Category Archives: Norðurland

Nýr sveitarstjóri ráðinn á Skagaströnd

Sveitarfélagið Skagaströnd hefur ráðið Alexöndru Jóhannesdóttur lögfræðing sem sveitarstjóra. Ráðningin var staðfest á fundi sveitarstjórnar í gær miðvikudaginn 12. september með öllum greiddum atkvæðum. Greint er frá þessu á vef Skagastrandar.

Alexandra lauk grunnprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 en meistaraprófi innan sömu greinar og frá sama skóla árið 2016.

Alexandra hefur frá námi starfað m.a. sem lögfræðingur á Fisksistofu ásamt því að hafa yfirumsjón með samningaferlum og sinnt verkefnastjórnun hjá Listahátíð í Reykjavík. Í dag sinnir Alexandra störfum fyrir IP eignarhaldi og er framkvæmdastjóri tveggja félaga undir þeirri samsteypu ásamt því að sitja í stjórnum sjö mismunandi fyrirtækja.

Í störfum sínum hefur Alexandra því komið að fyrirtækjarekstri, sinnt almennum lögfræðistörfum m.a. á sviði ráðgjafar, samningagerðar og gerð viðskiptaáætlana. Jafnframt hefur Alexandra sinnt tengslum við samstarfsaðila og viðskiptavini víðsvegar um heiminn.

Alexandra hefur unnið að ýmsum félagsstörfum og starfaði lengi sem sjálfboðaliði fyrir Rauða Krossinn. Einnig sinnti hún kennslu og umönnun barna og ungmenna hjá Osaberima Educational Center í Ghana í Vestur Afríku árið 2008.

Gert er ráð fyrir að hún hefji störf fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd í desember.

Heimild: skagastrond.is

Norræn bakarasamtök funduðu á Siglufirði

Landssamtök bakaría og kökugerða á Norðurlöndum héldu sinn árlega fund í vikunni og að þessu sinni var fundurinn haldinn á Siglufirði. Fulltrúar Íslands voru Jóhannes Felixson og Ragnheiður Héðinsdóttir.

Á fundinum var fjallað um fjölbreytt málefni sem varða bökunariðnaðinn og starfsumhverfi hans, eins og stöðu og þróun á matvörumarkaði, menntamál, samkeppnismál, kjaramál og ýmis fagleg málefni.

Myndir með frétt frá Samtökum Iðnaðarins, www.si.is
Mynd: Sa.is

Tjaldsvæðið í Ólafsfirði verður ekki opið árið um kring

Rekstraraðilar Tjaldsvæðis Fjallabyggðar í Ólafsfirði óskuðu eftir að svæðið yrði opið allt árið um kring þar sem húsbílar væru á ferli langt fram eftir hausti og snemma á vorin. Bæjarráð Fjallabyggðar hefur hafnað þessari beiðni þar sem tjaldsvæðið í Ólafsfirði sé með mjög svipaðan opnunartíma og önnur tjaldsvæði á Norðurlandi, fyrir utan á Blönduósi og í Kjarnaskógi á Akureyri sem opin eru allt árið, en aðeins sé þó full þjónusta yfir sumartímann. Hinsvegar er í skoðun að samræma tímann við tjaldsvæðið á Siglufirði, sem sé opið til 15. október, en í Ólafsfirði hefur svæðið lokað 15. september fram til þessa.

 

Vilja breyta umferðarhraða á þjóðvegum í þéttbýli Dalvíkurbyggðar

Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar hefur lýst yfir áhyggjum af umferðarhraða á þjóðvegunum í gegnum þéttbýli í Dalvíkurbyggð. Óskað verður eftir breytinga á umferðarhraða í samráði við Vegagerðina.

Breytingar sem óskað er eftir:

  • Árskógssandur: Umferðarhraði merktur 50 km/kls við Sólvelli (við þéttbýlismörk) og 35 km/kls rétt við hraðahindrunina hjá Öldugötu.
  • Hauganes: Umferðarhraði merktur 35 km/kls við þéttbýlismörk.
  • Dalvík: Umferðarhraði á Gunnarsbraut, Hafnarbraut og Skíðabraut verði lækkaður niður í 35 km/kls.
Ljósmynd: Upplýsingamiðstöð Dalvíkurbyggðar

16 sóttu um stöðu sveitarstjóra Skagastrandar

Starf sveitarstjóra Skagastrandar var auglýst öðru sinni í byrjun ágúst mánaðar en umsóknarfrestur rann út 27. ágúst síðastliðinn. Þegar staðan var auglýst í fyrra skiptið sóttu sjö um en eftir seinni auglýsinguna bættust níu umsækjendur við. Á vef Skagastrandar kemur fram að ráðið verður fljótlega í stöðuna.

