Category Archives: Norðurland

Dalvík/Reynir vann stórsigur á Leikni

Dalvík/Reynir og Leiknir F. mættust í Lengjubikarnum í dag í Boganum á Akureyri. Bæði lið höfðu leikið einn leik í riðlinum fyrir þennan leik og var Leiknir með 1 stig en Dalvík 0 stig.

Á 21. varð Leiknir fyrir því óláni að skora sjálfsmark og komst Dalvík því yfir 1-0. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Númi Kárason sitt fyrsta mark og kom Dalvík í 2-0. Pálmi Birgisson kom svo Dalvík í 3-0 á 27. mínútu og var staðan því 3-0 í hálfleik. Númi Kárason skoraði sitt annað mark á 51. mínútu og var nú staðan orðin 4-0. Povilas Krasnovskis skoraði svo mark úr víti fyrir Leikni á 63. mínútu og minnkaði muninn í 4-1. Númi skoraði fjórum mínútum síðar sitt þriðja mark og breytti stöðunni í 5-1 og var svo fljótlega skipt út af eftir markið. Dalvíkingar voru ekki hættir, á 69. mínútu skoraði Pálmi sitt annað mark og staðan orðin 6-1. Jóhann Heiðar innsiglaði svo stórsigur Dalvíkur á 78. mínútu, staðan orðin 7-1 en fleiri urðu mörkin ekki. Frábær leikur hjá Dalvík/Reyni í dag.

BF konur sigruðu Álftanes eftir að hafa lent undir 0-2

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við lið Álftanes 2 í Benectadeildinni í blaki í dag á Siglufirði. Liðin eru bæði í neðri helmingi deildarinnar og því hvert stig dýrmætt. Lið Álftanes mætti með engan varamann og það átti eftir að setja mark sitt á leik þeirra í síðustu hrinum leiksins.

Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur og unnu fyrstu hrinuna nokkuð örugglega 16-25.  Meira jafnræði var með liðunum í annari hrinu en þá byrjaði BF betur og komst 6-1 og tóku þá gestirnir strax leikhlé BF náði áfram góðu forskoti og komst í 16-9 og aftur tóku gestirnir leikhlé.  Gestirnir komu sterkar til baka og minnkuðu muninn jafnt og þétt og jöfnuðu leikinn í 18-18. BF komst yfir 22-19 en gestirnir skoruðu fimm stig í röð og voru sterkari í lok hrinunnar, staðan orðin 22-24 og mikil spenna. BF náði einu stigi til viðbótar en Álftanes vann 23-25 og voru komnar í 0-2.

Nú var að duga eða drepast fyrir BF stelpurnar í þriðju hrinunni. Jafnræði var með liðunum í upphafi hrinunar og náði hvorugu liðinu að ná upp forskoti.  Í stöðunni 12-13 er vendipunktur í leiknum þegar leikmaður Álftanes meiðist á kálfa, eða reif vöðva í kálfanum og tóku þær tvöfalt leikhlé á þessum tímapunkti. BF náði að leiða með 2-3 stigum eftir leikhléð og voru sterkara liðið út hrinuna.  Þær unnu svo hrinuna 25-20 og minnkuðu muninn í 1-2.

Í fjórðu hrinu reyndu Álftanes stelpur að spila áfram þrátt fyrir að vera með meiðsli en það gekk ekki eftir og vann BF sigur 25-8 og staðan orðin 2-2. Í lokahrinunni var aftur reynt að byrja og nú tóku gestirnir strax leikhlé áður en stelpurnar voru komnar inn á völlinn, en spiluðu svo í nokkrar mínútur en ein þeirra var bara haltrandi og náði ekki að beita sér. Leiknum var samt hætt vegna slæms mígrenis hjá öðrum leikmanni Álftanes.  Leiknum var því hætt og sigraði BF hrinuna 25-0 og leikinn 3-2.

Flottur endurkomusigur hjá BF stelpunum í dag. Þær unnu fjóra leiki af 12 og enda með ellefu stig í töflunni. Liðin í kring eiga eftir að leika 1-2 leiki svo lokastaðan er ekki ljós á þessari stundu.

BF tryggði sér 2. sætið með góðum sigri

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék síðasta mótsleikinn í Benectadeildinni í dag gegn HK-B. Með sigri hefði HK getað tryggt sér 2. sætið en heimamenn voru ekkert með nein plön um annað en að klára leikinn.

Fyrsta hrina var æsispennandi í lokin, en það var BF sem byrjaði hrinuna af krafti og leiddu nánast alveg til enda. BF komst í 4-0 og 10-6 en HK jafnaði metin 12-12 og virtust alltaf koma til baka þegar BF náði góðu forskoti. BF komst í 18-14 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að halda góðu forskoti og allt leit út fyrir sigur í hrinunni í stöðunni  22-17 en HK minnkaði óðum muninn og í stöðunni 23-21 tóku heimamenn leikhlé. HK skoraði næsta stig, staðan 23-22 og BF tók annað leikhlé. Aftur skoraði HK og jöfnuðu 23-23, 24-24 og komust svo yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 24-25. Hér var mikil spenna í leiknum og nú mátti ekkert klikka hjá heimamönnum. BF jafnaði 25-25 og komst yfir 26-25 og nú tóku gestirnir leikhlé. Heimamenn áttu síðasta stigið og unnu hrinuna 27-25 og voru komnir í 1-0 eftir mikla baráttu.

