Category Archives: Norðurland

Skagfirskar leiguíbúðir auglýsa eftir umsóknum

Skagfirskar leiguíbúðir hses. hafa auglýst eftir umsóknum um úthlutun íbúða í almenna íbúðaleigukerfinu.  Um er að ræða tvær tveggja herbergja og sex þriggja herbergja íbúðir að Laugatúni 21, 23, 25 og 27 á Sauðárkróki.

Markmið Skagfirskra leiguíbúða með byggingu almennra íbúða er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum skv. 10. gr. laga um almennar leiguíbúðir við upphaf leigu, með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Um byggingu og útleigu íbúðanna gilda lög um almennar íbúðir nr. 52/2016.

Almennum íbúðum er úthlutað til þriggja ára í senn samkvæmt forgangsröðun Skagfirskra leiguíbúða hses. Stjórn Skagfirskra leiguíbúða úthlutar íbúðunum eftir að farið hefur verið yfir allar umsóknir. Stefnt er að því að íbúðirnar verði tilbúnar til afhendingar í ársbyrjun 2020.

Umsóknir skulu berast til ráðhússins á Sauðárkróki. Með umsókninni skal fylgja afrit af síðasta skattframtali og afrit af þremur síðustu launaseðlum umsækjenda.

Umsóknarfrestur er til og með 20. nóvember 2019.

Umsóknir og frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu www.skagafjordur.is undir linknum “Umsóknir & eyðublöð”. Tekið er við fyrirspurnum á netfangið leiguibudir@skagafjordur.is.

BF sigraði Þrótt í Vogum í fimm hrinu leik

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar heimsótti Þrótt í Vogum í Vogabæjarhöllinni í dag í Benecta deildinni í blaki. Leikurinn var gríðarlega spennandi og flestar hrinur mjög jafnar.  Gonzalo þjálfari BF spilaði sínar fyrstu mínútur þegar hann skiptir sér inná í tveimur hrinum, en hann var eini varamaður liðsins í þessum leik.  Lið Þróttar í Vogum var skipað ellefu erlendum leikmönnum í þessum leik og virðast þeir hafa úr nægum mannskapa af velja. Jason Ívarsson fyrrum formaður BLÍ dæmdi leikinn og voru 30 áhorfendur í stúkunni.

Í fyrstu hrinu var allt í járnum þar til undir lok hrinunnar.  Jafnt var í 5-5, 8-8 og 12-12. Heimamenn tóku leikhlé í stöðunni 12-15 en þá hafið BF gert fjögur stig í röð.  Kom nú góður kafli hjá Þrótti sem minnkuðu muninn í 14-16 og jöfnuðu 16-16. Aftur var jafnt í 18-18 en urðu þá kaflaskil og BF var mun sterkara liðið í lokin og unnu hrinuna örugglega 18-25 með því að skora síðustu 7 stigin.

Í annari hrinu leiddu heimamenn mest allan tímann en náðu þó aldrei góðu forskoti á BF. Staðan var 6-3, 9-4 og 11-6. Átti þá BF góðan kafla og jöfnuðu 14-14 og tóku heimamenn leikhlé. Aftur var jafnt í 17-17 en skoruðu þá Þróttarar 4 stig á móti einu og komust í 21-18 og tók nú BF leikhlé. Mikil spenna var í lok hrinunnar og kom þjálfari BF inná fyrir Guðjón Fannar í stöðunni 23-23 til að freista þess að sigra hrinuna. Heimamenn voru þó sterkari í lokin og sigruðu 25-23 og jöfnuðu 1-1.

Í þriðju hrinu skiptust liðin á að ná forystu og var leikurinn jafn alla hrinuna til enda. BF komst í 5-7 en Þróttur svaraði strax og komust í 9-7 með góðu spili. Áfram var jafnt næstu mínútur en í stöðunni 15-15 náði Þróttur undirtökunum og skoruðu fjögur stig á móti einu og komust í 19-16. BF tók þá leikhlé til að freista þess að brjóta upp leikinn. Þróttur var hins vegar sterkari í lok hrinunnar og komust í 23-19 og tók þá BF aftur leikhlé og inná kom Gonzalo fyrir Guðjón Fannar. BF náði góðum leik og jöfnuðu 23-23 með fjórum stigum í röð, en það voru heimamenn sem unnu hrinuna 25-23 og voru komnir í 2-1.

BF voru mun sterkari í fjórðu hrinu og leiddu alla hrinuna og náðu á tímabili góðu og sannfærandi forskoti. Jafnt var í 4-4 en þá skoraði BF 8 stig í röð og tóku Þróttarar tvö leikhlé á þessum kafla og var staðan orðin 4-12. BF var áfram sterkari og komust í 10-17 og tóku þeir leikhlé á þessum tímapunkti. Þróttarar komust aftur inn í leikinn og söxuðu jafnt og þétt á forskot BF. Staðan var orðin 17-19 og 20-22.  Gríðarlega mikil spenna var í lok þessarar hrinu og tóku BF strákarnir leikhlé í stöðunni 22-24 og náðu svo að innsigla sigurinn 22-25 og jöfnuðu leikinn 2-2.