Umsækjendur eru:

Alexandra Jóhannesdóttir
Arnar Kristinsson
Gerður Ólína Steinþórsdóttir
Guðbrandur Jóhann Stefánsson
Heimir Eyvindsson
Kristinn Óðinsson
Jón Sigurðsson
Snorri S. Vidal
Sveinbjörn Freyr Arnaldsson

Umsækjendur sem sótt höfðu áður um stöðuna og ekki dregið umsókn til baka eru:

Gunnólfur Lárusson
Hjörleifur H. Herbertsson
Ingimar Oddsson
Kristín Á. Blöndal
Linda B. Hávarðardóttir
Ragnar Jónsson
Sigurbrandur Jakobsson

Mynd: Magnús Rúnar Magnússon /Héðinsfjörður.is

Miklar malbikunarframkvæmdir á Skagaströnd

Malbikun á Skagaströnd hófst um miðja síðustu viku þegar malbikunarflokkurinn lagði fyrstu fermetrana á útsýnsistaðinn á Spákonufellshöfða. Næstu daga verður lagt malbik víða um bæinn bæði á plön og götur. Alls er gert ráð fyrir að malbika 15.700 fermetra. Þar af verða 8.500 fm nýlagnir á plön og götur og 7.200 fm yfirlagnir á gamalt og lélegt slitlag gatna. Reiknað er með að malbikunarframkvæmdir standi yfir fram til 15. september en getur þó farið eftir veðri hvernig gengur.

Íbúar eru beðnir að virða athafnasvæði malbikunarflokksins og þær lokanir sem nauðsynlegt er að setja bæði í öryggisskyni og til að malbikið skemmist ekki á meðan það er að kólna. Sömuleiðis er fólk beðið að leggja ekki bílum í þær götur og á þau svæði sem malbikun er að hefjast á.

Mynd: Magnús Rúnar Magnússon /Héðinsfjörður.is

Framkvæmdum lokið á dýpkun Sauðárkrókshafnar

Síðustu vikur hefur verið unnið að dýpkun Sauðárkrókshafnar á dýpkunarskipinu Galilei frá Belgíska fyrirtækinu Jan De Nul. Dýpkaður hefur verið snúningshringur innan hafnarinnar ásamt því að dýpkað var við innsiglingu inn í höfnina. Dýpkunin gekk vel en nokkrar tafir urðu á framkvæmdum vegna fasts efnis í botni og fíns efnis á yfirborði innan hafnarinnar. Framkvæmdum lauk um síðastliðna helgi.

Formleg lyklaskipti í Ráðhúsinu á Sauðárkróki

Formleg lyklaskipti fóru fram í Ráðhúsinu á Sauðárkróki í upphaf síðustu viku þegar Ásta Pálmadóttir, fráfarandi sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, afhenti nýjum sveitarstjóra, Sigfúsi Inga Sigfússyni lyklana. Oddvitar meirihlutans, Stefán Vagn Stefánsson og Gísli Sigurðsson, þökkuðu Ástu vel unnin störf og óskuðu henni velfarnaðar á komandi tímum og buðu þeir nýjan sveitarstjóra velkominn til starfa.

Þetta kemur fram á vef Skagafjarðar.

Dalvíkingar komnir upp í 2. deild

Dalvík/Reynir tók á móti Knattspyrnufélaginu Hlíðarenda (KH) í gær á Dalvíkurvelli í næstsíðustu umferð Íslandsmótsins í 3. deild karla. Sigur eða jafntefli í þessum leik hefði þýtt öruggt sæti fyrir Dalvík/Reyni í 2. deild að ári með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum. Dalvík/Reynir vann fyrri leik liðanna í sumar 0-1 á heimavelli KH. KH hefði með sigri í þessum leik getað blandað sér í baráttuna um 2. sæti deildarinnar, og því var mikið í húfi fyrir bæði lið. Dalvíkingar höfðu ekki landað sigri í síðustu leikjum og var því mikilvægt að ná í góð úrslit í þessum leik.