Í annari hrinu komst HK í 0-2 og var það í eina skiptið sem þeir komust yfir í hrinunni. Jafnræði var fyrstu mínúturnar en þegar leið á hrinuna var BF mun betra liðið og náði góðu forskoti. Jafnt var á tölunum 4-4 og 8-8 en þá náði BF upp góðu forskoti sem HK réð ekki við.  BF komst í 13-9 og 16-11 og tóku þá gestirnir leikhlé. BF hélt áfram að skora og var lítið um varnir hjá HK, staðan var 20-11 og 21-13. HK náði nú ágætis kafla og minnkaði muninn í 22-15 og 22-17. BF kláraði svo hrinuna 25-17 og voru komnir í 2-0.

BF menn voru svo seinir í gang í þriðju hrinu og HK sýndi klærnar. Þeir komust í 2-5 og nú tók BF strax leikhlé. Hlutirnir gengu vel hjá HK og þeir komust í 3-8 og 6-10 en nú vaknaði BF vélin til lífsins og stigin komu á færibandi. BF skoraði nú fimm stig í röð og komust yfir 11-10, en HK svaraði um hæl með fjórum stigum og komust í 11-14 og nú tóku heimamenn hlé til að undirbúa lokaorustuna. BF skoraði nú þrjú í röð og jöfnuðu 14-14 og komust í 20-17 og nú tóku gestirnir leikhlé.  HK minnkaði muninn í 22-19 en lengra náðu þeir ekki, BF skoraði síðustu þrjú stigin og unnu 25-19 og leikinn 3-0.

Frábær úrslit hjá BF sem enda mótið í 2. sæti og geta þeir verið sáttir og stoltir af árangrinum í vetur. BF vann 10 leiki af 14 og enda með 32 stig. Liðið fékk afhentar silfurmedalíur í lok leiks.

KF mætir Víði

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar leikur við Víði úr Garði í Lengjubikarnum, á morgun, sunnudaginn 10. mars. Leikurinn fer fram í Boganum á Akureyri og hefst kl. 17:00. KF hefur leikið einn leik í riðlinum en liðið sigraði Skallagrím 2-0.  Leikið verður þétt í marsmánuði og er fólk hvatt til að fylgja liðinu og mæta á völlinn. Nánar verður greint frá úrslitum leiksins þegar þau liggja fyrir hér á vefnum.

Tveir blakleikir á Siglufirði um helgina

Síðustu leikir karla- og kvennaliðs Blakfélags Fjallabyggðar í Benectadeildunum á tímabilinu eru í dag í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Nánar verður greint frá úrslitum leikjana hér á vefnum síðar í dag.
Karlamegin mætir HK B í heimsókn en með sigri tryggir BF sér annað sætið í deildinni en HK B getur tekið það sæti af heimamönnum. Því má búast við hörkuleik.

Dömurnar mæta Álftanes B og BF þarf helst sigur til að tryggja veru sína í deildinni fyrir næsta tímabil. Liðin mættust fyrir stuttu síðan og þá sigraði BF í æsispennandi fimm hrinu leik.
Karlaleikurinn hefst kl. 13:00 og kvennaleikurinn kl. 15:00.

Áhorfendur koma inn að sunnanverðu og það er sjoppa á staðnum. Fólk er hvatt til að fjölmenna á völlinn og hvetja liðin áfram.

Jónsmót haldið á Dalvík

Skíðafélag Dalvíkur stendur fyrir árlegu Jónsmóti til minningar um Jón Bjarnason, einn af stofnendum félagsins.  Mótið hófst í gær og lýkur keppni í dag. Keppt verður í stórsvigi, svigi, 25 m og 50 m bringusundi.

Í fyrsta sinn er keppt um Jóhannsbikarinn á Jónsmótinu, en það er Jákvæðnisbikarinn.  Jóhann var bróðir Jóns og var hann einnig einn af stofnendum Skíðafélags Dalvíkur.

Jákvæðnisbikarinn verður veittur til þess félags sem almennt sýnir mikla jákvæðni og hefur gaman af mótinu, bæði börn og fullorðnir.

No photo description available.

Keilir opnar starfsstöð fyrir flugnám á Sauðárkróki

Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir nemendur í verklegu atvinnuflugnámi á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki. Bæði nemendur og kennarar sem hafa undanfarið verið staðsettir á Sauðárkróki eru yfir sig ánægðir með bæði innviði og aðstöðu til flugnáms í Skagafirði, en þar eru kjöraðstæður til verklegrar flugkennslu. Reiknað er með að um tuttugu nemendur og 2-3 kennsluvélar verði að jafnaði á flugvellinum allt árið umkring. – Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra greinir frá þessu.

Mikill áhugi er á atvinnuflugnámi hérlendis, bæði meðal Íslendinga og erlendra nemenda, og hefur Flugakademía Keilis vaxið hratt á undanförnum árum. Þannig tvöfaldaðist fjöldi kennsluvéla við skólann á árunum 2014 – 2018, úr sjö í fjórtán flugvélar, og fjölgaði atvinnuflugnemum í á þriðja hundrað.  Eftir kaup Keilis á Flugskóla Íslands fyrr á árinu er fjöldi kennsluvéla orðinn yfir tuttugu og skólinn orðinn einn stærsti flugskóli á Norðurlöndunum.

