Karlalið Blakfélags Fjallabyggðar og Þróttur Vogum mættust í íþróttahúsinu á Siglufirði í Benecta deildinni í blaki í dag. Búist var við jöfnum leik en liðin mættust í byrjun nóvember á Reykjanesinu og vann BF þar 2-3 í hörku leik.
Þróttarar voru því komnir til að hefna fyrir síðasta leik. Í liðinu eru 12 pólverjar sem spila gott blak og ágætis sóknarbolta. Í lið BF voru komnir aftur Daníel Pétur og Marcin sem lítið hafa spilað með í vetur og munar um minna þegar hópurinn er þunnur að fá reynslu menn inn í liðið.
Leikurinn fór jafnt af stað og í stöðunni 9-10 skoraði Þróttur fjögur stig í röð og tók þá þjálfari BF leikhlé í stöðunni 9-14. Þessi stutta pása virkaði vel og skoraði BF næstu sex stig og komust yfir 15-14. Þróttur skoraði næstu fjögur stig og komst í 15-18, og 18-22, en þá tók þjálfari BF aftur leikhlé. Áætlunin virkaði og skoraði BF næstu fimm stig og voru komnir í vænlega stöðu, 23-22 og vantaði aðeins tvö stig til að loka hrinunni. Gestirnir voru ekkert á því að gefast upp og skoruðu þrjú síðustu stigin og unnu hrinuna 23-25 eftir miklar sveiflur og voru komnir í 0-1.
BF byrjaði með látum í hrinu tvö og komust í 4-0 og tóku gestirnir strax leikhlé. Með góðu spili jafnaði Þróttur leikinn í 8-8 en BF svaraði jafn hraðan og komust yfir 13-9. Aftur var jafnt í 15-15, 19-19 og 21-21 og mikil spenna í lok hrinunnar. BF tók gott leikhlé á þessum tíma og unnu þeir hrinuna 25-23 og jöfnuðu leikinn í 1-1.
Í þriðju hrinu voru gestirnir mun betra liðið og byrjuðu með látum og komust í 1-6, en BF kom þó aðeins til baka og minnkuðu muninn í 8-11 og tóku þá gestirnir leikhlé. Þróttarar spiluðu hrinuna vel og komust í 13-20 og unnu hrinuna með yfirburðum 14-25 og voru komnir yfir 1-2.
Fjórða hrinan byrjaði svipað og sú þriðja, Þróttarar leiddu og höfðu um tíma örugga forystu í stöðunni 0-4, 4-10, 8-15. BF komst aftur inní leikinn með góðu spili og minnkuðu muninn í 17-19. Þróttur skoraði næstu þrjú stig og var staðan því orðin erfið fyrir BF í stöðunni 17-22. BF gerði þó góða atlögu að sigri í hrinunni og skoraði fimm stig í röð og hleyptu spennu í leikinn í stöðunni 22-22. Gestirnir skoruðu þó síðustu þrjú stigin og unnu hrinuna 22-25 og leikinn 1-3.
BF karlaliðið er núna komið í jólafrí frá deildinni og spilar næst við Fylki 11. janúar 2020.