Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar keppti við Aftureldingu-B í dag í Varmá í Mosfellsbæ. Afturelding hefur úr mörgum stelpum að velja en félagið hefur lið í Mizunodeild kvenna og tvö lið í Benecta deild kvenna. Flestar stelpurnar eru á aldrinum 17-20 ára hjá Aftureldingu í þessu liði. Liðið er nú þegar komið með ágætis forskot í efsta sætinu og var því búist við erfiðum leik í dag.
BF byrjaði fyrstu hrinu ágætlega en leikurinn átti eftir að vera kaflaskiptur. BF komst í 1-4 en Afturelding tók strax við sér og breytti stöðunni í 6-4 og 11-7. Afturelding áttu svo góða kafla og komst í 16-8 og kom þá frábær kafli hjá BF sem breyttu stöðunni í 17-16. Afturelding komst í 21-17 en gestirnir úr Fjallabyggð gáfust ekki upp og áttu frábæran lokakafla, Afturelding var komið í 23-19 en BF minnkaði muninn í 23-22 og jafnaði 24-24. BF kláraði svo hrinuna sem fór í upphækkun, 24-26 og voru komnar í 0-1.
Önnur hrina var líka frekar kaflaskipt en Afturelding leiddi þó hrinuna og náðu á köflum góðu forskoti. Afturelding komst í 9-4 og tók þá BF leikhlé og komu sterkar til baka og minnkuðu muninn í 10-8. Afturelding komst þá í 19-11, en BF náði að skora fjögur stig í röð og minnka muninn í 19-15. Afturelding var samt sterkara liðið og vann hrinuna 25-18 og var staðan orðin 1-1.
BF byrjaði þriðju hrinuna af krafti en Afturelding komst svo fljótt inn í leikinn og náðu afgerandi forystu. BF komst í 1-6, en jafnt var á tölunum 7-7 og 9-9. Afturelding tók að síga framúr og komst í 17-11 og 21-13. BF náði sér ekki á strik í þessari hrinu og vann Afturelding 25-15.
Fjórða hrinan var líka jöfn og spennandi og skiptust liðin á að leiða. Afturelding komst í 6-3 en þá skoraði BF 5 stig í röð og var staðan orðin 6-8 og skömmu síðar 8-12. Í stöðunni 12-15 tók Afturelding leikhlé og komu þær sterkar til baka eftir það stutta hlé og var staðan fljótlega orðin 18-16. Jafnt var í 19-19 og 21-21 og leikurinn í járnum, en Afturelding voru sterkari síðustu mínúturnar og unnu hrinuna 25-22, og leikinn 3-1.
Frábær barátta hjá BF gegn toppliðinu í deildinni og vantaði herslumuninn að vinna aðra hrinu.