Í fimmtu hrinunni, oddahrinunni, byrjuðu Þróttarar vel og komust í 5-1 og 7-3. BF voru seinir í gang en jöfunuðu þó 8-8 og tóku nú gestirnir leikhlé. Við tók frábær kafli hjá BF og skoruðu þeir sex stig í röð og var staðan skyndilega orðin 8-14. Þróttur náði einu stigi en BF kláraði hrinunna 9-15 og unnu þar með leikinn 2-3.

Spennandi og langur leikur sem var hjá þessum liðum og frábært fyrir BF að sækja þennan sigur.

 

 

 

 

 

Hrekkjavökuball á Hofsósi

Hið árlega hrekkjavökuball félagsmiðstöðvarinnar Friðar var haldið í gærkvöld í Höfðaborg á Hofsósi. Um 120 unglingar í 8.-10. bekk úr öllum Skagafirði og Fjallabyggð mættu sem ýmiskonar furðuverur í Höfðaborg. Unglingastigið á Hofsósi var búið að leggja mikinn metnað í einstaklega drungalegar skreytingar.
Dj. Ne$iNe$ þeytti skífum að sinni alkunnu snilld. Verðlaun voru veitt fyrir frumlegasta búninginn og var það Rebekka Helena Róbertsdóttir sem hlaut þau verðlaun og fyrir besta búninginn vann Jón Gabríel Marteinsson.
Ballið heppnaðist mjög vel og voru krakkarnir til mikilla fyrirmyndar.

Myndir með frétt koma frá Húsi Frítímans í Skagafirði.

Myndir frá Húsi Frítímans.
Myndir frá Húsi Frítímans.

Mynd frá Hús Frítímans.

Mynd frá Hús Frítímans.

Mynd frá Hús Frítímans.

Steinunn María nýr safnstjóri Flugsafns Íslands á Akureyri

Í dag tók Steinunn María Sveinsdóttir sagnfræðingur til starfa sem safnstjóri Flugsafns Íslands. Steinunn tekur við af Gesti Einari Jónassyni sem hefur gegnt starfi safnstjóra síðastliðin 10 ár.

Steinunn er með BA gráðu í sagnfræði og safnafræði frá Aarhus Universitet auk þess sem hún hefur lagt stund á meistaranám í safnafræði við Háskóla Íslands. Undanfarin fimm ár hefur hún starfað sem fagstjóri Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði.

Mynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon
Flugsafn Íslands
Mynd: Héðinsfjörður.is / Magnús Rúnar Magnússon

 

Vélarvana bátur dreginn til Siglufjarðar

Klukkan rúmlega 8:00 í morgun fékk Björgunarsveitin á Dalvík og Björgunarsveitin Tindur úr Ólafsfirði útkall vegna vélarvana báts, 2,3 sjómílur norður af Hrólfskeri. Leki var kominn að bátnum. Línubáturinn Sólrún EA-151 rakst á rekald í utanverðum Eyjafirði, en honum til bjargar kom annar bátur sem var á svæðinu og tók Sólrúnu í tog. Vörður, björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Dalvík var sendur með dælur. Allt fór vel að lokum og gekk togið til Siglufjarðar vel.

Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi fyrirtæki ársins á Norðurlandi

Venju samkvæmt veitti Markaðsstofa Norðurlands þrjár viðurkenningar á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi, sem var haldin í Hörgarársveit og Dalvíkurbyggð að þessu sinni. Óhætt er að segja að hátíðin hafi í alla staði tekist vel og eru öllum þeim samstarfsaðilum færðar þakkir sem tóku vel á móti hátíðargestum, sem er sömuleiðis þakkað fyrir frábæra skemmtun í gær. Morgunljóst er að þetta er dagur sem fáir samstarfsaðilar okkar láta framhjá sér fara.

Fyrirtæki ársins

Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Í ár eru það tvö fyrirtæki sem fá þessa viðurkenningu sameiginlega, það eru Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi.

Haugnesingar hafa verið öflugir í ferðaþjónustu síðustu ár og á þessu ári hefur verið gefið enn frekar í, með tilkomu heitu pottanna í flæðarmálinu og nýrrar aðstöðu við tjaldsvæðið. Í fyrra fagnaði Hvalaskoðunin 25 ára starfsafmæli, en þetta elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins gerir út tvo eikarbáta og býður farþegum sínum að kolefnisjafna ferðirnar sínar. Ektafiskur á sér svo enn lengri sögu, en saltfiskverkun þessa fjölskyldufyrirtækis má rekja aftur í fimm ættliði. Ferðamenn geta smakkað á saltfisknum á Baccalá Bar, sem var opnaður fyrir fáeinum árum og hefur notið vinsælda síðan.

Saman hafa þessi tvö fyrirtæki náð að þróa þjónustu sína þannig að Hauganes er orðinn eftirsóknarverður áfangastaður sem vekur athygli og umtal. Þau byggja á traustum grunni, því samfélagi og umhverfi sem er til staðar á Hauganesi en sinna á sama tíma vel þörfum sinna viðskiptavina. Samvinna fyrirtækjanna er til fyrirmyndar og sýnir vel hvaða árangri er hægt að ná með samstarfi og áherslu á að kynna einn heildarpakka þó að um tvö mismunandi fyrirtæki sé að ræða.

Störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi

Viðurkenninguna fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandfær einstaklingur sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Í ár er það Skagfirðingurinn Evelyn Ýr Kuhne sem hlýtur þessa viðurkenningu.

Á Lýtingsstöðum hefur Evelyn, ásamt fjölskyldu sinni, byggt fyrirtækið sitt upp í 20 ár og stöðugt unnið að því að bæta þjónustuna við ferðamenn. Hestaferðir og hestasýningar eru hennar aðalsmerki en einnig er boðið upp á gistingu og skoðunarferðir með leiðsögn um torfhesthúsið sem byggt var upp fyrir örfáum árum. Aðstaðan á Lýtingsstöðum hefur verið byggð upp til þess að taka á móti hópum og er meðal annars boðið uppá hljóðleiðsögn. Í torfhesthúsinu sem byggt var skv gömlum hefðum hefur verið komið fyrir búnaði sem sýnir hvernig líf hestamannsins var fyrr á árum og hefur Horses and heritage pakki hennar þar sem boðið er upp á fræðslu um þetta vakið mikla athygli. Evelyn hefur verið öflug í að taka á móti fjölmiðlum og skapað þannig góða athygli á svæðinu. Hún er einnig drífandi fyrir fólk í ferðaþjónustu í sínu nærumhverfi, hefur stutt við samstarf á milli þess og tryggt þátttöku annarra í hinum ýmsum verkefnum. Félag ferðaþjónustunnar í Skagafirði hefur notið góðs af kröftum hennar um árabil og mun væntanlega áfram, enda er Evelyn stöðugt að kynna sér nýjungar og sækja fræðslu sem kemur bæði henni og kollegum til góða.

Heimild og texti: Markaðsstofa Norðurlands.

Rúmlega helmingur landsmanna heimsótt Hrísey

Rúmlega helmingur landsmanna hefur heimsótt Hrísey um ævina og 17% á síðustu fimm árum samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar sem Gallup gerði fyrir Akureyrarstofu.

Langalgengasta ástæða þess að fólk hefur ekki heimsótt Hrísey er að hugmyndin um heimsókn hefur ekki kviknað og að fólk hreinlega veit ekki hvað þangað er að sækja. Þetta bendir til þess að full ástæða sé til að auka markaðssetningu Hríseyjar sem gefi um leið gott færi á að efla ferðaþjónstu þar og styrkja búsetu í eyjunni. Mjög fáir nefna að það taki of langan tíma að sigla út í Hrísey eða kosti of mikið, enda tekur sjóferðin rétt um 15 mínútur og kostar aðeins 1.500 kr. báðar leiðir.

Það sem helst dregur fólk út í Hrísey er náttúran og gönguleiðirnar (24%), hópaferðir til dæmis með vinnufélögum (22%), kyrrðin (18%) og heimsókn til ættingja (16%).

Könnunin er hluti af markaðsátaki Akureyrarstofu sem hefur það að markmiði að auka áhuga Íslendinga á að heimsækja Hrísey. Markaðsátakið nýtur stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra.

Heimild: Akureyri.is

Nemendur í MTR fengu leiðsögn í skotfimi og boccia

Nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga prófuðu fjölbreyttar íþróttir í síðustu viku.

Nemendur fengu að reyna sig í skotfimi og prófa bæði riffil og haglabyssu í síðustu viku. Það gerðist við öruggar aðstæður á skotsvæðinu á Siglufirði undir stjórn Rögnvaldar Jónssonar og Gunnars Óskarssonar.

Nemendurnir nýttu íþróttahúsið í Ólafsfirði, fóru í boltaleiki og gerðu ýmsar æfingar. Meðal annars voru prófaðar nýjar útfærslur á gömlum leikjum sem reyndu á ýmsa vöðva sem ekki eru í daglegri notkun. Í íþróttahúsinu á Siglufirði var farið í bandý og hópurinn fékk kynningu á boccia hjá Helgu Hermannsdóttur.

Klifur var iðkað á þar til gerðum veggjum bæði úti og inni og einnig reyndu nemendur sig í kassaklifri.

Hópur nemenda fór í yoga hjá Erlu Jóhannsdóttir. Æfingarnar þóttu mjög erfiðar. Þær reyndu á styrk, jafnvægi, og liðleika en endað var á slökun. Annar hópur fór í crossfit hjá Guðrúnu Ósk Gestsdóttur, sem hafði heildarumsjón með miðannaráfanganum. Honum lauk með útileikjum og grillveislu í skógræktinni á Siglufirði.

Fleiri myndir má finna á vef MTR.

Heimild: mtr.is

Helgihald í Ólafsfjarðarkirkju

Helgihald sunnudagsins 27. október í Ólafsfjarðarkirkju. Barnastarf kl. 11:00 – Biblíusaga, söngur og Hafdís og Klemmi. Litir og djús í safnaðarheimilinu

Helgistund á Hornbrekku kl. 14:30.

Guðsþjónusta kl. 20:00 í Ólafsfjarðarkirkju. Látinna minnst. Sérstaklega minnst þeirra sem jarðsett hafa verið í Ólafsfjarðarkirkjugarði á umliðnu ári.
Kerti frá Iðju dagvist á Siglufirði verða seld í kirkjugarðinum ­á 500 kr. stk.

