Category Archives: Norðurland

Leikmenn KF í viðtali – Halldór markmaður

Íslandsmótið í 3. deild í knattspyrnu er að hefjast og við fengum nokkra leikmenn Knattspyrnufélags Fjallabyggðar í viðtal. Fyrsta viðtalið er við markmanninn Halldór Ingvar sem leikið hefur 129 leiki fyrir KF og KS/Leiftur og hefur afrekað að skora eitt mark. Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk árið 2007 og er með reynslumeiri leikmönnum liðsins í dag.

Nafn, aldur, atvinna og búseta.

Halldór Ingvar Guðmundsson. 25 ára. Skiltagerðamaður og meððí. Bylgjubyggð 10. Ólafsfjörður.

Leikstaða(Mark/Vörn/Miðja/sókn)

Markmaður.

Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik? 

Mikilvægasti undirbúningurinn minn er að borða vel og rétt. Þegar ég kem í klefann þá hlusta ég á tónlist sem kemur mér í rétta gírinn (Celine Dion) fer svo létt yfir í huganum hvernig ég ætla að reyna spila leikinn og hvað ég vil gera í leiknum. Síðast en ekki síst þá klæði ég mig alltaf í hægri á undan vinstri (skór, legghlífar o.s.frv.) vegna þess að Bjarni Ben er minn maður.

Hvað æfir þú oft í viku? 

Áður en ég varð faðir þá æfði ég 10 sinnum í viku en núna er það bara 5-7 sinnum.

Hver er mikilvægasti leikmaður KF?

Það eru margir sem ég tel vera mikilvæga í þessu liði, ég vona að Hjálmar (Örn Elí) verði mikilvægasti leikmaðurinn og verði valinn besti leikmaður 3. deildar. Allavega vil ég að hann skori fleiri mörk en ég í fyrra.

Hver er hraðasti leikmaður KF ?

Allavega ekki Frikki. Áki og Valur mega rífast um þetta.

Hver er grófasti leikmaður KF ?

Björgvin Daði á þann heiður. Þó svo að Hákon Rauði geri líka tilkall til titilsins þá endar hann yfirleitt í verra ásigkomulagi en andstæðingurinn.

Hvaða persónulega markmið hefur þú fyrir leiki sumarsins?

Mín markmið fyrir hvern leik er að halda tuðrunni úr mínu neti, og jafnvel hjálpa sóknarmönnunum að skora í hitt netið.

Hvaða fyrirmynd hefur þú í fótboltanum?

Þær eru nokkrar. Ég er mikil Edwin van der Sar maður, horfði mikið á hvernig hann spilaði leikinn. Heiðar Gunnólfsson var gríðarlega mikilvægur fyrir mig þegar ég var að byrja í meistaraflokk. Og svo klárlega pabbi minn, fékk reyndar ekki að sjá hann spila sjálfur en miðað við sögurnar af honum þá var hann býsna öflugur.

Hvað þarf liðið að gera til þess að komast aftur í 2. deild?

Menn þurfa að halda stemmingu í hópnum og gera þetta að 100% krafti og hafa hausinn rétt skrúfaðan á. Ef allir setja boltann í fyrsta sæti þá getur allt gerst hjá KF.

 

 

Siglufjörður tilnefndur sem mataráfangastaður Norðurlandanna

Tilkynnt hefur verið um þá aðila sem tilnefndir eru til Embluverðlaunanna en verðlaunin eru samnorræn matarverðlaun.  Siglufjörður er þar á meðal í flokknum “Mataráfangastaður Norðurlandanna 2017”.  Alls er keppt í sjö flokkum sem hægt er að lesa nánar um hér.

Verðlaunin verða veitt í Kaupmannahöfn þann 24. ágúst næstkomandi, á sama tíma og ein stærsta matarhátíð Norðurlandanna fer fram þar í borg, Copenhagen Cooking & Food Festival.

Embla er heitið á norrænum matarverðlaunum sem öll bændasamtök á Norðurlöndunum standa að í samvinnu við norrænu ráðherranefndina. Verðlaununum er ætlað að hampa því sem skarar fram úr í hinu norræna eldhúsi: hráefni, matvælum, framleiðsluaðferðum og fólkinu á bak við allt saman. Markmiðið með Embluverðlaununum er að deila þekkingu og reynslu og vekja athygli á norrænum mat.

 

Þrír nýjir leikmenn til KF á síðustu dögum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur verið að styrkja sig áður en félagskiptaglugginn lokar þann 15. maí næstkomandi. Síðustu daga hafa þrír leikmenn komið til félagsins, þar af einn erlendur leikmaður frá Serbíu.

Magnús Aron Sigurðsson kemur frá Leikni og er 20 ára. Hann hefur spilað síðustu ár með 2. flokki Leiknis. Gauti Freyr Guðbjartsson kemur frá Völsung og er fæddur árið 1996. Hann hefur leikið með 2. flokki félagsins og á nokkra leiki fyrir meistaraflokk Völsung í Kjarnafæðismótinu.  Miljan Mijatovic frá Serbíu hefur einnig fengið leikheimild með KF, en hann er varnarsinnaður miðjumaður samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir um hann. Hann er fæddur árið 1989 og er 180 cm á hæð. Hægt er að sjá myndbandsbrot úr leikjum hans með serbneskum liðum á Youtube.

Samkvæmt spá þjálfaranna þá er KF spáð 6. sæti í deildinni. Þjálfari KF, Slobodan Milisic segir í viðtali við Fótbolta.net að spáin komi sér ekki á óvart, og segir að félagið sé búið að styrkja sig að undanförnu og að þeir séu tilbúnir fyrir sumarið. KF ætli sér að afsanna þessa spá og vera í toppbaráttunni. Hann segir markmiðið sé að taka einn leik í einu og reyna vinna og sjá hversu langt það tekur liðið. Hann telur að liðin í deildinni séu svipuð af gæðum og telur að mótið verði jafnt.

 

KF mætir Dalvík-Reyni um helgina – Tveir miðar í boði

Það verður sannkallaður nágrannaslagur um helgina í 3. deild karla þegar Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætir Dalvík/Reyni á Ólafsfjarðarvelli. Í samstarfi við KF þá gefum við tvo miða á leikinn, og það eina sem þarf að gera er að deila fréttinni á Facebook. Vinningshafi verður dreginn út á föstudagskvöld kl. 21:00. Sá hinn sami fær miða fyrir tvo á leikinn og verða nánari upplýsingar sendar til viðkomandi aðila.

