Blakfélag Fjallabyggðar og Hamar í Hveragerði mættust í síðasta deildarleik 1. deildar karla í blaki í dag í Hveragerði. Þróttararnir Jason Ívarsson fyrrum formaður BLÍ og Sævar Már Guðmundsson sá um dómgæslu í þessum leik. BF gat með sigri gulltryggt sig inn í úrslitakeppnina og einnig lyft sér úr neðsta sætinu.

Hamar hafði tapað síðustu þremur leikjum en hafði fengið lengri hvíld en BF sem átti leik í gær.

Fyrsta hrinan var kaflaskipt hjá BF, liðin voru jöfn framan af en heimamenn náðu svo upp ágætu forskoti á BF, sem kom þá til baka í lok hrinunnar. Hamar komst í 7-3 og 9-4 og settu strax tóninn og leiddu nánast alla hrinuna. Hamar var að spila vel og komst í 17-9 og tók þá BF leikhlé til að stilla saman strengi. Hamar komst í 20-15 og BF saxaði jafnt og þétt á forskotið. Hamar komst í 24-18 en með góðu spili tókst BF að minnka muninn í 24-22 og hleypti mikilli spennu í leikinn síðustu mínúturnar. Hamar tók leikhlé og gerðu eina skiptingu og náðu síðasta stiginu og unnu fyrstu hrinuna 25-22 eftir mikla baráttu.

BF byrjaði aðra hrinu með látum og komst í 0-5 en heimamenn jöfnuðu 6-6 og aftur var jafnt 11-11. Liðunum gekk erfiðlega að ná upp miklu forskoti í þessari hrinu og skiptust á að leiða með 1-2 stigum. Hamar komst í 16-12 en BF minnkaði strax muninn 16-15 og aftur var jafnt 18-18 og tók nú Hamar leikhlé. Hamar skoraði næstu tvö stig en BF svaraði strax til baka og var aftur jafnt 20-20 og mikil spenna í leiknum. Jafnt var 22-22 og 23-23, og gerðu nú BF eina skiptingu og kom Daníel Pétur inná fyrir Guðjón. Jafnt var 24-24 og var nú hver misstök dýr. BF náði síðustu tveimur stigunum og vann 24-26 eftir upphækkun, og staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var líka gríðarlega jöfn og spennandi, hvorugu liðinu tókst að ná afgerandi forystu og skiptust á að leiða alla hrinunna.  Jafnt var á tölunum 6-6, 8-8 og 14-14 og tóku þá heimamenn leikhlé. Hamar svaraði strax með tveimur stigum en BF skoraði þá 5 stig í röð og var staðan orðin 16-19 og mikil spenna. BF komst í 18-21 en þá hrökk allt í lás og heimamenn skoruðu 5 stig í röð og komust í 23-18 og tók þá þjálfari BF mikilvægt leikhlé. BF komst í 23-24 og vantaði aðeins þetta eina dýrmæta stig, en Hamar jafnaði og komst yfir 25-24. BF jafnaði aftur 25-25 og tóku leikhlé, og var gríðarleg barátta hérna í lokin. BF gerði aftur eina skiptingu, en Hamar náði síðustu tveimur stigunum og vann hrinuna 27-25 eftir upphækkun og staðan orðin 2-1.

Í fjórðu hrinu var að duga eða drepast fyrir BF, en liðin voru jöfn framan af en BF var sterkara heilt yfir í hrinunni og náði upp góðu forskoti á köflum.  BF komst í 3-6 og 6-8 en Hamar komst aðeins í gang og náðu smá forskoti 12-8 og BF gerði skiptingu þegar Þórarinn kom inná fyrir Marcin. BF náði nú góðum kafla og komust yfir 14-16 og skoruðu 6 stig í röð og tóku nú heimamenn leikhlé og gerðu skiptingu. BF gáfu ekkert eftir og keyrðu áfram og komust í 15-20 og 19-24. Hamar klóraði aðeins í bakkann og gerðu tvö stig, 21-24 en BF náði þessu dýrmæta stigi og unnu hrinuna 21-25 eftir gott leikhlé og skiptingu og jöfnuðu leikinn 2-2.  Allt stefndi í spennandi oddahrinu.

Oddahrinan var jöfn og spennandi en BF komst í 2-5 en Hamar komst yfir 6-5. BF komst í 10-11 og 11-13 og tóku nú heimamenn leikhlé. BF náði tveimur síðustu stigunum og unnu hrinuna 11-15 og leikinn 2-3 eftir gríðarlega baráttu og spennandi hrinur.

BF endar nú með 7 stig í deildinni og í næst neðsta sæti eftir erfiðan vetur. Liðið hefur spilað 12 leiki, unnið þrjá og tapað 9.