Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar og HK-b mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í gær í Benecta deildinni í blaki. HK vann fyrri leik liðanna í Fagralundi í október og vildu því BF stelpurnar svara fyrir það í þessum leik. HK vann KA-b í síðasta leik 3-2 á meðan BF vann UMFG 3-1. HK mætti með frekar þunnskipað lið í leikinn eins og liðin gera gjarnan á útileikjum langt úti á landi en BF hafði úr breiðum hópi að velja fyrir þennan leik.

Gestirnir byrjuðu óvænt mun betur og komust í 2-8 og tók þá þjálfari BF strax leikhlé og stappaði stálinu í stelpurnar. Þessi stutta pása virkaði mjög vel á BF stelpurnar sem skoruðu 7 stig í röð og jöfnuðu 9-9. Leikurinn var mjög sveiflukenndur á þessum kafla og skoraði HK næstu 8 stigin og komst í 9-16 og aftur tók BF leikhlé. BF náði góðum kafla eftir hlé og minnaði muninn í 16-18 og jöfnuðu 20-20 og var töluverð spenna komin í leikinn á þessu stigi. Í stöðunni 21-22 tóku gestirnir síðustu þrjú stigin og unnu hrinuna 21-25 eftir miklar sveiflur og voru óvænt komnar í 0-1.

Í annarri hrinu voru hlutskiptin ólík, heimaliðið var mun sterkara og eftir að staðan var 2-2 í upphafi þá skoraði BF 10 stig í röð og komst í 12-2 og tóku gestirnir leikhlé á þessum kafla og gerðu skiptingar á liðinu. BF var áfram sterkara liðið og komst í 17-8 og aftur tók HK leikhlé. Gestirnir klóruðu aðeins í bakkann og minnkuðu muninn í 19-15 og tók þá þjálfari BF leikhlé. BF stelpurnar voru mun sterkari á lokakaflanum og unnu hrinuna 25-17 á sannfærandi hátt og jöfnuðu leikinn í 1-1.

Þriðja hrina var lík þeirri annari, BF hafið yfirburði og tóku afgerandi forystu í byrjun og komust í 10-1 og Emil Gunnarsson þjálfari HK tók leikhlé í þessari syrpu BF. Gestirnir komust lítið inn í leikinn á þessum kafla og komst BF í 16-3 þegar HK tók sitt annað leikhlé og gerðu skiptingar. HK minnkaði muninn í 17-8 en BF kláraði hrinuna með öryggi og unnu 25-9. Frábært spil hjá stelpunum og staðan orðin 2-1.

Fjórða hrina var keimlík þeim á undan og hafði BF mikla yfirburði og forystu í hrinunni. BF komst í 9-2 og hafði þá þjálfari HK tekið tvö leikhlé með stuttu millibili. BF komst í 18-5 en HK minnkaði muninn í 19-10 og 22-13, en það kom aldrei spenna í þessa hrinu. BF kláraði leikinn með stæl og unnu hrinuna sannfærandi 25-14 og leikinn 3-1.

BF stelpurnar eru komnar í 5. sæti deildarinnar með 16 stig og eru aðeins nokkrum stigum liðunum á undan sem eiga þó nokkra leiki til góða. Liðið á tvo útileiki í desember gegn UMFG og Afturelding-X.

Mynd: Héðinsfjörður.is/Magnús Rúnar Magnússon