Leikurinn fer fram á Ólafsfjarðarvelli laugardaginn 13. maí og hefst kl. 14:00. Samkvæmt upplýsingum frá KF þá er völlurinn í mjög góðu ástandi eftir snjóléttan vetur. Búast má við hörku leik þar sem ekkert verður gefið eftir.

Liðin mættust síðast í deildarleik árið 2015 þegar liðin voru saman í 2. deild karla, KF vann báða leikina örugglega 5-1 á heimavelli og 0-7 á útivelli. Það ár féll Dalvík/Reynir í 3. deild en liðið endaði síðustu leiktíð í 8. sæti með 17 stig, eða þriðja neðsta sæti. Liðið skoraði rúmlega 1 mark í leik á síðustu leiktíð eða 22 mörk í 18 leikjum.

Liðin mættust einnig snemma árs 2016.  KF vann báða þá leiki, 3-2 og síðari 2-1. Vinningshlutfall KF í síðustu 5 viðureignum liðanna eru 4 sigrar og 1 tap. KF endaði hins vegar mótið í síðasta sæti í 2. deild í fyrra, vann tvo leiki, gerði 7 jafntefli og tapaði 13 leikjum.

Nú er bara að drífa sig á völlinn og styðja sitt lið í þessum frábæra nágrannaslag.

Ársmiðasala KF og tilkynning frá stjórn

Ársmiðasala KF er hafin og veitir ársmiði aðgang að öllum heimaleikjum auk veitinga í vallarhúsi í hálfleik. Kostar miðinn 12.000 kr. (8.000 kr. fyrir togarasjómenn) og er áhugasömum bent á netfangið kf@kfbolti.is eða símanúmer 660-4760.
Stjórn KF vonar að sem flestir mæti á leiki liðsins í sumar, bæði heima og að heiman.  Stuðningur áhorfenda er mikilvægur vogarsteinn í baráttunni sem framundan er.  Stefnan er sett beint upp í 2. deild á ný og mikilvægt er að allir stuðningsmenn leggist á eitt að styðja liðið okkar í þeirri erfiðu baráttu.

Orlofsferðir húsmæðra í Eyjafirði

Eins og undanfarin ár skipuleggur Orlofsnefnd húsmæðra í Eyjafirði orlof fyrir húsmæður.  Sérhver kona í Eyjafjarðarsýslu sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu er hjartanlega velkomin í ferðir.

Að þessu sinni verða eftirtaldar ferðir í boði:

 • 19. – 21. maí 2017: Borgarfjörður. Ekið með rútu í Borgarfjörðinn og gist á Hótel Bifröst. Í boði verða skoðunarferðir um Borgarfjörð. Innifalið er rútuferðin.
 • 22. júní 2017: Grímseyjarferð með Ambassador. Lagt verður af stað kl. 18:00 frá Akureyri og áætluð heimkoma um kl. 00:30. Farið verður í hvala- og lundaskoðunarferð, siglt yfir heimskautsbaug og borðað í félagsheimili Grímseyjar.
 • 3.- 5. nóvember 2017: Helgarferð að Löngumyri í Skagafirði.  Prjónanámskeið, harðangur ofl.
 • 26. apríl – 1. maí 2018: Vorferð til Cardiff. Flogið verður með Icelandair frá Akureyri.

Allar nánari upplýsingar um ferðirnar verður að finna á heimasíðu orlofsins www.orlofey.is og í síma orlofs húsmæðra 692 9210.

Skráning í ferðir á netfanginu: orlofey@gmail.com

 

Vilja aðstöðuhús fyrir brimbrettafólk í Ólafsfirði

Fjallabyggð skoðar þá hugmynd að gera aðstöðuhús fyrir brimbrettafólk í Ólafsfirði, en Helgi Jóhannsson íbúi í Fjallabyggð hafði sent sveitarfélaginu erindi þess efnis.  Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar telur málið áhugavert og finnst brýnt að skapa aðstöðu fyrir þessa íþróttaiðkun og hefur vísað málinu áfram til bæjarráðs Fjallabyggðar til nánari skoðunar.

 

Lengri leikskóladvöl í boði í sumar á Siglufirði

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt að lengja leikskóladvöl á leikskólanum Leikskálum á Siglufirði um eina viku í júlí, dagana 17.-21 júlí , fyrir þá foreldra sem það vilja. Áður hafði verið auglýst að leikskólinn yrði lokaður frá 17. júlí – 15. ágúst. Þessi auka opnun í sumar er hugsuð sem tilraunaverkefni. Alls voru 20 foreldrar sem höfðu áhuga að nýta sér þetta, nei sögðu 20 og 40 svöruðu ekki.

Foreldrar barna í  leikskólanum Leikhólum í Ólafsfirði voru ekki eins jákvæð gegn þessari lengri opnun, en þar sögðu 22 nei, en 28 svöruðu ekki, og aðeins 2 foreldrar höfðu áhuga á að nýta sér þetta ef um væri að ræða 2 vikur en ekki eina. Kostnaður Fjallabyggðar er áætlaður vera um 400.000 kr. fyrir þessa auknu opnun í sumar.

Bæjarráð Fjallabyggðar ákvað í apríl að taka lokun Leikskóla Fjallabyggðar til skoðunar  eftir að Róbert Guðfinnson, forstjóri Genis hafði lýst áhyggjum sínum af auglýstri lokun leikskólanna.

Lægstbjóðandi í malbikun í Fjallabyggð

Þrjú tilboð bárust í verkefnið Malbikun í Fjallabyggð 2017. Kostnaðaráætlun var 49.870.000 kr. Fjallabyggð hefur samþykkt að taka tilboði lægstbjóðenda sem var fyrirtækið Malbikun KM. Fyrirtækið var stofnað árið 1998 af Kristjáni B. Árnasyni og Margréti Stefánsdóttur og er með höfuðstöðvar á Akureyri.