Ísland er einstakt á heimsvísu til flugnáms

Ólíkt flestum öðrum löndum þar sem boðið er upp á flugnám, eru litlar sem engar takmarkanir á Íslandi þegar kemur að flugi kennsluvéla. Þannig geta nemendur til að mynda tekið á loft á alþjóðaflugvellinum í Keflavík, æft snertilendingar í Vestmannaeyjum og farið í aðflug á Ísafjarðarflugvelli. Krefjandi aðstæður, fjölbreytt landslag og fjöldi mismunandi flugvalla á landinu, gera þannig Ísland einstakt á heimsvísu til kennslu og verklegrar þjálfunar atvinnuflugnema.

Víða um land má finna vannýtta flugvelli sem henta vel til flugnáms, þar sem innviðir og umgjörð bjóða upp á kjöraðstæður til flugnáms. Með auknum fjölda kennsluvéla hefur Keilir fengið tækifæri á að auka við starfsstöðvar skólans.  Megin starfsemi Flugakademíunnar, bæði bóklegt og verklegt nám, mun eftir sem áður fara fram á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli. En með aukinni áherslu á nýtingu flugvalla á landsbyggðinni vill skólinn tryggja enn betri aðgengi nemenda að verklegri þjálfun.

Samstarf við FNV

Flugakademía Keilis og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra undirrituðu samstarfssamning varðandi þjónustu við flugnema á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók, fimmtudaginn 7. mars síðastliðinn. Með samstarfinu fá nemendur aðgang að fullkominni námsaðstöðu skólans og hýsingu á heimavist FNV á meðan þeir stunda nám sitt fyrir norðan. Þá munu skólarnir skoða enn nánara samstarf í framtíðinni meðal annars með möguleika á flugtengdu námi til stúdentsprófs og fjarnámsaðstöðu fyrir nemendur sem leggja stund á bóklegar greinar atvinnuflugnámsins í fjarnámi.

Vilja stofna Íþrótta- og leikjaskóla í Dalvíkurbyggð

Knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis hefur lagt til við Dalvíkurbyggð að stofnaður verði Íþrótta- og leikjaskóli Dalvíkurbyggðar Við gerð fyrirkomulagsins voru íþrótta- og leikjaskólar hjá KA og Þór hafðir að leiðarljósi.  Knattspyrnudeild Dalvíkur/Reynis myndi reka skólann og er lagt til að Dalvíkurbyggð standi straum að launakostnaði starfsmanna og útvegi aðgang að aðstöðu sveitarfélagsins og aðstoð fengist frá vinnuskóla.
Erindið var tekið fyrir á fundi Íþrótta- og æskulýðsráðs Dalvíkurbyggðar í vikunni og var vel tekið í hugmyndina. Hinsvegar er ekki gert ráð fyrir fjármagni á árinu 2019 í slíkt verkefni. Mikilvægt er að stór verkefni sem þarfnast fjármagns komi til ráðsins að hausti áður en vinna við fjárhagsáætlun hefst.
Erindinu hefur því verið vísað til fjárhagsáætlunar 2020 næsta haust.

Fjallabyggð tekur yfir götulýsingarkerfi frá Rarik

Gunnari Birgissyni bæjarstjóra Fjallabyggðar hefur verið falið að undirrita samning um yfirtöku á götulýsingarkerfi til eignar í sveitarfélaginu Fjallabyggð.

Með samningnum mun Fjallabyggð eignast götulýsingarkerfi RARIK í sveitarfélaginu, í því ástandi sem það er við undirritun samnings.  Sambærilegir samningar hafa verið gerðir í öðrum sveitarfélögum eins og Fjarðarbyggð.

Þá hefur Fjallabyggð heimilað að gera lokaða verðkönnun vegna endurnýjunar á götulýsingu.

Eftirfarandi birgjum yrði gefinn kostur á að bjóða í verkið:

Johan Rönning hf
Reykjafell hf
O. Johnson & Kaaber hf
S. Guðjónsson hf
Ískraft hf
Smith & Norland hf
Fálkinn
Jóhann Ólafsson hf
Rafmiðlun hf.

Ljósmyndir með frétt: Vigdís Sverrisdóttir.

Image may contain: sky, cloud, mountain, outdoor and nature

Image may contain: sky, cloud, snow, outdoor and nature

 

Opinn kynningarfundur á atvinnuflugnámsnámi á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki

Vegna aukinna umsvifa Flugakademíu Keilis í Skagafirði, verður opinn kynningarfundur á atvinnuflugmannsnámi á Alexandersflugvelli á Sauðárkróki, fimmtudaginn 7. mars kl. 12 – 13. Þá verður einnig skrifað undir samstarfssamning við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra vegna flugnema skólans.

Kjörið tækifæri fyrir áhugasama að kynna sér flugnám í fremstu röð í einum stærsta flugskóla Norðurlanda. Þá verður möguleiki á að skoða flugvélakost skólans. Allir velkomnir.