Dalvíkingar byrjuðu vel og skoruðu á 16. mínútu með marki frá Þorra Mar, hans fjórða mark í 17 deildarleikjum í sumar. Staðan var 1-0 í hálfleik fyrir heimamenn. Undir lok síðari hálfleiks þá jafna gestirnir metin með marki á 87. mínútu og var þar að verki Pétur Þorkelsson, 18 ára, með sitt fyrsta mark fyrir KH í tveimur leikjum í sumar. Lokatölur í þessum leik urðu 1-1 og var það nóg til þess að Dalvík/Reynir tryggi sér sæti í 2. deild á næsta ári.

Næsti leikur er gegn KF á Ólafsfjarðavelli og þarf Dalvík/Reynir jafntefli eða sigur til að tryggja sér 1. sæti deildarinnar. Leikurinn fer fram laugardaginn 15. september kl. 14:00.

KF tapaði á KR-vellinum – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék í dag við Knattspyrnufélag Vesturbæjar á KR-vellinum í Reykjavík í næstsíðustu umferð 3. deildar karla í knattspyrnu. Gríðarleg spenna er á toppnum þessar síðustu umferðir mótsins og mörg lið í góðum séns að tryggja sér sæti í 2. deild að ári. KF var með engan leikmann í banni í þessum leik eins og síðustu leiki, en Ljubomir Delic var þó tæpur fyrir leikinn og byrjaði á bekknum. KF vann fyrri leik liðanna á Ólafsfjarðarvelli í sumar 2-0 og hafði KF ekki tapað í fimm síðustu umferðum Íslandsmótsins.

KV var fyrir leikinn í öruggu sæti fyrir ofan fallsæti og átt ekki séns á að komast upp um deild eins og KF keppir að. Töluverð pressa var því á liði KF fyrir leikinn, enda liðið í góðu færi að tryggja sér 2. sæti deildarinnar.

Heimamenn byrjuðu þó leikinn mun betur og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 8. mínútu, og var það Jón Konráð með sitt fyrsta mark á tímabilinu. Staðan var svo 1-0 í hálfleik, en KF gerði strax skiptingu í hálfleik og útaf fór leikmaður nr. 23, Friðrik Örn og inná kom leikmaður nr. 5, Kristófer Andri. Strax á 3. mínútu síðari hálfleiks þá skora heimamenn aftur og komast í 2-0, og útlitið orðið frekar dökkt fyrir KF. Þjálfari KF reyndi að svara þessu og gerði fjórar skiptingar til viðbótar í síðari hálfleik, en inn vildi boltinn ekki. Lokatölur urðu því 2-0 fyrir KV.

KFG vann sinn leik og komust því upp fyrir KF, sem féll niður í 3. sæti þegar ein umferð er eftir af Íslandsmótinu. Möguleikinn felst núna í því að vinna Dalvík/Reyni í lokaumferðinni og vona að KFG sigri ekki sinn leik.

Hvernig sem síðasta umferðin fer þá hefur lið KF leikið vel síðari hluta mótsins og farið fram úr væntingum margra.

Dalvík/Reynir gerði jafntefli í dag og hefur tryggt sér sæti í 2. deild að ári.

Næsti leikur KF er gegn Dalvík/Reyni á Ólafsfjarðarvelli, laugardaginn 15. september kl. 14:00.

Nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu á Akureyri

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur fallist á ósk Öldrunarheimila Akureyrar um gerð samnings til að hrinda í framkvæmd nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu. Með breyttu þjónustuformi og betri nýtingu fjármuna á að stórauka möguleika aldraðra til að búa á eigin heimili þrátt fyrir mikla þörf fyrir stuðning og þjónustu.

Kynningarfundur um þetta nýja þjónustuform var haldinn í velferðarráðuneytinu í dag. Auk heilbrigðisráðherra og fulltrúa frá Öldrunarheimilum Akureyrar sátu fundinn forseti bæjarstjórnar Akureyrar, fulltrúi frá Félagi eldri borgara á Akureyrar og varaformaður Landssambands eldri borgara.

Öldrunarheimili Akureyrar hafa unnið að þróun þessa verkefnis um nokkurt skeið. Við undirbúninginn er byggt á reynslu, ábendingum og rannsóknum, sem hafa dregið fram afdráttarlausa þörf fyrir einstaklingsmiðaðar áherslur og sveigjanlegri þjónustu en staðið hefur til boða hingað til. Markmið verkefnisins er að umbreyta og aðlaga þjónustu sem nú er veitt með skammtímadvöl í svokölluðum hvíldarrýmum og bjóða þess í stað upp á fjölbreytta dagþjónustu með þjálfun o.fl. þar sem unnt er að mæta ólíkum þörfum notenda, bæði hvað varðar inntak þjónustunnar og opnunartíma.