Eftirfarandi tilboð bárust:
Hlaðbær Colas 57.047.000
Kraftfag ehf 45.810.000
Malbikun KM 43.355.750

Lítil flugvél nauðlenti á Eyjafjarðarbraut

Um klukkan hálf eitt í dag var tilkynnt um að lítil flugvél hefði misst afl á flugi rétt sunnan við Akureyri og um borð væru tveir menn. Skömmu síðar var tilkynnt að flugvélin væri lent en hún hefði þurft að lenda á Eyjafjarðarbraut vestari, rétt sunnan við Hrafnagil. Flugkennari og flugnemi voru um borð og sluppu þeir ómeiddir. Ekki er talið að flugvélin sé mikið skemmd. Lögreglan á Norðurlandi eystra er á vettvangi og einnig er von á aðilum frá rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar að svo stöddu. Þetta kemur fram hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Aukning gesta á Skíðasvæðinu Tindastóli

Samkvæmt upplýsingum frá umsjónarmönnum skíðasvæðisins í Tindastóli við Sauðárkrók voru 94 opnunardagar á vertíðinni 2016-17 og um 6700 gestir. Á síðasta skíðatímabili, veturinn 2015-16 voru 89 opnunardagar og 5860 gestir. Á skíðavertíðinni 2014-15 var aðeins opið í 65 daga vegna veðurs og voru gestir því aðeins 3200 sem fóru í lyftuna og 450 sem nýttu sér töfrateppið. Þetta ár var fjárfest í töfrateppinu sem á eftir að draga fjölda iðkenda að svæðinu næstu árin. Veturinn 2013-14 voru alls 100 opnunardagar en aðeins 4095 gestir sem var langt undir  væntingum rekstaraðila. Upplýsingar þessar má finna í ársskýrslum Tindastóls síðustu ára.

Sæluvikunni lýkur um helgina

Sæluviku Skagfirðinga lýkur um helgina en dagskráin er þétt fram á sunnudag og ættu allir að finna sér eitthvað skemmtilegt við hæfi. Laugardagurinn hefst með morgunkaffi í Ljósheimum á vegum kaffiklúbbsins Skín við sólu Skagafjörður og á sama tíma opnar Árskóli á Sauðárkróki og býður gesti velkomna að mæta í skólann og kynnast skólastarfinu. Klukkan 11:00 verða kynnt sjávarböð við smábátahöfnina á Sauðárkróki og myndlistarsýningin í Gúttó verður opin kl. 14-18. Leiksýningin, Beint í æð, verður kl. 16:00 í Bifröst.

Á laugardagskvöldinu verður Karlakórinn Heimir með Sæluvikutónleika í Menningarhúsinu Miðgarði kl. 20:30. Kvöldinu lýkur með dansleik á Mælifelli sem hefst kl. 23:00.

Sunnudagurinn er síðasti dagur Sæluvikunnar.  Klukkan 14:00 verður málþing í Miðgarði, Skagfirsk fræði í nútíð og fortíð, í tilefni 80 ára afmælis Sögufélags Skagfirðinga og 70 ára afmælis Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands verður meðal gesta.

Í félagsheimilinu Melsgili verður flóamarkaður kl. 14:00 þar sem ýmislegt verður til sölu, notað og nýtt, og opin myndlistarsýningin í Gúttó. Tveir viðburðir verða í Bifröst, fyrst verður sýnd teiknimynd, Dýrin í Hálsaskógi, kl 16:00 og um kvöldið kl. 20:00 sýnir Leikfélag Sauðárkróks Beint í æð.

Dalvíkurbyggð óskar eftir tilboðum í skólamáltíðir og skólaakstur

Dalvíkurbyggð óskar eftir tilboðum í skólamáltíðir fyrir nemendur og starfsfólk í skólum sveitarfélagsins frá og með skólaárinu 2017-2020.  Nánari upplýsingar verða í útboðsgögnum sem afhent verða í Ráðhúsi Dalvíkurbyggðar. Tilboðum skal skilað í Ráðhús Dalvíkurbyggðar eigi síðar en miðvikudaginn 24. maí, kl. 12.45 og verða þau þá opnuð sama dag kl. 13:00 í fundarsal á 3. hæð í Ráðhúsinu að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Dalvíkurbyggð óskar einnig eftir tilboðum í skólaakstur með nemendur Dalvíkurskóla og Árskógarskóla 2017 – 2020. Um er að ræða þrjár akstursleiðir og er áætlaður akstur á dag um 130 km alls.  Tilboðum skal skilað í Ráðhús Dalvíkurbyggðar eigi síðar en miðvikudaginn 24. maí, kl. 10.45 og verða þau þá opnuð sama dag kl. 11:00 í fundarsal á 3. hæð í Ráðhúsinu að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.

Heitt í Héðinsfirði

Hitinn mældist mest 18,5 gráður í Héðinsfirði í dag klukkan 17:00. Hitinn þar hækkaði hratt eftir hádegið. Á Siglufirði fór hitinn hæst í 17,8 gráður kl. 18:00 í dag. Mestur hiti í Ólafsfirði var 15,9 gráður kl. 19:00. Á Akureyri fór hitinn mest upp í 18,1 gráðu kl. 15:00 í dag.

 

Skíðavertíðinni að ljúka

Skíðavertíðinni er lokið á Tindastóli á Sauðárkróki og þar segja menn veturinn hafa verið áhugaverðan og ætla opna næsta 1. desember 2017. Snjólaust er í Böggvistaðarfjalli á Dalvík og vertíðinni lokið þar. Tindaöxl í Ólafsfirði er einnig snjólítið og hefur verið lokað undanfarið. Skíðasvæðið í Skarðsdal á Siglufirði er lokað um helgina og orðið snjólítið svæðið þar vegna mikils hita síðustu daga. Í skoðun er opnun helgina 12.-14. maí ef snjór verður í fjallinu. Í Hlíðarfjalli á Akureyri hefur verið mikil bráðnun og svæðið lokað í augnablikinu nema veður breytist.

 

Endurbætur á sundlauginni á Dalvík

Unnið er að miklum endurbótum á sundlauginni á Dalvík. Framkvæmdin er allt frá hreinsibúnaði í kjallara upp á allt sundlaugarsvæðið.  Á sundlaugarsvæði er verið að endurnýja allt svæðið án mikilla breytinga.  Allur klórbúnaður  verður endurnýjaður og verður ekki keyptur tilbúinn klór heldur verður hann framleiddur úr salti á staðnum sem þykir mun heilsusamlegra fyrir notendur sem og starfsfólk.  Ný rennibraut verður ekki tekin í notkun í þessari framkvæmd heldur gera áætlanir ráð fyrir henni á næstu árum.