Fjölskyldufjör í vetrarfríinu í Skagafirði hjá Byggðasafni Skagfirðinga

Fimmtudaginn 7. mars verður fjölskyldufjör hjá Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ, í tilefni af vetrarfríi Grunnskólanna í Skagafirði. Farið verður í ratleik um safnasvæðið, völuspá verður í gamla bænum og sýndarveruleikasýningin „Menning, tunga og tímagöng til 1918“ verður í Gilsstofu.  Dagskráin verður frá kl. 14-16. Frítt verður á safnið fyrir fullorðna í fylgd með börnum.

Í sýndarveruleikasýningunni gefst gestum kostur á því að skyggnast inn í íslenskan veruleika ársins 1918 með aðstoð 360° sýndarveruleikagleraugna og fræðast á lifandi hátt um samgöngur, verslun og viðskipti, um landbúnað og sjósókn en einnig um torfbæina, sem voru bæði heimili og vinnustaður fólks árið 1918.  Sýninguna vann Árni Gunnarsson kvikmyndagerðarmaður hjá Skotta Film.

Klukkan 14:30 verður hægt að taka þátt í skemmtilegum og fróðlegum ratleik fyrir fjölskylduna sem leiðir gesti safnsins um safnasvæðið. Þá verður einnig völuspá í gamla bænum.

Í Áskaffi verður hægt að fá rjúkandi heitt súkkulaði og pönnuköku á tilboðsverði, á 500 krónur.

Heimild: skagafjordur.is

Ólafsfjarðarmót í stórsvigi í Tindaöxl

Miðvikudaginn 6. mars verður Stórsvigsæfing hjá alpagreinakrökkum og skaut hjá göngukrökkum á Skíðasvæðinu í Tindaöxl í Ólafsfirði. Kvöldið verður endað með Ólafsfjarðarmóti í stórsvigi og kvöldopnun fyrir eldri krakkana.

Dagskrá:

Kl. 17-18
Stórsvigsæfing hjá alpagreinakrökkum og skaut hjá göngukrökkum

Kl. 18-18.30 kvöldmatur – pizzusneiðar til sölu í skála

Kl. 18.30
Sprell hjá göngukrökkum
Ólafsfjarðarmót í stórsvigi, eftir mótið verður kvöldopnun fyrir eldri krakkana.

Öskudagsskemmtun í Ólafsfirði

Skíðafélag Ólafsfjarðar býður uppá öskudagsskemmtun í íþróttahúsinu í Ólafsfirði á öskudag, miðvikudaginn 6. mars kl. 15:15-16:15.  Kötturinn verður sleginn úr tunnunni og þrautabraut verður í boði.  Þetta kemur fram á vef Fjallabyggðar.

Rúta fer frá grunnskólanum á Siglufirði kl. 14:50 og frá grunnskólanum í Ólafsfirði kl. 16:15.

Athugið að í ferðinni frá Ólafsfirði kl. 16:15 er ekki starfsmaður (gæsla).

Allir velkomnir, aðgangur ókeypis.

21 sóttu um stöðu þjónustu- og upplýsingafulltrúa hjá Dalvíkurbyggð

Mikill áhugi var fyrir auglýstri stöðu um starf þjónustu- og upplýsingafulltrúa Dalvíkurbyggðar sem rann út í lok febrúar. Alls bárust 21 umsókn um starfið.

 

Nöfn umsækjenda í stafrófsröð:

Nafn: Starfsheiti:
Anna Gerður Ófeigsdóttir Þjónustufulltrúi einstaklinga
Áslaug Lind Guðmundsdóttir Associate Director
Friðjón Árni Sigurvinsson Ferðamálafræðingur
Glúmur Baldvinsson Stjórnmálafræðingur
Guðmundur Sverrisson Grafískur hönnuður
Gústaf Gústafsson Ráðgjafi
Hallgrímur Sveinn Sævarsson Kennari
Hanna Kristín Gunnarsdóttir Aðstoðar gæðastjóri
Hörður Snævar Jónsson Ritstjóri
Íris Hauksdóttir Viðskiptafræðingur
Jóhann Már Kristinsson Einkaþjálfari
Jóhannes Valgeirsson Framkvæmdastjóri
Kalina Ráðgjafi
Katrín S. Ingvarsdóttir Uppeldis- og menntunarfræðingur, deildarstjóri
Magnús Már Þorvaldsson Fulltrúi hjá Vopnafjarðarhreppi
María Neves Verkefnastjóri
Paula del Olmo Gómez Markaðsfræðingur
Páll Rúnar Pálsson Iðnrekstrarfræðingur
Stefanía Tara Þrastardóttir Förðunarfræðingur
Stefán Friðrik Friðriksson Markaðs- og framleiðslustjóri
Tryggvi Áki Pétursson Viðskipta- og markaðsfræðingur

Afturelding vann BF í kvennablakinu

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og Afturelding (B-lið) mættust á Siglufirði í gær í Benecta deildinni í blaki. Búist var við erfiðum leik fyrir heimastúlkurnar en Afturelding er í efrihluta deildarinnar en BF í neðri hlutanum.