Fjölbreytt og sveigjanleg þjónusta alla daga ársins

Áformað er að breyta notkun tíu hjúkrunarrými sem notuð hafa verið til hvíldarinnlagna en byggja þess í stað upp mun sveigjanlegra þjónustuform sem fleiri geta nýtt sér á hverjum tíma. Verkefnið felur ekki í sér útgjaldaauka, heldur er verið að breyta nýtingu þeirra fjármuna sem nú renna til reksturs hjúkrunarrýmanna tíu, samtals á bilinu 110 til 120 milljónir króna á ári.

Áhersla verður lögð á dagþjónustu með opnunartíma fram á kvöld, alla daga vikunnar og einnig um hátíðir. Þá er horft til þess að hægt verði að mæta aðstæðum fólks sem kalla á sólarhringsdvöl, til dæmis vegna tímabundinna veikinda.

„Framsækið verkefni sem getur haft mikil áhrif á þróun öldrunarþjónustu á landsvísu“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir kærkomið að sjá hversu vel sé búið að móta hugmyndafræðina að baki verkefninu og setja fram trúverðugt svar við ákalli um aukinn sveigjanleika og þjónustu sem tekur meira mið af einstaklingsbundnum þörfum fólks og ólíkum aðstæðum: „Þetta er framsækið verkefni sem getur haft mikil áhrif á þróun öldrunarþjónustu á landsvísu ef vel tekst til“ segir ráðherra.

Heilbrigðisráðherra mun fela Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga um verkefnið. Vonir standa til að unnt verði að hrinda því í framkvæmd í byrjun næsta árs.

Heimild og mynd: stjornarrad.is

99% kennara í grunnskólum á Akureyri eru háskólamenntaðir

Kennsla og almennt starf er nú hafið í öllum grunn- og leikskólum Akureyrarbæjar. Athygli vekur að hlutfall faglærðra og háskólamenntaðra í kennara er hátt og hefur hækkað smá saman síðustu árin.  Nemendur í leikskólum Akureyrarbæjar í vetur eru um 980 en grunnskólanemar eru 2730. Í haust hófu 276 börn leikskólagöngu en 285 hófu skólagöngu í 1. bekk grunnskólanna á Akureyri.

Búið er að ganga frá ráðningum í leikskólana og er hlutfall leikskólakennara og annarra háskólamenntaðra starfsmanna um 90%. Hlutfall grunnskólakennara og annarra háskólamenntaðra starfsmanna við kennslu í grunnskólum á Akureyri er um 99%.

Í lok ágúst voru 25 dagforeldrar starfandi á Akureyri og 3 nýir voru væntanlegir til starfa.

Heimild: Akureyri.is

Orlofsbyggðin á Illugastöðum 50 ára

Í tilefni þess að nú eru 50 ár liðin frá opnun orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum í Fnjóskadal verður haldinn sérstakur Illugastaðadagur sunnudaginn 9. september milli kl. 13:00 og 17:00. Allir eru velkomnir í Orlofsbyggðina á Illugastöðum í Fnjóskadal. Til sýnis verða nokkur hús, það verður ókeypis í sund, boðið verður upp á kaffi og kleinur og grillaðar pylsur.

 

Samherji semur um smíði á nýju skipi

Samherji hefur samið um smíði á nýju uppsjávarskipi við Karstensen Skipsverft í Skagen, Danmörk.  Skipið sem á að afhenda um mitt sumar árið 2020 verður vel búið í alla staði, bæði hvað varðar veiðar og meðferð á afla, sem og vinnuaðstöðu og aðbúnað áhafnar.

Burðargeta skipsins verður um 3.000 tonn af kældum afurðum.

Nýsmíðin mun leysa af hólmi núverandi Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins fyrir 18 árum.  Samningar voru fullfrágengnir þann 4. september en þann dag hefðu tvíburabræðurnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinsssynir orðið 90 ára gamlir, Baldvin lést 21. desember árið 1991 og Vilhelm þann 22. desember árið 1993.