Helstu breytingar verða:

 • Pottar verða endurnýjaðir og stækkaðir (steyptir).
 • Vaðlaugar verða einangraðar frá vatni sundlaugar og verður því hægt að hafa vatnið í þeim mun heitara en verið hefur til þessa.
 • Bláa lónið (sem staðsett er á milli heitu pottanna) verður einnig einangrað og sett á sjálfstætt stýrikerfi. Með þessu móti verður einnig hægt að hafa hitastig nokkrum gráðum heitara en verið hefur.
 • Öll flísalögn verður endurnýjuð en flísaleggja á potta, vaðlaugar og bláalón að utan og kant í sundlaug.
 • Nýju efni verður sprautað innan í sundlaugarkerið, potta og vaðlaugar. Um er að ræða plastefni sem kemur í stað málningar. Markmiðið er að losna við alla málningu sem er undir vatni og þar með gera vatnið tærara.
 • Litla rennibrautin verður endurnýjuð og sveppurinn verður einnig endurnýjaður eða lagaður.

Hér að ofan eru upptalin þau verkefni sem eru sýnileg á svæðinu. Þessu fylgir að allur hreinsibúnaður í kjallara hússins verður endurnýjaður. Gamla rennibrautin mun áfram verða til staðar þar til ný rennibraut kemur.

18,6 gráður á Siglufirði í dag

Það var hlýtt og milt veður norðanlands í dag. Hitinn á Siglufirði fór upp í 18,6 gráður klukkan 12:00 í dag en lækkaði nokkuð eftir það en tók aftur að hækka kl. 18:00 og mældist þá 16,8 gráður. Í Ólafsfirði mældist hitinn hæstur í dag 17,1 gráða kl. 12:00 en lækkaði töluvert eftir það. Í Héðinsfirði fór hitinn hæstur í 18,6 gráður kl. 13:00 í dag samkvæmt tölum frá Veðurstofu Íslands.

 

Lögreglan stöðvaði kannabisræktun á Grenivík

Lögreglan á Akureyri framkvæmdi leit í einbýlishúsi á Grenivík í gær og stöðvaði þar kannabisræktun.  Þar voru í ræktun um 50 plöntur auk þrjátíu græðlinga. Þá var lagt hald á rúmlega tvö kíló af marijuna. Þar var um að ræða efni sem búið var að uppskera og þurrka af plöntum sem höfðu verið í ræktun á sama stað og tilbúið til dreifingar.
Einn maður var handtekinn innandyra og játaði hann við skýrslutökur að hafa staðið að ræktuninni og að hafa ætlað að selja afraksturinn.

Fyrir mánuði síðan stöðvaði lögreglan á Akureyri aðra kannabisræktun, sú var í iðnaðarhúsnæði á Akureyri. Þar voru í ræktun 40 kannabisplöntur og svipað magn græðlinga. Þær plöntur sem voru lengst komnar í ræktun voru mjög stórar, enda umbúnaðurinn í kringum ræktunina mikill. Einn maður var handtekinn innandyra en lögreglan hefur síðan tekið skýrslur af tveimur í viðbót.

Auk þessara mála komu 20 fíkniefnmál upp hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra í apríl þar sem lagt var hald á töluvert af marijuana, en einnig amfetamín, kókaín og e-töflur. Í apríl voru 22 ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

 

Er öryggi íbúa og gesta á Tröllaskaganum ógnað? Opið bréf til stjórnenda HSN

Er öryggi íbúa og gesta á Tröllaskaganum ógnað? Opið bréf til stjórnenda HSN

Í sambandi við áform Heilbrigðisstofnunar Norðurlands þá langar mig að benda á nokkur mikilvæg atriði sem ég tel að þurfi að tala um og koma á framfæri. Ég tel mig vera að tala fyrir munn allra Ólafsfirðinga því það er einhugur bæjarbúa hérna í Ólafsfirði, flestra ef ekki allra á Siglufirði og Dalvík og nágrenni sem sagt flestra ef ekki allra á Tröllaskaganum og víðar, um að mæla fyrir áframhaldandi  tilvist sjúkrabílsins í Ólafsfirði.

Nú þegar eru komnar 1,070  undirskriftir þar sem skorað er á stjórnendur HSN að þið sjáið að ykkur, breytið áformum ykkar og að sjúkrabíllinn í Ólafsfirði verði áfram með óbreyttu fyrirkomulagi þ.e. með fullmannaðri áhöfn á bakvöktum.

Í pistli á hsn.is frá 21. mars 2017 segir „Margar skýrslur hafa verið unnar um sjúkraflutninga á undanförnum árum.“ Síðan er einhver upptalning á skýrslum en enginn aðgangur að skýrslunum sjálfum, og því ekki hægt að kynna sér innhald þeirra, svona til að reyna að skilja hvað fyrir ykkur vakir.

Í þessum pistli segir einnig:

Viðbragð við slysum og bráðum veikindum þarf að berast sem fyrst og vera eins faglegt og öruggt og kostur er miðað við þær aðstæður sem við búum við. Við skipulag sjúkraflutninga þarf að taka tillit til ýmissa þátta svo sem vegalengda milli staða og samgangna, íbúafjölda, fjölda flutninga og menntunar og þjálfunar sjúkraflutningamanna.

Þarna talið þið um að viðbragð við slysum og bráðum veikindum þurfi að berast sem fyrst og vera eins faglegt og öruggt og kostur er miðað við þær aðstæður sem við búum við, samt eruð þið að gera allt sem í ykkar valdi stendur til að lengja viðbragðstímann, minnka þetta faglega í viðbragðinu og svo sannarlega að minnka öryggið við þær aðstæður sem við búum við, og talandi um viðbragð og öryggi, hafið þið hjá HSN kannað hvað Vegagerð Íslands segir um þessar fyriætlanir ykkar, ég hef heyrt það að þeir geri kröfur um að það séu viðbragðsaðilar til taks beggja megin allra umferðagangna á svæðinu, og þá tölum við um Héðinsfjarðargöngin sem ein göng í samhenginu.

Svo er hérna enn ein snilldin í þessum pistli frá ykkur:
Framkvæmdastjórn HSN hefur komist að þeirri niðurstöðu að leggja af sjúkrabílavakt á Ólafsfirði en að sjúkrabíllinn verði áfram staðsettur þar og væri tiltækur ef aðstæður krefðust. Tryggja þarf viðbragð þar við bráðum uppákomum og er stefnt að því að mynda hóp vettvangsliða í samstarfi við slökkvilið og/eða björgunarsveit til að sinna fyrsta viðbragði áður en sjúkrabíll kæmi frá Siglufirði eða í undantekningartilfellum frá Dalvík.

