Blakfélag Fjallabyggðar og HK-b mættust á Siglufirði um helgina í 1. deild karla í blaki. BF hafði aðeins unnið einn leik af síðustu 5 leikjum í deildinni og kom sigurleikurinn í byrjun nóvember. HK-b hafði unnið 3 af síðustu 5 leikjum sínum í deildinni og er í toppbaráttunni, en BF er að berjast fyrir veru sinni í deildinni eftir erfiðan vetur.

HK mætti með þunnskipað lið og voru aðeins sex í hópnum og var einnig spilandi þjálfari. HK var með tvo erlenda leikmenn í þessum hópi. Ungu strákarnir í BF eru að fá dýrmætar míntútur í hverjum leik núna og ákveðin kynslóðaskipti að fara af stað enda lykilmenn liðsins farnir að eldast talsvert (nefnum engin nöfn).

HK náði fljótlega yfirhöndinni í fyrstu hrinu og leiddu leikinn. Staðan var 5-5 og tók þá HK-vélin af stað og komust í 6-11, 7-13 og 10-17 en þá tók BF leikhlé. BF minnkaði muninn í 14-18 en HK komst í 18-22 og unnu hrinuna 17-25.

Önnur hrina var betri hjá BF og var jöfn framan af, staðan var 3-3 og 6-7 þegar HK náði góðu forskoti 6-10. BF minnkaði muninn í 11-12 og komust yfir 15-14 eftir mikla baráttu. Liðin skiptust á að skora en BF náði loks að brjóta ísinn og komst í 22-19 og tóku þá gestirnir leikhlé. HK minnkaði muninn í 23-21 og tók nú BF leikhlé enda mikið í húfi á lokamínútum hrinunnar. Jafnt var í 24-24 og fór leikurinn í upphækkun, BF var sterkara í lokin og unnu 26-24 eftir spennandi lokamínútur og jöfnuðu leikinn 1-1.

HK var sterkara liðið í þriðju hrinunni og komst í 1-6 og tóku BF strákarnir leikhlé. BF minnkaði muninn í 6-8 og 10-11. BF jafnaði svo í 13-13 en HK tók öll völd eftir það og komust í 14-18 og 16-23 með góðu spili. BF tók hér leikhlé, en munurinn var of mikill og HK vann 17-25 og voru komnir í 1-2.

HK byrjaði fjórðu hrinuna vel og komust í 0-4 en BF bitu frá sér og minnkuðu muninn í 4-5 og 6-7. HK komst í 9-10 og tók í framhaldinu aftur völdin á leiknum og komust í 9-12 og 13-19 eftir talsverða baráttu við heimamenn. BF tók hér leikhlé og gerði skiptingar á liðinu en komust ekki aftur inn í leikinn og HK vann hrinuna örugglega 14-25 og leikinn 1-3.

BF á nú tvo leiki eftir á Íslandsmótinu og fara þeir fram í marsmánuði og eru báðir leikirnir útileikir.