Afmælisdagur þeirra bræðra, 4. september, hefur áður tengst stórviðburðum í sögu fyrirtækisins. Þann 4. september árið 1992 var nýsmíði Samherja, Baldvin Þorsteinssyni EA 10, gefið nafn og  3. september árið 2000 var núverandi Vilhelm Þorsteinssyni EA 11 gefið nafn.  Ástæðan fyrir 3. september var sú að 4. september bar upp á mánudag.

Hjátrú hefur lengi fylgt lífi sjómannsins þar sem haldið er í hefðirnar til að reyna að tryggja farsæla heimkomu og góðan afla og voru þeir bræður engin undantekning. Á tímabili þegar Baldvin starfaði sem skipstjóri þurfti hann iðulega að fara í ákveðna peysu áður en nótinni var kastað en peysuna hafði hann erft eftir mág sinn, Alfreð Finnbogason, hinn mikla aflaskipstjóra.

Samherji heldur í góðar hefðir líkt og bræðurnir Vilhelm og Baldvin gerðu. Til að mynda skulu skip ekki fara til veiða á nýju ári á mánudegi né nýr starfsmaður að hefja störf. Það er því engin tilviljun að gengið var frá samningum um smíði nýs skips á þessum degi 4. september.

Heimild: Aðsend fréttatilkynning /  Samherji.is

Samningur um nýsmíði kláraður.

Benecta Open á Siglógolf

Laugardaginn 8. september kl. 14:00 verður haldið Texas Scramble golfmót á Siglógolf á Siglufirði. Ræst er út frá öllum teigum og leiknar verða 18 holur.  Hámarks leikforgjöf hjá körlum er 24 og konum 28. Karlar spila á svörtum teigum og konur á hvítum teigum.

Verðlaun eru fyrir fyrstu þrjú sætin.

Leggja til 5% hækkun félagslegra íbúða í Fjallabyggð

Í úttekt KPMG á stöðu félagslegra íbúða hjá Fjallabyggð kemur fram að núverandi leiguverð stendur ekki undir skuldsetningu íbúðasjóðs. Einnig að leiguverð er lægra hjá Fjallabyggð en meðalleiguverð á Norðurlandi eystra sem nemur 22,8%. Er þessi samanburður án Akureyrarbæjar. Leiguverð á hvern fermetra hjá Fjallabyggð er í dag  1115 kr.  Félagsmálanefnd Fjallabyggðar hefur því lagt til við bæjarráð Fjallabyggðar að leiguverð félagslegra íbúða verði hækkað um 5%.  Þetta var rætt á fundi Félagsmálanefndar Fjallabyggðar þann 5. september síðastliðinn.

3471 ferðamenn heimsóttu Upplýsingamiðstöðvar Fjallabyggðar

Alls heimsóttu 3471 ferðamenn Upplýsingamiðstöðvar Fjallabyggðar frá maí til ágúst í ár. Af þeim fjölda komu 3.207 ferðamenn á Upplýsingamiðstöðina á Siglufirði og er það 2,43% aukning frá síðasta ári. 264 ferðamenn komu á Upplýsingamiðstöðina í Ólafsfirði og fækkar þeim um 16% miðað við tölur frá árinu 2017. Þetta kemur fram á vef Fjallabyggðar.

Árið 2017 var met ár í fjölda heimsókna á Upplýsingamiðstöðvar í Fjallabyggð en milli áranna 2016 og 2017 fjölgaði ferðamönnum um ríflega 73% milli ára á Siglufirði og 39% í Ólafsfirði.

 

Heimild: Upplýsingamiðstöð ferðamála í Fjallabyggð.

Tjaldstæðið á Siglufirði

Mesta aukning í umferð á Norðurlandi í ágúst

Umferðin í nýliðnum ágúst mánuði, um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi, jókst um 3,8% miðað við sama mánuð á síðasta ári.  Umferð jókst í öllum svæðum nema á Suðurlandi en mældan samdrátt á því svæði má líkast til skrifa á viðgerðir á Ölfursárbrú og malbikunarframkvæmdir á Hellisheiði. Mest jókst umferð um Norðurland eða um 6,6%. Mesta aukning á einstaka stöðum var um Mývatnsheiði eða aukning um 14,4%. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Gistihúsið Hvanneyri til sölu á Siglufirði

Gistihúsið Hvanneyri við Aðalgötu 10 á Siglufirði er nú auglýst til sölu. Lítill sem enginn rekstur hefur verið undanfarið í húsinu, en núverandi eigandi hefur staðið í miklum endurbótum á húsnæðinu síðasta árið. Lögheimili Eignamiðlun er nú með húsið á söluskrá ásamt húsinu við Vetrarbraut 4.  Óskað er eftir tilboði í eignina, en fasteignamat eignarinnar er rúmar 30 milljónir króna og brunabótamatið er tæplega 170 milljónir. Húsið verður selt með tólum og tækjum til að reka hótel og  veitingastað. Alls eru 24 herbergi á Hvanneyri.