Ég spyr:

 • Hvaða gagn er af áhafnarlausum sjúkrabíl?
 • Vitið þið hjá HSN hvaða réttindi menn þurfa að hafa til að mega aka sjúkrabíl?
 • Hver á að hugsa um þann búnað sem þarf að vera til staðar í sjúkrabílnum?
 • Hafið þið sett ykkur í samband við slökkviliðið í Ólafsfirði varðandi það að mynda vettvangshóp?
 • Hafið þið sett ykkur í samband við björgunarsveitina í Ólafsfirði varðandi það að mynda vettvangshóp?
 • Hafið þið eitthvað kynnt ykkur hversu oft 2 af bílunum hafa verið á ferðinni á sama tíma og hversu oft þeir hafa verið allir 3 á ferðinni á sama tíma? Ég veit að það hefur komið fyrir oftar en einu sinn og oftar en tvisvar!!
 • Þið segið að það kæmi sjúkrabíll frá Dalvík í undantekningartilfellum!! Er það ekki spurning um það hversu oft sjúkrabílarnir eru á ferðinni á sama tíma hvort að þið getið leyft ykkur að kalla það undantekningartilfelli eða ekki?
 • Eruð þið búin að reikna út hversu mikið viðbragðstími sjúkrabíls í tilfellum í Ólafsfirði lengist ef kallaður er út bíll frá Siglufirði? Eins ef þarf að kalla út bílinn á Dalvík?
 • Þá bæði miðað við vetraraðstæður annars vegar og sumaraðstæður hins vegar?
 • Hver er ásættanlegur viðbragðstími sjúkrabíls að ykkar mati? Þegar ég var að vinna sem mest í þessu fyrir nokkrum árum þá var talað um að það væri ekki ásættanlegt ef viðbragðstími sjúkrabíls færi yfir 10 mínútur!! Hef enga trú að þessi ásættanlegi tími hafi eitthvað lengst!!

Þið segist hafa rætt við sveitastjórn Fjallabyggðar og starfsfólk HSN í Fjallabyggð, mér skilst að það hafi farið þannig fram að þið mættuð á svæðið til að segja frá þessum aumu fyrirætlunum ykkar, en ekki til að ræða málin á þeim forsendum að það ætti eftir að taka endanlega ákvörðun, því það var klárlega búið að taka þessa ákvörðun. Ég veit ekki betur en að það sé einhugur hjá sveitastjórn Fjallabyggðar að rekstri sjúkrabílsins í Ólafsfirði verði haldið áfram í óbreyttri mynd, ég er varabæjarfulltrúi og hef rætt þessi mál innan sveitarstjórnarinnar.

Það hvort að sjúkrabíll sé staðsettur í nánasta nágrenni er ein af þeim forsendum sem fólk horfir í þegar það velur sér búsetu og hvar það vill koma upp sinni fjölskyldu.

Fjöldi flutninga sjúkrabílanna á Tröllaskaga árið 2016, flutningar sem eru boðaðir út sem F1 og F2  eru forgangsflutningar, þar sem notast er við bláu forgansljósin og jafnvel sírenur bílsins til að flýta fyrir flutningnum. F3 og F4 eru almennir flutningar.

F3 flutningur þýðir þó ekki alltaf að flutningurinn megi bíða, heldur verður að halda af stað strax.

Ólafsfjörður F1 = 11 flutningar F2 = 20 flutningar F3 = 28 flutningar F4 = 48 flutningar samtals 107 flutningar.

Siglufjörður F1 = 19 flutningar F2 = 43 flutningar F3 = 50 flutningar F4 = 69 flutningar, samtals 181 flutningar.

Dalvík F1 = 20 flutningar F2 = 28 flutningar F3 = 50 flutningar F4 = 27 flutningar, samtals 125 flutningar.

Samtals eru þetta F1 =50  F2 = 91  F3 = 128  F4 = 144 Alls eru þetta 413 flutningar sem ég tel vera þó nokkur fjöldi ferða fyrir þessa 3 sjúkrabíla á Tröllaskaganum.

Það sem af er árinu 2017 er sjúkrabíllinn í Ólafsfirði búinn að fara í F1 = 6 F2 = 4 F3 = 13 F4 =6

Ég er ekki með tölurnar yfir það hvað hinir bílarnir eru búnir að fara í marga flutninga það sem af er árinu 2017

Ekki er nokkur leið til að segja til um það hvernig flutningarnir frá Ólafsfjarðarbílnum myndu skiptast niður á hina tvo bílana. En það er bara einfaldlega svo að sjúkraflutningum hefur farið fjölgandi á hverju ári undanfarin ár.

Hér á eftir koma nokkrar forsendur þess að ég tel klárlega vera mjög góðar ástæður fyrir því að ekki má legga niður sjúkrabílinn í Ólafsfirði.

 

