Blakfélag Fjallabyggðar hefur skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning við Genís og Sigló hótel.
Genís (Benecta) og Sigló Hótel hafa verið aðalstyrktaraðilar Blakfélags Fjallabyggðar (BF) frá stofnun félagsins. Síðasti samningur rann út í lok árs 2019. Núverandi samningur er til þriggja ára eða til 31. desember 2022.
Samningurinn er Blakfélagi Fjallabyggðar gríðarlega mikilvægur í þeirri uppbyggingu sem félagið er í en árið 2019 stunduðu hátt í 190 iðkendur blak í lengri eða skemmri tíma hjá félaginu, þar af 80 iðkendur 18 ára og yngri.
Samningurinn tengist ýmsum viðburðum sem BF stendur fyrir, eins og Sigló Hótel – Benecta mótið sem fer fram í febrúarlok ár hvert. Einnig tengist samningurinn m.a. Benectamótinu í strandblaki og paramóti Sigló Hótels. Síðast en ekki síst þá tengist þessi samningur Steinöld 2020 sem fram fer í Vestmannaeyjum 30. apríl-02. maí en Blakdeild ÍBV og BF standa saman að mótshaldinu.
Á myndinni eru þau Óskar Þórðarson f.h. BF og Gunnhildur Róbertsdóttir f.h. Benecta (á myndina vantar Kristbjörgu Eddu f.h. Sigló Hótels en hún var fjarverandi).

Mynd frá Blakfélag Fjallabyggðar.
Mynd: BF/ fréttatilkynning