Nýir eigendur tóku við árið 2016 en til stóð að hefja rekstur aftur í síðastliðið haust.

Húsið var byggt sem hótel árið 1935, á síldarárunum góðu þegar uppgangur var hvað mestur á Siglufirði. Frá þeim tíma hefur ýmis starfsemi verið þar til húsa, t.d. Sparisjóður Siglufjarðar og Tónskólinn á Siglufirði. Um tíma átti Þormóður Rammi húsið og var með rekstur sinn þar, en var síðan aftur tekið í gegn og gert að gistiheimili.  Gistiheimilið Hvanneyri opnaði árið 1995 eftir töluverðar endurbætur.

Gistihúsið er á fjórum hæðum og alls hefur verið hægt að taka á móti sextíu manns. Á Hvanneyri hefur verið boðið er upp á bæði svefnpokapláss og uppbúin rúm. Í húsinu er koníakstofa og morgunverðarsalur.

Annað grænt skref hjá MTR

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur tekið annað skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og fengið það vottað og viðurkennt. Sorpflokkun hefur verið aukin og er ekki lengur hægt að henda nema flokka. Notkun pappírshandþurrka á salernum var hætt og í staðinn hefur komið blásturshandþurrkun eða handklæði. Aðeins er keyptur umhverfisvottaður pappír í MTR og sama gildir um vörur sem unnar eru úr pappír. Þá hefur skólinn sett sér stefnu sem hefur að markmiði að gera starfsemina umhverfisvænni, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan.  Þetta kemur fram á vef mtr.is.

Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst haustið 2014.  Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa tekið þátt í að aðlaga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi  stofnana og draga úr kostnaði.

Ljósmynd: Bjarni Grétar Magnússon / Héðinsfjörður.is

47 tóku þátt í Bæjarkeppni í golfi milli GHD og GFB

Bæjarkeppni Golfklúbbsins Hamars Dalvík og Golfklúbbs Fjallabyggðar var haldin síðastliðinn þriðjudag á Arnarholtsvelli í Dalvíkurbyggð. Alls tóku 47 keppendur þátt í þessu skemmtilega móti. GHD vann með 148 punktum gegn 140 hjá GFB. Leiknar voru níu holur í þessu móti.

8 bestu punktar töldu fyrir hvort lið.

GFB kylfingar Punktar
Björg Traustadóttir 20
Friðrik Hermann Eggertsson 19
Ármann Viðar Sigurðsson 18
Sara Sigurbjörnsdóttir 17
Dagný Finnsdóttir 17
Konráð Þór Sigurðsson 17
Björn Kjartansson 17
Guðrún Fema Sigurbjörnsdóttir 15
Samtals 140

GHD kylfingar Punktar
Indíana Auður Ólafsdóttir 21
Sigurður Jörgen Óskarsson 20
Snævar Bjarki Davíðsson 19
Heiðar Davíð Bragason 18
Aðalsteinn M Þorsteinsson 18
Sigurður Jóhann Sölvason 18
Dónald Jóhannesson 17
Hlín Torfadóttir 17
Samtals 148

Úrslit í kvennamóti GFB

Kvennamót Golfklúbbs Fjallabyggðar og Nivea var haldið laugardaginn 1. september síðastliðinn á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Alls voru 24 konur skráðar til leiks og voru þær allar leystar út með glæsilegum gjöfum frá Nivea, Kalda og S1. Rósa Jónsdóttir fékk flesta punkta í forgjafarflokki 0-22 og Sara Sigurbjörnsdóttir fékk flesta punkta í forgjafarflokki 22.1-40 og einnig verðlaun fyrir besta skorið.  Að móti loknu var glæsilegt kaffihlaðborð í boði GFB kvenna.