 • Að missa sjúkrabíl af svæðinu er afturför áratugi aftur í tímann. Bæði hefur það áhrif á öryggi bæjarbúa en ekki síður hefur þetta áhrif á val fólks til búsetu eins og gefur að skilja
 • Það búa hérna fjölskyldur sem innihalda fjölskyldumeðlimi með bráðaofnæmi, og hafa þessir einstaklingar þurft að notast við sjúkrabílinn í Ólafsfirði oftar en einu sinni og ósjaldan hafa mínúturnar í viðbragðstímanum skipt höfuðmáli.
 • Viðbragðstíminn verður allt of langur,eykst allavega um c.a. 20 – 25  mín, við bestu aðstæður!! og mun meira eftir því sem aðstæður vera lélegri. Þannig að viðbragðstíminn yrði sennilega aldrei minni en c.a. 30 – 40 mín fyrir þá sem eru staddir í Ólafsfirði og þurfa að nota sér þjónustu sjúkrabíls við bestu veður skilyrði og færð (og miklu meira ef það er eitthvað að veðri og færð). Þrátt fyrir Héðinsfjarðargöng er oft ófært á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á veturna og ennþá oftar ófært á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur,
 • Sjúkrabíllinn í Ólafsfirði er staddur miðsvæðis þeirra þriggja sem staðsettir eru á Tröllaskaganum og er því alltaf með stystan viðbragðstíma ef kalla þarf út aukabíl til Siglufjarðar eða Dalvíkur, eða í slys sem verða úti á þjóðvegi, eða bara slysa almennt
 • Umferð og ferðamannastraumur hefur aukist gríðarlega mikið um Tröllaskagann með tilkomu Héðinsfjarðargangnanna milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem margfaldar slysahættu
 • Í kringum Fjallabyggð eru þjóðvegir sem teljast meðal hættulegustu þjóðvega landsins. Þeir liggja utan í bröttum fjallshlíðum.
 • Fjallabyggð er með 4 jarðgöng þar sem stór og erfið slys geta átt sér stað. Hvað gerist ef það verður stórt slys þar sem margir slasast? Í viðbragðsáætlun jarðgangnanna er gert ráð fyrir viðbragðsteymi beggja megin gangnamunnana mönnuðu fagfólki. Í viðbragðsáætluninni segir: „Í þessari áætlun er fjallað um öll viðbrögð og aðgerðir ef óhöpp og slys verða eins og um ein göng sé að ræða. Ástæðan er sú að líkur á að óhapp verði á sama tíma í báðum göngum eru hverfandi og því ekki fjallað um það tilvik. Talið er að litlu skipti í hvorum göngunum óhapp verður, björgunaraðilar koma að báðum gangamunnum frá Siglufirði og Ólafsfirði þannig að annar hópur björgunaraðila verður alltaf í Héðinsfirði og hinn við munna Siglufjarðar- eða Ólafsfjarðarmegin við göngin sem óhappið verður.“
 • Skólarútan bæði með grunnskólanemendur og framhaldsskólanemendur gengur á milli bæjarkjarnanna oft á dag og oft brestur á með vondu veðri og erfiðri færð sem orsakar almennt mjög erfiðar aðstæður í Héðinsfirðinum á milli gangnanna og sitt hvoru megin við göngin.
 • Ef sjúkrabíll fer í útkall og þarf að fara inn á Akureyri þá eru að minnsta kosti

3 – 4  klst. og oftar en ekki lengri tími sem enginn sjúkrabíll yrði í bæjarfélaginu.

 • Í mjög mörgum tilfellum sem við höfum farið í útköll þá hafa mínúturnar í viðbragðstímanum skipt öllu máli fyrir lífsmöguleika sjúklingsins
 • Í Ólafsfirði er kominn framhaldsskóli með miklum fjölda nemenda og stór hluti þeirra er að ferðast með einkabílum fyrir Múlann frá Ólafsfirði til Dalvíkur og um vegakaflann milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar sem mjög oft verður illfær/ófær í þeim veðrum sem eru hérna fyrir norðan á veturnar. Og veit ég allavega 2 bílveltur núna á árinu 2017þar sem nemendur voru ýmist á leiðinni í eða úr framhaldsskólanum og sjúkrabíllinn í Ólafsfirði var kallaður úr í.
 • Ástundun á jaðarsporti á Tröllaskaganum hefur aukist stórlega, það er verið að flytja fólk á fjöll með þyrlum og snjótroðurum svo það geti skíðað niður, fólk er að labba á fjöll á Tröllaskaganum öllum í auknum mæli og allmargir þeirra skíða niður, það er mikið um að hér sé verið á brimbrettum á vorin. Einnig koma hér stórir hópar vélsleðafólks á hverju ári til að rúnta Tröllaskagann þveran og endilangan. Sérstaklega hér í Ólafsfirði.
 • Það hefur heyrst að uppi séu tilraunir til að koma á fót nýrri atvinnustarfsemi í Ólafsfirði sem myndi bæta við 60 – 70 störfum í Ólafsfirði og ef þetta gengur upp má reikna með því að íbúatalan gæti hækkað um á milli 150 – 250 manns.
 • Það fyrirkomulag sem forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eru að leggja til að verði tekið upp er byggt á frekar veikum stoðum. Að ætla sér að stofna, hvort sem það er innan slökkviliðsins eða björgunarsveitarinnar, viðbragðsteymi sem inniheldur 12 einstaklinga í sjálfboðavinnu, hafa hugsanlega ekki séð það fyrir hvernig eða hvort hægt sé að koma því fyrir. Og að halda því fram að sjúkrabíllinn í Ólafsfirði verði staðsettur áfram í Ólafsfirði áhafnalaus er væntanlega bara fyrirsláttur og til þess gert að slá ryki í augu íbúa Fjallabyggðar.Og hvernig ætlar HSN að haga því hvernig aðgengi að sjúkrabílnum, og þar af leiðandi þeim búnaði og lyfjum sem í honum er, verður. Þarna inni í bílskúrnum er einnig geymdur annar bíll sem er í notkun Heilsugæslunnar, og í honum búnaður til notkunar í útköllum fyrir hann.
 • Það eru mörg dæmi þess að sjúkrabílar hafi staðið notkunarlausir inni í bílskúrum víða um landið árum saman vegna þess að þeim sem á þeim unnu var sagt upp störfum.

Ég skora hér með á Jón Helga Björnsson forstjóra HSN að hann komi í Ólafsfjörð og haldi opinn fund fyrir íbúa Tröllaskagans í Menningarhúsinu Tjarnarborg og leggi fram rökstuðning HSN fyrir þessari aðgerð áður en þau leggja niður starfsemi sjúkrabílsins í Ólafsfirði.

 Áhafnalaus sjúkrabíll!!!
Er gagnslaus sjúkrabíll!!!

Undirritaður vann í nokkur ár sem sjúkraflutningamaður í Ólafsfirði og er því vel kunnugur því hversu nauðsynlegt er að sjúkrabíllinn verði áfram starfandi í Ólafsfirði. Einnig er ég varabæjarfulltrúi B-listans í Fjallabyggð.

Jón Valgeir Baldursson
Íbúi í Ólafsfirði / Fjallabyggð.
 

Endurbætur á flugstöðinni á Siglufjarðarflugvelli

Endurbætur á húsnæði flugstöðvarbyggingar við Siglufjarðarflugvöll er hafin en þrjú fyrirtæki buðu í verkið.  Berg ehf. á Siglufirði bauð lægst í verkið en kostnaðaráætlun var 3.841.500 kr. og Berg var lægstbjóðandi og bauð 3.510.000 kr. Endurbæturnar á flugstöðinni eru í samræmi við samning ISAVIA við Framkvæmdasýslu ríkisins sem hefur leigt húsið undir vinnu við snjóflóðavarnir samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa ISAVIA.

