði sem samanstendur af verkum í eigu Aðalheiðar. Undanfarin ár hefur Aðalheiður haft gaman af að setja upp verk úr listaverka eigu fjölskyldunnar sem er orðin töluverð eftir 30 ára starf við myndlist. Að þessu sinni eru það listamennirnir Jón Laxdal, Freyja Reynisdóttir, Leifur Ýmir og Sigurður Atli, Sigga Björg Sigurðardóttir, Klængur Gunnarsson, Brák Jónsdóttir og Jan Voss sem sýna.

Sama dag kl. 14.30 mun Pauline Joy Richard ungur iðnhönnuður sem nýverið keypti hús á Siglufirði, vera með erindi á Sunnudagskaffi með skapandi fólki.

Pauline Joy Richard fæddist í New York árið 1989, er af frönskum ættum en ólst upp víða um heiminn. Hún nam hönnun við Central Saint Martins háskólann í Lundúnum og fór í framhaldsnám í Kolding hönnunarskólann í Danmörku.
Eftir útskrift vann hún fyrir ýmis fyrirtæki, m.a. bambú fyrirtæki í Hong Kong, Ecco skófyrirtækið í Danmörku og í þrjú og hálft ár sem listrænn stjórnandi fyrir franska tísku risann LVMH þar sen hún vann með krókódílaleður, silkiprentun og hönnun sólgleraugna.
Hún sagði upp vinnunni fyrir tveim vikum.
Hvað tekur við?

Starf forstöðumanns safna auglýst í Dalvíkurbyggð

Dalvíkurbyggð leitar eftir einstaklingi í 100% starf forstöðumanns safna í Dalvíkurbyggð. Um er að ræða tímbundna ráðningu í allt að 11 mánuði. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.  Forstöðumaður ber ábyrgð á starfsemi og rekstri safna sveitarfélagsins; bókasafni, héraðsskjalasafni, byggðasafni auk upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn. Nánari upplýsingar um starfið má finna á vef Dalvíkurbyggðar.

Umsóknarfrestur er til og með 10. janúar 2019.

Umsóknum skal skila til sviðsstjóra fræðslu og menningarsviðs á netfangið hlynur@dalvikurbyggd.is. Umsókn um starfið þarf að fylgja ítarleg starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Nánari upplýsingar veitir jafnframt Hlynur Sigursveinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarmála í síma 460-4916 eða sama netfangi og getið er að ofan.

Þrettándabrenna og flugeldasýning á Siglufirði

Þrettándabrenna og flugeldasýning Kiwanisklúbbsins Skjaldar í samvinnu við Björgunarsveitina Stráka á Siglufirði og 10. bekk grunnskóla Fjallabyggðar verður á Siglufirði sunnudaginn 6. janúar næstkomandi.

Blysför verður frá Ráðhústorginu á Siglufirði kl. 17:00 að brennu. Allir hvattir til að mæta í grímubúningum. Eftir brennu kl. 18:30-20:00 verður barnaskemmtun Kiwanis og grímuball á Rauðku.

Bresku ferðamennirnir lentir á Akureyri

Flugvél Titan-Airways er nú lent á Akureyrarflugvelli eftir nokkra klukkutíma stopp á Egilsstöðum. Vélin flaug kl. 15:00 frá Egilsstöðum og var að lenda rúmlega 30 mínútum síðar. Farþegarnir koma frá Leeds, en vélin hóf flug frá London til Leeds snemma í morgun og þaðan var stefnan tekin á Akureyri, en vegna veðurs varð að lenda á Egilsstöðum meðan veðrið gekk niður.

Vélin flaug í framhaldinu til Cardiff í Wales, eftir stutt stopp á Akureyri.

 

Gátu ekki lent Akureyrarflugvelli

Flugvél sem flogið var frá Leeds í Englandi í morgun og átti að lenda á Akureyrarflugvelli, var snúið við og lent á Egilsstaðaflugvelli vegna veðurs. Vélin er frá Titan-Airways og er á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Superbreak sem flýgur til Akureyrar í vetur. Vélin tekur eldsneyti á Egilsstöðum áður en þeir reyna aftur að lenda á Akureyri.

Vélin hringsólaði yfir hálendinu áður en tekin var ákvörðun að lenda á Egilsstaðaflugvelli. Ekki var gerð tilraun til að lenda á Akureyri.

 

Lokað er yfir Þverárfjall og Öxnadalsheiði

Lokað er yfir Þverárfjall og Öxnadalsheiði samkvæmt upplýsingum hjá Vegagerðinni.  Þótt víða sé ekki fyrirstaða á vegum er stórhríð um mestallt svæðið og sumstaðar gríðarlega blint.  Óvissustig er í gildi á Siglufjarðarvegi.

Búið er að loka Víkurskarði en einnig Mývatns- og Möðrudalsöræfum vegna veðurs. Ófært er á Hófaskarði. Hríðarveður er á öllu Norðausturlandi.

Þeir sem eru á ferðinni ættu að fylgjast vel með fréttum og færð á vef Vegagerðarinnar.