Kvennalið Blakfélags Fjallabyggðar lék gegn Álftanesi 2 í Benectadeildinni í blaki í dag. Fyrir leikinn hafði Álftanes unnið fjóra leiki en BF aðeins einn og var því búist við erfiðum leik fyrir BF konur.

Leikurinn fór í fimm hrinur og tók tæplega 128 mínútur. Eftir að hafa lent undir 2-1 í hrinum þá komu BF konur sterkar til baka og unnu leikinn 2-3 í oddahrinu.

Í fyrstu hrinu byrjuðu BF konur með látum og komust í 0-4 og 1-9 og tóku þá heimakonur leikhlé. BF hélt öruggu forskoti alla hrinuna og voru betra liðið.  BF komst í 4-13, 6-17 og 10-20.  BF konur gáfu ekkert eftir og unnu fyrstu hrinuna örugglega 16-25.

Í annari hrinu var mikið jafnræði með liðunum og tókst hvorugu liðinu að ná góðu forskoti nema í lok hrinunnar. Jafnt var á tölunum 3-3, 5-5 og 10-10. BF komst þá í 11-14 en Álftanes jafnaði 14-14 og áfram var jafnt á öllum tölum, en BF konur tóku leikhlé í stöðunni 19-18. Jafnt var í stöðunni 20-20 en heimakonur voru sterkari á endasprettinum og unnu hrinuna 25-22 og staðan orðin 1-1.

Þriðja hrina var lík hrinu tvö, en liðin voru jöfn fram eftir hrinu en í lokin voru heimakonur aftur sterkari.  Jafnt var á tölum 4-4, 7-7 og 10-10. Eftir að jafnt var 13-13 þá tóku heimakonur að síga framúr og náðu nokkura stiga forskoti og komust í 16-13 þegar BF konur tóku leikhlé.  Áfram skoraði Álftanes og komust þær í 18-13 og tóku BF konur aftur leikhlé. Heimakonur komust í 20-14 en BF sótti að þeim í lokin og minnkuðu muninn í 20-17 og kom smá spenna í lokin.  Álftanes komst í 24-19 en BF minnkaði muninn í 24-22 og aftur tóku heimakonur leikhlé. BF sótti enn að og jöfnuðu 24-24. Heimakonur áttu síðustu tvö stigin og unnu 26-24 og voru komnar í 2-1.

Í fjórðu hrinu skiptust liðin á að ná 2ja til 3ja stiga forskoti.  Álftanes komst í 3-0 en BF jafnaði í 5-5 og komust yfir 5-8 með góðum kafla. Álftanes jafnaði 8-8 og aftur var jafnt 11-11 og 16-16. BF konur tóku nú völdin og komust í 16-20 og tóku nú heimakonur leikhlé. BF komst í 18-23 og aftur tóku heimakonur leikhlé. Heimakonur skoruðu nú fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 22-23 og í millitíðinni tók BF tvö leikhlé. Nú var það BF sem tók tvö síðustu stigin og unnu  22-25 og jöfnuðu leikinn 2-2.

BF konur voru svo sterkari í oddahrinunni og komust í 0-3 en Álftanes jafnaði í 3-3 og skoraði þá BF fjögur stig í röð og breyttu stöðunni í 3-7 og tóku þá heimakonur leikhlé. Bæði lið héldu áfram að skora og í stöðunni 8-10 tóku BF konur leikhlé og aftur í stöðunni 10-12. BF átti síðustu stigin og unnu 10-15 og leikinn 2-3. Frábær endurkoma hjá stelpunum í BF sem unnu sinn annan leik í deildinni.