Á fundi sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar í morgun var samþykkt tillaga byggðarráðs Skagafjarðar þess efnis að vegna þeirra raskana sem orðið hafa á þjónustu stofnana sveitarfélagsins vegna COVID-19 veirunnar muni greiðsluhlutdeild einungis ná til þeirrar þjónustu sem raunverulega er nýtt í þjónustu stofnana sveitarfélagsins.
Á þetta við um leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla, frístund, dagdvöl aldraðra og verður innheimta þjónustunnar endurskoðuð í því ljósi.
Skal sú tilhögun hefjast frá og með þeim tíma sem þjónusta var skert vegna COVID-19 veirunnar en um er að ræða tímabundna ákvörðun sem gildir til loka maí nk. Endurskoðun fer fram að teknu tilliti til aðstæðna og verður fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí nk.
Leikskólagjöld vegna apríl verða reikningsfærð eins og venjulega, nema til áframhaldandi raskana komi á leikskólavistun í þeim mánuði vegna Covid-19, en leiðrétting vegna mars verður dregin frá upphæð reikningsins. Vegna leiðréttingarinnar tefst útgáfa reikninganna fram yfir næstu mánaðamót. Reikningar vegna fæðis í Árskóla og Varmahlíðarskóla í mars verða samkvæmt nýtingu. Fæðisreikningar vegna Grunnskólans austan Vatna hafa verið bókaðir og sendir út. Leiðrétting vegna mars mun koma fram á næsta reikningi. Reikningar vegna frístundar og dagdvalar aldraðra vegna mars verða gerðir í samræmi við bókun sveitarstjórnar.
Á fundinum var einnig samþykkt að breyta eindögum samþykktrar gjaldskrár fasteignagjalda á árinu 2020 þannig að eindögum gjalddaga frá 1. apríl til 1. október 2020 verði seinkað um tvo mánuði. Eindagi gjalddaga 1. apríl færist þannig aftur til 30. júní 2020 o.s.frv.
Sveitarstjórn mun í framhaldinu skoða fleiri leiðir til að bregðast við ástandinu, fylgjast með aðgerðum ríkisstjórnar og því hvernig önnur sveitarfélög bregðast við og vera í sambandi við Samband íslenskra sveitarfélaga um nánari útfærslur.
Texti: skagafjordur.is