Blakfélag Fjallabyggðar og Völsungur frá Húsavík mættust í 1. deild kvenna í blaki á Siglufirði í vikunni. BF var að spila sinn annan leik á nýju ári og hefur liðið verið að færast nær toppliðunum.
Bæði lið hafa einn erlendan leikmann í bland við unga og leikreyndari leikmenn. Þjálfari Völsungs er Guðbergur Eyjólfsson – Beggi, fyrrum leikmaður HK, en hann var í gullaldarliði HK á árunum 1995-2000. Hann hefur einnig þjálfað mörg lið í Mizunodeild karla.
Leikurinn fór jafnt af stað en BF seig hægt og örugglega framúr og komst í 9-4 en Völsungur minnkaði muninn í 10-9. BF skoraði þá fimm stig í röð og breyttu stöðunni í 15-9 og tóku gestirnir leikhlé í þessum kafla. Völsungur kom aftur til baka og minnkaði muninn í 17-14, en BF stelpurnar sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 25-17.
Í annari hrinu fór leikurinn aftur jafnt af stað og var jafnt 8-8, en kom þá sterkur kafli hjá BF sem komst í 14-8 og 19-9. Eftirleikurinn var auðveldur og vann BF hrinuna örugglega 25-15.
BF hafði algera yfirburði í þriðju hrinunni og komst í 9-2 og 11-6 og tók þá við frábær kafli hjá BF sem skoraði 9 stig í röð og breytti stöðunni í 20-6. BF kláraði svo hrinuna glæsilega 25-9 og unnu frábæran sigur á Völsungi, 3-0.
BF er núna með 25 stig eftir 14 leiki og á leik í dag gegn Aftureldingu-B í Mosfellsbæ kl. 13:15.