Bjarki Már Árnason hefur skipt yfir í lið KF, Knattspyrnufélag Fjallabyggðar.

Bjarki hefur verið lykilmaður hjá Tindastóli undanfarin ár en hann var í liði ársins í annarri deildinni síðastliðið sumar sem og árið 2009. Einnig þjálfaði hann kvennalið Tindastóls árin 2010-2011. Hann er fæddur árið 1978 og hefur leikið 167 leiki fyrir meistaraflokk og skorað 21 mark. Hann hefur meðal annars leikið í Noregi og fyrir Keflavík.

Þessi 33 ára gamli varnarjaxl hefur ákveðið að breyta til og æfði meðal annars með Magna Grenivík og lék fyrir þá á Norðurlandsmótinu nú fyrir skömmu.

Tindastóll hefur misst fjóra reynda leikmenn frá síðustu leiktíð. Dejan Miljokovic er genginn í raðir Fjarðabyggðar, ekki verður samið aftur við Milan Markovic og Gísli Eyland hefur lagt hanskana á hilluna.

KF hafnaði í sjötta sæti 2. deildarinnar í fyrra en Tindastóll vann deildina og spilar í 1. deild í sumar.

Sjá einnig frétt frá Tindastóli hér.