Sveitarfélagið Fjallabyggð vonast til að flugbrautin sjálf verði opnuð á næsta ári fáist fjárveitingar í viðhald og lagfæringu á slitlagi á vellinum. Opnun flugvallarins skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og einnig sjúkraflug.

Eftirfarandi tilboð bárust í verkið: 
Berg ehf. 3.510.000
Minný ehf 3.631.000
L7 ehf 3.773.350

Hannesarskjól vígt á Sauðárkróki

Í kjölfar setningarhátíðar Sæluviku Skagfirðinga í Safnahúsi Skagfirðinga í gær var haldin formleg vígsluathöfn Hannesarskjóls á Nöfunum ofan Sauðárkróks en það er hlaðið til heiðurs skagfirska rithöfundinum Hannesi Péturssyni. Hugmyndin að Hannesarskjóli kom frá Sigurði Svavarssyni útgefanda Opnu bókaútgáfu, þ.e. að heiðra Hannes og búa honum minnismerki á Nöfunum með vísan í bókina.  Skeifan veitir vegfarendum skjól en um leið útsýni yfir gamla bæinn á Króknum, sem voru æskuslóðir Hannesar, og Skagafjörðinn í allri sinni dýrð. Inni í skeifunni er bekkur og fyrir framan hann eru tvenn fótspor, annars vegar barns og hins vegar fullorðins manns, sem vísa þannig í frásagnir/minningarbrot bókarinnar. Fyrir ofan bekkinn er koparplatti með tilvitnun í Hannes. Það er Sveitarfélagið Skagafjörður sem stendur fyrir þessu verkefni en það naut jafnframt stuðnings úr Menningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga og Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Helgi Sigurðsson hleðslumeistari frá Stóru-Ökrum hlóð skeifuna.

Hannes Pétursson er sennilega sá Skagfirðingur á síðari öldum sem þekktastur er fyrir ritstörf. Bókin Jarðlag í tímanum fjallar um uppvaxtarár Hannesar á Sauðárkróki og Skagafirði. Jarðlag í tímanum hefst uppi á Nöfum og endar þar líka og því má segja að Hannesarskjól kallist á við ritverkið, þar sem hann tekur sér stöðu á Nöfunum og „skyggnist yfir svið bernsku sinnar norður í Skagafirði, rifjar upp mannlífið á Króknum, sumrin frammi í sveit, vegagerð á stríðsárunum og dregur upp minnisstæðar myndir af samferðamönnum í listilega smíðuðum frásögnum“.

Heimild og mynd: skagafjordur.is

 

B-lið Blakfélags Fjallabyggðar fékk gull

Fimm lið frá Blakfélagi Fjallabyggðar hafa lokið móti á Mosöld, öldungamótinu í blaki. Bestan árangur náði BF-B í karlaflokki en þeir unnu sína deild, þeir spiluðu sex leiki og töpuðu aðeins einum leik. BF-A í karlaflokki lék í mjög jafnri deild og enduðu með 9 stig um miðja deild og vantaði aðeins tvö stig til að enda efstir. Liðið tapaði báðum leikjum sínum á öðrum keppnisdegi 2-1 en vann lokaleikinn í gær 2-1.

Kvennalið BF-1 spilaði í 4. deild og enduðu í þriðja neðsta sæti í mjög jafnri deild. Þær unnu tvo leiki og töpuðu fjórum og enduðu með 7 stig.

BF-2 spilaði í 6. deild A kvenna. Þær áttu gott mót og enduðu í þriðja efsta sæti með jafnmörg stig og Hrunamenn. Þær unnu fjóra af sex leikjum sínum.

BF-3 spilaði í 8. deild B kvenna. Þær enduðu í þriðja neðsta sæti með sex stig. Þær unnu tvo leiki og töpuðu fjórum.

Sæluvika í Skagafirði

Á morgun sunnudaginn 30. apríl verður formleg setning Sæluviku Skagfirðinga í Safnahúsinu á Sauðárkróki. Sæluvikan er gamall menningarviðburður en upphaflega kallaðist vikan Sýslufundarvika og þá kom sýslunefnd Skagafjarðarsýslu saman til fundarhalda. Það er fjölbreytt dagskrá framundan í dag og næstu daga enda um flotta lista- og menningarhátíð að ræða.

Dagskrá næstu daga:

Laugardagur:

Lionsklúbbarnir í Skagafirði halda Kótilettukvöld í Íþróttahúsinu á Sauðárkróki í dag, laugardaginn 29. apríl, kl.20:00 – Húsið opnar kl. 19:30.  Safnað er fyrir Skynörvunarherbergi, í Iðju-dagþjónustu og hæfingu, fyrir fatlað fólk. Skemmtiatriði á skagfirska vísu. Veislustjóri er Agnar Gunnarsson frá Miklabæ.

Tónleikar í Hóladómkirkju. Fram koma Skagfirskir strengir auk gesta frá strengjadeild Tónlistarskólans á Akranesi. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem er haldin annað hvert ár. Verkefnið er samstarfsverkefni Þjóðleikhússins, menningarráða og fleiri aðila á landsbyggðinni.

Sunnudagur:

Opnunarhátíð Sæluviku Skagfirðinga verður sunnudaginn 30. apríl og verður haldin í Safnahúsi Skagfirðinga kl. 13:00. Ávarp – afhending Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2017 – tónlistaratriði – úrslit í Vísnakeppni kynnt.

Æskan og hesturinn – samstarfssýning hestamannafélaganna á Norðurlandi þar sem unga fólkið í viðkomandi félögum er með sýningaratriði á hestum. Sýningin er opin öllum og aðgangur er ókeypis.

Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir „Beint í æð“ eftir Ray Cooney. Leikstjóri er Jóel Sæmundsson. Íslensk heimfærsla verksins er eftir Gísla Rúnar Jónsson

Mánudagur:

Kirkjukór Sauðárkrókskirkju syngur undir stjórn Rögnvaldar Valbergssonar organista. Gestasöngvari er Hugrún Sif Hallgrímsdóttir. Aðgangseyrir 2.000 kr.

1. maí dagskrá í Fjallabyggð

Dagskrá Einingar-Iðju í Fjallabyggð verður í salnum við Eyrargötu 24b Siglufirði frá kl. 14:30 til 17:00, mánudaginn 1. maí.