Alexander Már farinn frá KF

Alexander Már Þorláksson markamaskína KF er farinn til Fram og hefur gert 2 ára samning við félagið og mun því leika í Inkassódeildinni á næsta ári. Alexander lék fyrir Fram árið 2014 og lék 16 leiki í deild og bikar og skoraði 5 mörk. Ári síðar mætti hann til KF og sló í gegn og skoraði 18 mörk í 21 leik. Um þetta má lesa á vef Knattspyrnudeildar Fram. KSÍ hefur ekki enn birt félagsskiptin.

Ljóst er að KF þarf að finna einhvern öflugan markaskorara í staðinn fyrir Alexander sem var algjör lykilmaður í sumar.

Mynd:; fram.is

Sköpun og verk í Tjarnarborg

Sýningin Sköpun og verk er að þessu sinni tileinkuð handverki, sköpun, hönnun og kynningu á félagsstarfi í Fjallabyggð.   Sýningin verður í Menningarhúsinu Tjarnarborg fyrsta vetrardag 26. október og verður opin frá kl. 13:00 – 17:00.

Þátttakendur á sýningunni verða:

 • Edda Björk Jónsdóttir – Prjónað, heklað og þæfð ull.
 • Ólafur Stefánsson – Leðursaumur og dúkrista.
 • Kamilla Ragnarsdóttir – Heimagerð baðsölt, sápur og kerti.
 • Kiwanisklúbburinn Skjöldur Fjallabyggð verður með kynningu á starfi klúbbsins

Námskeið um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta

Síldarminjasafn Íslands stendur fyrir námskeiði um bátavernd og viðgerð gamalla trébáta vikuna 11.-15. nóvember næstkomandi. Námskeiðið er ætlað iðnnemum, safnmönnum og öðrum áhugamönnum um bátavernd. Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður og forsvarsmaður Báta- og hlunnindasýningarinnar að Reykhólum sér um kennslu en Hafliði hefur áralangra reynslu af nýsmíði trébáta sem og viðgerðum gamalla. Sambærileg námskeið hafa farið fram á vegum safnsins síðastu ár og tekist afar vel til.

Í upphafi námskeiðs fer fram leiðsögn um það hvernig ástand gamals báts skal metið og í framhaldinu verður hafist handa við verklega kennslu. Námskeiðið fer fram með þeim hætti að unnið er alla daga, frá mánudegi til föstudags, frá 8:00 – 18:00 síðdegis. Nemendur taki fullan þátt í smíði og annarri vinnu undir handleiðslu kennara.

Unnið verður að viðgerð tveggja báta sem varðveittir eru í Gamla Slippnum. Annars vegar verður unnið að viðgerð á byrðingi Gunnhildar ÓF18, 2. brl. afturbyggðs súðbyrðings úr furu og eik, frá árinu 1982 og hins vegar verður unnið að viðgerð á Lóu, vestfirskum árabát úr furu frá árinu 1930. Lóa var smíðuð af Sigurði Sigurðssyni beyki í Bolungarvík og þarf að skipta um efsta umfarið, borðstokkinn, endursmíða kollharða og bönd.

Meðal markmiða Síldarminjasafnsins er að standa vörð um forna þekkingu á smíði opinna tréskipa á Íslandi og er námskeiðið skipulagt í samræmi við samning safnsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Gamli Slippurinn er kjörinn vettvangur til námskeiðshalds, en um er að ræða verkstæði frá árinu 1934, sem komst í eigu Síldarminjasafnsins árið 2011. Þar er að finna gömul verkfæri og trésmíðavélar til bátasmíða sem nemendur notast við á meðan námskeiðinu stendur. Sem dæmi má nefna stóran amerískan þykktarhefil og bandsög sem eru orðin hundrað ára gömul, og enn í notkun.

Staðsetning: Gamli Slippurinn, Siglufirði
Tími: 11. – 15. nóvember 2019
Fjöldi: 7 nemendur að hámarki
Verð: Ekkert námskeiðsgjald. Uppihald á eigin kostnað.
Umsóknarfrestur: 4. nóvember 2019
Skráning: anita@sild.is

 

Texti: sild.is

Atvinnuleysi lækkar um 0,7% á milli mánaða í Fjallabyggð

Atvinnuleysi mældist 2,9% í september 2019 í Fjallabyggð og lækkaði um 0,7% á milli mánuða. Alls voru 32 án atvinnu í Fjallabyggð í september en voru 39 í ágúst. Alls eru 19 konur og 13 karlar án atvinnu í Fjallabyggð, en 8 færri karlar voru án atvinnu í september miðað við ágúst 2019.

Þá voru 21 án atvinnu í september 2019 í Dalvíkurbyggð. Þar af voru 12 karlar og 9 konur og mældist atvinnuleysi 2,0% í Dalvíkurbyggð.

Á Akureyri voru 329 án atvinnu og 16 í Eyjafjarðarsveit. Í Skagafirði voru aðeins 12 án atvinnu og mældist atvinnuleysi aðeins 0,5%.