Í fyrstu hrinu var jafnræði með liðunum og hafði BF yfirhöndina í upphafi en Afturelding náði forystu þegar leið á hrinuna. BF komst í 6-3, 9-5 og 12-9 en þá gerði Afturelding þrjú stig í röð og jafnaði í 12-12. BF tók leikhlé í stöðunni 13-13 en þá hafði Afturelding verið að ná undirtökunum í leiknum. Afturelding komst svo yfir 14-18 og aftur tóku heimakonur leikhlé. BF gerði nú þrjú stig í röð og breyttu stöðunni í 17-18 og 18-19 og nú tóku gestirnir leikhlé eftir góðan kafla BF. Mikil barátta var í lok hrinunnar og var staðan jöfn 22-22 en gestirnir skoruðu þrjú síðustu stigin og unnu hrinuna 22-25.

Í annari hrinu byrjaði BF aftur vel og komust þær í 4-1 og 6-3 en kom þá góður kafli gestanna og skoruðu þær fjögur stig í röð og komust yfir 6-7.  Áfram var jafnt á tölum 7-7, 9-9 og 12-12. BF komst yfir 15-14 en þá urðu kaflaskil á leiknum og Afturelding tók algerlega yfir í þessari hrinu  og komust í 15-18 og tóku nú BF stelpur leikhlé. Afturelding skoraði áfram og komst í 16-20 og aftur tóku BF stelpur hlé. Afturelding skoraði nú þrjú stig í röð og breyttu stöðunni í 16-23. Afturelding vann svo hrinuna nokkuð örugglega 17-25 eftir góðan leik seinni partinn á hrinunni og voru komnar í 0-2.

Þriðja hrinan var jöfn og spennandi og endaði í upphækkun.  BF náði að halda um 2 stiga forskoti í upphafi hrinunnar og komst í 7-5 og 8-6. Í stöðunni 12-9 tóku gestirnir leikhlé, en BF átti hérna mjög góðan kafla og komust í 17-10 og aftur tók Afturelding leikhlé. Afturelding kom til baka og minnkaði muninn í 19-16 og nú tóku heimakonur leikhlé. Bæði lið náðu að skora áfram eftir mikla baráttu og í stöðunni 21-19 tók BF sinn seinna leikhlé. BF var hársbreidd að vinna hrinunna en þær komust í 24-20 en hrökk þá Afturelding í gang og jöfnuðu 24-24.  BF voru sterkari í blálokin og unnu sigur í hrinunni eftir mikla baráttu 27-25 og staðan orðin 1-2.

Gestirnir byrjuðu svo af krafti í fjórðu hrinu og komust í 0-3 en BF konur komust aftur inn í leikinn og jöfnuðu 4-4. Jafnt var á næstu tölum, 7-7, 9-9 og 11-11 og komst Afturelding loks yfir 11-13 og tók þá BF leikhlé. BF komst yfir 15-13 eftir mikla baráttu og nú tóku gestirnir leikhlé. BF komst í 16-14 en Afturelding skoruðu fjögur stig í röð og komust yfir í stöðunni 16-18 og aftur tók BF leikhlé. Afturelding komst í 18-22 og 21-23 og tóku gestirnir sitt síðasta leikhlé. Afturelding átti lokaorðið og unnu hrinuna 21-25 og leikinn 1-4.

 

Samkomulag um byggingu hjúkrunarheimilis á Húsavík

Heilbrigðisráðuneytið og sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit munu standa saman að byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis á Húsavík sem áætlað að verði tekið í notkun á vormánuðum ársins 2021. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings hafa undirritað samning þessa efnis.

Nýja hjúkrunarheimilið mun leysa af hólmi dvalar- og hjúkrunarheimilið Hvamm á Húsavík en húsnæðið þess er orðið gamalt og uppfyllir ekki nútímakröfur hvað varðar skipulag og aðbúnað íbúa.  Heimilið verður reist á lóð við Skálabrekku 21 á Húsavík. Með tilkomu nýja heimilisins fjölgar hjúkrunarrýmum um sex.

Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er um 2,2 milljarðar króna og mun ríkið greiða 85% kostnaðarins en sveitarfélögin 15%.

Miðað er við að verkleg framkvæmd hefjist í byrjun árs 2020 og að taka megi heimilið í notkun á vormánuðum 2021.

Kristján Þór og Svandís - mynd

Heimild: stjornarrad.is

Snyrtivörur frá Primex tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna

ChitoCare Beauty body tvennan lotion og skrúbbur frá Primex hefur verið tilnefnt til Pure Beauty Awards sem eru alþjóðleg snyrtivöruverðlaun sem afhent verða í Dubai 16. apríl næstkomandi.  ChitoCare Beauty er valið úr úrtaki sem telur 500 snyrtivörur sem flestar eru frá vörumerkjum sem þekkt eru um allan heim.

”ChitoCare Beauty er einstök húðvara sem byggir á íslenskri nýsköpun. Líftæknifyrirtækið Primex hefur þróað þessa húðvöru sem inniheldur virka efnið kítósan sem hefur sterka eiginleika sem stuðla að viðgerð húðarinnar. Þetta er mikill heiður fyrir Primex en líka fyrir íslenska frumkvöðlastarfsemi.” – Segir Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir forstjóri Primex.