Dagskrá:

 • Ávarp 1. maínefndar stéttarfélaganna
  • Margrét Jónsdóttir flytur ávarp stéttarfélaganna

Laugardaginn 15. maí 1999 var formlega gengið frá samruna Verkalýðsfélagsins Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Félaginu var valið nafnið Eining-Iðja. Þótt þetta sameinaða félag eigi sér þannig séð ekki langa sögu stendur það á gömlum merg því félögin eiga sér hvort um sig langa og merka sögu í baráttu verkafólks fyrir réttindum sínum. Sögu Iðju má rekja allt aftur til ársins 1936 og er stofndagur félagsins talinn 29. mars það ár. Verkalýðsfélagið Eining varð til 10. febrúar 1963 með sameiningu Verkakvennafélagsins Einingar og Verkamannafélags Akureyrarkaupstaðar. Rætur Einingar ná þó mun lengra aftur og má segja að fyrsta fræinu hafi verið sáð árið 1894 þegar Verkamannafélag Akureyrarkaupstaðar, hið eldra, var stofnað.

 

Blakfélag Fjallabyggðar á öldungamótinu í blaki

Blakfélag Fjallabyggðar sendi 5 lið á öldungamótið í blaki sem hófst í dag í Mosfellsbæ. Tvö lið eru karla og þrjú kvennalið. Karlalið BF-A keppti 3 leiki í dag og vann tvo þeirra. Þeir spila í 2. deild og eru efstir eftir leiki dagsins og hafa 5 stig. Fyrsti leikur BF-A var gegn KA-Ö. Lokatölur 2-1 (25-15, 22-25, 15-10) Næsti leikur var BF-A gegn ÍS-A og hann tapaðist 1-2 (25-17, 23-25, 10-15). Þriðji leikurinn var KA-96-BF-A og vann BF 1-2 (25-16, 19-25, 6-15).

Lið BF-1 spilar í 4. deild kvenna. Þær léku einnig þrjá leiki í dag og voru í þriðja sæti eftir daginn. Fyrsti leikur þeirra var gegn Völsungi-C en hann tapaðist 1-2 (25-22, 21-25, 6-15). Þær unnu næsta leik 2-0 gegn HK-Wunderblak A  (25-11, 25-24). Svo kom tapleikur á móti Fylki-B. 2-1 (21-25, 25-21, 15-8).

Kvennalið BF-2 leika í 6. deild kvenna og þær spiluðu þrjá leiki í dag. Fyrsti gegn Lansinn b, en hann tapaðist 2-1, (25-24, 17-25, 13-15). Næsti leikur var gegn Gróttu og hann tapaðist 2-0, (25-10, 25-15). Þriðji leikurinn var í kvöld gegn Völsungi en úrslit eru ekki komin á netið.

Kvennalið BF-3 leikur svo í 8. deild kvenna og þær léku tvo leiki í dag. Fyrsti leikurinn gegn Stjörnunni, tapaðist 2-0, (25-19, 25-12). Næsti leikur var gegn Völsungi-E og hann vannst 2-0, (25-10, 25-16).

Stórir styrkir til Fjallabyggðar

Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra úthlutaði í dag, 79 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings.  Sjóðurinn er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019. Uppbyggingarsjóður er samkeppnissjóður og  veitir verkefnastyrki til menningarverkefna,  atvinnuþróunar og nýsköpunar  auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála. Alla styrkina má sjá hér.

Uppbyggingarsjóði bárust samtals 156 umsóknir, þar af 45 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 111 til menningar.  Sótt var um 231,5 m.kr.,  þar af 110,5 m.kr. til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 121 m.kr. til menningarstarfs. Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 77 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 79 m.kr. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnin er rúmar 690 m.kr.

 • Kvæðamannafélagið Ríma í Fjallabyggð hlaut 100.000 kr. styrk
 • Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hlaut 500.000 kr. styrk
 • Skíðafélag Siglufjarðar Skíðaborg vegna Super Troll Ski Race  hlaut 500.000 kr. styrk
 • Hjarta bæjarins ehf vegna Hin siglfirska Mjallhvít, hlaut 1.000.000 styrk.
 • Alþýðuhúsið á Siglufirði hlaut 1.300.000 kr. styrk
 • Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, hlaut 1.800.000 kr. styrk
 • Fjallasalir ses. vegna Safnamála í Ólafsfirði / Flutningur og endurhönnun Náttúrugripasafns Ólafsfjarðar,  hlaut 3.000.000 styrk
 • Félag um Ljóðasetur Íslands hlaut 1.000.000 kr. styrk
 • Þórarinn Hannesson vegna: Margbreytilegur einfaldleiki, hlaut 200.000 kr. styrk

 

Kennara vantar í Dalvíkurskóla

Dalvíkurskóli leitar að öflugum kennurum í eftirtaldar stöður frá og með 1. ágúst 2017.

Náttúrufræðikennara á unglingastig í 70% starf og umsjónarkennara á miðstig í 100% starf. Umsóknarfrestur er til 05. maí 2017.

Hæfniskröfur:

 •           Grunnskólakennarapróf
 •           Tilbúinn að vinna eftir fjölbreyttum og árangursríkum kennsluaðferðum
 •           Hugmyndaríkur, jákvæður og sveigjanlegur
 •           Hefur frumkvæði og metnað í starfi og getu til að vinna í teymi
 •           Hæfni í mannlegum samskiptum og nær vel til barna
 •           Tilbúinn að takast á við fjölbreyttar áherslur í skólastarfi

 

Dalvíkurskóli er 220 nemenda grunnskóli. Einkunnarorð skólans eru: Þekking og færni, virðing og vellíðan. Skólinn leggur áherslu á snemmtæka íhlutun í námi nemenda. Skólastarfið byggist á teymiskennslu kennara. Í skólanum er m.a. unnið eftir kennsluaðferðunum Byrjendalæsi, Orð af orði og PALS. Dalvíkurskóli flaggar Grænfánanum. Í Dalvíkurskóla er lögð áhersla á að starfsfólki líði vel í starfi og þar er jákvæðni höfð að leiðarljósi. Allir skólar í Dalvíkurbyggð starfa eftir Uppbyggingarstefnunni.

Upplýsingar gefur Gísli Bjarnason skólastjóri Dalvíkurskóla gisli@dalvikurbyggd.is símar 4604980 og 8631329. Umsókn ásamt ferilsskrá skal sent á netfangið gisli@dalvikurbyggd.is.