Menntuðum leikskólakennurum fækkar

Í desember 2018 störfuðu 1.600 leikskólakennarar í leikskólum á Íslandi, eða 28,1% starfsfólks við uppeldi og menntun barna, og hefur þeim fækkað um 360 frá árinu 2013 þegar þeir voru flestir. Leikskólakennurum undir þrítugu fækkaði sérstaklega mikið, enda var nám leikskólakennara lengt um tvö ár fyrir nokkrum árum. Lenging námsins er þó ekki eina skýringin á fækkun leikskólakennara, því þeim fækkaði í öllum aldurshópum undir 50 ára aldri.

Starfsfólk við uppeldi og menntun barna, sem hefur lokið annarri uppeldismenntun, s.s. grunnskólakennaranámi, þroskaþjálfun, diplómanámi í leikskólafræðum eða leikskólaliðanámi var 1.068 talsins. Ófaglært starfsfólk var rúmlega helmingur (53,2%) starfsfólks við uppeldi og menntun leikskólabarna í desember 2018.

Alls störfuðu 6.176 í leikskólum í desember 2018 og hafði fjölgað um 158 (2,6%) frá fyrra ári, þrátt fyrir að leikskólabörnum hafi fækkað á milli ára. Stöðugildum fjölgaði um 2,1% og voru 5.400.

Hagstofan greinir frá þessu.

Mynd 1. Starfsfólk við uppeldi og menntun eftir menntun 2018

Tæplega helmingur eins árs barna sækja leikskóla
Í desember 2018 sóttu tæplega 19 þúsund börn leikskóla á Íslandi, og fækkaði um 1,4% frá árinu áður. Barngildum, sem eru reiknuð ígildi barna til að meta þörf fyrir starfsfólk, fækkaði þó minna, eða um 0,8%. Skýringin er sú að yngri börnum fjölgaði meira en þau vega þyngra í útreikningi barngilda þar sem krafist er fleira starfsfólks fyrir yngri börn en þau sem eldri eru.

Hlutfall barna sem sækir leikskóla er óbreytt frá fyrra ári eða 87%, þegar litið er til 1-5 ára barna. Alls sóttu 95-97% tveggja til fimm ára barna leikskóla og 48% eins árs barna.

Miklu munar á hlutfalli eins árs barna í leikskólum eftir landsvæðum. Á Vestfjörðum sóttu 79% eins árs barna leikskóla og 68% á Austurlandi. Hlutfall eins árs barna í leikskóla var langlægst á Suðurnesjum, eða 11%.

Börnum með erlent móðurmál og erlent ríkisfang fjölgar
Börn með erlent móðurmál voru 2.572 í desember 2018, 13,7% leikskólabarna, og hafa ekki áður verið fleiri börn með erlent móðurmál í íslenskum leikskólum. Pólska er algengasta erlenda móðurmál leikskólabarna eins og undanfarin ár, og höfðu 985 börn pólsku að móðurmáli. Næst flest börn hafa ensku að móðurmáli (265 börn) og því næst koma spænska (117 börn) og litháska (103 börn). Önnur erlend tungumál voru töluð af færri en 100 leikskólabörnum.

Börnum með erlent ríkisfang fjölgaði einnig, og voru 1.362 í desember 2018, 7,3% leikskólabarna. Einkum fjölgaði börnum frá Asíu, Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum.

Tæplega 1.900 börn njóta sérstaks stuðnings
Í desember 2018 nutu 1.888 börn sérstaks stuðnings vegna fötlunar, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika, eða 10,1% leikskólabarna. Hlutfall barna sem nutu stuðnings var svipað og árið 2015 en hærra en árin 2016 og 2017, þegar 9,7% barna nutu stuðnings. Eins og undanfarin ár voru fleiri drengir í þessum hópi og nutu 12,9% drengja og 7,2% stúlkna stuðnings árið 2018. Þetta er hæsta hlutfall stúlkna með stuðning sem Hagstofan hefur mælt í sínum könnunum.

Rúmlega 250 leikskólar starfandi
Í desember 2018 voru 253 leikskólar starfandi, einum færri en árið áður. Sveitarfélögin ráku 211 leikskóla en 42 leikskólar voru reknir af öðrum aðilum. Árið 2018 voru 15 leikskólar opnir allt árið en 184 skólar voru opnir í 48-49 vikur. Leikskólum sem eru opnir allt árið hefur fækkað en þeir voru 25 árið 2008 og 89 árið 1998. Allir leikskólarnir sem voru opnir allt árið 2018 voru á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur.

Texti: Hagstofan.is

Heilt hús flutt um miðbæ Ólafsfjarðar

Í lok síðustu viku var gamalt bárujárnsklætt timburhús flutt í miðbæ Ólafsfjarðar en húsið var flutt frá Reykjum. Húsið hafði áður verið flutt frá Ólafsfirði árið 1982 þegar Sparisjóðshúsið við Aðalgötu 14 var byggt.

Það var Árni Helgason verktaki sem flutti húsið ásamt aðstoðarmönnum. Húsinu var svo lyft með stórum krana á nýjan stað eftir flutninginn.  Fyrirtækið Trésmíði hefur yfirumsjón með verkinu.