Úrslit voru eftirfarandi:

Í flokki 0-22 í forgjöf
1.sæti Rósa Jónsdóttir GBF 27 punktar
2.sæti Dagný Finnsdóttir GFB 26 punktar
3.sæti Anna Freyja Edvardsd GA 26 punktar

Í flokki 22,1-40 í forgjöf
1.sæti Sara Sigurbjörnsdóttir GFB 35 punktar
2.sæti Hlín Torfadóttir GHD 27 punktar
3.sæti Ásta Sigurðardóttir GFB 26 punktar

Einnig voru veitt verðlaun fyrir besta skorið.
Sara Sigurbjörnsdóttir GFB 88 högg.

Lengsta teighögg í flokki 0-22 gerði Lísbet Hannesdóttir GA. Næst holu á 8/17 í flokki 0-22 var Björg Trausta GFB og var 6,30 m frá holunni.

Ljósmyndir með frétt: Golfklúbbur Fjallabyggðar

Síldarminjasafnið fékk veglega málverkagjöf

Fjölskylda Orra Vigfússonar færði Síldarminjasafninu á Siglufirði veglega gjöf á dögunum en það var stórt og mikið málverk úr eigu Orra og föður hans, Vigfúsar Friðjónssonar, síldarsaltanda. Verkið málaði þýskur listamaður upp úr 1950, eftir ljósmynd að ósk Vigfúsar. En málverkið sýnir miklar stæður af síldartunnum sem bíða útflutnings, milli húsa á þeim slóðum sem Vigfús rak síldarsöltun sína, Íslenskan fisk, á árunum 1953-1960. Alfonshúsið, sem um tíma var heimili fjölskyldunnar, er í forgrunni til hægri og fremstir á myndinni standa þeir feðgar, Vigfús og Orri. Síldarminjasafnið greinir frá þessu á vef sínum.

Orri fæddist á Siglufirði árið 1942 en lést í júlí árið 2017. Sautján ára fluttist hann til Lundúna þar sem hann lagði stund á viðskiptafræði við London School of Economics.
Orri gegndi fjölmörgum ábyrgðarstöðum og var áberandi í íslensku viðskiptalífi. Hann sat meðal annars í stjórn Íslandsbanka um árabil og einnig í stjórn Íslenska sjónvarpsfélagsins – sem þá rak og átti Stöð 2.

Orri beitti sér fyrir uppbyggingu Norður-Atlantshafs laxastofnsins og var stofnandi NASF, Verndarjóðs villtra laxastofna þar sem hann gengdi ennfremur formennsku.

Myndir með frétt: Síld.is – Síldarminjasafnið.

Lýðheilsugöngur í Fjallabyggð í september

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands (FÍ) verða vítt og breitt um landið nú í september og ætlar sveitarfélagið Fjallabyggð að vera með í ár eins og í fyrra.  Göngurnar munu fara fram alla miðvikudaga í septembermánuði og verður brottfaratími frá kl. 17:00-18:00 eftir færð, veðri og gönguleið. Um er að ræða fjölskylduvænar göngur sem taka  u.þ.b. 60-90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Fyrsta gangan verður þann 5. september með Ferðafélagi Ólafsfjarðar og gengið verður í Siglufjarðarskarð. Farastjóri er Harpa Hlín Jónsdóttir.

Texti: fjallabyggð.is

 

Ljósmynd: Héðinsfjörður.is

Bora eftir köldu vatni á Sauðárkróki

Á næstu dögum mun hefjast borun á könnunarholu fyrir kalt vatn á Sauðárkróki á Nafabrúnum ofan við Lindargötu. Holan er staðsett á landi í eigu sveitarfélagsins Skagafjarðar og er staðsetning holunnar ákveðin í samráði við sérfræðinga hjá ÍSOR, Íslenskum orkurannsóknum. Áætlað er að bora niður á um 50 m dýpi. Ef neysluhæft vatn finnst í nýtanlegu magni í holunni er áætlað að tengja holuna við stofnlögn vatnsveitu sem liggur frá Sauðárgili og að vatnstönkum á Gránumóum.

