Blakmótið Sigló Hótel – Benecta mót Blakfélags Fjallabyggðar árið 2017 fer fram í Fjallabyggð um helgina. Mótið er þekkt undir nafninu Siglómótið og hefur farið fram til fjölda ára en með stofnun Blakfélags Fjallabyggðar (BF) síðastliðið vor og styrktarsamning sem félagið var að gera við Sigló Hótel, Genis ehf. og Rauðku ber mótið nafnið Sigló Hótel – Benecta mót BF. Mótið er eitt af fjölmörgum hraðmótum sem blakfélög halda víðsvegar um landið en mótið sem fram fer nú um helgina er stærsta hraðmót vetrarins en 53 blaklið mæta til leiks og verða spilaðir 136 leikir í íþróttahúsunum í Fjallabyggð. Á föstudag hefjast leikir um kl. 19:00 og spilað er fram eftir kvöldi. Á laugardag er svo spilað frá kl. 8:00 og áætlað að leikjum ljúki um kl. 18:00. Á laugardagskvöldinu er lokahóf og verðlaunaafhending í Bátahúsi Síldarminjasafnsins en svo endar mótið á Rauðku þar sem blakarar nærast og dansa fram eftir nótt.