Myndir með frétt: Jón Valgeir Baldursson
Myndir með frétt: Jón Valgeir Baldursson

Myndir með frétt: Jón Valgeir Baldursson

Karlalið BF vann HKarlana örugglega

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við HKarlana í Benecta deildinni í blaki í dag á Siglufirði. HKarlarnir eru sumir hverjir með mikla reynslu í blaki í meistaraflokki en aðrir aðeins með reynslu úr öldungamótum. HKarlarnir mættu þó með þunnskipaðan hóp í þetta verkefni og vantað meðal annars Karl Sigurðsson sem er margfaldur Íslandsmeistari með HK. HKarlarnir höfðu þó tapað síðustu tveimur leikjum og BF tapað síðustu þremur leikjum.

Gonzalo þjálfari BF var í stuttbuxum á hliðarlínunni og var kominn á leikskýrsluna og gerði sig líklegan að taka þátt ef einhver væri ekki að standa sig í dag. Daníel Pétur Daníelsson var kominn aftur í lið BF eftir fjarveru í fyrstu leikjum vetrarins, og munar um minna.

HKarlarnir byrjuðu fyrstu hrinu ágætlega og komust í 1-5 og var uppspilarinn Birkir Elmarsson öruggur í sínum aðgerðum og verkfræðingurinn Guðmundur Jónsson var öflugur í hávörninni að vanda. BF komust hinsvegar fljótt inn í leikinn og jöfnuðu 7-7 og náðu í framhaldi forskoti og yfirhöndinni í hrinunni. BF komst í 13-9 og 18-11 og tóku nú HKarlarnir leikhlé til að kasta mæðinni, enda liðið komið yfir léttasta skeiðið. BF hélt áfram að spila vel og komust í 21-12 og 24-15 og höfðu mikla yfirburði í hrinunni. Uppspilið var almennt með ágætum hjá liðinu og minna var um þessa föstu skotbolta sem hafa ekki verið að ganga upp í síðustu leikjum. BF kláraði hrinuna örugglega 25-16 og var komið í 1-0.

Í annarri hrinu var meiri sveifla á forystunni en BF byrjaði vel og komst í 7-3 en þá hrukku HKarlarnir í gang og skoruðu 9 stig í röð og breyttu stöðunni í 7-12 og í millitíðinni tók þjálfari BF leikhlé. BF komst aftur í gang og minnkuðu muninn í 12-14 og jöfnuðu svo 17-17. BF náði loks yfirhöndinni og komust í forystu 21-18 og 22-20 og var talsverð spenna í lok hrinunnar. BF kláraði svo hrinuna örugglega 25-21 eftir sveiflukenndan leik. Staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu gekk allt upp hjá BF í upphafi hrinunnar og komst liðið í 9-2 og tóku þreyttir HKarlar leikhlé. BF komst í 12-2 en þá tóku HKarlar við sér og náðu nokkrum stigum til baka og breyttu stöðunni í 14-6. BF komst í 17-6 og 18-11 en hér hafði HKarlar skoraði 4 stig í röð og voru komnir í gang aftur. BF færðist nær sigrinum og komst í 20-11 en HKarlar minnkuðu muninn í 20-13 og 22-17. BF var við það að sigra í stöðunni 24-17 en gestirnir settu spennu í leikinn og léku vel á meðan BF gerði ódýr mistök og minnkuðu muninn í 24-21. BF áttu þó lokastigið og kláruðu leikinn 25-21 og sigruðu leikinn sanngjarn 3-0.

Spilið var að ganga betur í þessum leik og var uppspilið vel yfir netinu í góðum boga svo smassarar höfðu betri tíma til að klára sóknina vel í flest skiptin. Enn er hægt að bæta leikinn og minnka mistökin. Fyrsti sigurinn í fjórum tilraunum hjá karlaliði BF í haust og var vel fagnað í leikslok.

Kvennalið BF keppti við Aftureldingu X í blaki

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Aftureldingu X sem er nýsamsett lið í Benecta deildinni og hefur leikið tvo leiki og unnið báða. Mikil gróska er í blakinu í Mosfellsbæ og er félagið einnig með liðið Afturelding B í sömu deild. BF hafði tapað síðustu tveimur leikjum og ætluðu sér að sækja sigur í þessum leik.

Stelpurnar í BF mættu ákveðnar til leiks í fyrstu hrinu og voru með yfirhöndina alla hrinuna og náðu á köflum ágætis forskoti. Þær komust í 6-2, 9-5 og 15-9 en þá tóku gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að skora og komust í 17-10 og 19-13. Afturelding saxaði aðeins niður forskotið og gerðu sig líklega til að komast inn í leikinn og var staðan orðin 20-19 eftir góðan kafla hjá þeim og fjögur stig í röð. Lokamínúturnar voru æsispennandi og var leikurinn jafn í 22-22 en BF skoraði síðustu þrjú stigin og unnu 25-22 og voru komnar í 1-0.

Önnur hrina var frekar köflótt og skiptust liðin á að eiga góða leikkafla en Afturelding var heilt yfir sterkari í þessari hrinu og leiddu oft með miklum mun. Afturelding komst í 5-9 og 8-14 og tók þá þjálfari BF leikhlé. Gestirnir héldu áfram að skora og komust í 10-19 og 13-20. Í stöðunni 14-23 leit allt út fyrir að gestirnir myndu klára hrinuna með öruggri forystu en BF stelpurnar komu til baka og minnkuðu muninn í 20-23 með sex stigum í röð og settu spennu í leikinn aftur. BF komst í 22-24 en Afturelding náði lokastiginu og vann hrinuna 22-25 og jafnaði leikinn 1-1.

Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi en Afturelding leiddi þó hrinuna að mestu leiti.  Gestirnir komust í 3-6 og 8-10 en BF jafnaði 13-13. Aftur var jafnt í 16-16 og 19-19 og var eyddi BF mikilli orku í að vinna upp muninn. Áfram var jafnt og spennandi á lokamínútum hrinunnar og var staðan 20-20 og 22-22. Ekkert leikhlé var tekið á lokakaflanum og skoraði Afturelding síðustu þrjú stigin og vann hrinuna 22-25 og komst í 1-2.

BF stelpurnar komu aftur ákveðnar til leiks og leiddu í upphafi hrinunnar 6-2, 8-3 og 10-6. Afturelding komst jafnt og þétt inn í leikinn og náðu undirtökunum eftir þetta. Þær jöfnuðu loks leikinn 11-11 og sigu framúr og náðu öruggri forystu. Í stöðunni 13-17 tók þjálfari BF loks leikhlé til að koma upplýsingum til leikmanna. Afturelding herti tökin og allt virtist ganga upp hjá þeim og þær komust í 14-20 og aftur tók BF leikhlé. Afturelding var mun betra liðið á lokakaflanum og unnu hrinuna örugglega 16-25 og leikinn þar með 1-3.

Það vantaði bara herslu muninn í þessum leik að BF fengi fleiri sigraðar hrinur. Nýr þjálfari er enn að fínpússa liðið saman og koma með sínar áherslur inn á völlinn.

Laust starf skjalastjóra hjá Fjallabyggð

Fjallabyggð óskar eftir að ráða til sín skjalastjóra í tímabundna afleysingu. Um er að ræða 50% hlutastarf. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst en gert er ráð fyrir afleysingu til 31.12.2020. Umsóknarfrestur er til og með 28. október nk.

Skjalastjóri hefur umsjón með frágangi skjalasafns og eftirfylgni með skjalaskráningu. Ábyrgð og umsjón með þróun skjalastefnu og verklags við skjalastjórnun.  Almenn skrifstofustörf og þjónusta við stjórnendur og starfsmenn.

Menntunar og hæfniskröfur:

 • Háskólapróf sem nýtist í starfi, t.d. í bókasafns- og upplýsingafræði æskilegt
 • Gott vald á íslensku og ensku í ræðu og riti
 • Þekking og reynsla á skjalastjórn æskileg
 • Góð almenn tölvukunnátta skilyrði
 • Þekking og reynsla á opinberri stjórnsýslu, einkum sveitarfélaga, er æskileg
 • Frumkvæði, metnaður og nákvæmni í starfi
 • Jákvæðni og góðir samstarfshæfileikar

Hægt er að sækja um starfið á vef Fjallabyggðar.

 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, deildarstjóri stjórnsýslu og fjármála í síma 464 9100 eða gudrun@fjallabyggd.is.

Blakveisla í Fjallabyggð og söfnun

Laugardaginn 19. október verður sannkölluð blakveisla í íþróttahúsinu á Siglufirði þar sem tveir leikir fara fram í Benectadeild kvenna og karla. Kvennaleikurinn hefst kl. 14:00 þar sem BF mætir Aftureldingu en karlalið BF spilar kl. 16:00 á móti HKörlum.

Aðgangseyrir á leikina er 1.000.- kr. eða frjáls framlög.
Aðgangseyririnn rennur óskiptur í styrktarsjóð lítils blakvinar sem fæddist með hjartagalla og er nýkominn heim frá Svíþjóð þar sem hann gekkst undir aðgerð.  Fyrir þá sem eiga ekki kost á að mæta í íþróttahúsið er unnt að millifæra inn á reikning BF nr. 0348-13-200210 og kennitala 551079-0159.

Sjoppa á staðnum og áhorfendur ganga inn að sunnanverðu.

Hvetjum alla til að styðja við bakið á Blakfélagi Fjallabyggðar og styrkja í leiðinni gott málefni.

Gáfu listaverkagjöf til Fjallabyggðar

Afkomendur Stefáns Friðbjarnarsonar fyrrum bæjarstjóra Siglufjarðar (1966-1974) færðu Fjallabyggð málverk eftir Herbert Sigfússon að gjöf í minningu föður þeirra.  Málverkið sem málað er árið 1947 er af Siglufirði og prýddi heimili Stefáns og fjölskyldu hans allt til dánardags Stefáns. Eins og fyrr segir eru það börn Stefáns, þau Sigmundur, Kjartan og Sigríður sem eru gefendur málverksins en hjónin Kjartan Stefánsson og Guðrún K. Sigurðardóttir afhentu gjöfina til Fjallabyggðar.

Við gjöfinni tóku Gunnar Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar,  Ríkey Sigurbjörndóttir deildarstjóri fræðslu-, frístunda og menningarmála og Ægir Bergsson varaformaður markaðs- og menningarnefndar .