KF komið í 2. sætið eftir sigur á KH – Umfjöllun í boði Arion banka

Arion banki í Fjallabyggð er styrktaraðili fréttaumfjallana um Knattspyrnufélag Fjallabyggðar í sumar.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Knattspyrnufélagið Hlíðarendi mættust í 16. umferð 3. deildar karla í hádegisleik á Ólafsfjarðarvelli í dag. Mikið var undir þessum leik og mátti hvorugu liðinu við því að tapa stigum í dag. KH vann fyrir leik liðanna í sumar á Valsvelli og var því komið af hefndum hjá KF sem hefur verið á mikilli siglingu í deildinni síðari hluta sumars og hafa sýnt mikinn vilja við að ná í úrslit. Aðeins munaði einu stigi og einu sæti á liðunum fyrir þennan leik.

Ljubomir Delic og Andri Snær Sævarsson komu úr leikbanni hjá KF en Grétar Áki Bergsson og Halldór Logi Hilmarsson voru báðir í leikbanni í þessum leik.  Ljubomir Delic byrjaði á bekknum í þessum leik en það er afar sjaldgæft að sjá þennan sterka leikmann ekki í byrjunarliði KF, en hann meiddist lítilega á æfingu fyrir leikinn. Andri Snær fór beint aftur í byrjunarliðið eftir leikbann. Halldór Ingvar markmaður var fyrirliði KF í fjarveru Grétars Áka í þessum leik.

Fyrsta mark leiksins kom á 30. mínútu og var það Austin Diaz leikmaður númer 14 hjá KF sem það gerði, og var þetta hans þriðja mark í 6 leikjum fyrir félagið. Á lokamínútu fyrri hálfleiks skoraði Ingólfur Sigurðsson (nr. 10) fyrir KH og nær að jafna metin rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks, hans 8. mark í 15 leikjum í deildinni í sumar. Staðan var því 1-1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik færðist meira fjör í leikinn og KF nær aftur forystu þegar um 5 mínútur voru búnar af seinni hálfleik og var það Aksentije Milisic (nr. 7),og hans 4. mark í 16 leikjum í deild og bikar í sumar. Staðan orðin 2-1 og enn var nægur tími fyrir fleiri mörk. Aðeins 7 mínútum síðar gerir KF nánast útum leikinn með góðum spilkafla, en Jakob Auðun (nr.12) kom KF í 3-1, hans annað mark í 14 deildarleikjum í sumar.  á 63. mínútu kemst KF í 4-1 með marki frá Birni Andra (nr. 6), hans 6. mark í 16 deildarleikjum í sumar. Þegar nokkrar mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma þá fær KF dæma vítaspyrnu, og á punktinn steig Aksentije Milisic (nr. 7), en hann misnotaði spyrnuna og markmaður KH varði vel. Á síðustu 10 mínútum leiksins gerði KF 3 skiptingar til að fá freska menn inn á völlinn.

Þegar 90. mínútur voru komnar á vallarklukkuna, þá skorar Ingólfur sitt annað mark fyrir KH og minnkar muninn í 4-2. Lengra náðu gestirnir ekki og vann KF öruggan sigur 4-2 í þessum mikilvæga leik. Fimmti sigur KF í röð í deildinni staðreynd !

Nú þegar aðeins tvær umferðir eru eftir af Íslandsmótinu þá er KF með tveggja stiga forystu í 2. sæti deildarinnar, en á 2 mjög erfiða leiki eftir. Næsti leikur er útileikur gegn KV í Vesturbæ og svo heimaleikur gegn Dalvík/Reyni.

Núna er það í höndum KF að sækja stigin sem þarf úr þessum leikjum til að tryggja sæti sitt í 2. deild á næsta ári  ! Allir á völlinn og áfram KF.

Framkvæmdir á Skíðasvæðinu í Skarðsdal fram í október

Vegagerðin hóf breytingar í ágúst á Skarðsvegi (793) Skarðsdal í Siglufirði, á kafla sem byrjar skammt neðan við núverandi skíðaskála og nær að fyrirhuguðum skíðaskála sunnan Leyningsár.  Lengd nýja vegkaflans er um 1,22 km auk 5.300 m2 bílastæðis við efri enda kaflans, sem mun taka um 200 bíla, en gamla stæðið tók 50 bíla. Áætlað er að verkinu verði lokið fyrir 1. október.

Við þessar breytingar verður til nýtt byrjendasvæði fyrir skíðafólk, neðsta lyftan fer upp á Súlur og verður kölluð Súlulyfta og T-lyftan styttist í 800 metra en var áður 1000 metrar, eða um tvö möstur. Við þessar breytingar mun skíðasvæðið byrja í 320 metrum yfir sjávarmáli, en var áður í 200 metrum yfir sjávarmáli.