Primex er sjávarlíftæknifyrirtæki, stofnað á Siglufirði árið 1999 með hugmyndinni um að framleiða neysluvörur úr afurðum úr rækjuskel, sk. kítín og kítósan, en rannsóknir hafa sýnt að þau efni hafa einstaka virkni fyrir líkamann, s.s. fyrir húðina og meltinguna.
Árið 2012 hlaut Primex Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrir framúrskarandi rannsóknir sínar og vöruþróun á kítín og kítósan.
Undanfarin ár hefur Primex selt vörur til annarra framleiðenda í snyrtivöru- og heilsugeiranum og mun halda því áfram, en er jafnframt að setja á markað eigin vörulínu, undir nöfnunum ChitoClear, ChitoCare, ChitoCare beauty og Liposan Ultra.
ChitoClear og ChitoCare eru græðandi húðvörur, fáanleg bæði fyrir dýr og menn, í gel- og spreyformi. Einstök virkni á opin sár og húðvandamál.
ChitoCare beauty er ný snyrtivörulína þar sem græðandi og mýkjandi áhrif kítósan fá að njóta sín.
Liposan Ultra eru náttúrulegar trefjar sem bindast við umframfitu úr fæðunni í maganum og hafa góð áhrif á meltinguna og kólisterólið í líkamanum. Liposan er fáanlegt með C-vítamíni og króm sem gefur aukna virkni, og bæði í hylkjum og duftformi.

 

 

 

 

 

BF vann frábæran sigur á Aftureldingu

Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Aftureldingu(B-lið) úr Mosfellsbæ í dag í Benectadeildinni í blaki. Afturelding er um miðja deild en liðið vann Völsung á Húsavík í gær 1-3. Leikurinn fór fram á Siglufirði og var ágæt mæting í áhorfendastúkuna.  Afturelding er einnig með lið í Mizuno deildinni en B-liðið þeirra keppir í Benectadeildinni.

Tvær bræður voru að berjast í þessum leik en þeir Patrik og Eduard leika með liði BF og Aftureldingu en voru áður samherjar hjá BF.

Í fyrstu hrinu voru liðin jöfn framan af en BF náði svo góðum kafla um miðja hrinuna og náði góðu forskoti og leiddi út hrinuna. Afturelding komst í 7-10 en þá skoraði BF átta stig í röð og breyttu stöðunni í 15-10.  Afturelding neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn í 17-16 og 20-18. BF var áfram með frumkvæðið og komust í 22-18 en Afturelding minnkaði muninn í 22-20 og tóku heimamenn leikhlé. Afturelding skoraði næstu þrjú stig og voru komnir í vænlega stöðu 22-23 þegar BF tók aftur leikhlé. BF voru sterkari í lokin og skoruðu síðustu þrjú stigin og kláruðu hrinuna 25-23 og komust yfir 1-0.

BF voru með meiri yfirburði í annarri hrinunni og leiddu allan tímann og náðu strax ágætu forskoti. BF komst í 7-2, 9-3 og 13-5. Gestirnir minnkuðu muninn í 15-9 og 18-13 en forskotið var of mikið og komst BF létt í gegnum þessa hrinu og unnu 25-18 og voru komnir í 2-0.

Þriðja hrina var jöfn eins og sú fyrsta og skiptust liðin á að leiða með nokkrum stigum.  Afturelding leiddi fram í miðja hrinu en þá seig BF framúr og náði nokkra stiga forskoti. Í upphafi komst Afturelding í 2-4, 5-8 og 7-10.  BF komu nú sterkir til baka og skoruðu 5 stig í röð og komust yfir 12-10.  BF hélt þessu forskoti áfram en aftur var jafnt í 17-17 og skoraði nú BF fjögur stig í röð og komust í 21-17.  Gestirnir minnkuðu muninn í 22-20 og 24-22 en BF voru sterkari í blálokin og unnu 25-22 og sannfærandi 3-0 sigur á góðu liði Aftureldingar.

Það vakti athygli að lið Aftureldingar tók ekkert leikhlé í leiknum þrátt fyrir góða kafla hjá BF sem hefði verið upplagt að brjóta upp með pásu. En mögulega lá þeim bara á að komast í flug eða rútu? Hver veit. Frábær sigur hjá heimamönnum í dag sem eru í 2. sæti með 9 sigra í 13 leikjum.

Mikilvægur sigur BF á Þrótti

Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék við Þrótt Reykjavík (B-lið) í Benectadeildinni í blaki í dag á Siglufirði. Leikurinn var mjög mikilvægur fyrir bæði lið en BF var í neðsta sæti fyrir leikinn og Þróttur í næstneðsta sæti. Bæði lið komu ákveðin til leiks og voru Þróttarastelpur heldur sterkari í upphafi fyrstu hrinu. Þróttur komst í 0-2, 2-4 og 3-6 en þá kom góður kafli hjá BF sem skoraði fjögur stig í röð og komst yfir 7-6. Þróttur jafnaði 7-7 en BF skoraði aftur fjögur stig í röð og komust í 11-7 og gerði Þróttur tvær skiptingar. Þróttur átti nú góðan kafla eftir breytingar á liðinu og skoraði 5 stig í röð og komust í 11-12 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF stelpur komu ákveðnar í leikinn eftir hlé og jafnt var á tölum 12-12 og 13-13 en skoraði svo BF fjögur stig í röð og komust í 17-13 og 20-16. Spenna var í lok hrinunnar og jafnræði, en staðan var 20-18 og 22-20 og tóku nú BF konur annað leikhlé.  Þróttur jafnaði 22-22 og gerði nú BF skiptingu og skoruðu síðustu þrjú stigin og unnu fyrstu hrinuna eftir mikla baráttu 25-22.