Heimild: Fjallabyggð.is

Myndir með frétt: Fjallabyggð.is

Umræða um framtíð Upplýsingamiðstöðva Ferðamála

Stjórn Akureyrarstofu fundaði í síðustu viku og ræddu stöðu Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri. Nokkur umræða fer nú fram um rekstur upplýsingamiðstöða og hefur Ferðamálastofa látið að því liggja síðustu ár að hún muni fyrir hönd Ríkisins hætta fjárhagslegum stuðningi við miðstöðvar víðsvegar um landið og taka upp rafræna þjónustu þess í stað. Ekki liggur fyrir hvernig sú þjónusta myndi leysa af hólmi þá þjónustu sem veitt er augliti til auglitis af upplýsingafulltrúum.

Auk þessa hefur verið rætt um mikilvægi þjónustu upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri fyrir farþega skemmtiferðaskipa og mögulega aðkomu Hafnasamlags Norðurlands að rekstrinum.

Ljósmynd: Héðinsfjörður/ Magnús Rúnar Magnússon
Ljósmynd: Héðinsfjörður/ Magnús Rúnar Magnússon
Akureyri
Ljósmynd: Héðinsfjörður/ Magnús Rúnar Magnússon

Hollvinasamtök stofnuð fyrir Dalbæ á 40 ára afmælinu

Um helgina var haldið upp á 40 ára afmæli Dalbæjar í Dalvíkurbyggð en heimilið tók til starfa þann 1. júlí 1979 en var ekki formlega vígt fyrr en 12. janúar 1980. Stofnendur voru Dalvík og Svarfaðardalshreppur, en síðar bættist Árskógshreppur við. Þessum áfanga var því fagnað með hátíðarhöldum fyrir heimilisfólk, starfsmenn og góða gesti.

Við þetta tilefni voru svo kynnt til sögunnar Hollvinasamtök Dalbæjar en tilgangur þessara nýju samtaka er að styðja við Dvalarheimilið Dalbæ með framlögum til tækjakaupa og ýmiss konar búnaðar. Framlögum í félagið er safnað með félagsgjöldum félagsmanna og er árgjaldið 5.000 kr.  Skráning í félagið er á vefsíðu sem stofnuð var í tilefni afmælis Dalbæjar og stofnun Hollvinasamtakanna, www.dalbaer.is

Með stofnun samtakanna er vonast til að hægt verði að stuðla að bættari aðstöðu bæði heimilisfólk og starfsfólks. Vonast er til að sem flestir sjái sér kost á gerast félagar í samtökunum svo að sem flestir geti hjálpast að við að ná settu markmiði. Margar hendur vinna létt verk og margt smátt gerir eitt stórt.

Heimilið er sjálfseignastofnun og er rekið á daggjöldum frá Sjúkratryggingum Íslands. Dalbær hefur einnig sótt styrki til Dalvíkurbyggðar og fengið úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna framkvæmda við húsnæði.

Fyrst var Dalbær eingöngu dvalarheimili, en í maí 1985 fékkst leyfi til reksturs hjúkrunardeildar. Í dag eru 26 hjúkrunarrými, 11 dvalarrými og eitt rými fyrir skammtímainnlagnir, tveir aðilar leigja út herbergi og þá má segja að það búi 40 manns á heimilinu. Að auki hefur heimilið 14 dagdvalarrými. Einnig er félagsstarf fyrir aldraða og öryrkja í Dalvíkurbyggð rekið á Dalbæ yfir vetrartímann. Í dag eru 59 starfsmenn á Dalbæ í u.þ.b. 36 stöðugildum.

Í stjórn samtakanna eru:

Rúna Kristín Sigurðardóttir – formaður
Júlíus Júlíusson – varaformaður
Dagbjört Sigurpálsdóttir – ritari
Kristín Svava Stefánsdóttir – gjaldkeri

Aðrir meðstjórnendur eru:
Arnar Símonarson
Eva Björg Guðmundsdóttir
Helga Mattína Björnsdóttir
séra Oddur Bjarni Þorkelsson
Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson

Mynd: Dalbær.is

Lengdur opnunartími sundlauga í Fjallabyggð

Sundlaugar í Fjallabyggð verða framvegis með lengdan opnunartíma á þriðjudögum og fimmtudögum. Þessa daga verður opið til klukkan 20:30 á Siglufirði og til 20:00 í Ólafsfirði. Breytingin tekur gildi þriðjudaginn 15. október næstkomandi.

Opnunartíminn verður lengdur til reynslu þar til annað verður ákveðið.

Sundlaugin í Ólafsfirði. Ljósmynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon

Gamla bankaútibúið í Ólafsfirði kostar aðeins 55 milljónir

Aðalgata 14 í Ólafsfirði, þar sem Sparisjóður Ólafsfjarðar og síðar Arion banki voru til húsa hefur verið auglýst til sölu í nokkrun tíma. Fyrst var aðeins óskað eftir tilboði í eignina en í dag er verðmiðinn aðeins 55 milljónir króna. Húsið er 792,5 fm á stærð, með kjallara, hæð, 2. hæð og risþaki. Húsið var byggt árið 1982 og stendur á frábærum stað í Ólafsfirði. Lyfta er húsinu sem eykur möguleika á notkun þess.

Margir hafa beðið eftir að sveitarfélagið Fjallabyggð myndi kaupa húsið og nota fyrir bókasafn, upplýsingamiðstöð eða annað.