Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar mætti Aftureldingu-B í 1. deild kvenna, Benectadeildinni í dag á Siglufirði. Afturelding er toppliðið í deildinni, skipað ungum og öflugum stelpum. Afturelding hafði aðeins tapað einum leik en unnið tólf fyrir þennan leik á meðan BF hafði unnið 8 og tapað 7. Búist var við hörkuleik á milli þessara liða en þau mættust í Mosfellsbæ 25. janúar síðastliðinn og vann þá Afturelding 3-1.
Fyrsta hrina var æsispennandi en Afurelding hafði forystuna framan af og náði upp góðu forskoti áður en BF komst betur inn í leikinn. Afturelding komst í 2-6, 4-9 og 6-12. Í stöðunni 9-15 tók BF gott leikhlé og komu sterkari til leiks eftir það. BF skoraði hérna 7 stig í röð og komst yfir í fyrsta sinn í hrinunni, 16-15 og tóku nú gestirnir leikhlé. Lokakaflinn var spennandi og jafn, staðan var 19-19 og 19-22 fyrir Aftureldingu. BF komst aftur inn í leikinn og jafnaði 23-23. Afturelding náði síðustu tveimur stigunum og unnu hrinuna 23-25, og voru komnar í 0-1.
Önnur hrina var kaflaskipt, BF byrjaði vel en Afturelding komst fljótt inn í leikinn og voru sterkari á endasprettinum. BF komst í 5-1 og tóku gestirnir strax leikhlé til að stöðva þessa hrinu. BF komst í 7-4 en þá kom góður kafli hjá Aftureldingu sem skoraði nú 7 stig í röð og komst yfir 7-11 og tók nú þjálfari BF leikhlé. Afturelding hafði yfirhöndina út hrinuna og hleyptu ekki BF nærri sér. Staðan var 10-15, 15-19 og 16-22 en BF náði ekki upp sínu besta spili í lok hrinunnar. Afturelding vann nokkuð örugglega 18-25 og var komið í 0-2.
Þriðja hrina var líka jöfn og spennandi en Afturelding komst í 0-4 en BF jafnaði 5-5 og komst yfir í 8-5. Afturelding skoraði aftur 7 stig í röð og tóku forystuna í stöðunni 8-12. BF náði með góðum sóknum að jafna 13-13 og komst svo yfir 17-15 og tóku gestirnir hérna dýrmætt leikhlé. Afturelding jafnaði 18-18 og komst yfir 19-21. BF minnkaði hérna muninn í eitt stig, en það var ekki nóg, gestirnir tóku síðustu fjögur stigin og unnu hrinuna 20-25.
BF stelpurnar voru óheppnar að fá ekki meira út úr þessum leik eftir mikla baráttu.