Í annari hrinu var jafnræði milli liðanna fram í miðja hrinu en þá tók BF völdin á vellinum. Jafnt var á tölunum 2-2, 4-4 og 6-6. BF seig svo aðeins framúr og náðu tveggja stiga forystu og var staðan 8-6, 10-8 og 12-10.  BF tók nú forystu og voru sterkari út hrinuna og komust í 16-11 og tóku nú gestirnir leikhlé. Í þessari hrinu skoraði BF 9 stig í röð og lögðu grunninn af sigrinum í hrinunni og komust í 22-11 og aftur tók Þróttur leikhlé. Þróttur náði þremur stigum í viðbót og breyttu stöðunni í 23-14 en BF kláruði hrinunna 25-14 og staðan orðin 2-0.

Í þriðju hrinu komu BF stelpur aftur grimmar til leiks og leiddu alla hrinuna og áttu mjög góða leikkafla í hrinunni. BF komst í 6-2, 8-3 og 11-4 og tóku nú gestirnir leikhlé. BF komst í 14-5 en Þróttarar skoruðu 4 stig í röð og var staðan orðin 14-9.  BF svaraði með sex stigum í röð og aftur tók Þróttur leikhlé. Staðan var sterk fyrir BF í stöðunni 20-9 og 22-12. Þróttarar hleyptu smá spennu í leikinn í lokinn og komust þær í 24-19, en BF var betra liðið og unnu hrinuna 25-19 og leikinn 3-0.

Frábær sigur hjá BF í dag og eru þær nú komnar úr botnsætinu með þessum sigri á Þrótti Reykjavík B.

Ferðaþjónustuaðilar funda í Dalvíkurbyggð

Ferðaþjónustuaðilum í Dalvíkurbyggð er boðið til fundar hjá Atvinnumála- og kynningarráði Dalvíkurbyggðar, miðvikudaginn 6. mars í Upsa á 3. hæð Ráðhússins frá kl 8:15-10:00.

Efni fundarins er að fara yfir stöðu ferðaþjónustu á svæðinu og ræða m.a. verkefni á næstunni og framtíðarhorfur.

Þeir ferðaþjónustuaðilar sem ekki hafa fengið boð og vilja sitja fundinn eru beðnir um að hafa samband við þjónustu- og upplýsingafulltrúa heidrun@dalvikurbyggd.is.

Frá þessu er greint á vef Dalvíkurbyggðar.

Ráðinn í starf sviðsstjóra fræðslu- og menningarmála

Dalvíkurbyggð hefur ráðið Gísla Bjarnason í starf sviðsstjóra fræðslu-og menningarmála hjá sveitarfélaginu. Alls bárust 11 umsóknir um starfið en umsóknarfrestur rann út 11. febrúar sl.  Gísli hóf fyrst störf hjá Dalvíkurbyggð árið 1986 sem leiðbeinandi í Dalvíkurskóla og hefur starfað hjá sveitarfélaginu næstum óslitið síðan utan námsfría. Gísli var síðast skólastjóri Dalvíkurskóla frá árinu 2008 og hefur einnig mikla reynslu sem kennari og stjórnunarstörfum í grunnskóla.

Gísli Bjarnason ráðinn í starf sviðstjóra fræðslu-og menningarmála.

 

Góðgerðarvika félagsmiðstöðvarinnar Neons í Fjallabyggð

Nú líður að hinni árlegu ferð félagsmiðstöðvarinnar Neons á Samfestinginn og Söngkeppni Samfés sem haldin er í Laugardalshöll í Reykjavík. Ferðin er nýtt til hópeflis fyrir unglingana. Farið hefur verið í bíó, skemmtigarð og fleira.  Unglingar í Neon munu ganga í hús í Fjallabyggð og óska eftir stuðningi bæjarbúa til ferðarinnar dagana 13.-15. mars.  Á móti vilja unglingarnir rétta íbúum Fjallabyggðar hjálparhönd og fyrirhuguð er Góðgerðarvika dagana 11.-15. mars.

Í Góðgerðaviku gera unglingarnir í Neon góðverk og kemur ýmislegt til greina svo sem:

  • Setja í poka fyrir fólk í búðinni og bera vörur út í bíl
  • Moka úr tröppum
  • Fara út með hundinn
  • Vaska upp á kaffistofum
  • Þvo glugga
  • Týna rusl i bænum
  • Taka þátt í félagsstarfi eldri borgara
  • Hjálpa til í stofnunum/fyrirtækjum

Fyrirtæki sem þiggja góðverk er frjálst að styrkja unglingana til ferðarinnar.

Allur stuðningur er vel þeginn.

Þau fyrirtæki eða einstaklingar sem vilja þiggja góðverk hafi samband við Halldóru umsjónarmann Neons á netfangið halldora@fjallaskolar.is  sími 848-0167 í síðasta lagi 4. mars nk.

Fyrstur hringir/sendir – fyrstur fær

 

Heimild: fjallabyggd.is

Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis opnuð á Akureyri

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, hafa ákveðið að fjármagna rekstur nýrrar þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri.  Lögreglustjórinn á Akureyri hefur yfirumsjón með verkefninu en aðrir samstarfsaðilar eru Akureyrarkaupstaður, Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Háskólinn á Akureyri, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Samtök um kvennaathvarf, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands.

Þjónustumiðstöðin mun bjóða upp á samhæfða þjónustu og ráðgjöf fyrir fullorðna einstaklinga sem beittir hafa verið ofbeldi af einhverjum toga. Brotaþolum verður gefinn kostur á stuðningi og ráðgjöf í kjölfar ofbeldis, þeim að kostnaðarlausu. Stefnt er að því að þjónustumiðstöðin opni 1. mars næstkomandi. Þjónustumiðstöðin verður samstarfsvettvangur opinberra aðila og frjálsra félagasamtaka sem aðstoða þolendur ofbeldis.

Stuðningur við þjónustumiðstöðina er einn liður í aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem ráðherrar félags- og barnamála, dómsmála, heilbrigðismála og mennta- og menningarmála standa að og er til umfjöllunar á Alþingi.

Þjónustumiðstöðin verður rekin sem tilraunaverkefni til tveggja ára og miðast fjárframlög ráðuneytanna við það. Heildarframlag ríkisins verður samtals 24 milljónir króna.

Vorfundur ferðaþjónustu, menningar, afþreyingar og þjónustuaðila í Fjallabyggð

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar stendur fyrir fundi með ferða-, menningar-, afþreyingar og þjónustuaðilum í Fjallabyggð fimmtudaginn 28. febrúar í Menningarhúsinu Tjarnarborg frá kl. 17:00 – 19:00.  Boðið verður uppá kaffi og léttar veitingar á fundinum.  Fundarstjóri er Ólafur Stefánsson, formaður markaðs- og menningarnefndar Fjallabyggðar.  Allir eru velkomnir á fundinn.

Dagskrá:

Kl. 17:00-17:10 Fundur settur. Linda Lea Bogadóttir, markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar
Kl. 17:10-17:40 Hvernig á að ná árangri í markaðssetningu. Gunnar Thorberg Sigurðsson, eigandi Kapall Markaðsráðgjöf
Kl. 17:40-18:00 Styrkir sem eru í boði hjá Rannís. Andrés Pétursson, verkefnisstjóri hjá Rannís
Kl. 18:00-18:30 Kynningar úr heimabyggð
Kl. 18:30-19:00 Umræður

KF sigraði Skallagrím í Lengjubikar

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Skallagrímur úr Borgarnesi léku í B-deild Lengjubikars í Boganum á Akureyri í dag. Eins og við höfum greint frá þá hefur KF fengið til sín sjö nýja leikmenn sem komu flestir við sögu í þessum leik.

KF gerði fyrsta mark leiksins strax á fjórðu mínútu og var þar að verki Halldór Logi . Aðeins 15 mínútum síðar gerði KF annað mark en það gerði fyrirliðinn Grétar Áki. Staðan 2-0 í upphafi leiks og þannig var staðan einnig í hálfleik.  Halldór Logi fór út af á 37. mínútu og inná kom Sigurður Donys í sínum fyrsta leik fyrir KF. Ekki urðu mörkin fleiri í þessum leik og góður sigur KF í dag og fyrstu þrjú stigin komin í riðlinum.

Næsti leikur KF í Lengjubikarnum er gegn Kára í Akraneshöllinn, sunnudaginn 3. mars.

19% fall og 4% brottfall í MTR

Á fimmtugasta fundi skólanefndar Menntaskólans á Tröllaskaga sem haldinn var um miðjan janúar var farið yfir áhugaverða tölfræði skólans frá haustönn 2018.  Fram kom á fundinum að meðaleinkunn allra námsgreina með
tölueinkunn væri 6,9.  Fall í áföngum skólans var á haustönn 2018 að meðaltali 19% en brottfall var svipað og síðustu annir eða 4%.

Alls útskrifuðust 21 nemandi af haustönn og þá hafa alls 244 nemendur útskrifast frá skólanum frá upphafi.

Efla geðheilbrigðisþjónustu á Norðurlandi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að 630 milljónum króna af fjárlögum ársins verður ráðstafað til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.  Fénu verður varið til að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu annars vegar og til að efla og byggja upp geðheilsuteymi um allt land.  Heilbrigðisstofnun Norðurlands fær úthlutað 50 milljón krónum vegna þessa verkefnis.

Geðheilsuteymin eru hugsuð sem annars stigs heilbrigðisþjónusta og þjónusta þeirra er veitt á grundvelli tilvísana. Þar er mætt vanda fólks þegar hann er flóknari en svo að hægt sé að mæta honum innan heilsugæslunnar.

Áformað er að geðheilsuteymi verði tekin til starfa í öllum heilbrigðisumdæmum fyrir lok þessa árs.